Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2019

Núskrifandi, ábreiða og leigutakar heiðraðir

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

1.

„Mesti núskrifandi rithöfundur Norðurlandanna? 

Fyrirsögn á Silfri Egils í dv.is.     

Athugasemd: Hef aldrei séð eða heyrt þetta orð „núskrifandi“ og get ekki áttað mig á merkingunni. Litlu varð ég nær með því að lesa pistil Egils því hann endurtekur ekki orðið annars staðar.

Í upphafi segir Egill:

Því má halda fram að Kim Leine sé mesti rithöfundur Norðurlandanna um þessar mundir. 

Þetta skil ég ágætlega og tek það sem svo að hér sem um að ræða skýringu á fyrirsögninni. Hún er engu að síður arfaslæm.

Tillaga: Fremstur rithöfunda á Norðurlöndum?

2.

„Hún telur að það sé með ólíkindum að Jóhannes hafi ekki verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á neinum tímapunkti og starfi óáreittur. 

Frétt á dv.is.      

Athugasemd: Tímapunktur er eiginlega óþarft orð í íslensku, að minnsta kosti eins og það er oftast notað í fjölmiðlum. Hér að ofan mætti taka út þrjú orð, „á neinum tímapunkti“ og merking málsgreinarinnar breytist ekkert, verður jafnvel skýrari. Einnig væri hægt að sleppa „ekki“ og setja aldrei í staðinn og skilningur lesandans eykst.

Hafi maðurinn aldrei verið úrskurðaður í gæsluvarðhald skiptir engu hversu mörgu sinnum orðið „tímapunktur“ er sett í málsgreinina, hún verður aldrei betri en tillagan hér að neðan.

Rangt er að segja að lögregla eða dómstólar áreiti mann sem brýtur lög eða reglur. Á malid.is segir um sögnina að áreita:

sýna (e-m) óvelkomna athygli

    • ég þori ekki að áreita hann meðan hann er í slæmu skapi
    • þessi hugsun hefur áreitt mig lengi
    • hún segir að maðurinn hafi áreitt sig kynferðislega

Betur fer á því að segja að maðurinn starfi eins og ekkert hafi í skorist eða gerst.

Þetta er löng frétt en ekki vel skrifuð og má gera fjölmargar aðrar athugasemdir. Blaðamaðurinn verður að taka sig á.

Tillaga: Henni finnst furðulegt að Jóhannes haf aldrei verið úrskurðaður í gæsluvarðhald heldur starfi eins og ekkert hafi gerst.

3.

„Þarna eru nátt­úr­lega leigu­tak­ar í dag, sem að hafa sína leigu­samn­inga og við heiðrum þá,“ … 

Frétt á mbl.is.       

Athugasemd: Á nýársdag veitti forseti Íslands nokkrum þekktum borgurum landsins fálkakross. Með réttu má segja að þetta fólk hafi verið heiðrað.

Reitir ætla að byggja íbúðir á svokallaðri Orkuhússlóð sem er á milli Suðurlandsbrautar og Ármúla í Reykjavík. Þar leiga nokkur fyrirtæki húsnæði og forstjóri Reita ætlar að heiðra eigendur þeirra. Enginn veit hvers vegna eða hvernig. Þeir geta í það minnsta leyft sér að hlakka til. 

Í ensku orðabókinni í tölvunni minni segir að enska sögnin to honour hafi fleiri en eina merkingu, en líka þessa:

fulfil (an obligation) or keep (an agreement):

accept (a bill) or pay (a cheque) when due: the bank informed him that the cheque would not be honoured.

Á íslensku tölum við ekki svona. Íslenska sögnin að heiðra hefur þarna ekki sömu merkingu og það enska. Réttara er að segja að samningurinn verði virtur, leigusalinn ætli sér  virða samninginn, ekki rifta honum eða segja upp.

Merkilegur samhljómur er milli sagnanna heiðra og virða. Sú síðarnefnda getur merkt að meta til verðs, meta og jafnvel heiðra. Allir þekkja einhvern virðulegan karl eða konu og þau hin sömu geta einnig verið heiðursmaður eða heiðurskona þó svo að þetta fari nú ekki endilega saman.

Í heild sinni er málsgreinin svona og hún er mjög slæm:

„Þarna eru nátt­úr­lega leigu­tak­ar í dag, sem að hafa sína leigusamninga og við heiðrum þá,“ seg­ir Guðjón, sem seg­ir Reiti og Reykja­vík­ur­borg vera á leiðinni í „nokkuð langt ferðalag“ varðandi þessa upp­bygg­ingu, sem ráðgert er að geti haf­ist um tveim­ur árum eft­ir að deili­skipu­lags­vinnu lýk­ur, sam­kvæmt frétta­til­kynn­ingu sem borg­in lét frá sér í morg­un.

Þetta er löng og flókin málsgrein. Mikilvæg regla blaðamanns er að setja punkt sem oftast. Ekki flækja málið með fleiri en einni aukasetningu. Ekki heldur flækja sig í klisjum eða detta í nástöðu.

Auðvitað á blaðamaðurinn að vita betur er aumingjans forstjóri Reita sem ábyggilega er þrælmenntaður í útlandinu og skilur jafnvel betur ensku en hrognamálið okkar. Skylda blaðamanns felst ekki í því að dreifa málvillum til lesenda. Honum ber að lagfæra mál viðmælandans og færa í betra horf. Sé það ekki gert á íslenskan enn minni möguleika en ella og kaffærist endanlega í flóðbylgju enskra máláhrifa.

Að lokum má efna þetta „náttúrulega“ sem er gjörsamlega gagnslaust orð þarna. Ekkert „náttúrulegt“ við að fólk leigi fasteignir eða leigi þær út.

Tillaga: Á fyrirhuguðu byggingarlandi eru nú fasteignir í útleigu og Reitir munu virða alla gilda leigusamninga enda langt þangað til framkvæmdir hefjast. Um tveimur árum eftir að deiliskipulag er samþykkt gætu þær hafist samkvæmt fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg.

3.

„Klara úr Nylon með magnaða ábreiðu af laginu Farinn. 

Fyrirsögn á visir.is.        

Athugasemd: Enska nafnorðið „cover“ getur þýtt teppi eða ábreiða. Enska orðabókin segir svo:

(also cover version) a recording or performance of a song previously recorded by a different artist: the band played covers of Beatles songs.

Þannig að „a cover song“ er hljóðritað eða sviðsflutt lag, flutt er eftir annan en þann sem samdi. Sé þetta rétt lýsing er gjörsamlega út í hött að kalla slíkt lag „ábreiðu“.

Hins vegar skortir mig þekkingu til að koma með viðhlítandi orð í staðinn og biðla því til lesenda um skýringar og tillögur.

Tillaga: Engin tillaga gerð.

4.

Paul Pogba, miðjumaður enska knatt­spyrnu­fé­lags­ins Manchester United, átti góðan leik fyr­ir Untied þegar liðið vann 1:0-útisig­ur gegn Totten­ham í stór­leik ensku úr­vals­deild­ar­inn­ar í dag.“ 

Frétt á mbl.is.         

Athugasemd: Þetta er ferlega „nafnorðaleg“ málsgrein. Munum að íslenskan er mál sagnorða. Blaðamaðurinn er greinilega bjarglaus í nafnorðaflaumi.

Er það stórleikur þegar lið í sjötta sæti leikur við annað sem er í þriðja sæti? Held að blaðamaður Moggans myndi varla kalla það stórleik ef Watford (7. sæti) myndi leika við Chelsea (4. sæti). Held að stéttasskipting á enskum fótboltaliðum sé staðreynd. Aðallinn eru liðin í sex eða sjö efstu sætunum, Þar fyrir neðan eru miðlungsliðin og svo rekur ruslið restina. Ekkert ósvipað því þegar skipt var í lið þegar maður var sjö ára.

Hér er nokkup sannfærandi smásmygli: Vit ekki allir að Manchester United er fótboltalið í Englandi og leikur í úrvalsdeildinni? Af hverju er ekki hið sama sagt um Tottenham? Svona gæti þá tilvitnunin verið með orðalagi íþróttablaðamanns:

Paul Pogba, hinn franski knattspyrnumaðurinn á miðjunni í enska knatt­spyrnu­fé­laginu Manchester United, átti góðan knattspyrnuleik fyr­ir United þegar liðið vann 1:0-útisig­ur gegn enska knattspyrnuliðinu Totten­ham í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í stór­leik ensku úr­vals­deild­ar­inn­ar í dag.

Má vera að þessi hræðilega stökkbreytta málsgrein sé ekkert fyndin. 

Enskan er tungumál nafnorða og sú staðreynd truflar skrif allmargra fjölmiðlamanna á íslensku.

Tillaga: Paul Pogba, miðjumaður Manchester United, lék vel þegar liðið sigraði Tottenham í dag með einu marki gegn engu.

5.

Alexis Tsipras kallar eftir atkvæðagreiðslu um traustsyfirlýsingu á stjórn sína og samþykkt samnings um nafnbreytingu.“ 

Millifyrirsögn á blaðsíðu 17 í Morgunblaðinu 14.1.2019.      

Athugasemd: Frekar margt í fréttum á ensku er nú orðið þýtt beint, stundum án umhugsunar. Orðasambandið að kalla eftir er eitt þeirra. Af öðrum má nefna stíga fram, stíga til hliðar og fleiri.

Á Bloomberg fréttamiðlinum segir svo:

Prime Minister Alexis Tsipras’s political future is on the line this week after a coalition breakdown prompted him to call a confidence vote in parliament, raising the risk of an early election.

Má vera að það sé ekki svo alslæmt að segja að maðurinn hafi „kallað eftir“. Merkingin er engu að síður alveg skýr á ensku:

Publicly ask for or demand.

kalla merkir að hrópa en á þessum tveimur sagnorðum er nokkur merkingarmunur sem rekja má til uppruna þeirra.

Til er köllun sem segja má að sé hvatning til að gera eitthvað, innri hvatning eða sem kemur frá öðrum. Við þekkjum nafnorðið kall (ekki sem karlmaður), líklegast eingöngu í samsetta orðinu prestakall. Á malid.is segir: 

Af so. kalla er leitt bæjarnafnið Kaldaðarnes < †Kallaðarnes, af *kallað(u)r ‘sá sem hrópar (á ferju) …

Fólk kallaði hér áður fyrr eftir ferjunni svo það kæmist yfir Ölfusá. Því er ekki alveg út í hött að „kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu“ í merkingunni að óska eftir. Má vera að mér fróðari menn hafi eitthvað við þetta að athuga. 

Hitt er svo annað mál að við þurfum fjölbreytni í rituðu máli. Á sömu blaðsíðu í Mogganum er önnur frétt og þar stendur bæði í fyrirsögn og í fréttinni sjálfri:

Þróunarsamband Suður-Afríkuþjóða (SADC) kallaði í gær eftir endurtalningu á atkvæðum eftir forsetakosningarnar sem fóru fram í Austur-Kongó um áramótin.

Þori að veðja hárkollunni minni að sami blaðamaður skrifaði líka þessa frétt. Í stað þess að segja að einhver kalli eftir má nota óskar eftir, fer fram á, biður um, krefst og álíka.

Að hrópa getur líka merkt að kalla en líklega ekki alveg á sama hátt. Í Íslenskri orðsifjabók á malid.is segir um uppruna orðsins, og er ekki víst að allir kannist við þetta:

hróp h. ‘kall, óp; rógur, illmælgi; flimt, gys’; hrópa s. ‘æpa, kalla; rægja, hrakyrða’

Þetta þekkjum við í orðasambandinu að gera hróp að einhverjum sem merkir alls ekki „að kalla að einhverjum“. 

Tillaga: Alexis Tsipras fer fram á atkvæðagreiðslu um traustsyfirlýsingu á stjórn sína og samþykkt samnings um nafnbreytingu.


Þjóðarskömm að Einar Kárason fær ekki listamannalaun

Einar KárssonHann er einn mesti núlifandi sögumaður sem ég veit af, gríðarlega vel máli farinn og hefur margt að segja sem þó er ekki sjálfgefið hjá íslenskum rithöfundum. Ég er auðvitað að tala um Einar Kárason, hinn mikla jöfur íslenskra skáldsagna.

Vinskapur okkar Einars er afar einhliða. Hann veit ekkert um mig en ég hef lengi verið einn af aðdáendum hans, það er að segja hef lesið bækurnar, þó ekki allar ... Með öðrum orðum, við þekkjumst ekki hætishót.

Stormfuglar hafa verið í seilingarfjarlægð frá skrifborði mínu frá því um mitt síðasta sumar og hef ég ótal sinnum gripið í hana.

Rithöfundurinn Einar Kárason er einstakur. Enginn annar getur skrifað eins og hann gerir í Stormfuglum. Stundum langar og flóknar málsgreinar, sem þó eru svo haganlega saman settar að lesandinn missir hvorki þráðinn né athyglina. Minnimáttar skrifarar kunna ekki þessa list og við lítum allir upp til Einars, ýmist með aðdáun eða öfund, jafnvel hvort tveggja.

StormfuglarÉg fletti bókinni þegar ég var að skrifa þennan pistil og kom af tilviljun þar niður er segir af stýrimanninum: 

Frammi í káetunni undir hvalbaknum var annars stýrimaður aleinn og farmlama, hann kastaðist út úr kojunni og á gólfið, þar lá hann með fullri meðvitund, jafnvel aukinni meðvitund vegna kvala í baki og innvortis, og nú heyrði hann hvernig allt var að hljóðna þarna í kring; hann þekkti þetta, var ágætis sundmaður og svona breytast umhverfishljóðin þegar maður er kominn á kaf; stýrimaðurinn sá alla ævi sína renna hjá, þetta gerist í alvöru hugsaði hann; svo sá hann fyrir sér konuna og börnin, og hann ákvað að þylja allt það sem hann kynni af bænum og guðsorði á leið sinni inn í eilífðina, kannski myndi fjölskylda hans heima í Kópavogi á einhvern hátt heyra það eða skynja. [Stormfuglar, blaðsíða 97.]

Þegar ég var krakki í menntaskóla var ég tvö sumur á togurum, jafnvel síðutogurum, en bókin Stormfuglar gerist um borð í einum slíkum á Nýfundnalandsmiðum. Ég kannast því við orðalagið sem er svo skýrt og „rétt“ með farið, jafnvel þó Einar hafi verið skemur á togurum en ég, eftir því sem ég las einhvers staðar.

Sá armi samfylkingarmaður, Einar Kárason er þó síður en svo syndlaus. Hann sem kallaði fólk sem býr utan höfuðborgarsvæðisins „landsbyggðarhyski“, hann sem atyrti og hæddist að fólki sem vill halda Reykjavíkurflugvelli á sínum stað. Má vera að þar hafi hann gleymt sér, hrokkið í hrokagírinn, tilfinningin borið skynsemina ofurliði þegar þetta gerðist. Enda baðst samfylkingarmaðurinn afsökunar, ekki á skoðunum sínum, heldur að hafa uppnefnt íbúa landsbyggðanna. Má vera að hugur hafi fylgt máli.

Ég geri greinarmun á pólitíkusinum Einari Kárasyni og rithöfundinum. Sá fyrrnefndi má hafa sínu lífi á þann hátt sem hann vill og raunar sá síðarnefndi líka svo framarlega sem hann skrifar góðar bækur.

Og þar sem stefna meirihluta Alþingis er að veita völdum listamönnum laun fyrir framlag sitt til menningar þjóðarinnar finnst mér algjörlega ótækt að vaða framhjá Einari Kárasyni og láta hreinlega sem hann sé ekki til. Þeir vita sem vilja að rithöfundar lifa ekki af list sinni einni saman nema þeir verði svo frægir og miklir að bækur þeirra séu gefnar út á útlendum mörkuðum og rokseljist þar.

Vera má að bækur Einars hafi komið út í öðrum löndum en það breytir þó ekki framlagi hans til íslenskrar menningar.

Telja má það þjóðarskömm að einni mesti sögumaður þjóðarinnar skuli ekki fá listamannalaun og á sama tíma fær stíllaust „rithöfundar“ slíka viðurkenningu.

Samkvæmt Wikipedia eru þessar skáldsögur Einars Kárasonar:  

  • Þetta eru asnar Guðjón, 1981
  • Þar sem djöflaeyjan rís, 1983
  • Gulleyjan, 1985
  • Fyrirheitna landið, 1989
  • Heimskra manna ráð, 1992
  • Kvikasilfur, 1994
  • Norðurljós, 1998
  • Óvinafagnaður, 2001
  • Stormur, 2003
  • Ofsi, 2008
  • Skáld, 2012
  • Skálmöld, 2014
  • Passíusálmarnir, 2016
  • Stormfuglar, 2018

Hafa einhverjir aðrir rithöfundar á listmannalaunum gert betur?


Bless við jólin, staður sem lokar og ríkisstjórn sem þarf að opna

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

Með öðrum og betri orðum

Verði „sprenging í fjölda þeirra feðra“ (sem nýta sér rétt til feðraorlofs) hefur þeim feðrum stórfjölgað. 

„[V]ondar veðurfarslegar aðstæður“ eru hugsanlega vont veður. 

Og ekki kemur á óvart ef „ökumenn sem hafa slæman akstursmáta“ aka illa. 

„[P]eningalega launuð störf“ gætu svo verið launavinna.

Málið á bls. 24 í Morgunblaðinu 7.1.2019.

 

1.

„Sagt bless við blessuð jólin með blysför á brennustað.“ 

Fyrirsögn/myndatexti á forsíðu Morgunblaðsins 7.1.2019.    

Athugasemd: Þetta kallast að ég held ofstuðlun. Þarna er hrúgað inn orðum sem byrja á stafnum b. Tilgangurinn virðist ekki neinn annar. Útkoman er barnalegur texti sem þó gleður hvorki börn né aðra.

Fyrirsögnin á líklega ekki að vera fyrripartur vísu. Hún gæti samt næstum því verið það, en á henni er galli. Á vefsíðu Ragnars Inga Aðalsteinssonar segir:

Það kallast ofstuðlun þegar ljóðstafir verða of margir innan braglínuparsins sem stuðla skal. Í frumlínunni eiga stuðlar að vera tveir og einn höfuðstafur í síðlínunni. Ef stuðlar eru fleiri eða hljóð höfuðstafs tvítekið er það kallað ofstuðlun.

Þegar börn eru lítil tala þau einfalt mál en svo eldast þau, orðasafnið stækkar og þau ættu að öllu jöfnu að geta tjáð sig á fjölbreyttan hátt. Engu að síður virðast barnamál enn talsvert notað af yngra fjölmiðlafólki. Það notar orð eins og klessa á (þegar bílar lenda í árekstri), dingla (hringja útidyrabjöllu eða álíka), öskra (í stað þess að kalla eða hrópa), pínu (í merkingunni lítið, dálítið eða mjög lítið), segðu bless (í stað þess að kveðja) og fleiri.

Kveðjuorðið bless er án efa komið af sögninni að blessa, stytting af blessaður/blessuð. Kristnin hefur haft meiri áhrif en margir átta sig á. Við kveðjum og segjum bless, en kveðjumst líka þegar við hittumst. Í nútímamáli segjum við bless er við skiljum. Við segjum blessaður/blessuð þegar við hittumst rétt eins og á kveðjustund. Aftur á móti hefur sögnin að kveðja alveg einstaklega fjölbreytta merkingu, en nóg um það síðar.

Sorglegt að ókeypis menntun í tuttugu ár og nokkur reynsla í blaðamennsku skuli ekki verða til þess að fólk þrói með sér laglegan stíl og geti svo, þegar kallið kemur, samið snyrtilegan texta undir fallegri mynd eins og þeirri sem birtist þarna á forsíðu Moggans. Má vera að ég ýki hér dálítið. Líklega ræður smekkur áliti, en samt …

Tillaga: Jólin kvödd með blysför og brennu.

2.

„No pun intended. 

Upphafsorð viðmælanda í Kastljósi.   

Athugasemd: Ég sat fyrir framan skjáinn um daginn og horfði á upphaf Kastljóss, sem ég geri ekki oft. Þar kom ung og fögur kona og brosmild svaraði hún fyrstu spurningu umsjónarmanns með þessum orðum sem vitnað er til hér að ofan.

Mér brá nokkuð illilega og féll kjálkinn með skelli á gólfið. Er ég hafði loksins náð honum upp var þátturinn búinn. Fyrir mitt litla líf get ég ekki munað hvað var verið að ræða eða hver þessi laglega kona var.

Hitt er varasamt ef farið er að ræða málin á blendingi ensku og íslensku í Kastljósinu. Konan ágæta var ekki að grínast enda þýða ofangreind orð að brandarinn var ekki ætlaður sem móðgun.

A joke exploiting the different possible meanings of a word or the fact that there are words which sound alike but have different meanings: the Railway Society reception was an informal party of people of all stations (excuse the pun) in life.

 Þetta sagði orðabókin um „pun“.

Tillaga: Höldum okkur við annað hvort, íslensku eða ensku. Þessi tvö tungumál blandast afar illa saman.

3.

„Síðustu helgi lokaði nafn­lausi pizzustaður­inn en nú á fimmtu­dag­inn opn­ar þar nýr staður, Syst­ir, sem er í eigu sömu aðila. 

Frétt á mbl.is.    

Athugasemd: Af hverju kemur svona vitleysa upp aftur og aftur á Mogganum. Blaðamenn verða að skilja að staðir opna ekkert og þeir loka engu. Aftur á móti geta eigendur veitingahúsa, hótela og fyrirtækja með aðra starfsemi opnað og lokað húsum að vild.

Þar að auki finnst mér varla hægt að segja svona: „Síðustu helgi lokaði …“ Vantar ekki forsetninguna um?

Svo er mörgum hulin ráðgáta hvers vegna fólk er kallað aðilar, nema auðvitað að hluthafarnir séu fyrirtæki en ekki virðist svo vera miðað við myndina sem fylgir fréttinni.

Hins vegar er ástæða til að hrósa eigendunum fyrir að velja íslenskt nafn á nýja veitingastaðinn. Með því sýna þeir sjaldgæft hugrekki. Illa gefið fólk hefði líklega kallað staðinn „The Icelandic Sister Heratage Cuisine Group“ eða eitthvað álíka hallærislegt.

Tillaga: Um síðustu helga var Nafnlausa pizzustaðnum lokað og næsta fimmtudag verður nýr staður opnaður í sama húsnæði. Hann heitir Systir og er í eigu sama fólks.

4.

„Óþarfi að fara í eitthvað panikmód … 

Umræðuþáttur í morgunútvarpi Rásar1 í Ríkisútvarpinu 9.1.2019.   

Athugasemd: Tvær akureyrskar konur voru kvaddar í síðdegisþátt Ríkisútvarpsins til að rökræða um íbúafjölda á Akureyri. Önnur var frá meirihluta bæjarstjórnar, hin var fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í minnihlutanum.

Fulltrúi meirihlutans taldi enga ástæðu til að vera með áhyggjur út af fækkun fólks á Akureyri. Óþarfi að fara í eitthvað panikmód …, sagði konan.

„Panic Mode“ má þýða sem einhvers konar hræðsluástand. Flestir þekkja slettuna að panikera. „Mode“ getur merkt ástand. Orðið þekkist í mörgum greinum; tækjum, tölvum, myndavélum, sjónvarpi og svo framvegis. Einnig í tísku, stærðfræði, tónlist og fleiru.

Fáir taka svo til orða eins og konan í umræðuþættinum. Flestir hefðu sagt í hennar sporum að þrátt fyrir íbúafækkun væri betra að halda ró sinni og spyrna við fótum. Undantekning eru auðvitað þeir sem vilja sýna að þeir séu sigldir (hvað þýðir eiginlega að vera sigldur?).

Ekki verður nógsamlega brýnt fyrir fólki að tala íslensku, ekki sletta, sérstaklega ekki á opinberum vettvangi. Staðreyndin er einfaldlega sú að við, almenningur, tökum ósjálfrátt mark á orðalagi fræga fólksins í fjölmiðlunum og tileinkum okkur það. Samanber þetta: 

Hvað höfðingjarnir hafast að
hinir meina sér leyfist það.

Svo segir í Passíusálmum Hallgríms Péturssonar.

Og hvers konar sletta er þetta: „Passía? og „sálmur“. Jú, hvort tveggja eru orð sem komu fyrir ævalöngu inn í íslensku. Á Vísindavefnum segir Einar Sigurbjörnsson:

Íslenska orðið passía er myndað af latneska orðinu passio sem þýðir þjáning (sbr. passion á ensku, dönsku og þýsku). 

Á Wikipedia segir svo um orðið sálmur:

Orðið sálmur kemur af latnesku psalmus (að syngja með undirleik af strengjahljóðfæri) sem upphaflega kemur af forngrísku psalmos (að spila á strengjahljóðfæri).

Sálmar aðgreina sig frá öðrum ljóðum með því að ætíð vera af trúarlegum toga. Sálmar eru oftast lofsöngur eða bæn til guðs eða andlegs valds.

Ólafur Hjaltason hét fyrsti lúterski biskupinn á Hólum. Stutt æviágrip hans birtist í dálkinum Merkir Íslendingar í Morgunblaðinu 9.1.2018. Þar segir meðal annars:

Ólafur lét prenta nokkrar bækur í prentsmiðjunni á Breiðabólstað í Vesturhópi. Til eru tvær óheilar bækur sem hann gaf út: Passio (þ.e. píslarpredikanir, 1559), eftir Antonius Corvinus, í þýðingu Odds Gottskálkssonar, og Guðspjallabók.

Í stuttu máli eru bæði orðið komin inn í málið úr latnesku og hafa fyrir löngu unnið sér þegnrétt. Niðurstaðan er því sú að íslenskan getur tekið við erlendum orðum en fyrir alla muni veljum þau vandlega.

Tillaga: Best er að halda ró sinni …

5.

„Trump forseti verður að hætta að halda bandarísku þjóðinni í gíslingu, verður að hætta að búa til neyðarástand og verður að opna ríkisstjórnina aftur. 

Frétt á visir.is.    

Athugasemd: Þessi orð eru höfð eftir Nancy Peloci, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjanna. Þýðingin er hins vegar ekki í lagi. Samkvæmt Washington Post sagði Pelosi:

President Trump must stop holding the American people hostage, must stop manufacturing a crisis and must reopen the government.

Blaðamaðurinn skilur annað hvort ekki íslensku eða ensku. Bandaríska ríkisstjórnin er ekki lokuð og því þarf ekki að opna hana. Ástæðan er einfaldlega sú að blaðamaðurinn misskilur enska orðið government í þessu samhengi. Engu að síður skrifar hann annars staðar í fréttinni:

Þriðjungur alríkisstofnana hefur verið lokaður í hátt í þrjár vikur vegna kröfu forsetans sem neitaði að skrifa undir útgjaldafrumvörp sem hefðu fjármagnað rekstur stofnananna fyrir jól.

Blaðamaðurinn talar ýmist um lokaða ríkisstjórn eða lokaðar alríkisstofnanir. Er það til of mikils mælst að blaðamaður haldi sig við eina útgáfu á enska orðinu government? Er það ekki heldur mikið örlæti að hafa tvö tilvísunarfornöfn í einni málsgrein. Frekar slappur stíll.

Fleira er gangrýnisvert er í fréttinni en það tekur of langan tíma að útlista.

Tillaga: Trump forseti verður að hætta að halda bandarísku þjóðinni í gíslingu, búa til neyðarástand og opna ríkisstofnanir.

 

6.

„Seinkun klukkunnar: Almenningur velur á milli þriggja kosta. 

Fyrirsögn á visir.is.    

Athugasemd: Þessi fyrirsögn segir allt sem segja þarf. Þrír kostir í boði. Hrósa ber blaðamanninum fyrir þetta. Í fréttinni sjálfri segir hins vegar:

Í greinargerðinni er skoðað hvort seinka eigi klukkunni og hafa þrír valkostir verið settir fram, sem vinna á úr í samráði við almenning.

Andsk... (ég meina shit). Skyldi blaðamaðurinn ekki sjá neinn mun á tveimur orðum, kostur og „valkostur“. Hið seinna er bölvuð rassbaga enda samsett af tveimur orðum sem bæði hafa mjög svipaða merkingu, val og kostur en á þeim er þó blæbrigðamunur. 

Varla telst það blaðamanni til afsökunar þó að í skýrslunni um staðartíma á Íslandi, sjá hér, sé rassbagan notuð. Blaðamaður á að vita betur þó sumir embættismenn kunni ekki almennilega íslensku.

Ekkert er til sem heitir „valkostur“. Hins vegar hefur orðið náð fótfestu vegna þess að enginn mælir gegn því. Sama er með svo fjölda annarra orða sem allir eru hættir að agnúast út í. Hér eru nokkur dæmi til skemmtunar, sönn og skálduð:

Pönnukökupanna
Pottjárnspottur
Dýragarðsdýr
Bílaleigubíll
Borðstofuborð
Peningaþvættisþvættingur
Hestaleiguhestur
Knattspyrnudeild Knattspyrnufélags Reykjavíkur.
Tréherðatré
Hafnarfjarðarhöfn
Vestmannaeyjaeyjar
Fimleikadeild Fimleikafélags Hafnarfjarðar

Að vísu eru sum orðanna góð og gild önnur tómt rugl, svona strangt til tekið. Gaman væri að fá fleiri svona orð frá lesendum. Samsetningin getur verið bráðfyndin.

Ég hef safnað svona orðum, einnig tvítekningarorðum í örnefnum. Hér eru nokkur dæmi:

Axlaröxl í Vatnadalsfjalli
Árdalsá i Andakíl
Bjargabjörg á Skaga
Eyjarey sunnan Skagastrandar
Hoffellsfjall við Hornafjörð
Hólahólar undir Jökli
Staðarstaður á Snæfellsnesi
Skagastrandarströnd, gæti verið við Skagaströnd
Dalsdalur í Skagafirði (og raunar víðar)

Þó þetta sé nú fyrst og fremst til skemmtunar segja svona tvítekningarorð dálitla sögu sem er fróðleg þegar tungumálið er skoðað.

Tillaga: Engin tillaga.


Hundleiðindin og Helga Vala lævísa

At­hygli mína vöktu um­mæli fjár­málaráðherra og for­manns Sjálf­stæðis­flokks­ins sem kvaðst vera orðinn hund­leiður á þess­ari umræðu sem hann sagði venju­legt fólk ekki fá neitt út úr.

Þetta sagði þingmaður Samfylkingarinnar, Helga Vala Helgadóttir, í pistli í Morgunblaði dagsins. Hún er slæg í áróðrinum. Hérna er lítilsháttar greining á honum.

1. Hún segir að formaður Sjálfstæðisflokksins sé hundleiður á Klausturmálinu. Rangt.

2. Hún lætur að því liggja að Bjarni vilji „sópa málinu undir teppið“. Rangt.

3. Hún lætur að því liggja að Bjarni hafi stöðvað „lögbundna afgreiðslu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar“ að skipun Geirs H. Haarde í sendiherrastöðu. Óbeint vísar hún til þess að Bjarni standi í vegi fyrir „afgreiðslu“ nefndarinnar. Rangt.

4. Hún segist auðveldlega geta unnið að öðrum málum á þinginu „meðfram þessu máli“ en Bjarni ekki. Mont.

5. Hún lætur að því liggja að formaður Sjálfstæðisflokksins „nenni“ ekki að vinna að „óþægilegum málum“. Rangt.

Með þessari litlu grein reynir hún að snúa Klaustursmálinu alfarið upp á Bjarna Benediktsson. Það gerir hún á lævíslegan hátt, vitandi það sem aðrir Samfylkingarmenn hafa reynt, að dropinn holar steininn. Sé nógu logið sennilega í langan tíma gerist það að einhverjir kjánar trúa.

Í lok pistilsins gerist það sem oft hendir þegar stjórnmálamaður atyrðir annan. Helga Vala að upphefur sjálfa sig á kostnað annarra. Þegar hún er búin að telja upp meintar ávirðingar sínar á Bjarna segir hún: 

Ég treysti mér vel til að sinna áfram öðrum mál­um á þingi meðfram þessu máli ...

Þetta minnir á söguna um manninn sem baðst fyrir og sagði:

Guð, ég þakka þér, að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður. Ég fasta tvisvar í viku og geld tíund af öllu, sem ég eignast.

Hún hefði allteins getað sagt:

Dsísös kræst, ég þakka sko fyrir að vera ekki eins þessi Bjarni sem er svo hundleiður, vill sópa Klaustursmálinu undir teppið, vill ekki mæta á nefndarfund, og nennir ekki neinu. En ég, sko ... Ég er allt öðru vísi, get „multitaskað“ eins og ekkert sé. 


Áfram eða enn, allt í rúst og settur í klefa

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.


1.

„Sjáðu gróft brot Kompany á Salah: Hvernig fékk hann ekki rautt? 

Frétt á dv.is.     

Athugasemd: Blaðamenn á DV eru dálítið einkennilegir, virðast ekki vel að sér. Spurnarfornafnið hvernig í tilvitnuninni er ekki viðeigandi, réttara er að segja hvers vegna

Tillaga: Mynd af grófu broti Kompany: Hvers vegna fékk hann ekki rautt spjald?

2.

Áfram meiðist Bale.“ 

Fyrirsögn á mbl.is.      

Athugasemd: Welski sóknarmaðurinn í fótboltaliðinu Real Madrid, Gareth Bale, hefur meitt sig oft upp á skíðkastið og um það fjallar frétt á vefútgáfu Moggans. Þetta er því miður ekki nógu góð fyrirsögn. Er hann meiddur frá því síðast er það gerðist eða meiddist hann aftur?

Áfram er atviksorð og þau standa flest með sagnorðum, þó ekki öll, en það er annað mál. Ótækt er að nota hér atviksorðið áfram, því það segir ekki alla söguna. Þeir sem búa við drjúgan orðaforða hafa öðlast góða málkennd, og hún segir okkur hvaða orð eigi að nota. 

Á visir.is er þessa fyrirsögn að finna:

Magnús áfram útvarpsstjóri

Hver er nú munurinn á þessum tveimur fyrirsögnum? Jú, sú fyrri á við eitthvað sem gerist aftur. Hin síðari er um það sem gerist án hlés og hún er rétt. 

Enginn myndi segja eða skrifa: Magnús enn útvarpsstjóri. Þannig talar enginn, flesti finna þetta á sér, málkenndin vaknar.

Berum saman fyrirsögnina og tillöguna hér fyrir neðan. Rétt upp „hend“ sem vilja nota tillöguna.

Tillaga: Enn meiðist Bale.

3.

Haldið upp á þrettándann víða í dag.“ 

Fyrirsögn á visir.is.      

Athugasemd: Röð orða í setningu skiptir máli. Er hún spurning, fullyrðing eða athugasemd? Má vera að ég hafi rangt fyrir mér og orðaröðin skipti ekki nokkru máli. Hver er þá eðlileg orðaröð í eftirfarandi dæmum og við einblínum á atviksorðið víða (sko ég á ekki við vítt atviksorð held að það sé ekki til)?:

    1. Víða haldið upp á þrettándann í dag.
    2. Haldið víða upp á þrettándann í dag.
    3. Haldið upp á víða þrettándann í dag.
    4. Haldið upp á þrettándann víða í dag.
    5. Haldið upp á þrettándann í dag víða.

Fálkaorðan er veitt fyrir þá útgáfu sem flestir aðhyllast. Hinir verða fordæmir, gerðir útlægir og þurrkaðir út úr þjóðskrá, jafnvel þó þeir hafi rétt fyrir sér. Er það ekki annars lýðræðislegt?

Tillaga: Gettu!

4.

Farangur Selju Dísar allur í rúst eftir skoðun:“ 

Yfirfyrirsögn á dv.is.      

Athugasemd: Nafnorðið rúst hefur fleiri en eina merkingu. Flestir þekkja rúst sem leifar af byggingu. Í Íslenskri orðsifjabók segir: 

hrunin bygging, leifar hrunins húss eða mannvirkis

Önnur merking er til. Á Wikipedia segir:  

Rústir eru bungur í landslagi freðmýrar, sem myndast þannig að jarðvegsyfirborð hækkar þegar íslinsa myndast í fínkornóttum jarðvegsefnum undir einangrunarlagi, t.d. mólagi.

Líkur benda til þess að hvorug ofangreindra lýsinga á rúst eigi við farangur Selju Dísar. Hann hafi verið í óreiðu eða skemmdur nema hvort tveggja sé.

Tillaga: Farangur Selju Dísar í óreiðu eftir skoðun tollvarða.

5.

Aðilinn var svo fjarlægður af lögreglunni og settur í klefa stuttu síðar.“ 

Frétt á dv.is.      

Athugasemd: Maður nokkur braust inn í bíl og reyndi að stela úr honum en var gripinn. Á DV er hann í tvígang kallaður „aðili“. Enginn veit hvers vegna, ekki einu sinni blaðamaðurinn, sem þó er varla nýgræðingur í fréttaskrifum. Af hverju var skömmin ekki kallaður maður sem hann þó var og er.

Síðan kemur fram að þessi ógæfumaður hafi verið „settur í klefa“. Líklega var hann ekki settur í símaklefa enda eru þeir orðnir frekar fágætir. Gera má ráð fyrir að lögreglan hafi sett hann í fangaklefa. 

Þakka ber að blaðamaðurinn hafi ekki orða það þannig að manngreyið hafi verið „vistaður í fangageymslu“. Vonandi er það útjaskaða orðalag á hverfandi hveli eftir margra ára misnotkun.

Tillaga: Lögreglan handtók manninn og fangelsaði.


Nálastungur, leikræn lyfleysa

Þekking flestra er takmörkuð og ekki síst mín. Þá er gott að geta leitað til sérfræðinga á hinum ýmsu sviðum eftir því sem við á. Ekki hef ég mikið vit á nálarstungufræðum en hef þó lesið talsvert um þau og fundið út að þau séu dularfull fræði sem hjúpuð eru leyndardómum og jafnvel yfirskilvitlegum kröftum.

Aldrei hef ég þó farið til „nálastungulækni“ en hef hitt nokkra sem segjast hafa fengið allra sinna meina bót eftir blessun þeirra. Þessu öllu hef ég trúað eins og nýju neti.

Verstur andskotinn er samt að þekkja menn eins og Björn Geir Leifsson, lækni, sem er óhræddur að gagnrýna ýmiskonar kukl og hindurvitni. Eftirfarandi pistil las ég á Facebook síðu hans:

Það er ekki nóg að vita nokkurn vegin að lungun séu í brjóstkassanum (thorax) flestir átta sig ekki á hversu örstutt er inn í fleiðruna sums staðar milli rifja, a.m.k. í grönnu fólki, og að lungnatopparnir ná vel upp fyrir viðbein svo stungur á hálssvæði geta valdið loftbrjósti. Og það er ekki trygging þótt viðkomandi telji sig kunna til verka. Nokkur tilvik þekki ég til dæmis íslensk, þar sem sjúkraþjálfarar töldu sig vera að meðhöndla með því að stinga í „gikkbletti”, trigger points, í vöðvum við herðablað.
Í einhverju blaðinu í gær er haft eftir ljósmóður að þær stingi aldrei í brjóstkassann heldur í útlimi, fótleggi og handleggi. Eins og það sé eitthvað betra?

Hún tekur það sem sjálfsögðum hlut að stungur í hendur og fætur geri eitthvað gagn í allt öðrum líkamshlutum. Vitnað er í valdar rannsóknagreinar sem virðast staðfesta ætlaða virkni ef bara er lesinn titill og niðurstöðusetning. Svo þegar betur er að gáð er oftast enginn fótur fyrir fullyrðingunni. Nálastungur í útlimi eru bara alls ekki hættulausar, fyrir utan að vera tilgangslausar. Í Noregi dó maður árið 2017 af fylgikvillum eftir nálastungu í hendi. Sú meðferð var framkvæmd í nálastunguskóla svo ekki er hægt að kenna viðvaningshætti um.

Bak við nálastungufræðin er enginn heildstæður, samhæfður þekkingargrunnur.
Í handbók útgefinni af ljósmæðrafélaginu eru flóknar og að því er virðist merkilegar útlistingar á því hvar eigi að stinga í hinum og þessum tilgangi.

Bak við útleggingar á því hvar eigi að stinga eru engin gagnreynd, staðfestanleg fræði. Ef stungustaðir í mismunandi útgáfum af nálastungufræðum eru skoðaðir, er ekkert vitrænt samræmi milli kínversku, kóreönsku, japönsku... eða annarra útgáfa. Það er t.d. enginn sem veit af hverju á að örva blett á utanverðri litlutá til þess að fá fóstur í sitjandastöðu til þess að snúa sér við. Það veit heldur enginn hvernig fundið var út að stunga í blett sem kallast CV-1 getur verið gagnleg við langri röð meina allt frá ristruflunum og hægðatregðu til drukknunar og meðvitundarleysis. Þessi blettur er staðsettur um fingurbreidd framan við endaþarmsopið hjá báðum kynjum og um þetta eru útleggingar í mörgum fræðitextum.

Þessar kenningar eins og allar aðrar í þessum fræðum byggir hvorki á skipulega safnaðri þekkingu né staðfestanlegri reynslu. Engum hefur tekist að finna út af hverju og hvernig þessir tilteknu staðir eru til komnir enda skiptir engu hvar er stungið þegar það er rannsakað með réttum og óvilhöllum hætti. Það skiptir heldur engu hvort raunverulega sé stungið, bara ef báðir aðilar halda það. Þetta hefur verið rannsakað.

Nálastungur hafa engin mælanleg eigin áhrif. Lengi voru uppi alls konar kenningar um losun boðefna og örvun taugabrauta. Talað var um losun adenósins, endorfíns, gate theory og þaðan af fínna. Vissuleg gerist allt mögulegt slíkt við stungur en það gerist líka ef slökkvitæki dettur á fót eða hamri er slegið á þumalfingur. Engum hefur dottið í hug að það geti komið í veg fyrir mígreni eða bætt króníska verki meira en að þeir gleymast kannski um stundarsakir. Þótt einhverjir fái bót meina sinna samtímis nálastunguathöfnum þá er yfirleitt hægt að finna aðrar skýringar á breyttri líðan, sem oftast hefði orðið hvort sem er, eða ná fram sömu sefjandi lyfleysuhrifum með öðrum, sársaukaminni og hættuminni leikatriðum.

Leikþátturinn og dulúðin skapa sterkar eftirvæntingar, ekki síst hjá iðkendunum sjálfum, sem taka öllu sem virðist staðfesta væntingarnar en gleyma fljótt þeim sem engan bata fengu.

Nálastungur hafa verið kallaðar leikræn lyfleysa, theatrical placebo, og er sú nafngift afar lýsandi.

 


Dagur B. Eggertsson og Gunnar B. Sveinsson

Hér eru tvær fullyrðingar, aðeins önnur þeirra er rétt:

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, ætlar að sitja í nefnd sem á að fara yfir skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um braggamálið, af því að hann hafði enga yfirsýn yfir öll málsatvik og málavexti, vissi ekkert.


Gunnar B. Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, ætlar að sitja í siðanefnd Alþingis sem á að fara yfir Klaustursmálið af því að hann hefur betri yfirsýn yfir öll málsatvik og málavexti en aðrir.

Sá sem heldur að það sé kusk á hvítflibbanum þegar óhreinindin ná langt upp á bak þarf líklega að skipta um spegil eða fá sér aðra ráðgjafa. Jafnvel hvort tveggja.

 


mbl.is Mun líklega víkja á fyrsta fundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfðabakkabrú og Hveragerði, atkvæðagreiðsla og kosning og hefnd Arsenal

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

1.

„Sléttu ári fyrir þetta slys var annað stórslys á svæðinu. 

Frétt í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins 29.12.2018.    

Athugasemd: Setjum sem svo að maður hósti í bíl sínum rétt austan við Höfðabakkabrú sem liggur yfir Vesturlandsveg. Annað maður hóstar á sama tíma við Hveragerði. Á milli þessara tveggja staða eru 37,8 km.

Ekki er hægt með neinni sanngirni að halda því fram að kvef sé á sama „svæði“, að þessi tveir skálduðu hóstar hafi verið á sömu slóðum. Hugsanlega halda fréttamenn Ríkisútvarpsins því fram að Höfðabakkabrú og Hveragerði séu á sama svæði.

Í janúar 2018 varð slys skammt vestan við Kirkjubæjarklaustur. Tæpu ári síðar féll bíll af brú austan við Lómagnúp. Á milli þessara slysstaða eru 37,8 km. Fréttamenn Ríkisútvarpsins og Stöðvar2 eru ekki betur að sér í landafræði en svo að þeir halda að Kirkjubæjarklaustur og Lómagnúpur séu á sama svæði. Þetta er tómt bull. Lítið bara á landakort, mörg þeirra bestu eru á netinu, til dæmis map.is, kort Landmælinga og ja.is.

Tillaga: Engin tillaga gerð.

2.

„Kosið verður um Brex­it-samn­ing­inn þriðju vik­una í janú­ar. 

Frétt á mbl.is.    

Athugasemd: Mjög algengt er að blaðamenn geri ekki greinarmun á kosningum og atkvæðagreiðslu. 

Í fréttinni er fjallað um Brexit samninginn sem er á milli ESB og Bretlands. Um mitt ár 2016 var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla í Bretlandi um að landið færi úr ESB. Meirihluti samþykkti það. Þetta var kosning. Þegar kosið er um þing eða í sveitarstjórnir er talað um kosningu.

Breska þingið þarf nú að staðfesta samninginn svo hann öðlist gildi. Þá greiða þingmenn atkvæði um hann, þeir kjósa ekki um hann. Þá er efnt til atkvæðagreiðslu.

Á vef BBC segir um sömu frétt:

The Commons vote was due to be held on 11 December but the PM postponed it once it became clear it would be defeated by a large margin.

Enskan gerir engan mun á atkvæðagreiðslu eða kosningum eins og íslenskan gerir. Þeir sem skrifa í fjölmiðla þurfa að kunna skil á orðum, þekkja blæbrigði málsins.

Tillaga: Greidd verða atkvæði um Brexit-samninginn þriðju vikuna í janúar.

3.

„Samkvæmt tilkynningu Landsbjargar var lítill gönguhópur á ferð þegar tveir aðilar missa fótanna, um er að ræða tvær konur sem runnu niður hlíðina. 

Frétt á visir.is.    

Athugasemd: Þetta er óboðleg málsgrein og, afsakið orðbragðið, bæði blaðamanni og Vísi til hnjóðs.

Ekkert er að því að nota orðatiltækið að missa fótanna, en það merkir að skrika fótur, detta og jafnvel að tapa áttum. Hins vegar er alltaf miklu betra að segja hreint út hvað gerðist. Konurnar duttu. Það er styttra og einfaldara í þessari frétt.

Berum svo saman tillöguna hér fyrir neðan og það sem skrifað var í Vísi. Munurinn er sláandi.

Tillaga: Samkvæmt tilkynningu Landsbjargar var duttu tvær konur í brattri hlíð og runnu niður hana.

4.

„Gleðileg jól til þín, Nonni minn. 

Algengt dæmi um jólakveðju, til dæmis í Ríkisútvarpinu.    

Athugasemd: Hvenær stakk forsetningin „til“ sér inn í jólakveðjur landsmanna? Hér áður fyrr dugði að segja Gleðileg jól, Nonni minn. Aldrei þótti nein ástæða til að gera kveðjuna beinskeyttari með því að segja að hún væri til Nonna nema er vera skyldi hætta á að einhver annar tæki hana til sín. Og þó svo væri, þá eru báðir, sendandi og móttakandi, skaðlausir?

Sumir orða nýárskveðjuna þannig:

Fjölskyldan í Málvilluhólum, gleðileg nýtt ár til ykkar. 

Hér gildir það sama. Þegar einhver býður gleðilegt ár vita allir sem hlut að eiga við hvern er átt og þar að auki, eins og fyrr sagði, er allt í lagi þó kveðjan fari út um allar koppagrundir og þúsundir taki hana til sín. Enginn skaði að slíku.

Gömul kona í Hlíðunum sendi öllum landsmönnum óskir um gleðilegt jól og farsælt komandi ár. Henni datt ekki í hug að segja: Gleðileg jól og farsælt komandi ár til allra landsmanna.

Og á nýársdag glumdu ákveðjur á Rás eitt:

Óskum viðskiptavinum okkar gleðilegs árs og farsælt komandi ár.

Þetta fannst mér óþarfa endurtekning. Betur fer á því að segja: Óskum viðskiptavinum okkar gleði og farsældar á komandi ári. Vörumst tuð og tvítekningar.

Munum, þegar við viljum senda afmæliskveðju að segja einfaldlega til dæmis svona. Bestu afmæliskveðjur, elsku Stína. Ekki segja: Bestu afmæliskveðjur til þín, elsku Stína.

Tillaga: Gleðileg jól, Nonni minn.

5.

„Arsenal hefndi fyrir skellinn gegn Liverpool. 

Undirfyrirsögn á bls. 2 í íþróttablaði Morgunblaðsins 2.1.2019.    

Athugasemd: Nei, mikið déskoti varð nú blaðamanninum hér fótaskortur á tölvuborðinu.

Skamma stund verður hönd höggi fegin, segir í fornu riti. Í þeim og fjölda annarra sem síðan hafa verið rituð er hefndin til umfjöllunar í einni mynd eða annarri, maður er drepinn og annar í hefnd fyrir hann. Oft sjá menn eftir að hafa hefnt sín. Löngu síðar etja ensku sparkliðin Liverpool og Arsenal kappi og hið fyrrnefnda vinnur með fimm mörkum en hitt skorar aðeins eitt mark.

Nokkrum dögum síðar leikur Arsenal við Fulham og skorar fjögur mörk en fær á sig eitt. Þetta kallar Mogginn hefnd „fyrir skellinn gegn Liverpool“. Hann gæti ekki verið fjarri raunveruleikanum.

Arsenal getur ekki hefnt fyrir tap sitt gegn Liverpool nema leika aftur við sama lið. Hefndin hefur ekkert gildi gegn Fullham, sem er algjörlega óskylt, óháð og ótengt fótboltafélaginu við Lifrarpoll.

Á malid.is segir um hefnd:

svara (e-i misgerð) með líkum hætti
hún hefndi niðurlægingar sinnar grimmilega
hann greip vopn til að hefna bróður síns
hefna sín
  hafa beðið ófarir og þurfa að hefna sín
eiga harma að hefna
  hafa beðið ófarir og þurfa að hefna sín

Hvað á þá blaðamaðurinn við? Jú líklega má segja að Arsenal hafi náð að rétta hlut sinn eftir tapið á móti Liverpool, fengið uppreista æru sína eða rétt úr kútnum. Það síðastnefnda er skást, held ég.

Hins vegar má segja að hafi Arsenal náð fram hefndum gegn Fulham því þann 7. október í haust tapaði það, fékk á sig fimm mörk en skoraði aðeins eitt. Þetta yfirsást blaðamanni Moggans. Við, stuðningsmenn við Arsenal, teljum það alvarlegt að ekki einu sinni er minnst á það. Enn á þó félagið harma að hefna eftir tapið fyrir Liverpool. Kemur síðar.

Tillaga: Arsenal náði að úr kútnum eftir skellinn við Liverpool.

 


Mitt Romney sendir Trump skýr skilaboð

A president should demonstrate the essential qualities of honesty and integrity, and elevate the national discourse with comity and mutual respect.

As a nation, we have been blessed with presidents who have called on the greatness of the American spirit. With the nation so divided, resentful and angry, presidential leadership in qualities of character is indispensable. And it is in this province where the incumbent’s shortfall has been most glaring.

Ofangreint eru úr grein Mitt Romney fyrrverandi forsetaframbjóðanda Repúblikanaflokksins og verðandi öldungadeildarþingmann, sem hann birti í Washington Post og vísað til í frétt á mbl.is

Greinin er áhugaverð því í henni koma að miklu leyti fram þær áhyggjur sem almenningur, jafnt utan og innan Bandaríkjanna, hefur haft af þróun mál vegna stefnu og framkomu forsetans. 

Margir halda að gagnrýni á Trump komi fyrst og fremst frá „vinstri sinnum“ í Bandaríkjunum og fjölmiðlum þeim tengdum. Að hluta til er það rétt en fleiri taka nú til máls. Hér ber þess að geta að „vinstri sinnar“ þar í landi eru mjög hægri sinnaðir á evrópskan mælikvarða. 

Seint verð ég talinn vinstri maður en mér eins og svo mörgum öðrum hefur ofboðið hegðun og talsmáti forseta Bandaríkjanna. Í greininni segir:

The world is also watching. America has long been looked to for leadership. Our economic and military strength was part of that, of course, but our enduring commitment to principled conduct in foreign relations, and to the rights of all people to freedom and equal justice, was even more esteemed. Trump’s words and actions have caused dismay around the world.

In a 2016 Pew Research Center poll, 84 percent of people in Germany, Britain, France, Canada and Sweden believed the American president would “do the right thing in world affairs.” One year later, that number had fallen to 16 percent.

Vel má vera að efnahagur Bandaríkjanna standi betur en áður en líklega er það þrátt fyrir Trump. Fátt bendir til þess að stefna hans geri neitt annað en að sundra þjóðinni og um leið splundra þeirri samstöðu sem verið hefur á Vesturlöndum í áratugi, meðal annar vegna forystu Bandaríkjanna.

Um þetta segir Mitt Romney í greininni: 

This comes at a very unfortunate time. Several allies in Europe are experiencing political upheaval. Several former Soviet satellite states are rethinking their commitment to democracy.

Some Asian nations, such as the Philippines, lean increasingly toward China, which advances to rival our economy and our military.

The alternative to U.S. world leadership offered by China and Russia is autocratic, corrupt and brutal.

Þetta er alveg rétt og raunar aldeilis hrikalegt að horfa upp hvernig Trump hefur ráðist gegn samstarfsríkjunum Bandaríkjanna í Nató og jafnvel leiðtogum einstakra ríkja.

Staðan er sú að Demókratar hafa náð meirihluta á fulltrúaþingi Bandaríkjanna en  Repúblikanar með eru með meirihluta í öldungadeildinni. Með grein Mitt Romney hefur hann sent Trump merkileg skilaboð. Hann getur ekki treyst því að öldungadeildin fari eftir duttlungum hans og hentistefnu. Romney skrifar þetta:

Furthermore, I will act as I would with any president, in or out of my party: I will support policies that I believe are in the best interest of the country and my state, and oppose those that are not. I do not intend to comment on every tweet or fault.

But I will speak out against significant statements or actions that are divisive, racist, sexist, anti-immigrant, dishonest or destructive to democratic institutions.

Má vera að nú birti bráðum upp í heimsmálunum því Trump þarf greinilega að vanda sig ætli hann að geta reitt sig á Repúblíkana. Af reynslunni að dæma er þó einsýnt að Trump mun halda áfram að klúðra málum.


mbl.is „Trump hefur hrætt heimsbyggðina“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband