Nálastungur, leikræn lyfleysa

Þekking flestra er takmörkuð og ekki síst mín. Þá er gott að geta leitað til sérfræðinga á hinum ýmsu sviðum eftir því sem við á. Ekki hef ég mikið vit á nálarstungufræðum en hef þó lesið talsvert um þau og fundið út að þau séu dularfull fræði sem hjúpuð eru leyndardómum og jafnvel yfirskilvitlegum kröftum.

Aldrei hef ég þó farið til „nálastungulækni“ en hef hitt nokkra sem segjast hafa fengið allra sinna meina bót eftir blessun þeirra. Þessu öllu hef ég trúað eins og nýju neti.

Verstur andskotinn er samt að þekkja menn eins og Björn Geir Leifsson, lækni, sem er óhræddur að gagnrýna ýmiskonar kukl og hindurvitni. Eftirfarandi pistil las ég á Facebook síðu hans:

Það er ekki nóg að vita nokkurn vegin að lungun séu í brjóstkassanum (thorax) flestir átta sig ekki á hversu örstutt er inn í fleiðruna sums staðar milli rifja, a.m.k. í grönnu fólki, og að lungnatopparnir ná vel upp fyrir viðbein svo stungur á hálssvæði geta valdið loftbrjósti. Og það er ekki trygging þótt viðkomandi telji sig kunna til verka. Nokkur tilvik þekki ég til dæmis íslensk, þar sem sjúkraþjálfarar töldu sig vera að meðhöndla með því að stinga í „gikkbletti”, trigger points, í vöðvum við herðablað.
Í einhverju blaðinu í gær er haft eftir ljósmóður að þær stingi aldrei í brjóstkassann heldur í útlimi, fótleggi og handleggi. Eins og það sé eitthvað betra?

Hún tekur það sem sjálfsögðum hlut að stungur í hendur og fætur geri eitthvað gagn í allt öðrum líkamshlutum. Vitnað er í valdar rannsóknagreinar sem virðast staðfesta ætlaða virkni ef bara er lesinn titill og niðurstöðusetning. Svo þegar betur er að gáð er oftast enginn fótur fyrir fullyrðingunni. Nálastungur í útlimi eru bara alls ekki hættulausar, fyrir utan að vera tilgangslausar. Í Noregi dó maður árið 2017 af fylgikvillum eftir nálastungu í hendi. Sú meðferð var framkvæmd í nálastunguskóla svo ekki er hægt að kenna viðvaningshætti um.

Bak við nálastungufræðin er enginn heildstæður, samhæfður þekkingargrunnur.
Í handbók útgefinni af ljósmæðrafélaginu eru flóknar og að því er virðist merkilegar útlistingar á því hvar eigi að stinga í hinum og þessum tilgangi.

Bak við útleggingar á því hvar eigi að stinga eru engin gagnreynd, staðfestanleg fræði. Ef stungustaðir í mismunandi útgáfum af nálastungufræðum eru skoðaðir, er ekkert vitrænt samræmi milli kínversku, kóreönsku, japönsku... eða annarra útgáfa. Það er t.d. enginn sem veit af hverju á að örva blett á utanverðri litlutá til þess að fá fóstur í sitjandastöðu til þess að snúa sér við. Það veit heldur enginn hvernig fundið var út að stunga í blett sem kallast CV-1 getur verið gagnleg við langri röð meina allt frá ristruflunum og hægðatregðu til drukknunar og meðvitundarleysis. Þessi blettur er staðsettur um fingurbreidd framan við endaþarmsopið hjá báðum kynjum og um þetta eru útleggingar í mörgum fræðitextum.

Þessar kenningar eins og allar aðrar í þessum fræðum byggir hvorki á skipulega safnaðri þekkingu né staðfestanlegri reynslu. Engum hefur tekist að finna út af hverju og hvernig þessir tilteknu staðir eru til komnir enda skiptir engu hvar er stungið þegar það er rannsakað með réttum og óvilhöllum hætti. Það skiptir heldur engu hvort raunverulega sé stungið, bara ef báðir aðilar halda það. Þetta hefur verið rannsakað.

Nálastungur hafa engin mælanleg eigin áhrif. Lengi voru uppi alls konar kenningar um losun boðefna og örvun taugabrauta. Talað var um losun adenósins, endorfíns, gate theory og þaðan af fínna. Vissuleg gerist allt mögulegt slíkt við stungur en það gerist líka ef slökkvitæki dettur á fót eða hamri er slegið á þumalfingur. Engum hefur dottið í hug að það geti komið í veg fyrir mígreni eða bætt króníska verki meira en að þeir gleymast kannski um stundarsakir. Þótt einhverjir fái bót meina sinna samtímis nálastunguathöfnum þá er yfirleitt hægt að finna aðrar skýringar á breyttri líðan, sem oftast hefði orðið hvort sem er, eða ná fram sömu sefjandi lyfleysuhrifum með öðrum, sársaukaminni og hættuminni leikatriðum.

Leikþátturinn og dulúðin skapa sterkar eftirvæntingar, ekki síst hjá iðkendunum sjálfum, sem taka öllu sem virðist staðfesta væntingarnar en gleyma fljótt þeim sem engan bata fengu.

Nálastungur hafa verið kallaðar leikræn lyfleysa, theatrical placebo, og er sú nafngift afar lýsandi.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband