Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2013
Rukkar ESB fyrir alþjóðleg fjármálafyrirtæki?
7.1.2013 | 11:03
Stefna ESB að bjarga evrunni og að bankar mega ekki fara í gjaldþrot hefur eyðilagt ríki Suður-Evrópu og splundrað sambandinu. Búið er að flytja skuldir einkafjármálafyrirtækja yfir á aðildarríkin í svo stórum stíl, að ýmsir telja það samsvara kostnaði einnar heimsstyrjaldar. Samt sem áður hafa vopnuð átök ekki átt sér stað, a.m.k. ekki enn.Friðarsambandi í rukkunarhlutverki fyrir alþjóðlega fjárglæframenn hefur þegar tekist að valda aðildarríkjunum öllu þessu tjóni með evruna og lýðræðishallann að vopni. Þessi efnahagsstyrjöld, sem hlotið hefur friðarverðlaun Nóbels, skapar í raun forsendur þjóðfélagslegra óeirða og vopnaðra átaka.
Danski Evrópuþingmaðurinn Morten Messerschmidt sagði við áramót að ESB tæmdi Danmörku af lýðræðiskrafti sínum:
Ekki síðan á tímum Rómarríkis hafa jafn mikil völd verið í höndum jafn fárra eins og málum er nú háttað í Brussel... Við erum undirlögð því, sem ég vil kalla »borgaralegt valdarán«. Ekki árás með ofbeldi og ofurveldi eins og sagan hefur áður sýnt okkur. Heldur valdarán, sem framkvæmt er með sáttmálum undirskrifuðum með pennum kjörinna fulltrúa okkar.
Taka má undir áhyggjur Gústafs því hann segir:
Ásetningur ESB að »bjarga evrunni« hefur breytt Evrópusambandinu í innheimtudeild fyrir Alþjóðastofnun fjármálafyrirtækja, IIF (Institute of International Finance).
Með haglabyssu má hafa alla undir í rökræðu ...
7.1.2013 | 10:48
Málefnaleg rökræða á oft undir högg að sækja. Það sést best á skoðanaskiptum í athugasemdum vefmiðla. Í leiðara Morgunblaðsins í morgun er sneitt að þessu í sambandi við nýársávarp forseta Íslands og bókun hans á síðasta ríkisráðsfundi ársins. Í leiðaranum segir höfundurinn:
Björn Valur Gíslason, þingmaður VG og helsti talsmaður formanns flokksins, bregst við gagnrýni forseta með því að kalla hann forsetabjána og telur sig sjálfsagt með því hafa haft hann undir í rökræðunni.
Í gamla daga og jafnvel enn þótti það mikil list að geta tvinnað saman ólíklegustu blótsyrði og formælingar og var jafnvel haft um annað fólk. Slíkt hvarf þó yfirleitt út í bláinn og gleymdist. Nú hins vegar geymist þetta allt saman og þeir sem eru lakar að sér halda að rökræða byggist á á finna upp á uppnefnum og formælingum sem toppi náungann.
Þetta er svona svipað eins og að rökræða við mann með haglabyssu. Um leið og hann hefur hleypt af og viðmælandinn liggur í valnum er samræðunum lokið en sá sem byssuna heldur að hann hafi haft betur. Vissulega má færa rök fyrir því að það sé rétt ...
Rukkaði fjármálafyrirtæki selda og afskrifaða kröfu?
7.1.2013 | 01:42
Fann þessa frétt á svipan.is. Finnst ástæða til að birta hana hér svo til orðrétta. Ég hef ekki heyrt af neinum svona dæmum en í þeim hluta athugasemda með fréttinni sem teljast málefnalegar, eru nokkrir sem þekkja dæmi um svipað.
Svipunni barst eftirfarandi áreiðanleg frásögn:
Lántaki gekk hart eftir því að fá að sjá skuldabréfið sem bankinn var alltaf að rukka hann um afborganir af. Lántakinn hafði ástæðu til að ætla að bankinn hefði þá þegar selt skuldabréfið frá sér og ætti það ekki lengur.
Bankinn sýndi lántakanum allskonar pappíra stimplaða og undirritaða sem staðfest afrit af skuldabréfinu. Lántakinn var ekki sáttur og vildi fá að sjá skuldabréfið sjálft, eins og hann á lagalegan rétt á. [...]
Í framhaldinu kom í ljós að bankinn gat ekki sýnt lántaka frumrit skuldabréfsins. Skuldabréfið hafði verið selt hollenskum aðila. Lántakinn fór hreinlega til Hollands til að kanna málið. Í hollenska bankanum sem hafði keypt skuldabréfið, væntanlega fyrir lítið, var Íslendingnum vel og heiðarlega tekið. Þar fékk hann það svar að löngu væri búið að afskrifa skuldabféfið og nýta til skattaafsláttar í Hollandi.
Til að gera langa sögu stutta þá samdi íslenski bankinn við viðkomandi og greiddi honum háar upphæðir gegn því að þetta kæmi aldrei fram opinberlega.
Svipan hefur fengið heimildir fyrir því að fleiri en einn lántakandi hafi komist að hinu sama, hjá sitt hvorum lánveitandanum.
Skýringin mun vera sú, samkvæmt heimildarmanni Svipunnar úr bankakerfinu, að íslenskir lánveitendur seldu þónokkuð af lánum, sérstaklega bunka af minni lánasöfnum til erlendra aðila á hrakverði.
Viðmælendur Svipunnar mæla með því að lántaki nýti lagaheimild sína og fái að sjá hið raunverulega frumrit skuldabréfsins. Hafi bankinn það ekki undir höndum er hann að innheimta skuld sem hann á ekki. Samritin eru þrjú: Það sem lántakinn á, það sem bankinn á og það sem geymt er hjá sýslumanni. Áríðandi er að láta ekki plata sig með því að bankinn sýni afrit, eða staðfest afrit eða afrit af bréfinu sem geymt er hjá sýslumanni. Ef bankinn getur ekki sýnt sitt eigið raunverulega frumrit, þá er hann búinn að selja það og hefur enga heimild til að innheimta greiðslur af því.
Mæli með að lesa þessu næst pistil á bloggsíðu Marinós G. Njálssonar sem fer nokkuð náið ofan í saumana á þessari frétt, og er í þokkabót nokkuð mikið niðri fyrir.
Tyrkland fær seint inngöngu í ESB
6.1.2013 | 20:53
Tyrkland fær seint aðild að Evrópusambandinu. Þar stendur lýðræðið höllum fæti, menntunarskortur er þar mikill, fátækt skelfileg, mikið atvinnuleysi, konur eru víða sem annars flokks þjóðfélagsþegnar og svona má lengi telja. Stjórnmálamenn í Evrópu fengu margir hverjir hland fyrir hjartað þegar ríkjum austantjalds var boðin innganga og nú eru þeir nær hjartaáfalli komi Tyrkir inn.
Um þetta er búið að ræða fram og til baka í þrjátíu ár eða meira. Sitt sýnist hverjum. Þeir sem eru með inngöngu Tyrkja segja opinskátt að þar opnist tækifæri til að bæta tyrkneskt samfélag að innan. Gera kröfur og sjá til þess að þeim sem framfylgt. Kröfur um menntun, heilbrigðismál, trúfrelsi, jafnrétti kynjanna og fleira og fleira.
Ég spái því að Tyrkir komist ekki inn í Evrópusambandi á næstu þrjátíu árum. Látið mig endilega vita reynist ég hafa rangt fyrir mér þann 6. janúar 2043.
![]() |
Óvissa um ESB-umsókn Tyrkja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Undirbúningslaus lífsganga Haraldar pílagríms
6.1.2013 | 20:43
Ég flýti mér ekki um of og ég tef ekki að óþörfu. Ef ég held áfram að setja annan fótinn fram fyrir hinn hlýt ég að komast þangað á endanum. Mér er farið að finnast við við sitjum miklu meira en við höfum gott of. Harold broti. Til hvers ættu annars fæturnir svo sem eða vera.
Þetta segir söguhetjan í bókinni: Hin ótrúlega pílagrímsganga Harolds Frey. Hana lauk ég við að lesa um daginn og hafði bara nokkurt gaman af. Þetta er lítil, falleg bók, boðskapurinn sannur og að auki er hún ekki eins fyrirsjáanleg og lesandinn kann að halda í upphafi lestursins.
Harold þessi Frey er eiginlega hundleiðinlegur maður, kannski boring ekki sá sem maður myndi leita félagskaps í. Hann býr með konu sinni í bæ syðst á Englandi og líf þeirra er í sömu skorðum og það var í upphafi. Þau eiga eitt barn, soninn Dave, sem maður kynnist smám saman eftir því sem á bókina líður.
Svo gerist það fyrir einhverja bölvaða tilviljun að Harold gamli Frey fréttir af því að gamall vinnufélagi hans hefur fengið krabbamein og liggur fyrir dauðanum norður við mörk Englands og Skotlands. Og er hann fær bréfið frá henni Queenie Hennessy, skrifar hann henni til baka og fer með bréfið í næsta póstkassa. Á leiðinni fær hann þá hugdettu að ganga til hennar og það gerir hann eins og hann er klæddur.
Klæðnaðurinn, æfingaleysið og þekkingarleysið var Frey afar dýrt. Skórnir étast upp, hann fær blöðrur á fæturna og ýmislega aðra kvilla. Allt lagast þó, hann grennist, styrkist og fyrr en varir er hann orðið nær óþekkjanlegur. Og heim bíður Maureen milli vonar og ótta, veit ekki hvað skal halda, hvort hún elski hann eða hati.
Sagan er snotur og smám saman fer lesandanum að þykja vænt um Harold Frey og fyllist um leið forvitni á að vita meira um konu hans, hana Maureen og soninn Dave. Og sagan af þeim blandast þægilega inn í lýsingar á ferðalaginu, þá sem hann hitir og reynast honum yfirleitt vel.
Á tímabili líkist sagan kafla úr myndinni um Forrest Gump þegar hann tekur á rás og hleypur um öll Bandaríkin. Að honum safnast að lið sem hleypur með rétt eins og hann sé spámaðurinn. Sama gerist með Harold Fry. Blaðamaður nokkur fréttir af honum og smám saman spyrst út fréttin um manninn sem nefndur er pílagrímur, allir fjölmiðlar eru með hana og segja frá því að tilgangurinn sé að lækna Queenie Hennessy.
Fyrr en varir er fjöldi fólks farinn að ganga með honum, Frey til töluverðrar armæðu, því allur þessi fjöldi dregur úr gönguhraðanum og fjölmörg vandræði hljótast af. Þá gerist þessi stórkostlegi kafli er hópurinn og Frey skiljast að. Honum er kennt um, hann er ekki sá sem hann var -, segir sjálfskipaði forsprakki klofningshópsins. Kaflinn er svo beiskur og sannur. Þarna er komið fólk í kringum manninn sem telur sig vita betur en hann sjálfur hvers vegna hann er á 1200 kílómetra göngu. Grátbroslegt ... Virkar eins og ádeila á kirkjuna, stjórnmálaflokk eða eitthvað álíka.
Endir bókarinnar kemur manni á óvart. Hann er sanngjarn og fallegur. Og Harold Frey reynist þrátt fyrir allt ekki eins hundleiðinglegur eins og maður hélt í byrjun. En sú hugsun læðist að manni að hann hefði átt að fara í gönguna miklu fyrr, hún hefði bjargað öllu í lífi hans. En betra er seint en aldrei.
Ég mæli eindregið með þessari bók sem Bjartur gefur út. Hún er vel skrifuð, þýðingin sem er eftir Ingunni Snædal er á köflum ágæt. Eitthvað gat ég sett út á en skrifaði það ekki hjá mér.
Nú er ég að byrja að lesa bókina undirstaðan eftir Ayn Rand. Ég er með Reykjavíkurnætur Arnalds á borðinu og Dr. Valtý (Guðmundsson) á náttborðinu. Þessar þrjár eiga nú að að duga mér út mánuðinn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Óheiðarleg viðhorf ríkisstjórnarinnar
6.1.2013 | 13:21
Það heimskulegasta sem við Íslendingar getum gert er að draga ráðamenn í Brussel á asnaeyrunum árum saman, telja þeim trú um að Íslendingar séu í þann veginn að ganga í ESB og láta valdamenn í 27 aðildarríkjum atast í því að gera flókna samninga við íslensku þjóðina sem gefur svo skít í allt saman þegar þar að kemur.
Þetta segir Ragnar Arnalds á Vinstrivaktinni gegn ESB. Veltum þessum orðum dálítið fyrir okkur og lítum á það sem ríkisvaldið hefur verið að gera.
- Ríkisstjórnin sagði ESB ósatt og segir enn að Ísland vilji ganga inn í sambandið
- Aldrei hefur verið meirihlutafylgi fyrir inngöngu Íslands í ESB samkvæmt skoðanakönnunum
- Enginn samningur verður gerður við ESB um neitt annað en tímabundnar undanþágur
- Viðræður við ESB ganga út á að Ísland sanni að öll lög, reglur og stjórnkerfi sé samkvæmt kröfum sambandsins. Þess vegna heita þetta aðlögunarviðræður.
- Ríkisstjórnin segir þjóðinni ósatt og kallar aðlögunarviðræðurnar samningaviðræður
- Íslendingar munu aldrei framselja yfirráðin yfir sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum til ESB, það veit ESB og mun hins vegar aldrei samþykkja að við fáum að halda yfirráðunum.
Ragnar Arnalds segir það ekki berum orðum en hann á einfaldlega við að Ísland er að eyða tíma tuttugu og sjö Evrópuríkja til einskis, aðeins til að hætta við í lokin. Þannig á ekki að vinna með öðrum þjóðum, það er óheiðarlegt og rangt.
Nú eigum við Íslendingar að óska eftir hléi á viðræðunum við ESB og bendum á afstöðu þjóðarinnar í skoðanakönnunum því til sanninda. Síðan verði það ákveðið að bera áframhaldið undir þjóðaratkvæðagreiðslu um leið og kosið verður til Alþingis. Þannig fæst sú eina pólitíska leiðsögn sem þjóðin mun una við og það mun Evrópusambandið skilja.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Friðarins maður fer með ófriði
5.1.2013 | 16:37
Björn Valur Gíslason, fráfarandi þingmaður Vinstri grænna og burtrekinn formaður þingflokksins, er friðarins maður þó hann eigi það til að slæma rithönd sinni til náungans. Hann er á móti Nató nema þegar þurfti að flæma Gaddafí frá völdum í Líbíu. Hann er svo friðsamur að á nær fjórum árum í ríkisstjórnarmeirihluta hefur hann enn ekki krafist úrsagnar Íslands úr Nató.
Eitt sinn voru þeir Ólafur Ragnar Grímsson, forseti lýðveldisins, og Björn Valur Gíslason, fráfarandi, í sama flokki. Miklu vatni hefur verið migið í saltan sjó síðan það var. Nú má sá síðarnefndi ekki heyra á þann fyrrnefnda minnst án þess að skipta skapi. Ástæðan er einföld, hann er ekki sammála forsetanum. Þar með er friðurinn úti hjá Birni, hann getur ekki setið á sér enda er forsetinn bjáni ...
Það er auðvitað afar slæmt að forsetinn skuli hafa svo mikið að segja um geð Björns Vals að dagurinn verði hreinlega ónýtur taki sá fyrrnefndi til máls. Ekki nóg með það. Birni Val líður illa ef Davíð Oddsson tjáir sig opinberlega. Sama er með Hannes Hólmstein, Bjarna Ben, Illuga Gunnarsson, Guðlaug Þór og marga fleiri vonda menn. Friðarins maður hefur ekki gott af því að hlusta á andstæðar skoðanir, það æsir ófriðinn upp í honum.
Lækningin er líklega fólgin í því að Björn hverfi af þingi og helst að hann verði í þokkalegri einangrun í svona eitt kjörtímabil. Þá má vera von til að hann verði sá friðarins maður sem hann þráir.
![]() |
Kallar forsetann bjána |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kjósendur hafa ítrekað hafnað Kristni H. Gunnarssyni
5.1.2013 | 16:22
Ég held það sé afar gott fyrir stjórnmálin í landinu að Kristinn H. Gunnarsson, fyrrverandi alþingismaður, hafi gengið til liðs við annan flokk. Kristinn hefur komið víða við og hefur reynslu af flestum flokkum og hefur jafnvel stofnað flokk sjálfur.
Kjósendur ættu því að kannast við hann og vita fyrir hvað hann stendur. Það hefur hingað til dugað til að halda Kristni utan þings en hvort framtíð hans sé bjartari nú á eftir að koma í ljós. Ef til vill er Dögun eins og Björt framtíð að verða einhvers konar flóttamannabúðir, ekki aðeins fyrir jafnaðarmenn, heldur líka fyrir fólk úr öðrum flokkum. Sem sagt að fjórflokkurinn sér jafnvel fram á endurnýjaða lífdaga í öðrum flokkum, sameindirnar raðast þar saman. Gamalt vín á gömlu belgjum.
Hef heyrt að Þráinn Bertelsson og Þór Saari hafi tekið vel í framboð á vegum Dögunar. Þá verður nú fyrst reglulega gaman þegar þeir mæta Kristni á gleðitorginu. Ef til vill munu kjósendur geta sameinast um að halda þessum mönnum utan þings næsta kjörtímabils.
![]() |
Kristinn er genginn í Dögun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ef ég fæ ekki annan bjór er ég farinn ...
4.1.2013 | 15:06
Hótanir duga oft skammt. Skiptir engu þótt Birgidda Bardó (skrifað á forníslenska mátann) hóti eða einhver annar. Flestir myndu segja, æ blessuð farðu bara, þú þarna Birgidda ...
Kunningi minn einn lenti fyrir mörgum árum í því veseni að fá slæma þjónustu á bar í Reykjavík. Hafði hann þó fengið nokkur vel útilátin bjórglös er gerðu hann hundrakkann og djarfan. Þriðja glasið sem hann fékk fannst honum óhreint. Hann tuðaði um stund við barborðið og heimtaði annan bjór í hreinu glasi.
Nú, þar sem mikið var að gera, komust þessar kröfur ekki á leiðarenda eða að vertinn mátti ekki vera að því að skenkja honum nýtt glas.
Um síðir fannst þessum kunningja mínum nóg komið og færði sig út að dyrum. Þar stóð hann áberandi og sagði svo hátt og snjallt. Ef ég fæ ekki annan bjór er ég farinn ...
Engar undirtektir fékk hann, Sumir litu að vísu upp, einstaka sagðist líka vilja annan bjór og einhver hvatti hann til að fara.
Sárt er að fá engar undirtektir þegar maður hótar á svo afdrifaríkan hátt. Hann átti því um tvo kosti að velja og valdi þann skásta, það er að gleyma kröfunni, feta sig síðan hægt og rólega að bjórglasinu óhreina og halda áfram að sötra úr því.
![]() |
Bjargið fílunum, annars fer ég til Rússlands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Smá saga af flugdólgi
4.1.2013 | 14:25
Stundum minnist ég atvika þegar ég á námsárum mínum starfaði í lögreglunni í Reykjavík. Yfirleitt eru það ánægjuleg atvik en þó koma upp í hugann slæm mál sem stóðu lengi í manni og gera kannski enn. Sammerkt eiga þau öll að áfengi var mikill örlagavaldur fyrir alla, seka og saklausa.
Fyrir mörgum árum starfaði ég sem fararstjóri á tveimur vinsælum ferðamannastöðum. Þar lenti maður af og til í að aðstoða ógæfusama farþega að komast úr slæmum málum. Yfirleitt var þetta gott fólk sem hafði lent í óhöppum eða misstigið sig smávægilega sérstaklega með áfengi.
Þannig var það ekki með flugdólginn og drykkjumanninn sem við þurftum að senda heim. Hann um sextíu og fimm ára gamall, hafði komið út með vinkonu sinni og hagað sér eins og vitstola maður í flugvélinni. Enginn vissi hvernig hann hafði komist óhindrað um borð því hann átti að hafa verið í ævilöngu flugbanni eftir ítrekuð læti. Á þriggja vikna dvöl mannsins á sólarströnd drakk hann ótæpilega og hagaði sér eins og hann var vanur.
Hér verð ég eiginlega að taka það fram að maðurinn var vel menntaður og ágætlega fjáður en hafði engu að síður þann sama djöful að draga eins og svo margir aðrir. Hann réði engan vegin við sjálfan sig þegar hann bragðaði áfengi. Og þegar þarna var komið sögu var líkaminn farinn að bregðast eftir áratuga ofdrykkju.
Þegar leið að heimfarardegi varð mikil rekistefna enda átti þessi alræmdi flugdólgur ekki að fá að fljúga heim með þessu flugfélagi. Um síðir fékkst undanþága, þó ekki án skilyrða. Hann yrði að vera allsgáður, tryggt væri að hann gerði ekki þarfir sínar í sæti sitt og hann yrði til friðs á meðan á fluginu stæði.
Við vorum þrjú send á hótel mannsins til að tryggja efndirnar. Með mér fór einn fararstjóri og hjúkrunarkona, hvort tveggja duglegt fólk og skynsamt. Þegar við gengum inn í herbergið rákumst við sem á vegg. Lyktin virtist vera af áfengi, þvagi, gubbi og saur og blessaður maðurinn var dálítið drukkinn en gerði sér grein fyrir heimferðinni og skilyrðum hennar. Og við vildum sem fyrst koma honum í burtu.
Þarna þurftum við bókstaflega að setja á manninn bleyju svo hann myndi nú ekki valda flugfélaginu tjóni. Þetta gekk ekki nema við hjálpuðumst öll þrjú að en flugdólgurinn flæktist bara fyrir. Í sannleika sagt getur það verið broslegt verkefni að setja bleyju á fullan mann en það var það síst af öllu og er það ekki enn þann dag í dag. Þetta var eitt af því versta sem ég hef lent í og hef ekki geð í mér til að lýsa aðstæðum umfram þetta. Og enga höfðum við gúmmíhanskana, því miður. Í kringum okkur sniglaðist þokkabót ógæfufólk sem hafði drukkið með manninum og drukkin vinkonan sem kallaði okkur öllum illum nöfnum fyrir að fara svona með góðan mann ...
Eftir rúma klukkustundar vinnu komum við karlinum loksins út í leigubíl en þó ekki fyrr en hann hafði kvatt alla drykkjufélaga sína, konur og karla, með kossi. Og ekki var neinn hörgull á þeim því margir fengu ókeypis áfengi meðan hans naut við. Hans var eðlilega sárt saknað.
Mér skilst að heimferðin hafi gengið nokkuð vel, þrátt fyrir að hafa verið lítilsháttar drukkinn er hann kom um borð. Hann fékk þó ekkert áfengi um borð en engu að síður var ólyktin af honum mörgum farþegum til mikils ama.
Mér finnst ástæða til að segja þessa sögu hérna, ekki til að gera lítið úr manninum. Hann sá mest megnis um að gera það sjálfur. Ástæðan er fyrst og fremst sú að áfengið fer illa með margan góðan manninn. Ef ekki væri fyrir það væri margir betur staddir á vegferð sinni.
Síst af öllu ætla ég að prédika um bindindi en reynsla mín, allt frá því í löggunni í gamla daga og fram til dagsins í dag bendir aðeins til eins. Alltof margir lenda í erfiðleikum vegna drykkjunnar. Ég velti því stundum fyrir mér hvort samfélagið myndi leyfa áfengi ef það væri að koma á markaðinn í dag?
![]() |
Sló farþega og hrækti ítrekað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |