Rúll af boltahindrun, vera milli tannanna á fólki og aðskilið mál,

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

Skemmra og skemur

„Þessar aðgerðir ganga skemur en maður átti von á.“ Þarna hefði þurft að standa skemmra. 

Aðgerðir geta gengið langt eða skammt og þá gengið lengra eða skemmra en vænst var. 

Úrbæturnar sem stefnt var að geta hins vegar enst lengur eða skemur en vænst var. 

Skemmra um vegalengd, skemur um tíma.

Málið á blaðsíðu 60 í Morgunblaðinu 17.1.2019.

 

Nefnifallssýki

Nefnifallssýki lætur lítið yfir sér enda hefur ekki verið amast við henni eins mikið og þágufallssýkinni alræmdu (t.d. mér langar í stað mig langar). 

Nefnifallssýki er þó talsvert algeng með mörgum sögnum, t.d. úthluta, eins og þegar sagt er aflaheimildir voru úthlutaðar í stað aflaheimildum var úthlutað.

Úr dálkinum Orðtak á blaðsíðu í Morgunblaðinu 19.1.2019.

 

1.

„Dagur Sigurðsson og fallega japanskan hans var mikið á milli tannanna á fólki meðan á leik Íslands og Japan stóð. 

Frétt á visir.is.      

Athugasemd: Blaðamaðurinn skilur ekki orðasambandið að vera á milli tannanna. Það þýðir ekki einhver sakleysisleg umræða heldur er beinlínis verið að baktala þann sem fyrir verður. Hvernig er hægt að vera blaðamaður og klúðra þessu?

Fólk dáðist að japönskunni hans Dags og hældi honum jafnvel fyrir hana. Ólíklegt er að hann hafi verið baktalaður. Hins vegar eru ekki miklar líkur á því að margir Íslendingar hafi hafi vitað hvort japanskan hans hafi verið fallega eða ekki.

Tillaga: Dagur Sigurðsson og fallega japanskan hans lofuð meðan á leik Íslands og Japan stóð.

2.

„Talið er að Lance Armstrong sé í dag metinn á um sex milljarða íslenskra króna. 

Frétt á visir.is.      

Athugasemd: Stundum er sagt að einhver sé jafnþyngdar sinnar virði í gulli og það er mikið hól, þyngdin er aukaatriði þegar slegnir eru svona gullhamrar.

Hjólreiðakappinn Lance Armstrong er ekki metinn til fjár, hvorki í þyngd sinni né á annan hátt. Hins vegar eru auðæfi hans talin vera um sex milljarðar króna. Það er auðvitað allt annað mál.

Í þessu tilviki er óþarfi að taka það fram að þetta sé auður hans „í dag“, að öðrum kosti hefði komið fram tilvísun til annars tíma.

Tillaga: Talið er að auður Lance Armstrong sé metinn á um sex milljarða íslenskra króna.

3.

„Hafði Seinfeld áhugi þjálfarans áhrif á komu Kramer? 

Fyrirsögn á visir.is.      

Athugasemd: Ég skildi ekki fyrirsögnina þegar ég las hana fyrst. Þurfti nokkrar atrennur og þá las ég fréttina, en það hefði ég ekki átt að gera. Ég skil hana núna, hún er alls ekki röng mætti vera skárri. Fréttin er hins vegar illa skrifuð. Hvað finnst lesendum til dæmis um þetta:

Sóknarlega er hann ruslakarl sem skorar eftir rúll af boltahindrun, hraðaupphlaupum sem og ruslastig.

Þetta er frétt um körfubolta og rætt við þjálfara í efstu deild. Blaðamaðurinn veit ábyggilega hvað snýr upp og niður á körfubolta en hann þarf vanda sig betur, lesenda sinna vegna.

Reglan sem ALLIR blaðamenn verða að hafa í huga er að skrifa frétt sína á skiljanlegu máli. Tali viðmælandinn ekki gott mál á blaðamaðurinn að umorða það, endursegja. Ofangreint er bull. 

Þetta skilst ekki heldur:

Sem körfuboltamaður er hann hugsaður til að dýpka bekkinn hjá okkur, …

Ég skil þetta ekki, hef þó leikið körfubolta. Er verið að endursmíða einhvern bekk og hvað kemur hann íþróttinni við?

Tillaga: Var Kramer ráðinn vegna þess að þjálfarinn hefur áhuga á Seinfeld þáttunum?

4.

„Alls greiddu 115 þingmenn atkvæði með Löfven og 77 sátu hjá. 153 greiddu atkvæði gegn Löfven. 

Frétt á visir.is.      

Athugasemd: Reglan er þessi: Ekki byrja setningu á tölustöfum. Þetta þekkist hvergi í vestrænum tungumálum. Ástæðan er einföld. Með punkti er setningu eða málgrein lokið og þá getur önnur byrjað og það er gert með stórum staf í upphafi fyrsta orðs. Þetta er öllum auðskiljanlegt, truflar ekkert. Tölustafur truflar hins vegar vegna þess stóran staf vantar. Tala stendur þarna eins og illa gerður hlutur.

Fyrsti stafurinn í setningu kallast upphafsstafur, líka hástafur. Í ensku nefnist hann „capital letter“, „stor bokstav“ á norsku, dönsku og sænsku (stór stafur á íslensku), „Großbuchstabe“ á þýsku, „lettre capitale“ á frönsku og svo framvegis.

Þrátt fyrir þessa reglu hallast margir að þeirri undantekningu að fyrirsagnir megi byrja á tölustaf. Einnig veldur það engum vandræðum ef töluorð er notað í stað tölustafs.

Berum nú saman ofangreinda tilvitnun og tillöguna hér fyrir neðan. Í henni er punkti breytt í kommu, sneitt framhjá tvítekningunum, nástöðunni. 

Tillaga: Alls greiddu 115 þingmenn atkvæði með Löfven og 77 sátu hjá, 153 gegn.

5.

„Hafþór, sem nýlega var dæmdur í tólf mánaða fangelsi fyrir peningaþvætti í aðskildu máli, sagði … 

Frétt á visir.is.      

Athugasemd: Sagnorðið að aðskilja merkir greinilega að skilja að en hentar ekki í þessu sambandi. Blaðamaðurinn ætlar sér eflaust að segja að málin séu tvö og eigi ekkert sameiginlegt. Þá er gott að nota óákveðna fornafnið annað, en það er haft til eitthvað sem er hliðsætt, andstætt eða í samanburði, svo dæmi séu tekin.

Réttara er að segja að maðurinn hafi verið dæmdur í öðru máli. Orðin „aðskilið“ og „annað“ eru því gjörólík að merkingu í því samhengi sem hér um ræðir.

Tillaga: Hafþór, sem nýlega var dæmdur í tólf mánaða fangelsi fyrir peningaþvætti í öðru máli, sagði …


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband