Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2014

Vígaferli Steingríms J. og stefna hans í ESB málinu

„Það samrýmist ekki okkar stefnu og við höfum ekkert umboð til þess.“ Hálfum mánuði síðar lagði stjórnarfleyið frá landi með Brussel fyrir stafni og aðildarumsókn sem leiðarljós. Nýjum og áður óþekktum hæðum Íslandssögunnar í kosningaloforðasvikum hafði verið náð.

Þetta segir Indriði Aðalsteinsson, bóndi á Skjaldfönn við Ísafjaðardjúp, í grein í Morgunblaðinu í morgun. Indriði er alkunnur vinstrimaður og hagvanur innan Vinstri grænna. Hann lætur tíðum vaða á súðum og hlífir aungvum. Í greininni lemur hann meðal annars á Steingrími J. Sigfússyni, þingmann, fyrrum formanni VG og fyrrum alsherjarmálaráðherra í vinstri stjórn með Samfylkingunni. 

Steingrímur sveik stefnu Vinstri grænna en flokkseigendafélagið og Kastljósið í Sjónvarpinu hafa haldið hlífiskildi yfir honum alla tíð síðan. Þeim síðarnefndu finnst í lagi að berja á núverandi leiðtogum ríkisstjórnarinnar en leggjast ekki í einfalda rannsóknarblaðamennsku vegna leiðtoga vinstri stjórnarinnar.

Ekki er furða þó Steingrímur hafi gengið með veggjum frá því að vinstri stjórnin hrökklaðist frá. Indriði bóndi segir svo frá:

Hinn stjórnar„leiðtoginn“ S.J.S. lét ekki sitt eftir liggja í vígaferlunum. Hann hrakti Lilju Mósesdóttur og Atla Gíslason úr flokknum og flæmdi Ásmund Einar til Framsóknar. Ruddi síðan Guðfríði Lilju frá þingflokksformennsku. Að skipan Jóhönnu dró hann Jón Bjarnason úr ráðherrastól og gerði hvað hann gat að leggja Ögmund að velli í Kragaforvali.

Og er þá ábyggilega fátt eitt talið af ávirðingum á Steingrím J. En það sem uppúr stendur eru svik hans og félaga hans við stefnu VG í ESB málinu. Það fyrirgefur Indriði líklega seint.


Guðmundur Steingrímsson þarf að svara einfaldri spurningu!

Það eru gamaldags vinnubrögð, það er birtingarmynd þessa ofríkis, þessarar forræðishyggju sem ríkisstjórnin er að tileinka sér. Mér líður eins og það sé verið að reyna að troða ofan í mig skítugum, illa lyktandi lopasokk einhvern veginn,“ segir Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar.

Guðmundur Steingrímsson þingmaðurinn lætur sem hann sé gráti nær vegna þess að ríkisstjórnin ætlar að draga umsóknina að ESB til baka. Hann viðhefur stór orð án nokkurra raka.

 

  • Hvað er „ofríki“ í þinglegri meðferð ríkisstjórnarinnar um ESB málið?
  • Hvers vegna notar hann orðið „forræðishyggja“ um lýðræðislega meirihlutaákvörðun á þingi?
  • Hvernig passar þessi myndlíking Guðmundar um verið sé „að troða ofan í mig skítugum, illa lyktandi lopasokk“?

 

Nú verður Guðmundur að draga djúpt andann og svara einfaldri spurningu.

Fyrst það var hægt var að láta Alþingi samþykkja þingsályktunartillögu um aðild að ESB án þess að þjóðin hafi komið þar nærri á ekki að vera hægt að afturkalla sömu tillögu með samskonar þingsályktunartillögu án þess að stjórnarandstaðan fari á límingunum?

Var það samskonar ofríki af síðasta ríkisstjórnarmeirihluta að leggja inn umsókn í Evrópusambandið? Að þeirri ákvörðun stóð Guðmundur Steingrímsson og hann lagðist þá gegn þeirri tillögu Sjálfstæðismanna að leggja umsóknina undir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Guðmundur þykist vera æfur, reitir hár sitt og viðhefur ótrúlegt orðbragð. Skýringin er væntanlega sú að hann er í minnihluta og fær engu um ráðið. Hann hafði það á síðasta kjörtímabili en gerði ekkert - frekar en fyrri daginn. 

 

 


Hvað í ósköpunum hrjáir Róbert Marshall?

Stjórnarandstaðan með Róbert Marshall, þingmann Samfylkingarinnar, í broddi fylkingar tekur alltof mikið upp í sig út af afturköllun umsóknar að ESB. Þetta er að mestu sama fólkið og hló að tillögu Sjálfstæðisflokksins um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslum um aðildarumsóknina þegar hún var lögð fram á alþingi 2009. Hvers vegna að halda tvær atkvæðagreiðslur, stundi þá verandi stjórnarmeirihluti upp á milli hláturskviðanna.

Þeir héldu því fram að það væri nóg að halda eina þjóðaratkvæðagreiðslu og það þegar viðræðurnar hefðu skilað samningi ...! En það sem þetta lið sleppti að minnast á var að viðræður við ESB ganga ekki út á gerð samnings heldur að umsóknarríkið, Ísland, sýni og sanni hvernig það hafi tekið upp lög og reglur Evrópusambandsins, allar 100.000 blaðsíðurnar í eigin lög. Þess vegna kallar ESB þetta aðlögunarviðræður.

Í sannleika sagt er tilgangslaust að halda viðræðum við ESB áfram. Þær eiga að leiða til aðildar. Að lokinni þjóðaratkvæðagreiðsla kann svo að fara að þjóðin hafi hafnað aðildinni. Þá verður Ísland komið með öll þessi 100.000 blaðsíðna lög og reglur án þess að vera aðili. Til hvers er þá verið að leggja í þessa vegferð.

Jú, kann ESB liðið að segja, til að ná ásættanlegum samningi. Nei, samningur er ekki markmið ESB nema í undantekningatilvikum og alls ekki í grundvallarmálum. Fyrir því eru engin fordæmi. 

Fyrst það var hægt að láta Alþingi samþykkja þingsályktunartillögu um aðild að ESB án þess að þjóðin komi þar nærri hlýtur að vera hægt að afturkalla sömu tillögu með samskonar þingsályktunartillögu án þess að stjórnarandstaðan fari á límingunum. Og að kalla þetta svik er fjarri öllu lagi. Svikin byrjuðu með því að senda Ísland í aðlögunarsamningana.

Spyrja má því að gefnu tilefni hvað hrjáir stjórnarandstöðuna og ekki síðst Róbert Marshall þingmann Samfylkingarinnar.. 


mbl.is Gengu út af þingflokksformannafundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góður samanburður á náttúru landins hjá Mogganum

Ok hefur aldrei þótt „merkilegur“ jökull. Hann hefur löngum verið lítill og meira skafl en nokkurt annað. Viðmiðun vísindamanna er samt önnur og samkvæmt skilgreiningunni vantar ekkert annað en að gefa út dánarvottorðið fyrir Okjökul.

Enginn skyldi þó fella tár yfir örlögum hans. Ævi jökla er sem trölla, talin í hundruðum ára, jafnvel þúsundum. Og þeir koma og fara án þess að menn hafi getað greint hreyfingu þeirra - fyrr en núna. Í stað jökulsins birtist nú þessi gríðarlegi gígur, sem flestir vissu nú af.

Morgunblaðið gerir vel í að birta svona „náttúrufréttir“ og nýta til þess efni frá hinu ágæta fyrirtæki Loftmyndir og má óska báðum aðilum til hamingju með þessar „renningamyndir“.

Vonandi verður meira af fréttaflutningi Moggans af þróun landsins. Fyrir þá sem áhuga hafa skal bent á heimasíðu Loftmynda. Þar má finna margar skemmtilegar loftmyndir af landinu.


mbl.is Okjökull er að hverfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Benedikt Jóhannesson er -fúll á móti-

Benedikt Jóhannesson, framkvæmdastjóri, stóð sig afar illa í umræðuþætti Sigurjóns Egilssonar, Á Sprengisandi, á Bylgjunni í dag. Ekki aðeins fór hann með rangt mál heldur hélt hann uppteknum hætti og barði miskunnarlaus á eigin flokki fyrir það eitt að sú stefna sem hann aðhyllist fékk hvorki hljómgrunn á síðasta landsfundi, við stjórnarmyndunarviðræðurnar né enn þann dag í dag.

Benedikt er ESB sinni og fulltrúi þeirra 10-15% Sjálfstæðismanna sem vilja inngöngu í ESB. Hann verður alltaf fúll eftir landsfundi enda erum við langflestir Sjálfstæðismenn á mót inngöngu. Og nú finnst honum allt ómögulegt við Sjálfstæðisflokkinn. Flokkurin gerir ekkert rétt, kann ekkert og veit ekkert. Benni er einfaldlega „fúll á móti“ og lemur í allar áttir.

Sá óvinafagnaður sem Benedikt efnir til er fagnaðarefni andstæðinga Sjálfstæðisflokksins og vitnað er í hann sem djúphugsandi spekings sem hinir heimsku Sjálfstæðismenn höfnuðu. Þetta er þó alrangt, með þeirri undantekningu að Benedikt er fróður maður, vel menntaður og spakur að öllu leiti.

Flokkurinn hefur hins vegar ekki hafnað honum, ekki frekar hann hefur hafnað mér. Benni á ekki upp á pallborið í flokknum með ESB, ekki frekar en ég með áherslur mínar í umhverfis- og náttúruverndarmálum. 

Ástæða fyrir fylgistapi Sjálfstæðisflokksins frá hruni byggjast þó ekki á afstöðunni til ESB. Þar kemur allt annað til eins og ég hef rakið í fjölmörgum pistlum á þessari bloggsíðu. 


Hafði síðasta ríkisstjórn umboð?

Hvaða umboð hafði Árni Páll Árnason, þingmaður, fyrrverandi ráðherra og formaður Samfylkingarinnar, og félagar hans í síðustu ríkisstjórn til að leggja fram þingsályktunartillögu um aðildarumsókn að ESB? Jú, þeir höfðu fullt umboð til þess enda með þingmeirihluta.

Þar af leiðir að ný þingmeirihluti hefur sama umboð til að afturkalla aðildarumsóknina. Allt tal Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar, er marklaust hjal. Eða hafði síðasta ríkisstjórn var klofin í málinu umboð.


mbl.is Hafa ekki umboð til að ákveða þetta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hús og götu skapa ekkert, en það getur fólk gert

Hús skipta litlu máli. Þau skapa ekkert. Mestu máli skiptir fólkið, hugmyndir þess og fyrirætlanir.

Þetta sagði góður vinur og samstarfsfélagi, Baldur Valgeirsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Norðurlands vestra. Margir voru svo vinsamlegir að benda honum á að hér og þar í landshlutanum stæði autt atvinnuhúsnæði sem hægt væri að koma í brúk með litlum sem engum fyrirvara. Baldur brosti jafnan og útskýrði fyrir viðkomandi að húsnæði skapaði í raun og veru ekki neitt og spurði síðan hvað viðmælandi gæti hugsað sér í þetta húsnæði. Jafnan var fátt um svör.

Götur skapa ekkert frekar en hús. Hins vegar er það alveg rétt að snyrtilegt umhverfi getur dregið að góð fyrirtæki, rétt eins og sum hús kunna að falla að ákveðnum atvinnurekstri.

Svo er það annað mál og tengt að borgin lítur hræðilega illa út eftir fjögurra ára stjórn flokka Jóns Gnars og Dags B. Ég er ekki viss um að fyrirtækjaeigendur í miðborginni kunni þeim miklar þakkir fyrir þessi ár.


mbl.is „Með flottari götum í bænum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfirgaf dvalarheimilið sem hann býr á í leyfisleysi ... eða hvað?

Allan Karlsson ákveður á 100 ára afmælinu sínu að yfirgefa dvalarheimilið sem hann býr á í leyfisleysi.

Svo segir í dálk í Morgunblaðinu í morgun og nefnist sá Bíófrumsýningar. Það skiptir þó litlu máli heldur uppbygging málgreinarinnar hér fyrir ofan. Spurningin er nefnilega sú hvort Allan Karlsson hafi búið á dvalarheimilinu í leyfisleysi eða yfirgefið það í leyfisleysi.

Þannig skiptir miklu máli hvar tilvísunarsetningin er sett niður. Eðlilegast hefði verið að skrifa málsgreinina svona, vegna þess að maðurinn mátti ekki fara þaðan sem hann hafði leyfi til að búa:

Allan Karlsson ákveður á 100 ára afmælinu sínu að yfirgefa í leyfisleysi dvalarheimili sitt.

Leyfði mér að laga þetta aðeins meira til. Þetta er þó sárasaklaust miðað við margt annað. Hins vegar er alltaf nauðsynlegt að lesa yfir það sem maður skrifar - og vera dálítið gagnrýninn á sjálfan sig.

Annars skilst mér að bókin sem bíómyndin er byggð á sé frábær og myndin ekki síðri. 


Þarf að láta minna fara fyrir fötluðum?

Á meðan ég beið eftir henni kemur þessi ákveðni starfsmaður og ég taldi í einfeldni minni að hann ætlaði ef til vill að bjóða mér að fara niður í hléinu en svo reyndist hreint ekki vera. Áður en ég vissi af hafði hann snúið hjólastólnum á hlið og sagði um leið að það færi minna fyrir mér svoleiðis á meðan fólkið væri á ferð í hléinu.

Þetta skrifað ung kona, Fanney Sigurðardóttir, í Morgunblaðið í morgun. Ekki þekki ég hana en tók eftir því að hún kann vel að skrifa, ritar gott mál og segir vel frá og skipulega.

Þó Fanney sé bundin í hjólastól á hún og þarf að komast það sem ófatlaðir gera. Hins vegar eru margvíslegar hindranir eru í veginum, bæði í byggingum og ekki síst virðist viðhorf ófatlaðra vera til mestra vandræða. Þetta kemur berlega fram í ofangreindri tilvitnun.

Konan fór á tónleika í Háskólabíói og þá er ýtt við henni svo ófatlaðir geti auðveldar komist leiðar sinnar. Þetta er alveg ótrúlegt viðhorf starfsmanna bíósins eða tónleikanna. Í þokkabót fékk hún ekki einu sinni sæti eins og annað fólk:

Þegar upp var komið tók við milligólf og stúka fyrir ofan og neðan. Ég hélt að ég yrði við enda annarrar stúkunnar og vinkona mín við hliðina á mér, en svo var ekki. Starfsmaðurinn sagði okkur að við ættum að vera á þessu milligólfi og vinkona mín var sett á eldhússtól við hliðina á mér. Hvorug okkar fékk því í raun það sem við borguðum fullt verð fyrir, þ.e. sæti.

Þetta er vond saga og öllum til hnjóðs. Ótrúlegt hvernig komið er fram við fólk og því sýnd að því er virðist takmarkalaus óvirðing.


Er engin landafræðiþekking á Fréttablaðinu?

Jöklar2

Tvennt eiga fjölmiðlar að hafa á hreinu. Annars vegar að geta ritað eða talað nokkurn veginn skammlaust mál og hins vegar að fara rétt með landafræðina. Hið síðarnefnda flækist fyrir flestum fjölmiðlum.

Í Fréttablaði dagsins er frétt um hnignun skriðjökla og þar getur blaðamaðurinn ekki einu sinni druslast til að staðsetja jöklanna rétt á korti sem fylgir fréttinni og í ofanálag kann hann ekki að rita nöfn sumra þeirra. Kortið fylgir hé með og ég hef gert leiðréttingar á því með rauðu.

Af tíu jöklum eru sex kolrangt staðsettir og tveir ranglega ritaðir.

Þeir sem eru illa að sér í landafræði og skilja lítt íslenskt mál átta sig ekki á því að Tungnaá er rituðu eins og hér er gert. Rangt er að sleppa „a-inu“. Sama er auðvitað með jökulinn sem dregur nafn sitt af fljótinu. Á sama hátt skiptir „a-ið“  öllu máli þegar nafn Skógaár er ritað.

Prófarkarlestur skiptir gríðarlega miklu í útgáfustarfi. Eitt er að skrifa rangt og búa til villandi kort en annað er birta slíkt og þess vegna er mikilvægt að einhver lesi yfir texta, lagi málfar, stafsetningu og kanni hvort kortin séu rétt.

Efnislega var þó fréttin í Fréttablaðinu nokkuð áhugaverð enda þar rætt við Odd Sigurðsson, jarðfræðing, sem er hafsjór af fróðleik um jökla landsins.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband