Árin tvö sem farið hafa til spillis

Af nokkrum góðum greinum í Morgunblaðinu í morgun vil ég nefna grein eftir Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Hann ræðir um rekstur ríkisins og starf ríkisstjórnarinnar og kemur með sláandi upplýsingar, allt annað en ráðherrar ríkisstjórnarinnar guma af. Hann segir:

Þrátt fyrir síendurteknar skattahækkanir og ný gjöld hafa tekjur ríkisins lítið aukist. Á sama tíma reynist erfiðara fyrir heimili og fyrirtæki að standa undir útgjöldum og fjárfesting dregst enn saman. Hlutfall fjárfestingar af landsframleiðslu er nú hið lægsta frá því að mælingar hófust. Hlutfallið þyrfti að hækka um helming bara til að halda í horfinu. Þrátt fyrir það standa stjórnvöld í vegi fyrir fjárfestingu, skapa sterka öfuga hvata og óvissu um skattkerfið, en fátt er betur til þess fallið að fæla frá fjárfesta.

Hallinn á rekstri ríkisins nam á síðasta ári 8 prósentum af landsframleiðslu. Til samanburðar var hallinn í Grikklandi 10,5%. Á Spáni, þar sem atvinnuleysi er vel yfir 20%, var hallinn 9,2% og 4,6% á Ítalíu. Sé litið til tekna ríkisins nam hallinn á ríkissjóði Íslands 26% af tekjum ríkisins.

Og Sigmundur bendir á að landið hafi átt margra kosta völ í kjölfar hrundins en greinilegt er að núverandi ríkisstjórn kunni ekki að grípa tækifærið:

Eftir efnahagshrunið varð Ísland á margan hátt kjörlendi fjárfestingar. Gjaldmiðillinn er ódýr, laun afar samkeppnishæf, nægt laust vinnuafl, sterkir innviðir, fríverslunarsamningar við lönd um allan heim, næg umhverfisvæn orka (samanber áætlun Landsvirkjunar um umhverfisvæna orkuvinnslu) og auk þess er staðsetning landsins nú að verða kostur frekar en galli í framleiðslu á útflutningsvörum. Erlendir og innlendir fjárfestar komu snemma auga á þetta og margir töldu að Ísland yrði fyrsta landið til að vinna sig út úr kreppunni. Kolröng efnahagsstefna og pólitísk óvissa hefur hins vegar valdið því að tvö og hálft ár hefur farið til spillis. Fjölmörg stór verkefni og þúsundir starfa eru enn í biðstöðu eða hafa verið slegin af vegna þess að stjórnvöld viðhalda varanlegri óvissu um lagasetningu, skattastefnu og orkuframleiðslu. Það segir þó sína sögu um þá möguleika sem eru til staðar að erlendir fjárfestar hafa að undanförnu keypt fasteignir á Íslandi vegna þess hvað gjaldmiðillinn er ódýr. Fáir þora hins vegar að fjárfesta í atvinnusköpun á meðan pólitísk óvissa og aðgerðaleysi er jafn mikið og raun ber vitni.

 Við þetta er lítið að bæta. Sigmundur hefur rétt fyrir sér, því miður. 

Í lokin segir hann þó:

Hægt er að snúa þróuninni við og það þarf að gerast hratt því að þegar fjármálakrísan hefst aftur fyrir alvöru í Evrópusambandslöndunum, og líklega í Bandaríkjunum, getur staða okkar orðið mjög erfið.

Leysa þarf úr skuldamálunum með almennum og skýrum reglum. Einfalda þarf skattkerfið og taka upp lagasetningu og skattkerfi sem hvetur til fjárfestingar og atvinnusköpunar.  

Auðvitað er útilokað að ríkisstjórnin snúi við blaðinu. Öll orkan fer í að sannfæra landsmenn um að hún standi sig svo óskaplega vel og halda stólunum þrátt fyrir að meirihluti hennar hafi hrunið og hún hangi núna á einum þingmanni - ef þingmann skyldi kalla.

Atvinnuleysið hefur minnkað, sem auðvitað er rétt vegna þess að svo margir hafa fallið af atvinnuskrá vegna þess að þeir eru búnir að vera „of lengi“ þar og svo er það allur þessi fjöldi sem hefur einfaldlega flúið land. 

Skuldamál heimilanna hafa verið „leyst“ ... eða þannig. Eignabruninn verður ekki leiðréttur ef marka má orð forsætisráðherra. Ekkert fleira verður gert fyrir heimilin en að lög voru sett sem eiginleg gengu þvert á dóm hæstaréttar frá því í fyrra og voru til þess eins að gæta hagmuna kröfueigenda.

Verðmætasköpun þjóðarbúsins hefur minnkað vegna óhóflegrar skattheimtu fyrirtækja og ekki síður einstaklinga. Fyrirtækjum er gróflega mismunað. Þau sem lent hafa í gjaldþroti eru hreinsuð af skuldum og seld, og keppa þannig við þau sem reynt hafa að halda sjó og standa sig.

Og norræna velferðarstjórnin stingur nú höfðinu í gin ESB og þykist ætla að lifa á Evru og styrkjum þessa alræmda ríkjasambands.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband