Efnahagsmál og hagfræði

Þegar tekið er tillit til þess sem þessar stofnanir [IMF og OECD] létu frá sér fara, og lesin er grein Guðrúnar í Viðskiptablaðinu um mitt ár 2006, er óhjákvæmilegt að komast að þeirri niðurstöðu að hún hafi í raun alls ekki verið sá hrópandi í eyðimörkinni, sem hún vill nú vera láta. Á þeim tíma, sem hún barst með straumnum, voru reyndar langflestir hagfræðingar á sama báti og hún.

Þetta sagði Tómas Ingi Olrich, fyrrum þingmaður og ráðherra, í grein í Morgunblaðinu þann 13. febrúar og hann ritar aðra grein sem birtist nú í blaðinu í morgun. Báðar greinarnar fjalla um viðtal Egils Helgasonar við Guðrúnu Johnsen, hagfræðing, í Ríkissjónvarpinu þann 27. janúar.

Hrópandinn 

Fjölmargir voru dálítið hissa á viðtalinu, fannst viðmælandinn dálítið sjálfhælinn og gera óþarflega lítið úr íslenskum stjórnvöldum. Aðrir telja hagfræðinginn hafa haft rétt fyrir sér en kynna sér lítið orð hennar eins og Tómas Ingi gerir. Og Tómas segir í grein sinni:

Ég verð að viðurkenna að þessi lýsing [Guðrúnar á stjórnkerfinu] lítur ekki vel út fyrir íslenska stjórnkerfið, Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið. Þær stofnanir allar saman eiga sér hins vegar hauk í horni þar sem hans er síst að vænta. Það vill svo til að árið 2006, hinn 10. maí, birtir Guðrún Johnsen grein í Viðskiptablaðinu. Þar fagnar hún því að út hafi komið „tvær viðamiklar og glæsilegar úttektir af íslenskum fjármálastöðugleika [ritin eru Fjármálastöðugleiki 2006 útg. Seðlabanki Íslands og rit Fredrick Mishkins og Tryggva Þórs Herbertssonar um fjármálaumhverfið]. 

Vitanlega hæla margir Guðrúnu fyrir frammistöðu sína í sjónvarpsþættinum en hefðu þeir gert það ef menn hefðu þekkt eða munað eftir grein hennar í frá því 2006 er hún sér ekkert neikvætt um bankamál landsins eða efnahag? Nei, enda er hún ekki „hrópandinn í eyðimörkinni“ heldur ein af mörgum hagfræðingum sem sáu ekkert athugunarvert við þróun mála á árinu 2006. Tæpum tveimur árum síðar var allt komið í þrot.

Hagfræðin í sárum 

Tómas Ingi ritar aðra grein um viðtalið við Guðrúnu Johnsen og hún birtist í Mogganum í morgun.

Af rólegri yfirvegun skýtur hann föstum skotum að hagfræðingnum og sannast sagna virðist hún eiga fátt til varnar. Hann segir:

Það er barnalegt að halda því fram eins og hagfræðingurinn gerði í viðtalsþætti Egils Helgasonar, að skortur á þekkingu í hagfræði hafi gert stjórnvöldum í Íslandi ómögulegt að sjá fyrir efnahagskreppuna jafnvel fimm árum áður en lánsfjármarkaðirnir hrundu. Það er beinlínis eitt af aðaleinkennum kreppunnar sem reið yfir heiminn 2007-2008, að alþjóðlegu stofnununum, sem hafa það hlutverk að veita ráðgjöf um efnahagsþróun, tókst alls ekki að vara við vandræðunum. Hafi eitthvert fræðasvið legið í sárum eftir þessa ágjöf er það hagfræðin. 

Er þetta ekki kjarni málsins? Hagfræðingar eru ekki einu sinni á eitt sáttir um ástæður hrunsins á Íslandi og margir þeirra kjósa af pólitískum ástæðum að líta ekki út fyrir landsteinanna í gangrýni sinni, kenna hérlendum stjórnvöldum um hrunið.

Svo eru það þeir hagfræðingar sem telja sig hafa séð hrunið fyrir og þeirra á meðal eru Guðrún Johnsen og Steingrímur J. Sigfússon. ... úbbs! Jæja, hann er að vísu ekki hagfræðingur „bara“ jarðfræðingur, en sá þó hrunið fyrir að eigin sögn. Það er nú hins vegar allt annað mál þó skylt sé.

Rétt er þó að benda á að flest er augljóst þegar litið er um öxl en deildar meiningar eru um það sem óorðið er. Þar af leiðandi er skárra að „spá“ fyrir um fortíðina, eins og einhver sagði.

Endurskoðun hagfræðinnar 

Án nokkurs hroka eða yfirlætis bendir Tómas Ingi á að ástæðulaust sé að taka hagfræðina öðru vísi en með gagnrýni. Hann segir:

Hagfræðingar eru okkur nauðsynleg stétt og gagnleg, þótt fræðasviðið sé fljótandi. Því frjálsari sem markaðshagkerfi eru, því meiri hætta er á að hagþróun fari út fyrir þau líkön, sem hagfræðingar reyna eftir bestu þekkingu að byggja til skilningsauka á ferlinu. Við þá endurskoðun fræðanna er brýnt að hagfræðingar stundi meðalhóf, hófsemi og sjálfsgagnrýni.

Þetta er svona rétt eins og maðurinn sagði, að heilbrigðismál eru mikilvægari en svo að hægt sé að láta þau alfarið eftir læknum og hjúkrunarfræðingum. Sama er með efnahagsmálin, þau eiga og mega ekki vera algjörlega undir hagfræðingunum.

Andaktin og hagfræðingarnir 

Nú eru seðlabankastjórar embættismenn, og eins og fréttamaðurinn Egill Helgason hefur bent á eru þeir flestir með frekar þrönga menntun. Þessir menn hafa undanfarin fimm ár verið að taka einhverjar stærstu og afdrifaríkustu pólitískar ákvarðanir sem um getur í stuttri sögu lýðræðis í heiminum. Og það hafa þeir gert án nokkurs minnsta lýðræðislegs umboðs.

Vekur það til dæmis ekki athygli almennings hvernig málin hafa þróast innan ESB þar sem alls kyns hagfræðingar gefa út kenningar og helst þá þær að ganga skuli á skattfé almennings til að bjarga bönkum frá gjaldþroti?

Sérfræðingar eru oft mikið en þröngt menntaðir. Það er ástæðulaust að fyllast andakt frammi fyrir slíkri sveit. Það er stórmerkilegt að fréttamenn standi gapandi af aðdáun frammi fyrir þeirri staðreynd, að stærstu pólitískar ákvarðanir um skuldsetningu og seðlaprentun samtímans hafi verið teknar af forstöðumönnum seðlabanka án nokkurs pólitísks umboðs. Nú er ekki loku fyrir það skotið að bankastjórarnir hafi talið að þeir ættu ekki annarra kosta völ. Það breytir ekki eðli málsins. 

Skuldir óreiðumanna

Og svo bætir Tómas Ingi við afar mikilvægri málsgrein og segir:

Einn seðlabankastjóri hafði þó sérstöðu í þessum stóra hópi. Það var formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, sem taldi sig ekki hafa umboð til að skuldsetja íslensku þjóðina fyrir mistök einkabanka og lét frá sér fara þau fleygu orð: „Við greiðum ekki skuldir óreiðumanna.“

Í þessum orðum Davíðs Oddssonar sem hann mælti þann 8. október 2008 í Kastljósþætti Ríkissjónvarpsins er fólgin hápólitísk stefna sem fylgt hefur verið frá hruni. Skattfé almennings verður ekki notað til að greiða skuldir óreiðumanna. Undantekningar frá því eru á fjögurra árar starfstíma vinstri stjórnarinnar frá 2009 til 2013. Hins vegar tókst þjóðinni að eyðileggja fyrirætlan hennar um samninga við Breta og Hollendinga þess efnis að ríkið ætti að ábyrgjast Icesave skuldir gamla Landsbankans.

Þessar tvær greinar Tómasar Ingi Olrich eru afar vel skrifaðar og auðveldar aflestrar enda hefur höfundurinn mjög góð tök á umræðuefni sínu og er auk þess góður penni. Ég mæli með því að menn lesi báðar greinarnar í einu. Þær má finna í greinasafni Morgunblaðsins. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband