Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2018

Er enn til fólk sem horfir á dagskrá sjónvarps?

SjónvarpStuttu síðar gerðist það að stofnað var íslenskt sjónvarp. Það varð mjög vinsælt – og enn er til fólk sem horfir á það.

Þannig skrifar Egill Helgason, dagskrárgerðarmaður á Ríkisútvarpinu. Hann er að fjalla um Netflix í nýjasta pistli sínum, sjá hér.

Mér þykir það nokkur tíðindi að einn frægasti dagskrárgerðarmaður Ríkisútvarpsins skuli taka svona til orða. Hann hefur hins vegar rétt fyrir sér. Enn horfa nokkrir á Ríkissjónvarpið og jafnvel Stöð2. Þeim fer þó fækkandi eftir því sem fleiri kynslóðir bætast við.

Ég hætti að horfa á íslenskt sjónvarp fyrir löngu, læt streymisveiturnar duga ef þörfin gerir vart við sig. Þannig er það nú með miklu fleiri. Ung fólk horfir lítið á línulegar dagskrár sjónvarps. Helst eru það fréttir og einstaka viðburðir í beinni útsendingu sem draga mann að íslensku stöðvunum. Annað er það nú ekki. Netflix, Amazon, iTunes og fleiri duga flestum. Framboði af streymisveitum er afskaplega mikið.

Útvarpið lifir þó. Ég hlusta jafnan á gömlu gufuna enda líklega bundinn af uppeldinu. Í mínu ungdæmi var bara ein útvarpsstöð. Að sumu leyti var það gott en að öðru leyti tóm hörmung. Þá var troðið ofan í kok á hlustendum alls kyns tónlist og talað mál hvort sem þeir vildu eða vildu ekki.

Ofbeldinu hefur ekki enn linnt. Maður þarf að punga út um tuttugu þúsund krónum á ári í skatt vegna þess að góða fólkið vill halda áfram „menningarstarfi“ sínu. Og hvað er betra en að gera það fyrir skattfé og þurfa ekki að markaðssetja sig? En ég ... og fleiri, við erum ekki spurð. Borga góði, borga. Þeir eru þó hættir að hóta að taka sjónvarpið af manni.

Tímarnir breytast um flestir með. Þó eru þeir neandertalsmenn til sem halda að línuleg dagskrá sé eftirsóknarverð fyrir okkur pöpulinn. Svo er ábyggilega ekki. Held að meirihluti landsmanna telji sjónvarp afþreyingu og vilji grípa til hennar eftir hentugleikum en ekki eftir fyrirskipunum stjórnvalds í fjölmiðlafyrirtæki í eigu ríksins.


Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, á að segja af sér

Halldóra MogensenHalldóra Mogensen, þingmaður Pírata, hefur krafist afsagnar Ásmundar Einars Daðason, velferðarráðherra, því hún telur að hann hafi sagt þinginu ósatt um tiltekið mál sem var í meðförum barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar og Barnaverndarstofu. Styðst hún eingöngu við umfjöllun fréttamiðilsins Stundarinnar í þessum efnum en hefur ekki haft fyrir því að kynna sér málsatvik.

Samkvæmt Halldóru og Stundinni liggur alveg ljóst fyrir að Ásmundur ráðherra „laug“ eins og það var snyrtilega orðað.

Nú hafa hins vegar komið fram nýjar upplýsingar sem varpa allt öðru ljósi á málavexti og það var ekki ráðherrann sem laug.

Ögmundur JónasonÖgmundur Jónasson, fyrrum ráðherra og alþingismaður Vinstri grænna, skrifar oft skynsamlega á vefsíðu sinni. Oftar en ekki les ég pistla hans þó langorðir séu. Í pistli dagsins spyr hann í fyrirsögn: „Mun Halldóra Mogensen, formaður,m velferðarnefndar Alþingis, segja af sér?

Ögmundur ræðir málið af mikilli yfirvegun og þekkingu og hann segir:

Í ljósi alls þessa hef ég fylgst með nýjum félagsmálaráðherra taka á málum. Ég hef veitt því athygli hvernig hann hefur reynt að leysa mál af yfirvegun og sanngirni, jafnframt því að horfa til framtíðar um bætt skipulag.

Hugsanlega væri hægt að gagnrýna hann fyrir að hafa ekki haldið stífar fram málstað Barnaverndarstofu, sem hefur sætt gagnrýni fyrir að rækja aðhaldshlutverk sitt of harkalega eins og í máli sem rakið var í sjónvarpsþættinum Kveik, sem nýlega var sýndur í Ríkissjónvarpinu.

Um önnur mál sem tengjast Barnaverndarstofu hefur verið dylgjað, en skiljanlega hefur ekki verið unnt að ræða þau opinberlega sökum persónuverndar.

Í gær var sá múr hins vegar brotinn og kemur þá í ljós að á máli sem stór orð hafa verið látin falla um eru fleiri hliðar en ein. Sjá: https://www.mbl.is/frettir/innlent/2018/04/28/eg_er_ekki_kunningi_braga/

Ásmundur Einar DaðasonOg síðar segir Ögmundur:

Í umræðu í spjallþáttum og á Alþingi hafa verið settar fram sverar ásakanir, þá ekki síst á hendur Braga Guðbrandssyni, sem gegnt hefur starfi forstjóra Barnaverndarstofu. Greinilegt er að nokkrir þingmenn róa að því öllum árum að grafa undan framboði hans í barnanefnd Sameinuðu þjóðanna.

Upphrópanir Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingkonu Pírata í Silfri Egils ekki alls fyrir löngu, að órannsökuðu máli af hennar hálfu, voru umsvifalaust birtar á vefsíðu RÚV sem stórfrétt án þess þó að gengið væri eftir því að Þórhildur Sunna fyndi ásökunum sínum stað.

Björn Leví Gunnarsson, einnig þingmaður Pírata segir í grein í Morgunblaðinu í gær að „kerfið sjái um sína" og vísar hann þar í tilnefningu Braga í framboð í barnanefnd SÞ sem óeðlilegt spillingarmál. Þetta er nokkuð sem þingmaðurinn þarf að skýra með málefnalegum hætti. 

Allt er þetta mjög athyglisvert hjá Ögmundi, sérstaklega hvernig mál eru framsett hjá Ríkisútvarpinu án rökstuðnings, orð Píratanna talin vera staðreyndir og því fréttir. Líkur benda hins vegar til þess að þeir eru í herferð og misnota aðstöðu sína og Ríkisútvarpið makkar með. Þetta gengur ekki enda um falsfréttir að ræða.

Ögmundur heldur áfram:

Sérstaklega verður þessi spurning ágeng eftir að fylgjast með framgöngu Halldóru Mogensen, formanns velferðarnefndar Alþingis, sem nú hefur kallað eftir afsögn Ásmundar Einars Daðasonar, félagsmálaráðherra.

Halldóra Mogensen tilkynnir þjóðinni á föstudag að hún vilji ræða þessi viðkvæmu mál í beinni sjónvarpsútsendingu frá nefndarsviði Alþingis. Síðan kemur á daginn að þetta gerir hún án þess að hafa kynnt sér þau gögn sem eigi að ræða og nefnd hennar hafa verið aðgengileg.

Stundin upplýsir að hún hafi kallað eftir nefndarfundi strax um nóttina eftir að hafa lesið umfjöllun Stundarinnar! Semsagt um nótt er kallað á ráðherra í beina útsendingu í þingnefnd en í Fréttablaðinu er svo upplýst að fram til þessa hafi hún verið svo mikið í símanum að hún hafi ekki haft tíma til að „kíkja á gögnin," og reyndar enginn í nefndinni!

Formaður félagsmálanefndar Alþingis vill að ráðherra segi af sér. En ég spyr væri ekki nær að formaður félagsmálanefndar segi af sér?

Þarna kemur Ögmundur eiginlega að kjarna málsins. Halldóra, þingmaður Pírata, hefur ekki skoðað nein gögn, aðeins lesið fréttir í Stundinni. Hún bregst við fréttaflutningi eins og hann sé stórisannleikur sem ekki þurfi að kanna. Í raun og veru er hún aðeins að sækjast eftir fjölmiðlaupfjöllun og hana hefur hún fengið á svona vafasömum forsendum.

Mörgum þingmönnum, sérstaklega Pírötum, hefur verið tíðrætt um spillingu og krafist afsagnar ráðherra. Hverjar eru kröfurnar þegar málflutningur þingmanna reynist rangur, þeir fara með rangt mál? Er þá í lagi að þeir yppi öxlum og snúi sér til veggjar? Má misnota Alþingi og búa til róg og falsfréttir undir nafni þess?

Nei, alls ekki. Verði þingmaður uppvís að lygum á hann að segja af sér. Hann hefur þá brugðist þeim kröfum sem kjósendur gera til hans.

Er þeim þingmanni sætt sem  hefur ekki kynnt sér mál nægilega vel en krefst samt afsagnar ráðherra. Auðvitað ekki.


Gvöð hvað góða fólkið er ossalega gott

Hann er alltaf kallaður Gísli GísliMarteinn, aldrei nefndur með föðurnafni. Svona eins og Erró og Káinn sem maður vissi ekki hvað hétu fyrr en komið var fram á fullorðinsár. Ólíkt listamönnunum er hinn fyrst nefndi svo oft í fjölmiðlum að enginn fer í grafgötur við hvern er átt. Maður hreinlega kemst ekki hjá því. Hann er hreinlega alltaf í viðtölum, gefandi afar gáfulegar yfirlýsingar sem við, almenningur súpum hveljur yfir. Núna síðast í helgarblaði Fréttablaðsins.

Nú er hins vegar alveg nóg komið enda vita landsmenn svo mikið um Gísla þennan að það er farið að valda sálrænum skaða á meirihlutanum.

Í sannleika sagt er ég orðinn þreyttur á Gísla Marteini og öllu hinu fræga fólkinu sem tröllríða fjölmiðlum. Fólkinu sem er í sjónvörpunum, útvörpunum, og pöpulli telur þá „elskaða og dáða“ fjölmiðlamenn. Meðal þeirra eru litlu fréttastelpurnar og litlu fréttastrákarnir sem ráða fullkomlega við eitt tíu orða „uppistand“ í beinni útsendingu í fréttatíma. Til viðbótar geta þau líka sagt „við kveðjum svo héðan frá Karphúsinu“, og bæta við ógnargáfulegum svip.

„Ja, hérna“, segir þá fréttaþulurinn í ósvikinni aðdáun, og bætir svo við: „Og nú að allt öðru ...“ Rétt eins og við hérna megin við skjáinn eigum það á hættu að rugla saman fréttum úr Karphúsinu við eitthvað „allt annað“. 

Víkjum aftur að fræga og góða fólkinu. Hvers vegna í ósköpunum veit ég hvar þessi Gísli Marteinn á heima, hvernig hann ferðast um, hvar hann vinnur, hver konan hans er og fleira tilgangslausar staðreyndir. Ég bað ekki um þetta en það hefur engu að síður síast inn.

Þetta er maðurinn sem er eða er ekki í Sjálfstæðisflokknum. Hann er besti vinur Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra, þið vitið mannsins sem undirritar ekki skjöl án þess þess að tekin sé mynd af athöfninni og hún birt í fjölmiðlum.

Gísli Marteinn var borgarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn en starfaði þétt með vinstri meirihlutanum í borgarstjórn, enda skuldaði hann hvorki flokknum sínum né kjósendum sínum eitt né neitt fyrir að hafa komið honum þangað inn. Hann segist aðeins bundinn af sannfæringu sinni, gefur ekkert fyrir samherja og vini. Hins vegar var færði hann fjöll úr stað fyrir vinstri meirihlutann.

Hann er hinn dæmigerði „góði gæi“, forystumaður „góða fólksins“. Hefur aldrei gert nein mistök önnur er þau en  þau að hafa næstum því orðið borgarstjóri og þá hefði hann ábyggilega gert fullt af mistökum sem hann sér obboðslega eftir. Þetta segir Gísli vinur í óskaplega ómerkilegu og leiðinlegu viðtali í Fréttablaði helgarinnar. Af hverju í fjandanum var ég að lesa það?

Gísli er sko frjálshyggjumaður en dassi af félagslegum áherslum. Nei, nei, hann segist sko alls ekki vera foræðishyggjumaður. Hann er nebbnilega ekki eins og allir hinir, hann er miklu, miklu betri, langbestur. Og ekki flögrar að honum að liggja á þeirri skoðun sinni. Hógværðin uppmáluð.

Heiðbjartur og fagur hjólar hann um vesturbæinn, fer aldrei tilneyddur austur fyrir Skólavörðuholt. Hann gengur ekki á fjöll.

Það er eitthvað ferlega bilað við þann Íslending sem elskar malbik og steinsteypu.

Spái því að næsta viðtal við Gísla Martein ... eitthvaðson, birtist í Mogganum nema því aðeins að einhver krefjist lögbanns á viðtöl við manninn næstu 20 árin. Og þá verða spurningarnar þessar:

- Trúir þú á einstaklinginn eða strætó?

- Hvort finnst þér meira gaman að hjóla eða labba? Ferðu oft í labbiferðir?

- Vaskar þú upp eða Vala? Elskið þið ekki hvort annað gasalega mikið?

- Greiðir þú þér daglega? Hefurðu fengið þér strípur?

- Finnst þér ekki slæmt að hafa aldrei gert vitleysur?

- Hvað myndir þú eiginlega gera ef þú værir eins og við hin í einn dag?

- Mynduð þið Jésú ekki vera vinir ef hann væri hér?


Skemmdar fréttir í fjölmiðlum

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

1.

„Loftárásir hafnar í Sýrlandi – Þetta er búið að gerast síðan í gærkvöldi.“ 

Fyrirsögn á dv.is.     

Athugasemd: Hvað er „búið að gerast“? Af hverju er ekki sagt; þetta hefur gerst frá því í gærkvöldi?

Ef blaðmaður hefur ekki skilning á eigin skrifum er afar brýnt að einhver lesi yfir. Enn er talað um prófarkalestur í þessu sambandi. 

Eiður heitinn Guðnason var því fylgjandi að einhver læsi yfir það sem fréttabörnin skrifuðu. Fréttamiðillinn dv.is verður að taka sig á og bæta málfar í fréttaskrifum.

Tillaga: Loftárásir hafnar í Sýrlandi – Þetta hefur gerst frá því í gærkvöldi.

2.

„Ég varð í raun sex dögum utandyra, sagði Manganielloum ferðina.“ 

Úr frétt á visir.is.      

Athugasemd: Sá sem nefndur er þarna hafði eytt sex dögum utan dyra. Blaðamaðurinn þekkir líklega sögnina að verja sem þýðir að nota eða eyða. Í þátíð er sögnin „ég varði“.

Vel má vera að þetta sér prentvilla, einn stafur fallið niður. Prófarkalestur hefði bjargað málinu. Vélrænn yfirlestur tölvu dugar hér ekki vegna þess að orðið sem um ræðir er ekki rangt skrifað, við það takmarkast „vit“ tölvunnar, og þar hefði hið mannlega átt að taka við.

Tillaga: Ég varði í raun sex dögum utandyra, sagði Manganielloum ferðina.

3.

„Kanadískur raðmorðingi grunaður um sjö morð hið minnsta.“ 

Úr frétt á dv.is.       

Athugasemd: Kanadamaðurinn er í haldi vegna sjö morða. Hann er því meintur morðingi enda aðeins grunaður. Vel má segja að hann sé meintur raðmorðingi ef löngunin til að koma þessu gildishlaðna orði í fyrirsögnina (sölutrix). Þar af leiðandi er hann ekki raðmorðingi.

Þegar fullyrt er að raðmorðingi sé grunaður um sjö morð skilst það þannig að hann hafi þegar verið sakfelldur um önnur morð, er því sannarlega raðmorðingi. 

Tillaga: Kanadamaður grunaður um sjö morð hið minnsta.

4.

„Bjóða fjárfestum Jarðboranir til sölu.“ 

Fyrirsögn á bls. 16 í Morgunblaðinu, 17. apríl 2018.      

Athugasemd: Þegar hlutur er boðinn ákveðnum einstaklingi eða hópi þá er sagt að hann sé þeim boðinn til kaups. Má vera að um þetta megi deila.

Þó má ábyggilega segja; Jarðboranir verða seldar til fjárfesta. Þetta er þó frekar stirðbusalegt orðalag.

Hins vegar held ég að máltilfinning flestra að eðlilegra sé að taka til orða á þann hátt sem segir í tillögunni hér fyrir neðan. En hverjir eru fjárfestar? Eru það ekki allir sem geta keypt? Er þá ekki verið að selja Jarðboranir.?

Tillaga: Bjóða fjárfestum að kaupa Jarðboranir.

5.

„Lýðháskólinn á Flateyri opnar dyr sínar í haust.“ 

Fyrirsögn á frettabladid.is.       

Athugasemd: Lýðháskólinn á Flateyri hefur enga hugsun, hann er skóli sem fólk stjórnar, stefnu sem fólk mótar og húsakynni sem fólk opnar og lokar eftir þörfum. Skólinn opnar ekkert en fólk gerir það.

Þrátt fyrir kjánalega fyrirsögn segir blaðamaðurinn þetta í upphafi fréttarinnar: „Kennsla hefst í Lýðháskólanum á Flateyri í september.“ Furðulegt að hann skuli ekki hafa notað þetta sem fyrirsögn í stað þess að fullyrða það sem ekki stenst.

Tillaga: Kennsla hefst í Lýðháskólanum á Flateyri í haust.

6.

„Sindri gæti hafa komið sér víða.“ 

Fyrirsögn á visir.is.        

Athugasemd: Þessi fyrirsögn er ekki til fyrirmyndar. Í fréttinni er sagt frá strokufanga sem flúði til útlanda. Líklega á blessaður blaðamaðurinn við að maðurinn gæti hafa farið víða og óvíst hvar hann sé.

Fyrirsögnin er tómt rugl. Maður getur ekki „hafa komið sér víða“, nema því aðeins að hann hafi verið hlutaður í sundur. Jafnvel þessi tilraun til skýringar stenst ekki. Fyrirsögnin er bara bull og blaðamanninum fréttamiðlinum ekki til sóma. Verst er þó að enginn virðist hafa lesið greinina yfir. 

Ritstjórnin hefur enga neytendastefnu, engin virðing borin fyrir lesendum, þeir fá æ ofan í æ skemmda vöru. Hægt að treysta því nokkuð örugglega að verslanir selji ekki neytendum skemmda eða ónýta vöru. Sambærilegt eftirlit er ekki á fjölmiðlum, hvorki innra né ytra eftirlit. Við fáum lélega þjónustu.

Fjarskipti sem reka nú vefinn visir.is eru ekki með neina stefnu í útgáfumálum sínu aðra en þá að allt sé leyfilegt, engar kröfur gerðar og meiri áhersla er lögð á fjölda frétta en gæði þeirra.

Tillaga: Sindri gæti verið hvar sem er.

7.

„Hinn heims­frægi listamaður, Ólaf­ur Elías­son, hef­ur sett sitt heill­andi heim­ili á sölu..“ 

Úr frétt á mbl.is.         

Athugasemd: Líklega er hérna dálítið ofsagt. Maðurinn mun hafa sett húsið sitt á sölu en ekki heimili. Veit einhver dæmi þess að heimili hafi verið selt?

Stagl einkennir þesssa „frétt“. Af hverju orðar blaðamaðurinn það svo að maðurinn hafi sett „sitt heimili“ á sölu? Hefur hann ekki sett heimili sitt (það er húsið) á sölu. Húsið sitt, ekki sitt hús. Örstuttu síðar er réttilega talað um „listaverk hans“ ekki hans listaverk …

Í fréttinni segir að húsið sé „yfirmáta smekklegt“. Aðrir hefðu sagt það vera afar laglegt. Yfirmáta er dálítið yfirdrifið, ekki góð tilfinning sem fylgir þessu atviksorði

Loks er húsið sagt „glundroðakennt á köflum“. Óljóst er hvernig húsið getur verið þannig, nema það sé illa skipulagt. Nafnorðið er ekki jákvætt, þvert á móti. Glundroði er „chaos“ á ensku og það er enn notað í hefðbundinni merkingu. Viltu þú, lesandi góður, kaupaglundroðakennt hús?

Í þessu sambandi ber þess að geta að tilraunir til að breyta merkingum orða eru afar tíðar. Sagt er að eitthvað sé „geðveikt“ fallegt, „truflað“ í merkingunni frábært, gott er einatt talið betra en ágætt. Flest af þessum tilraunum mistakast. Hver notar núna sögnina að „spæla“ einhvern eða „skvísa“ einhverju svo dæmi séu tekin?

Má vera að málið þróist af fólki sem hefur ekki góðan skilning á íslensku og því sé glundroði og yfirmáti orð sem eiga að fá aðra merkingu en þá sem þekktust er.  

Tillaga: Sindri gæti verið hvar sem er.

 

9.

„Jöfnunarmarkið kom hins vegar ekki, bikarmeistarar ÍBV lutu í lægri hlut gegn Íslandsmeisturum Vals.“ 

Úr frétt á visir.is.         

Athugasemd: Líklega er þessi klúðurslega málsgrein yfirsjón eða samsláttur orðatiltækja. 

Sá sem tapar lýtur í lægra haldi fyrir andstæðingnum. Einnig má orða það á  þannig veg að einhver bíði lægri hlut, tapi. Hver sem skýringin á klúðrinu kann að vera bendir allt til þess að enginn lesi yfir það sem blaðamenn skrifa á visir.is, ekki einu sinni blaðamennirnir sjálfir.

Eins og hér hefur iðulega verið sagt á þessum vettvangi þá bjóða allir fjölmiðlar upp á skemmda vöru ef fréttirnar eru ekki á góðu máli. Með því er neytendum sýnd óþolandi lítilsvirðing. Ástæðan er eflaust langlundargeð lesenda sem ættu ekki að láta bjóða sér svona athugasemdalaust. Enginn vill skemmt epli en skemmdar fréttir eru í lagi.

Tillaga: Jöfnunarmarkið kom hins vegar ekki, bikarmeistarar ÍBV lutu í lægra haldi fyrir Íslandsmeisturum Vals.

10.

„Plokkarar á Íslandi er áhugafélag rúmlega 4400 manns á Facebook sem fara út og þrífa upp plast og rusl úr náttúrunni. 

Auglýsing á bls 18 í Morgunblaðinu 21. apríl 2018.         

Athugasemd: Borið hefur á því að reynt sé að breyta merkingum orða. Sagnorðið plokk er nú notað yfir það að „þrífa plast og rusl úr náttúrunni“ eins og segir í ofangreindri tilvitnun.

Sögnin að plokka merkir vissulega að tína, en ekki þó í stórtækri merkingu þess orðs eins og þrif eða hreinsun. Konur plokka augnabrýr, lengi hefur tíðkast peningaplokk, sumir skjóta rjúpur og plokka fiðrið af fuglinum, aðrir plokka arfa úr blómabeðum og svo plokka börnin eitthvað úr matnum og teljast þá matvönd.

Athygli vekur að í tilvitnuninni virðist höfundur hennar ekki telja að nafnorðið plokk sé gegnsætt og telur því nauðsynlegt að skýra það þannig að þeir sem stunda plokk fari út og þrífi plast og rusl, ekki úr görðum heldur náttúrunni ... 

Þar að auki er málsgrein frekar klúðurslega samin, sérstaklega síðasta setning hennar. Hvað merkir til dæmis að „þrífa upp“? Er ekki nóg að segja þrífa?

Tillaga: Plokkarar á Íslandi er áhugafélag rúmlega 4400 manna á Facebook. Þeir tína upp plast og rusl í náttúrunni.

11.

„Helga hljóp í hlýj­asta Lund­úna­m­araþon­inu frá upp­hafi.“ 

Fyrirsögn á mbl.is.          

Athugasemd: Keppni getur ekki verið hlý, hins vegar getur veðrið verið heitt, kalt eða eitthvað þar á milli. 

Íþróttablaðamenn reyna að breyta tungumálinu, vitandi eða óafvitandi. Þeir segja stundum að keppnishlaup hafi verið það fljótasta og eiga þá við að hlaupendur (!) hafi sjaldan eða aldrei fengið betri tíma. Þegar lið skorar strax í upphafi fótboltaleiks, jafnvel á fyrstu sekúndunum, þá er sagt að Nonni hafi skorað fljótasta markið á árinu, mánuðinum eða frá upphafi. Lærisveinn hefur fengið gjörbreytta merkingu í orðasafni íþróttablaðamanna.

Hlaupararnir í London hafa ábyggilega notið hlýindanna en fleiri nutu þeirra enda var hlýtt í borginni, ekki aðeins á hlaupurunum. Hins vegar má spyrja hvort að hitastigið hafi verið merkilegra umfram árangur hlauparans Helgu. Ekkert er hins vegar getið um hann.

Tillaga: Aldrei hlýrra þegar Helga tók þátt í Lundúnarmaraþoninu. 

12.

„ Fjölmennustu ríkisföng ferðamanna sem fengu þjónustu á LSH árið 2017 voru Bandaríkin, Bretland …“ 

Úr frétt á bls 10 í Morgunblaðinu 24. apríl 2018.         

Athugasemd: Þessi málsgrein er frekar skrýtin, sérstaklega vegna þess að ríkisföng fá ekki læknisþjónustu á Landspítalanum. 

Vissulega kann að stundum að vera erfitt að orða staðreyndir í stuttu máli. Þá þurfa blaðamenn að leggja heilann í bleyti og helst ekki apa eftir illa orðuðu skriflegu svari frá stofnunum eða fyrirtækjum eins og gert er í þessu tilviki. 

Tillaga: Flestir ferðamenn sem fengu þjónustu á LSH árið 2017 voru frá Bandaríkjunum, Bretland, Þýskalandi, Danmörk, Kína, Kanada, Spáni, Ástralíu, Svíþjóð og Noregi.

13.

„Við erum á þeim stað að mamma hans gat sofnað við hlið hans svo að hún get­ur loks sofið, henni líður vel í kring­um hann.“ 

Úr frétt á mbl.is.         

Athugasemd: Skilur einhver þessi orð? Varla, enda er textinn á ensku illa skiljanlegur og þýðingin á íslensku er jafnvel enn verri. Þegar svo er komið er skynsamlegast að þýða innihaldið, ekki festa sig í orðunum. Á ensku segir svo í frétt sky.is: 

It has come to a point when his mum is actually asleep next to him so she can go to sleep, she feels comfortable with him.

Lesendur geta svo spreytt sig á að gera betur en gert er hér í tillögunni.

Tillaga:  Núna getur móðir litla drengsins sofið við hlið hans og þar líður henni vel. 

14.

Ný brögð bæta afkomuna hjá Coca-Cola.“ 

Fyrirsögn á bls. 11 í Viðskiptablaði Morgunblaðsins 26. apríl 2018.        

Athugasemd: Almennt er bragð eintöluorð og er þá í merkingunni bragð af mat eða drykk. Þetta vita allir sem hafa nokkuð þroskaða máltilfinningu sem einungis kemur af miklum lestri og drjúgum orðaforða.

Brögð eru klækir, jafnvel ráð. Þegar ég las þessa fyrirsögn grunaði mig Kók fyrirtækið um græsku, það beitti brögðum til að heilla neytendur. Höfundur átti hins vegar við að bragðtegundum hafi fjölgað.

Margt fólk stundar skriftir en fær engan til að lesa yfir sem ætti þó að vera sjálfsagt mál að því tilskyldu að yfirlesarinn hafi eitthvað vit á tungumálinu. Ekkert er við því að segja þó tungumálið breytist og þróast. Vont er þó þegar breytingarnar verða vegna vanþekkingar eða ofurtrúar á að orð og orðalag í öðrum tungumálum geti athugasemdalaust nýst í íslensku.

Ég er þess fullviss að sá sem bergir á drykkjum hins virðulega Coca Cola fyrirtækis mun ekki finna „brögð“ heldur margar bragðtegundir.

Tillaga:  Nýjar bragðtegundir bæta afkomuna hjá Coca-Cola.


Yfirgengilegt bull er kallað frétt á dv.is

180421 DvSjaldan hefur risið á dv.is verið lægra. Nú er hann opinberlega genginn í lið með vinstri öflunum sem lengi hafa vilja knésetja Sjálfstæðisflokkinn. 

Síðasta glorían er rætin „frétt“, já svokölluð frétt en gæti verið bull í einhverjum virkum í athugasemdum sem styður Samfylkinguna.

„Fréttin“ er svona:

Heyrst hefur að nú sé uppi fótur og fit innan Sjálfstæðisflokksins. Ku forysta flokksins vera harmi slegin og vita ekki sitt rjúkandi ráð. Allt er sagt á suðupunkti og Bjarni Benediktsson hafi ekki undan við að slökkva elda og hughreysta tárvota innmúraða og innvígða.

Uppnámið er þó ekki rakið til niðurstaðna kannana í Reykjavík fyrir næstkomandi borgarstjórnarkosningar, eða að kosningaloforð Eyþórs Arnalds um að veita 70 ára og eldri undanþágu frá fasteignasköttum brjóti í bága við lög, eða þess að nýr bæjarmálalisti ógni flokknum í Vestmannaeyjum.

Nei, neyðarástandið ku vera komið til vegna þess að nú á að fara að banna humarveiðar.

Sagt er að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari flokksins, hafi orðið að leggjast í læsta hliðarlegu er hún heyrði af mögulegu humarbanni, þar sem hún hefði þá ekkert til að borða með hvítvíninu sínu.

Nú má spyrja hvaða tilgangi þjóna svona skrif? Þau eru ekki frétt, ekki fyndin, í skrifunum er vafasöm fullyrðing og loks er verið að hnýta í þingmann Sjálfstæðisflokksins. Í þokkabót eru skrifin flokkuð með öðrum „fréttum“ sem sumar eru þó ekki fréttir, sjá meðfylgjandi mynd. Viðtal við einhvern Gunnar Smára Egilsson sem virðist eiga greiða leið inn á DV og fjölmiðla tengdum því.

Greinilegt er að ritstjórn dv.is er frekar metnaðarlaus en leita útrásar með bulli.


Píratar hreinsa til, ljóðskáldið og hagfræðingurinn skorin

Hópurinn sem síðustu misseri hefur kallast Píratar hefur verið iðinn að skemmta landsmönnum. Svo atorkusamur er hann að stundum hefur þurft að kalla til sálfræðinga til að greina vanda og róa fólk. Þeir hafa þó aldrei komið að neinu gagni. 

Oftast hefur hópurinn klofnað og fundið nýtt nafn og kennitölu. Svo er bara boðið fram í kosningum gegn spillingu, óheiðarleika og álíka.

Þannig var það þegar Borgarahreyfingin klofnaði í Borgara og Hreyfinguna. Eitthvað hræðilegt hafði eitrað andrúmsloftið því samskiptin milli fólks voru erfið, hugsanlega vegna spillingar og óheiðarleika. Sálfræðingar voru hins vegar ráðþrota.

Rítalínið dugði til að fyrirbyggja þau klofning. Eitthvað obbbboðslega slæmt hafði gerst. Persónuleg áflog voru orðin svo tíða að kalla varð aftur á sálfræðinganna sem, eins og áður, gátu ekkert gert. Fáir grétu klofninginn.

Stofnað til Pírata og var nú friður um sinn. Svo spillti eitthvað samstarfinu og þeir gerðu uppreisn á móti formanninum og stofnandanum, ljóðskáldinu geðþekka. Það var beinlínis sent í útlegð, fékk ekki einu sinni heiðurssæti á lista og ekki eina einustu sporslu, ráðgjafa- eða nefndarstarf. Er hún nú úr sögunni og var nú friður um sinn.

Kutarnir voru nú brýndir og næst ráðist gegn öðrum hógværum hagfræðingi, ljúfu og geðþekkum manni sem aldrei hefur lagt ill til nokkurs manns, hvorki í ræðu né riti. Hann fær ekki lengur að sitja í Seðlabankaráði sem þykir góð sporsla. Kemur nú hagfræðingnum í koll innflytjendastefna Pírata sem sækja nú útlending, líklega flóttamann, til að sitja í ráðinu.

Svona hafa nú leiksýningarnar verið á undanförnum árum og eru á borð við bestu sápuóperur sem tíðkast í amrísku síðdegissjónvarpi.

Lítið hefur farið fyrir pólitískri stefnu krakkanna í margklofna hópnum enda ekki tími til að sinna pólitík þegar daglega er verið að höggva samherja í herðar niður. Sjá hér.

Margt bendir til þess að Píratar klofni og samkvæmt sögunni eru líkur til þess að annar flokkurinn muni heita Pí og hinn Ratar. Í þeim fyrrnefnda verða fyrirspurnar- og þrætuþingmenn. Í þeim síðara verður burtreknir en geðþekkir fyrrverandi stjórnmálamenn. 

Berdreymin kona ritaði fyrir stuttu á samfélagsmiðli að margt muni nú gerast áður en að Pí & Ratar fari að sinna stjórnmálum. Nótt hinna löngu hnífa nálgast óðum ...


mbl.is Segir Pírata „stefnulaust skip“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ástæða til að hrósa dv.is fyrir að hafa séð að sér

dvNokkrum sinnum hef ég gert hér athugasemdir við málfar á fréttamiðlinum dv.is. Ritstjórnin má taka sig verulega á hvað varðar prófarkalestur.

Verst er þó útlitið á vefmiðlunum eftir að ný vefsíða var tekin í notkun. Þá voru allar fréttir tímasettar og sagt að þær hafi verið birtar fyrir tilteknum mínútum eða klukkustundum „síðan“.

Um þetta var fjallað hér í þessum pistli. Þar er sagt:

Þegar tengt er við tíma er einfaldalega sagt: Hann kom fyrir löngu. Algjör ofrausn er að bæta við atviksorðinu „síðan“, það hjálpar ekkert. Allir með þokkalegan skilning á íslensku vita að verið er að tala um liðna tíð.

Nú hefur einhver með viti bent ritstjórn dv.is að það er einfaldlega rangt að skrifa með frétt að hún hafi birst „fyrir klukkutíma síðan“. 

Ritstjórnin hefur nú séð að sér og lagt af þennan ljóta ósið. Það var líklega eins gott því ég var ákveðinn í að stefna fjölmiðlinum fyrir ranga notkun á íslensku. 

Ég ræddi við kunningja minn sem er lögfræðingur og skýrði málið út fyrir honum. Hann skildi mig þokkalega  en hló samt að mér og sagði slíkan málarekstur algjörlega vonlausan.

Hvað á eiginlega að gera þegar fjölmiðlar sýna lesendum sínum þá óvirðingu að bera fram fyrir þá illa skrifaðar fréttir? Veitingastaður gæti ekki borið fram skemmda rétti. Íslenska innanlandsflugfélagið sem áður hét Flugfélag Íslands, og ber nú langt og óþjált enskt nafn, myndi ekki komast upp með að bjóða upp á óstundvísi, léleg sæti eða jafnvel bilanagjarnar flugvélar. Strætó þarf að halda tímaáætlun um bjóða upp á þrifalega vagna fyrir hunda, menn og reiðhjól.

Þegar öllu er á botninn hvolft er nú ástæða til að hrósa ritstjórn dv.is í hástert fyrir að hafa séð að sér.


Æ, æ og æ ofan í æ ...

Alþýðufylkingin stendur ekki undir nafni, sárafáir fylkja sér með henni, hvorki í Alþingiskosningum né sveitarstjórnarkosningum. 

Besti árangur Alþýðufylkingarinnar var í sveitarstjórnarkosningum 2014 er hún fékk 0,4% atkvæða, 219 manns kusu hana. Engu að síður kusu 575 manns flokkinn í Alþingiskosningunum 2016 en hlutfallið var þó aðeins 0,3%

Síðast haust fékk flokkurinn aðeins 0,2% þó 375 manns hafi kosið hann.

Venjulegt fólk hefði auðvitað hætt þessari vitleysu en í Alþýðufylkingunni er ekkert venjulegt fólk heldur hörkuduglegt fólk sem tekur ekki mark á synjun, tekur ekki nærri sér þó þjóðin hafni henni æ ofan í æ.

Og æ, æ. Nú ætlar hann Þorvaldur trésmiður Þorvaldsson að bjóða sig enn einu sinni fram og núna í borgarstjórnarkosningunum í vor. Við liggur að maður vorkenni honum. Hann er eins og maðurinn sem sér ekki dyrnar og gengur á glerið aftur og aftur (æ ofan í æ). 

Honum fer eins og karlinum sem réri bát sínum á skerið og orti rétt áður (skrifað eftir minni):

Ýtar sigla út með sjó

á unnarjónum káta.

Skipið er nýtt en skerið hró

og skal því undan láta.

Og svo hrópar þessi ágæti frambjóðandi eins og félagi Stalín forðum: Berjumst félagar, berjumst.

Ég spái Alþýðufylkingunni 0.05% atkvæða, það er ef skyldmenni frambjóðenda mæti kjörstað.

 

 


mbl.is Þorvaldur leiðir Alþýðufylkinguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Börn öfgavædd og Birgitta bakar lag en ekki köku

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum:

1.

„Það er skrítið að vera í þessu þegar maður er búinn með sex ára háskólanám í tannlækningum sem borga vel.“ 

Úr frétt á visir.is.     

Athugasemd: Hvað borga tannlækningar? Blaðamaðurinn er líklega  þarna að þýða enska orðatiltækið „It pays well“ en ferst það frekar óhönduglega vegna þess að íslenskan viðurkennir ekki þessa þýðingu, hún verður einfaldlega asnaleg.

Byggi blaðamaðurinn yfir drjúgum orðaforða eftir að hafa stundað bóka- og blaðalestur frá barnæsku ætti honum að vera auðvelt að þýða á góða íslensku. Jafnframt vissi hann að bein þýðing gengur oft ekki upp. Slíkar eru oft kenndar við „Google-Translate“ og þykja ekki merkilegar. 

It's strange to be in this when you have a six-year university study in dentistry that is paying well.

Þannig þýðir Google-Translate ofangreinda tilvitnun og gerir það bara býsna vel.

Tillaga: Það er skrýtið að vera í þessu eftir sex ára háskólanám í tannlækningum sem er ábatasamt nám.

2.

„… hafi hann haft aðgang að 110 börnum á aldrinum ellefu til fjórtán ára. Talið er að honum hafi tekist að öfgavæða einhver þeirra.“ 

Úr frétt á visir.is.     

Athugasemd: Held að blaðamaðurinn sem skrifaði þessa grein hafi verið furðuvæddur eða þá að hann hafi verið vitleysisvæddur. Ofangreint „meikar ekki sens“, svo gripið sé til enskuvæðingar á íslenskri tungu.

Tillaga: Talið er að hann hafi innrætt sumum börnunum öfgafullar skoðanir.

3.

„ Zlat­an Ibra­himovic var að eiga hreint út sagt ótrú­lega frum­raun með LA Galaxy … “ 

Úr frétt á mbl.is.      

Athugasemd: Blaðamaðurinn skrifar um það sem þegar hefur gerst. Í flestum tungumálum er slíkt nefnd þátíð og hún er bara ansi góð til síns brúks. Þar með hefði hann einfaldlega getað skrifað eins og hér er gerð tillaga um og er miklu, miklu betra og skýrara.

Tillaga: Zlat­an Ibra­himovic átti hreint út sagt ótrú­lega frum­raun með LA Galaxy …

4.

„Erkifjend­urn­ir frá Los Ang­eles komust í 3:0-for­ystu áður en heima­menn klóruðu í bakk­ann eft­ir klukku­tíma leik og þá steig Sví­inn á stokk af vara­manna­bekkn­um.“ 

Úr frétt á mbl.is.      

Athugasemd: Skelfing er að þurfa að lesa svona þvælu um fótboltaleik. Svíinn sem um er rætt, Zlatan Ibrahimovic, steig ekkert á stokk. Slíkt gerir enginn í íþróttaleik. Maðurinn var varamaður og gekk eða hljóp inn á völlinn og gjörbreytti gangi mál fyrir liðið sitt.

Íþróttablaðamenn eiga að skrifa um það sem hefur gerst án alls skrauts. Sé ætlunin að nota orðatiltæki eða málshætti er krafan sú að það sé gert rétt. Höfundur fréttarinnar gjörsamlega klúðrar henni með of langri málsgrein og orðatiltækjum sem passa ekki nokkurn skapaðan hlut inn í frásögnina. „Stíga á stokk af varamannabekk“, þvílíkt bull.

Hér er ekki allt upptalið í frétt sem er aðeins þrettán línur. Svíinn skorði mark á „einhverjum 36 metrum“, segir í fréttinni. Hvaða á höfundurinn við með þessu? Leiki einhver vafi á vegalengdinni hefði mátt nota fjölda annarra orða, til dæmis „um“, „á að giska“ eða álíka.

Tillaga: Erkifjend­urn­ir frá Los Ang­eles skoruðu þrjú mörk áður en Svíinn kom inn á sem varamaður og snéri leiknum algjörlega við.

5.

„Krakkarnir mínir eru í Skíðaskólanum í Bláfjöllum og ég krosslegg fingur að þau séu að skemmta sér.“ 

Úr „frétt“/pistli á visir.is.      

Athugasemd: Þessi málsgrein segir ekki fulla sögu vegna þess að í hana vantar sagnorð. Ekki er hægt að segja „krosslegg fingur að þau séu …“. 

Blaðamaðurinn hlýtur að hafa krosslagt fingur og vonað að börnin skemmti sér. Raunar er algjör óþarfi að krossleggja fingur af þessu tilefni, vonin dugar, hjátrúin gerir ekkert, ekki einu sinni fyrir stílinn. Vanur blaðmaður er hér staðinn að rugli.

Tillaga: Krakkarnir mínir eru í Skíðaskólanum í Bláfjöllum og ég vona að þau skemmti sér vel.

6.

„Enginn sjúkrabíll hefur verið á vakt á Ólafsfirði frá því í fyrrasumar.“ 

Úr frétt í 10 fréttum Ríkissjónvarpsins 3. apríl 2018.     

Athugasemd: Bregður nú nýrra við þegar bílar stunda vaktavinnu. Flestir hefðu talið að slík tæki gætu ekki brugðist við nema þeim væri stjórnað af fólki.

Má þó vera að hægt sé að taka svona til orða, þó það stingi örlítið í augun. Að minnsta kosti er sagt: Bíll ók á ljósastaur, sjúkrabíll sótti slasaðan mann og flugvélin lenti á túninu. Engum dettur í hug að þessi tæki hafi verið sjálfvirk og mannshönd hvergi komið nærri.

Betra er þó að blaðamenn hafi blæbrigði málsins í huga en skrifi ekki án hugsunar og gæti jafnframt að stíl. Svo skaðar ekki að lesa yfir eða láta lesa yfir. 

Tillaga: Enginn sjúkrabíll tiltækur í neyðartilvikum á Ólafsfirði.

7.

„Gylfi Zoëga, meðlimur í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands og prófessor í hagfræði, hafði tvisvar á liðnu ári kosið að vextir yrðu lækkaðir meira en tillaga seðlabankastjóra hljóðaði. “ 

Úr frétt á bls. 23 í Morgunblaðinu 7. apríl 2018.

Athugasemd: Af tvennu illu er betra að nota hið ófríða nafnorð „meðlimur“ en hið útjaskaða og ljóta nafnorð „aðili“ um manninn sem situr í nefnd. Hið fyrrnefnda er samt ferlega asnalegt í þessu samhengi. 

Væri peningastefnunefndin hljómsveit eða Lionsklúbbur væri líklega réttlætanlegt að halda því fram að maðurinn væri meðlimur. Maður sem situr í nefnd er varla meðlimur, miklu frekar … Tja, hvað skal segja? 

Þeir sem skrifa mikið lenda ósjaldan úti í horni og komast ekkert áfram. Þá er um að gera að endurskrifa. Allt annað er þrákelni og vitleysa, það er að segja beri skrifarinn skynbragð á iðn sína.

Að öðru leyti er þessi málsgrein tóm tjara. Venjan er sú að á eftir nafni manns kemur titill hans, þessu næst má nefna að hann sé í peningastefnunefnd eða fótboltaliði. 

Svo er það þetta með tillögu seðlabankastjóra sem „hljóðaði“ ...

Í lok málsgreinarinnar er höfundur kominn út í horn, skilur ekki skrif sín, og lýkur við þau á ófullnægjandi hátt. 

Berum nú saman ofangreinda tilvitnun úr Mogganum og tillöguna hér fyrir neðan. Held því fram að tillagan sé ólíkt rismeiri.

Tillaga: Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði, sem situr í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, vildi tvisvar á síðasta ári til að vextir yrðu lækkaðir meira en seðlabankastjóri lagði til. 

8.

„Segjum bless við veturinn og nei takk við svifrykið. Tökum nagladekkin úr umferð 15. apríl.“ 

Texti á Facebook undir nafni Eykjavíkurborgar.

Athugasemd: Frekar er þetta nú barnalegur texti. Hvenær var hætt að nota sögnina að kveðja og taka um rassböguna „segja bless“ í ofangreindu samhengi.

Undirritaður og fjöldi annarra vill ekkert með svifrykið hafa en fær engu um það ráðið. Reykjavíkurborg hefur mörg ráð til að draga úr því allt árið um kring en máttleysi hennar er í þessum málum er sárgrætilegt.

Hins vegar getur Reykjavíkurborg gert þá kröfu til þeirra sem senda út tilkynningar á hennar vegum að þeir geri það sómasamlega.

Tillaga: Kveðjum veturinn og losum okkur við svifrykið. Tökum nagladekkin úr umferð fyrir 15. apríl.

9.

„Láttu freistinguna eftir þér.“ 

Úr auglýsingu sem hljómaði á Stöð2 fyrir kvöldfréttir 7. apríl 2018.

Athugasemd: Hvað merkir orðið freisting? Líklega er uppruninn eitthvað sem laðar að en er þó rangt að falla fyrir. Suma freistar eitthvað sem þeir hafa ekki efni á og þá er hluturinn tekinn traustataki, honum stolið. Freistandi er að kaupa sælgæti en þau getur verið óholl fyrir marga.

Oft fellur maður í freistni, það er líklega ekki gott. Í stað þess að „láta freistinguna eftir sér“ er einfaldara að standast hana. Hins vegar er margt sem hægt er að láta eftir sér án þess að maður falli í freistni.

Fólkið sem samdi auglýsinguna með ofangreindri tilvitnun er líklega að rugla þessu tvennu saman, að láta eitthvað eftir sér og freistast. Á þessu tvennu er talsverður munur að mati þess sem hér ritar. Skárra hefði verið að segja og skrifa: Láttu freistast.

Vonandi misheyrði undirritaður ekki auglýsinguna. Í minninu hljómar tilvitnunin svona. Láttu freistinguna á eftir þér. Það hefði nú verið ljót ruglið.

Tillaga: Láttu þetta eftir þér …

10.

„Öskrandi kett­ir forðuðu stór­bruna.“ 

Fyrirsögn á mbl.is.  

Athugasemd: Fyrirsögnin er beinlínis um að stórbrunanum hafi verið forðað og líklegt að kettirnir hafi bjargað honum. Hægt er að forða manni frá slysi eða forða einhverjum frá illum örlögum. Hins vegar forðar enginn stórbruna eða slysi enda er það ekki vinnandi vegur og því tómt rugl.

Sagnorðið að forða merkir að koma einhverju undan, koma í veg fyrir eitthvað eða álíka.

Blaðamaðurinn sem skrifaði fyrirsögnina skilur ekki þetta sagnorð og það sem verra er misnotar það. Fátt er lakara en rithaltur blaðamaður.

Tillaga: Öskrandi kettir komu í veg fyrir stórbruna.

11.

„Birgitta og Vignir baka nýtt lag með Írafár.“ 

Fyrirsögn á visir.is.  

Athugasemd: Hvað þýðir að baka lag? Er verið að baka lagskipta köku? Nei, þau tvö eru í hljóðveri að semja eða taka upp lag. Hins vegar er algjörlega út í hött að breyta tungumálinu á þann hátt að misnota sögnina að baka og láta hana merkja að semja tónlist eða taka upp tónlist. Ekki þarf að fara í hljóðver til að baka köku, eldhúsið dugar. Hafi þau verið að semja eða taka upp lag, hvers vegna er það þá ekki sagt? Hvers vegna var orðið sögnin að baka notuð, af hverju ekki að frysta eða gubba ...?

Svo er það fallbeygingin. Blaðamaðurinn talar um nýtt lag með Írafár, ekki Írafári. Þetta er fyrirsögn á visir.is. Hvort skyldi hann „baka“ fréttir á Vísir eða Vísi (varla Vísiri)? Ritari þessara orða var forðum daga blaðamaður á Vísi og skrifaði fréttir í Vísir.

Tillaga: Öskrandi kettir komu í veg fyrir stórbruna.  

12.

„Ri­bery fram­lengi við Bæj­ara.“ 

Fyrirsögn á mbl.is.   

Athugasemd: Ribery er franskur fótboltamaður sem hefur þegar framlengt samning við fótboltafélagið Bayern München. Engu að síður er notaður viðtengingarháttur í fyrirsögninni, rétt eins og verið sé að skora á fótboltamanninn að endurnýja samning sinn.

Vonandi hefur aðeins einn stafur fallið niður í orðinu. Þess ber þó að geta að margir blaðamenn hafa átt í erfiðleikum með viðtengingarhátt og misbeitt honum illilega.

Tillaga: Ribery framlengdi við Bæjara.


Sjónvarpsþættir um frægt fólk á fjöllum

DSC_0249Alltaf er gaman þegar Ríkissjónvarpið getur sýnt þokkalega góða útivistarþætti. Einn slíkur er á dagskrá um þessar mundir undir nafninu „Úti“. Orðið er atviksorð og hentar frekar illa sem nafn á þætti en það er aukaatriði.

Þeir þrír þættir sem hafa verið sýndir eru ágætlega vel teknir. Þó má gera athugasemdir við of mikla notkun á drónamyndum, þær geta verið þreytandi til lengdar. Hins vegar eru mörg skotin ansi góð og skemmtileg.

Gaman var að fylgjast með fer forstans upp á Öræfajökul, leið sem ég hef þó aldrei farið. Þekki mun betur Sandfellsleiðina og síðan hef ég farið upp á jökulinn norðanmegin frá, það er úr Esjufjöllum. Heillandi leið. Þátturinn var einstaklega skemmtilegur og upplýsandi. Raunar var þetta besti þátturinn, líklega vegna aðalsöguhetjunnar.

DSC_0296Kajaksiglingin um Langasjó hefði verið ágætur þáttur hefði tekist að minnka ótrúlegt mas leikvennanna sem töluðu út í eitt en höfðu frá afar litlu að segja. einhvern veginn rann ferðin í Kerlafjöllum út í sandinn, varð eiginlega ekki neitt neitt. Leið líklega fyrir kajasiglinguna.

Þátturinn um klifurferð í Hnappavallahömrum var frekar slakur sem og ísklifrið. Þarna var skautað yfir á mikilli harðferð og drónamyndir notaðar til að fylla upp í efnið.

Þessir þættir byggjast upp á því að fá fræga fólkið til að taka þátt. Fylgst er með þeim og það látið segja frá og tala um reynslu sína. Því miður tekst það ekki alltaf. Forsetinn var nú einna skástur og leikkonan Brynhildur Guðjónsdóttir var snöggtum skárri en kollegar hennar í þættinum fyrir tveimur vikum, líklega vegna þess að hún talaði með minni leikrænum tilþrifum en hinar.

Já, það er nú þetta með fræga fólkið. Hvenær í ósköpunum skyldi maður fá frí fyrir leikhúsfólki, stjórnmálamönnum og fjölmiðlafólki. Halda þáttagerðarmenn að Helgi Seljan dragi að? Persónulega finnst mér hann og fleiri slíkir alltof oft í fjölmiðlum í öðrum erindagjörðum en að miðla fréttum. Mér finnst ég vita meira um Helga þennan og leikkonurnar en ég hef þörf fyrir. Fjölmiðlamenn og blaðamenn eiga ekki að búa til þætti eða viðtöl um aðra fjölmiðlamenn. Það er hallærislegt og alls ekki siðlegt

Af hverju er ekki leitað til almennings, Jóns og Gunnu, sem eru að byrja í útivist eða vinafólks þeirra sem er lengra komið? Ég get bent á tugi fólks af þessu tagi. Í vetur hitti ég tvo náunga á Vífilsfelli sem hafa í tvö ár gengið á öll fjöll í nágrenni Reykjavíkur og víðar. Þeir sögðu að það hefði verið kvöl og pína að byrja en nú hlaupa þeir upp á fjöllin, bókstaflega.

Í sama fjalli hitti ég tvær ungar konur sem gengu upp harðan snjóinn á strigaskóm. Þótti það aldeilis ekkert mál að komast upp, en svo vandaðist málið þegar þær fóru niður. Ég lánaði þeim skíðastafi og var þeim til aðstoðar á niðurleið, var sjálfur á ísbroddum. Þær ætluðu að verða sér út um betri búnað og ganga í framtíðinni á fjöll.

Lítum bara á þá sem fara í ferðir með Ferðafélagi Íslands og Útivist. Þar er stórkostlegt fólk á ferð, fólk sem er að læra á landið, klífur fjöllin, skíðar og kann á allar öryggisreglur og kann að nota hjálpartæki fjallalífsins ... Þarna verða til fjallamenn sem ganga meðan aðrir telja sér til tekna að „labba“.

Myndirnar hér fyrir ofan tók ég í Vífilsfelli í lok apríl í fyrra þegar hópur frá Ferðafélagi Íslands kom sunnan á fjallið. Hann var í æfingaferð og fór líklega á Öræfajökul um vorið. Þarna voru hetjur á ferð. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband