Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2019
Enn kraumar í bergganginum hans Bárðar
31.1.2019 | 15:55
Eitt af fjölmörgu athyglisverðu við gosið í Holuhrauni var berggangurinn sem lá frá Bárðarbungu og út á Flæður Jökulsár á Fjöllum. Í fimm mánuði dældi Bárður kviku eftir honum og úr varð hraunflæmi sem að lokum reyndist vera um 85 ferkm sem er nærri fjórum sinnum stærra en kom upp í gosinu á sömu slóðum 1797.
Enn virðist hraungangurinn vera virkur ef draga má þá ályktun af tíðum jarðskjálftum í honum öllum. Líklega er kvika enn að brjóta sér leið en þrýstingurinn er enn ekki nægur til að úr verði eldgos.
Skrýtnasta við kvikustreymið frá Bárðarbungu er að í fyrstu stefndi berggangurinn til suðausturs en tók síðan furðulega krappa beygju til norðausturs og þaðan út á Flæður. Jarðfræðingar hafa mikið pælt í þessu og ein skýringin er sú að kvikan hafi lent á fyrirstöðu þarna suðvestan við Bárðarbungu sem hún komst ekki í gegnum.
Þegar þetta gerðist merktu jarðvísindamenn breytingar í Kverkfjöllum eins og oft gerist þegar eldgos er í vændum. Þá lifnaði yfir Kverkfjöllum, segja þeir.
Svo mikill hafi þrýstingurinn verið að leið opnaðist til norðausturs, hugsanlega í eða við gamla bergganginn frá því 1797. Um leið dofnaði aftur yfir Kverkfjöllum en mælar í nágrenninu bentu til færslu kvikunnar til norðausturs. GPS staðsetningarmælar sýndu hreyfingu á landi, til dæmis í Vonarskarði og á Grímsfjalli.
Á þessum tíma héldu vísindamenn að eldgos brytist upp úr Dyngjujökli sem hefði verið frekar slæmt. Þá yrði öskugos og flóð í Jökulsá á Fjöllum.
Allir vörpuðu öndinni léttar þegar gangurinn náði norður fyrir Dyngjujökul. Gos á Flæðunum var besti staðurinn fyrir eldgos, raunar besti staður landsins fyrir slíkar náttúruhamfarir.
Nú segja menn að berggangurinn hafi hugsanlega beygt vegna þess að hann fylgdi landslaginu, átti auðveldara með að brjóta sér leið ef því hallaði. Ástæðan fyrir því að eldgosið úr ganginum varð á Flæðunum er einfaldlega vegna þess að þangað komst kvikan auðveldlega en réði ekki við hallann upp í Dyngjufjöll.
Efsta myndin sýnir jarðskjálfta undanfarna daga nákvæmlega á þeim stað þar sem berggangurinn breytti um stefnu og fór í norðaustur. Þeir benda til þess að þar undir kraumi kvika.
Miðmyndin er yfirlit yfir skjálfta frá 16. ágúst 2014 og eru litirnir samkvæmt dagakvarðanum hægra megin. Gosið hófst rétt eftir miðnætti 29. ágúst. Efstu tvær myndirnar eru fengnar af vef Veðurstofu Íslands.
Neðst er þversnið af legu berggangsins og eftir Magnús Tuma Guðmundsson, jarðeðlisfræðing. Litla myndin ef sýnir stefnur berggangsins úr lofti.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Orðaleppar, aðhlynntur og vopnað hugarfar
31.1.2019 | 11:08
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.
Ljótir orðaleppar
Ég er málvöndunarmaður í hófi, en stundum fer þó orðalag í taugarnar á mér. [ ] Þess vegna varð ég svolítið glaður þegar ég sá rithöfundinn Hermann Stefánsson taka þetta upp á Fésbókinni í dag:
Óskaplega eru þeir ljótir þessir orðaleppar hjólar í og drullar yfir. Í þeim er einhver asnaleg heimsmynd þar sem fólk stendur í eilífum hanaslag, hjólar um allt með hetjusvip og drullar með ekki minni svip.
Af hverju má ekki segja gagnrýnir harðlega eða vegur að hugmyndum eða átelur, finnur að, tekur til bæna, setur ofan í við, hæðist að eða bara gagnrýnir? Jafnvel sproksetur eða sallar niður ef menn vilja hafa það sterkt?
Mætti vinsamlegast breyta þessu? Ókei. Takk fyrir.
Silfur Egils. Egill Helgason, 17.11.2015.
1.
Nemar undir álagi bjargi sér með lyfjum.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Þegar sagnorð er notað í viðtengingarhætti í germynd, á eins og gert er í fyrirsögninni á Moggavefnum, þá virkar hún stundum þveröfugt við það sem ætlast er til. Ég skil hana þannig að skorað sé á námsmenn að þeir bjargi sér með því að taka lyf. Viðtengingarhátturinn er stundum vandmeðfarinn.
Staðreyndin virðist hins vegar vera allt önnur samkvæmt fréttinni. Sumir námsmenn misnota lyf sem nefnd eru, halda að þau auki námsárangur. Einnig eru margir í vinnu með námi sem eykur álagið og þar af leiðandi er gripið til lyfja svo þeir þoli álagið.
Í tillögunni hér fyrir neðan er annarri sögn bætt við til þess að málsgreinin gefi ekki til kynna að lyfin séu einhver töfralausn.
Tillaga: Nemar undir álagi reyna að bjarga sér með lyfjum
2.
Samkvæmt Páli liggur umræddur nemandi nú heima fótbrotinn, sárkvalinn og illa aðhlynntur.
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Sögnin að hlynna merkir að styðja eða hlúa að. Hlynna að þýðir að hjálpa aðstoða eða hlúa að.
Aðhlynna er ekki til, hvorki sem sögn eða eitthvað annað. Allir sem hafa sæmilegan orðaforða vita þetta. Villan er slæm hjá DV og þar á bæ þurfa blaðamenn að taka sér tak og ekki síður ritstjórnin.
Hér er dálítill fróðleikur. Á malid.is segir:
hlunnur [...] viðarkefli (eða hvalbein) til að setja bát eftir; bátsskorða; handfang á ár ...
hlynna s. leggja hlunna undir bát; styðja, liðsinna, hlúa að, vera hlynntur ...
Forðum drógu menn báta sína upp í fjöru á hlunnum, sem voru sívalir viðarbolir. Þeir rúlluðu með bátnum og þá varð viðnámið minna. Þar sem ég var í sveit lagði bóndinn hins vegar árarnar í fjöruna og svo hjálpuðumst við að draga eða ýta bátnum upp á öruggan stað.
Vildu menn að bátar stæðu voru þeir skorðaðir, hlynntir.
Í dag er fólk hlynnt (lýsingarorð) eða mótfallið einhverju, sumir hlynntari og jafnvel kann að vera að meirihlutinn sé hlynntastur því að hlynna að sjúkum, veita aðhlynningu.
Á skattframtali þarf hver og einn að telja fram þau hlunnindi sín og eru þau skattlögð samkvæmt ákveðnum reglum. Önnur hlunnindi þarf ekki að telja fram, til dæmis rekavið, húsnæði sem liggur vel við sólu (sól), berjaland og svo framvegis.
Svona breytist málið og gömul orð fá nýja merkingu.
Tillaga: Páll segir að umræddur nemandi liggi fótbrotinn heima, sárkvalinn og án nauðsynlegrar aðhlynningar.
3.
Með hugarfar sigurvegara að vopni.
Fyrirsögn á blaðsíðu 4 í íþróttablaði Morgunblaðsins 31.1.2019.
Athugasemd: Eftir að hafa lesið þessa fyrirsögn datt mér í hug hvort hægt sé að oforða hlutina. Ég fletti orðinu samstundis upp og komst að því að það er ekki til. Hins vegar er í orðabók að oftala (of-tala ekki oft-ala, sem er ábyggilega eitthvað annað sem og of-ala). Oft eru mál rædd út í hörgul en stundum eru þau oftöluð. Flestir þekkja stjórnmálamanninn sem oftalar allt en segir í raun ekkert merkilegt.
Fréttin í íþróttablaðinu er vel skrifuð og upplýsandi en ég velti því samt fyrir mér hvort ekki hefði verið beittara að nota tillöguna hér fyrir neðan sem fyrirsögn. Ástæðan er einfaldlega sú að hún segir nóg, hugarfar sigurvegarans er alltaf vopn hvernig sem á það er litið.
Skilningur lesandans á rituðu máli byggir á stílnum. Sumt þarf ekki að orða, það liggur oft í augum uppi án þess að umræðuefnið sé tíundað í ræmur eins og sagt er.
Tillaga: Hugarfar sigurvegarans.
4.
Fyrirtækið er með starfsmenn með fjölbreytta menntun og reynslu sem getur séð um allar viðgerðir fasteigna.
Seld kynning á dv.is.
Athugasemd: Flestir fjölmiðlar selja pláss til að eiga fyrir útgjöldum. Þetta eru auglýsingar, stundum kallaðar fréttir en einnig kynning og þannig er það hjá DV.
Málsgreinin hér fyrir ofan er klúður. Blaðamaðurinn hefði átt að umorða hana. Þarna segir að fyrirtækið sé með starfsmenn með fjölbreytta Nástaðan sem og orðalagið er algjör óþarfi og auðvelt að laga.
Ég velti því fyrir mér hvort þarna sé sagt, að það sé fyrirtækið sem geti séð um viðgerðir eða starfsmennirnir. Tilvísunarfornafnið sem bendir til starfsmannanna en sögnin getur er í eintölu og á þá við fyrirtækið.
Tillaga: Starfsmennirnir hafa bæði fjölbreytta menntun og reynslu. Þeir geta séð um allar viðgerðir fasteigna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Féflettir, handsömun og frákastahár
29.1.2019 | 10:57
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.
Ekki lengur þjófur heldur
Málið er yfirfullt af nýsmíðum sem leysa eiga hin gömlu og grónu orð af hólmi. Gallinn er bara sá að nýju orðin eru oft óþörf með öllu, stundum kauðalega samsett orð (eins og að hlýðniþjálfa). [ ]
Mér dettur þá í hug orðið þjófur sem lengi þótti gott og gilt er fjallað var um þá sem tóku eitthvað ófrjálsri hendi. En það var í gamla daga. Ég tek eftir því að hinir stórtækustu þjófar eru ekki sæmdir þeirri nafnbót nú um stundir, heldur þeim valin önnur orð auk þess sem glæpirnir eignast ný hugtök. Nú nýverið sá ég eitt slíkt, nýyrðið féflettir.
Tungutak í Morgunblaðinu 8. janúar 2012. Höfundur pistilsins er Þórður Helgason.
1.
Fjallskilanefnd og yfirmenn þjóðgarðs munu funda í vikunni og skipuleggja handsömun á þessum rollum.
Frétt á blaðsíðu 9 í Morgunblaðinu 28. janúar 2019.
Athugasemd: Þetta er haft eftir sveitastjóra Bláskógabyggðar. Þetta er vont mál. Enginn talar um skipulagningu á handsömun fjár. Þetta er hlægileg stofnanamállýska en um leið hálfrotin, myndi sóma sér betur í skaupi eða spaugstofu en í daglegu lífi.
Við þetta má því bæta að ég hef lengi haft áhyggjur af orðinu handsama. Held að það sé ekki gamalt, líklega dregið af því að leggja hendur saman og setja járn á þær, handjárna. Sé þetta rétt er erfitt að handsama dýr.
Árið 2013 fékk ég póst frá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Málstöð. Í honum fékk ég svar við þessum vangaveltum mínum um sögnina að handsama og þar segir.
Elstu dæmi um þessa sögn í ritmálssafni Orðabókar Háskólans eru frá 18. öld og eru notuð um að grípa/fanga dýr (t.d. fé, hesta). Sjá hér (linkurinn virðist óvirkur).
Sú merking sem þú nefnir, þ.e. að leggja saman hendur, getur því varla verið upprunaleg.
Í helstu orðsifjabókum er ekki fjallað um uppruna þessarar sagnar og ég get því miður ekki veitt meiri upplýsingar um hann.
Þetta er nokkuð afgerandi svar frá Jóhannesi B. Sigtryggssyni. Hins vegar væri gaman að heyra frá lesendum um þetta.
Tillaga: Fjallskilanefnd og yfirmenn þjóðgarðs munu funda í vikunni og ákveða hvenær fénu verði smalað.
2.
Rochford hefur átt mjög góða leiki með Þórsliðinu
Frétt á blaðsíðu 3 í íþróttablaði Morgunblaðsins 29. janúar 2019.
Athugasemd: Betra hefði verið ef íþróttablaðamaður Morgunblaðsins hefði skrifað í staðinn eins og tillagan hér fyrir neðan er. Hann á að gera betur enda alvanur blaðamaður og skrifari.
Um það snýst íslensk mál að nota sagnorðin sem mest, ekki skrifa íslenska ensku. Sá sem á góðan leik leikur vel. Hið síðarnefnda er mun læsilegra og skýrara.
Síðar í fréttinni segir blaðamaðurinn aftur að leikmaður hafi átt jafna og góða leiki . Líklega er átt við að hann hafi alltaf leikið vel.
Enn er ástæða til að hnýta í fréttina, í henni segir:
í hópi frákastahæstu leikmanna deildarinnar, ásamt því að skila stöðugt sínu í öðrum þáttum leiksins
Niðurlagið eftir kommuna er stíllaust, eiginlega hálfgerður bastarður. Engu líkar en að blaðamaðurinn hafi orðið uppiskroppa með hól í umfjölluninni eða ákveðið að stytta fréttina. Án efa er átt við að leikmaðurinn hafi alltaf spilað vel, jafnt í vörn sem sókn.
Aldrei hef ég heyrt lýsingarorðið frákastahár. Illt væri ef frákastahái væri lágvaxinn. Eða hvernig er frákastahár á litinn? Grínlaust lýsi ég hér með þeirri skoðun minni að orðið er drasl og á að fara í ruslið þar sem fyrir eru ómeti eins og íþróttablaðamannsskrif og lærisveinar í merkingunni leikmenn þjálfara.
Tillaga: Rochford hefur leikið mjög vel með Þórsliðinu
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Nafnorðavæðingin og léleg landafræði
27.1.2019 | 17:44
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.
1.
Þessir aðilar lýstu yfir áhuga á að fá þetta mat vegna þess árangurs sem hefur náðst í öðrum löndum, segir Thiemann við Morgunblaðið, sem sló á þráðinn til höfuðstöðva OECD við Boulogne-skóginn í París en OCED mun ásamt innlendum sérfræðingum framkvæma matið í samtali við hagsmunaaðila.
Frétt í Morgunblaðinu.
Athugasemd: Þetta er alltof löng málsgrein, sex ólíkar setningar. Þarna er þörf fyrir punkt og jafnvel að umorða hana.
Hafi Thiemann rætt við Morgunblaðið er óþarfa málalenging segja að blaðið hafi hringt til OECD, það liggur í orðunum. Engu skiptir hvernig viðtalið var tekið. Flestir vita hvar höfuðstöðvar samtakanna eru, óþarfi að pota þessum gagnslausu upplýsingum inn í málsgrein sem fjallar um allt annað.
Svo er sagt að matið sé framkvæmt í samtali við aðra? Hvað er þá átt við? Samvinnu?
Blaðamenn eru afar áhugasamir um nafnorðavæðingu málsins. Í tilvitnuninni þarf endilega að framkvæma mat, ekki meta.
Við sem skrifum mikið lendum oft í því rugli að misnota persónufornafnið það og ábendingarfornafnið sá. Segjum vegna þess árangurs ekki vegna árangurs, sem er oftast miklu einfaldara og eðlilegra. Við segjum þetta mat í stað þess að segja bara matið.
Ég viðurkenni að ég geri þetta oft, rétt eins og blaðamaðurinn sem skrifaði orðin (ekki þessi orð) hér fyrir ofan.
Gott er að hafa í huga að skrif byggjast ekki síst á stíl. Orðaval og orðanotkun getur æði oft orkað tvímælis en um leið er óskaplega fróðlegt að velta fyrir sér hugsanlegum möguleikum.
Tillaga: Áhugi er á að fá matið sem hefur nýst vel í öðrum löndum, segir Thiemann við Morgunblaðið. OCED mun vinna það ásamt innlendum sérfræðingum og í samráði við hagsmunaaðila.
2.
Snarpur skjálfti við Hrafntinnusker fannst í Fljótshlíð
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Landafræðin vefst stundum fyrir blaðamönnum Vísis. Jarðskjálftinn var um þrettán km frá Álftavatni sem er nú talsvert lang. Frá Hrafntinnuskeri eru tæpir níu km að upptökunum sem líka er slatti, að minnsta kosti fyrir mig sem hef gengið þarna með þungan bakpoka.
Hins vegar er aðeins um einn km frá Dalakofanum að skjálftaupptökunum.
Fáir blaðamenn myndu segja að umferðaóhapp við tónleikahúsið Hörpu hafi verið við Rauðavatn. Þangað eru þó tæpir níu km. í beinni loftlínu, svipað og á milli Hrafntinnuskers og stóra jarðskjálftans.
Blaðamaðurinn hefði auðveldlega getað fundið gögn um skjálftann, þau eru birt á vef Veðurstofunnar og víðar. Þess í stað birtir hann gagnslaust Google-kort sem sýnir hvar skáli Ferðafélagsins er við Hrafntinnusker. Frekar er þetta nú máttlaus afgreiðsla.
Tillaga: Engin.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Takklæti eða þakklæti ... á hádegiverði eða í hádegisverði
25.1.2019 | 14:42
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.
1.
Öldungadeildarþingmenn Repúblikanaflokksins deildu sín á milli á hádegisverði í aðdraganda atkvæðagreiðslu
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Má vera að þetta sé algjört smáatriði en réttara er að segja að þeir hafi deilt í hádegisverði. Veiti ekki hvað það þýðir þegar forsetningin á er notuð um hádegisverðinn.
Nokkur munur er á sögnunum að deila og rífast. Hið fyrrnefnda merki þræta en hið síðara er orðasenna sem er nokkuð óvægnari en deila. Blaðamaðurinn gerir hins vegar engan greinarmun á orðunum. Fyrst í stað talar hann um deilur svo voru þingmennirnir að rífast. Þetta eru slæm vinnubrögð og fyrir vikið verður fréttin ekki trúverðug.
Á vefmiðli Washington Post segir er enska sögnin clash notuð. Hún getur vissulega þýtt deilur. Orðabókin segir:
confrontation, angry exchange, shouting match, war of words, battle royal, passage of arms; contretemps, quarrel, difference of opinion, disagreement, dispute
Síðar í ensku fréttinni er talað um argument sem líka má þýða sem deilur en varla rifrildi.
Hafi þingmennirnir deilt þá var það þeirra á milli, þetta var lokaður hádegisverðarfundur.
Í fréttinni stendur þetta líka:
Þegar fréttamaður benti honum á að það vinna, því annars yrðir þú rekinn, væri ekki að bjóðast til að vinna
Þetta er óskiljanlegt. Hins vegar skildi ég málsgreinina með því að lesa mynd af Twitter-færslu sem fylgdi fréttinni. Mér finnst blaðamaðurinn þurfi að vanda sig betur. Hvað eftir annað birtir hann skemmdar fréttir. Allir eiga að lesa yfir skrif sín og vera um leið frekar gagnrýninn. Í fréttinni eru margar leiðinlegar villur og klúðurslegt orðalag.
Tillaga: Öldungadeildarþingmenn Repúblikanaflokksins deildu í hádegisverði í aðdraganda atkvæðagreiðslu
2.
Takklæti í tíu ár, <3 #10ychallangeaccepted
Auglýsing í tölvupósti frá Nóva.
Athugasemd: Hvernig má það vera að stórt og öflugt fyrirtæki sem býður Íslendingum þjónustu geti ekki notað íslensku í auglýsingum sínum? Takklæti er bull, orðið er ekki til. Jafnvel léleg íslensk leiðréttingaforrit gera athugasemd við orðið.
Tölvupósturinn er ótrúleg vanvirðing við íslenskt mál. Það sem stendur eftir kommuna er óskiljanlegt.
Textinn í auglýsingin er svona:
Við erum stolt, glöð, ánægð, hrærð, uppveðruð og kát, en fyrst og fremst endalaust þakklát ykkur, viðskiptavinum Nova, fyrir öndvegiseinkunn í Íslensku ánægjuvoginni. Viðskiptavinir Nova eru ánægðustu viðskiptavinirnir í farsímaþjónustu, tíunda árið í röð. Takk.
Mér finnst tölvupósturinn ekki sýna viðskiptavinum Nóva, neitt þakklæti, þvert á móti. Í auglýsingunni er bull og skelfileg nástaða.
Af hverju er ekkert samræmi; takklæti í fyrirsögn en þakklæti í texta? Þetta er ekki einu sinni fyndið eða svalt. Fyrirtæki eiga ekki að verja fé og vinnu fólks í að misþyrma íslenskunni, hún á við nægan vanda að etja svo þetta bætist nú ekki við.
Íslendingar ætlast til þess að fyrirtæki hafi samskipti við þá á íslensku. Punktur.
Hér er ekki úr vegi að ræða um þakkir. Langt er síðan við tókum upp í íslensku danska orðið takk. Í Málfarsbankanum segir:
Sumir hafa amast við orðunum takk fyrir vegna danskra áhrifa. Benda má á þökk fyrir eða þakka þér fyrir í þeirra stað.
Frekar er mælt með því að segja eiga þakkir skildar en eiga þakkir skilið enda þótt hið síðarnefnda sé einnig tækt.
Samkvæmt íslenskri orðsifjabók er nafnorðið þökk náskylt tøkk á færeysku, takk á nýnorsku, tack á sænsku og tak á dönsku. Á þýsku er samstofna orðið danke og thank(s) á ensku.
Mjög sjaldgæft er að einhver segir: Þökk fyrir, miklu frekar takk fyrir. Hins vegar er nafnorðið þakklæti alltaf notað, enginn asnast til að segja takklæti, nema Nóva.
Tillaga: Þakklæti í tíu ár.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.1.2019 kl. 16:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Gjafir fyrir bónda á einum tímapunkti ...
25.1.2019 | 09:57
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.
1.
Það vakna spurningar um hvað það merkir að vera fjölskylda og á einum tímapunkti segir Nobuyo: Stundum er betra að velja sér fjölskyldu.
Kvikmyndagagnrýni á blaðsíðu 71 í Morgunblaðinu 24.1.2019.
Athugasemd: Hér hefur áður verið agnúast dálítið út í orðið tímapunktur. Enn skal það fullyrt að það er óþarft í flestum þeim tilvikum sem ég hef fundið. Veltum fyrir okkur hvað punktur í tíma þýðir. Er það sekúnda eða eitthvað lengra eða skemmra? Hversu langur getur tímapunktur verið, er hægt að teygja á honum? Getur hann verið einn dagur, vika eða mánuður? Sé orðið svo sveigjanlegt stendur það varla undir nafni.
Í staðinn má nota ýmis orð og orðasambönd eins og eitt skipti, einu sinni, þá, þegar og í þessu tilviki má nota á einum stað í kvikmyndinni.
Ofangreind tilvitnun er frekar illa skrifuð, hefði mátt vanda orðalagið. Byrjun málgreinarinnar er líka óvönduð; það vakna það merkir . Höfundurinn getur greinilega skrifað ágætan texta er smávægilegir gallar eru áberandi.
Tillaga: Í myndinni eru vangaveltur um hvað fjölskylda sé. Í eitt skipti segir Nobuyo: Stundum er betra að velja sér fjölskyldu.
2.
Gjafir fyrir alla bónda!
Fyrirsögn í tölvupósti frá skor.is.
Athugasemd: Já, ég fæ stundum tilboð frá skor.is, ekki skora heldur skór. Þetta er netverslun sem er hluti af stórri verslunarkeðju sem selur margvíslegan skófatnað, til dæmis Ecco skó sem eru alveg ágætir.
Mér snarbrá auðvitað við þennan póst. Höfundur hans virðist ekki kunna að beygja algengt íslenskt orð, bóndi. Síðast þegar ég vissi beygðist það svona í eintölu: bóndi, bónda, bónda, bónda. Í fleirtölu: Bændur, bændur, bændum til bænda (fleirtalan er ekki svona en þetta er samt fyndið: Bóndar, bónda, bóndum, bónda)
Fyrirsögnin á við fleirtölu í þolfalli, því ræður forsetningin.
Höfundurinn gæti verið fullorðinn og haft í huga bóndadaginn, sem er í dag. Hugsanlega er þetta villa sem verður til þegar verið er að prófa sig áfram með fyrirsögn og svo gleymist að klára hana. Slíkt kemur fyrir besta fólk.
Nafnorðasýki er það kallað þegar höfundur texta gleymir að fallbeygja nafnorð og hefur þau í nefnifalli.
Ég velti því fyrir mér hvort höfundurinn hafi ætlað að komast hjá því að nefna bændur í merkingunni búmenn, þeir séu ekki markhópurinn heldur bændur sem eiginmenn (sem vissulega má segja að séu búmenn, ráða fyrir búi sínu, heimilinu).
Hver meðalmaður veit hvernig orðið bóndi fallbeygist skrifað og hann hefði líka getað skrifað: Gjafir fyrir alla á bóndadaginn.
Þetta er nú ekki allt. Pósturinn er alveg kostulegur. Í honum segir:
Í tilefni þess tókum við saman vinsælustu vörurnar akkúrat núna og bjóðum þér á geggjuðum afslætti!
Vinsælustu vörurnar hitta alltaf í mark! - og þær eru hér:
- Klikkaðu hér fyrir bóndann sem fer á skíði, í göngu og fílar almenna útivist
- Klikkaðu hér fyrir bóndann sem sinnir erindum á malbikinu
- Klikkaðu hér fyrir bóndann sem fer á æfingu
Akkúrat hélt ég að væri því sem næst útdautt orð, að minnsta kosti í ritmáli. Í talmáli var það einu sinni svo óskaplega algengt að sá sem var sammála síðasta ræðumanni kinkaði kolli og sagði í skilningsríkum tón; akkúúúrad ... og ekkert meira þann daginn.
Fótboltalýsandi á Stöð2 hefur vandi sig á að kalla allt sem vel er gert í boltanum geggjað; skoruð mörk, sendingar, einleik og annað skemmtilegt. Mörgum þykir hljómurinn í þessu orð ansi geggjaður og töff og er það nú notað í tíma og ótíma, rétt eins og að fyrir nokkru gat svo margt verið brjálað, geðveikt og ekki má gleyma sjúkt. Svona orð fara smám saman í geggjuðu glatkistuna þar sem framliðin orð hvíla, til dæmis spældur, truflaður, skvæsinn, dsísös, kommon og fleiri og fleiri.
Sögnin að klikka er svo sem í lagi en ofnotkun á henni eins og þarna virkar dálítið, tja ... klikkuð að mínu mati.
Tillaga: Gjafir fyrir alla bændur!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Biðla eða biðja, tjónvaldur og ónæðisvaldur
23.1.2019 | 11:34
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.
Bónið eða bænin
Enginn fór bónlaus frá henni var sagt um greiðvikna konu. Ekki verið að sjá eftir bóninu þar.
En grínlaust: bón er þarna bæn, beiðni og að fara bónleiður til búðar er að fara erindisleysu.
Maður leitar til manns, biður hann bónar, er neitað og fer heim (til búðar) bónleiður, þ.e. óbænheyrður.
Málið á blaðsíðu 28 í Morgunblaðinu 22.1.2019
1.
Kyngir niður snjó á höfuðborgarsvæðinu.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Þegar setning byrjar á sagnorði býst lesandinn við því að um spurningu sé að ræða. Svo er ekki, hér er um fullyrðingu að snjó kyngi niður.
Held þó að víðar hafi snjóað um sunnan og vestanvert landið en blaðamaðurinn heldur.
Tillaga: Snjó kyngir niður á höfuðborgarsvæðinu.
2.
Rithöfundur í fyrsta sinn valinn.
Fyrirsögn á blaðsíðu 12 í Morgunblaðinu 21.1.2019.
Athugasemd: Í íslensku getur sagnorð staðið nokkuð víða í setningu en útkoman er ekki alltaf góð.
Sögnin í fyrirsögninni hér að ofan er aftast í setningunni, sem er vont. Hún hljómar illa og þá efast oft lesandinn um fréttina og flettir bara blaðinu áfram án þess að lesa hana.
Hér er lítill leikur. Hvar er hægt að setja sagnorðið:
- Rithöfundur í fyrsta sinn valinn.
- Rithöfundur í fyrsta valinn sinn.
- Rithöfundur í valinn fyrsta sinn.
- Rithöfundur valinn í fyrsta sinn.
- Valinn rithöfundur í fyrsta sinn.
Sumir þessara kosta geta gengið, aðrir eru bull. Sá þriðji bendir til þess að rithöfundurinn sé dáinn, hafi fallið í valinn (nafnorð) (vantar þó eitt í). Hlýtur að vera eftirsóknarvert geta fallið í valinn oftar en einu sinni.
Tillaga: Rithöfundur valinn í fyrsta sinn.
3.
Danska ríkisútvarpið hefur eftir lögreglunni að einstaklingurinn sem lést hafi reynt að forðast eldsvoðann með því að stökkva út um gluggann af fjórðu hæð.
Frétt á vef Ríkisútvarpsins.
Athugasemd: Maður er vissulega einstaklingur og bæði orðin geta átt við karl og konu. Lítil hefð er fyrir því að tala um einstakling.
Á vef Danmarks Radio, DR, segir:
- Personen sprang ud fra et vindue i fjerde sals højde. Ambulancefolk fandt vedkommende liggende i kritisk tilstand, og kort efter erklærede en læge personen for død, siger vagtchef Henrik Moll.
Danir tala um en person, persónu, sem við notum sjaldan. Fréttamaðurinn veit ekki alveg hvernig hann á að þýða og grípur því til þess ráðs að tala um einstakling. Það getur svo sem verið í lagi en er ekki algengt. Í dönsku fréttinni kemur ekki fram hvort sá sem dó hafi verið karl eða kona.
Ég er ekki mjög klár í dönsku en getur verið að það sem Danir kalla fjerde sal sé fimmta hæð á íslensku? Þetta er dálítið lúmsk spurning vegna þess að ekki telja allir hæðir á sama hátt.
Í Bandaríkjunum er almennt talið að fyrsta hæð sé sú sem gengið er inn í frá götu. Bretar segja sömu hæð vera jarðhæð (ground floor). Í fasteignaauglýsingum hér á landi virðast íbúðir á fyrstu hæð oft sagðar á jarðhæð og þar fyrir ofan er önnur hæð og svo framvegis. Engin verslun virðist þó vera sögð á jarðhæð, þá er talað um fyrstu hæð. Eflaust eru margar undantekningar frá þessu.
Tillaga: Danska ríkisútvarpið hefur eftir lögreglunni að maðurinn sem lést hafi verið að flýja eldinn og því stokkið út um glugga á fjórðu hæð.
4.
Biðla til ökumanna að skafa allan hringinn.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Sögnin að biðla er nátengt orðinu biðill og merkir að biðja sér konu, biðja um hönd hennar. Biðill er sá sem biðlar. Orðið er einnig skylt sögninni að biðja.
Enginn er lengur biðill, ungt fólk þekkir varla orðið. Karlar og konur biðja milliðalaust um hönd þess sem því líst afar vel á. Við feður sitjum uppi með orðin hlut, heimur versnandi fer (hér þyrfti að vera brosmerki svo enginn haldi að þetta sé eitthvað annað en spaug).
Með þetta í huga er varla hægt að segja lögreglan sé á biðilsbuxum, heldur biður hún ökumenn um að skafa glugga bílsins. Skafa hringinn, það skilst alveg og er bara ansi gott.
Merkingin sagnarinnar að biðla hefur ef til vill breyst, en er það réttlætanlegt? Löggan getur eðli máls vegna ekki biðlað, orðið leyfir það ekki. BSRB getur ekki heldur biðlað, ekki Alþingi eða Frímúrar. Sum orð eru bara þannig gerð að merkingunni verður varla breytt. Ekki geta konur kvænst Man í augnablikinu ekki eftir fleiri sagnorðum sem eru svona órjúfanlega tengt öðru kyninu. Þó geta konur verið skipstjórar, stýrimenn, fengið sveinspróf og jafnvel tekið pungapróf. Geta ekki karlar verið ljósmæður, flugfreyjur og hjúkrunarkonur (úbbs þetta má ekki segja)?
Fólk nennir ekki að skafa snjó og ís af öllum gluggum bíla sinna og ekki heldur af fram og afturljósum.
Tillaga: Hvetja ökumenn til að skafa allan hringinn.
5.
Tjónvaldur í vímu og á vanbúnum bíl
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Hvað þykistu eiginlega vera? sögðum við krakkarnir í gamla daga þegar einhver skar sig úr hópnum. Líklega er þetta enn sagt. Þetta datt mér í hug þegar ég las fyrirsögnina því auðvitað flögraði það að mér að þetta orð tjónvaldur væri ættað frá lögreglunni. Hvað þykist hún eiginlega vera?
Löggan er svo klár að finna upp orð og hún skrifar stofnanamállýsku, beitir orðum sem enginn notar. Svona uppskrúfaður texti er frekar leiðigjarn og enn verra er þegar blaðamenn apa hann eftir.
Í stuttu máli er fréttin svona:
Tjónvaldur undir áhrifum vímuefna fékk höfuðhögg er hann hafnaði á ökukennslubifreið en ók af vettvangi á vanbúinni bifreið sinni á hverri hjólbarðar eru ónýtir.
Svona talar löggan. Í endursögn á kaffistofu hjá mér var þetta orðað svona:
Dópaður náungi ók bíl á ónýtum dekkjum á annan. Hann flúði en löggan náði honum skömmu síðar.
Þetta kallast næstum því eðlilegt mál, laust við orðskrúð og rembing.
Fréttin er miklu lengri. Þar er margoft sagt frá aumingjans mönnum sem vistaðir voru í fangageymslu. Einn olli ónæði annar var í annarlegu ástandi. Þegar ég starfaði sem blaðamaður var farið með svona ónæðisvalda og fyllibyttur eða dópista á lögreglustöðina og þar settir í fangelsi, settir inn.
Svo finnst þessi gullna málsgrein í fréttinni:
Margir ökumenn létu ekki slæma færð á höfuðborgarsvæðinu stöðva sig þrátt fyrir að hafa neytt áfengis eða annarra vímuefna áður en lagt var af stað út í umferðina.
Greinilegt er að sumir treysta sér ekki edrú í ófærðina. Er það ekki bara skiljanlegt? Svo er það hitt gullkornið:
Þrír ökumenn voru stöðvaðir í hinum ýmsu hverfum höfuðborgarsvæðisins í nótt og áttu þeir það allir sameiginlegt að vera undir áhrifum fíkniefna.
Þessi málsgrein er hrákasmíði. Á henni má skilja að þessir þrír hafi margsinnis verið stöðvaðir hér og þar en ekki handteknir, teknir aftur og aftur. Líklega er það ekki rétt.
Tillaga: Frábær fyrirsögn.
6.
5 dögum síðan
Fyrirsögn á vef lögreglunnar.
Athugasemd: Vefur lögreglunnar er eflaust ágætur. Hann er samt frekar dönskuskotinn. Fyrir ofan hverja frétt stendur hversu langt síðan hún var birt. Dæmi:
3 dögum síðan
Umferðaróhapp á Kjalarnesi
Þetta gerir danska lögreglan ekki. Á vefsíðu hennar er fréttir en þar er látið nægja að birta dagsetninguna sem er alveg til fyrirmyndar. Væri danska löggan eins og sú íslenska gæti frétt hjá þeim verið svona:
3 dager siden
Politiet går eftir hensynslöse syklister og knallertkorere
Staðreyndin er þessi: Þegar við segjum á íslensku fyrir þrem dögum síðan erum við undir áhrifum af dönsku máli en þar er sagt for tre dager siden.
Merkingin á íslensku breytist ekkert þó við sleppum atviksorðinu síðan. Þar að auki telst réttara mál að segja fyrir þrem dögum.
Niðurstaðan er sú að löggan þarf að lagfæra vefinn sinn, að minnsta kosti að þessu leyti.
Með tilliti til þess sem sagt var í athugasemd fimm mætti löggan líka draga verulega úr stofnanamállýsku sinni, helst sleppa henni alveg.
Tillaga: Fyrir 3 dögum.
Fyrir atvikið hafa þeir liði sálarkvalir ...
21.1.2019 | 11:30
Ekki hvað síst þeir sem það gerðu, eins og þeir hafa viðurkennt afdráttarlaust og beðist fyrirgefningar á af einlægni. Fyrir atvikið hafa þeir enda liðið sálarkvalir og þegar þolað grimmilegri refsingu en nokkur dómstóll myndi telja viðeigandi.
Svo segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður, í grein í Morgunblaði dagsins. Í tveimur málsgreinum kemur hann inn á það sem marga hefur grunað en enginn spurst fyrir um: Hvernig er líðan þessara þingmanna?
Umræðan um vanhugsað drykkjuröfl var heiftarleg og versnaði eftir því sem á leið. Allir þurftu að tjá sig um orð þessara þingmanna og þeim voru valin þau verstu hrakyrði sem hugsast gat.
Auðvitað áttu þeir gagnrýnina skilda en það flögrar engu að síður að manni umræðan hafi verið að stórum hluta óþörf enda oft yfirmátlega skítleg.
Fyrir löngu var nóg komið. Þó bendir margt til þess að fjöldi fólks hafi eingöngu gagnrýnt þingmennina til þess eins að upphefja sjálfa sig, rétt eins og þeir gera, sem teljast virkir í athugasemdum fjölmiðla.
Liðið sálarkvalir ... Stöldrum við eitt augnablik og íhugum þetta.
Hversu lengi skal refsað fyrir orð sem látin voru falla í hugsunarleysi? Hvenær er umræðan orðin að ljótu einelti?
Er ekki meira en nóg þegar sálarheill fólks er í veði?
Getur þú, lesandi góður, fundið til með öðrum eða er þér alveg sama?
Rúll af boltahindrun, vera milli tannanna á fólki og aðskilið mál,
19.1.2019 | 12:28
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.
Skemmra og skemur
Þessar aðgerðir ganga skemur en maður átti von á. Þarna hefði þurft að standa skemmra.
Aðgerðir geta gengið langt eða skammt og þá gengið lengra eða skemmra en vænst var.
Úrbæturnar sem stefnt var að geta hins vegar enst lengur eða skemur en vænst var.
Skemmra um vegalengd, skemur um tíma.
Málið á blaðsíðu 60 í Morgunblaðinu 17.1.2019.
Nefnifallssýki
Nefnifallssýki lætur lítið yfir sér enda hefur ekki verið amast við henni eins mikið og þágufallssýkinni alræmdu (t.d. mér langar í stað mig langar).
Nefnifallssýki er þó talsvert algeng með mörgum sögnum, t.d. úthluta, eins og þegar sagt er aflaheimildir voru úthlutaðar í stað aflaheimildum var úthlutað.
Úr dálkinum Orðtak á blaðsíðu í Morgunblaðinu 19.1.2019.
1.
Dagur Sigurðsson og fallega japanskan hans var mikið á milli tannanna á fólki meðan á leik Íslands og Japan stóð.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Blaðamaðurinn skilur ekki orðasambandið að vera á milli tannanna. Það þýðir ekki einhver sakleysisleg umræða heldur er beinlínis verið að baktala þann sem fyrir verður. Hvernig er hægt að vera blaðamaður og klúðra þessu?
Fólk dáðist að japönskunni hans Dags og hældi honum jafnvel fyrir hana. Ólíklegt er að hann hafi verið baktalaður. Hins vegar eru ekki miklar líkur á því að margir Íslendingar hafi hafi vitað hvort japanskan hans hafi verið fallega eða ekki.
Tillaga: Dagur Sigurðsson og fallega japanskan hans lofuð meðan á leik Íslands og Japan stóð.
2.
Talið er að Lance Armstrong sé í dag metinn á um sex milljarða íslenskra króna.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Stundum er sagt að einhver sé jafnþyngdar sinnar virði í gulli og það er mikið hól, þyngdin er aukaatriði þegar slegnir eru svona gullhamrar.
Hjólreiðakappinn Lance Armstrong er ekki metinn til fjár, hvorki í þyngd sinni né á annan hátt. Hins vegar eru auðæfi hans talin vera um sex milljarðar króna. Það er auðvitað allt annað mál.
Í þessu tilviki er óþarfi að taka það fram að þetta sé auður hans í dag, að öðrum kosti hefði komið fram tilvísun til annars tíma.
Tillaga: Talið er að auður Lance Armstrong sé metinn á um sex milljarða íslenskra króna.
3.
Hafði Seinfeld áhugi þjálfarans áhrif á komu Kramer?
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Ég skildi ekki fyrirsögnina þegar ég las hana fyrst. Þurfti nokkrar atrennur og þá las ég fréttina, en það hefði ég ekki átt að gera. Ég skil hana núna, hún er alls ekki röng mætti vera skárri. Fréttin er hins vegar illa skrifuð. Hvað finnst lesendum til dæmis um þetta:
Sóknarlega er hann ruslakarl sem skorar eftir rúll af boltahindrun, hraðaupphlaupum sem og ruslastig.
Þetta er frétt um körfubolta og rætt við þjálfara í efstu deild. Blaðamaðurinn veit ábyggilega hvað snýr upp og niður á körfubolta en hann þarf vanda sig betur, lesenda sinna vegna.
Reglan sem ALLIR blaðamenn verða að hafa í huga er að skrifa frétt sína á skiljanlegu máli. Tali viðmælandinn ekki gott mál á blaðamaðurinn að umorða það, endursegja. Ofangreint er bull.
Þetta skilst ekki heldur:
Sem körfuboltamaður er hann hugsaður til að dýpka bekkinn hjá okkur,
Ég skil þetta ekki, hef þó leikið körfubolta. Er verið að endursmíða einhvern bekk og hvað kemur hann íþróttinni við?
Tillaga: Var Kramer ráðinn vegna þess að þjálfarinn hefur áhuga á Seinfeld þáttunum?
4.
Alls greiddu 115 þingmenn atkvæði með Löfven og 77 sátu hjá. 153 greiddu atkvæði gegn Löfven.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Reglan er þessi: Ekki byrja setningu á tölustöfum. Þetta þekkist hvergi í vestrænum tungumálum. Ástæðan er einföld. Með punkti er setningu eða málgrein lokið og þá getur önnur byrjað og það er gert með stórum staf í upphafi fyrsta orðs. Þetta er öllum auðskiljanlegt, truflar ekkert. Tölustafur truflar hins vegar vegna þess stóran staf vantar. Tala stendur þarna eins og illa gerður hlutur.
Fyrsti stafurinn í setningu kallast upphafsstafur, líka hástafur. Í ensku nefnist hann capital letter, stor bokstav á norsku, dönsku og sænsku (stór stafur á íslensku), Großbuchstabe á þýsku, lettre capitale á frönsku og svo framvegis.
Þrátt fyrir þessa reglu hallast margir að þeirri undantekningu að fyrirsagnir megi byrja á tölustaf. Einnig veldur það engum vandræðum ef töluorð er notað í stað tölustafs.
Berum nú saman ofangreinda tilvitnun og tillöguna hér fyrir neðan. Í henni er punkti breytt í kommu, sneitt framhjá tvítekningunum, nástöðunni.
Tillaga: Alls greiddu 115 þingmenn atkvæði með Löfven og 77 sátu hjá, 153 gegn.
5.
Hafþór, sem nýlega var dæmdur í tólf mánaða fangelsi fyrir peningaþvætti í aðskildu máli, sagði
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Sagnorðið að aðskilja merkir greinilega að skilja að en hentar ekki í þessu sambandi. Blaðamaðurinn ætlar sér eflaust að segja að málin séu tvö og eigi ekkert sameiginlegt. Þá er gott að nota óákveðna fornafnið annað, en það er haft til eitthvað sem er hliðsætt, andstætt eða í samanburði, svo dæmi séu tekin.
Réttara er að segja að maðurinn hafi verið dæmdur í öðru máli. Orðin aðskilið og annað eru því gjörólík að merkingu í því samhengi sem hér um ræðir.
Tillaga: Hafþór, sem nýlega var dæmdur í tólf mánaða fangelsi fyrir peningaþvætti í öðru máli, sagði
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Yfirhalning, endinn á eldinum og fólk pint og myrt ...
15.1.2019 | 10:18
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.
1.
Sprengdi flugeld í garði íbúa.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Mér finnst þetta dálítið skrýtin fyrirsögn þó eflaust sé hún ekki röng. Hún er bara klúðursleg og vakti því athygli mína. Sá ekki eftir að hafa lesið áfram.
Seinna í fréttinni segir:
Lögreglumenn höfðu uppi á viðkomandi sem viðurkenndi ekki verknaðinn en kvaðst þó ætla að hætta þessu.
Þarna hló ég upphátt.
Í menntaskólanum sögðu íslenskukennarnir að ég ætti ekki að nota slettuna viðkomandi, hún væri danska. Síðar varð til orðið hlutaðeigandi sem íslenskumönnum þótti ekki skárra. Í Málfarsbankanum á malid.is segir:
Orðinu viðkomandi er oft hægt að sleppa. Til dæmis fer betur á að tala um rekstur fyrirtækjanna en rekstur viðkomandi fyrirtækja.
Auðvitað er hægt að sleppa slettunni og segja: Lögreglumenn höfðu uppi á manninum sem ...
Tillaga: Sprengdi flugeld í garði íbúðarhúss.
2.
Heimilislaus maður fær yfirhalningu.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Er nú ekki nóg á einn heimilislausan mann lagt svo hann sé ekki í þokkabót skammaður? Jú, sá sem fær yfirhalningu er skammaður. Á malid.is segir um orðið yfirhalningu:
það að skamma einhvern duglega
Ekki veit ég um uppruna orðsins en hér er blaðmaðurinn að þýða úr ensku sem enginn á að gera nema hafa tök á báðum málunum. Ensk orðabók segir um orðið makover:
a complete transformation or remodeling of something, especially a person´s hairstyle, makeup, or clothes.
Blaðamaðurinn kann að vita hvað makeover þýðir en þegar hann skrifar fréttina verður honum fótaskortur á íslenskunni og þýðir orðið rangt. Vefst mér líka tunga um höfuð, finn ekkert eitt orð sem hentar hér svo að ég reyni lengri leiðina með hliðsjón af efni fréttarinnar.
Tillaga: Heimilislaus maður fær klippingu og ný föt.
3.
Sjá fyrir endann á eldinum.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Hér er ekki verið að tala um langeld í reykmettuðu húsi þar sem ekki sést enda á milli. Blaðamaðurinn er líklega að segja að líkur séu til að eldurinn verði brátt slökktur, slökkviliði nái brátt tökum á honum. Orðafærið hjá blaðamanninum er eins og vatn úr heiðskírum læk ...
Sé ætlunin að nota orðtök eða orðasambönd þá verða þau að hæfa fréttinni. Enginn sér fyrir endan á eldi nema eldstæðið sé langt
Tillaga: Slökkvistarfinu lýkur brátt.
4.
Teikavei, teikavei. Nings
Auglýsing á Bylgjunni kl. 17:55, 14.1.2019.
Athugasemd: Þið þarna, Bjarni Óskarsson og Hrafnhildur Ingimarsdóttir, skráðir eigendur Nings, skiptir íslenskan ykkur engu máli? Er það stefna ykkar að setja móðurmálið skör lægra en enskuna?
Fyrirtækið auglýsir á ensku í íslensku útvarpi. Take-a-way er upprunalega amerískt hugtak sem merkir að viðskiptavinurinn komi, kaupi matinn og fari með hann til neyslu annars staðar. Annað amerískt er dræv þrú (drive through).
Auðvitað virðist þetta vera kúl (e. cool) en hliðarverkunin er einfaldlega sú að svona dregur smátt og smátt þróttinn úr málinu. Bjarni og Hrafnhildur vinna gegn íslenskunni.
Og það sem verra er, útvarpsstöð eins og Bylgjan tekur athugasemdalaust við auglýsingunni. Eru engar siðareglur hjá þessu úvarpsfyrirtæki eða er því sama um íslenskt mál?
Tillaga: Sæktu matinn til okkar. Nings.
5.
markvisst leitað uppi hinsegin fólk, það fangelsað, pynt og myrt.
Frétt kl. 17 á Bylgjunni 14.1.2019 (skráð eftir minni).
Athugasemd: Þetta er ekki gott, fljótfærnin skemmir frétt. Fréttamaðurinn þekkir ekki sögnina að pynda en ræður ekki við hana. Hún beygist sterkt í lýsingarhætti þátíðar. Fólkið var pyntað. Orðið sem er í tilvitnuninni hér að ofan er ekki til.
Tillaga: Markvisst leitað uppi hinsegin fólk, það fangelsað, pyntað og myrt.
6.
Blaðið kaus hann einnig bestu kaupin, en
Grein á bls. 11 í bílablaði Morgunblaðsins 15.1.2019.
Athugasemd: Hér segir blaðamaður frá Rexton jeppa og vitnar í blaðið 4x4 Magazine sem hafi kosið hann sem bestu kaupin.
Í þessu tilfelli hefur blaðið talið bílinn, valið hann eða útnefnt sem bestu kaup jeppa. Dreg stórlega í efa að kosningar hafi átt þarna hlut að máli.Má vera að greidd hafi verið atkvæði á ritstjórninni. Mikill munur er á atkvæðagreiðslu og kosningum.
Svo velti ég fyrir mér hvers vegna alls kyns bílar sem kallaðir eru jeppar skuli ekki vera prófaðir á fjallvegum, þeim til dæmis ekið yfir ár og fljót. Þegar menn treysta sér ekki til þess finnst mér einsýnt að þessir bílar eru aðeins fjórhjóladrifnir en ekki jeppar í hefðbuninni merkingu þess orðs.
Tillaga: Blaðið taldi hann einnig bestu kaupin, en
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)