Þjóðarskömm að Einar Kárason fær ekki listamannalaun

Einar KárssonHann er einn mesti núlifandi sögumaður sem ég veit af, gríðarlega vel máli farinn og hefur margt að segja sem þó er ekki sjálfgefið hjá íslenskum rithöfundum. Ég er auðvitað að tala um Einar Kárason, hinn mikla jöfur íslenskra skáldsagna.

Vinskapur okkar Einars er afar einhliða. Hann veit ekkert um mig en ég hef lengi verið einn af aðdáendum hans, það er að segja hef lesið bækurnar, þó ekki allar ... Með öðrum orðum, við þekkjumst ekki hætishót.

Stormfuglar hafa verið í seilingarfjarlægð frá skrifborði mínu frá því um mitt síðasta sumar og hef ég ótal sinnum gripið í hana.

Rithöfundurinn Einar Kárason er einstakur. Enginn annar getur skrifað eins og hann gerir í Stormfuglum. Stundum langar og flóknar málsgreinar, sem þó eru svo haganlega saman settar að lesandinn missir hvorki þráðinn né athyglina. Minnimáttar skrifarar kunna ekki þessa list og við lítum allir upp til Einars, ýmist með aðdáun eða öfund, jafnvel hvort tveggja.

StormfuglarÉg fletti bókinni þegar ég var að skrifa þennan pistil og kom af tilviljun þar niður er segir af stýrimanninum: 

Frammi í káetunni undir hvalbaknum var annars stýrimaður aleinn og farmlama, hann kastaðist út úr kojunni og á gólfið, þar lá hann með fullri meðvitund, jafnvel aukinni meðvitund vegna kvala í baki og innvortis, og nú heyrði hann hvernig allt var að hljóðna þarna í kring; hann þekkti þetta, var ágætis sundmaður og svona breytast umhverfishljóðin þegar maður er kominn á kaf; stýrimaðurinn sá alla ævi sína renna hjá, þetta gerist í alvöru hugsaði hann; svo sá hann fyrir sér konuna og börnin, og hann ákvað að þylja allt það sem hann kynni af bænum og guðsorði á leið sinni inn í eilífðina, kannski myndi fjölskylda hans heima í Kópavogi á einhvern hátt heyra það eða skynja. [Stormfuglar, blaðsíða 97.]

Þegar ég var krakki í menntaskóla var ég tvö sumur á togurum, jafnvel síðutogurum, en bókin Stormfuglar gerist um borð í einum slíkum á Nýfundnalandsmiðum. Ég kannast því við orðalagið sem er svo skýrt og „rétt“ með farið, jafnvel þó Einar hafi verið skemur á togurum en ég, eftir því sem ég las einhvers staðar.

Sá armi samfylkingarmaður, Einar Kárason er þó síður en svo syndlaus. Hann sem kallaði fólk sem býr utan höfuðborgarsvæðisins „landsbyggðarhyski“, hann sem atyrti og hæddist að fólki sem vill halda Reykjavíkurflugvelli á sínum stað. Má vera að þar hafi hann gleymt sér, hrokkið í hrokagírinn, tilfinningin borið skynsemina ofurliði þegar þetta gerðist. Enda baðst samfylkingarmaðurinn afsökunar, ekki á skoðunum sínum, heldur að hafa uppnefnt íbúa landsbyggðanna. Má vera að hugur hafi fylgt máli.

Ég geri greinarmun á pólitíkusinum Einari Kárasyni og rithöfundinum. Sá fyrrnefndi má hafa sínu lífi á þann hátt sem hann vill og raunar sá síðarnefndi líka svo framarlega sem hann skrifar góðar bækur.

Og þar sem stefna meirihluta Alþingis er að veita völdum listamönnum laun fyrir framlag sitt til menningar þjóðarinnar finnst mér algjörlega ótækt að vaða framhjá Einari Kárasyni og láta hreinlega sem hann sé ekki til. Þeir vita sem vilja að rithöfundar lifa ekki af list sinni einni saman nema þeir verði svo frægir og miklir að bækur þeirra séu gefnar út á útlendum mörkuðum og rokseljist þar.

Vera má að bækur Einars hafi komið út í öðrum löndum en það breytir þó ekki framlagi hans til íslenskrar menningar.

Telja má það þjóðarskömm að einni mesti sögumaður þjóðarinnar skuli ekki fá listamannalaun og á sama tíma fær stíllaust „rithöfundar“ slíka viðurkenningu.

Samkvæmt Wikipedia eru þessar skáldsögur Einars Kárasonar:  

  • Þetta eru asnar Guðjón, 1981
  • Þar sem djöflaeyjan rís, 1983
  • Gulleyjan, 1985
  • Fyrirheitna landið, 1989
  • Heimskra manna ráð, 1992
  • Kvikasilfur, 1994
  • Norðurljós, 1998
  • Óvinafagnaður, 2001
  • Stormur, 2003
  • Ofsi, 2008
  • Skáld, 2012
  • Skálmöld, 2014
  • Passíusálmarnir, 2016
  • Stormfuglar, 2018

Hafa einhverjir aðrir rithöfundar á listmannalaunum gert betur?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Tek undir hvert orð Sigurður, og fyrir þá sem rugla saman stjórnmálum og bókmenntum, að þá er þetta kjarni málsins:

"Ég geri greinarmun á pólitíkusinum Einari Kárasyni og rithöfundinum. Sá fyrrnefndi má hafa sínu lífi á þann hátt sem hann vill og raunar sá síðarnefndi líka svo framarlega sem hann skrifar góðar bækur."

Það er aumt ríkdæmi einnar ríkustu þjóðar heims að hafa ekki efni á að hlúa að sagnameisturum.

Því góð saga er kannski það eina sem lifir samtímann.

Kveðja að austan.

 

 

 

Ómar Geirsson, 12.1.2019 kl. 16:17

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Vel mælt, Ómar. 

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 12.1.2019 kl. 16:29

3 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Er ekki Einar varaþingmaður Ágústs Ólafs?  Kannski verða vonbrigði Einars nú ávísun á betri tíma seinna ef hann hellir sér útí pólitíkina af krafti.  Einar er búinn að eiga farsælan feril, sem skáldsagnahöfundur, en það er ekki sjálfgefið að ausa endalaust úr þeim brunni þó á ritlaunum sé.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 12.1.2019 kl. 17:26

4 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það er spurning til hvers þessi listamannalaun eru. Mér finnst það ekki einboðið að menn eigi að vera í áskrift að þessu áratugum saman og það er óneitanlega talsverð frekja þegar menn ætlast til þess.

Þorsteinn Siglaugsson, 12.1.2019 kl. 17:36

5 Smámynd: Jóhann Elíasson

Ég er alveg sammála þér með að Einar Kárason sé einhver albesti rithöfundur landsins.  En þar sem ég er ALFARIÐ á MÓTI þessum listamannalaunum, þá get ég ekki með nokkru móti verið sammála því að hann hefði átt að fá "listamannalaun".  Mér hefur alla tíð fundist það að ef menn geta ekki lifað á list sinni, þá eigi þeir bara að fá sér einhverja aðra vinnu.  Það er ekki nokkur ástæða til þess að ríkið sé að halda "listum" í gangi hér á landi.  Hver skilgreinir hvað sé list og hvað ekki??????

Jóhann Elíasson, 12.1.2019 kl. 17:48

6 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Jóhannes, einu sinni var hér í Reykjavík borgarstjóri (nefni engin nöfn) og sýndist fæstum að árangur hans í embætti hafi verið góður. Þegar hann fór að semja grínþætti í fjölmiðlum sögðu margir sakna hans sem borgarstjóra.

Held að Einar ætti að halda áfram sem rithöfundur. Lepja dauðann úr skel, ef því er að skipta. Sjáðu bara Guðmund Andra, einn beittasta penna Samfylkingarinnar. Hann er núna ekki svipur hjá sjón. Svona fer pólitíkin með listamenn.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 12.1.2019 kl. 19:11

7 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Þorsteinn. Í pistlinum hér að ofan orða ég það þannig að listamannalaun séu ákvörðun meirihluta Alþingis og það er rétt. Auðvitað á enginn áskrift að þeim. Ef þú skoðar þá af rithöfundunum sem fengu launin eru þeir fæstir jafnokar Einars Kárasonar.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 12.1.2019 kl. 19:15

8 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Jóhann. Menn geta haft þá skoðun á listamannalaunum sem þeir vilja, en að útiloka Einar Kárason er ... þjóðarskömm að mínu mati. Stend fastur á þeirri skoðun.

Held að fæstir íslenskir listmenn geti lifað af list sinni. Íslenskur markaður er bara alltof lítill.

Svo er það hitt, hvað er list og hvað ekki? Hver getur svarað?

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 12.1.2019 kl. 19:22

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Varðandi þessa umræðu þá langar mig til að gerast ritþjófur og stela athugasemd frá Birni Birgissyni sem segir eiginlega allt sem segja þarf um af hverju við gerum út rithöfunda en ekki bara skuttogara.

"Það er nokkuð furðuleg skoðun sé horft til smæðar markaðarins hér. Nú þegar tungumálið okkar á undir högg að sækja er ritun góðra bóka mikilvægari en nokkru sinni fyrr. Varðandi kostnað ríkisins af listamannalaunum rithöfunda er hann ekkert ósvipaður kostnaði við 17 nýja aðstoðarmenn þingflokkanna. Hvort finnst þér mikilvægara?".

Vissulega eru til öfl á Íslandi, nærtækast að benda á viðskiptaráð, sem sjá aðeins kostnað við sjálfstætt tungumál, en á meðan þau eru ekki í meirihluta, þá þarf þjóðin að gera það sem þarf að gera til að tungan lifi.

Eitt af því lítur af tölvugreind og raddstýringu, annað er að tryggja að hún sé bókmenntamál. 

Að gera ekkert er bein ávísun á aldauða hennar.

Og þeir sem það vilja ættu þá allavega að sjá sóma sinn að senda inn athugasemdir sínar á alheimstungumálinu, ensku.

Því það er bein afleiðing af því að gera ekki neitt.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 12.1.2019 kl. 19:22

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Tek heilshugar undir þennan pistil. Fráleitt er að tala niður í fyrirlitningartóni meistaralega sköpun menningarverðmæta með því að nota orðið "áskrift."

Ómar Ragnarsson, 12.1.2019 kl. 19:46

11 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það er engin fyrirlitning í því fólgin að benda á að sumt fólk virðist líta svo á að það sé í áskrift að listamannalaunum. Þannig er það bara einfaldlega.

Mér finnst listamannalaun eiga að þjóna tvennum tilgangi. Annars vegar ætti að veita þau ungum og upprennandi listamönnum sem þurfa á þeim að halda og hafa enn ekki náð að skapa sér nafn, en eru hins vegar að skapa eitthvað sem máli skiptir í menningarsögunni.

Hins vegar ætti að veita þau þeim sem hafa sýnt framúrskarandi hæfileika (og þá er ég ekki að tala um að geta bara ráðið við að koma frá sér einhverjum bærilega læsilegum bókum). Þessir eru auðvitað miklu færri. En að veita söluháum rithöfundum sem einbeita sér að því að skrifa bækur við alþýðu hæfi sem seljast vel listamannalaun ár eftir ár, það finnst mér einfaldlega rangt. Með því er verið að taka peninga frá þeim sem eru að gera eitthvað sem skiptir máli. Og það er ekkert annað en frekja þegar slíkir aðilar tryllast ef þeir fá ekki úthlutað skattfé eitt árið.

Þorsteinn Siglaugsson, 12.1.2019 kl. 20:38

12 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hvað ætli Einar Kárason hafi fengið langan tíma á fullum listamannalaunum um nokkurra áratuga skedið?

Að meðaltali 6-8 mánuði á ári?

Er meint snilld hans í einhverju samræmi við það?

Og af hverju liggja góð skáld óbætt hjá garði? Pólitík?

Og fyrir hvað fær Andri Snær 12 mánaða laun?

Og af hverju er Jón Gnarr í stjórn Rithöfundasambandsins (sem sögð er hafa veruleg áhrif á úthlutunarnefndina)? Fyrir að vera skáld eða bókmenntafræðingur. En hann er hvorugt!

Allt of margir fá þarna 12 mánaða laun (14 talsins) og 9 mánaða (17 manns). Það ætti að fækka um helming í báðum flokkunum og dreifa fénu víðar.

Jón Valur Jensson, 14.1.2019 kl. 00:19

13 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sæll Jón Valur. Er nokkuð vel að mér í ritverkum Einars Kárasonar. Hann ber höfuð og herðar yfir flesta samtímamenn sína hvað skáldverk varðar. Mér finnst snilld hans fyllilega vera þess virði að hann fengi listamannalaun tólf mánuði á ári. Að minnsta kosti meðan Alþingi úthlutar slíkum viðurkenningum.

Margir komast í Rithöfundasambandið sem telst til frjálsra félagasamtaka. Eflaust gæti ég það, hafandi skrifað nokkrar bækur. Gnarrinn hefur skrifað handrit af útvarps- og sjónvarpsþáttum. Það dugar. Formaður stjórnar er fyrrum spaugstofuforingi Karl Ágúst Úlfsson. 

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 14.1.2019 kl. 10:16

14 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Ég hef oft verið kallaður listamaður,  mér finnst það samt vera skammaryrði.  "List" er orði eitthvað sem er svo léleg að "lista"maðurinn getur ekki lifað af því.  Það er til endalaust efini eftir menn og konur sem eru nógur góðir listamenn til að lifa af sinni list.

Og ég mundi skammast mín fyrir að betla þessa aumingjabætur sem hér eru kallaðar litsamannalaun.

Guðmundur Jónsson, 14.1.2019 kl. 11:22

15 Smámynd: Jón Valur Jensson

Mér fannst, Sigurður minn, er ég las í einhverri bók Einars um Sturlungaöld, sem ekki væri tungutakið þar í ætt við gömlu sagnahefðina eða verðugt viðfangsefninu, heldur meira eins og götustrákatal !

Þess vegna stórefa ég það, að snilldin sé slík, að hann "ber(i) höfuð og herðar yfir flesta samtímamenn sína hvað skáldverk varðar"!

Jón Valur Jensson, 14.1.2019 kl. 14:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband