Bloggfærslur mánaðarins, júní 2013

Hetja með göfugan málstað

Þvílíkur hörkunagli er þessi Guðni Páll Viktorsson. Ég er ekki viss um að allir átti sig á því hvers konar útsjónarsemi, krafta og dugnað maður þarf að búa yfir sem rær á kajak hringinn í kringum landið. Og svo er það líkamlegt og andlegt úthald sem er aðdáunarvert. Ætli maður væri ekki löngu hættur og skriðinn heim í stofuna fyrir framan sjónvarpið.

Nei, Guðni Páll er hetja og málstaður hans göfugur. Þekki ekkert þennan mann en tek djúpt ofan fyrir honum og hvet fólk til að styðja við málstaðinn með örlæti. 


mbl.is Guðni Páll hefur safnað 4 milljónum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkið stórgræðir á erlendum ferðamönnum

Með ályktun sinni er Ferðafélag Íslands komið inn á varhugaverða braut og hefur tekið afstöðu gegn ferðafrelsi og með því að loka einstökum stöðum og landsvæðum fyrir ferðafólki. 

Hingað til hefur Ferðafélag Íslands ekki látið umhverfismál sig miklu skipta heldur blóðmjólkað svæði eins og Landmannalaugar og gönguleiðina milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Nú blöskrar þessu félagi og hefur krafist þess  fá að skattleggja göngumenn á Laugaveginum, ekki aðeins sína eigin heldur aðra, og fá þessa peninga til að endurbæta þjónustuna. Samkvæmt framkvæmdastjóra félagsins eiga starfsmenn Rangárþings eða Umhverfisstofnunar að rukka göngumenn í Landmannalaugum eða Langadal um 5.000 krónur hvern. Þessa peninga vill framkvæmdastjórinn fá, 30 til 50 milljónir króna, til að leggja aukreitis í húsin sín í Laugum, Hrafntinnuskeri, Álftavatni, Botnum og Langadal. Svæðið, sem þjáist af átroðningi sem Ferðafélagið er að stórum hluta ábyrgt fyrir.

Hagsmunabarátta Ferðafélagsins er undarleg. Hún byggist á örlæti á annarra manna fé, það er ekki sannfærandi.

Á Íslandi er mikil náttúrufegurð, um það þarf ekki að deila og raunar er það ekki hluti af umræðuefninu. Vilji hins vegar Ferðafélagið taka þátt í rökræðunni þá byggist hún á þá eftirfarandi:

 

  1. Er það sóma þjóðarinnar samboðið að heimta gjald af útlendum ferðamönnum en hlífa innlendum?
  2. Fornum réttindum ferðafólks er kastað fyrir róða en í þeim er gert ráð fyrir frjálsri för um land.
  3. Er það réttlætanlegt að sá sem mest græðir á ferðaþjónustu og erlendum ferðamönnum skuli ekki dreginn til ábyrgðar, en það er ríkissjóður Íslands. Aðeins um 500 milljónir eru til skiptana úr þeim sjóði árlega. Hingað koma þó nærri 700.000 ferðamenn og greiða fjölbreyttan skatta og gjöld af neyslu sinni og að auki fær ríkissjóður miklar tekjur af ferðaþjónustunni.
  4. Engar athuganir hafa verið gerðar á því hvað þurfi að gera fyrir ofsetna ferðamannastaði eða hvernig eigi að dreifa álaginu. 
  5. Ferðaþjónustuaðilar hafa glapist til að auglýsa mest örfáa staði á landinu og þeirra á meðal eru Landmannalaugar og Þingvellir og eðlilega vilja útlendingar koma á þangið. Aðrir staðir líða fyrir þetta enda eru náttúrfegurð miklu víðar en á þessum tveim.
  6. Hvernig á að úthluta 1500 milljónum króna? Umræða um slíkt hefur ekki farið fram.
  7. Þegar meintir landeigendur geta lokað heilu landssvæðunum, fjöllum jafnt sem litlum og fögrum stöðum þá er illt í efni og raunar út um hefðbundna ferðamennsku hér á landi. Þurfum við að sæta því í framtíðinni að rukkað sé fyrir aðgang að Dverghömrum, Kirkjugólfi við Kirkjubæjarklaustur, Hjörleifshöfða svo tæmi séu tekin um litla staði sem eru afar sérstæðir?

 

Sumir halda því fram að þeir sem valda átroðningum hljóti að þurfa að borga fyrir hann. Með sömu rökum er líklega næst að rukka bifreiðaeigandann fyrir notkun á vegum, nemandann fyrir skólasókn sína, sjúklinginn fyrir legudaga á spítölum og samskipti við lækna og svona má lengi telja. 

Þjóðin verður að skoða þessi áferðafallegu hugtök eins og „náttúrupassa“, „komugjald“, „umhverfisgjald“ með gagnrýnu hugarfari. Fyrir alla muni, ekki afturkalla á einu bretti frelsi fólks til aksturs um landið, gönguferðir, reiðmennsku fyrir þá sök eina að ríkisvaldið telur sig ekki hafa efni á að leggja fram eðlilegan hluta af tekjum af ferðaþjónustu og erlendum ferðamönnum.

Ríkisvaldið tekur við tekjum af ferðamönnum. Það er ekki nema sjálfsagt að það leggi hluta af því til uppbyggingar ferðamannastaða, lagfæringar vegna ágangs og fyrirbyggjandi ráðstafanir í umhverfismálum.

Komum í veg fyrir stórslys. Fyrirtæki eins og Ferðafélag Íslands getur einfaldlega hækkað verð á ferðum sínum um þau svæði sem sæta átroðningi. Fyrir vikið mun fækka í þeim og það hugsanlega geta lagt til fjármagn í uppbyggingu sem það gerir ekki.


mbl.is Gjaldtaka við komu og brottför
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Olíuþjófar undir Vífilsfelli

Vita lesendur hvers vegna við, sem viljum ganga á Vífilsfell, komumst ekki lengur að fjallinu, heldur þurfum að ganga nokkuð langa leið?

Jú, vegurinn inn í Jósefsdal er ónýtur vegna viðhaldsleysis en við mynni dalsins er ein vinsælasta uppgönguleiðin á fjallið. Aðra leið er hægt að fara en hún liggur inn í malarnámið alræmda sem er undir fjallinu, norðaustanverðu. Þar hafa verktakarnir tekið upp á því að loka veginum við Suðurlandsveg vegna þess að lengst inni í námunni eru vélar og tæki og glæpamenn stela af þeim olíu. 

Til þess að stemma stigu við þessum ræningjalýð hefur verið gripið til þess ráðs að loka veginum. Þá þurfa misyndismennirnir að bera olíuna frá tækjunum og út að veg. Þessu nenna þeir auðvitað ekki.

En hugsið ykkur að ekki skuli vera hægt að skilja vélar og tæki eftir í friði fyrir þessum lýð.

Og við látum okkur lynda að ganga þessa tæpu tvo kílómetra að fjallinu. 


mbl.is Stálu 600 lítrum af olíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf þjóðin að alfriða Ómar?

Þeir eru örfáir Íslendingarnir sem talist hafa þjóðareign. Hermann Gunnarsson var jarðsettur í síðustu viku, Ólafur Stefánsson, handboltakappi er enn í fullu fjöri og sama er með Ómar Ragnarsson. Rætt hefur verið um að þörf sé á að alfriða þann síðastnefnda, sérstaklega fyrir honum sjálfum.

Sagt er að Ómar sé ómissandi og vissulega er það svo. Á síðustu árum hefur hann reynst vera samviska þjóðar sem gengur þverlega á náttúruauðlindir sína, breytir og flytur fjöll.

Mér finnst eiginlega nóg að gera fyrir Ómar og hafna því algjörlega að hann tefli á tæpasta vað í ferðum sínum. Þversögnin í þessu hjá mér ef einfaldlega sú að hlutirnir líta oft út fyrir að vera miklu verri úr fjarlægð heldur en að þegar staðið er á vettvangi. Líklega er það þannig með þetta flugóhapp hans Ómars. 

 


mbl.is Lenti í íslenskum hálendisrudda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjokkerandi að Guðbjartur sé í sjokki

Menn fengu umvörpum sjokk þegar Guðbjartur Hannesson fyrrverandi velferðaráðherra, lofaði forstjóra Landsspítalans launahækkun svo sá síðarnefndi gæti stundað skurðlækningar á vinnutímanum, það er þeim tíma sem sá átti að sinna forstjórastörfum.

Afleiðingarnar urðu þær að allar starfsstéttir á Landspítalanum vildu launahækkun og enn er ekki ljóst hvernig málið endar. Ráðherratíð Guðbjarts er á enda. Við tekur sjokk ofan á annað sjokk. Fyrst maðurinn er svona einstaklega viðkvæmur ætti hann að leita sér aðstoðar á Landspítalanum, þar er gott starfsfólk sem fer ekki í manngreinarálit.

Já, ansi sniðugt, hjá Guðbjarti að tengja saman tannlækningar barna og veiðileyfagjaldið. Skrýtið að hann skuldi ekki tengja þær við sólskinsstundir í júní.

Það er hins vegar allt á sömu bókina lært hjá þessum fyrrverandi ráðherrum og þingmönnum vinstra liðsins. Þeir eru ekki fyrr komnir í stjórnarandstöðu er þeir hafa ráð undir rifi hverju. Verst er þá ef því fylgir sjokk. Persónulega finnst mér ákaflega sjokkerandi að Guðbjartur sé í sjokki. 


mbl.is „Ég er í sjokki“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sífellt væl út af veðrinu

SkagaströndÞetta er nú meiri vællinn í landsmönnum út af veðrinu. Sumarið er löngu komið og það er ekkert að veðri, jafnvel þó hann rigni og þoka sé niður á lægstu þúfur. Sumarið helst í hendur við stöðu landins á hnettinum. Hver í ósköpunum hefur sagt að hér eigi að vera sól og blíða upp á hvern einasta dag og hitinn hátt í þrjátíu gráður?

Sko, góður maður sagði að að fjöll væru ekki brött heldur mismunandi flöt. Sama er með veðrið. Það er ekkert til sem heitir gott eða vont veður. Veður er bara huglægt ástand. Ef lesandinn er sáttur við að vera Íslendingur eða búa hér á landi þá tekur hann veðrinu hverju sinni með því hugrekki sem honum býr í brjósti.

Sá sem ekki þolir við út af snjó, slagviðri, roki, slyddu og öllu þessu sem virðist hrjá kellingar af báðum kynjum, þá á hinn sami að flytjast til annarra landa. Nefna má vesturhluta Noregs eða Írlands, Færeyjar, Nýfundnalands eða staða sem bjóða upp á álíka veðráttu og stundum verður hér.

Svo er ekki úr vegi að blaðamenn og ljósvakavíkingar læsu ljóðið Storm eftir Hannes Hafstein. Eða glugguðu í sögur og sagnir forfeðra okkar sem tóku veðrinu með þeirri ró sem þörf er á. 

Og svo allir út, klæða sig eftir veðri og búst við því versta. 


mbl.is „Sumardagurinn fyrsti“ í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafir þú rangt fyrir þér verður það aldrei að eilífu bætt

Ólafur

Ásýnd fjölmargra bæa hefur breyst mikið á undanförnum árum. Nú sjá margir eftir gömlu og fallegum húsum sem vikið hafa fyrir sálarlausum steinkumböldum. Sama á við breytingar sem gerðar eru á landslagi.

Manngert landslag tekur nú víða yfir hið náttúrulega. Allt er hægt, tækniþekking og kraftur mannsins flytur fjöll í bókstaflegri merkingu. Og hann vílar ekki fyrir sér að hanna og útbúa risastór vötn, sökkva landi, vegum, bújörðum, sögu landsins og minningum.

Ólafur Sigurjónsson, þekktur ljósmyndari og flugmaður, ritar í Morgunblaðið í morgun eina þá málefnalegustu sem ég hef lesið í langan tíma. Hann ávarpar Harald Einarsson, hinn unga og efnilega þingmann Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi og spyr hann á hógværan hátt hvers vegna hann vilji virkja Urriðafoss í Þjórsá.

Haraldur mun hafa sagt þessi merkingaþrungnu orð: „Öll rök hníga að virkjun“. Það grípur Ólafur í Forsæti á lofti og spyr þingmanninn tuttugu spurninga sem tengjast beint og óbeint þessari virkjun og má af þeim ráða að Ólafur sé ekki sáttur við fyrirhugaða virkjun.

Þessar spurningar þykja mér hvað merkilegastar:

Haraldur

11. Veist þú hve miklu af jökulleir L.V. áætlar að dæla árlega upp á bakka Þjórsár?

12. Veist þú að sá sem teiknar Urriðafossstíflu telur sig vita meira um jarðfræði svæðisins en Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur sem varað hefur mjög við grunnvatnsbreytingum ef virkjað verður?

13. Veist þú að sömu aðilar eiga verkfræðistofuna sem teiknar virkjunina og að mestu, gerðu áhættumat fyrir Urriðafossvirkjun?

14. Veist þú að L.V. gerir ekki ráð fyrir stíflurofi við náttúruhamfarir svo sem jarðskjálfta nema hægt og rólega eins og þegar grefur úr vegslóða?

15. Veist þú hve miklu munar á vatnshæðarmælingu L.V. við Skálmholt ef stíflurof verður og svo mælingu óháðra aðila á sama efni?

16. Veist þú að L.V. telur okkur sem búum neðan við væntanlega stíflu öruggari ef virkjað verður, líka íbúa á Urriðafossi?

17. Veist þú að áætlað er að reisa varnargirðingar sem takmarka aðgengi að Þjórsá á vissum svæðum og einnig að setja á upp aðvörunarflautur?

18. Veist þú að meirihluti kjósenda í Flóahreppi skoraði árið 2008 á sveitarstjórn að standa við fyrstu bókun sína um að hafna Urriðafossvirkjun sökum náttúruspjalla?

19. Veist þú að 9 af hverjum 10 landeigendum austan Þjórsár á áhrifasvæði Urriðafossvirkjunar höfnuðu samningum við L.V. með undirskrift sinni?

20. Veist þú um niðurstöður rannsókna Margaret J.Filardo, Ph.D. á lífríki í Columbíaánni í U.S.A. Ána sem L.V. vitnar í um góðan árangur af seiðaveitum?

Virkjunin

Kæri þingmaður minn og sveitungi. Þú hefur nú titlað þig náttúruverndarsinna og nema í umhverfisverkfræði. Ég reikna því með að þú getir svarað flestum þessum spurningum mínum játandi. Ef ekki, skal ég fúslega hjálpa þér.

Í staðinn bið ég þig svo að fræða mig um hver þau eru, öll rök með virkjun sem þú talar um. Ég bið þig af einlægni sem upprennandi stjórnmálamann að hafa það í huga, sem aðskilur sjónarmið okkar enn, svo hafdjúp er á milli. Hafi ég rangt fyrir mér er enginn skaði skeður. En hafir þú rangt fyrir þér verður það aldrei bætt að eilífu.  

Ég varð eiginlega dolfallinn við lesturinn. Hafði greinilega ekki mikið kynnt mér fyrirhugaðar virkjanir í Þjórsá. Engri af ofangreindum spurningum get ég svarað og bíð því spenntur eftir svörunum frá Ólafi. Dreg þó þá ályktun af samhenginu að þau séu ekki neitt sérstaklega hagstæð virkun.

Hins vegar geri ég ráð fyrir að Haraldur Einarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, muni ekki skipta um skoðun hvað virkjun Urritaðfoss varðar. Hins vegar bíð ég engu spenntari eftir svörum hans en vona, rökræðunnar vegna, að hann hlaupist ekki frá spurningunum og svari út í pólitíska hött. 

Góðar myndir af því svæði sem fara mun undir vatn við virkjanir í Þjórsá er að finna á vef Kjartans Péeturs Sigurðssonar, http://photo.blog.is/blog/photo/entry/576326/. 


Misskilningurinn um aðildarumsóknina að ESB

„Ein mikilvægasta spurningin sem Íslendingar standa frammi fyrir er hvort aðild að ESB yrði okkur til góðs eða ekki. Verði sú spurning ekki útkljáð af þjóðinni sjálfri má gera ráð fyrir þrotlausum deilum um málið næstu ár og áratugi.

Aðildarviðræðum við ESB mun væntanlega ljúka innan árs. Við undirrituð viljum ljúka samningum við ESB, svo við getum sjálf tekið upplýsta ákvörðun um hvort aðild hentar okkar eða ekki. Við viljum ekki treysta þingmönnum einum fyrir því.

Við erum alls ekki öll sannfærð um að aðild að ESB henti okkur. En við viljum að þjóðin fái að ráða ferðinni. Við viljum klára dæmið.

Þetta segir í texta með undirskriftasöfnun þar sem hvatt er til að aðildarviðræðum við ESB verði haldið áfram en ekki hætt við þær eins og nýja ríkisstjórnin vill. Mér sýnist að það sé Illugi Jökulsson, rithöfundur, sem standi að þessari undirskriftasöfnun.

Hún byggist á misskilningi. Staðreyndin er einfaldlega sú að þegar sótt er um aðild að ESB er ekki ætlunin að standa í samningaviðræðum. Þess í stað er aðferðarfræðin sú að umsóknarríkið þarf að taka upp í lög, reglur og stjórnsýslu efni 35 tilgreindra kafla sem ESB tilgreinir einhliða. Ekkert annað er rætt.

Þegar kemur að viðræðum milli samninganefnda ESB og Íslands er spurt hver staðan sé í málefni einstaks kafla. Sé Ísland með önnur lög og reglur en ESB þarf að breyta þeim til samræmis, sama á við stjórnsýsluna. Kaflinn er opinn þangað til þessu er lokið, þ.e. breytingarnar hafa tekið gildi hér. Sama á við alla aðra kafla. Viðræðum um kafla lýkur með því að umsóknarríkið samþykkir kröfur ESB að öðrum kosti kemst það ekki í ESB.

Viðræðum er ekki lokið fyrr en Ísland hefur sýnt og sannað að það hefur tekið upp lög, reglur og þá stjórnsýslu sem ESB krefst. Stóridómurinn er ekki stjórnkerfi ESB í Brussel heldur álit allra ríkjanna í sambandinu, hvert ríki fer yfir niðurstöðuna og hana þarf að samþykkja á öllum þjóðþingunum.

Setjum sem svo að staðan sé núna sú að viðræðum um alla kafla samningsins sé lokið, samninganefnd ESB sé sátt og engra frekari breytinga sé þörf hér á landi. Þá er Ísland boðið velkomið í ESB. 

Um leið er ekkert um að kjósa, enginn samningur, nema því aðeins að kjósa eigi um að afturkalla eða breyta lögum, reglum og stjórnsýslu. 

Það sem næst kemst því að vera samningur eru minniháttar undanþágur sem ESB og þjóðþingin kunna að samþykkja að veita aðildarríkinu. Þess vegna heita þessar viðræður aðlögunarviðræður.

Og jafnframt er þessi undirrskriftasöfnun Illuga Jökulssonar byggð á röngum forsendum vegna þess að ekki er um að ræða samningaviðræður heldur einhliða aðgangskröfur ESB sem Ísland þarf að uppfylla. Það er ekki flóknara. 

Þetta er ástæðan fyrir því að í upphafi var það galin ráðstöfun að leggja það ekki undir dóm þjóðarinnar hvort farið yrði í aðlögunarviðræðurnar. Síðustu ríkisstjórn Íslands hentaði að segja ekki rétt frá eðli aðlögunarviðræðnanna heldur kalla þær samningaviðræður. Fjöldi Íslendinga heldur að þannig séu þessar viðræður því þeir vita ekki betur. 

 

 

Til nánari upplýsingar eru kaflarnir 35 sem áður var getið þessir:

1. Free movement of goods

2. Freedom of movement for workers

3. Right of establishment and freedom to provide services

4. Free movement of capital

5. Public procurement

6. Company law

7. Intellectual property law

8. Competition policy

9. Financial services

10. Information society and media

11. Agriculture

12. Food safety, veterinary and phytosanitary policy

13. Fisheries

14. Transport policy

15. Energy

16. Taxation

17. Economic and monetary policy

18. Statistics

19. Social policy and employment

20. Enterprise and industrial policy

21. Trans-European Networks

22. Regional policy and coordination of structural instruments

23. Judiciary and fundamental rights

24. Justice, freedom and security

25. Science and research

26. Education and culture

27. Environment

28. Consumer and health protection

29. Customs union

30. External relations

31. Foreign, security, defence policy

32. Financial control

33. Financial + budgetary provisions

34. Institutions

35. Other issues

 


Ótrúleg sinnaskipti ferðaþjónustunnar

„Við höfum horft til þess á undanförnum árum að hlutdeild hins opinbera í tekjum sem koma af erlendum ferðamönnum að hún fari af einhverju leiti í uppbygginguna til baka,“ segir Árni, en hann bendir á að ríkið fái miklar tekjur í neysluskatta af ferðamönnum og að slíkt geti farið í uppbyggingu ferðamannastaða.

Þetta er alveg ótrúleg frétt og óskiljanleg þversagnakennd afstaða Samtaka ferðaþjónustunnar samkvæmt viðtalinu við formanninn. Ríkisvaldið er eingöngu þiggjandi tekna af erlendum ferðamönnum og lætur sáralítið til baka í uppbyggingu í ferðaþjónustu. Í stað þess að krefjast þess að hluti af tekjunum gangi í slíka uppbyggingu er Samtök ferðaþjónustunnar búin að snarsnúast í áliti sínu á svokölluð glápgjöld og heimta „náttúrupassa“.

Þetta tekur auðvitað ekki nokkru tali að leggja skatt af þessu tagi á ferðafólk, erlent eða innlent. Þetta er ósanngjarn skattur og stendur ekkert undir þessu áferðarfallega nafni „nátttúrupassi“. Enn ótrúlegra er af ráðherra Sjálfstæðisflokksins skuli ljá máls á svona vitleysu.

Staðreyndin er einfaldlega sú að tekjur ríkisins af ferðaþjónustu eru gríðarlega miklar og til viðbótar má nefna virðisaukaskatt sem erlendir ferðamenn greiða til jafns við þá sem búa hér á landi allt árið.

Er til of mikils mælst að hluti af þessum tekjum gangi til uppbyggingar ferðaþjónustunnar og fyrirbyggjandi ráðstafana vegna ágangs ferðafólks?

Svo virðist vera og vegna þess að ríkisvaldið skammtar naumlega til þessara mála hafa þreytuleg Samtök ferðaþjónustunnar dottið niður á þá hugmynd að skattleggja alla ferðamenn og þá líklega útlendinga frekar en Íslendinga. Er þetta ekki versta leiðin til að afla fjár? Peningarnir eru fyrir hendi en ríkið vill ekki afhenda þá. 


mbl.is Útfærslur á náttúrupassa fyrir áramót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slappasti júní frá 1923

En hvernig er þetta þá með sólina í Reykjavík nú í júní?

Ég fletti upp í mínum dularfyllstu leyndarskrám og þá kom þetta í ljós:

Sólskinsstundir fyrstu 11 dagana í júní eru svo margar sem 15,4 í borginni. Þær hafa reyndar aldrei verið jafn fáar þessa daga frá því mælingar hófust 1923. Sem sagt eins lengi og elstu menn muna!

Þetta segir Sigurður Þór Guðjónsson, hinn glöggi veðurathugunarmaður. Hann veit meira um liðna veðurdaga en flestir veðurfræðingar. Og nú heldur hann því fram og vitnar í leyndar skrár að þessi júní sé sá slappasti sem dunið hefur yfir höfuðborgarbúa í 90 ár.

En hann nafni minn er djúpvitur og segir í lok pistilsins á blogginu sínu:

Í fyrsta lagi hefur verið bullandi sumarveður á landinu í júní og líka á suðurlandi þó það hafi verið betra fyrir norðan og austan. Í öðru lagi er ekki hægt að setja einfalt samasemmerki milli sumars og sólskins. Sumarveður sé bara sólskin og ekkert annað. Í þriðja lagi var maí sólríkur í Reykajvík. Það er ekki eins og ekki hafi sést neitt til sólar eftir að vetrinum lauk. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband