Féflettir, handsömun og frákastahár

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

Ekki lengur þjófur heldur …

Málið er yfirfullt af nýsmíðum sem leysa eiga hin gömlu og grónu orð af hólmi. Gallinn er bara sá að nýju orðin eru oft óþörf með öllu, stundum kauðalega samsett orð (eins og að hlýðniþjálfa). […]

Mér dettur þá í hug orðið þjófur sem lengi þótti gott og gilt er fjallað var um þá sem tóku eitthvað ófrjálsri hendi. En það var í gamla daga. Ég tek eftir því að hinir stórtækustu þjófar eru ekki sæmdir þeirri nafnbót nú um stundir, heldur þeim valin önnur orð auk þess sem glæpirnir eignast ný hugtök. Nú nýverið sá ég eitt slíkt, nýyrðið féflettir. 

Tungutak í Morgunblaðinu 8. janúar 2012. Höfundur pistilsins er Þórður Helgason.

 

1.

„Fjallskilanefnd og yfirmenn þjóðgarðs munu funda í vikunni og skipuleggja handsömun á þessum rollum. 

Frétt á blaðsíðu 9 í Morgunblaðinu 28. janúar 2019.      

Athugasemd: Þetta er haft eftir sveitastjóra Bláskógabyggðar. Þetta er vont mál. Enginn talar um „skipulagningu á handsömun“ fjár. Þetta er hlægileg stofnanamállýska en um leið hálfrotin, myndi sóma sér betur í skaupi eða spaugstofu en í daglegu lífi.

Við þetta má því bæta að ég hef lengi haft áhyggjur af orðinu „handsama“. Held að það sé ekki gamalt, líklega dregið af því að leggja hendur saman og setja járn á þær, handjárna. Sé þetta rétt er erfitt að handsama dýr. 

Árið 2013 fékk ég póst frá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Málstöð. Í honum fékk ég svar við þessum vangaveltum mínum um sögnina að handsama og þar segir.

Elstu dæmi um þessa sögn í ritmálssafni Orðabókar Háskólans eru frá 18. öld og eru notuð um að grípa/fanga dýr (t.d. fé, hesta). Sjá hér (linkurinn virðist óvirkur).

Sú merking sem þú nefnir, þ.e. að leggja saman hendur, getur því varla verið upprunaleg.

Í helstu orðsifjabókum er ekki fjallað um uppruna þessarar sagnar og ég get því miður ekki veitt meiri upplýsingar um hann.

Þetta er nokkuð afgerandi svar frá Jóhannesi B. Sigtryggssyni. Hins vegar væri gaman að heyra frá lesendum um þetta.

Tillaga: Fjallskilanefnd og yfirmenn þjóðgarðs munu funda í vikunni og ákveða hvenær fénu verði smalað.

 

2.

„Rochford hefur átt mjög góða leiki með Þórsliðinu … 

Frétt á blaðsíðu 3 í íþróttablaði Morgunblaðsins 29. janúar 2019.

Athugasemd: Betra hefði verið ef íþróttablaðamaður Morgunblaðsins hefði skrifað í staðinn eins og tillagan hér fyrir neðan er. Hann á að gera betur enda alvanur blaðamaður og skrifari.

Um það snýst íslensk mál að nota sagnorðin sem mest, ekki skrifa íslenska ensku. Sá sem „á góðan leik“ leikur vel. Hið síðarnefnda er mun læsilegra og skýrara.

Síðar í fréttinni segir blaðamaðurinn aftur að leikmaður hafi „… átt jafna og góða leiki …“. Líklega er átt við að hann hafi alltaf leikið vel.

Enn er ástæða til að hnýta í fréttina, í henni segir:

… í hópi frákastahæstu leikmanna deildarinnar,  ásamt því að skila stöðugt sínu í öðrum þáttum leiksins

Niðurlagið eftir kommuna er stíllaust, eiginlega hálfgerður bastarður. Engu líkar en að blaðamaðurinn hafi orðið uppiskroppa með hól í umfjölluninni eða ákveðið að stytta fréttina. Án efa er átt við að leikmaðurinn hafi alltaf spilað vel, jafnt í vörn sem sókn.

Aldrei hef ég heyrt lýsingarorðið „frákastahár“. Illt væri ef „frákastahái“ væri lágvaxinn. Eða hvernig er „frákastahár“ á litinn? Grínlaust lýsi ég hér með þeirri skoðun minni að orðið er drasl og á að fara í ruslið þar sem fyrir eru ómeti eins og „íþróttablaðamannsskrif“ og „lærisveinar“ í merkingunni leikmenn þjálfara.

Tillaga: Rochford hefur leikið mjög vel með Þórsliðinu …

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Sæll Sigurður. Samkvæmt minni málkennd, þá er sitthvað að smala eða handsama. Fyrst er smalað og síðan dregið í dilka. Við að draga í dilka þarf að handsama féð.

Ef mikið fannfergi er þá er ekki hægt að smala. Þá þarf að handsama og reiða heim á faratækjum. Oft snjósleðum sem til þess eru útbúnir.

Mig grunar að fjallskilanefnd Bláskógabyggðar ætli sér að handsama þetta fé, en ekki að smala því.

En svo er líka mikilvægt að síðuhafi vandi sjálfur innsláttinn. Þú skrifar: "Árið 2013 fékk ég fyrir nokkrum árum..." 

Svona segir maður ekki.  Að öðru leyti er framtakið þakkarvert.  Og rökrétt hjá þér að gerast málfarslöggalaughing

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 29.1.2019 kl. 14:38

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Bestu þakkir fyrir ábendingarnar, Jóhannes.

„Málfarslögga“ lýsir því ekki sem ég geri Orðið hentar alls ekki vegna þess að það segir alltof mikið, fælir fólk frá því að lesa og bendir til að sá sem viðurnefnið beinist að sé óskaplega vel að sér, sem alls ekki er reyndin.

Ég geri athugasemdir við það sem ég les og heyri í fjölmiðlum, en þaulles þá ekki í leit að vitleysum. Svo geri ég tillögur byggðar á athugasemdunum.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 29.1.2019 kl. 15:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband