Ríkið stórgræðir á erlendum ferðamönnum

Með ályktun sinni er Ferðafélag Íslands komið inn á varhugaverða braut og hefur tekið afstöðu gegn ferðafrelsi og með því að loka einstökum stöðum og landsvæðum fyrir ferðafólki. 

Hingað til hefur Ferðafélag Íslands ekki látið umhverfismál sig miklu skipta heldur blóðmjólkað svæði eins og Landmannalaugar og gönguleiðina milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Nú blöskrar þessu félagi og hefur krafist þess  fá að skattleggja göngumenn á Laugaveginum, ekki aðeins sína eigin heldur aðra, og fá þessa peninga til að endurbæta þjónustuna. Samkvæmt framkvæmdastjóra félagsins eiga starfsmenn Rangárþings eða Umhverfisstofnunar að rukka göngumenn í Landmannalaugum eða Langadal um 5.000 krónur hvern. Þessa peninga vill framkvæmdastjórinn fá, 30 til 50 milljónir króna, til að leggja aukreitis í húsin sín í Laugum, Hrafntinnuskeri, Álftavatni, Botnum og Langadal. Svæðið, sem þjáist af átroðningi sem Ferðafélagið er að stórum hluta ábyrgt fyrir.

Hagsmunabarátta Ferðafélagsins er undarleg. Hún byggist á örlæti á annarra manna fé, það er ekki sannfærandi.

Á Íslandi er mikil náttúrufegurð, um það þarf ekki að deila og raunar er það ekki hluti af umræðuefninu. Vilji hins vegar Ferðafélagið taka þátt í rökræðunni þá byggist hún á þá eftirfarandi:

 

  1. Er það sóma þjóðarinnar samboðið að heimta gjald af útlendum ferðamönnum en hlífa innlendum?
  2. Fornum réttindum ferðafólks er kastað fyrir róða en í þeim er gert ráð fyrir frjálsri för um land.
  3. Er það réttlætanlegt að sá sem mest græðir á ferðaþjónustu og erlendum ferðamönnum skuli ekki dreginn til ábyrgðar, en það er ríkissjóður Íslands. Aðeins um 500 milljónir eru til skiptana úr þeim sjóði árlega. Hingað koma þó nærri 700.000 ferðamenn og greiða fjölbreyttan skatta og gjöld af neyslu sinni og að auki fær ríkissjóður miklar tekjur af ferðaþjónustunni.
  4. Engar athuganir hafa verið gerðar á því hvað þurfi að gera fyrir ofsetna ferðamannastaði eða hvernig eigi að dreifa álaginu. 
  5. Ferðaþjónustuaðilar hafa glapist til að auglýsa mest örfáa staði á landinu og þeirra á meðal eru Landmannalaugar og Þingvellir og eðlilega vilja útlendingar koma á þangið. Aðrir staðir líða fyrir þetta enda eru náttúrfegurð miklu víðar en á þessum tveim.
  6. Hvernig á að úthluta 1500 milljónum króna? Umræða um slíkt hefur ekki farið fram.
  7. Þegar meintir landeigendur geta lokað heilu landssvæðunum, fjöllum jafnt sem litlum og fögrum stöðum þá er illt í efni og raunar út um hefðbundna ferðamennsku hér á landi. Þurfum við að sæta því í framtíðinni að rukkað sé fyrir aðgang að Dverghömrum, Kirkjugólfi við Kirkjubæjarklaustur, Hjörleifshöfða svo tæmi séu tekin um litla staði sem eru afar sérstæðir?

 

Sumir halda því fram að þeir sem valda átroðningum hljóti að þurfa að borga fyrir hann. Með sömu rökum er líklega næst að rukka bifreiðaeigandann fyrir notkun á vegum, nemandann fyrir skólasókn sína, sjúklinginn fyrir legudaga á spítölum og samskipti við lækna og svona má lengi telja. 

Þjóðin verður að skoða þessi áferðafallegu hugtök eins og „náttúrupassa“, „komugjald“, „umhverfisgjald“ með gagnrýnu hugarfari. Fyrir alla muni, ekki afturkalla á einu bretti frelsi fólks til aksturs um landið, gönguferðir, reiðmennsku fyrir þá sök eina að ríkisvaldið telur sig ekki hafa efni á að leggja fram eðlilegan hluta af tekjum af ferðaþjónustu og erlendum ferðamönnum.

Ríkisvaldið tekur við tekjum af ferðamönnum. Það er ekki nema sjálfsagt að það leggi hluta af því til uppbyggingar ferðamannastaða, lagfæringar vegna ágangs og fyrirbyggjandi ráðstafanir í umhverfismálum.

Komum í veg fyrir stórslys. Fyrirtæki eins og Ferðafélag Íslands getur einfaldlega hækkað verð á ferðum sínum um þau svæði sem sæta átroðningi. Fyrir vikið mun fækka í þeim og það hugsanlega geta lagt til fjármagn í uppbyggingu sem það gerir ekki.


mbl.is Gjaldtaka við komu og brottför
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband