Enn kraumar í bergganginum hans Bárðar

190131 Skjálftar Eitt af fjölmörgu athyglisverðu við gosið í Holuhrauni var berggangurinn sem lá frá Bárðarbungu og út á Flæður Jökulsár á Fjöllum. Í fimm mánuði dældi Bárður kviku eftir honum og úr varð hraunflæmi sem að lokum reyndist vera um 85 ferkm sem er nærri fjórum sinnum stærra en kom upp í gosinu á sömu slóðum 1797.

Enn virðist hraungangurinn vera virkur ef draga má þá ályktun af tíðum jarðskjálftum í honum öllum. Líklega er kvika enn að brjóta sér leið en þrýstingurinn er enn ekki nægur til að úr verði eldgos.

Skrýtnasta við kvikustreymið frá Bárðarbungu er að í fyrstu stefndi berggangurinn til suðausturs en tók síðan furðulega krappa beygju til norðausturs og þaðan út á Flæður. Jarðfræðingar hafa mikið pælt í þessu og ein skýringin er sú að kvikan hafi lent á fyrirstöðu þarna suðvestan við Bárðarbungu sem hún komst ekki í gegnum.

Þegar þetta gerðist merktu jarðvísindamenn breytingar í Kverkfjöllum eins og oft gerist þegar eldgos er í vændum. Þá lifnaði yfir Kverkfjöllum, segja þeir.

Berggangurinnfrá 16 ágSvo mikill hafi þrýstingurinn verið að leið opnaðist til norðausturs, hugsanlega í eða við gamla bergganginn frá því 1797. Um leið dofnaði aftur yfir Kverkfjöllum en mælar í nágrenninu bentu til færslu kvikunnar til norðausturs. GPS staðsetningarmælar sýndu hreyfingu á landi, til dæmis í Vonarskarði og á Grímsfjalli.

Á þessum tíma héldu vísindamenn að eldgos brytist upp úr Dyngjujökli sem hefði verið frekar slæmt. Þá yrði öskugos og flóð í Jökulsá á Fjöllum.

Allir vörpuðu öndinni léttar þegar gangurinn náði norður fyrir Dyngjujökul. Gos á Flæðunum var besti staðurinn fyrir eldgos, raunar besti staður landsins fyrir slíkar náttúruhamfarir.

Berggangurinn þversniðNú segja menn að berggangurinn hafi hugsanlega beygt vegna þess að hann fylgdi landslaginu, átti auðveldara með að brjóta sér leið ef því hallaði. Ástæðan fyrir því að eldgosið úr ganginum varð á Flæðunum er einfaldlega vegna þess að þangað komst kvikan auðveldlega en réði ekki við hallann upp í Dyngjufjöll.

Efsta myndin sýnir jarðskjálfta undanfarna daga nákvæmlega á þeim stað þar sem berggangurinn breytti um stefnu og fór í norðaustur. Þeir benda til þess að þar undir kraumi kvika.

Miðmyndin er yfirlit yfir skjálfta frá 16. ágúst 2014 og eru litirnir samkvæmt dagakvarðanum hægra megin. Gosið hófst rétt eftir miðnætti 29. ágúst. Efstu tvær myndirnar eru fengnar af vef Veðurstofu Íslands.

Neðst er þversnið af legu berggangsins og eftir Magnús Tuma Guðmundsson, jarðeðlisfræðing. Litla myndin ef sýnir stefnur berggangsins úr lofti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband