Uppbygglega blogg, skítleg blogg og Noregur

Vinur minn einn hefur lítið álit á bloggi. Hann telur það vera sem morðvopn. Fjölmargir skrifi af algjöru ábyrgðarleysi og þekkingarskorti. Þeir freta út í allar áttir og hafa engar áhyggjur af þeim sem fyrir verða. Aðalatriðið er að meiða, ekki upplýsa, skaða, ekki byggja upp. Þess vegna, segir þessi vinur minn, nenni ég ekki að lesa blogg og allra síst athugasemdir lesenda. Þær eru jafnvel enn skaðlegri en blogg in sjálf.

Vinur minn hefur mikið til síns máls. Það vita allir sem til þekkja. Ég hef þó rökrætt við hann og bent honum á þau fjölmörgu blogg sem ég les reglulega mér til upplýsingar og fróðleiks.

Ég gæti til dæmis nefnt skrifara eins og Harald Sigurðsson, jarðfræðing, Emil H. Valgeirsson, Jón Sigurðsson á Blönduósi, Jón Atla Kristjánsson, hagfræðing, Marinó G. Njálsson, óþreytandi talsmann fyrir hagsmunamálum heimilanna, Gunnlaug Júlíusson, hagfræðing og hlaupara, Ágúst Bjarnason, verkfræðing, Trausta Jónsson, veðurfræðing, Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðing, Sigurð Þór Guðjónsson, veðurkall, Jón Frímann, jarðfræðiáhugamann, og marga fleiri.

Ég les líka reglulega pólitískt blogg eftir þá sem eru á andstæðri skoðun við mig. Hef auðvitað valið út þá sem mér finnst skrifa vel, eru skynsamir að mínu mati, kannski ekki alltaf sanngjarnir, en áhugaverðir. Af þessu fólki má til dæmis nefna Stefán Pálsson sem ég nefni friðarkall, Ómar Ragnarsson, Vilhjálm Þorsteinsson, Össur Skarphéðinsson, samfylkingarmann, Jónas Kristjánsson, fyrrverandi ritstjóra, Indriða Þorláksson, fyrrv. aðstoðarmann Steingrím Sigfússonar, en Indriði virðist nú vera að mestu hættur skrifum, Ögmund Jónasson, innanríkisráðherra, strigakjaftinn Björn Val Gíslason og marga fleiri.

Af þessu má sjá að hingað til get ég ekki verið sammála áðurnefndum vini mínum um að blogg sé slæmt. Vissulega eru til slæm blogg, hirðuleysisleg og jafnvel vond skrif og meiðandi eins og áður sagði. Þegar ég rekst á slík blogg þá hef ég það fyrir vana að reyna að forðast þau. Jafnvel hef ég lent í því að útiloka nokkra einstaklinga frá því að skrifa athugasemdir á bloggið mitt. Ástæðan er tvennslags, ómálefnalegar og ruddalegar athugasemdir og persónulegar árásir á mig eða aðra. Þetta kæri ég mig ekkert um á mínum heimavelli.

Ég var forðum við nám í Noregi og bjó í Ósló og skammt fyrir utan borgina. Norðmenn eru frábær þjóð og stundum óska ég þess að við værum líkari þeim. Heiðrún Sjöfn, dóttir mín býr í Noregi með sambýlismanni sínum, sem og Dagbjört bróðurdóttir mín og fjöldskylda hennar. Norðmenn hafa reynst mér og mínu fólki vel og fyrir það er ég þakklátur. Þess vegna varð manni ónotalega við þegar fréttir bárust af hryðjuverkunum. Og nú þegar flest kurl eru komin til grafar á maður afar erfitt með að tjá sig um þessi hræðilegu ódæði sem sturlaður maður framdi.

Ég fullyrði að enginn málstaður getur nokkru sinni réttlæt morð og eignaspjöll.

Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta í spjalli mínu um blogg er einfaldlega það að ég hef óttast umræðuna. Ég hræðist lykilorðin um morðingjann og ábyrgðalaus skrif á bloggi og athugasemdakerfum. Og það hefur komið á daginn að nú ætla menn að nota þennan harmleik í pólitísku skyni hér á landi.

Karl Th. Birgisson er lítt hrifinn af Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni, prófessor, og lætur það óspart í ljós í bloggi sínu á vefritinu Eyjunni, þar sem hann er ritstjóri. Hann segir um að virða ekki Hannes viðlits:

Hingað til hef ég verið þeirrar skoðunar líka. En ekki lengur. Ekki eftir atburðina í Noregi.

Halló, halló – heyri ég nú einhverja segja. Ætla ég virkilega að bera Hannes og vini hans saman við fjöldamorðingjann í Noregi?

Svarið er já. Ekki af því að þeir myndu fremja neitt ódæði þessu líkt, víðs fjarri því. Ég held því hins vegar fram að hatrið, ofstækið og brenglunin sem birtist í skrifum Hannesar-klansins sé af sama meiði og þegar Anders Breivik kallar Gro Harlem Brundtland landsmorðingja, en ekki landsmóður. 

Þetta er sorglegt dæmi um umræðuna, vissulega ekki það versta, en í ljósi stöðu Karls sem ritstjóra hefði hann átt að halda þessu áliti sínu fyrir sjálfan sig. En Karl mundar stílvopnið með hatri sínu og ber Hannes saman við fjöldamorðingja, mann sem hefur aldrei annað gert en stundað skriftir, aldrei lyft hendi gegn nokkrum manni.

Hversu auðvelt er ekki að hnoða saman líkingum og gera þær sennilegar. Væri ekki auðvelt fyrir Hannes að svara þannig fyrir sig að líkja Karli við hinn norska fjöldamorðingja og kalla hann mannorðsmorðingja með stílvopn sitt.

Og hvernig endar sú umræða sem fer af stað með svona endemum? Hún endar aldrei, byrjar í heift, heldur áfram með sandkasti og persónulegum ávirðingum sem færist yfir í hatur og róg. Þannig skilur ómenningin aldrei neitt eftir sig nema sviðna jörð og lesendur eru engu nær. 

Stundum nenni ég ekki að lesa vel skrifuð blogg vegna þess að ég er ósammála þeim. Þá geri ég eitthvað annað og opna bloggið löngu síðar. Skítleg blogg opna ég aldrei aftur. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elle_

Ég er sammála þér að skítleg blogg opna ég aldrei aftur.  Og fer aldrei lengur inn í óvandaða og að mínum dómi alltof samfylkingarlega Eyjuna.  Fullt er til af vel skrifuðum bloggsíðum sem heilmikið vit er í og vönduðum bloggurum, sem eru bara venjulegir, já og óvenjulegir, menn að skrifa.  Skrifin um Hannes þarna eru alveg til skammar og miklu verri en það, ná ekki nokkurri átt og alveg spurning hvort þessi skrif brjóta ekki gróflega gegn Hannesi lagalega séð.  Sannarlega brjóta þau gróflega gegn hans mannorði og æru. 

Elle_, 24.7.2011 kl. 12:49

2 Smámynd: Elle_

Ætla að taka það fram að ég fór ekki inn í Eyjuna til að lesa skrifin, þau voru sett inn í aðra síðu. 

Elle_, 24.7.2011 kl. 12:51

3 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Tek heilshugar undir það sem þú segir um Eyjuna. Þar eru margir fínir bloggarar. Les t.d. þar alltof sjaldan pistla eftir gamlan skólabróður, Illuga Jökulsson, samt er ég æði oft ósammála honum. Í þessari umræðu er ekki málið hvort einhver brjóti lagalega gegn öðrum manni, það er aukaatriðið. Stóra málið er hversu illa menn kunna að haga orðum sínum, stilla tilfinningum sínum í hóf og sýna yfirvegun. Í fótboltanum er gagnast til dæmis framherjanum afar sjaldan að þrusa boltanum í áttina að marki. Slíkir missa oftast marks.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 24.7.2011 kl. 15:15

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Mikið er ég sammála þínu viðhorfi um þetta ákveðna mál.

Nú keppast hatursmenn Sjálfstæðisflokksins við að klína seyrunni frá þessu voðaverki, á þeirri forsendu einni að því er haldið fram að Andrés Bæring Breiðvík sé hægri maður. Ég held því reyndar fram að hann sé í raun nasisti, sem er ákveðið form jafnaðarstefnu, og því frekar til vinstri en hægri. Hvort sem hann hafði þessar hugtakaskilgreiningar á hreinu eða var einfaldlega bara í röngum flokki, þá skiptir það samt nákvæmlega engu máli.

Það er nefninlega ekki hægt að útskýra svona bilun með stjórnmálaskoðunum. Einfaldlega vegna þess að fjöldamorð eru ekki hluti af löglegri stjórnmálastarfsemi, allavega ekki í okkar heimshluta. Þegar einhver missir gjörsamlega vitið, eða þaðan af verra eins og hér virðist hafa gerst, þá er heldur ekki hægt að útskýra það með neinum rökrænum skýringum, í því felst einmitt bilunin.

Þess vegna er afskaplega ógeðfellt að sjá til fólks vera að nota fjöldamorð á norskum ungmennum, sem skotfæri í pólitísku skítkasti hér á Íslandi.

Guðmundur Ásgeirsson, 24.7.2011 kl. 17:08

5 Smámynd: Skeggi Skaftason

Guðmundur Ásgeirsson:

"Ég held því reyndar fram að hann sé í raun nasisti, sem er ákveðið form jafnaðarstefnu, og því frekar til vinstri en hægri."

Ert þú ekki að falla í sama pytt og hatursmenn Sjálfstæðisflokksins? Af hverju þarftu að reyna að klína einhverri jafnaðarmennsku á norska fjöldamorðingjann?? Er ekki langsótt að klína jafnaðarmennskustimpli á mann sem er sekur um fjöldaaftöku á ungum félagsmönnum norska jafnaðarmannaflokksins?!

Karl Th. fór langt yfir strikið, en gagnrýni á amx-ritsóðana átti fyllilega rétt á sér og hvort sem það nú skiptir öllu máli, þá voru það þeir sem byrjuðu á þessu ósmekklega seyrukasti, með því einmitt að reyna að "hreinsa" sitt elskulega HÆGRI-orð, sem í þeirra huga má greinilega ekki tengjast neinu illu (þó svo meir og minna öll heimspressan noti orðið "right-wing extremist" um Breivik), en ekki dugði þeim að hvítþvo allt sem kallast "hægri", heldur urðu þeir einmitt líka að koma jafnaðarmennsu-vinstri stimpli á óbermið norska.

amx-fíflunum hafði ég fyrir löngu misst allt álit á, en Karl Th. hélt ég væri maður að meiri en að reyna að leggjast á sama plan.

Skeggi Skaftason, 24.7.2011 kl. 20:04

6 Smámynd: Jóhann Páll Símonarson

Heill og sæll Sigurður Sigurðarson.

Ég undrast svona ummæli þín, þú verður að gera þér grein fyrir að menn hafa skoðanir hvort sem þér líkar það vel eða illa. Á meðan menn eru ekki dónaskap gagnvart þeim sem þeir fjalla um þá er það í lagi. Pólitík né annað kemur þessu máli ekkert við.

Jóhann Páll Símonarson. 

Jóhann Páll Símonarson, 24.7.2011 kl. 22:15

7 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sæll Jóhann. Bestu þakkir fyrir innlitið. Hvað er eiginlega það sem þér finnst aðfinnsluvert í pistlinum?

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 24.7.2011 kl. 22:18

8 Smámynd: Jóhann Páll Símonarson

Heill og sæll Sigurður Sigurðsson.

Mér ofbíður þegar þú nefnir skítlegt blogg þau blogg opna ég aldrei aftur. Ef að þú ert ekkert sáttur við þau skrif þá er best að gera athugasemdir, enn þú ræður því sjálfur hverju þú svarar eða ekki. Ég trúi ekki því að menn séu að skrifa um það sem þeir vita ekkert um eða séu að bulla. Allra helst þegar heil þjóð á við erfileika að etja eins og Noregur og það skuli vera norðmaður sem fremur þessi ódæðisverk.

Hinsvegar er umhugsunarefni að fara betur ofan í þessi mál sem varðar fjölþjóðasamfélög, þau málefni munu og verða á dagskrá á næstunni því þeim er ekki lokið. 

Jóhann Páll Símonarson.

Jóhann Páll Símonarson, 24.7.2011 kl. 22:44

9 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sæll aftur Jóhann. Bið þig afsökunar á að hafa ekki verið nógu skýr í pistlinum. Auðvitað mega menn hafa sínar skoðanir, taldi raunar upp nokkra bloggara sem ég kann vel að meta þó svo að ég sé sjaldan sammála þeim. Flestir þeirra eru þó málefnalegir og setja mál sitt fram á efnislegan hátt. Hinir eru til sem skrifa án nokkurnar sjálfstjórnar, gera öðrum upp skoðanir, kalla þá öllum illum nöfnum og sýna ruddaskap. Slík blogg kalla ég skítleg hvort sem þeir sem skrifa eru á mínum væng í stjórnmálum eða andstæðum. Aldrei myndi ég gera athugasemdir við slík blogg. Þau eru best látin í friði. Við hljótum að geta verið sammála um þetta. Raunar les ég oft bloggið þittn og er oft sammála því sem þú segir.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 24.7.2011 kl. 22:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband