Bloggfærslur mánaðarins, júní 2013

Fólk sem velur fyrir aðra

Góður vinur minn segist vera alkóhólisti og hætti að drekka fyrir mörgum árum. Hann hélt einu sinni sem oftar upp á afmæli sitt og bauð upp á ómælt áfengi og hvort sem það var ástæðan eða eitthvað annað þá var afskaplega mikið fjör í afmælisveislunni.

Ég spurði hann hvers vegna í ósköpunum hann byði upp á áfengi. Hann svaraði stuttlega eitthvað á þá leið að gestir hans velji sjálfir. Það sé ekkert að því að bjóða upp á áfengi þó svo að hann kjósi að neyta þess ekki.

Mér fannst þetta gott svar. Yfirleitt er það þannig að maður velur sjálfur, hver er sinnar gæfu smiður. Um leið hefði mér fundist ákaflega viðeigandi að geta fengið eins og einn bjór á fótboltaleik. Á mót kemur að þá yrði ég líklega að ganga heim. Og ég vel bílinn en sleppi bjórnum.

Svo eru þeir til sem vilja velja fyrir mig. Mikið afskaplega verð ég fljótt leiður á slíku fólki. 


mbl.is Á móti áfengi á kappleikjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umhverfismál að mati fyrrum forstjóra OR

Guðmundur segir að umhverfisumræða á Íslandi sé á villigötum. Umhverfisumræðan eigi að snúast um uppblástur, sorpmál, fráveitu og hvernig bílaflotinn sé samsettur, og það í þessari röð eftir mikilvægi.

Þetta er skilgreining Guðmundar Þóroddssonar, fyrrverandi forstjóra Orkuveitunnar, og er líklega tímamótayfirlýsing fyrir þá sem áhuga hafa á umhverfismálum og náttúruvernd. Og hann heldur áfram viðtali í dag á visir.is: 

En að vistvæn orkuframleiðsla, sem aðrar þjóðir öfunda okkur af, sé aðal umhverfismálið á Íslandi er fáránlegt. Í samhengi við umræðu um loftslagsmál í heiminum þá er það ekki gott að koma óorði á jarðvarmavirkjanir, af því mönnum er illa við álver. Jarðhitinn er nú einu sinni ein af fáum raunhæfum lausnum við loftslagsvanda heimsins.

Sem sagt, engu skiptir hvernig orkan er fengin úr jörðu eða hvernig farið er með landið. Er þetta ekki ástæðan fyrir því hvernig ástandið er nú við Kolviðarhól og nágrenni. Þar er hin svokallaða Hellisheiðarvirkjum og út frá henni teygja sig pípur í tugum kílómetra, lýti á landslaginu eins og raunar allt sem tengist virkjuninni.

Þetta má ekki gagnrýna að mati forstjórans sem stóra ábyrgð bar á því að fyrirtæki hvarf frá því að vera þjónustustofnun og tók um hernað gegn landinu, skemmdi orkulindina og ætlar ekki að láta þar við sitja.

 


ESB vill ekki þjóðaratkvæðagreiðslu um umsóknina

Evrópusambandið tekur því ekki með léttúð að ríki sæki um aðild án þess að fullur hugur fylgi máli. Svo versnar enn í því ef ríkið ætlar að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildina og ljóst að hún verði kolfelld.

Þetta veit Össur Skarphéðinsson, fyrrum utanríkisráðherra, og núverandi ríkisstjórn veit af því líka. Þetta er ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin virðist vera að heykjast á því að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildina að ESB.

Raunar er það svo að núverandi utanríkisráðherra og forsætisráðherra, hefur verið gert það fyllilega ljóst að Evrópusambandið vilji ekki þjóðaratkvæðagreiðslu. Verði ríkisstjórn og þing að vilja þess hefur sambandið lofað því að láta það ekki leiðindi sín og sárindi út af umsókninni bitna á viðskiptahagsmunum landsins.

Raunar styðst þetta við það sem forsetinn sagði í ávarpi sínu við setninu Alþingis að það væri hvorki vilja né getu hjá ESB að klára viðræðurnar. Það sem forsetinn lét ósagt, hvort sem hann vissi eða ekki, að íslensk stjórnvöld hafa verið beðin um að láta kyrrt liggja, draga einfaldlega umsóknina til baka án þjóðaratkvæðagreiðslu. 

ESB á í verulegum vanda og þó ýmsir haldi að litla Íslands skipti engu í heimsmálunum er það ekki svo. Almenningsálitið í Evrópu kann að taka mið af því sem gerist hér á Íslandi og ef til vill er stóri vandi ESB í Bretlandi þar sem mikill áhugi er fyrir úrsögn. Þetta og meira til styður þá skoðun sem nú er uppi í Brussel að hljótt þurfi að vera um aðildarumsókn Íslendinga. 


mbl.is Voru fyrri til að leggja fram tillöguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leikur FH og KR var frábær skemmtun

Þegar tvö bestu knattspyrnulið landsins eigast við er ástæða til að borga sig inn á völlinn. Jafnvel að fara til Hafnafjarðar og láta sig hafa það að standa í tuttugu mínútur í biðröð til að fá miða ... FH-ingar voru gjörsamlega óviðbúnir mikilli aðsókn og önnuðu vart eftirspurn eftir miðum. Þrjár stelpur í einum skúr með einn posa er ekki til að auðvelda aðgang.

Hvað um það, leikurinn var stórskemmtilegur. Markvörður FH fékk réttilega rautt spjald eftir að Baldur KR-ingur Sigurðsson var í þann mund að komast framhjá honum og hefði væntanlega skorað. Bjarni Guðjónsson skoraði úr vítaspyrnu. Baldur skoraði svo mark örskömmu síðar og eiginlega hélt maður þá að leikurinn væri búinn. Það var nú örðu nær.

FH-ingar eru með frábært lið. Þeir leika vel saman og hefðu þeir náð að stýra liði sínu skynsamlegar hefðu þeir ábyggilega náð að halda tvö-tvö jafnteflinu. En þeir gleymdu sér, vildu, manni færri, eðlilega fleiri mörk en fengu þess í stað tvö á sig.

Bjarni Guðjónsson er límið í KR liðinu. Sendingarnar hjá honum eru stórkostlegar og hann virðist sjá tvær eða þrjár sendingar fram í tímann. Verst er að hann er hægfara, þyrfti að létta sig. 

KR-ingar nýta sér ekki nógu vel breidd vallarins, spilið gengur ekki alltaf nógu vel upp. Engu að síður eru þeir frábærir. Þeir hefðu getað skorað eitt eða tvö til viðbótar, svo vel stóðu þeir sig.

Leikur FH og KR var frábær skemmtun. Annað hvort þessara liða verður Íslandsmeistari nema Valsarar haldi áfram á sinni sigurbraut. 


mbl.is Baldur samur við sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hryðjurverk Orkuveitunnar gegn landinu

Höfuðborgarbúar og raunar íbúar annarra sveitarfélaga treystu Orkuveitu Reyjavíkur. Með sérfræðiþekkingu fyrirtækisins var ráðist í svokallaða Heillisheiðarvirkjun og hún reist á Kolviðarhóli fyrir neðan Hellisskarð. Leiðslur voru lagðar hingað og þangað um svæðið, borað á ólíklegustu stöðum, jafnvel upp á Stóra-Skarðsmýrarfjalli og ætlunin var að fara inn í Innstadal.

Nú kemur í ljós að öll þekking fyrirtækisins var byggð á misskilningi, þekkingarleysi eða kunnáttuleysi. Ekki virðist vera nægileg orka í jörðinni á þessum slóðum. Þá er gripið til þess ráðs að leggja enn lengri leiðslu og bera þannig í bætiflákann og safna gufu frá Hverahlíð. Skyldi það svæði vera rannsakað á sama hátt og hin?

Lítum síðan á það sem á yfirborðinu stendur. Þar hefur verið farið út í gríðarlegar byggingar sem síst af öllu er hægt að segja að falli í umhverfið. Reist var bygging sem hefði sómt sér vel á hvaða flugvelli sem er enda líkist hún meira flugstöð en stöðvarhúsi fyrir gufuaflsvirkjun.

Landslag á Kolviðarhóli, Hellisskarði, Hellisheiði, Skarðsmýrarfjalli og víðar hefur verið stórskemmt. Allt fyrir þau mistök að halda að í jörðu niðri væri næg orka til óþekktrar framtíðar.

Auðvitað er þetta ekkert annað en skandall og hryðjuverkin Okruveitunnar gegn náttúru landsins eru ófyrirgefanleg. 


mbl.is Útlit fyrir frekari samdrátt á Hellisheiði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frömdu vopnað rán ...

Búrkuklæddir karlmenn ruddust inn í búðina og frömdu vopnað rán. 

Jamm og já. Vondu kallarnir „frömdu vopnað rán“. Kunna blaðamenn ekki að orða þetta betur? 


mbl.is Lenti í vopnuðu ráni í London
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjum er um að kenna?

Forseta lýðveldisins, Ólafi Ragnari Grímssyni, varð tíðrætt um Evrópusambandið í ræðu sinni við setningu Alþingis í gær sem kunnugt er og hafa ekki sízt orð hans um að sambandinu lægi ekki á að ljúka umsóknarferlinu gagnvart Íslandi verið á milli tannanna á einhverjum síðan. Tveir valinkunnir kratar kusu í það minnsta að skilja ummæli forsetans sem svo að Evrópusambandið;vildi ekki Íslendinga í sambandið.

Þetta segir Hjörtur J. Guðmundsson, blaðamaður Morgunblaðsins í pistli í blaðinu í morgun. Og hann nafngreinir þessa krata sem eru Össur Skarphéðinsson, alþingismaður, og Karl Th. Birgisson, ritstjóri. Hjörtur segir:

Forsetinn gefur síðan skýringu á þessu. Evrópusambandið vildi að hans mati ógjarnan að Íslendingar felldu inngöngu í sambandið í þjóðaratkvæði líkt og Norðmenn hefðu áður gert í tvígang. Það yrði áfall fyrir ráðamenn í Brussel. Karl kom reyndar aðeins inn á þetta og hæddist að þeirri hugmynd að það yrði á einhvern hátt slæmt fyrir Evrópusambandið ef það yrði fyrir „höfnun frá stórríkinu Íslandi“.

Auðvitað er þetta rétt skýring hjá Hirti. Sem fyrr eru nýbakaðir stjórnarandstæðingar heldur snöggir í árásum sínum sem raunar hlýtur að vera óþægilegt þegar þær enda með því að öll skot geiga.

Ljóst má vera af gangi aðlögunarviðræðnanna að einhverjir hafa dregið lappirnar og fyrst það var ekki síðasta ríkisstjórn þá er bara einn aðili eftir sem kenna má um.

 


Ássskarð og Útilabbshaus

Vandinn með samsett orð er dálítill. Svartahnúksfjöll er mikill fjallabálkur austan við Strút, norðvestan við Mælifellssand. Hvernig skyldi nú manni lánast að segja frá án þess að misbjóða einhverjum, tungumálinu eða skilningi.

Er fallbeygingin þessi? 

Svartahnúksfjöll, Svartahnúksfjöll, Svarthnúksfjöllum, Svartahnúksfjalla

... eða þessi? 

Svartahnúksfjöll, Svörtuhnúksfjöll, Svörtuhnúksfjöllum, Svörtuhnúksfjalla. 

Hvert er eignarfallið af örnefninu Ásskarð? Er það Ásskarðs eða Ássskarðs (Ás, Ás, Ási, Áss)?

Örnefnið Haki er til við Tindfjallajökul og þar er líka Hakaskarð. Þolfallið er auðvitað Hakaskarð enda er Hökuskarð allt annar handleggur ef svo má segja ...

Í Goðalandi, sunnan Þórsmerkur og Krossár, er fallegt fjall sem nefnist Útigönguhöfðu. Margir missegja Útigangshöfði. Er einhver munur á þessum tveimur nöfnum. Nú ganga fæstir á fjöll heldur labba upp á Heklu, Esju eða jafnvel Öræfajökul. Væntanlega mun næsta kynslóð fjallafólks tala um Útilabbshöfða eða Útilabbshaus og labbleiðir. Labb rímar við rabb og það er vel. 

 


mbl.is Skriður í Köldukinn eða Kaldakinn?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttin er án efa röng

Fréttin er vafalaust röng. Vélsleðamennirnir sem eru á leið í Fimmvörðuskála eru ekki þeir sem fundur fólkið í Baldvinsskála. Leiðin yfir Mýrdalsjökul liggur ekki framhjá Baldvinsskála eins og fram kemur.

Að öllum líkindum hafa björgunarsveitarmenn ekið á bílum upp á Hálsinn frá Skógum. Vegurinn endar við nýja Baldvinsskála. Þaðan er ófært á vélsleðum upp að Fimmvörðuhálsi vegna snjóleysis, bratta og gilja. Því myndu vélsleðamenn þurfa að fara nær sömu leið til baka og taka stóran krók til að komast í námunda við Fimmvörðuskála og raunar varla komast upp á vélsleðum upp á hrygginn þar sem skálinn stendur.

Ég er nær viss um að fleiri ferðamenn eru í Fimmvörðuskála en sá ítalski. Skil ekkert í þessu ferðalagi björgunarsveitamanna að „bjarga“ ferðamanni sem hefst við í hlýjum skála, hefur nóg vatn og nóg að borða. Sama er með fólkið í Baldvinsskála. Skálinn er hlýr og góður.


mbl.is Fundu fleira ferðafólk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tóm vitleysa að sækja ferðamann í Fimmvörðuskála

Suðaustanáttin getur verið ákaflega varasöm á Fimmvörðuhálsi. Oft er hún leiðinleg en stundum getur hún verið afar ströng og erfið.

Göngumaður í Fimmvörðuskála Útivistar er á góðum stað ef hann er heill heilsu er engin ástæða til að sækja hann. Veðrinu mun slota á morgun eða næstu daga. Á meðan getur hann kveikt upp, hitað vatn. Því til viðbótar er sími og talstöð í skálanum. Þarna er líka þurrmatur sem göngufólk hefur skilið eftir og því ætti hann að geta nærst vilji svo óheppilega til að hann sé matarlaus. 

Að mínu mati er tóm vitleysa að senda vélsleðamenn í snælduvitlausu veðri á Mýrdalsjökul til að sækja manninn. Jafnvitlaust er að sækja hann á bíl. Ófært er að Fimmvörðuskála á bílum og líklega er líka ófært að skálanum á vélsleðum. Í báðum tilvikum þurfa björgunarmenn að ganga talsverða leið frá farartækjum sínum. Þessu til viðbótar eru miklir vatnavextir á Hálsinum. Eflaust hefur myndast lítið stöðuvatn norðan við Fimmvörðuhrygg og úr því rennur straumþungur lækur ofan í Kolbeinsskarð. Það er því meira en að segja það að senda björgunarsveit á Hálsinn.

Ferðamaður sem er í góðu húsi og hlýju, með allt til alls, er ekki í neinni hættu staddur. 

 


mbl.is Sækja göngumann á Fimmvörðuháls
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband