Sumri lýkur aldrei í júlí eða ágúst, stundum þó í september

Umræðan um tíðarfar og misserisskiptin eru alveg hringlandi vitlaus. Ekki þarf nema þungbúinn himinn og og rigningu í lok júlí og fjölmiðlalýðurinn er farinn að tala um snemmkomið haustveður.

Þvílík vitleysa. Nú er hásumar, allt er þrungið lífi og hvergi á öllu jarðríki er betra að vera jafnvel þó'ann rigni og hitinn sé í kringum tíu gráðurnar og jafnvel lægri. Það stendur aldrei lengi og þeim er sjaldan kalt sem hreyfir sig.

Ég hef nokkra reynslu af íslensku sumri og þekki hverfilyndi þess. Ég minnist þó aldrei annars en að sumarið hafi staðið undir nafni, að minnsta kosti að meðaltali.

Nú vill fólk að hér á landi séu tuttugu til þrjátíu gráður og sól um á hvern einasta dag allt endilangt sumarið. Þannig er hönnuninni ekki háttað hér á landi, því miður. Sættum okkur við Ísland og því sem fylgir.

Sumarið er ekki búið fyrr en í september. Ágúst er stórkostlegur mánuður. Landið hefur sætt sig við sumarið, gróðurinn er í hámarki, berin brosa til okkar, rökkrið sígur yfir fyrr á kvöldin og fjöllin brosa.

Slæmt er að vera svartsýnn. Munum að glasið er hálffullt en ekki hálftómt, seinni hálfleikur er ekki endalokin, ágúst er sumarmánuður. Veðrið gefur enga bendingu um lok sumars, hvernig svo sem það lætur.

Eftir vorið kemur sumar, eftir sumar kemur ... bling. Ekki einu sinni nefna þetta orð fyrr en að því kemur í almanakinu.

Ekki þar fyrir að af öllum misserum held ég mest upp á... bling, af svo fjölmörgum og ánægjulegum ástæðum. Mikið hlakka ég til.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Algerlega sammála. Í morgunútvarpinu var minnst á það að sumum finnist  sumarið vera búið þegar komið er fram í ágúst. Það er algjör firra. Seinni hluti ágúst er t.d. að meðaltali hlýrri en seinni hluti júní.

Sigurður Þór Guðjónsson, 29.7.2011 kl. 18:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband