Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2014

Lóa, kúadella og köttur á Seltjarnarnesi

Eftirlætispistlahöfundur minn á vefnum, er tvímælalaust hann Jón Sigurðsson, vinur minn á Blönduósi. Hann ritar vikulega hugleiðingar sínar og pælingar á vefinn http://jonsig.123.is.

Jón býr yfir miklu skopskyn og skemmtir sér helst við að gera grín af sjálfum sér. Mannlýsingar Jóns eru kostulegar og segir hann frá nágrönnum sínum og öðrum Húnvetningum af miklu innsæi en líka mildi.

Um daginn birtist frétt í fjölmiðlum um að sex lóur hafi sést á Seltjarnarnesi. Í því tilefni segir Jón þessa sögu:

Heiðlóa ein sem hafði þvælst í mörg ár fram og til baka vor og haust til landsins í misjöfnum veðrum og árum, ákvað það að vera um kyrrt á landinu þegar aðrar lóur tóku sig upp og flugu suður á bóginn. Hún sagði við sjálfa sig að þetta hlyti að blessast því vetur á Íslandi væru ekki svo slæmir.

Þetta gekk ágætlega fram eftir hausti því tíðarfar var gott. En svo kom fyrsta alvöru hausthretið og lóu litlu varð kalt og lítið var til að borða.

„Æi" hugsaði hún með sér. „Mér hefði kannski verið nær að fylgja ættingjum mínum suður á bóginn fyrr í haust. Það er ef til vill ekki orðið of seint" hugsaði hún með sér og hóf sig til flugs af túninu við Héraðshælið.

Hún var ekki búinn að fljúga lengi þegar ísing gerði vart við sig á vængjum hennar og hún varð að nauðlenda á túninu í Sauðanesi. Það varð henni til happs að Palli var enn með kýrnar í fóðurkálinu og lóan lenti rétt hjá þeim. Huppa gamla jórtraði spekingslega lyfti hala og skeit á umkomulausa lóuna sem var beint fyrir aftan hana. Eins og gefur að skilja þá hlýnaði lóunni skyndilega við þessa himnasendingu og hóf hún upp söng mikinn „dýrðin, dýrðin, dýrðin" söng hún hástöfum.

Þessi óvænti gleðisöngur lóunnar barst Brandi, ketti Páls í Sauðanesi til eyrna og var hann satt best segja undrandi í fyrstu, því hann hafði ekki heyrt lóusöng í langan tíma eins og gefur að skilja. Brandur gerði meira heldur en að sperra eyrun því hann lagði leið sína suður fyrir fjós og fór að huga að því af hvaða toga þessi söngur væri. Ekki var hann lengi búinn að ganga þegar hann kom að lóunni fastri í kúadellunni.

Það verður bara að segjast eins og er að þau urðu bæði mjög hissa á því að sjá hvort annað og Brandur gerði það sem hann kann best í samskiptum við fugla. Hann dró lóuna þar sem hún sat föst upp úr skítnum og gerði sér hana að góðu.

Þessi saga kennir okkur það í fyrsta lagi að hlutirnir lúta ákveðnum lögmálum og það þýðir ekkert að berja höfðinu við stein gagnvart staðreyndum lífsins. Lóur fara suður á bóginn á haustin.

Í öðru lagi segir þessi saga okkur það að vera ekki að blása það út um allt þó manni líði vel og hafi það gott um stundarsakir heldur lifa lífinu sáttur og af hógværð því ýmsir sem þú kærir þig ekki um geta heyrt í þér.

Ennfremur er það nokkuð ljóst að það eru ekki alltaf óvinir þínir sem skíta þig út.

Og síðast en ekki síst þá eru það ekki endilega vinir þínir sem draga þig upp úr skítnum og koma þér til hjálpar þegar mest á reynir.

Svo mörg voru þau orð. Það er hreint með ólíkindum að sex lóur á Seltjarnarnesi geti eyðilagt góða dæmisögu en svona er lífið og vorboðinn ljúfi óútreiknanlegur. 

  


Framsóknarþingmönnum og ráðherrum er hollt að þegja

Hvar er miðjuarmur Framsóknarflokksins? Hann fyrirfinnst allavega ekki í utanríkisráðuneytinu og því síður í landbúnaðarráðuneytinu og þótt forsætisráðherra hafi ýmislegt sér til ágætis þá vakna óneitanlega efasemdir um áherslur hans. Sjálfsagt er einhver hljómgrunnur fyrir afturhaldssömum málflutningi í utanríkis- og landbúnaðarmálum hér á landi, en samt virðist líklegt að stór hluti þeirra sem kusu Framsóknarflokkinn í síðustu kosningum hafi ekki smekk fyrir því hvernig málflutningur flokksins hefur þróast. Fyrr eða síðar hlýtur fylgi flokksins að dala hraustlega.

Þetta segir Kolbrún Bergþórsdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu í snjöllum Pistli dagsins. Við spurningu hennar er aðeins eitt svar: Enginn er að leita, öllum er sama. Og flestum er til efs að til sé eitthvað sem heitir „miðjuarmur Framsóknarflokksins“. Hvers konar fyrirbrigði er það. Fimm hrumir kallar við morgunverðarborð á Borginni!

Framsóknarflokknum er illa stýrt. Hann nýtur slæmrar ráðgjafar í PR málum og margir þingmenn og ráðherrar tala of oft og ógætilega. 

Væri ég beðinn um eitt gott hollráð fyrir þingmenn og ráðherra Framsóknarflokksins, ekki síst formann flokksins og forsætisráðherrann, væri svarið þetta: Þögn er góð meginregla fyrir stjórnmálamenn. Hættið að gefa yfirlýsingar í fjölmiðlum. Gefið almenningi frí frá stjórnmálunum og látið verkin tala.

Þegar nánar er að gáð fara fæstir stjórnmálamenn eftir þessu ráði. Sjáið og hlustið á formann Samfylkingarinnar sem hefur þann hæfileika að geta talað hugsunarlaus. Formaður Vinstri grænna er þeim kostum búin að hún getur talað endalaust um aðildarumsókn að Evrópusambandinu án þess að greina frá eigin skoðun eða flokksins síns.

Heimur versnandi fer. 


Jón Gnarr og styttur borgarinnar

Jón Gnarr hefur ávallt mátt vera að því að vera borgarstjóri. Hitt er svo annað hvort hann hafi sinnt þeim störfum sem verklýsing embættisins segir eða breytti hann henni.

Stöku sinnum hefur hann þurft að skreppa til útlandsins. Eitt skipti var hann í þeim tilgangi að frumsýna heimildarmynd um sjálfan sig í New York. Almenningur í borginni mun hafa tekið Jóni mjög vel og ekki síður mynd hans. Nú komur upp úr kafinu að hann hefur láti semja sögu sína að hætti stórkonunga og heldur hann í vor til sömu borgar og gefur hana út á bók. Og lýðurinn um fagna.

Brátt lýkur starfskynningu Jóns sem borgarstjóra. Víst er að margir munu koma til með að sakna hans, svona rétt eins og ef styttur borgarinnar hyrfu af stalli sínum. Jón telur sér til tekna að hafa breytt embætti borgarstjórans. Næsti borgarstjóri mun ábyggilega reyna að vinna fyrir laununum sínum og leggja minna úr heimildarmyndagerð og bókaútgáfu.


mbl.is Jón Gnarr skrifar bók um ferilinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er kominn tími á breytingar í Seðlabankanum?

Er nokkur ástæða til að gera breytingar á yfirstjórn Seðlabankans? Þessu kunna ýmsir að velta fyrir sér og einnig hvort bankinn hafi barasta ekki staðið sig bærilega í efnahagslegum ólgusjó síðustu fjögur árin.

Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, svarar þessu í ágætri grein í Morgunblaðinu í morgun og telur upp örfá atriði:

  1. Sala meirihluta í Sjóvá með tapi. Tilraun til að fela raunverulegt tap hans.
  2. Framkvæmd fjármálahafta.  Innlendir fjárfestar sitja ekki við sama borð og erlendir eða íslenskir fjárfestar sem eiga erlent fé. Þeir síðarnefndu fá 20% forskot. Eftirlit með höftunum hefur vakið upp efasemdir um að jafnræðis sé gætt og kærum Seðlabankans vegna meintra brota hefur verið vísað frá.
  3. Peningastefna Seðlabankans sætir einnig stöðugt meiri gagnrýni enda eiga margir erfitt með að skilja hávaxtastefnu bankans með krónu í höftum og litla fjárfestingu.
  4. En hörðust hefur gagnrýnin á Seðlabankann verið vegna þess hlutverks sem forráðamenn bankans ákváðu að leika í Icesave-deilunni. Þá fór hnífurinn vart á milli bankans og vinstriríkisstjórnarinnar í viðleitninni við að koma Icesave-skuldum Landsbankans yfir að herðar íslensks almennings.

Þetta eru nú talsverða ávirðingar á stjórn Seðlabankans og telja margir, meðal annars Óli Björn Kárason, að kominn sé tími til að ráða nýjan bankastjóra.

Því til viðbótar sem Óli Björn nefni má telja upp ýmislegt annað eins og til dæmi afstöðu Seðlabankans vegna gengislánadóma Hæstaréttar í júní og september 2010. Þá tók bankinn eindregna afstöðu með bönkum og fjármagnsfyrirtækjum gegn hagsmunum skuldara. Hann mælti með því að lög yrðu sett um vexti á öll í stað gengistryggingarinnar. Þetta fannst honum þjóðráð enda gætu fjármálafyrirtækin illa þrifist eftir dóminn. Sem sagt, Hæstiréttur dæmdi lánasamninga ólöglega og í stað þess að hlíta því var með lögum settir vextir í alla gengislánasmaninga. Hagsmunir almennings voru þannig fyrir borð bornir og bankarnir settir í jafngóða ef ekki betri aðstöðu eftir dóminn, því síðasta ríkisstjórnin setti lög um málið og eru af endemum sínum kölluð Árna-Páls-lögin. 

Vandamálið með Seðlabanka Íslands eru allir heimsendaspádómarnir sem hingað til hafa ekki gengið upp, s.s. Icesave og gengislánadómurinn. Steingrímur J. Sigfússon, allsherjarmálaráðherra vinstri stjórnarinnar sálugu (blessuð sé brottför hennar) þurfti aðeins að hósta hljóðlega til að Seðlabanki Íslands vaknaði af værum blundi og hrópaði í svefnrofanum: Úlfur úlfur, eða allir út að ausa. Fátt eitt gekk þó eftir af spám bankans þó hann telji sig hafa miðilshæfileika. 

 

 


Skýrslan staðfestir málflutning andstæðinga aðildar að ESB

Morgunblaðið birti í morgun frétt um skýrslu hagfræðistofnunar HÍ um stöðu viðræðnanna við ESB. Þar virðist ekkert nýtt koma fram. Á margt hefur verið bent hér í þessum pistlum, enn meira á vefnum Evrópuvaktin, Vinstri vaktinni gegn ESB, á bloggsíðunni Tilfallandi athugasemdir sem Páll Vilhjálmsson ritar svo nokkrir vefir sem eru andstæðir aðildinni séu nefndir.

Kjarni málsins er einfaldlega sá að Íslands sótti um aðild að ESB en ekki öfugt. Í ljósi þess gengur íslenska ríkið undir stjórnarskrá sambandsins (ekki öfugt!). Varanlegar undanþágur fást ekki frá henni, aðeins tímabundnar leiki vafi á því að umsóknarríkið geti umsvifalaust tekið upp reglur ESB.

Íslenska þjóðin byggir tilvist sína á stóru auðlind sinni sem er hafið. Verði af inngöngu fær ESB ákvörðunar- og raunar umráðarétt yfir fiskimiðunum. Hér er ágætt að vitna til Evrópuvaktarinnar en þar segir um skýrslu hagfræðistofnunar:

 

  • Hingað til hefur ekki verið um varanlegar undanþágur að ræða á sviði sjávarútvegs- og landbúnaðarmála.
  • Ólíklegt er að hægt sé að sækja um varanlega undanþágu á takmörkunum á fjárfestingum útlendinga í sjávarútvegsfyrirtækjum en hugsanlega mætti fá tímabundnar undanþágur.
  • Óvíst er að hægt yrði að setja hömlur á framsal aflaheimilda til annarra en Íslendinga og íslenzkra fyrirtækja.
  • Samningaumboð við lönd utan ESB um veiði úr deili- eða flökkustofnum er í höndum ESB en ekki einstakra ríkja
  • „...ljóst að ekki væri hægt að fá undanþágu frá ákvæðinu um að heildarafli í helztu veiðum skuli ákvarðaður formlega á vettvangi Evrópusambandsins, þrátt fyrir að lögsaga Íslands yrði skilgreind sem sérstakt fiskveiðistjórnarsvæði.“
  • Nánast öruggt að Ísland geti ekki samið sig frá algjöru banni við hvalveiðum. 

 


Efnahagsmál og hagfræði

Þegar tekið er tillit til þess sem þessar stofnanir [IMF og OECD] létu frá sér fara, og lesin er grein Guðrúnar í Viðskiptablaðinu um mitt ár 2006, er óhjákvæmilegt að komast að þeirri niðurstöðu að hún hafi í raun alls ekki verið sá hrópandi í eyðimörkinni, sem hún vill nú vera láta. Á þeim tíma, sem hún barst með straumnum, voru reyndar langflestir hagfræðingar á sama báti og hún.

Þetta sagði Tómas Ingi Olrich, fyrrum þingmaður og ráðherra, í grein í Morgunblaðinu þann 13. febrúar og hann ritar aðra grein sem birtist nú í blaðinu í morgun. Báðar greinarnar fjalla um viðtal Egils Helgasonar við Guðrúnu Johnsen, hagfræðing, í Ríkissjónvarpinu þann 27. janúar.

Hrópandinn 

Fjölmargir voru dálítið hissa á viðtalinu, fannst viðmælandinn dálítið sjálfhælinn og gera óþarflega lítið úr íslenskum stjórnvöldum. Aðrir telja hagfræðinginn hafa haft rétt fyrir sér en kynna sér lítið orð hennar eins og Tómas Ingi gerir. Og Tómas segir í grein sinni:

Ég verð að viðurkenna að þessi lýsing [Guðrúnar á stjórnkerfinu] lítur ekki vel út fyrir íslenska stjórnkerfið, Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið. Þær stofnanir allar saman eiga sér hins vegar hauk í horni þar sem hans er síst að vænta. Það vill svo til að árið 2006, hinn 10. maí, birtir Guðrún Johnsen grein í Viðskiptablaðinu. Þar fagnar hún því að út hafi komið „tvær viðamiklar og glæsilegar úttektir af íslenskum fjármálastöðugleika [ritin eru Fjármálastöðugleiki 2006 útg. Seðlabanki Íslands og rit Fredrick Mishkins og Tryggva Þórs Herbertssonar um fjármálaumhverfið]. 

Vitanlega hæla margir Guðrúnu fyrir frammistöðu sína í sjónvarpsþættinum en hefðu þeir gert það ef menn hefðu þekkt eða munað eftir grein hennar í frá því 2006 er hún sér ekkert neikvætt um bankamál landsins eða efnahag? Nei, enda er hún ekki „hrópandinn í eyðimörkinni“ heldur ein af mörgum hagfræðingum sem sáu ekkert athugunarvert við þróun mála á árinu 2006. Tæpum tveimur árum síðar var allt komið í þrot.

Hagfræðin í sárum 

Tómas Ingi ritar aðra grein um viðtalið við Guðrúnu Johnsen og hún birtist í Mogganum í morgun.

Af rólegri yfirvegun skýtur hann föstum skotum að hagfræðingnum og sannast sagna virðist hún eiga fátt til varnar. Hann segir:

Það er barnalegt að halda því fram eins og hagfræðingurinn gerði í viðtalsþætti Egils Helgasonar, að skortur á þekkingu í hagfræði hafi gert stjórnvöldum í Íslandi ómögulegt að sjá fyrir efnahagskreppuna jafnvel fimm árum áður en lánsfjármarkaðirnir hrundu. Það er beinlínis eitt af aðaleinkennum kreppunnar sem reið yfir heiminn 2007-2008, að alþjóðlegu stofnununum, sem hafa það hlutverk að veita ráðgjöf um efnahagsþróun, tókst alls ekki að vara við vandræðunum. Hafi eitthvert fræðasvið legið í sárum eftir þessa ágjöf er það hagfræðin. 

Er þetta ekki kjarni málsins? Hagfræðingar eru ekki einu sinni á eitt sáttir um ástæður hrunsins á Íslandi og margir þeirra kjósa af pólitískum ástæðum að líta ekki út fyrir landsteinanna í gangrýni sinni, kenna hérlendum stjórnvöldum um hrunið.

Svo eru það þeir hagfræðingar sem telja sig hafa séð hrunið fyrir og þeirra á meðal eru Guðrún Johnsen og Steingrímur J. Sigfússon. ... úbbs! Jæja, hann er að vísu ekki hagfræðingur „bara“ jarðfræðingur, en sá þó hrunið fyrir að eigin sögn. Það er nú hins vegar allt annað mál þó skylt sé.

Rétt er þó að benda á að flest er augljóst þegar litið er um öxl en deildar meiningar eru um það sem óorðið er. Þar af leiðandi er skárra að „spá“ fyrir um fortíðina, eins og einhver sagði.

Endurskoðun hagfræðinnar 

Án nokkurs hroka eða yfirlætis bendir Tómas Ingi á að ástæðulaust sé að taka hagfræðina öðru vísi en með gagnrýni. Hann segir:

Hagfræðingar eru okkur nauðsynleg stétt og gagnleg, þótt fræðasviðið sé fljótandi. Því frjálsari sem markaðshagkerfi eru, því meiri hætta er á að hagþróun fari út fyrir þau líkön, sem hagfræðingar reyna eftir bestu þekkingu að byggja til skilningsauka á ferlinu. Við þá endurskoðun fræðanna er brýnt að hagfræðingar stundi meðalhóf, hófsemi og sjálfsgagnrýni.

Þetta er svona rétt eins og maðurinn sagði, að heilbrigðismál eru mikilvægari en svo að hægt sé að láta þau alfarið eftir læknum og hjúkrunarfræðingum. Sama er með efnahagsmálin, þau eiga og mega ekki vera algjörlega undir hagfræðingunum.

Andaktin og hagfræðingarnir 

Nú eru seðlabankastjórar embættismenn, og eins og fréttamaðurinn Egill Helgason hefur bent á eru þeir flestir með frekar þrönga menntun. Þessir menn hafa undanfarin fimm ár verið að taka einhverjar stærstu og afdrifaríkustu pólitískar ákvarðanir sem um getur í stuttri sögu lýðræðis í heiminum. Og það hafa þeir gert án nokkurs minnsta lýðræðislegs umboðs.

Vekur það til dæmis ekki athygli almennings hvernig málin hafa þróast innan ESB þar sem alls kyns hagfræðingar gefa út kenningar og helst þá þær að ganga skuli á skattfé almennings til að bjarga bönkum frá gjaldþroti?

Sérfræðingar eru oft mikið en þröngt menntaðir. Það er ástæðulaust að fyllast andakt frammi fyrir slíkri sveit. Það er stórmerkilegt að fréttamenn standi gapandi af aðdáun frammi fyrir þeirri staðreynd, að stærstu pólitískar ákvarðanir um skuldsetningu og seðlaprentun samtímans hafi verið teknar af forstöðumönnum seðlabanka án nokkurs pólitísks umboðs. Nú er ekki loku fyrir það skotið að bankastjórarnir hafi talið að þeir ættu ekki annarra kosta völ. Það breytir ekki eðli málsins. 

Skuldir óreiðumanna

Og svo bætir Tómas Ingi við afar mikilvægri málsgrein og segir:

Einn seðlabankastjóri hafði þó sérstöðu í þessum stóra hópi. Það var formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, sem taldi sig ekki hafa umboð til að skuldsetja íslensku þjóðina fyrir mistök einkabanka og lét frá sér fara þau fleygu orð: „Við greiðum ekki skuldir óreiðumanna.“

Í þessum orðum Davíðs Oddssonar sem hann mælti þann 8. október 2008 í Kastljósþætti Ríkissjónvarpsins er fólgin hápólitísk stefna sem fylgt hefur verið frá hruni. Skattfé almennings verður ekki notað til að greiða skuldir óreiðumanna. Undantekningar frá því eru á fjögurra árar starfstíma vinstri stjórnarinnar frá 2009 til 2013. Hins vegar tókst þjóðinni að eyðileggja fyrirætlan hennar um samninga við Breta og Hollendinga þess efnis að ríkið ætti að ábyrgjast Icesave skuldir gamla Landsbankans.

Þessar tvær greinar Tómasar Ingi Olrich eru afar vel skrifaðar og auðveldar aflestrar enda hefur höfundurinn mjög góð tök á umræðuefni sínu og er auk þess góður penni. Ég mæli með því að menn lesi báðar greinarnar í einu. Þær má finna í greinasafni Morgunblaðsins. 

 


Vörumst að seinka eða flýta klukkunni, hún er ágæt eins og hún er

Því hefur verið haldið fram, að seinkun klukkunnar myndi hafa jákvæð heilsufarsleg áhrif. Líkamsklukkan fari eftir gangi sólar og það valdi togstreitu þegar staðarklukkan gangi ekki í takt við birtutímann. Þarna gleymist að raflýsing hefur líka áhrif á líkamsklukkuna og raskar því hinni náttúrulegu sveiflu. Í nútímaþjóðfélagi ræður sólarljósið ekki stillingu líkamsklukkunnar nema að takmörkuðu leyti. Það er því ólíklegt að það hefði umtalsverð áhrif á heilsu fólks að seinka klukkunni.

Hér er vel mælt enda skrifar hér Þorsteinn Sæmundsson, stjörnufræðingur, í Morgunblaðið í morgun. Hann fjallar um eina af þessum óskynsamlegu tillögum sem fram koma á Alþingi af og til og er einna helst stjórnmálaflokkurinn Björt framtíð sem stendur að þeim.

Þorsteinn hefur nær reglubundið skrifað um seinkun eða flýtingu klukkunnar en svo virðist sem margir taki lítt mark á honum en halda fram vanhugsuðum hugmyndum. Hið nýjasta er þetta um „líkamsklukkuna“ og við því hefur maður ekki átt önnur svör en að henni líður best fari maður snemma að sofa sé ætlunin að vakna fyrir allar aldir.

Í grein sinni bendir Þorsteinn Sæmundsson á þetta með líkamsklukkuna og sólarljósið og segir það ekki er ekki eins afgerandi og við leikmenn héldum. Auðvitað hefur raflýsingin áhrif á þessa klukku ef hún er þá til.

Höfuðmarkmiðið með stillingu klukkunnar hlýtur að vera það að samræma sem best birtutíma og vökutíma. Fullkomið samræmi næst aldrei, allra síst í norðlægum löndum eins og Íslandi þar sem bjart er allan sólarhringinn um hásumarið en dimmt mestan hluta sólarhrings í skammdeginu.

Þegar samþykkt var að skipta jörðinni í tímabelti árið 1883 var við það miðað að hádegi í hverju belti skyldi vera sem næst klukkan 12. Í reynd hafa mörg lönd vikið frá þessum beltatíma, yfirleitt í þá átt að flýta klukkunni til þess að fá betra samræmi milli birtutímans og þeirra vökustunda sem menn hafa tamið sér.

Að tala um rétta eða ranga klukku er villandi; stilling klukkunnar verður að fara eftir því hvað menn telja hentugast á hverjum stað og tíma.

Ég bendi fólki á að lesa þessa grein eftir Þorstein og veit að að lestrinum loknum verða fleiri á þeirri skoðun að frekari umræður eru óþarfar. Fyrir alla munum vörumst að hræra í klukkunni. Og þeir hjá Björtu framtíðinni gætu átt hana enn bjartari með því að fara fyrr að sofa.


Fór formaður Viðskiptaráðs með rangt mál um ESB?

Reglur Evrópusambandsins um aðildarumsókn ríkja virðast vera ótvíræðar. Af gefnu tilefni dettur manni í hug að sambandið gæti hafa orðað þær enn skýrar. Að minnsta kosti virðast margir hérlendir misskilja það sem í reglunum stendur.

Í frétt í Morgunblaðinu í morgun um þing Viðskiptaráðs í gær segir um ræðu formannsins, Hreggviðs Jónssonar:

Hreggviður Jónsson, formaður Viðskiptaráðs, sagði á fundinum að heppilegra hefði verið að ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið og fá þannig úr því skorið í eitt skipti fyrir öll hvort samningsskilyrði gætu orðið ásættanleg, einkum hvað varðar sjávarútveginn. Núverandi stjórnvöld hafi með að því vilja standa utan Evrópusambandsins lokað á tvíhliða upptöku evru sem valkost í peningamálum.  

Þegar þarna var komið í lestri fréttarinnar varð ég hissa. Af öllum mönnum og öllum samtökum hefði ég að óreyndu ekki trúað því að formaður Viðskiptaráðs færi með rangt mál.

Staðreyndin er einfaldlega sú að viðræður um aðild að ESB snúast ekki um samning. Þá aðferðarfræði lögðu samtökin af fyrir áratug eða meira.

Nú snýst umsókn einfaldlega um að ríki ÆTLI að ganga í sambandið og því fylgja aðlögunarviðræður sem miðast við að umsóknarríkið sanni hvort það hafi tekið um lög, reglur og stjórnsýslu ESB. Öll ríki sambandsins vaka yfir þessum viðræðum og þurfa hvert í sínu lagi að samþykka hvern kafla í viðræðunum fyrir sig til að mögulegt sé að halda áfram. Það er í gengum þetta nálarauga sem aðildarríkið þarf að fara og þá duga ekki að vera með neitt hálfkák. Annað hvort ætlar umsóknarríkið inn eða ekki og í síðarnefnda tilvikinu er ekki sótt um aðild.

Enginn samningur er gerður nema um staðfestingu aðildar og hugsanlega einhverja tímabundnar undanþágur frá stjórnarskrá ESB, Lissabonsáttmálanum.

Ég trúi því varla að fólkið í Viðskiptaráði Íslands viti ekki þessar staðreyndir. Verra væri ef það væri vísvitandi að fara með rangt mál.

Svo er það hitt, að enginn sækir um aðild nema ætla sér inn. Og síst af öllu sækir ríki um aðild að Evrópusambandinu þegar kjörin stjórnvöld og löggjafarþingið eru gjörsamlega á móti aðildinni


Guðbjartur þingmaður er aumingjagóður - við forstjóra

Margir kippast við og glenna upp augun þegar Samfylkingarþingmaðurinn Guðbjartur Hannesson, ræðir um launamál. Reynsla hans af þeim málaflokki er víðfeðm. Hann tók að sér fyrrverandi forstjóra Landspítalans og veitti honum um hálfa milljón í launahækkun svo sá gæti tekið að sér skurðstofuverkefni til viðbótar við forstjórastarfið. 

Óþekkt er að afskipti ráðherra af launamálum njóti 100% ánægju og fylgis launþega. Forstjórinn var sáttur og ráðherrann enn sáttari og mátti ekki á milli sjá hvor væri glaðari. Aðrir voru svona frekar óánægðir. Þeirra á meðal voru sjúkraliðar á spítalanum, hjúkrunarfræðingar, læknar og allir aðrir. Guðbjartur skilur ekki enn hvers vegna.

Nú velta þeir fyrir sér sem kipptust við og glenntu upp augun er Guðbjartur þingamaður tók til máls, hvort hann muni leggja til að laun fleiri aðila en forstjóra væru lögfest. Sumir nefna laun seðlabankastjóra, sem lengi hefur kvartað undan kjörum sínum og telur sig illa svikinn af Jóhönnu fyrrverandi forsætisráðherra.

Svo aumingjagóður er Guðbjartur þingmaður við illa launaða forstjóra að hefði hann orðið formaður Samfylkingarinnar og því næst forsætisráðherra hefði hann ábyggilega huggað Seðlabankastjóra og aðra ríkisforstjóra. Hins vegar var honum sparkað úr ráðherrrastól og stórum hluta Samfylkingarinnar af þingi. Guðbjartu skilur enn ekki hvers vegna það gerðist. Því leggur hann fram tillögu um lögfestingu lágmarkslauna. 


mbl.is Skoðað verði að lögfesta lágmarkslaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðir fjallvegir og ekkert vonskuveður

gauksmyri_1holtavorduheidi_3Miðað við myndir úr vefmyndavélum Vegagerðarinnar er einfaldlega rangt að „vonskuveður“ sé á „fjallvegum um norðanvert landið“. 

Þetta geta allir staðreynt sem nenna að fara inn á hinn ágæta vef Vegagerðarinnar og afar vel útfærða síðu um vefmyndavélar.

Vel má vera að veður versni eftir því sem á daginn líður en flestir fjallvegir eru hinsvegar færir þegar þetta er ritað og örugglega þegar frétt Moggans var skrifuð. 

myvatnsheidi_1

Hér er mynd frá Gauksmýri, en þar getur oft verið slæmt veður en aldeilis ekki núna, meira að segja bíll á ferð á auðum vegi. Samkvæmt Vegagerðinni hefur einn bíll farið þar um síðustu tíu mínúturnar.

Ég hef farið nógu oft um Holtavörðuheiði til að vita að á meðfylgjandi mynd er ekkert „vonskuveður“ hefur vel fært. Samkvæmt Vegagerðinni hafa fjórir bílar farið þarna um síðustu mínúturnar.

Svona má kanna allar vefmyndavélar og þær segja yfirleitt hið sama, umferð er á fjallvegum nema Þverárfjalli. Vissulega getur verið hvasst en vegir eru víðast auðir.

vatnsskard_1

Ástæðan fyrir því að ég vek athygli á þessu er að mér finnst eiginlega nóg komið af gengdarlausum áróðri gegn landsbyggðinni. Þar á einfaldlega ekki að vera lífvænlegt meðan allt er gúddí og gott hér á suðvesturhorninu, allar götur eru auðar á og hið eina sem þar bjátar á er umferðaöngþveitið í upphafi og lok vinnudags.

Jafnvel veðurfræðingarnir í fréttatímum sjónvarpa staðsetja sig flestir á suðvesturhorninu og tala síðan niður til landsbyggðarinnar. 

 


mbl.is Hríð, skafrenningur og blinda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband