Mælar á Sprengisandi nema óróann við Grímsey

GrímseyFyrir leikmann er sú staðreynd einna merkilegust að áhrifa skjálftanna norðaustan við Grímsey gætir allt suður að Vatnajökli og jafnvel sunnar.

Stórmerkilegt er að óróamælar á Skrokköldu á miðjum Sprengisandi nema óhljóðin í misgengjum við Grímsey.

Fyrir þá sem ekki þekkja þá hefur Veðurstofa Íslands hefur sett upp tæki víða um land til að mæla hljóð sem koma úr jarðskorpunni en þau eru á tíðni sem mannlegt eyra getur ekki greint.

Hljóðin eru nefnd órói og er mæld í mælieiningunni Hz (Hertz). Óróinn verður til þegar til dæmis kvika þrengir sér upp í gegnum jarðskorpuna eða þegar jarðskjálftar verða og jafnvel kunna að vera fleiri ástæður.

SkrokkaldaBlái liturinn sýnir mjög lága tíðni og getur myndast vegna rennslis kviku.

Þessi hljóð berast hratt og mælast víða. Efsta myndin er frá óróamælunum í Grímsey. Samkvæmt þeim byrja skjálftarnir þann 14. febrúar og halda áfram fram á þennan dag. Ljóst er þó að úr óhljóðunum dregur enda fækkar skjálftunum.

Næsta mynd er af óróamælingunum við Skrokköldu á Sprengisandi. Mælingarnar eru nákvæmlega þær sömu og í Grímsey að því undanskildu að tíðnin er lægri, eflaust vegna fjarlægðar.

SvartárkotNæsta mynd er af óróanum sem mælarnir við Svartárkot í Bárðardal námu. Teikningin er því sem næst hin sama og á hinum tveimur.

Fleiri myndir úr óróamælum mætti birta en án efa eru jarðeðlisfræðingar mun betri að greina óróann en fávís leikmaður. Hitt er þó víst að jarðskjálftahrinan við Grímsey mælist víða. Þá hlýtur leikmaðurinn að velta því fyrir sér hvort skjálftarnir norðaustan við Grímsey geti raskað jafnvægi í sprungum fjarri upptökunum og jafnvel valdið kvikuhreyfingum.

Er til dæmis mögulegt að Kröflueldar taki að bæra á sér á ný eða aftur verði gos í Holuhrauni vegna þess að sjávarbotninn skelfur eitthundrað til tvöhundruð km í burtu?

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband