Lóa, kúadella og köttur á Seltjarnarnesi

Eftirlætispistlahöfundur minn á vefnum, er tvímælalaust hann Jón Sigurðsson, vinur minn á Blönduósi. Hann ritar vikulega hugleiðingar sínar og pælingar á vefinn http://jonsig.123.is.

Jón býr yfir miklu skopskyn og skemmtir sér helst við að gera grín af sjálfum sér. Mannlýsingar Jóns eru kostulegar og segir hann frá nágrönnum sínum og öðrum Húnvetningum af miklu innsæi en líka mildi.

Um daginn birtist frétt í fjölmiðlum um að sex lóur hafi sést á Seltjarnarnesi. Í því tilefni segir Jón þessa sögu:

Heiðlóa ein sem hafði þvælst í mörg ár fram og til baka vor og haust til landsins í misjöfnum veðrum og árum, ákvað það að vera um kyrrt á landinu þegar aðrar lóur tóku sig upp og flugu suður á bóginn. Hún sagði við sjálfa sig að þetta hlyti að blessast því vetur á Íslandi væru ekki svo slæmir.

Þetta gekk ágætlega fram eftir hausti því tíðarfar var gott. En svo kom fyrsta alvöru hausthretið og lóu litlu varð kalt og lítið var til að borða.

„Æi" hugsaði hún með sér. „Mér hefði kannski verið nær að fylgja ættingjum mínum suður á bóginn fyrr í haust. Það er ef til vill ekki orðið of seint" hugsaði hún með sér og hóf sig til flugs af túninu við Héraðshælið.

Hún var ekki búinn að fljúga lengi þegar ísing gerði vart við sig á vængjum hennar og hún varð að nauðlenda á túninu í Sauðanesi. Það varð henni til happs að Palli var enn með kýrnar í fóðurkálinu og lóan lenti rétt hjá þeim. Huppa gamla jórtraði spekingslega lyfti hala og skeit á umkomulausa lóuna sem var beint fyrir aftan hana. Eins og gefur að skilja þá hlýnaði lóunni skyndilega við þessa himnasendingu og hóf hún upp söng mikinn „dýrðin, dýrðin, dýrðin" söng hún hástöfum.

Þessi óvænti gleðisöngur lóunnar barst Brandi, ketti Páls í Sauðanesi til eyrna og var hann satt best segja undrandi í fyrstu, því hann hafði ekki heyrt lóusöng í langan tíma eins og gefur að skilja. Brandur gerði meira heldur en að sperra eyrun því hann lagði leið sína suður fyrir fjós og fór að huga að því af hvaða toga þessi söngur væri. Ekki var hann lengi búinn að ganga þegar hann kom að lóunni fastri í kúadellunni.

Það verður bara að segjast eins og er að þau urðu bæði mjög hissa á því að sjá hvort annað og Brandur gerði það sem hann kann best í samskiptum við fugla. Hann dró lóuna þar sem hún sat föst upp úr skítnum og gerði sér hana að góðu.

Þessi saga kennir okkur það í fyrsta lagi að hlutirnir lúta ákveðnum lögmálum og það þýðir ekkert að berja höfðinu við stein gagnvart staðreyndum lífsins. Lóur fara suður á bóginn á haustin.

Í öðru lagi segir þessi saga okkur það að vera ekki að blása það út um allt þó manni líði vel og hafi það gott um stundarsakir heldur lifa lífinu sáttur og af hógværð því ýmsir sem þú kærir þig ekki um geta heyrt í þér.

Ennfremur er það nokkuð ljóst að það eru ekki alltaf óvinir þínir sem skíta þig út.

Og síðast en ekki síst þá eru það ekki endilega vinir þínir sem draga þig upp úr skítnum og koma þér til hjálpar þegar mest á reynir.

Svo mörg voru þau orð. Það er hreint með ólíkindum að sex lóur á Seltjarnarnesi geti eyðilagt góða dæmisögu en svona er lífið og vorboðinn ljúfi óútreiknanlegur. 

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband