Myndir sem fáir hafa borið augum og vanta það sem vantaði

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

Málkennd fer hrakandi

Mikill ruglandi er kominn á setningaskipan, bæði í talmáli og ritmáli, þar sem enskan gerir víða vart við sig. Allir þekkja hið knúsaða stofnanamál og ofnotkun nafnorða.

Þá virðist málkennd fara hrakandi. Beygingarvillur og einfaldar ritvillur eru mjög áberandi bæði í ræðu og riti. Algengt er að fólk misskilur gömul hugtök og orðskviði og ruglar þeim saman, oft á grátbroslegan hátt.

Ef við snúumst ekki til varnar og spyrnum við fæti má búast við því að töluð íslenska kunni að líða undir lok á næstu öld.

Úr greinargerð með tillögu til þingsályktunar um íslenskunámskeið fyrir almenning árið 1988, 111. löggjafarþing, 145. mál. Flutningsmenn Júlíus Sólnes, Óli Þ. Guðbjartsson og Guðmundur H. Garðarsson.


1.

„Það er er kvartað heil­mikið yfir því, þannig að fólk er al­veg að fara í hann þó að það sé skít­kalt úti, … 

Frétt á mbl.is.     

Athugasemd: Ofangreint er haft eftir starfsmanni sundlaugar og er þarna rætt um kalda pott. Reglan á að vera sú að blaðamaður lagfærir ummæli sem eru málfarlega röng eða geta verið betri. Blaðamaður er ekki einkaritari heldur sá sem miðlar upplýsingum á réttu máli. Hann verður því að skrifa rétt.

Mjög algengt er að nota persónufornafnið „það“ í upphafi setningar og kallast það þá aukafrumlag. Margir segja orðið merkingarsnautt og kalla „lepp“. Að mörgu leiti er það rétt. Oftast er hægt að skrifa sig framhjá orðinu og yfirleitt verður textinn mun betri en með leppnum, sjá nánar hér. 

Annað sem er afar leiðinlegt í ritmáli eru „þannig að …“ setningar. Þær eru oftast gjörsamlega gagnslausar. Í talmáli er hann eins eins og uppfylling en verður enn verri í rituðu máli. Þegar fólk skrifar sig framhjá svona hortitt verður textinn oft miklu betri. Hér er talað af eigin reynslu.

Tillaga: Heilmikið er kvartað yfir því enda vill fólk fara í hann þó skítkalt sé út, …

2.

„Hinn er hluti af þeirri eldstöð sem oftast hefur gosið á íslandi síðastliðin 110 ár og þótt sá staður sé vel þekktur þá finnast þar ótrúlega myndir sem afskaplega fáir hafa borið augum. 

Ferðstiklur, sjónvarpsþáttur, Ríkissjónvarpið 31.1.2019     

Athugasemd: Þetta er löng málsgrein, óþarflega löng. Þulurinn hefur nokkuð góða rödd og les með hikum svo áheyrandinn verður ekki mikið var við lengdina.

Ég hefði sett punkt þarna inn á milli. Einnig breytt orðalaginu „ótrúlegar myndir“ sem segir ekkert. Hvað er ótrúleg mynd?

Sumum finnst að lýsingarorð eins og ótrúlegur merki í huga margra fallegur, frábær, yndislegur og svo framvegis, það lýsi gæðum.

Sama á við með önnur lýsingarorð eins og sérstakur, einstakur og fleiri. Stundum er sagt að hann sér sérstakasti maðurinn í hópnum og er átt við að hann sé toppgæi, hvorki meira né minna. Þetta er alveg einstök vara er stundum sagt á innsoginu og á er átt við að hún sér frábær.

Þulurinn í Stiklum talar um að bera eitthvað augum. Þetta orðasamband er ekki til . 

Til er orðasambandi að berja eitthvað augum. Í Málfarsbankanum á malid.is segir einfaldlega:

Talað er um að berja e-ð augum en ekki „bera e-ð augum“.

Í bókinni Mergur málsins segir að hið rétta orðalag sé kunnugt úr fornu máli en nútímamyndin sé kunn frá síðari hluta 19. aldar.

Einföld regla hljóðar svona: Ekki nota kunnugleg orðasambönd nema að fara örugglega rétt með þau. Best er að sleppa þeim, tala eða skrifa einfalt mál.

Tillaga: Hinn er hluti af þeirri eldstöð sem oftast hefur gosið á íslandi síðastliðin 110 ár. Þótt sá staður sé vel þekktur finnast þar fallegar náttúruminjar sem frekar fáir hafa séð.

3.

„Það er vegna þess að okkur vantaði það sem upp á vantaði til að komast alla leið. 

Fréttir Ríkissjónvarpsins kl. 19, viðtal við starfsmann ASÍ 31.1.2019    

Athugasemd: Töluð orð hafa ekki alltaf mikið innihald. Líklega getur það hent flesta að blaðra eitthvað merkingalaust en svo ná sér hugsanlega á strik eftir að síðasta orðinu hefur verið sleppt. Þannig var það í þessu tilviki.

Mér þótti þetta doldið fyndið og gat ekki varð að birta þetta hér. Þarna var verið að ræða tillögur til að berjast gegn kennitöluflakki.

Tillaga: Engin tillaga gerð.

4.

„Að stunda íþróttir gerir okkur betri í hverju sem er. 

Lottó auglýsing á Ríkissjónvarpinu 31.1.2019.  

Athugasemd: Fjölmargir eiga í stökustu vandræðum með íslenskt mál sem sýnir sig í því að þeir geta illa tjáð sig nema helst með nafnorðum í nefnifalli og sagnorðum í nafnhætti. 

Auglýsing er svo sem ekkert mjög slæm en hana má gagnrýna fyrir máttlaust orðalag. Höfundur textans hefur hugsanlega verið í vandræðum með að koma frá sér þeirri staðreynd að íþróttir eða markviss hreyfing styrkir einstaklinginn og hann verður fyrir vikið öflugri í daglegu lífi

Hvernig má orða auglýsinguna án þess að byrja á sögn í nafnhætti. Þá vandast málið, sérstaklega ef ætlunin er að nota orðið íþrótt en ekki hreyfing. Hér er tillagan en eflaust má gera betur.

Tillaga: Íþróttir gera alla betri í hverju sem er.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Mörg ár hef ég glýmt við að ráða krossgátur blaðanna.Nýlega varð ég að gefast upp á orðinu "ríkulega" og leit á lausnina sem kom í blaðinu viku á eftir,hún var ótæpilega. Kannski var hugmyndin að einhver veitti vel en hafði naumast efni á því.   

Helga Kristjánsdóttir, 2.2.2019 kl. 04:20

2 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Sigurður,

Ég er nú farinn að ryðga dálítið eftir meira en 22 ára búsetu erlendis, en mig minnir að það hafi verið sagt "augum barið" t.d. að "eitthvað hafi verið stærra en menn hafi áður augum barið".  Er þetta misminni hjá mér?  Ritmálssafn Orðabókar Háskólans virkar ekki hjá mér í augnablikinu!

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 2.2.2019 kl. 07:48

3 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Helga, mér finnst þessi orð ekki merkja það sama þó þau geti hugsanlega í örfáum tilvikum átt við eitthvað svipað. Rausnarlegur og ríflegur segir orðabókin um ríkulegur eða ríkulega. Ótæpilega er hins vegar það sem er mikið. Máltilfinningin segir að þegar ríkulega er veitt er það varla ótæpilegt. 

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 2.2.2019 kl. 09:25

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Arnór, er ekki alveg viss um hvað þú átt við. Ritmálasafnið getur gefið svo mörg dæmi að leikmaður eins og ég þarf langan tíma til að fara í gegnum þau öll. Held að orðasambandið að berja augum hafi verið notað í fjölmörgum og ólíkum tilfellum. Oftast er þó best að nota einfaldt sagnorð eins og að sjá, horfa, líta og fleiri.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 2.2.2019 kl. 09:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband