Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2013
Ætlast er til að fólk noti strætó eða hjól - ekki bíl
10.1.2013 | 10:14
Í Morgunblaðinu í morgun er frétt um nýbyggingu sem verið er að hanna við Brautarholt sjö og ætluð er námsmönnum.
Athygli nágranna beinist að því að engin bílastæði eru ætluð fyrir íbúa nýja hússins. Í fréttinni segir:
Ætlast er til að stúdentar noti fyrst og fremst almenningssamgöngur og hjól sem ferðamáta, samkvæmt tillögunni. Þetta er tækifæri til að snúa við þeirri þróun þar sem gert er ráð fyrir að fólk eigi bíla, segir Margrét Leifsdóttir, arkitekt og verkefnastjóri deiliskipulagsins.
Þvílíkt bull sem þetta er. Þarna á sem sagt fólk að búa sem ekki á bíl og mun aldrei eignast meðan á dvöl þeirra stendur þarna. Skiptir engu þótt það eignist barn og þurfi leikskólapláss í öðrum bæjarhluta eins og svo oft gerist. Ekki er ætlast til að fólk utan af landi búi þarna en nokkuð algengt er að það eigi bíl.
Sem sagt, nota á tækifærið til að þvinga fullorðið fólk til að eiga ekki bíl og nota strætó eða reiðhjól. Þetta er ágætt viðhorf þangað til að inn í þetta hús flytur fólk sem síðar kann að vilja eiga bíl af ástæðum sem engum koma við nema þeim sjálfum. Hvar er þá bílastæðið? Jú, þá verða enn færri um fá bílastæði á þessum slóðum.
Staðreyndin er ósköp ljós. Hér er verið að hanna húsnæði og reynt að spara byggingarkostnað, hámarka nýtinguna með því að hafa engin bílastæði. Um leið er verið að gera tilraun sem dæmd er til að mistakast og þess í stað verður skortur á bílastæðum þarna rétt eins og í gömlu hverjum Reykjavíkur sem voru byggð á þeim tíma er bíll var næstum því munaðarvara.
Annars hélt ég að það væri skilyrði að hverri íbúð sem byggð væri í Reykjavík fylgdi að minnsta kosti eitt bílastæði. Ætla borgaryfirvöld að samþykkja svona vitleysu?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ótrúlega léleg samningatækni
9.1.2013 | 17:11
Það hefur alltaf legið fyrir að erfiðistu kaflarnir í aðlögunarviðræðunum við ESB væru sjávarútvegs- og landbúnaðarmál. Þeim hefur lengi verið skotið á frest.
Þeir sem einhverja þekkingu hafa á samningaviðræðum vita að það þjónar engum tilgangi að fresta viðræðum um ágreiningsmálin. Nú hefur viðræðum um fimmtán köflum verið lokað. Af hverju var þá ekki tekið til við að ræða um sjávarútveginn fyrr?
Ástæðan er einföld og Ragnheiður Elín Árnadóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur rétt fyrir sér. Tilgangurinn er að nota þá sem skiptimynt og í þokkabót að láta nýja ríkisstjórn um að taka á vandanum vegna þess að sú núverandi getur það ekki.
![]() |
Erfiðu kaflarnir ekki skiptimynt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Svisslendingurinn er ekki kínverskur
9.1.2013 | 11:38
Eins gott að Sviss er ekki í Kína og Tomas Seiz ekki Kínverji. Annars hefði nú allt sprungið í loft upp í Eyjafirði, ríkisstjórnin sett nefnd í málið, þjóðlegir Íslendingar skrifað lærðar greinar um það hversu hættulegt það er að útlendingar eignist eitthvað hér á landi.
Tómas er hins vegar ekki kínverskur, hann ásælist ekki helstu þjóðargersemar Íslendinga eins og Grímsstaði á Fjöllum. Bara einhverja ómerkilegar eignir við Eyjafjörð. Það er nú allt í lagi.
Svona þversagnakenndir og þverir erum við Íslendingar að einum útlendingi leyfist það sem öðrum er bannað.
![]() |
800 milljóna fjárfesting |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Landsbyggðin mætir alltaf afgangi
9.1.2013 | 11:32
Öllu skal nú breytt og ekkert vera eins og fyrrum. Forn og góð heiti eins og hreppar þykja ekki lengur nógu fín. Miklu virðulegra að heita sveitarfélag, byggð eða eitthvað álíka. Sýslur eru að hverfa sem og sýslumenn. Allt miðast við miðstýringuna úr Reykjavík.
Miðstýringin er orðin miklu auðveldari en áður fyrr. Nú er samgöngukerfið orðið svo gott að engu munar að aka frá Akureyri eða Höfn til Reykjavíkur.
Lögreglumenn eiga að vera í Reykjavík eða búsettir í stærri bæjum á landsbyggðinni. Sé þörf á fleiri lögreglumönnum vegna einhverra uppákoma úti á landi eru lögreglumenn sendir frá Reykjavík og rukkað fyrir þjónustuna.
Heilbrigðiskerfið miðast smám saman við Reykjavík enda er réttlæting fyrir nýju sjúkrahúsbyggingunni sú að helst starfi enginn læknir á landsbyggðinni og þar skuli aðeins sinnt þjónustu í gegnum Skype.
Vegakerfið er þannig að ekki er hugað að fólki heldur fjölda. Þannig er viðhorfið slíkt að ekki þurfi að ryðja snjó af vegum í Strandasýslu vegna þess að þar búa svo fáir. Engin ástæða er talin á því að gera göngu í gegnum Súðavíkurhlíð af því að ... tja, bara. Þess í stað er farið í Vaðlaheiðargöng þó þar þörfin þar sé ekki nánda nærri eins brýn eins og fyrir Súðvíkinga. Eða hvað með ný göng undir Oddskarð?
Landsbyggðin á bara að mæta afgangi. Engu skiptir að við búum í stóru landi. Þess vegna er líklega farsælast, fyrst við erum svona blönk, að allir flytjist á suðvesturhornið.
![]() |
Staðsetning sýslumanna og lögreglustjóra ákveðin síðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27 aðildarsamningar að ESB eru ekki til
8.1.2013 | 23:57
Fréttin um að írski aðstoðarforsætisráðherrann Ean Gilmore setur niður í við Breta er dálítið athyglisverð. Sérstaklega eftirfarandi hluti úr viðtalinu sem mbl.is birtir:
Forseti Evrópusambandsins, Herman Van Rompuy, sem mun heimsækja Dublin á morgun, hefur sagt Bretum að þeir geti ekki bara valið það besta út úr samstarfinu innan ESB.
Gilmore ítrekaði að það sama yrði yfir öll aðildarríki að ganga.
Þetta mun ekki ganga upp ef við höfum 26 til 27 mismunandi útgáfur af aðild, sagði hann.
Þetta er nú í hnotskurn ástæðan fyrir því að við inngöngu Íslands í Evrópusambandið farið í aðlögunarviðræður, ekki samningaviðræður. Verið er að ganga úr skugga um að sú útgáfa að aðild Íslands að ESB verði eins og hinar tuttugu og sjö útgáfurnar.
Segi einhver að verið sé að semja við ESB um aðild þá er sá hinn sami að fara með rangt mál, annað hvort veit hann ekki betur eða hann einfaldlega skrökvar.
Staðreyndin er einfaldlega sú að það er bara einn Lissabonsáttmáli og undir allt í honum undirgangast sambandsríki ESB.
Einfaldara getur það ekki verið. Að minnsta kosti ætlar ESB ekki að flækja málin út af umsókn Íslands.
![]() |
Geta ekki valið það besta úr ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hryðjuverk við Kolviðarhól en umhverfisvernd í Heiðmörk ...
8.1.2013 | 15:25
Minnt skal á, að Heiðmörk er fjölsóttasta útivistarsvæði höfuðborgarbúa skv. könnunum og nemur virði Heiðmerkur til útivistar margföldu virði vatnsbóla í Heiðmörk. Slíkar hömlur á aðgengi almennings að Heiðmörk myndu einnig mismuna íbúum gróflega, því börn, eldri borgarar og öryrkjar munu illa geta nýtt sér mörkina til náttúruskoðunar, útivistar og heilsubótar, ef þeim verður meinað að aka þangað inn í bíl.
Þetta er hárrétt hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur og í raun ótrúlegt að Orkuveitan skuli ganga fram með þvílíku offorsi sem hún gerir. Skýtur þar skökku við miðað við þau umhverfishryðjuverk sem fyrirtækið hefur staðið fyrir á Kolviðarhól og Hellisheiði.
Fyrirtækinu væri nær að krefjast aðgerða sem koma í veg fyrir hugsanleg mengunarslys í Heiðmörk og afleiðingum þeirra. Það væri hægt að gera með margvíslegum fyrirbyggjandi aðgerðum. Hitt er ekki leiðin að loka Heiðmörk fyrir almenningi. Svæðið hefur þegar öðlast vinsældir og það gengur ekki að Orkuveitan komi fram við almenning eins og við þá örfáu bústaðaeigendur sem eiga bústaði við Elliðavatn og Helluvatn.
Sannast sagna er Heiðmörk eina svæði á suðvesturlandi þar sem allir geta nýtt sér á enhvern hátt. Þar sér maður fjölskyldur á göngu eða í lautarferð, eldri borgara og fólk á besta aldri í skemmtigöngu og alls ekki óalgengt að sjá þarna fólk í hjólastól.
![]() |
Vill áfram leyfa umferð bíla í Heiðmörk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Slúður er slúður
8.1.2013 | 11:55
Dag einn hitti Sókrates kunningja sinn sem hljóp til hans æstur í skapi og mælti Sókrates, veistu hvað ég heyrði um einn af nemendum þínum? "Bíddu augnablik," svaraði Sókrates. Áður en þú segir mér það þá vil ég að þú standist smá próf. Það heitir þreföld sía.Þreföld sía?Það er rétt," svaraði Sókrates, áður en þú talar við mig um nemanda minn, þá skulum við taka augnablik til að sía það sem þú ert að fara að segja. Fyrsta sían er Sannleikur. Ertu alveg viss um að það sem þú ert að segja mér sé satt?Nei," svaraði kunninginn, "í raun heyrði ég bara um það og ...Allt í lagi, sagði Sókrates. "Svo þú veist í raun ekki hvort það er satt eða ekki. Nú skulum við reyna síu númer tvö, Gæska. Ertu að fara að segja mér eitthvað jákvætt eða gott um nemanda minn?Nei, þvert á móti ...Svo, hélt Sókrates áfram, þú vilt segja mér eitthvað slæmt um hann, jafnvel þó þú sért ekki viss um að það er satt?Maðurinn hikaði, dálítið vandræðalegur.Sókrates hélt áfram. Þú gætir enn staðist prófið þó, vegna þess að það er þriðja sían. Sían á Notagildi. Mun það sem þú vilt segja mér um nemanda minn verða gagnlegt mér?Nei, eiginlega ekki.Jæja, sagði Sókrates "ef það sem þú vilt segja mér er hvorki sannleikur né gott og ekki einu sinni gagnlegt mér, hvers vegna ertu yfirhöfuð að segja mér það?
Þessa ágætu dæmisögu fann ég á ólíklegasta stað, það er á athugasemdum við pistil Egils Helgasonar á vefmiðlunum Eyjan. Efni pistilsins skiptir litlu hér en sagan er góð. Sá sem ber söguna fram heitir Indriði Þröstur Gunnlaugsson sem sagður er virkur í athugasemdum, hvað svo sem það nú þýðir.
Heimskautafarinn má safna fé, ekki kirkjan ...
8.1.2013 | 10:54
Sumir hafa atvinnu af því að snúa hlutunum á hvolf, segja að við þurfum að hugsa út fyrir rammann. Aðrir misskilja þetta og halda að allt eigi að vera á hvolfi, það sé hin eina og sanna náttúruregla. Svo eru þeir til sem eru ekki betur af guði gerðir en að þeir halda að stundum sé eðlilegt að upp sé niður.
Sigurður Bogi Sævarsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, skrifar stundum beitta pistla í blað sitt. Það gerir hann í morgun. Umfjöllunarefni hans er viljayfirlýsing biskupsins yfir Íslandi að safna eigi fyrir tækjakaupum á Landspítalanum og gagnrýni stjórnmálamanna á þessa fyrirætlan, þeirra sem sá allt því til foráttu að kirkjan safni. Þeir eru hreinlega á hvolfi út af þessu.
Hann segir svo eftirminnilega í pistlinum:
Síðustu vikur hefur þjóðin fylgst með hetjulegri framgöngu ungrar konu, Vilborgar Önnu Gissurardóttur, sem arkar á ísnum og verður komin á núllpunkt suðurpólsins eftir nokkra daga, ef vel gengur.
Og takið eftir; tilgangur Vilborgar með ferðinni er öðrum þræði sá að safna áheitum fyrir Líf, styrktarfélag kvennadeildar Landspítalans, en þar á bæ þarf úr mörgu bæta. Því hljóta stjórnmálamenn, sem vilja láta taka sig alvarlega og vera samkvæmir sjálfum sér, að gagnrýna hinn háskalega heimskautaleiðangur og tilganginn sem fyrir Vilborgu vakir.
Nema því aðeins að þeir - eins og víðsýnt fólk gerir almennt - viðurkenni að jafnan einu má gilda hvaðan gott kemur; það er frá kirkjunni eða úr öðrum ranni eftir atvikum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þyrnirós svaf í heila öld - líka Katla
7.1.2013 | 17:06
Mikil eru þau vonbrigði valinkunnra sem teljast vera spámannlega vaxnir sem og okkar hinna sem hlustum með athygli á allar spárnar. Mýrdalsjökull er alls ekkert að fara að gjósa. Katla er sofandi hefur hefur nær sofið jafnlengi og Þyrnirós. Og bráðum verður sungið um Kötlu eins og hina fögru Þyrnirós.
Þetta gengur auðvitað ekki og ég hef sent inn formlega kvörtun til hins draumspaka manns sem hér hefur oft verið vitnað til í þessum pistlum. Ekki stendur steinn yfir steini í spádómum hans. Í raun ætti landið að loga í eldgosum en þess í stað eru kjörin öll svo kyrr að með ólíkindum þykir.
Jafnvel elstu menn muna ekki annað eins.
En svo heyrist hvíslað svo undurlágt að vart heyrist: Er þetta ekki bara lognið fyrir storminn. Og milli hrauns og húðar hríslast kaldur straumur (eins og orðtakavillti maður sagði). Ef til vill á maður bara að flytjast til útlandsins, svona í öryggisskyni.
Eða hvað?
![]() |
Skjálftavirkni með minnsta móti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Loksins, loksins skipulag fyrir Heiðmörk
7.1.2013 | 12:00
Heiðmörk er perla, alltof lítið notuð. Ég hef oft farið þangað og gengið um en raunar oftar farið til að stunda hlaup. Hitti þar marga hlaupara og jafnvel kemur fyrir að maður rekst á fólk sem æfir sig á hjólum. Það er bara gaman. Hitt er verra að rekast á hestamenn á göngustígum. Það er eflaust jafnslæmt og að hitta á mann á mótorhjóli sem gerist þó afar sjaldan.
Göngustígar eru ekki fyrir hesta. Þetta tvennt getur aldrei farið saman, að minnst kosti ekki í Heiðmörk. Hestarnir eyðileggja göngustíga, róta þeim upp og gera vonda til göngu. Þeir skreppa ekki afsíðis þegar þeim er mál heldur skíta feimnislaust þar sem þeir eru, hvort heldur gangandi eða hlaupandi. Margir skemmtilegir og þröngir göngustígar liðast um Heiðmörk. Þar er afar ógeðfellt að mæta hrossi og eflaust er það enn v erra fyrir greyið dýrið að mæta sveittum hlaupara. Hlýtur að kalla á áfallahjálp fyrir það.
Heiðmörkin hefur margt þurft að þola og sérstaklega lélegt viðhald á vegum. Held að það væri ein mesta bót í umhverfismálum ef vegir þar væru malbikaðir.
Ég hef áður skrifað um Heimörk. Í fyrrasumar var auglýst deiliskipulagstillaga um svæðið en þó ég leitaði á vefum Reykjavíkurborgar fann ég ekkert um deiliskipulagið. Líklega segir það meira um mig en borgina. Ég tók mið þá til og bjó til lista yfir það sem þarf að gera í Heimörk. hann er svona
- Malbika vegi svo notendur þessarar stórkostlegu útivistarparadísar þurfi ekki að nýta hana í rykmekki.
- Sett verði upp fleiri borð og bekkir
- Göngustígar verði endurbættir
- Göngustígum verði fjölgað
- Kortaskilti verði bætt og þeim fjölgað
- Settir verði upp vegprestar með vegalengdum milli staða
- Komið verði upp góðri aðstöðu fyrir veiðimenn
- Brúin við Helluvatn verði endurnýjuð
- Salernisaðstaðan verði stórbætt
- Vatnspóstar verði settir upp á gönguleiðum
Kannski er einhver von með nýja deiliskipulaginu. Ég ætla alla vega að reyna að finna það og lesa.
![]() |
Allir vegir í Heiðmörk malbikaðir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |