Núskrifandi, ábreiða og leigutakar heiðraðir

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

1.

„Mesti núskrifandi rithöfundur Norðurlandanna? 

Fyrirsögn á Silfri Egils í dv.is.     

Athugasemd: Hef aldrei séð eða heyrt þetta orð „núskrifandi“ og get ekki áttað mig á merkingunni. Litlu varð ég nær með því að lesa pistil Egils því hann endurtekur ekki orðið annars staðar.

Í upphafi segir Egill:

Því má halda fram að Kim Leine sé mesti rithöfundur Norðurlandanna um þessar mundir. 

Þetta skil ég ágætlega og tek það sem svo að hér sem um að ræða skýringu á fyrirsögninni. Hún er engu að síður arfaslæm.

Tillaga: Fremstur rithöfunda á Norðurlöndum?

2.

„Hún telur að það sé með ólíkindum að Jóhannes hafi ekki verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á neinum tímapunkti og starfi óáreittur. 

Frétt á dv.is.      

Athugasemd: Tímapunktur er eiginlega óþarft orð í íslensku, að minnsta kosti eins og það er oftast notað í fjölmiðlum. Hér að ofan mætti taka út þrjú orð, „á neinum tímapunkti“ og merking málsgreinarinnar breytist ekkert, verður jafnvel skýrari. Einnig væri hægt að sleppa „ekki“ og setja aldrei í staðinn og skilningur lesandans eykst.

Hafi maðurinn aldrei verið úrskurðaður í gæsluvarðhald skiptir engu hversu mörgu sinnum orðið „tímapunktur“ er sett í málsgreinina, hún verður aldrei betri en tillagan hér að neðan.

Rangt er að segja að lögregla eða dómstólar áreiti mann sem brýtur lög eða reglur. Á malid.is segir um sögnina að áreita:

sýna (e-m) óvelkomna athygli

    • ég þori ekki að áreita hann meðan hann er í slæmu skapi
    • þessi hugsun hefur áreitt mig lengi
    • hún segir að maðurinn hafi áreitt sig kynferðislega

Betur fer á því að segja að maðurinn starfi eins og ekkert hafi í skorist eða gerst.

Þetta er löng frétt en ekki vel skrifuð og má gera fjölmargar aðrar athugasemdir. Blaðamaðurinn verður að taka sig á.

Tillaga: Henni finnst furðulegt að Jóhannes haf aldrei verið úrskurðaður í gæsluvarðhald heldur starfi eins og ekkert hafi gerst.

3.

„Þarna eru nátt­úr­lega leigu­tak­ar í dag, sem að hafa sína leigu­samn­inga og við heiðrum þá,“ … 

Frétt á mbl.is.       

Athugasemd: Á nýársdag veitti forseti Íslands nokkrum þekktum borgurum landsins fálkakross. Með réttu má segja að þetta fólk hafi verið heiðrað.

Reitir ætla að byggja íbúðir á svokallaðri Orkuhússlóð sem er á milli Suðurlandsbrautar og Ármúla í Reykjavík. Þar leiga nokkur fyrirtæki húsnæði og forstjóri Reita ætlar að heiðra eigendur þeirra. Enginn veit hvers vegna eða hvernig. Þeir geta í það minnsta leyft sér að hlakka til. 

Í ensku orðabókinni í tölvunni minni segir að enska sögnin to honour hafi fleiri en eina merkingu, en líka þessa:

fulfil (an obligation) or keep (an agreement):

accept (a bill) or pay (a cheque) when due: the bank informed him that the cheque would not be honoured.

Á íslensku tölum við ekki svona. Íslenska sögnin að heiðra hefur þarna ekki sömu merkingu og það enska. Réttara er að segja að samningurinn verði virtur, leigusalinn ætli sér  virða samninginn, ekki rifta honum eða segja upp.

Merkilegur samhljómur er milli sagnanna heiðra og virða. Sú síðarnefnda getur merkt að meta til verðs, meta og jafnvel heiðra. Allir þekkja einhvern virðulegan karl eða konu og þau hin sömu geta einnig verið heiðursmaður eða heiðurskona þó svo að þetta fari nú ekki endilega saman.

Í heild sinni er málsgreinin svona og hún er mjög slæm:

„Þarna eru nátt­úr­lega leigu­tak­ar í dag, sem að hafa sína leigusamninga og við heiðrum þá,“ seg­ir Guðjón, sem seg­ir Reiti og Reykja­vík­ur­borg vera á leiðinni í „nokkuð langt ferðalag“ varðandi þessa upp­bygg­ingu, sem ráðgert er að geti haf­ist um tveim­ur árum eft­ir að deili­skipu­lags­vinnu lýk­ur, sam­kvæmt frétta­til­kynn­ingu sem borg­in lét frá sér í morg­un.

Þetta er löng og flókin málsgrein. Mikilvæg regla blaðamanns er að setja punkt sem oftast. Ekki flækja málið með fleiri en einni aukasetningu. Ekki heldur flækja sig í klisjum eða detta í nástöðu.

Auðvitað á blaðamaðurinn að vita betur er aumingjans forstjóri Reita sem ábyggilega er þrælmenntaður í útlandinu og skilur jafnvel betur ensku en hrognamálið okkar. Skylda blaðamanns felst ekki í því að dreifa málvillum til lesenda. Honum ber að lagfæra mál viðmælandans og færa í betra horf. Sé það ekki gert á íslenskan enn minni möguleika en ella og kaffærist endanlega í flóðbylgju enskra máláhrifa.

Að lokum má efna þetta „náttúrulega“ sem er gjörsamlega gagnslaust orð þarna. Ekkert „náttúrulegt“ við að fólk leigi fasteignir eða leigi þær út.

Tillaga: Á fyrirhuguðu byggingarlandi eru nú fasteignir í útleigu og Reitir munu virða alla gilda leigusamninga enda langt þangað til framkvæmdir hefjast. Um tveimur árum eftir að deiliskipulag er samþykkt gætu þær hafist samkvæmt fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg.

3.

„Klara úr Nylon með magnaða ábreiðu af laginu Farinn. 

Fyrirsögn á visir.is.        

Athugasemd: Enska nafnorðið „cover“ getur þýtt teppi eða ábreiða. Enska orðabókin segir svo:

(also cover version) a recording or performance of a song previously recorded by a different artist: the band played covers of Beatles songs.

Þannig að „a cover song“ er hljóðritað eða sviðsflutt lag, flutt er eftir annan en þann sem samdi. Sé þetta rétt lýsing er gjörsamlega út í hött að kalla slíkt lag „ábreiðu“.

Hins vegar skortir mig þekkingu til að koma með viðhlítandi orð í staðinn og biðla því til lesenda um skýringar og tillögur.

Tillaga: Engin tillaga gerð.

4.

Paul Pogba, miðjumaður enska knatt­spyrnu­fé­lags­ins Manchester United, átti góðan leik fyr­ir Untied þegar liðið vann 1:0-útisig­ur gegn Totten­ham í stór­leik ensku úr­vals­deild­ar­inn­ar í dag.“ 

Frétt á mbl.is.         

Athugasemd: Þetta er ferlega „nafnorðaleg“ málsgrein. Munum að íslenskan er mál sagnorða. Blaðamaðurinn er greinilega bjarglaus í nafnorðaflaumi.

Er það stórleikur þegar lið í sjötta sæti leikur við annað sem er í þriðja sæti? Held að blaðamaður Moggans myndi varla kalla það stórleik ef Watford (7. sæti) myndi leika við Chelsea (4. sæti). Held að stéttasskipting á enskum fótboltaliðum sé staðreynd. Aðallinn eru liðin í sex eða sjö efstu sætunum, Þar fyrir neðan eru miðlungsliðin og svo rekur ruslið restina. Ekkert ósvipað því þegar skipt var í lið þegar maður var sjö ára.

Hér er nokkup sannfærandi smásmygli: Vit ekki allir að Manchester United er fótboltalið í Englandi og leikur í úrvalsdeildinni? Af hverju er ekki hið sama sagt um Tottenham? Svona gæti þá tilvitnunin verið með orðalagi íþróttablaðamanns:

Paul Pogba, hinn franski knattspyrnumaðurinn á miðjunni í enska knatt­spyrnu­fé­laginu Manchester United, átti góðan knattspyrnuleik fyr­ir United þegar liðið vann 1:0-útisig­ur gegn enska knattspyrnuliðinu Totten­ham í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í stór­leik ensku úr­vals­deild­ar­inn­ar í dag.

Má vera að þessi hræðilega stökkbreytta málsgrein sé ekkert fyndin. 

Enskan er tungumál nafnorða og sú staðreynd truflar skrif allmargra fjölmiðlamanna á íslensku.

Tillaga: Paul Pogba, miðjumaður Manchester United, lék vel þegar liðið sigraði Tottenham í dag með einu marki gegn engu.

5.

Alexis Tsipras kallar eftir atkvæðagreiðslu um traustsyfirlýsingu á stjórn sína og samþykkt samnings um nafnbreytingu.“ 

Millifyrirsögn á blaðsíðu 17 í Morgunblaðinu 14.1.2019.      

Athugasemd: Frekar margt í fréttum á ensku er nú orðið þýtt beint, stundum án umhugsunar. Orðasambandið að kalla eftir er eitt þeirra. Af öðrum má nefna stíga fram, stíga til hliðar og fleiri.

Á Bloomberg fréttamiðlinum segir svo:

Prime Minister Alexis Tsipras’s political future is on the line this week after a coalition breakdown prompted him to call a confidence vote in parliament, raising the risk of an early election.

Má vera að það sé ekki svo alslæmt að segja að maðurinn hafi „kallað eftir“. Merkingin er engu að síður alveg skýr á ensku:

Publicly ask for or demand.

kalla merkir að hrópa en á þessum tveimur sagnorðum er nokkur merkingarmunur sem rekja má til uppruna þeirra.

Til er köllun sem segja má að sé hvatning til að gera eitthvað, innri hvatning eða sem kemur frá öðrum. Við þekkjum nafnorðið kall (ekki sem karlmaður), líklegast eingöngu í samsetta orðinu prestakall. Á malid.is segir: 

Af so. kalla er leitt bæjarnafnið Kaldaðarnes < †Kallaðarnes, af *kallað(u)r ‘sá sem hrópar (á ferju) …

Fólk kallaði hér áður fyrr eftir ferjunni svo það kæmist yfir Ölfusá. Því er ekki alveg út í hött að „kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu“ í merkingunni að óska eftir. Má vera að mér fróðari menn hafi eitthvað við þetta að athuga. 

Hitt er svo annað mál að við þurfum fjölbreytni í rituðu máli. Á sömu blaðsíðu í Mogganum er önnur frétt og þar stendur bæði í fyrirsögn og í fréttinni sjálfri:

Þróunarsamband Suður-Afríkuþjóða (SADC) kallaði í gær eftir endurtalningu á atkvæðum eftir forsetakosningarnar sem fóru fram í Austur-Kongó um áramótin.

Þori að veðja hárkollunni minni að sami blaðamaður skrifaði líka þessa frétt. Í stað þess að segja að einhver kalli eftir má nota óskar eftir, fer fram á, biður um, krefst og álíka.

Að hrópa getur líka merkt að kalla en líklega ekki alveg á sama hátt. Í Íslenskri orðsifjabók á malid.is segir um uppruna orðsins, og er ekki víst að allir kannist við þetta:

hróp h. ‘kall, óp; rógur, illmælgi; flimt, gys’; hrópa s. ‘æpa, kalla; rægja, hrakyrða’

Þetta þekkjum við í orðasambandinu að gera hróp að einhverjum sem merkir alls ekki „að kalla að einhverjum“. 

Tillaga: Alexis Tsipras fer fram á atkvæðagreiðslu um traustsyfirlýsingu á stjórn sína og samþykkt samnings um nafnbreytingu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband