Getur sprunga opnast ofan Heljarkambs?

100409_mogginn_b.jpg

Ragnar Axelsson ljósmyndari á afar fallega mynd á forsíðu Morgunblaðsins í dag. Henni fylgir langur myndatexti en með smávægilegri villu.

Mogginn þarf endilega að taka upp á þeirri þjónustu við lesendur sína að segja þeim frá því sem á svona yfirlistmyndum er, greina frá staðháttum. Ekki er öllum ljóst hvernig landið liggur á Fimmvörðuhálsi eða annars staðar, jafnvel þó einhvern tímann áður hafi birst kort eða góð skýringamynd.

Ég tek mér nú það Bessaleyfi að birta þessa mynd Ragnars. Auðvitað hefði ég kosið að hún næði yfir aðeins meira svæði til vesturs, hægri. Þá sæjum við ofan í hið hrikalega Innra-Suðurgil.

Það sem merkilegast er við myndina er að hún sýnir hraunrennslið ofan í Hvannárgil og neðst í hrauntánni glittir í glóð. Áður var stór hvelfing þar undir sem hraunfossinn fellur. Ég á slides-mynd af henni og verð að muna að skanna hana inn við tækifæri.

Þarna í litla gilinu hefur hraunið safnast saman og ekki náð að renna neitt lengra. Hélt að það hefði nú náð niður í Úthólma. Þá erum við komin að þessu litla örnefni sem Mogginn fer rangt með í morgun. Úthólmar eru lítið svæðið í gilinu þar sem það opnast sunnan við Útigönguhöfða, rétt ofan við mót Hvannárgils og Innra-Suðurgils. 

Í Úthólmum er sumarfagurt. Þar skoppar Hvannáin tær og frískleg og talsverður gróður hefur náð að festa þar rætur. 

Um hvannárgil liggur gönguleið frá Heljarkambi. Hún var aldrei mikið farin en þó heillandi og skemmtileg, ekki síst fyrir þá sem voru búnir að fara nokkuð of oft hefðbundna leið af Fimmvörðuhálsi. Hvannárgilsleiðin var einnig hluti af skemmtilegum hringleiðum sem lagðar hafa verið á Goðalandi

Mér finnst spennandi að vita hvort hugsanlegt sé að hraun renni á næstunni ofan í Innra-Suðurgil. Í pælingum mínum þætti mér það hið besta mál enda nokkrum sinnum búinn að lenda í bölvuðum hrakningum í því gili. Ástæðan er þó önnur en persónuleg, því taki hraun að renna þar má búast við að lítið hraunrennsli verði þaðan og út í Hvannárgil fyrr en eftir langan, langan tíma. Svo kræklótt og erfitt er það í botninn. Á móti kemur að innst í þessu gili er nokkur jökull og þá má búast við miklum vatnavöxtum er heitt hraunið rennur ofan á hann.


mbl.is Hættur leynast við hraunbrún
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Takk fyrir þetta, ætla að geyma þessa mynd, mér finnst einmitt vanta svona.

Ásdís Sigurðardóttir, 9.4.2010 kl. 14:00

2 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Takk fyrir þennan fróðleik Sigurður.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 9.4.2010 kl. 17:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband