Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010

Jörð skelfur ofan við Steinsholtsjökul

jar_skjalfti.jpgHvernig skyldi standa á því að flestir jarðskjálftarnir séu undir Steinsholtsjökli sem er líklega um sex kílómetra í beinni loftlínu frá gosstöðvunum á Fimmvörðuhálsi?

Raunar er ekki gott að staðsetja skjálftana á þessu litla korti en engu að síður hafa þeir verið þarna að langmestu leyti síðustu vikurnar. Án þess að hafa um það neina hugmynd um hvað ég er að segja hafði ég alltaf ímyndað mér að á þessum slóðum myndi verða eldgos ef af því yrði. 

Annars eru jarðfræðingar afar varkárir í opinberum yfirlýsingum rétt eins og aðrir fræðingar. Ástæðan er auðvitað sú að þeir menn dauðhræddir um að ekkert rætist sem þeir gerast svo djarfir að spá. En til hvers eru þessir færðingar ef þeir þora ekki að opna munnin nema um fortíðina? 

  • Jarðfræðingarnir segja: Ja, það gæti orðið gos en ef ekki þá gæti þessi órói haldið lengi áfram.
  • Veðurfræðingarnir segja: Ja, það gæti rignt, en ef ekki rignir þá gæti orðið bjart.
  • Stjórnmálafræðingarnir segja: Ja, flokknum gæti gengið vel en hins vegar gæti illa farið ef fáir kjósa hann. 
Niðurstaðan er bara eitthvað sem allir geta sagt sér. 

 


mbl.is Jarðskjálfti við gosstöðvarnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landsbyggðarskattur

Vegtollar inn og út af höfuðborgarsvæðinu eru ranglátir. Þeir beinast t.d. gegn landsbyggðarfólki sem leita þarf til höfuðborgarinnar. Vegtollar munu virka letjandi á ferðir íbúa höfuðborgarsvæðisin á landsbyggðina.

Sem sagt skattur á ferðir inn og út af höfuðborgarsvæðinu. Hvers vegna má þá ekki setja gjald á umferðina fyrst flestir greiða? Einfaldlega vegna þess að sumir eru nauðbeygðir að nota vegi, t.d. til að sækja sér þá þjónustu sem stjórnvöld bjóða aðeins upp á í Reykjavík. Aðrir hafa um það val hvort þeir fari yfirleitt út á landsbyggðina. 

Auðvitað er vegtollur ekkert annað en skattur. Og fyrir þá sem ekki vita þá er þegar lagður skattur á eldsneytisnotkun bifreiðaeigenda. Hins vegar eru skatttekjurnar notaðar í ýmislegt annað en vegagerð. Væri ekki nær að hætta að brúka þessar tekjur í annað en það sem kemur að vegamálum?

 


mbl.is Alfarið á móti vegtollum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kötlugos á nýju tungli eða fullu ...

Ég var inni í Básum þegar gríðarlega mikill jarðskjálfti reið yfir um kl. 6:10 þann 1. apríl. Stóri skálinn nötraði rétt eins og rúta hefði keyrt á hann. Við hrukkum upp enda öll í fastasvefni. Þegar svona gerist ímyndar maður sér að nú sé Katla farin að gjósa. En ekkert meira gerðist.

Síðar um daginn komu upplýsingar um stærð skjálftans og reyndist hann aðeins um tveir á Richter sem þykir nú yfirleitt ekki mikið. Hins vegar voru upptök hans beint fyrir neðan Bása. Þess vegna fannst okkur sem nýr Suðurlandsskjálfti hefði riðið yfir.

Gaman er að fylgjast með bollaleggingum fólks um Kötlugos. Klofningur hefur orðið í hópi glöggskyggna manna. Hluti þeirra heldur því fram að gos hefjist í Kötlu þann 14. apríl en þá kviknar nýtt tungl. Hinn hópurinn heldur að gosið hefjist þann 30. apríl en þá verður næst fullt tungl.

Ekki fæst þó upplýst af hverju ekki varð eldgos í Kötlu síðast þegar fullt tungl var, þ.e. 30. mars.

Persónulega held ég að líklega gjósi einhvern tímann í Kötlu. 


mbl.is Eldgosið í svipuðum farvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fleiri slys hljótast af hreyfingarleysi en fjallgöngum

Er gæsla björgunarstarf? Held að endurskoða þurfi orðtakanotkun björgunarsveita og almannavarna. Hins vegar er það rétt sem formaður Flugbjörgunarsveitearinnar á Hellu segir að Landmannalaugar hafi mikið aðdráttarafl en:  

Það svæði er jafn hættulegt hálendislega séð þó veður séu mest óútreiknanleg á Fimmvörðuhálsi þó víða væri leitað á landinu.

Engin ástæða er til að gæta að fjallaferðum landsmanna, fólk á að bera ábyrgð á sjálfu sér. Það sem bögglast fyrir mér í fréttinni er þó það hversu margir þurfi að skoða tiltekinn náttúruviðburð til að almannavarnarapparatið telji nauðsynlegt að passa upp á fólkið. 

Ég held að fjölmörgum sé eins farið og mér að hafa áhuga á að skoða eldgosið og aðstæður aftur og aftur. Vandinn er hins vegar ekki eldgosið sjálft heldur umhverfið og veðrið. Langflestir ferðamenn gera sér grein fyrir þessu og ferðast á öruggan máta.

Öðrum þræði er vandamálið fólgið í fréttaflutningi fjölmiðla sem upphefja gosið rétt eins og um skemmtiviðburð sé að ræða en ekki hamfarir. Að sjálfsögðu er erfitt að fara meðalveg í fréttaflutningi. Fréttamenn eru mannlegir og þeim þykir áreiðanlega jafn gaman að fara á Fimmvörðuháls eins og okkur hinum.

Að öðru leyti má rekja vandamálið til þess að sífellt stærri hluti landsmanna kann að ferðast og vill ferðast. Margir eru vanir ferðamenn á jeppum, vélsleðum og ekki síst gangandi. Fatnaður er allir svo góður að nær útilokað er að veður verði manni að fjörtjóni, kunni hann á annað borð að nota það sem hann á að hafa í bakpokanum. Hins vegar halda yfirvöld að meirihluti ferðamanna séu bölvaðir asnar sem kunni ekki að ferðast.

Fæstum ætti að þykja undarlegt að fólk vilji skoða eldgosið í návígi. Almannavarnir og björgunarsveitir ættu ekki að sjá ofsjónum yfir því. Að mínu mati eru fjallaferðir af hinu góða.

Guðmundur Einarsson frá Miðdal var frumkvöðull í nútíma fjallaferðum. Hann sagði í bók sinni um Fjallamennsku:

Fleiri og voðalegri slys hljótast af hreyfingarleysi en fjallgöngum. 

mbl.is Meta áframhald björgunarstarfs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gríðarleg landkynning ef af verður

Varla er það ofsagt að Top Gear er með skemmtilegustu þáttum í sjónvarpi. Bæði er að stjórnendur taka sig mátulega alvarlega og þeir eru að auki miklir húmoristar. Og klippingar og framsetning þáttarins gerir hann mjög líklega enn betri.

Þátturinn um ökuferðina á segulpólinn var frábær rétt eins og allir aðrir. Man einnig eftir þætti um ökuferð frá Saigon (eða Ho Chi Minh borg) í Vietnam og norður til Hanoi. Allt í einu fékk maður það á tilfinninguna að Vietnam væri mjög svo áhugavert land að heimsækja, einstakt landslag, mikill gróður og yndislegt fólk.

Þannig verður það áreiðanlega með þáttinn um eldgosið á Fimmvörðuhálsi, hann mun vekja athygli milljóna áhorfenda Top Gear og fá fjölmarga þeirra til að leggja leið sína til íslands. 


mbl.is Top Gear hyggst skoða eldgosið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Standa póstar vörð á gönguleiðinni?

Settir verða upp póstar við gönguleiðina frá Skógum og á Sólheimajökli til að tryggja að fólk fari ekki upp í óveðrið.

Er að velta því hvort fundin hafa verið ný verkefni fyrir bréfbera. Jafnvel kemur til greina að þarna sé póstur til nafngreindra eða ónafngreindra ferðamanna sem ætla upp, nokkurs konar póststöð. Hef samt enga trú á einhver hafi skilið eftir tölvupósta.

Þá kemur til greina að þarna hafi verið sett upp upplýsingaskilti með tilkynningum til ferðamanna. 

Að öllu athuguðu hlýtur orðalagi að eiga ættir sínar að rekja til almannavarna sem geta vart kom komið frá sér fréttatilkynningu á réttu máli hvað þá að landafræðin sé rétt. Hvað er eiginlega að gerast á þeim bæ?


mbl.is Björgunarsveitir á niðurleið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af veðri, sjónarspilum, vitleysum og mistökum

Norðaustanáttin er ekkert versta áttin á Fimmvörðuhálsi þó hún geti verið þung. Verst ef hann er af austri og sérstaklega af suðaustri. Þá magnast vindurinn upp Hálsinn og getur orðið svo mikill að vart er stætt. 
 
tveir_hraunstraumar_i_hvannargil.jpg
Ég hef haldið því fram að aðeins einn hraunstraumur hafi fallið ofan í Hvannárgil. Eftir að hafa skoðað myndir og kort hjá Jarðvísindadeild Háskólans hef ég komist að því að ég hafði rangt fyrir mér. Meðfylgjandi mynd sem ég tók án leyfis af vef stofnunarinnar sýnir þetta svo ekki verður um villst. Hún er tekin 28. mars.

Í stóra gilið hefur greinilega runnið hraun og ekki ber á öðru en glóandi hraunstraumur sé hægra megin við það.  

Inn á næstu mynd hefur hraunstrauminn verið teiknaður og er hann miðaður við 31. mars.

Sem sagt, ég hef stundum rangt fyrir mér og er alltaf mest hissa á því sjálfur. Aungvir aðrir.

tveir_hraunstraumar_i_hvannargil_c_978390.jpg

Svo ég beini nú athyglinni frá þessari vitleysu í mér þá vekur eiginlega mesta athygli sléttan sem hraunstraumarnir renna um á leið sinni ofan í Hvannárgil. Hún er að vísu ekki algjörlega slétt en látum það vera. Þarna má á næstu dögum búast við því sem fréttamenn kalla „mikið sjónarspil“ (þetta éta þeir hver upp eftir öðrum rétt eins og ekki sé hægt að lýsta einhverju náttúruundri á annan hátt). 

Haldi gosið áfram mun hraunið líklega renna æ meir út á sléttinu eftir aukist fyrirstaðan hraunrennslisins í austur. Verða þá þarna í hömrunum til fjölmargir hrikalegir fossar sem væntanlega munu gleðja augun, þau mannlegu og myndavélarinnar.  En það verður aðeins um stundarsakir.

100401_eldsto_var_978394.jpg

Fleirum en mér mun þykja mikill missir af Hvannárgili á þessum slóðum. Það er gríðarlega fagurt og tilkomumikið á köflum. Úthólmar eru einstök og viðkvæm gróðurvin og þar skammt frá stóð sérkennilegur sandsteinn fyrir nokkrum árum. Hann var nefndur Staupið vegna sérkennilgrar lögunar sinnar. Og svo hrundi hann enda efniviðurinn ekki upp á marga fiska.

Neðstu myndina tók ég að kvöldi 1. apríl. Á henni sjáum við þessa sléttu sem ég nefndi, og hamrana undir henni, ofan við Hvannárgil og Innra-Suðurgil. Af sléttunni hefur runnið bræðsluvatn undan glóandi hrauni. Á þessum slóðum mun hraunið svo taka renna einhverja næstu daga og það verður nú aldeilis „sjónarspil“.


mbl.is Óveður á gossvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smá hugleiðing um hraunrennsli

100401_eldsto_var_978255.jpg
Haraldur Sigurðsson jarðfræðingur heldur úti afskaplega fróðlegu bloggi um eldgosið á Fimmvörðuhálsi. Fyrir leikmann er afar fróðlegt að fræðast um jarðfræðina og eiginleika gossins.

Í dag sá ég að Haraldur birtir kort af útbreiðslu hraunsins og mynd þar sem hraunstraumurinn er teiknaður inn á hana. Það er Eyjólfur Magnússon hjá Jarðvísindastofnun Háskólans hefur gert. Staða hraunsins er miðuð við 31. mars kl. 12.   

Á kortinu segir að tveir hraunstraumar séu ofan í Hvannárgil en það er ekki rétt. Ég var utan í sunnanverðum Útigönguhöfðu að kvöldi 1. apríl og sá að á einum stað hafði runnið hraun. Hins vegar hafði greinilga runnið bræðsluvatn undan hrauninu og á nokkrum stöðum niður hamrana. Sjá meðfylgjandi ljósmynd.

Auðvitað gerði ég athugasemd við bloggið hans Haraldar og af ljúfmennsku sinni bendir hann á að líklega sé myndin og kortið byggð á radarmyndum. Það breytir auðvitað öllu. Radarinn nemur hitann og líklega hefur verið hiti í vatninu þegar Jarðvísindastofnunin skoðaði aðstæður.

100404_gos_kl_19.jpg

Ég held þó að brátt fari að renna hraun niður í Hvannárgil, bæði þar sem Eyjólfur nefnir á mynd og korti, og einnig víðar, s.s. ofan hamrana og einni inn í botn Innra-Suðurgils. Raunar sýnir meðfylgjandi mynd frá veefmyndavél Vodafone að mikinn gufumökk leggur upp rétt ofan við Innra-Suðurgil. Eitthvað er að gerast þar núna rétt fyrir kl. 19.

Verði svo styttist svo um munar sú vegalengd sem fólk þarf að ganga til að skoða ósköpin. Þá nægir aðeins að ganga í innan við klukkutíma að ágætum útsýnisstöðum ofan Votupalla sunnan við Bása.

Slæmu fréttirnar eru þær að eflaust mun bræðsluvatn úr Innra-Suðurgili verða svo mikið að Hvanná mun vaxa verði ófær og því illfært inn í Bása.

Að þessu sögðu vil ég endilega benda lesendum á bloggið hans Haraldar jarðfræðings, en það er á slóðinni http://vulkan.blog.is/blog/vulkan. Þar má fræðast t.d. um efnasamsetningu gassins sem úr eldgosinu kemur, gosssögu Fimmvörðuháls, ástæðuna fyrir því hversu hávaðinn er mikill í eldgígunum, tengslin við Kötlu og fleira og fleira.

Eftirfarandi þykir mér afskaplega athyglisvert hjá Haraldi:

Gosið er því á þessu stigi búið að “menga” jafn mikið af koltvíoxíði og eitt prósent af árslosun alls iðnaðar og mannlífs á  Íslandi.  En þetta er ekki mengun, heldur er náttúran sjálf að verki, og hún má gera allt.   Sennilega er magnið af brennisteini sem berst út í gufuholf frá gosinu svipað, eða um 50 miljón kg. Það kemur út sem SO2 gas, en myndar fljótlega örsmáar agnir  eða “ryk”  af H2SO4 brennisteinssýru sem svífa í loftinu. Að lokum falla agnirnar til jarðar sem “súrt regn”.  Hætt er við að bílar ryðgi nú fyrr á Suðurlandi  en á öðrum landshlutum, og ef til vill hefur súra regnið áhrif á gróður á meðan á gosinu stendur. 

mbl.is „Gosið enn í sínum ham“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð færð, ekkert í Hvanná og lítið hraunrennsli

Flott veður er á Fimmvörðuhálsi ef dæma má af vefmyndavélum Mílu og Vodafone. Í frétt á mbl.is hér áðan er því haldið fram að hraun renni ofan í Hvannárgil. Ég hef litla trú á því að hraunrennslið sé þar í einhverjum mæli. þá ályktun dreg ég einfaldlega af vefmyndavél Vodafone sem sýnir gosstöðvarnar frá Þórólfsfelli fyrir innan Fljótshlíð.
fra_orolfsfelli_m_ornefnum_978068.jpg

Hins vegar er erfitt að átta sig á fréttinni. Blaðamaðurinn talar um „bæði Hvannárgilin“.Ég velti því fyrir mér hvort hann eigi við það ónefnda afgil úr Hvannárgili sem ég hef nefnt Innra-Suðurgil vegna þess að það er innar en annað gil sem líka gengur til suðurs og sannarlega heitir Suðurgil.

Á myndinni sem hér fylgir með og fengin var fyrir nokkrum mínútum frá vefmyndavél Vodafone er ekki nokkra gufubólstra að sjá, hvorki úr Hvannárgili né Innra-Hrunárgili. 

Lyngt er nú á þessum slóðum og gosstrókurinn stendur beint upp í loftið. Vonandi átta lesendur sig á aðstæðum. Til vonar og vara set ég kortið með með tilgátu minni um stöðu hraunsins.

100404_kort_978067.jpg

Á vef Veðurstofunnar er getið um vöxt sem varð í morgun í Hvanná. Vöxturinn varð nú ekki meira en sem nemur tíu sentimetrum sem er afar lítið og ekkert merkilegra en gerist og gengur vegna sólbráðar að sumarlagi. Og iðulega er Hvanná því mórauð að sjá. Telst ekki til tíðinda. Hún má vaxa talsvert áður en hún verður ófær.

Þegar ég var inni í  Básum fyrir helgi og taugaveiklun greip lögreglu og almannavarnir var enginn vöxtur í Hvanná. Ég velti því fyrir mér hvort mælingin sé sjálfvirk eða einhver þurfi að ganga út að ánni og mæla dýptina með priki. Þar af leiðandi má velta fyrir sér hvaða forsendur stjórnvöld hafi fyrir sér um ástandið á Fimmvörðuhálsi eða hvort þeir sem um það véla hafa einhverja þekkingu á staðháttum. Af reynslu minni dreg ég það stórlega í efa.


mbl.is Óbreytt ástand á gossvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Birtið kort og mynd af þessari sprungu!

Er ekki gagnslaust að segja frá einhverri sprungu í jöklingum, jafnvel þó hún sé 600 m löng án þess að birta staðsetningu hennar á korti?

Mér finnst þetta ekki nógu góð fréttamennska. Sé komin sprunga á Morgunblaðið að krefjast þess af almannavörnum eða hvað þetta apparat heitir sem er að leika sér í voðaleik, að þær sýni hana á korti og ljósmynd. Allt annað er slöpp fréttamennska og enn lakari stýring á almannavörnum.

Svo er það álitaálið hvort um sé að ræða sprungu eða vatnsrás í ís? 


mbl.is Sprunga á útsýnissvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband