Lítil sérkunnátta ríkisbanka og of mikil áhrif

„Bankaránið mikla“ nefnist grein í Morgunblaðinu í morgun, fimmtudag. Hún er eftir tvo Bandaríkjamenn, Nassim Nicholas Taleb sem er prófessor í áhættustýringu við New York University og Mark Spitznagel sem stjórnar vogunarsjóði. 

Ég varð dálítið hugsa vegna þessarar greinar. Margt gott er í henni en höfundar hafa áhyggjur af launakerfi bandarískra banka og fjármálastofnana. Þeir færa rök fyrir því að fimm milljarðar dollara fari í margvíslegar bónusgreiðslur í bönkum næsta áratuginn og segja réttilega:

Þessar fimm billjónir dollara verða ekki notaðar til að leggja vegi, reisa skóla eða fjármagna önnur langtímaverkefni, heldur verður féð flutt beint út úr bandaríska hagkerfinu inn á einkareikninga stjórnenda og annarra starfsmanna banka. Þessar peningatilfærslur fela í sér eins lævíslega skattlagningu á allra aðra og hægt er að hugsa sér. Það er óréttlátt að stjórnendur banka, sem stuðluðu að fjármála- og efnahagsvandamálunum, eru eina stéttin sem verður ekki fyrir tjóni vegna vandræðanna, heldur þvert á móti hagnast á þeim í mörgum tilvikum. 

Þeir segja gróða risabanka megi frekar rekja til „of mikilla áhrifa, frekar en færni eða sérkunnáttu“. Þetta fæ ég ekki skilið öðru vísi en að bankarnir geti hannað atburðarás sem færi þeim miklar tekjur jafnvel þó lítið sé að baki.

Nákvæmlega þetta gerðist hér á landi í aðdraganda hrunsins. Hannaðar voru aðstæður sem færðu þröngum hópi mikið fé en aðrir hreinlega töpuðu. Dæmi um þetta eru yfirtökur fyrirtækja og skuldsetning þeirra áður en þau voru seld. Fæst þeirra lifðu af hrunið og afleiðingar þess. Það virðist svo óskaplega auðvelt að heilla fjárfesta á markaði, engu líkar en að formúlan sé hin sama og með bíómynd, allir fara á hana þó flestir sjá að hún er léleg. Greinarhöfundar segja:

Peningarnir streyma í röngum hlutföllum til starfsmanna bankanna en tjónið af atburðunum er stundum mikið og lendir á hluthöfum og skattgreiðendum. 

Með öðrum orðum má segja að bankarnir taki áhættu, græði þegar vel gengur, en þegar illa gengur komi það niður á hluthöfum, skattgreiðendum og jafnvel fólki á eftirlaunum. Til að bjarga bönkunum hefur bandaríski seðlabankinn til að mynda haldið vöxtum óeðlilega lágum; auk þess sem hann hefur veitt bönkunum leynilegt lán að andvirði 1,2 billjónir dollara, eins og upplýst var nýlega. Með því að fela áhættuna hefur þetta einkum haft þau áhrif að hægt hefur verið að hækka aftur kaupaukagreiðslur bankanna.

Það eru síðan skattgreiðendur sem þurfa að bera kostnaðinn af tjóninu sem hlýst af áhættunni, svo og eftirlaunafólk og aðrir sem reiða sig á vexti af sparifé sínu. Þar að auki færir lágvaxtastefnan hættuna á verðbólgu til allra sparifjáreigenda – og til komandi kynslóða. Grófasta móðgunin við skattgreiðendur felst ef til vill í því að launagreiðslur bankanna voru jafnháar á síðasta ári og þær voru fyrir fjármálakreppuna. 

Ég mæli eindregið með greininni jafnvel þó svo að ýmislegt kunni að vera að rökfærslu höfunda. Hún er engu að síður áhugaverð fyrir þá sem fylgjast með þróun efnahagslífs á Vesturlöndum. Sérstaklega má benda á lokaorðin, þau eru umhugsunarverð:

Stjórnendum fjárfestingarsjóða ber siðferðileg og fagleg skylda til að gegna hlutverki í því að temja bankakerfið. Fyrsta skrefið ætti að vera að flokka banka eftir því hvernig launakerfi stjórnenda þeirra er háttað.

Fjárfestar hafa áður notað siðferðileg rök – með því til dæmis að fjárfesta ekki í tóbaksfyrirtækjum eða fyrirtækjum sem studdu kynþáttaaðskilnað í Suður-Afríku – og þeim hefur tekist að hafa áhrif á gengi hlutabréfa með þeim rökum. Fjárfestingar í bönkum fela í sér tvöfalt brot – siðferðilegt og faglegt. Eins og við hin yrðu fjárfestar miklu betur settir ef þessir peningar færu í arðbærari fyrirtæki, e.t.v. með þeirri breytingu að fjárhæðin, sem annars færi í kaupaukagreiðslur til stjórnenda banka, rynni til vel rekinna góðgerðarsamtaka. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband