Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2013

Má ekki ræða um ESB?

Þetta er raunsætt mat á stöðunni. Ég hef í raun engu að bæta við það sem fram kom í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Ég er sammála því sem þar kemur fram, að það eigi ekki að fara að blanda viðræðunum sem slíkum inn í kosningabaráttuna. Þetta er raunsætt mat. Því miður næst ekki að ljúka þessu fyrir kosningar eins og til stóð. Þetta eru eðlileg viðbrögð við þeirri stöðu, að mínu mati.

Allt í einu vill þingmaður vinstri grænna ekki blanda saman aðlögunarviðræðunum við ESB inn í kosningabaráttuna ...? Hvers konar bull er þetta hjá Álfheiði Ingadóttur, þingmanni VG og formanni þingflokks.

Ríkisstjórnin situr einfaldlega uppi með að hafa sótt um aðildina og hún þarf að svara fyrir það í næstu kosningum. Það skiptir ekki einu einasta máli hvort viðræðurnar við ESB eru í hægagangi eða ekki, það er ekki hefur hefur aldrei verið umræðuefnið. Málið er aðildarumsóknin og hún verður rædd í þaula fyrir kosningarnar og eitt er kristaltært. Vinstri grænir munu ekki koma vel út úr þeirri umræðu.


Skatttekjur fóru ekki í að greiða tap bankanna

Hvergi annars staðar í heiminum en á Íslandi voru skuldir óreiðumanna aðskildar frá skattatekjum ríkisins og bankarnir látnir taka ábyrgð á gjörðum sínum. 

Gústaf Adolf Skúlason ritar athyglisverða grein í Morgunblaðið í morgun og ofangreint er úr henni. Og hann bætir við:

Það má þakka fyrrverandi leiðtogum Sjálfstæðisflokksins fyrir, að ekki var farin sú leið að þjóðnýta tap fjármálafyrirtækjanna, sem eftirá hefur sýnt sig að bjargaði Íslandi frá gjaldþroti. 

Þetta er alveg rétt hjá Adolfi en það hefur hingað til ekki samrýmst viðteknum skoðunum ríkjandi stjórnvalda að hampa því sem hin svokallaða „hrunstjórn“ gerði vel. Munið eftir hversu ráðist var heiftarlega á Davíð Oddsson, þáverandi seðlabankastjóra, sem sagði í frægu Kastljósviðtali, að Íslendingar ættu ekki að borga skuldir óreiðumanna. Og hvað sagði svo Davíð orðrétti:

Menn eru ennþá að halda að þetta séu vandræði, en við erum að taka þessa dálítið harkalegu ákvörðun: að segja, við ætlum ekki borga þessar erlendar skuldir bankanna. Við skiptum bönkunum upp í innlenda og erlenda starfsemi. Við tökum eigið fé þeirra og látum það fylgja að megninu til erlendu starfseminni.

Og hefur þetta ekki gengið eftir? Jú, rétt eins og Gústaf Adolf segir, það var ekki ætlunin að þjóðnýta tap bankanna. Blessunarlega var þessi ákvörðun tekin og hún kom í veg fyrir gjaldþrot ríkisins.

Ég held að það sé ágætt að við munum þessa staðreynd. Það var ekki ætlunin að tap bankanna yrði greitt með skattpeningum ríkisins og hversu mikið sem menn eru á móti Davíð Oddsyni þá hafði hann nákvæmlega rétt fyrir sér. Og hvernig væri staðan núna hjá ríkissjóði ef við skuldir þess hefðu bæst við aðrar skuldir sem flestum þykir nú nóg um?


Gömul og gamaldags stofnun

Alþingi þarf að líta í eigin barm sem stofnun. Hún hefur ekkert andlit, aðeins skiptimiði sem er forseti Alþingis á hverjum tíma. Vefur þessa gömlu og virðulegu stofnunar er gamaldags og fráhrindandi fyrir flesta. Upplýsingagjöf frá þinginu er ónóg og það reiðir sig á þingmenn í því efni sem reynst hafa mjög óáreiðanlegir margir hverjir.

Taka þarf upp þau vinnubrögð á þingi sem hæfa. Hér er um löggjafarvald að ræða en ekki afgreiðslustofnun framkvæmdavaldsins. Margir líta þó svo á og er eiginlega bæði hlægilegt og grátlegt í senn að sjá þær breytingar sem verða á þingmönnum er þeir verða skyndilega í meirihluta. Þá breytist viðhorfið og þeir verða ósveigjanlegir meirihlutamenn sem áður boðuðu samstarf og höfðu þung orð um mikilvægi lýðræðisins.

Hins vegar má ekki gleyma því að þrátt fyrir háan aldur á Alþingi að vera lifandi stofnun, síkvik og fræðandi án þess að láta af virðingu sinni. Því miður hafa síðustu fjögur ár frá hruni einkennst af ruddaskap og leiðindum á Alþingis, ásökunum á báða bóga. Þetta hefur leitt til að djúpstæður misskilningur almennings um þingið og stjórnmálamenn hefur orðið að fullvissu.


mbl.is „Dapurleg niðurstaða“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt í kleinu hjá þingflokki VG

Hélt einhver að Samfylkingin væri bara elskuleg stjórnmálasamtök með bjartri framtíð og Vinstri græni væru hin ljúfa dögun íslenskra stjórnmála?

„Jón Bjarnason, þú skilur ekkert? Þú gengur ekki gegn mér og flokknum mínum, Nonni minn. Þú sveiflar ekki hendi gegn sögulega merkri ríkisstjórn án þess það hafi að minnsta kosti einhverjar afleiðingar. Burtu með þig Jón, farðu til andskotans eða í það minnsta heim til Blönduóss, helst heim að Hólum. Við höfum ekkert að gera með mann eins og þig. Og nú fáum við okkur kaffi.“

Þetta mun Steingrímur hafa sagt á fundi þingflokks Vinstri grænna í morgun og honum var mikið niðri fyrir sér.

Árni Þór Sigurðsson, formaður þingflokksins, bauð Jóni að svara fyrir sig.

„Nei, sko,“ sagði Jón. „Bara kleinur með kaffinu.“ Svo var gert hlé og sumir fengu sér te.

„Ætlum við inn í ESB eða ekki,“ hvíslaði Björn Valur, fráfarandi þingmaður, að foringja sínum, með munninn fullan af kleinum.

Sko, ofangreind lygasaga á að vera kaldhæðnisleg og segja jafnmikið um þingflokk VG og Nonna.


mbl.is Jón úr utanríkismálanefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Arion og hið fyrirsjáanlega

Ef til vill er það auðveldast að segja til um það fyrirsjáanlegasta. Næst best er áreiðanlega að segja til um það sem hefur gerst. Þetta tvennt hefur mörgum reynst tryggast til að ná athygli fjölmiðla. Þannig verða til um hver áramót margvíslegir spámiðlar sem eiga sér allflestir það sameiginlegt að vilja ekki greina frá nafni sínu.

Arion banki kemst í fjölmiðla fyrir meintan áhuga sinn á kvikmyndum. Morgunblaðið hefði allt eins getað spurt mig um Óskarinn væntanlega. Ég hefði fullyrt að aldrei í lífinu myndi hinn bandaríski hópur sem veitir þessi verðlaun og gengur undir því fagra heiti „akademía“, kjósa einhverja aðra mynd sem hina bestu en þá um Abraham Lincoln. Annað myndi teljast guðlasti næst og þrátt fyrir allar, byssur, blóð og klám, er guð enn mesta hetja flestra Bandaríkjamanna. Kvikmyndin um Lincoln verður því í öllum aðalsætum á Óskari og næsta vís, eins og fréttamaðurinn sagði, að hún fái verðlaun sem besta mynd, besta kall og kellingu, besta sópara, bestu gluggatjöld og besta vatnið.

Ég ráðlegg þar af leiðandi þeim hjá Arion banka að einbeita sér að íslenskum efnahagsmálum. Þau eru hvorki fyrirsjáanleg né auðveld þrátt fyrir að landið sé aðeins örríki. Í þokkabót veitir ekki af því að halda stjórnvöldum við efnið rétt eins og bankinn hefur reynt að gera frá stofnun. Og aldrei hitt naglann á ... efstu hæðina.


mbl.is Arion banki spáir Lincoln sigri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Náttúrusvæði ... og stofan heima

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, sagði að aldrei hefði verið hægt að ná sátt um virkjunar- og verndarkosti því sumir þingmenn gætu ekki hugsað sér að vernda náttúrusvæði. Í framhaldinu yrði nú virkjað af meiri varúð en áður.
 
Hvað skyldi nú taljast vera náttúrusvæði? Er þetta eitthvert hugtak sem fengur er í eða er þetta bara tal eins og margt annað sem hrekkur af ræðumönnum í hita leiksins?
 
Ég hef aldrei heyrt um náttúrusvæði og tel orðið, eigi það yfirleitt þegnrétt í tungunni, þýðir það líklega það sama og það sem almennt er nefnt náttúra landsins.
 
Eðlilega eru nokkur svæði talin merkilegri en önnur. Víst má telja að Aldeyjarfoss þykir um margt fegurr en Tröllafoss í Mosfellssveit. Þjórsárver eru líklega merkilegri en Kolviðarhóll. Þessi tvö dæmi þýða þó engan veginn að Tröllafoss sé einhver ómerkileg miga eða að spora megi út á Kolviðarhóli eins og þar sé landið í öðrum eða þriðja flokki samkvæmt fallþunga.
 
Vandamálið er í því fólgið að landið er metið fyrir mannvirkjagerð og þar af leiðandi kunna margir að halda að sum svæði séu öðru síðri. Þetta er auðvitað mikill misskilningur vegna þess að allt landið er eiginlega ekkert annað en „náttúrusvæði“ að meira eða minna leiti eins og kallinn orðaði það. Og þó sum svæði fái verndarstimpilinn er afskaplega mikils virði að ganga vel um þau sem ekki fá hann, ekki síður þegar um mannvirkjagerð er að ræða.
 
Lítum bara á Kolviðarhól og Hellisheiði. Þar hefur verið byggð gufuaflsvirkjun og borað víða í nágrenninu. Þó er engu líkar er þanra hafi hryðjuverkalið ruðst um og raskað öllu sem hægt var og landið þarna er einfaldlega orðið ljótt, byggingar andstyggilega úr öllu samræmi við umhverfið og hingað og þangað hafa verið lagðir vegir og rör. Svona myndi enginn ganga um stofuna heima hjá sér og hvaða eru svona „náttúrusvæði“ annað er stofan heima? 
 
 

mbl.is Rammaáætlun samþykkt á þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað verður amx.is lengi í jólafríi?

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, sæmdi nokkra Íslendinga heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í dag. Hæst bar þar að Vilmundur V. Vídalín, viðskiptafræðingur, var sæmdur stórriddarakrossi fyrir störf í eigin þágu.
 
Í rökstuðningi orðunefndar kemur m.a. fram að Vilmundur hafi um langt árabil skarað ötullega eld að eigin köku og unnið sleitulaust að söfnun eigna, oft við afar erfiðar aðstæður á mörkuðum.
 
Mér finnst baggalútur.is oft skemmtilegur vefur en ofangreint er ættað af honum. Þarna er fast skotið í ádeilu á krossaða landsmenn, svo fast að margir krossfestir kunna að kveinka sér undan.
 
Annar húmorískur ádeiluvefur finnst mér góður en það er amx.is Því miður er hann oftar en ekki í fríi og það er leitt. Vefurinn fór í jólafrí 21. desember og hefur ekki mætt síðan í vinnuna. Vonandi er hann ekki jafnlengi frá og Alþingi.
 
Fyrir mánuði stóð eftirfarandi á amx.is í sambandi við þingsályktunartillögu Ólínu Þorvarðardóttur, alþingismanns og meints varaformannsefnis, um heildrænar lækningar og eftir lesturinn hló ég hrossahlátri.
 
Varla ætlar Ólína að treysta vísindunum fyrir því að sprengja ekki 75 lítrana af eldsneyti í loft upp sem eru um borð í bíl hennar? Eða að treysta því að einhver af þessum þúsundum bruna í vélinni muni ekki sprengja bílinn í loft upp? Er ekki óþarfi að treysta á vísindin og taka bara kústinn heim? 

Fimm mikilvægar spurningar til utanríkisráðherra

Þegar samningur liggur fyrir, þá munu þessar staðreyndir birtast öllum almenningi. Við það eru andstæðingar aðildar hræddir. Þeir óttast að samningurinn muni verða miklu betri en þeir hafa haldið fram, og afhjúpa þessar blekkingar. Þess vegna vilja þeir stöðva viðræður áður en samningurinn verður til.

Þetta segir Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar og utanríkisráðherra, í gein í dv.is um viðræður Íslands við Evrópusambandið um aðildina.

Ekki veit ég hvaða samning er um að ræða enda kemur það hvergi fram að verið sé að semja um eitt eða neitt við ESB. Eingöngu er verið að aðlaga stjórnkerfi, lög og reglur hér á landi  að því sem gildir í ESB og þar er krafist.

Þetta eru aðlögunarviðræður ekki samningaviðræður.

Ástæða er til að gera aðrar athugasemdir við grein Össurar. Það dugar einfaldlega ekki að virðulegur embættismaður riti grein eins og þessa án þess að taka á einu eða neinu. Hvergi er hægt að taka á neinu sem ráðherrann segir. Allt er þetta loðið og óstaðfest rétt eins og þegar foreldrar segja barninu sínu frá gjöfum jólasveinsins.

Ef ég á að trúa Össuri Skarphéðinssyni verð ég að fá einhverja ræðu sem kjöt er á. Til dæmis væri gott að fá svör við eftirfarandi spurningum:

 

  1. Hvaða samninga er verið að gera við ESB og hvernig er að þeim staðið? Er til dæmis samið um hvern kafla fyrir sig? Þá hljóta að vera að minnsta kosti ellefu samningar klárir ...
  2. Hvers hefur samninganefnd Íslands krafist og hvað hefur verið samþykkt?
  3. Hvaða skilningur ESB á sérstöðu Íslands í landbúnaði, sjávarútvegi og byggðavanda hefur komið fram sem skilar sér í „samningi“?
  4. Hvaða gildi hefur meintur samningur við ESB gagnvart Lissabonsáttmálanum? Er hann viðbót við hann eða undanþága frá honum?
  5. Verði meintur samningur felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu hér mun það þá sjálfkrafa þýða „vaxandi einangrun í viðjum gjaldeyrishafta“ og verður þjóðin bráð fyrir „valdaklíur og sérhagsmunahópa“?
Fróðlegt verður að sjá svör Össurar, kjósi hann á annað borð að tjá beinskeyttar og ákveðnar en hann gerir í ofangreindri DV grein. Geri hann það ekki heldur umræðan af hálfu aðildarsinna að verða áfram eins og þegar börnum er innrætt trú á jólasveininn.

 


Þegja eða tala - í því felst vafinn

Mikið er skorað á konur að gefa kost á sér til varaformanns Samfylkingarinnar. Af því tilefni segir Kolbrún Bergþórsdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu:

Svo óheppilega vill til fyrir Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, þingmann Samfylkingar, að of oft þegar hún opnar munninn veikir hún stöðu sína. Í samræmi við þetta væri líklega skynsamlegast fyrir Sigríði Ingibjörgu að gefa lítt dulda formannsdrauma sína upp á bátinn því fyrir löngu er orðið ljóst að hún býr ekki yfir nægilegri stjórnvisku til að ráða við embættið. Formaður stjórnmálaflokks verður að vita hvenær heppilegast er að þegja. Hver manneskja er vitanlega frjáls að hugsunum sínum en það er ekki alltaf viturlegt að opinbera þær. 

Kolbrún rekur nokkur dæmi um óheppilegar yfirlýsingar Sigríðar Ingu og lesandinn verður þess fljótlega var að þingmaðurinn hefur verið frekar óheppinn að undanförnu þegar hún hefur gripið til þess úrræðis að tala.

Það breytir því þó ekki að ég er á þeirri skoðun að Sigríður Inga hefði átt að bjóða sig fram til formanns. Til vara á hún auðvitað að bjóða sig fram til varaformanns. Til þrautavara ætti bjóða sig fram sem formaður þingflokksins. Bregðist nú allt vona ég þó að hún haldi áfram á þingi og tjái sig sem mest.

Ég dáist af þeim þingmönnum sem fara að dæmi Sigríðar Ingu og draga ekki af sér í hinni pólitísku umræðu. Oft er þörf en ...

 


Mjög er nú þrýst á hæverskar Samfylkingarkonur

Hér áður fyrr tíðkaðist ekki að fólk færi í framboð af eigin hvötun, alltaf var skorað á það rétt. Auðvitað vissi maður að þetta var ekki raunin, heldur var og er líklega fínna að einhver skori á mann eða rétt eins og leiðarahöfundur Morgunblaðsins segir í morgun:
 
Það er í tísku í topplögum stjórnmálanna að framagjarnir menn, karlar og konur, kenni öðrum um metorðagirnd sína. Í Sjálfstæðisflokknum hljóðaði þetta forðum tíð gjarnan eins og svona: Til mín hefur leitað fjöldi fólks, karlar sem konur, ungir sem eldri, úr hinum dreifðu byggðum sem í þéttbýli og lagt hart að mér að ég gefi kost á mér...til þessa eða hins. Ásóknin kom frambjóðandanum ætíð mikið á óvart, og hann var tregur til, en taldi ómaklegt að ganga gegn svo þungum áskorunum.
 
Þeir sem eiga sér langdvöl í Sjálfstæðisflokknum muna eftir þessu og það rifjaðist skemmtilega upp fyrir mér þegar ég hlustaði á sjónvarpsfréttir Ríkisútvarpsins í gær. Af einhverju ótrúlegu innsæi uppgötvuðu fréttamenn að skortur væri fyrirsjáanlegur á konum í varaformannsembætti Samfylkingarinnar á næstunni og á allar var skorað og skorað og skorað.
 
Þetta var svo jákvæð og falleg frétt að manni vöknaði um augum og skildi óðum að þessi frétt ætti erindi til allra landsmanna í útvarpi allra landsmanna. Hins vegar velti ég því ekkert fyrir mér hvernig á þessu ótrúlega innsæi stæði né heldur leiddi ég hugann að því að einhver hefði þarna hannað atburðarás til kynningar og ímyndarbótar. Nei, nei, nei, aldeilis ekki. Fegurðin og þörfin var öllu ofar.
 
Og leiðarhöfundur Morgunblaðsins bætir við:
 
Í fréttum í gær kom fram að nú er þrýst á Katrínu Júlíusdóttur að bjóða sig fram sem varaformann í Samfylkingu. Sigríður Ingadóttir staðfesti að hún væri undir miklum þrýstingi um framboð til embættisins. Þá sagðist Oddný Harðardóttir beitt miklum þrýstingi og Ólína Þorvarðardóttir viðurkenndi að hún byggi einnig við mikinn þrýsting. Þetta er auðvitað þrúgandi fyrir fólk sem ekki hefur áhuga á persónulegum frama.
 
Sagt er að núverandi varaformaður, Dagur B. Eggertsson, sé útilokaður, af því að hann sé ekki kona og eru getgátur um að hann sé undir auknum blóðþrýstingi fyrir vikið. 
 
Þegar þarna var komið sögu, raunar var leiðaranum lokið, þá gat ég ekki stillt mig og lét það eftir mér að hlægja hressilega. Svo las ég Pistilinn eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur og enn batnaði skapið þennan morgun. 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband