Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2014

Enn skelfur jörð við Jarlhettur

langjökullAthyglisvert er að fylgjast með jarðhreyfingum við Langjökul. Fjölmiðlar hafa hins vegar ekki sama áhuga á þeim og ég. Enginn þeirra hefur fjallað um þá. Líklega eru þeir frekar ómerkilegir, það er jarðskjálftarnir en ekki fjölmiðlarnir ... Engu að síður eru þeir sjaldgæfir á þessum slóðum, að minnsta kosti undanfarin ár.

Hérna er loftmynd af svæðinu fyrir suðaustan við Hagavatn. Þar, suðvestur af Jarlhettum, hafa nokkrir jarðskjálftar mælst.

Skjálftarnir hafa þróast þannig að þeir flytjast úr suðvestri í norðaustur eins og sjá má á skráningunum við þá. Hugsanlega eiga þeir uppruna sinn lengst úti á Reykjanesi, t.d. í haust. Svo hliðrast misgengin til, allt upp í Langjökul. Litlar líkur eru á því að þeir eigi rót í einhverjum kvikuhreyfingum.

Kortið er fengið úr Google Maps en ég skrifaði örlítið inn á það, örnefni og stærð, dags-, tímasetningu og dýpi skjálfta.

Vandinn er eiginlega sá að maður þyrfti að geta séð staðsetningu skjálfta í þrívídd til að átta sig á þeim og þó dugar það ef til vill ekki fyrir okkur leikmenn. Meðfylgjandi loftmynd finnst mér hins vegar vera dálítið meira upplýsandi en jarðskjálftakort Veðurstofunnar. 

Forvitnilegast er að skjálftarnir hanga í Jarlhettum, þessum fallega 16 km langa móbergshrygg sem eitt sinn voru huldir jökli. 


Verður vorið eins og í Prag eða hið arabíska?

Þær tillögur SamBesta í samgöngumálum ganga helst út á það að stífla umferð og að fækka bílastæðum. Eðlilega standa þeir þrír fjórðu hlutar Reykvíkinga sem ferðast um á bílum gegn slíku og reyna að finna sér fulltrúa við hæfi til þess að fara með umboð þeirra við skilvirka stjórn borgarinnar.

Þetta er úr góðri grein sem Ívar Pálsson, viðskiptafræðingur, skrifar í Morgunblaðið í morgun. Hann gerir lýðræðið í Reykjavíkurborg að umtalsefni, aðgerðir borgarstjórnarmeirihlutans og stöðu þriggja kvenframbjóðenda í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins að umtalsefni.

Hann ræðir einnig um oddvita framboðs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og segir:

Mun Halldór Halldórsson, borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins, stinga furðuhugmyndum sínum um þverun Skerjafjarðar (að hætti Kolgrafafjarðar) undir stól þar sem ESBfylgni hans á líka að vera? Getur hann sameinað hópinn? Allir aðrir kostir eru arfaslakir, nema komi upp úthverfaframboð sem ýtir hagsmunum ríkjandi 101-lattehópsins almennilega til hliðar. Framsókn mun varla koma til bjargar í borginni eins og tókst í landsmálunum og vinstri hópar eru í sjóræningjaleik eða að gefa fuglum úti á miðri Hofsvallagötu.

Langt er til vors. Vonum að það verði ekki eins og vorið var í Prag eða hið arabíska. Við biðjum bara um almennilega borgarstjórn. 

Ég held að flestir borgarbúar geti tekið undir þessi orð Ívars, að minnsta kosti niðurlagið.


Ótrúverðugt Landeigendafélag innheimtir glápgjald

Landeigendafélag Geysis kann sig ekki. Það ætlar að innheimta skoðunargjald sem flestir nefna „glápgjald“ en bjóða enga þjónustu í staðinn. Þetta er svo ótrúverðugt sem mest má vera. Sé eitthvað spunnið í þessa Geysismenn þá hefðu þeir fyrst tekið til hendinni, hafið uppbyggingu og lagfæringar á svæðinu og síðar innheimt gjald.

Bjóddu upp á þjónustu og rukkaðu síðan fyrir hana. Er það ekki lágmarkið. 

Nei, þeir virðast ekkert vita hvað þeir ætla að gera. Þeir hafa ekki lagt fram neinar áætlanir, hvorki um skipulag né kostnað. Hafa ekki sótt um leyfi fyrir neinar breytingar á svæðinu. Svo taka ákvarðanir án þess að eigandi þriðjungsins fái að vera með, það er ríkið. Hvernig er hægt að vinna svona? Hversu ótrúverðugir ætla þeir sér að vera.

Sú meinlega hugsun læðist síðan að almenningi í landinu að verið sé að hafa fólk að féþúfu án þess að neitt eigi að ganga til endurbóta, lagfæringar eða uppbyggingar. Nú stendur það upp á Landeigendafélag Geysis að sýna fram á að hið gagnstæða. 

 


mbl.is Geta ekki beðið eftir stjórnvöldum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Talsvert um jarðskjálfta við sunnanverðan Langjökul

Langjökull

Undanfarnar vikur hefur nokkuð borið á jarðskjálftum við sunnanverðan Langjökul. Raunar hefur verið svo frá því í haust. Þetta telst til nokkurra frétta því tíðindalaust hefur verið þarna í mörg ár, eftir því sem minni þess sem hér ritar dugar. Þó voru nokkrir snarpi skjálftar þar í lok mars í fyrra.

Jarðaskjálftarnir síðustu daga hafa verið suðvestan við Jarlhettur en svo nefnist móbergshryggur sem einu sinni voru þaktir jökli en hafa smám saman losnað úr viðjum hans eftir því sem Langjökull hefur hopað. Hryggurinn er um sextán kílómetra langur og í honum eru um tuttugu tindar og sá hæsti heitir Tröllhetta og er um 960 m hár.

Stærsti skjálftinn að þessu sinni var um 2,5 stig en flestir hafa verið yfir einu stigi. Skjálftarnir hafa nokkrir samkvæmt upplýsingum af vef Veðurstofunnar verið tiltölulega grunnir en flestir þó á meira en fimm kílómetra dýpi.

Á meðfylgjandi mynd sést staðsetning skjálftanna samkvæmt jarðskjálftavakt Google Maps. Sú heimild er þó ekki ýkja góð, að minnsta kosti er nokkuð mikill munur á henni og Veðurstofu Íslands sem vér hérlendir tökum meira mark á. Framsetningin hjá Google Maps er þó til mikillar fyrirmyndar þó fjöldi skjálfta og staðsetning sé bundin nokkurri ónákvæmni. 


Skrökvar frambjóðandinn eða veit hann ekki betur?

 Ég vil ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið og kjósa um aðildarsamning. Ná þarf sem hagstæðustu samningum fyrir allar atvinnugreinar og almenning og leggja niðurstöðuna í dóm kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég treysti dómgreind þjóðarinnar í þessu stóra máli.

Hún virðist ekki betur að sér en þetta, frambjóðandinn til formennsku í Samtökum Iðnaðarins, Guðrún Hannesdóttir Hafsteinsdóttir, markaðsstjóri og einn af eigendum Kjöríss hf. í Hveragerði. Hún hefur líklega ekkert kynnt sér hvaða reglu Evrópusambandið gera til ríkja sem sækja um aðild. Eða segir hún ósatt.

Í stuttu máli sækir ríki um aðild og samþykkir á ákveðinn hátt öll lög, reglur og stjórnsýslu ESB. Punktur. Þetta er gert á þann hátt að ESB ræðir við aðildarríkið sem þarf að sýna fram á hvernig lög, reglur og stjórnsýsla ESB hafi verið tekin upp af umsóknarríkinu eða muni gera það.

Enginn samningur er gerður milli ESB og umsóknarríkis. Alls enginn. Ætlunin er að umsóknarríkið gangist að fullu og öllu undir stjórnarskrá ESB, Lissabonsamninginn. 

Hvenær í ósköpunum ætla ESB sinnar að læra einföldustu umsóknarferlisins?

Ég veit ekki hvort er verra fólk sem mælir af vanþekking eða þeir sem hreinlega skrökva. Í öðrum hvorum flokknum er Guðrún Hafsteinsdóttir - að minnsta kosti hvað þetta umfjöllunarefni varðar.


Hvað á að gera við bækur sem maður vill ekki eiga?

Undanfarna viku hef ég staðið í flutningum á heimili mínu á milli hverfa. Því fylgir óskaplega mikil vinna. Ég væri nú ekki að kvarta svona opinberlega nema vegna bókanna minna. Þetta voru eitthvað um eitthundrað kassar af bókum ... og sá veit ekki fyrr en reynt hefur hvílíkt bakbrot fylgir burði upp og niður stiga. Allt annað er léttflutt miðað við bókakassanna.

Auðvitað bitnaði flutningurinn ekki bara á mér, heldur sonum mínum og vinum og kunningjum. Fleiri en einn gerði athugasemdir við eigur mínar. Þarftu nú virkilega að eiga svona mörg skíði? var spurt. Ekki lestu allar þessar bækur? spurði annar.

Já, ég þarf að eiga mörg pör af skíðum, gönguskó, tjöld og annað lífsnauðsynlegt ... En það er þetta með bækurnar. Jú, ég hef lesið allar mínar bækur, að minnsta kosti 90% þeirra. Ég á reyndar nokkrar sem ég hef ekki áhuga á, reynt að byrja að lesa en þær hafa ekki vakið áhuga minn. Örfáar aðrar hlýt ég að hafa keypt í andartaks hugsunarleysi enda ferlega óáhugaverðar. Allar hinar þekki ég vel og fletti upp í þeim af og til. Staðreyndin er hins vegar sú að sá sem á þrjú þúsund bækur endist ekki ævin til að „fletta upp í þeim af og til“, tölfræðilega gengur það ekki upp nema maður geri ekkert annað. Það ætla ég mér ekki.

Niðurstaðan er því þessi að ég ætla að losa mig við helminginn af bókunum og rúmlega það. Halda eftir þeim sem eru verulega áhugaverðar, henda öllum „einnota“ skáldsögum sem skipta engu máli, grisja pólitíska safnið og svo framvegis.

Vandinn er hins vegar innrætingin, uppeldi mitt. Ég var alinn upp við það að bók væri nærri því heilög, öngri mætti henda, það væri synd. Erfitt er að hrista þetta af sér enda er ljóst að sumar bækur geta verið tómt rugl og meiri synd að halda slíkum en henda.

En hvað gerir maður við bækurnar? Á að henda þeim á hauganna eða skila í Sorpu?

Þó svo að ég hafi tekið tímamótaákvörðun strandar hún núna á framkvæmdinni. 


Slysið er líklega í Innri-Veðurárdal

Jokull

Gæti nú ekki verið að slysið hafi orðið við Innri-Veðurárdal? Ég held það. Þangað eru rúmlega sex kílómetrar frá jökulsporði sem þýðir um eins og hálfs tíma gangur ef jökullinn er ekki mikið sprunginn. Að hinum er rétt rúmlega einn kílómetri.

Ég leyfi mér að giska á að slysstaðurinn sé rétt innan við mynni Innri-Veðurárdals. Þar verða oft til íshellar vegna þess að vatn streymir inn í dalinn undan jöklinum.

Á meðfylgjandi korti sem ég leyfði mér að fá að láni hjá Landmælinum Íslands má glöggva sig nokkuð á aðstæðum.

Leiðin að slysstaðnum liggur yfir glæra ís og þar gengur ferðafólk án efa á ísbroddum, í vað og með ísexi í hönd.Þeir fara að heillandi stað og reyna sig við jökulinn og koma heim reynslunni ríkari. Fyrir kemur að slys verða. Þau geta eðlilega verið vegna mistaka en um leið óhöpp orðið vegna breytinga á aðstæðum. Engin ástæða er til að gagnrýna ferðaskipuleggjendur að minnsta kosti meðan ekki liggja gleggri upplýsingar fyrir.


mbl.is Björgunarsveit komin á vettvang
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband