Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010

Hver er ábyrgð endurskoðenda?

Ekkert var rætt um ábyrgð endurskoðenda bankanna á kynningarfundi rannsóknarnefndarinnar í morgun. Liggur þó fyrir það sem segir frá í þessari frét mbl.is. Einnig sú fullyrðing að ársreikningar og ársfjórðungsreikningar bankanna gáfu ekki rétta mynd af t.d. eiginfjárstöðu þeirra.

Af fjölmörgu því sem fram kemur og á eftir að koma frá rannsóknarnefndinni er nokkur áhugi að sjá hver ábyrgð endurskoðendann sé. Minnt ber á örlög endurskoðendafyrirtækis orkufyrirtækisins bandaríska Enrons sem hreinlega fór á hausinn eftir að upp komst um svindl og svínarí í bókaldinu.


mbl.is KPMG með 36 „skúffufyrirtæki“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna skelfur jörð ofan Steinsholtsjökuls?

Enn minnir Eyjafjallajökull á sig og afneitar kannski króanum á Fimmvörðuhálsi. Nákvæmlega á þeim stað sem jarðskjálftinn var í morgun hafa verið gríðarlega margir jarðaskjálftar undanfarna mánuði. Þetta er nokkuð fyrir ofan Steinsholtsjökul.

Jarðfræðingar halda því fram að þarna hefði í raun eldgosið átt að koma fram en ekki á Fimmvörðuhálsi. Ástæðan er líklega sú að æðandi bergkvikjan leitar þangað upp þar sem bergið opnast fyrir henni og einhverra hluta vegna álpaðist hún upp á Hálsinum.

Sumir halda að gosinu sé því sem næst lokið á Fimmvörðuhálsi en jarðfræðingar benda samt á þá staðreynd þetta kunni aðeins vera hlé. Þannig var það í Surtsey fyrir, segja þeir.

Menn ættu ekki að vera of fljótir á sér að afskrifa eldgosið á Eyjafjallajökli eða Fimmvörðuhálsi, jafnvel í Kötlu. Afar berdreymin kona fullyrðir að á næstu tuttugu árum muni verða eldgos á Íslandi. Ég hef aldrei haft nokkurn snefil af spádómsgáfu en held því fram að það muni rigna af og til í Reykjavík næsta hálfan mánuðinn.


mbl.is Jarðskjálfti upp á 3,2 stig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnmálafræðingar koma í stað jarðfræðinga

Það er sko engin gúrkutíð í fréttamennskunni. Gosið á Fimmvörðuhálsi er í þann vegin að deyja út þegar skýrsla rannsóknarnefndar Alþingi er birt. Stríðsfyrirsagnirnar verða áfram á pappírsfjölmiðlum og veffjölmiðlum.

Jarðfræðingar, jarðeðlisfræðingar, veðurfræðingar og allir þessir fræðingar hafa haldið því fram að gosið geti verið í eina viku, tvær, einn mánuð eða tvö, eitt ár eða tvö, eina öld eða tvö. Katla gjósi eða gjósi ekki. Lögreglan, almannavarnir, björgunarsveitir hafa getað berað bringu sína og sagt okkur forvitnum áhorfendum að vera, fara, vera, fara, vera, fara. Þeir voru svo uppteknir við að passa okkur að þeir gátu ekki einu sinni andskotast til að setja búkka fyrir veginn upp í Emstrur. 

Núna eru vaktaskipti. Inná sviðið stíga stjórnmálamennirnir sem keppast við að endurritað fortíð sína og halda því fram að þeir hafi hvort tveggja gert, séð fyrir hrunið og varað við vondu köllunum. Vandamálið er bara að þeir eiga í smávægilegum vandræðum með að sanna það.

Í staðinn fyrir almannavarnir stígur rannsóknarnefnd Alþingis fram á sviðið og í fótspor hennar nefndin sem á að fatta upp á því hvað eigi eiginlega að gera við skýrsluna.

Í staðinn fyrir lögregluna koma fjölmiðlamenn, fæstir eru til að upplýsa okkur almúgann, heldur segja okkur hvaða skoðun við eigum að hafa. Svo kalla fjölmiðlamenn fjölmiðlamenn til ráðgafar, Egill Helgason býður fjölmiðlamönnum í viðtal og í síðdegisþáttunum bergmála fjölmiðlamenn fjölmiðlamenn. 

Og hverjir skyldu nú koma í staðinn fyrir jarðfræðingana, jarðeðlisfræðingana, veðurfræðingana og alla þessa fræðinga. Jú, stjórnmálafræðingarnir, sagnfræðingarnir og fjölmiðlafræðingar munu fylgjast með óróamælunum á sviði hins daglega stjórnmállífs. Þeir munu túlka skoðanir okkar almúgans hvort sem við viljum eða ekki og þeir munu halda því fram með vísun til kuklsins að við vitum ekki hvað við viljum.

Og hvað með okkur, hina sjálfskipuðu „sérfræðinga“. Jú, við tuðum og rífum bloggkjaft. Fjölmiðlamenn segja að bloggið leikið á reiðiskjálfi rétt eins og þeir töluðu um sjónarspilið á Fimmvörðuhálsi.

Svo hjaðnar þetta allt saman. Sérstakur saksóknari byrjar að ákæra vondu kallana, Icesave viðræðurnar byrja aftur, sveitastjórnarkosningarnar detta inn og atvinnulausir láta ríkisstjórnarómyndina segja af sér rétt eftir hvítasunnu. Svona líður tíminn og ég ... ég mun hringja í strákanna og við munum rölta upp á Fimmvörðuháls, míga á hraunið, skúra, raka, tína upp bjórdósir, þrífa Fimmvörðuskála, bæta olíu á hann og kannski ... kannski munum við ganga á skíðum upp á Eyjafjallajökul í vorblíðunni.

Svo gýs Katla kannski í haust ... segja stjórnmálafræðingarnir, nei ég meina hinir ...


mbl.is Eldgosinu að ljúka?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórn upptekin við aukaatriðin

Forsætisráðherra Íslands ritar langa (og millifyrirsagnalausa) grein í Fréttablaðið 9. apríl 2010. Þar hreykir hún sér af fjórtán verkefnum sem ríkisstjórnin hefur afrekað að klára.

Enn eru sextán þúsund manns án atvinnu á Íslandi.

Enn er verðbólagn á uppleið.

Enn er krónan verðlaus

Enn eru stýrivextir atvinnulýfinu óviðráðanlegir

Enn er Icesave málið óleyst

Enn bólar ekkert á aðstoð AFG

Enn snúa „frændur“ vorir á Norðurlöndunum baki við okkur

Enn fær ríkið og stofanir þess lökustu einkunni matsfyrirtækja

Og svo leyfir forsætisráðherra þjóðarinnar að hreykja sér af einhverjum endurbótum sem í sjálfu sér eru aukaatriði miðað við ofangreinda upptalningu. Þetta er eins og að námsmaður eyði tímanum í að laga til á skrifborðinu hjá sér þegar hann á að vera að læra fyrir próf.


Fúkki heitir skálinn vegna óþefsins

Legg til að allt verði gert til að ná fólkinu úr Fúkka. Skálin er afar ógeðfeldur vegna megnrar fúkkalyktar innan dyra. Enginn þarf að vera nema nokkrar mínútur þarna inni og leggst þá þessi ógeðfelldi þefur í öll föt. Má jafnvel finna hann löngu síðar þegar viðkomandi er kominn heim til sín.

Ég þekki Fúkka mjög vel og gisti oft í honum á árum áður. Hann var byggður af mikilli vankunnáttu. Svo þéttur er hann að enginn raki kemst inn nema í gegnum dyr og glugga. Og auðvitað kemst rakinn ekki heldur út og þess vegna fúnar skálinn innanfrá.

Þess ber auðvitað að geta að utan á Fúkka stendur hið opinbera nafn skálans. Hins vegar nota það nafn fæstir og flestir gæta sín á því að taka góðan sveig framhjá honum. Dæmi eru um að fólk sem lenti í hrakningum hér áður fyrr hafi leitað skjóls í kamrinum frekar en að fara í Fúkka.

Nú hefur Ferðafélag Íslands fengið Fúkka að gjöf frá heimamönnum og má gera fastlega ráð fyrir að hann verði rifinn og nýr og betri skáli byggður. Sá verður nefndur Ekkifúkki.


mbl.is Föst á Fimmvörðuhálsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skotar, lítið bara til íslensku ríkisstjórnarinnar

Hafa Skotar ekki tekið eftir íslensku ríkisstjórninni sem allt verður að féþúfu. Skattar hafa verið hækkaðir, neyslugjöld hækkuð og nú síðast er umferðamálaráðherrann að boða almennar njósnir á ökutæki og skattlagningu umferðar.

Þetta hlýtur allt að verða til eftirbreytni fyrir aðrar þjóðir sem leggja áherslu á félagslegt réttlæti og menningarlegan samjöfnuð svo ekki sé talað um samræðupólitík.

Svo má minna á samhæfingu aðgerða, inngöngu í ESB, bráðsnjalla leiðréttingu á kvótakerfi, stofnun ríkisbanka sem bjargar helmingnum af fyrirtækjum í landinu með því að kaupa þau, baráttu gegn atvinnuleysi með samræmdum aðgerðum sem munu áreiðanlega skila árangri og ekki síst baráttu gegn verðbólgu með því að draga úr neyslu með þvínguðum aðgerðum sem skilar sér í færri neytendum sem hafa sómasamlegt fé milli handanna.

Nei, kæru Skotar. You ain't seen nothing yet. 


mbl.is Skotar með ofnæmi fyrir Íslendingum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gönguleiðir sem eyðileggja landið

dsc00068_979922.jpg

Skil ekki þesa frétt: „... forða ágangi fólks um svæðið.“ Hvernig er hægt að forða ágangi? Er kannski átt við að takmarka ágang fólks um svæðið?

Stjórnmálamenn sem og almenningur má ekki missa stjórn á hugrenningum sínum. Áður en eitthvað er friðlýst verður að svara nokkrum spurningum. Til hvers er verið að friðlýsa? Hverju á friðlýsinga að skila.

Fjöldi staða og svæða víða um landi er í hrikalegu ástandi vegna ágangs ferðamanna. Nærtækast er að líta niður á Foldir, norðan megin við Fimmvörðuháls, á gönguleiðinni sjálfri. Meðfylgjandi myndir sem teknar voru sumarið 2007 sýna að ástandið var þá ekki gott, hefur versnað síðan, sérstaklega núna í mars og apríl og á eftir að versna eftir því sem kemur fram á sumarið.

Gönguleiðin upp með Heiðarhorni og á Morinsheiði er í hrikalegu standi. Væri ekki nær að líta til þessara atriða áður en farið að að friða gjósandi eldfjöll og iðandi hraun?

dsc00066.jpg

Ég hef margoft skrifað um þessi mál en veit ekki hvað á að gera til að ná eyrum ráðamanna. 

Gönguleiðin yfir Fimmvörðuháls er sú vinsælasta af lengri dagsferðum á landinu. Það er fínt. Gott að fólk kunni að meta þessa frábæru leið. Ekki minnka vinsældirnar vegna gossins. Vandinn er hins vegar sá að svo mikill ágangur skemmir landið, gönguleiðirnar stækka og breikka, vatn rennur í þær og dýpka, fólk fer úr gömlu förunum og við hliðina myndast nýjir og nýjir gönguslóðar.

Hvað er til ráða? Ekkert annað en að byggja upp gönguleiðir í halla, búa þar til palla eða grindur. Það hefur sýnt sig, t.d. í Strákagili og á Foldum að ekki þýðir að setja möl ofan í göngustígana. Mölin gengsst bara til, rennur undan hallanum og allt stefnir sem áður í óefni.

dsc_0122.jpg

Hvað skyldi umhverfisráðherrann vilja gera í þessu máli. Ég er handviss um að ferðafélagið Útivist myndi vilja leggja til sérþekkingu, mannskap og vinnu til að laga gönguleiðina svo fremi sem umhverfisráðherra myndi leggja til fjármagnið. Og það sem meira er, ég er handviss um að hundruðir sjálfboðaliða myndu vilja leggja á sig vinnu við lagfæringar á gönguleiðinni og það strax í sumar. 

Eða vilja menn sjá tug samliggjandi gönguslóða á viðkvæmu landi eins og myndin hér til hliðar ber með sér? Hún var tekin á Kili síðasta sumar, skammt sunnan Þjófadala.

 


mbl.is Gosstöðvarnar friðlýstar?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brókarsvifting í fárvirði á Fimmvörðuhálsi

mynd013_979881.jpg
Veður eru válynd á Fimmvörðuhálsi. Það vitum við nokkrir félagar afar vel. Höfum lent í mörgum hrakningum þarna uppi.
 
Hér á eftir fer lítil saga um neyðarlega hetjuför sögumanns. Tildrögin voru þau að hleri við útidyr á Fimmvörðuskála vildi ekki lokast. Eina ráðið virtist vera að fara út í brjálaða norðaustanáttina og reyna að þrýsta á hann. Að því loknu átti sögumaður að fara upp í stiga á austurgaflinum og smokra sér inn um glugga sem er þar uppi í rjáfri. En ekki fer allt sem ætlað er.
 
Vindurinn æddi með ógurlegum hvin og krafti upp bratta hlíðina upp á hálsinn þar sem Fimmvörðuskáli stendur. Ég stóð úti og reyndi að hreinsa frá efri dyrahleranum svo hann gæti lokast. Hann lokaðist - loksins. Ég stóð einn úti og hugsaði mitt ráð. Áður en ég fór út hafði ég sagt félögum mínum að ég myndi reyna að loka hleranum og koma síðan inn um efri gluggann á austurgaflinum. Frá því að við höfðum sammælst um þetta hafði heldur betur bætt í veðrið. Nú var varla stætt. 
 
mynd019.jpg
Og þar sem ég í senn barðist við að halda jafnvæginu og reyna að hugsa rann ég skyndilega til á klakabunkanum. Meðan ég reyndi að komast hjá því að detta dansaði ég ósjálfrátt og óviljugur að skálahorninu. Gerðist nú margt í sömu andrá. Vindurinn greip í mig, feykt undan mér fótunum og ég féll á kaldan klaka. Um leið og ég fann að ég var að fjúka greip mig fát og fyrir einhverja glópalukku náði ég taki á ísklumpi á grjóthleðslunni.
 
Þannig lá ég lá á fjórum fótum í stellingu sem oft má sjá múhameðstrúarmenn á bænastundum. Þá tók ekki betra við. Vindurinn náði að blása undir úlpuna mína að aftan og ég fann um leið að rennilásinn gaf eftir og rifnaði upp að framan og við það fauk úlpan upp fyrir höfuð, um leið losnuðu snjógleraugun og fuku út í veður og vind.
 
mynd027.jpg
Ósjálfrátt sleppti ég takinu á ísnum enda var flíkin ekki virðulega á mér, en um leið rofnuðu jarðtengsl mín. Ég fálmaði eftir einhverju til að halda mér í, náði í hurðarkarminn, en við það snerist ég á ísnum og þá náði vindurinn að blása niður í utanyfirbuxurnar og svipti þeim með snöggu átaki niður að hnjám. 
 
Ég sá nú sæng mína útbreidda, ef svo má að orði komast um aðstæðurnar. Ég flaggaði endilangur með buxurnar á hælunum og úlpuna yfir hausnum. Hugsunin var samt ótrúlega skýr og fannst að staðan væri langt í frá að vera virðuleg.
 
dsc00106.jpg
Einhvern vegin náði ég fótspyrnu og löturhægt mjakaði ég mér flatur að útidyrunum, - þetta tók allt heila eilífð. Ég dró til mín ísexina sem dinglaði í ól sem brugðið  var um annan úlnliðinn. Það var annars undarlegt að ég skyldi ekki hafa stórslasað mig á henni meðan á loftköstunum stóð. 
 
Hægt reisti ég mig upp á hnén og með erfiðis munum barði ég exinni í hurðina. Ég var móður og mér fannst verkefnið óvinnandi, en samt flísaðist úr hurðinni undan ísöxinni þegar ég barði aftur og aftur og í hvert skipti dró af mér mátt.  
 
Í huga minn skaut skyndilega upp þeirri hugsun að félagarnir væru farnir úr forstofunni og biðu upp á lofti eftir að ég sæist í gaflglugganum. Ég vissi að þangað myndi ég aldrei komast í veðurhamnum og vart sjást nema eitt augnablik, - það er að segja þegar ég fyki framhjá á leið minni ofan ofan í Þórsmörk.
 
hermann1-18.jpg
Skyndilega opnaðist hlerinn um nokkra sentimetra. Ég beið ekki boðanna heldur tróð mér í gegnum það bil með þeim síðasta krafti sem ég bjó yfir, slengdist yfir neðri hlerann og lenti á gólfinu, höfuðið fyrst en fæturnir festust undir hleranum, og við lá að Reynir, félagi minn, bryti þær til þess eins og losa mig, en inn komst ég allur.
 
Þetta var ekki venjuleg ferð á Fimmvörðuháls. Að vísu má alltaf búast við stormi, en vart svona miklum hamagangi sem ég upplifði þessar fimmtán mínútur, rétt fyrir hádegi þann 6. mars 1992. Brottförin tafðist í nokkra tíma vegna veðurs en svo lægði. Þegar vindurinn var kominn „niður“ í svona  á að giska 40 metra á sekúndu var hægt að leggja af stað niður af Hálsinum.
 
dsc00165.jpg
Annarri ferðinni upp á Fimmvörðuháls á árinu 1992 var lokið. Niðri á þjóðvegi litum við félagarnir upp til fjalla. Yfir hálsinum grúfði dimmur skýjabakki. Við vissum að ekki myndu margar vikur líða þar til við legðum í’ann aftur. Mánuði síðar vorum við aftur á ferð í sögulegri ferð. Þá tók gangan upp í Skála tíu klukkustundir, en upp komumst við eftir barning við vinda, þoku og myrkur.
 
En hvers vegna?  Af hverju geta þessir svona menn ekki haft það náðugt heima hjá sér fyrir framan sjónvarpið? Það er erfitt að skýra fíkn í fjallaferðir. Má vera að Guðmundur frá Miðdal hitti naglann á höfðuðið þegar hann sagði:
 
Það fólk, sem hefur þrek til að bjóða þægindastefnu nútímans byrginn og leita stælingar á sviðum hamfaranna, lætur eigi staðar numið við stuttar skíðaferðir og smá „göngutúra“, heldur gengur það tindana, hamarana, skriðjöklana, - lærir að klífa.
 
Frásögnin er af heimasíðu minni og er hluti af Grobbsögum af Fimmvörðuhálsi og ekkert víst að sagan sé sönn.
 
Myndirnar af Fimmvörðuskála tók sögumaður árið 2001. Tvær neðstu myndirnar tók Hermann Valsson í janúar 2008. Neðsta myndin er af hópnum sem fetar sig niðuraf Fimmvörðuhrygg, norðanmegin, í nær glæra skara, ekkert færi fyrir skíðin.

Suðaustanáttin er verst á Hálsinum

Á Fimmvörðuhálsi er núna suðaustan slagveðursrigning og jafnvel snjóar uppi. Þessi átt er sú alversta fyrir ferðir á Hálsinn. Vindinn legur upp með Skógaheiði og verður æ verri eftir því sem ofar dregur.

Við félagarnir höfum lent í svona veðri. Langur tími þar til við áttuðum okkur á því að þegar spáð var suðaustanátt var ástæða til að hætta við ferð á Fimmvörðuháls.

Hins vegar veit lögreglan á Hvolsvelli ekkert um þessar staðreyndir mála vegna þess að hún þekkir ekki Fimmvörðháls. Hennar verkefni er að loka, hafa vit fyrir fólki, jafnvel því fólki sem veit meira en hún. Það skiptir engu máli.

Finnur einhver neikvæðan tón í þessum skrifum? Sé svo er enn dálítil fýla í mér vegna viðskipta við lögregelumanninn í Básum þann 31. mars sl. Sérstaklega er ég fúll yfir því að hafa ekki fengið kæruna sem hann lofaði mér fyrir að hafa brotið gegn „reglum valdsstjórnarinnar“ um fjallaferð. Þetta gerðist þegar á einum hálftíma var ýmist opið eða loka fyrir ferðir úr Básum og lögreglumaðurinn gerði sér enga grein fyrir því hvar Húsadalur eða Langidalur eru. Engu að síður ætlaði hann, með skipun lögreglu og almannavarna á Hvolsvelli, að flytja mannfjöldann þangað, fólkið sem var í Básum og þá sem komu af Hálsinum.

Hann hélt því blákalt fram að öryggi fólks væri best borgið í Húsadal og þangað ætti að flytja fólk. Ekki vissi hann að þá þyrfti fólk að fara yfir Hvanná, sem búist var við að myndi hlaupa vegna vatnavaxta. Þegar honum hafði verið gerð grein fyrir því vildi hann að fólk færi í Langadal. Þá var honum sagt frá því að aka þyrfti yfir Krossá.

Líklegast sendi hann þessar upplýsingar jafnóðum til yfirboðara sinna sem vissu greinilega ekki heldur hvað ætti að gera. Get ímyndað mér handapatið í höfðustöðvunum þegar þeir sem ætluðu að bjarga okkur leituðu uppi landakort og reyndu að lesa í það - án árangurs.

Loks var öllum heimilað að fara úr Básum. Og núna, tíu dögum síðar, þegir lögreglan og almannavarnir yfir þessu klúðri. Mjög skynsamlegt af þeim.

Mér er svo sem alveg sama. Sakna bara kærunnar. 


mbl.is Ófært á gosslóðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kreppa kallast á við Bölmóð.

img_4454.jpgEgill Einarsson vinur minn og samferðamaður í ferðumá Fimmvörðuháls og víðar um áratugi vill að stóra fellið verði kallað Bratti af því að hann stendur við Bröttufannarfell. Minna fellið vill hann kalla Blossa.

Hann stóð aðeins um tvö hundruð metra frá sprungunni þegar hún opnaðist. Myndin sem hér fylgir með er af nýju sprungunni nokkurra mínútna gamalli.

Mér finnst þessi nöfn ekkert fjarri lagi. Auðvitað verður að taka mið af staðháttum.

Persónulega er ég hrifnastur af Kreppu nafninu. Það rímar svo skemmtilega við stóra gíginn sunnan á Hálsinum sem kallaður er Bölmóður. 


mbl.is Hraunið þekur 1,3 ferkílómetra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband