Vissi Samfylkingin að þetta yrðu aðlögunarviðræður ...?

Ekki var hún merkileg greinin eftir Magnús Orra Schram, alþingismann, í Morgublaðinu í morgun, föstudag. Ég fattaði það auðvitað ekki fyrr en ég var búin að lesa hana. Þó hef ég lengi haft meira álit á höfundinum en flestum öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar og jafnvel skrifað um það og því var mér lítt skemmt.

Hvað um það. Magnús er orðin svo slíkur stjórnmálamaður að hann er farinn að vitna í sjálfan sig. Það hefur mér alltaf fundist frekar hvimleið tíska og eiginlega meira hégómleg en upplýsandi. Gasserar þó meðal stjórnmálamanna í öllum flokkum. „Ef enginn hælir mér, þá hæli ég mér sjálfur, ef enginn vitnar í mig þá geri ég það bara ...“

Ekki ætla ég að fara í saumana á grein Magnúsar. Hann veður úr einu í annað. Byrjar þó og endar á Evrópusambandsaðildinni en það vil ég gera að umtalsefni. Í upphafi segir hann:

Samfylkingin ein flokka hefur barist fyrir því að þjóðin fái að taka afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu. 

Þetta er nú tóm vitleysa hjá Magnúsi. Sjálfstæðisflokkurinn lagði það fram í upphafi að þjóðin fengi að kjósa um það hvort sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu. Yrði það samþykkt myndu niðurstöður aðildarumsóknarinnar lagðar undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Sem sagt, flokkurinn boðaði tvennar kosningar um málið.

Magnús og aðrir samfylkingarmenn hlógu sig máttlausa vegna þessarar tillögu Sjálfstæðisflokksins. Fannst sko tómt bull að kjósa tvisvar. Þá kann það hafa virst vera svo. Nú hefur hins vegar komið á daginn að aðildarviðræðurnar eru einfaldlega ekki aðildarviðræður heldur aðlögurnarviðræður.

Hver vissi þetta í upphafi? Að minnsta kosti ekki almenningur. Hafi Samfylkingin vitað það, leyndi hún því fyrir þjóðinni ...

Undir forystu Samfylkingarinnar eru Ísland nú hægt og hægt að renna saman við Evrópusambandið. Í þokkabót er verið að eyða hundruðum milljóna króna til að sýna fram á kosti aðildarinnar. Engu að síður er þetta ólýðræðislega og illa rekna ríkjasamband við það að hrynja í efnahagslegu tilliti. Þar loga eldar sem breiðast hægt og hægt út til flestra ríkja í Suður-Evrópu og önnur eiga í stórkostlegum vandamálum, ekki aðeins Írland og Belgía heldur segja sérfræðingar að Frakkland þurfi aldeilis að taka sig á eigi ríkið að komast fyrir horn í efnahagsvanda sínum.

Magnús Orri Schram vitnar til formanns Sjálfstæðisflokksins sem vill að aðildarumsóknin að ESB verði dregin til baka. Vonbrigði Magnúsar eru skiljanleg. Hann á þó að vita að formaðurinn hefur heila landsfundarsamþykkt að baki sér.

Því er því skiljanlegt að formaðurinn ítreki flokkssamþykkt þegar samfylkingarmenn leita hófana hjá honum vegna bresta í ríkisstjórnarsambandinu.

Málið er ósköp einfalt. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar ekki að tryggja framgang aðildarumsóknarinnar hrökkvi Vinstri grænir úr ríkisstjórn. Þetta telja Sjálfstæðismenn einfaldlega skynsama afstöðu og eiga stuðning þjóðarinnar fyrir því samkvæmt skoðanakönnunum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigríður Jósefsdóttir

Leyndarhyggja Samfylkingarinnar eru til vansa fyrir Alþingi Íslendinga.

Sigríður Jósefsdóttir, 2.9.2011 kl. 11:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband