Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2019

Aðilar, vettvangur og áfram eða enn ...

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

Selar

Í pistli þann 4.2.2019 var rætt um snjóþekju. Í því sambandi var lýst skafrenningi sem skildi eftir sig snjórendur á veginum en autt á milli. Fyrir tilviljun rakst ég á netinu á ræðu frá málþingi á Breiðdalssetri 8. til 9. júní 2013 og í ræðu um allt annað segir Margrét Jónsdóttir:

Eftir konu að vestan er t.d. haft:

Fyrir vestan voru það kallaðir selar, þegar skóf þvert á veg og mynduðust litlir skaflar. Mér hefur vel dottið í hug, að þetta sé hljóðvilla fyrir silar, því að hún var þarna til.

Þetta er fróðlegt. Samkvæmt orðabók merki sögnin að selaskamma eða hrakyrða, en silar finnst ekki.


1.

„Fyrstu aðilar á vett­vang notuðu duft slökkvi­tæki sem slógu veru­lega á eld­inn en eft­ir að dælu­bif­reið kom á vett­vang gekk slökkvistarf greiðlega. 

Frétt á mbl.is.      

Athugasemd: Allir eru nú orðnir aðilar sem er ekki alveg samkvæmt merkingu orðsins. Á malid.is segir:

Athuga að ofnota ekki orðið aðili. Fremur: tveir voru í bílnum, síður: „tveir aðilar voru í bílnum“. Fremur: sá sem rekur verslunina, síður: „rekstraraðili verslunarinnar“.

Oft eru til góð og gegn orð í málinu sem fara mun betur en ýmsar samsetningar með orðinu aðili. 

Í fréttinni er aðili ekkert annað en maður, kona eða fólk. Notum það frekar heldur en einstaklingur, manneskja eða aðili. Athugið að þrjú síðarnefndu orðin eru að sjálfsögðu góð og gild í réttu samhengi.

Nafnorðið vettvangur er dálítið ofnotað í fjölmiðlum og tengist nær alltaf fréttum um lögreglu. Þar er stofnanamállýskan landlæg og hún smitar blaðamenn um leið og þeir skrifar um lögguna. Svona er nú virðingin mikil fyrir yfirvaldinu.

Stundum er hægt að sleppa orðinu aðilar án þess að merkingin breytist. Held líka að slökkvitækin hafi ekki slegið á eldinn heldur duftið er því var sprautað á hann.

Svo má velta því fyrir sér hvaða not var af „dælubílnum“ ef aungvir voru slökkviliðsmennirnir, en hér er komið út í algjör smáatriði.

Tillaga: Þeir sem komu fyrstir notuðu duftslökkvi­tæki og við það sló veru­lega á eld­inn en eft­ir að dælu­bif­reið kom á vett­vang gekk slökkvistarf greiðlega.

2.

Áfram mælist óróleiki í Öræfajökli. 

Fyrirsögn á blaðsíðu 6 í Morgunblaðinu 5. febrúar 2019.     

Athugasemd: Atviksorðið áfram merkir hreyfingu; halda uppteknum hætti, viðstöðulaust. Sjá umfjöllun um áfram hér.

Jónas Hallgrímsson orti í ljóði sínu Ísland:

Það er svo bágt að standa í stað, því mönnunum munar annaðhvort aftur á bak ellegar nokkuð á leið.

Skáldið freistaðist ekki til að nota atviksorðið áfram enda hefði stíll ljóðsins skaðast verulega:

Það er svo bágt að standa í stað, því mönnunum munar annaðhvort aftur á bak ellegar smávegis áfram.

Nei, svona gera ekki stórskáld og ástæðan er líka sú að stíll er svo óskaplega mikilvægur í öllum tungumálum, ekki aðeins í ljóðum heldur líka í óbundnu máli. Orðin á að velja af kostgæfni, ekki bara vegna þess að þau henti. Þetta mega blaðamenn hafi í huga.

Vel má vera að atviksorðið áfram í fyrirsögninni standi eins og frumlag og það rugli lesandann. Orðalagið hefði má vera svona:

Óróleiki mælist áfram/enn í Öræfajökli.

Þarna er frumlagið komið á „réttan“ stað og ekkert truflar nema orðið áfram sem mætti skipta út fyrir atviksorðið enn.

Ég kemst ekkert lengra með þetta en hvet þá sem vita betur að senda mér athugasemd.

Tillaga: Enn mælist óróleiki Öræfajökli.


VG sér eftir að hafa stutt tillögu um ESB -umsókn

Mín skoðun er sú að það hefði verið betra, að það hafi ekki verið rétt ákvörðun hjá okk­ur, sem þó stóðum að því að fella þá til­lögu, að fella hana.

Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður VG, á þinginu í dag um aðildarumsókn að ESB í júlí 2009.

Þetta er stórmerk yfirlýsing þó nú endurtaki Katrín það sem áður hefur komið fram. Aðildarumsóknin klauf VG í herðar niður, olli jafnvel vinslitum. Gera má ráð fyrir því að yfirlýsingin njóti nú stuðnings meginþorra þingflokksins og flokksins sjálfs. Margt bendir til að flokkurinn hafi verið á móti aðildarumsókninni árið 2009.

Eftir stendur Samfylkingin sem lagði megináherslu í vinstri stjórninni á að koma þjóðinni inn í Evrópusambandið og það án þess að spyrja þjóðina álits. Flokkurinn er enn sömu skoðunar. Viðreisn er við sama heygarðshornið og skiptir engu þó allt virðist í kalda koli í ESB, Evran standi völtum fótum og fjölmörg ríki eigi vegna hennar í efnahagslegum erfiðleikum. 

Sjálfstæðiflokkurinn vildi þjóðaratkvæðagreiðslu áður en þingið samþykkti aðildarumsókn. Þáverandi ríkisstjórnarflokkar, VG og Samfylkingin felldu tillöguna. Hlógu í raun að henni.

Katrín sagði líka þetta á Alþingi í dag og var líklega ekki hlátur í huga:

Það er stór­mál, meiri­hátt­ar mál, að ákveða að fara í slík­ar aðild­ar­viðræður og því vil ég segja hátt­virt­um þing­manni að ég hef sagt það síðan, eft­ir að hafa ígrundað þessi mál og farið yfir þau tölu­vert vel, ekki síst á vett­vangi minn­ar hreyf­ing­ar, að ég myndi telja óráð að ráðast í slíka um­sókn á nýj­an leik án þess að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla.

Aðalatriðið er að um leið og ríki ESB samþykkja aðildarumsókn hefst ferli sem nefnist aðlögunarviðræður, ekki samningaviðræður. Þær felast í því að aðlaga lög og reglur umsóknarríkisins að stjórnarskrá sambandsins, Lissabonsáttmálanum.

Líkur benda til þess að forystumenn VG hafi ekki vitað hvað fólst í aðildarumsókninni. Forystumenn VG héldu að þetta væru samningaviðræður og Samfylkingin gerði ekkert til að leiðrétta misskilninginn. Forysta hennar hló en fékk verðskuldaða útreið í þingkosningunum 2013 og féllu þá helstu ESB-sprautur flokkins af þingi.


mbl.is Hefðu átt að halda þjóðaratkvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ruðningur, spítalar og snjóþekja

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

1.

„Valskonur teknar að ryðja sér til rúms. 

Fyrirsögn á blaðsíðu 3 í íþróttablaði Morgunblaðsins 2.2.2019.     

Athugasemd: Í bókinni Mergurinn málsins segir um orðasambandið að ryðja sér til rúms:

Breiðast út, hljóta almenna viðurkenningu, láta til sín taka … […] Líklegra er þó að líkingin vísi til þess er menn urðu að sanna hreysti sína með því ryðja eða kippa öðrum úr ‚sæti’ til að hljóta viðurkenningu.

Körfuboltakonurnar í Val eru vissulega að ryðja sér til rúms, gera það með því að sigra í fleiri leikjum en áður. Þá komast sumar þeirra í „lið mánaðarins“ hjá Morgunblaðinu en aðrar körfuboltakonur komast ekki að, þeim er rutt út.

Orðalagið er vel til fundið hjá íþróttablaðamanni Moggans.

Við fyrstu sýn mætti halda að Valskonur hafi verið teknar við einhverja ósvinnu, ryðjast óboðnar inn. Svo er nú ekki, en skilji lesandinn ekki mælt mál verður bara að hafa það.

Þrátt fyrir hólið hér fyrir ofan ættu blaðamenn að vera sparir á orðtök og orðasambönd. Best er að skrifa einfalt mál sem allir skilja.

Tillaga: Valskonur ryðja sér til rúms.

2.

„Spítalar í Illinois telja sig hafa tekið við um 220 manns vegna frostbits og ofkælingar síðan á fimmtudag þegar hitastigið fór niður fyrir 34 gráðu frost á mörgum stöðum í Bandaríkjunum. 

Frétt á visir.is.      

Athugasemd: Þetta er illa orðað og illa þýtt því sjúkrahús í Illinois í Bandaríkjunum hafa ekki sjálfstæða hugsun. Heimildin er vefur Indipendent. Þar segir: 

In Illinois alone, hospitals reported more than 220 cases of frostbite and hypothermia since Tuesday, when temperatures plunged to -34C and lower – with a wind chill of -45C or worse in some areas.

Enska orðið „frostbite“ er þarna þýtt sem frostbit. Í gömlu orðabókinni minni (Menningarsjóðs útg.1963) er orðið ekki að finna. Þar er aftur á móti nafnorðið kal og það er þýtt sem skemmd af völdum frosts. Kal er haft um skemmdir á jörðu, túnum sem og á húð. Á hörundi geta orðið til kalsár og sum geta verið svo alvarleg að fjarlægja þurfi útlimi.

Um 220 manns í Illinois hefur kalið, fengið kalsár. Á íslensku er í þessu samhengi ekki talað um frostbit jafnvel þó það kunni að finnast í nýlegum orðabókum og á malid.is.  

Sjúkrahús í Illinois hafa tilkynnt um kal og ofkælingu, á ensku; „reported“. Þau hafa ekki sjálfstæða hugsun og því ekki hægt að segja að þau „telji sig hafa …“.

Orðalagið getur því verið á þann veg að þau tilkynntu um … Svo má hreinlega að sleppa „tilkynningu“ því það liggur í orðunum að samanlagður fjöldi er frá sjúkrahúsunum kominn.

Tillaga: Sjúkrahús í Illinois hafa tekið á móti meira en 220 manns vegna kals og ofkælingar síðan á fimmtudaginn er frostið féll niður fyrir 34 gráður, með vindkælingu var það sums staðar 45 gráður eða meira.

3.

„Snjóþekja á vegum … 

Algengt orðalag á fréttum frá Vegagerðinni.      

Athugasemd: Snjóþekja er gott og gilt orð og merkti (hér er sögnin með vilja höfð í þátíð) yfirleitt nýfallinn snjó sem þekur jörð. Áður fyrr var bara talað um snjó og það án þess að tilgreina þekjuna.

Nú er hins vegar svo komið að orðið snjóþekja hefur útvatnast og merkir nákvæmlega hið sama og áður var haft um fyrirbrigðið, það er snjór, en sjaldnast nýfallinn.

Þó snjóþekja sé sögð á vegum segir það ekki alla söguna. Á þeim kann að vera snjór að hluta og þekjan þar af leiðandi lítil. Lesendur kannast til dæmis við drög sem verða til þegar snjó skefur þvert yfir veg og liggur stundum eins og rendur yfir veg því autt er á milli. Er slíkt „snjóþekja“ eða bara snjór á vegi? Hvorugt segir til um þekjuna. 

Þegar ökumenn hefja ferð sína stað kunna þeir að velta því fyrir sér hvað snjóþekjan á veginum sé. Er hún grámi, hula, föl, gamall snjór sem hefur troðist, grunnur snjór, djúpur snjór, fannir, óruddur vegur og svo framvegis. Þetta segir hins vegar ekkert um þekjuna.

Orð geta tapað merkingu sinni vegna ofnotkunar og ekki síður breyttrar notkunar eða  misnotkunar. Orðið sími var forðum haft um þráð. „Sérstakt“ hafa alltof margir um það sem þeim finnst aldeilis frábært. Hér eru nokkur ofnotuð orð upptalin, meðal þeirra sögnin að labba. Menn labba nú um allar koppagrundir en enginn gengur lengur.

Í ritmálasafni Orðabókar Háskólans eru orð sem safnað hefur verið saman úr prentuðu máli frá árinu 1540 og fram á níunda áratug síðustu aldar. Í safninu eru til rúmleg 610.000 orð, sjá hér. Ugglaust má finna nokkuð mörg til viðbótar. 

Tiltölulega auðvelt er að koma með annað orð þegar snjóþekja er ekki á vegi heldur snjór „með köflum“ (samanber skúrir með köflum). Minnir að hér áður fyrr hafi einfaldlega verið sagt; „víða snjór á vegum“.

Á annað hundrað íslensk orð eru til um vind, sjá hér. Að minnsta kosti 58 orð eru til um snjó eða snjókomu, sjá hér og hér. Við erum því ekki á neinu flæðiskeri stödd.

Í lokin er gullkornið: Einu sinni sagði Mogginn frá fjallaskíðamóti í „háum snjó“, sjá hér. 

Tillaga: Engin tillaga.


Myndir sem fáir hafa borið augum og vanta það sem vantaði

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

Málkennd fer hrakandi

Mikill ruglandi er kominn á setningaskipan, bæði í talmáli og ritmáli, þar sem enskan gerir víða vart við sig. Allir þekkja hið knúsaða stofnanamál og ofnotkun nafnorða.

Þá virðist málkennd fara hrakandi. Beygingarvillur og einfaldar ritvillur eru mjög áberandi bæði í ræðu og riti. Algengt er að fólk misskilur gömul hugtök og orðskviði og ruglar þeim saman, oft á grátbroslegan hátt.

Ef við snúumst ekki til varnar og spyrnum við fæti má búast við því að töluð íslenska kunni að líða undir lok á næstu öld.

Úr greinargerð með tillögu til þingsályktunar um íslenskunámskeið fyrir almenning árið 1988, 111. löggjafarþing, 145. mál. Flutningsmenn Júlíus Sólnes, Óli Þ. Guðbjartsson og Guðmundur H. Garðarsson.


1.

„Það er er kvartað heil­mikið yfir því, þannig að fólk er al­veg að fara í hann þó að það sé skít­kalt úti, … 

Frétt á mbl.is.     

Athugasemd: Ofangreint er haft eftir starfsmanni sundlaugar og er þarna rætt um kalda pott. Reglan á að vera sú að blaðamaður lagfærir ummæli sem eru málfarlega röng eða geta verið betri. Blaðamaður er ekki einkaritari heldur sá sem miðlar upplýsingum á réttu máli. Hann verður því að skrifa rétt.

Mjög algengt er að nota persónufornafnið „það“ í upphafi setningar og kallast það þá aukafrumlag. Margir segja orðið merkingarsnautt og kalla „lepp“. Að mörgu leiti er það rétt. Oftast er hægt að skrifa sig framhjá orðinu og yfirleitt verður textinn mun betri en með leppnum, sjá nánar hér. 

Annað sem er afar leiðinlegt í ritmáli eru „þannig að …“ setningar. Þær eru oftast gjörsamlega gagnslausar. Í talmáli er hann eins eins og uppfylling en verður enn verri í rituðu máli. Þegar fólk skrifar sig framhjá svona hortitt verður textinn oft miklu betri. Hér er talað af eigin reynslu.

Tillaga: Heilmikið er kvartað yfir því enda vill fólk fara í hann þó skítkalt sé út, …

2.

„Hinn er hluti af þeirri eldstöð sem oftast hefur gosið á íslandi síðastliðin 110 ár og þótt sá staður sé vel þekktur þá finnast þar ótrúlega myndir sem afskaplega fáir hafa borið augum. 

Ferðstiklur, sjónvarpsþáttur, Ríkissjónvarpið 31.1.2019     

Athugasemd: Þetta er löng málsgrein, óþarflega löng. Þulurinn hefur nokkuð góða rödd og les með hikum svo áheyrandinn verður ekki mikið var við lengdina.

Ég hefði sett punkt þarna inn á milli. Einnig breytt orðalaginu „ótrúlegar myndir“ sem segir ekkert. Hvað er ótrúleg mynd?

Sumum finnst að lýsingarorð eins og ótrúlegur merki í huga margra fallegur, frábær, yndislegur og svo framvegis, það lýsi gæðum.

Sama á við með önnur lýsingarorð eins og sérstakur, einstakur og fleiri. Stundum er sagt að hann sér sérstakasti maðurinn í hópnum og er átt við að hann sé toppgæi, hvorki meira né minna. Þetta er alveg einstök vara er stundum sagt á innsoginu og á er átt við að hún sér frábær.

Þulurinn í Stiklum talar um að bera eitthvað augum. Þetta orðasamband er ekki til . 

Til er orðasambandi að berja eitthvað augum. Í Málfarsbankanum á malid.is segir einfaldlega:

Talað er um að berja e-ð augum en ekki „bera e-ð augum“.

Í bókinni Mergur málsins segir að hið rétta orðalag sé kunnugt úr fornu máli en nútímamyndin sé kunn frá síðari hluta 19. aldar.

Einföld regla hljóðar svona: Ekki nota kunnugleg orðasambönd nema að fara örugglega rétt með þau. Best er að sleppa þeim, tala eða skrifa einfalt mál.

Tillaga: Hinn er hluti af þeirri eldstöð sem oftast hefur gosið á íslandi síðastliðin 110 ár. Þótt sá staður sé vel þekktur finnast þar fallegar náttúruminjar sem frekar fáir hafa séð.

3.

„Það er vegna þess að okkur vantaði það sem upp á vantaði til að komast alla leið. 

Fréttir Ríkissjónvarpsins kl. 19, viðtal við starfsmann ASÍ 31.1.2019    

Athugasemd: Töluð orð hafa ekki alltaf mikið innihald. Líklega getur það hent flesta að blaðra eitthvað merkingalaust en svo ná sér hugsanlega á strik eftir að síðasta orðinu hefur verið sleppt. Þannig var það í þessu tilviki.

Mér þótti þetta doldið fyndið og gat ekki varð að birta þetta hér. Þarna var verið að ræða tillögur til að berjast gegn kennitöluflakki.

Tillaga: Engin tillaga gerð.

4.

„Að stunda íþróttir gerir okkur betri í hverju sem er. 

Lottó auglýsing á Ríkissjónvarpinu 31.1.2019.  

Athugasemd: Fjölmargir eiga í stökustu vandræðum með íslenskt mál sem sýnir sig í því að þeir geta illa tjáð sig nema helst með nafnorðum í nefnifalli og sagnorðum í nafnhætti. 

Auglýsing er svo sem ekkert mjög slæm en hana má gagnrýna fyrir máttlaust orðalag. Höfundur textans hefur hugsanlega verið í vandræðum með að koma frá sér þeirri staðreynd að íþróttir eða markviss hreyfing styrkir einstaklinginn og hann verður fyrir vikið öflugri í daglegu lífi

Hvernig má orða auglýsinguna án þess að byrja á sögn í nafnhætti. Þá vandast málið, sérstaklega ef ætlunin er að nota orðið íþrótt en ekki hreyfing. Hér er tillagan en eflaust má gera betur.

Tillaga: Íþróttir gera alla betri í hverju sem er.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband