Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010

Vantar gleggri upplýsingar fyrir almenning

aaa_979659.jpgSéu jarðskjálftarnir að læðast austur yfir Fimmvörðuháls þá hlýtur það einfaldlega að að þýða að kvikuinnskotin eru orðin fleiri og jólatréið fyrir neðan er miklu umfangsmeira en látið er í skína.

Á meðfylgjandi þversniði er þetta fræga jólatré og kvikuinnskotið sem hljóp út undan sér og bauð góðan daginn á Fimmvörðuhálsi í stað þess að bresta út ofan við Steinsholtsjökul norðan í Eyjafjallajökli. Eru nú fleiri innskot á austurleið samkvæmt Haraldi Hólmara og valda þau óróanum?

Við höfum nokkrir verið að pæla í þessu þversniði, en kunnum sárafátt fyrir okkur í jarðfræði. Raunar stendur þversniðið þvert í okkur. Niðurstaðan er sú að það yrði ansans ári gott ef hægt væri að fá þversniðið með norður suður stefnu. Þá kæmi kannski eitthvað í ljós sem vert væri að tala um. 

Eða hvað segja jarðfræðingarnir? 


mbl.is Jarðskjálftar læðast austur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Getur sprunga opnast ofan Heljarkambs?

100409_mogginn_b.jpg

Ragnar Axelsson ljósmyndari á afar fallega mynd á forsíðu Morgunblaðsins í dag. Henni fylgir langur myndatexti en með smávægilegri villu.

Mogginn þarf endilega að taka upp á þeirri þjónustu við lesendur sína að segja þeim frá því sem á svona yfirlistmyndum er, greina frá staðháttum. Ekki er öllum ljóst hvernig landið liggur á Fimmvörðuhálsi eða annars staðar, jafnvel þó einhvern tímann áður hafi birst kort eða góð skýringamynd.

Ég tek mér nú það Bessaleyfi að birta þessa mynd Ragnars. Auðvitað hefði ég kosið að hún næði yfir aðeins meira svæði til vesturs, hægri. Þá sæjum við ofan í hið hrikalega Innra-Suðurgil.

Það sem merkilegast er við myndina er að hún sýnir hraunrennslið ofan í Hvannárgil og neðst í hrauntánni glittir í glóð. Áður var stór hvelfing þar undir sem hraunfossinn fellur. Ég á slides-mynd af henni og verð að muna að skanna hana inn við tækifæri.

Þarna í litla gilinu hefur hraunið safnast saman og ekki náð að renna neitt lengra. Hélt að það hefði nú náð niður í Úthólma. Þá erum við komin að þessu litla örnefni sem Mogginn fer rangt með í morgun. Úthólmar eru lítið svæðið í gilinu þar sem það opnast sunnan við Útigönguhöfða, rétt ofan við mót Hvannárgils og Innra-Suðurgils. 

Í Úthólmum er sumarfagurt. Þar skoppar Hvannáin tær og frískleg og talsverður gróður hefur náð að festa þar rætur. 

Um hvannárgil liggur gönguleið frá Heljarkambi. Hún var aldrei mikið farin en þó heillandi og skemmtileg, ekki síst fyrir þá sem voru búnir að fara nokkuð of oft hefðbundna leið af Fimmvörðuhálsi. Hvannárgilsleiðin var einnig hluti af skemmtilegum hringleiðum sem lagðar hafa verið á Goðalandi

Mér finnst spennandi að vita hvort hugsanlegt sé að hraun renni á næstunni ofan í Innra-Suðurgil. Í pælingum mínum þætti mér það hið besta mál enda nokkrum sinnum búinn að lenda í bölvuðum hrakningum í því gili. Ástæðan er þó önnur en persónuleg, því taki hraun að renna þar má búast við að lítið hraunrennsli verði þaðan og út í Hvannárgil fyrr en eftir langan, langan tíma. Svo kræklótt og erfitt er það í botninn. Á móti kemur að innst í þessu gili er nokkur jökull og þá má búast við miklum vatnavöxtum er heitt hraunið rennur ofan á hann.


mbl.is Hættur leynast við hraunbrún
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ýmislegt um iPad sem vantar í grein Árna

Ýmislegt vantar í þessa góðu grein Árna Matthíassonar. Hann hefði að ósekju getað sagt meira frá tæknilegri hlið málana. Ég skal nefna nokkur atriði sem ég man eftir.

iPad er með vafra, Safari. Sá hefur reynst afar vel en menn kvarta einna helst yfir því að hann styður ekki flash sem þýðir að sumar vefsíður opnast ekki fullkomlega. Ástæðan er einfaldlega sú að þeir hjá Apple telja Flash mjög óhentugt, taki of mikla orku og sé ekki gott. Aðrir kostir séu betri enda Flash hingnandi tæki. Um það dæmi ég ekki en þetta er nokkuð slæmur galli. 

Póstforritið Mail er í iPad. Það er frá Apple og hefur reynst afskaplega vel.

Í iPad má geyma ljósmyndir sem þykir nú ekki merkilegt, slíkt er hægt í flestum símum og rafrænum músikdósum. Munurinn er hins vegar að vistunin á myndunum er afskaplega neytendavæn og auðvelt að kalla fram myndir. Gagnrýnt hefur verið að myndirnar sé ekki hægt að setja beint inn í iPod heldur þarf að millifæra þær úr Makka. Eflaust er hægt að taka undir það.

Í iPad er músíkdós og auðvitað aðgangur að iTunes til kaupa á tónlist, sjónvarpsefni, kvikmyndum, bókum og ekki síst forritum fyri iPad. Kosturinn er sá að fjölmargir stórir bókaútgefendur og daglaðaútgefendur bjóða nú upp á iPad-vænan aðgang að efni sínu. Miklar líkur eru því á að í almenningsfarartækjum lesi menn ekki hefðbundin pappírsblöð eða bækur í nánustu framtíð heldur haldi á iPad.

Kort frá Google eru í iPad og hægt að finna staði og götur með aðstoð Google service. Hisn vegar er ekki innifalin GPS tækni hvað sem síðar verður.

Lyklaborð er hægt að kalla fram á skjánum og senda tölvupóst, nota forritið Notes, minnismiðana þannig að auðvelt er að hafa kalla þá fram eftir þörfum.

Ekki má gleyma Calendar og hægt er að samræma það við dagatalið í vinnutölvunni og heimatölvunni eftir þörfum.

Annað forrit, Contacts, er í tölvunni. Á sama hátt er hægt að samræma nafnalistann við aðrar tölvur sem eigandi iPod á. Þannig þarf bara einu sinni að færa inn hvert nafn. 

Fjölvinnsluforritið iWorks er í iPad og inni í því er m.a. ritvinnsluforritið Pages. Í því er hægur vandinn að vista skjöl t.d. sem Word skjöl eða pdf. Pages er annars mjög gott ritvinnsluforrit sem ég hef lengi notað og tek fram yfir Word að öllu leyti.

Fleira má eflaust nefna af gæðum iPad en ljóst má vera að tækið er ekki fullkomið. Þess vegna ætla ég að bíða með að kaupa það, geri ráð fyrir að önnur útgáfa þess verði fullkomnari. Víst er þó að við erum að horfa tilframtíðar með iPod. Árni Matthíasson segir í upphafi greinar sinnar:

Spurt er: Er iPad boðberi nýrra tíma, eða bara iPod sem fer illa í vasa? Mun nokkur vilja eiga apparatið nema hann eigi fyrir alltof marga Makka? 

Mitt svar er að framtíðin kann að fara illa í vasa til að byrja með en tækið mun marka stefnu og smám saman verður það þróað í þá átt sem best hentar og fleiri tæki munu án efa koma í kjölfarið. Hvað seinni spurninguna varðar þá skiptir framleiðandinn ekki höfuðmáli, fyrst og fremst notagildið. það verður þó ekki af Apple skafið að fyrirtækið hefur lengi haft forystu í tölvumálum.


mbl.is Boðberi nýrra tíma eða stofustáss furðufugla?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar er girðingin?

Lögregla og almannavarnir hótuðu því um daginn að setja upp girðingu á Fimmvörðuhálsi. Ekki veit ég hvort hún er komin á staðinn eða hvort þessir aðilar hafi nú heykst á framkvæmdinni. Tel ég það líklegast.

Staðreyndin er bara sú að vilji einhverjir fara sér að voða á hrauninu þá gera þeir það hvort sem lögreglan eða björgunarsveitir eru að flækjast fyrir eða ekki. Það eina sem hægt er að gera er að upplýsa fólk, segja frá hættunni.

Svo væri ekki úr vegi að löggan tékkaði stöku sinnum á því hvort stútur sé við stýrið á Fimmvörðuhálsi.


mbl.is Fólk gengur á dúandi hrauninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert að marka hina háheilögu þrenningu

Lesendur hljóta að hrökkva í kút þegar þeir lesa um glæfraferð þeirra í BBC Top Gear. Hvar var lögreglan þegar þessir gæjar reyndu að keyra upp á hraunið? Hvar voru björgunarsveitirnar? Hvað voru almannavarnir að gera? Skyldi sýslumaður vita af þessu.

Og síðast en ekki síst hvar voru fréttamenn þjóðarinnar að gera og hvers vegna hefur ekki upphafist hneykslunarkór þeirrra yfir hegðun Bretanna?

Undanfarnar vikur höfum við lesendur fjölmiðlanna ekki komist hjá því að lesa um þá háheilögu þrenningu sem stjórnar gosinu, lögreglu, björgunarsveitir og almannavarnir. Þetta lið veit allt, kann allt og getur allt.

  • Mýrdalsjökull var lokaður vegna óveðurs en samt fékk Top Gear liðið að fara upp og ferðinn vestur á gosstöðvarnar tók tíu tíma.
  • Bannað er að fara nær gosstöðvunum en einn km en samt fékk Top Gear liðið að aka upp á heitt hraunið.
  • Björgunarsveitir eiga að passa upp á ferðamenn á Fimmvörðuhálsi og björgunarsveit var í för með Top Gear liðinu sem fékk að fara öllu sínu fram án þess að neinn segði múkk.
  • Í gær eða fyrradag reyndu nokkrir vitleysingar að ganga á nýja fellið og fjölmiðlafólkið hélt varla vatni yfir hneykslun sinni og kom því rækilega áleiðis til okkar, almennings.

Ljóst er af þessu að ekkert er að marka hina háheilögu þrenningu og vakt fjölmiðla vegna þess að augljóslega er ekki er sama Jón og séra Jón.


mbl.is Top Gear ók upp á heitt hraun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar eru myndirnar hans Ragnars?

Hver i ósköpunum er tilgangurinn með flugi Ragnars yfir gosstöðvunum ef ekki fást birtr myndir eftir hann í Mogganum eða mbl.is? Hann er einn fremsti fréttaljósmyndari landsins og aðeins örfáar myndir rata á vefinn.

Enginn annar fjölmiðill býður upp á ljósmyndara í heimsklassa. Er þá ekki ástæða til að nota myndirnar hans? Eftir hverju er verið að bíða?


mbl.is „Eins og 50 gamlárskvöld“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær segir stjórnin af sér? Svaraðu því maður!

Nei, við eigum ekki að kenna útlendingum um efnahagslegaar ófarir okkar eða bankahrunið. Munum að nú er eitt og hálft ár frá því þetta gerðist allt saman og hvernig er staðan hérna á landinu okkar:

  1. Verðbólgan er á uppleið
  2. Krónan er gjörsamlega verðlaus
  3. 16.000 manna eru atvinnulausir
  4. Þúsundir manna reiða sig á matargjafir í Reykjavík 
  5. Stýrivextir eru óviðráðanlegir
  6. Ríkisbankinn hirðir upp hvert fyrirtækið á fætur öðru
  7. Icesave málið er enn óleyst
  8. AFG neitar að aðstoða þjóðina
  9. Norðurlöndin hafa snúið baki við okkur
  10. Ríkið og stofnanir þess fá æ lakari einkunnir matsfyrirtækja

Það er alveg rétt sem ráðherrann Gylfi Magnússon segir, fátt er útlendingum að kenna. Hvernig stendur þá á því að staðan er jafnslæm og hún er. Hvers vegna þurfum við að sætta okkur við verðbólgu, ónýta krónu, gríðarlegt atvinnuleysi og svo framvegis?

Raunar getur mælskumaðurinn og ráðherrann vart litið glaður yfir farinn veg. Fyrir rúmu ári hrópaði hann manna hæst um nýtt Ísland. Fyrir vikið var hann kallaður í ríkisstjórn sem fagráðherra. Það segir nú sitthvað um hina ráðherrana. Hér er allt í niðurdrepandi vonleysi og framtíðin er ekki svo björt. Og þegar öllu er á botnin hvolft væri nú gott að fá svar ráðherrans við þeirri spurningu sem hvílir áreiðanlega á meirihlut þjóðarinnar:

Hvernær ætlar þessi stjórn að fara frá og eftirláta öðrum að stjórna landinu?

Ljóst er að núverandi stjórn hefur ekkert miðað þó svo að hún hreyki sér af því að loka fyrir nektarbúllur. Hún flækist fyrir öllu, uppbyggingu atvinnulífs, samningum við Breta og Hollendinga og ekki síst AFG. Traustið á ríkisstjórninni er ekkert, hvorki innanlands né utan. 


mbl.is Ekki vondum útlendingum að kenna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun iPad fylgja áskrift að Mogganum?

aaa.jpg

Þó Robert Murdoch sé tekinn að reskjast er hann enn vakandi yfir framtíð fjölmiðla. Hann er einn af þeim sem skilur að framtíð dagblaða er fólginn í rafrænni útgáfu þess. Pappírsútgáfan mun hverfa. Til þess er iPad líklega það besta miðillinn milli fréttamanns og lesanda. Til viðbótar er iPad bók, vafri, netpóstur og fleira og fleira. Ég bíð spenntur eftir að hann komi hingað til lands.

Ég er frekar lélegur spámaður en ég ætla hér að leyfa mér að halda því fram að innan tveggja ára verði að mestu hætt að prenta Morgunblaðið á pappír og flestir noti tæki á borð við iPad. Og það sem meira er iPad verði innifalinn í þriggja ára áskrift að Mogganum. 

Þegar sjónvarpsstöðin Stöð2 var stofnuð lagði hún í kostnað við að loka dagskrá sinni nema fyrir þeim sem gerðust áskrifendur. Þeir fengu í hendur tæki, svokallaðan afruglara, og þannig er það enn í dag. Núna finnst fæstum þessi tækni merkileg heldur grundvöllur fyrir rekstri sjónvarpsstöðvarinnar.

Núorðið telja flestir fram til skatts á tölvunni. Aðdragandinn hefur verið nokkur en nú má segja að skattframtalið í rafrænu formi sé afskapleg neytendavænt.

Tæknilega séð er ekkert því til fyrirstöðu að byrja strax með Moggann á iPad, hann er nú þegar til í pdf formati. Ég hef í líklega sex ár verið áskrifandi að netútgáfu Morgunblaðsins og myndi ekki vilja breyta því fyrir nokkurn mun.


mbl.is Er iPad bjargvættur dagblaða?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafa björgunarsveitir forvarnaráhrif?

Frasinn um sjúkdómsvæðingu þjóðarinnar er þekktur. Átt er við að eiginlega séu allir svo sjúkir að fara þurfi reglulega til læknis rétt eins og árlega er farið með bíl í skoðun.

Sama er með björgunarsveitavæðinguna. Síst af öllu skal ég gera lítið úr þörfinni á björgunarsveitum og vissulega hafa þær innt af hendi frábært starf. Hins vegar sé ég ekki þörf á gæslu við gosstöðvarnar. Langstærsti hluti ferðafólks kann að ferðast. Það er ekki lengur þannig að ferðalög að sumri eða vetri séu fyrir sérþjálfað lið.

Þróun í fatnaði hefur gjörbreytt öllu. Flísfatnaðurinn er þvílíkt undur að fátt kemst í hálfkvisti við hann. Skjólfatnaður er orðinn óskaplega sterkur og skórnir eru afar góðir og nota margir sömu skóna allt árið um kring, jafnt í snjó sem bleytu.

Mesta breytingin hefur þó orðið í hugarfari fólks. Gönguferðir á fjöll og lengri ferðir eru tómstundagaman þúsunda Íslendinga og þetta fólk kann að ferðast, nota áttavita eða GPS tæki, símar eru með í föt og nánast allir láta vita um ferðaáætlun sína fyrirfram.

Dettur einhverum í hug að þeir sem vilja leggja á sig allt að 30 km göngu til að skoða eldstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi kunni ekki til verka? Jú, auðvitað eru alltaf einhverjir innanum sem ekki kunna að ferðast. Slíkir eru ekki síst á vélknúnum ökutækjum. Réttlætir það að staðsetja björgunarsveitarmenn við gosstöðvarnar?

Óhöpp verða og björgunarsveitir geta ekkert við þeim gert. Það er fyrst þegar koma skal þeim sem lenda í óhappi til byggða að leitað er til þeirra. Forvarnaráhrif björgunarsveita eru einhver en þær koma ekki í veg fyrir óhöpp.

Niðurstaða mín er því sú að draga má gríðarlega úr þessari svokallaðri gæslu við eldstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi. Við eigum að geta treyst því að samfeðamenn eða nærstaddir hafi jafn góð áhrif á þá sem ekki kunna fótum sínum forráð eins og sjálfar björgunarsveitirnar. 


mbl.is Gæslan er kostnaðarsöm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mynd og myndatexti út í hött

moggi.jpg

Kona og karl eru urðu úti við Bláfjallakvísl. Gera má ráð fyrir að þau hafi villst inn á hálendið. Fjölmiðlar hafa flutt fréttir af leitinni af fólkinu og núna í morgun er sagt frá þessum hörmulega atburði á forsíðu Morgunblaðsins. 

Myndin og myndatextinn sem fylgir fréttinni er út í hött. Ekki þarf neina landafræðiþekkingu til að átta sig á því. Myndin er tekin af Eyjafjallajökli og horft er yfir Rjúpnafell í Þórsmörk og norðaustur yfir hálendið.

Emstrur eru illsjáanlegar á myndinni og alls ekki mögulegt að sjá Bláfjallakvísl. Og síst af öllu er landið þarna þakið hrauni og erfitt yfirferðar en það er fullyrt í myndatextanum. Þvert á móti eru landið mjög auðvelt yfirferðar, bæði fyrir gangandi og akandi. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband