Nafnorðavæðingin og léleg landafræði

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

1.

„„Þessir aðilar lýstu yfir áhuga á að fá þetta mat vegna þess árangurs sem hefur náðst í öðrum löndum,“ segir Thiemann við Morgunblaðið, sem sló á þráðinn til höfuðstöðva OECD við Boulogne-skóginn í París en OCED mun ásamt innlendum sérfræðingum framkvæma matið í samtali við hagsmunaaðila. 

Frétt í Morgunblaðinu.      

Athugasemd: Þetta er alltof löng málsgrein, sex ólíkar setningar. Þarna er þörf fyrir punkt og jafnvel að umorða hana. 

Hafi Thiemann rætt við Morgunblaðið er óþarfa málalenging segja að blaðið hafi hringt til OECD, það liggur í orðunum. Engu skiptir hvernig viðtalið var tekið. Flestir vita hvar höfuðstöðvar samtakanna eru, óþarfi að pota þessum gagnslausu „upplýsingum“ inn í málsgrein sem fjallar um allt annað. 

Svo er sagt að matið sé „framkvæmt“ í „samtali“ við aðra? Hvað er þá átt við? Samvinnu?

Blaðamenn eru afar áhugasamir um nafnorðavæðingu málsins. Í tilvitnuninni þarf endilega að „framkvæma mat“, ekki meta. 

Við sem skrifum mikið lendum oft í því rugli að misnota persónufornafnið það og ábendingarfornafnið. Segjum vegna þess árangurs ekki vegna árangurs, sem er oftast miklu einfaldara og eðlilegra. Við segjum þetta mat í stað þess að segja bara matið.

Ég viðurkenni að ég geri þetta oft, rétt eins og blaðamaðurinn sem skrifaði orðin (ekki „þessi orð“) hér fyrir ofan.

Gott er að hafa í huga að skrif byggjast ekki síst á stíl. Orðaval og orðanotkun getur æði oft orkað tvímælis en um leið er óskaplega fróðlegt að velta fyrir sér hugsanlegum möguleikum.

Tillaga: „Áhugi er á að fá matið sem hefur nýst vel í öðrum löndum,“ segir Thiemann við Morgunblaðið. OCED mun vinna það ásamt innlendum sérfræðingum og í samráði við hagsmunaaðila.“ 

2.

„Snarpur skjálfti við Hrafntinnusker fannst í Fljótshlíð 

Frétt á visir.is.       

Athugasemd: Landafræðin vefst stundum fyrir blaðamönnum Vísis. Jarðskjálftinn var um þrettán km frá Álftavatni sem er nú talsvert lang. Frá Hrafntinnuskeri eru tæpir níu km að upptökunum sem líka er slatti, að minnsta kosti fyrir mig sem hef gengið þarna með þungan bakpoka. 

Hins vegar er aðeins um einn km frá Dalakofanum að skjálftaupptökunum.

Fáir blaðamenn myndu segja að umferðaóhapp við tónleikahúsið Hörpu hafi verið „við“ Rauðavatn. Þangað eru þó tæpir níu km. í beinni loftlínu, svipað og á milli Hrafntinnuskers og stóra jarðskjálftans.

Blaðamaðurinn hefði auðveldlega getað fundið gögn um skjálftann, þau eru birt á vef Veðurstofunnar og víðar. Þess í stað birtir hann gagnslaust Google-kort sem sýnir hvar skáli Ferðafélagsins er við Hrafntinnusker. Frekar er þetta nú máttlaus afgreiðsla.

Tillaga: Engin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband