Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Málaliði Vesturverks reynir að fegra Hvalárvirkjun

kort VestfEr til of mikils mælst að þeir sem búa við allsnægtir höfuðborgarsvæðisins með örugga orku á lágmarksverði, fjölbreytta atvinnumöguleika og alla nauðsynlega innviði á sínum stað, standi með okkur Vestfirðingum í þeirri viðleitni að gera fjórðunginn okkar að sambærilegum búsetukosti og önnur svæði Íslands?

Af slíkum endemum skrifar Birna Lárusdóttir, upplýsingafulltrúi Vesturverks, sem á sér þá ósk eina að fá að reisa svokallaða Hvalárvirkjun og spilla þar með einu mikilfengnasta fossasvæði landsins. Grein birtist á síðu 30 í Morgunblaðinu, laugardaginn 9. júní 2018.

Málaliðinn

Þetta er ekki fyrsta greinin sem málaliði Vesturverks skrifar í Moggann. Í fyrri greinum reynir hún að gera lítið úr þeim sem unna landi sínu og vilja verja það fyrir ágangi virkjunarfyrirtækja. 

Ofangreind tilvitnun er innantóm tal. Reynt er að koma því að hjá lesendum að lífsgæði Vestfirðinga séu lakari en íbúa á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að Hvalárvirkjun vantar. Þetta er einfaldlega rangt. Vestfirðingar eiga kost á öllum þeim „allsnægtum“ sem aðrir landsmenn njóta. Ég hef búið á Ísafirði, að vísu í skamman tíma hef margoft ferðast um Vestfirði og tel mig þekkja þá nokkuð vel sem og mannlífið sem þar þrífst. 

Hvalárvirkju hefur enga þýðingu

Hvalárvirkjun hefur ekkert að gera með neinar framfarir í raforkumálum fyrir Vestfirði. Það sjá allir sem skoða kortið hér fyrir ofan. Takið eftir að raforkulínan frá fyrirhugaðri Hvalárvirkjun (sú bleika) tengist raforkulínunni í Kollafirði í Austur-Barðastrandasýslu. Svo merkilega vill til að þar um er fyrir línan frá hringtengingu landsins.

Af kortinu má draga þá einföldu ályktun að Hvalárvirkjun Vesturverks mun ekki hafa nein áhrif á raforkukerfið á Vestfjörðum umfram þá raforku sem kemur frá Kröfluvirkjun eða  Smyrlabjargarárvirkjun í Suðursveit, skammt frá Hornafirði. 

Í raun er það fáránleg röksemd að halda eftirfarandi fram en það gerir Birna Lárusdóttir, málaliði Vesturverks:

Nú hillir undir að langþráðar framfarir í raforkumálum og atvinnuuppbyggingu líti dagsins ljós á Vestfjörðum. Um það eru þeir sérfræðingar samdóma, sem hafa sett sig gaumgæfilega inn í það hvaða þýðingu Hvalárvirkjun, og nauðsynleg orkuflutningsmannvirki henni tengdri, munu hafa fyrir orkuöryggi og möguleika til atvinnusköpunar í fjórðungnum.

Þetta er þvílíkt rugl að tekur ekki nokkru tali. Vestfjörðum er ekki skömmtuð raforka. Þar er framleitt rafmagn og þeir fá það rafmagn sem þarf.

 

Hringtengingu vantar

Vandinn í landshlutanum er sá að þar er ekki hringtenging raforkulína. Rofni raflína á einum stað verður rafmagnslaust þar fyrir norðan. Hvalárvirkjun mun engu breyta um það.

Mesta framfaraspor í raforkumálum á Vestfjörðum er ekki Hvalárvirkjun, fjarri því, heldur hringtengingin. Punktur. Vanti eitthvað upp á allsnægtir á Vestfjörðum getur hringtengingin hjálpað þar eitthvað upp á.

Hvalárvirkjun er óþörf. Vesturverk leggur ekki krónu í raforkulínu frá virkjuninni í Kollafjörð. Ríkissjóði er ætlað að gera punga út fjórum milljörðum króna í verkið. Fyrir vikið er rafmagnssalan allt í einu orðin rekstrarlega hagkvæm. Einhver myndi nú kvarta ef fiskiskip með ríflegan kvóta ætlaðist til að ríkissjóður kostaði flutning aflans frá miðum og til lands.

Hvað er nú næst á dagskránni. Miðað við ómálefnalegan málflutning Birnu Lárusdóttur gæti ég nefnt virkjun Bjarnafjarðarár í samnefndum firði. Vatnsmikið fljót allan ársins hring. Sama er með Reykjafjarðarósinn, Þaralátursósinn og fleiri vatnsföll þar fyrir norðan. Ætlar Vesturverk að láta bara staðar numið með Hvalárvirkjun í þeim göfuga tilgangi að  tryggja allsnægtir, orkuöryggi eð atvinnusköpun á Vestfjörðum? Getur fyrirtækið ekki grætt á fleiri stöðum?

Skipulagsstofnun harðorð

Birnu Lárusdóttur, málaliða Vesturverks til upplýsingar, eru fleiri á móti Hvalárvirkjun en Tómas Guðbjartsson, læknir. Sá ágæti maður hefur verið afar duglegur að vekja athygli á fyrirhuguðum hryðjuverkum Vesturverska á landinu við Hvalá og Eyvindará. Hins vegar skrifaði hann ekki eftirfarandi fyrir Skipulagsstofnun:

Skipulagsstofnun telur að helstu umhverfisáhrif Hvalárvirkjunar felist í umfangsmikilli skerðingu óbyggðs víðernis og breyttri ásýnd fyrirhugaðs framkvæmdasvæðis og landslagi þess, þar sem náttúrulegt umhverfi verður manngert á stóru svæði.

Inngrip í vatnafar svæðisins verður mikið og mun rennsli í Hvalá, Rjúkanda og Eyvindarfjarðará minnka verulega og hafa áhrif á ásýnd vatnsfallanna, meðal annars fossins Drynjanda í Hvalárgljúfrum, fossaraðar í Eyvindarfjarðará, Hvalárfoss og Rjúkandafoss.

Samlegð með áhrifum fyrirhugaðrar háspennulínu yfir Ófeigsfjarðarheiði og mögulegrar Austurgilsvirkjunar á Langadalsströnd eykur enn á áhrif Hvalárvirkjunar á landslag og víðerni.

Og ekki heldur skrifaði Tómas læknir þetta heldur Skipulagsstofnun:

Áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á jarðmyndanir og gróður verða talsvert neikvæð þar sem umfangsmikið svæði verður fyrir raski.

Hvor er trúverðugri, hugsjónamaðurinn eða málaliðinn

Munurinn á Tómasi Guðbjartssyni, lækni, og Birnu Lárusdóttur, upplýsingafulltrúa Vesturverks, einfaldur. Sá fyrrnefndi er hugsjónamaður fullur eldmóðs um náttúruvernd. Sú síðarnefnda er ráðin til að tvinna saman sennilegar lýsingar á herferð Vesturverks gegn landinu.

Hvorum trúir þú ágæti lesandi, hugsjónamanninum eða málaliðanum?

 


Blaðamenn skrifa almennt of langar málsgreinar

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

Ekki til eftirbreytni

Enska fornafnið some getur bæði þýtt einhver og nokkur, m.a. Það hefur smitað okkur svo að við segjum iðulega „einhverjum árum seinna“ (nokkrum árum seinna), „þetta munar einhverjum milljónum“ (þetta munar milljónum), að ógleymdu „þetta eru einhverjir tíu menn“ (einir tíu eða um það bil tíu menn).

Pistillinn Málið á bls. 66 í Morgunblaðinu 7. júní 2018

 

1.

„Haf­ís og ís­jak­ar nálg­ast landið.“ 

Fyrirsögn á mbl.is.       

Athugasemd: Hver er munurinn á hafís og ísjaka? Jú, ísjaki flýtur á sjó eða vatni, jafnvel finnast þeir á þurru eftir að fjarað hefur undan þeim.

Má vera að þetta sé einhver hártogun. Hafís getur vissulega verið ísjakar og ísjakar hafís. Mér finnst hins vegar að nóg sé að segja að hafís nálgist landið. Þeir sem til þekkja og eru ekki börn, vita að á undan meginísnum reka ísjakar. Hvort tveggja er þó hafís, jafnvel þó að hann hafi brotnað úr jökli í grænlenskum fjörðum.

Tillaga: Hafís nálgast landið.

2.

„Ég gat ekki sofið þegar við vor­um í sund­ur,“ sagði Amal Cloo­ney í ræðu sinni um eig­in­mann sinni Geor­ge Clooney.“ 

Úr frétt á mbl.is.       

Athugasemd: Ég myndi ekki heldur sofa ef ég væri í sundur nema ef vera skyldi svefninum langa.

Bein þýðing gengur ekki alltaf. „When we were apart,“ er þarna þýtt, þegar við vorum í sundur. Þeir sem hafa einhverja tilfinningu fyrir málinu vita að þetta gengur ekki upp. Þó gerðist það oftsinnis á skóla- og sveitaböllum í gamla daga að fólk var rifið í sundur. Líklega hefur eitthvað annað verið í gangi þar en það sem Clooney konan á við.

Sundur er atviksorð og merkir stundum að taka eitthvað sem er eitt og gera að tvennu. Rífa í sundur, saga í sundur, slíta í sundur og svo framvegis. Á rómantískan hátt má segja að karl og kona (par) séu eitt en það er ekki svo þegar öllu er á botninn hvolft. Þegar þau eru ekki saman eru þau aðskilin (ekki þó skilin að borði og sæng eða lögum, sem þó getur verið).

Tillaga: Ég get vart sofið þegar við erum ekki saman, sagði Amal Clooney í ræðu sinni um eiginmann sinn, Georg Clooney.

3.

Tveir koma til með að starfa í alþjóðlegri stjórn­stöð lög­gæslu í Moskvu og þrír munu fylgja ís­lenska landsliðinu á þá staði sem Ísland kepp­ir á og fylgja rúss­nesk­um lög­reglu­mönn­um við eft­ir­lit í kring­um stuðnings­manna­svæði og leik­vang. 

Úr frétt á mbl.is.       

Athugasemd: Eitt af því versta sem ég verð fyrir í skrifum er nástaða orða, það er nálægð sömu eða skyldra orða. Má vera að einhver telji það nú óttalegan „kverúlantahátt“ að setja þetta fyrir sig. Stíll er þó alltaf mikilvægur. Gæti skrifari ekki að sér getur hann skemmt textann og um leið missir lesandinn áhugann og veit oft ekki hvers vegna. Athyglin hverfur.

Hér að ofan hefði blaðamaður auðveldlega getað komist hjá þessari nástöðu sem blasir við lesendum. Í fyrsta lagi er málsgreinin of löng.

Gott er að fylgja reglu Jónasar Kristjánssonar, fyrrum ritstjóra, sjá hér. „Settu punkt sem víðast,“ segir hann, og það ekki að ástæðulausu. Krakkar í blaðamennsku og jafnvel eldri jálkar eru margir of sparir á punkta. 

Svo er það nástaðan. Ég mæli með tillögunni hér að neðan. Sögnin að fylgja hefur ótvíræða tengingu áfram og óþarfi er að endurtaka hana.

Tillaga: Tveir munu starfa í alþjóðlegri stjórn­stöð lög­gæslu í Moskvu. Þrír munu fylgja ís­lenska landsliðinu á keppnisstaðina og verða þar með rúss­nesk­um lög­reglu­mönn­um við eft­ir­lit.

4.

Karol­ina varð af­skap­lega glöð þegar hún fékk frétt­irn­ar því hún sagðist hafa verið á leiðinni að kaupa miða fyr­ir sig og sína fjöl­skyldu og því ljóst að hún er búin að spara sér heil­mik­inn pen­inga.“ 

Úr frétt á mbl.is.       

Athugasemd: Frekar er þetta nú illa skrifað og af lítilli kunnáttu. Munum reglu Jónasar Kristjánssonar, að setja punkt sem oftast. Ekki reyna að teygja lopann, þá á skrifarinn það á ættu að lesandinn missi athyglina.

Í málsgreininni eru 35 orð, helmingi fleiri en ráðlagt er.

Jónas segir: 

Þú þarft að neyða þig til að skrifa stuttar málsgreinar. Þá hefur þú ekki pláss fyrir froðuna, orðtökin, klisjurnar og endurtekningarnar, sem þú mundir annars setja inn. Þessi regla hjálpar þér að fylgja öðrum reglum. Hún spúlar froðunni úr texta þínum.

Þessi regla er tær snilld, hvorki meira né minna. Blaðamaðurinn sem skrifaði ofangreinda tilvitnun hefði átt að þekkja hana. Þá hefði hann skrifað svipað eins og í tillögunni hér að neðan.

Loks má geta þess að í íslensku kemur afturbeygða fornafnið á eftir nafnorðinu. Það er fjölskylduna sína en ekki sína fjölskyldu. Hið síðarnefnda er undir enskum áhrifum.

Tillaga: Karol­ina varð af­skap­lega glöð þegar hún fékk frétt­irn­ar. Hún sagðist hafa verið á leiðinni að kaupa miða fyr­ir sig og fjöl­skyldu sína. Nú hefur hún sparað sér heil­mik­inn pen­inga.


Lýðurinn ákærir, dæmir og tekur af lífi ... en úbbs!

Hvar eru nú hælbítarnir sem reyndu að rakka niður æru Braga Guðbrandssonar með því að tengja hann við barnaníð og fleira ógeðfellt. Ég tek eindregið undir orð Ögmundar Jónassonar, fyrrum ráðherra og alþingismann, en hann segir meðal annars um mál Braga á vefsíðu sinni:

Á undanförnum mánuðum hefur Bragi Guðbrandsson, forstöðumaður Barnaverndarstofu (nú í leyfi), verið borinn þungum sökum í nokkrum fjölmiðlum og á Alþingi. Honum var gefið að sök að hafa gerst brotlegur við lög, farið út fyrir verksvið sitt og jafnvel lagst á sveif með barnaníðingi!

Núverandi félags- og jafnréttisráðherra fékk einnig sinn skammt. [...]

Stundin birti myndir og fyrirsagnir sem tengdu Braga Guðbrandsson illri meðferð á börnum og Kjarninn sagði á þá leið að nú væru allir raftar dregnir á flot til að verja spillinguna en einhverjir þingmenn stæðu sem betur fer í fæturna til að berjast gegn ósómanum. [...]

Ég minnist þess varla að eins hörð hríð hafi verið gerð að æru nokkurs embættismanns og æru Braga Guðbrandssonar í þessu makalausa máli.

Í þessu samhengi má nefna að hermt er að þingmaður hafi gengið svo langt að hafa samband við sendiráð Norðurlandanna hjá Sameinuðu þjóðunum til að vara við níðingnum í framboði!

En nú er kominn niðurstaða óháðrar rannsóknarnefndar. Og viti menn, sakborningurinn Bragi Guðbrandsson er að fullu sýknaður og hreinsaður af svívirðilegum áburði á hendur honum í svokölluðu Hafnarfjarðarmáli, sem sagt er hafa verið hið alvarlegasta í þeirri gagnrýni sem fram var borin á hendur honum og þar sem honum var ætlað að hafa farið út fyrir sitt verksvið sitt í trássi við lög.

Ásmundur Einar Daðason, núverandi félagsmálaráðherra, má einnig vel við una því hann hefur haldið hárrétt á málum samkvæmt niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar, með einni undantekningu þó. Og það er að hafa látið niðurstöður ráðuneytisins frá því í ráðherratíð Þorsteins Víglundssonar, standa óhaggaðar því í ljós kemur að þær voru settar fram að óathuguðu máli. Með öðrum orðum, ráðuneytið hafi verið búið að gera forstjórara Barnaverndarstofu að skotspæni áður en úttekt hefði farið farið fram. Auk þess hefðu stjórnsýslureglur verið þverbrotnar. Ráðuneytið fær almennt slæma útreið í skýrslunni og er legið á hálsi fyrir að hafa ekki rannsakað þau mál sem þar voru færð upp á borð áður en niðurstaða var fengin. Þetta þýðir að alrangt er hjá Þorsteini Víglundssyni, fyrrum ráðherra að í niðurstöðum ráðuneytisins hefði verið að finna lokapunktinn í málinu. [...]

Núverandi félagsmálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, hefur stigið afgerandi skref til að laga stjórnsýsluna og á hann fyrir það lof skilið. Hann hefur gert rétt í því að stíga upp úr gömlum hjólförum á þessu málasviði og horfa til framtíðar.

En nú þegar Ásmundur Einar og höfuðsakborningurinn Bragi Guðbrandsson hafa báðir verið „sýknaðir", hvað gera þá hinir sjálfskipuðu dómarar? Þar er ég til dæmis að tala um formann velferðarnefndar Alþingis (Halldóra Mogensen, pírati] sem hafði uppi stór orð; þingkonuna [pírati?] sem hafði samband við norrænu sendiráðin til að rægja íslenska frambjóðandann; sleggjudómarann, fyrrum félagsmálaráðherra, Þorstein Víglundsson, sem sjálfur situr uppi með svarta Pétur, fjölmiðlamennina sem átu upp allan áburðinn gagnrýnislaust og svo hina sem voru beinir gerendur í aðförinni.

Ætlar þetta fólk, hinir sjálfskipuðu dómarar, að biðjast afsökunar?

Gott hjá Ögmundi.

Hver er svo þessi sjálfskipaði baráttumaður fyrir „réttlætinu“ sem rægði Braga Guðbrandsson við norrænu sendiráðin. Var það annar pírati? Mikilvægt er að fá að vita hver ærumorðingi er.

Þetta á að kenna fólki að betra er að kynna sér málin áður en haldið er í öfgafulla „réttlætisherferð“ í anda Trump. Aldrei nokkurn tímann er skynsamlegt að skjóta og spyrja svo. Lýðurinn vill taka mann af lífi og þegar í ljós kemur að sá var saklaust segir það bara „úbbs“.

Fjölmörg dæmi eru um svona samantekin ráð að berja á einstaklingum í þjóðfélaginu, stjórnálamönnum, embættismönnum og einstaklingum sem fátt hafa til saka unnið. Enn og aftur hengir lýðurinn morðingja Lúkasar uppi í ljósastaur, en úbbs ... þarna ærslast Lúkas algjörlega ódauður.


mbl.is Verið „afskaplega sársaukafullt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margir halda með landsliðinu en er hægt að halda á móti því?

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

Gott mál

Íslenskan virðist hægt og bítandi vera að renna saman við hið alltumlykjandi tungumál ensku og æ oftar verður maður var við að fólk gerir ekki greinarmun á ensku orðalagi og íslensku. Fólk „tekur“ sturtu, svo dæmi sé tekið og fátt er eins óþolandi og þegar afgreiðslufólk segir „eigðu góðan dag“ í stað þess að segja einfaldlega „njóttu dagsins“ eða „hafðu það gott í dag“.

Úr pistlinum Ljósvakinn á bls. 34 í Morgunblaðinu 5. júní 2018. Höfundur er Helgi Snær Sigurðsson.

 

1.

„Halldór Orri Björnsson skoraði eina mark leiksins á 19. mínútu eftir að varnarmenn KA voru of lengi að stíga út á móti honum. Í raun hefði mátt flauta leikinn af þarna, enda fátt markvert sem gerðist eftir þetta.“ 

Úr frétt á bls. í íþróttblaði Morgunblaðsins 1. júní 2018.      

Athugasemd: Margir blanda sama tíðum sagnorða, þar á meðal ég. Í tilvitnuninni er sagt frá fótboltaleik sem er afstaðinn. Maður skoraði mark, greinileg þátíð. Varnarmennirnir „voru of lengi að stíga fram“, og þarna er sögnin í nafnhætti, sem auðvitað er ekki rangt.

Lítum aðeins nánar á þetta. Maðurinn skoraði af því að varnarmennirnir stigu ekki ekki nógu fljótt fram, vörðust illa eða voru of seinir. Hér eru sagnirnar í þátíð og því meira samræmi í frásögninni, sjá líka tillöguna hér fyrir neðan. Vont er ef skrifarar villast í tíðum svo úr verður barnsleg frásögn í þátíð og nafnhætti. Hér er ýkt dæmi tíðarvillu sagna. 

Jón kemur og vann til fjögur og fer þá og sést ekki meir.

Betra er að orða þetta svona: Jón kom, vann til fjögur, fór þá og sást ekki meir.

Stíll er gríðarlega mikilvægur svo skrif verði áhugaverð og þægileg aflestrar. Margs ber að gæta sem ekki liggur í augum uppi en sem betur fer er málið svo fjölbreytt að hver og einn getur mótað sinn eigin stíl, sé þekking og vilji til þess. Stílleysi er hræðileg algengt í blaðmennsku.

Að lokum má benda á ofnotkun ábendingarfornafna, vandi sem ég á oft í erfiðleikum með. Þau hafa oft ekkert gildi, skemma bara fyrir. Þar að auki eru þau oft rangt staðsett. Berum til dæmis saman tilvitnunina og tillöguna hér að neðan.

Af lestri greinarinnar virðist þó að ýmislegt markvert hafi gerst eftir að FH skoraði. Í fréttinni er sagt frá stórleik varnarmanns sem átti alls kostar við framherja KA, raunar svo að ástæða var til að geta um frammistöðu hans í fyrirsögn.

Tillaga: Halldór Orri Björnsson skoraði eina mark leiksins á nítjándu mínútu eftir seinagang varnarmana KA. Eftir markið hefði mátt flauta leikinn af enda gerðist fátt markvert það sem eftir lifði leiks.

2.

„Melania Trump fylgir eiginmanninum ekki á leiðtogafundina.“ 

Fyrirsögn á visir.is.      

Athugasemd: Orðaröð í íslensku fer oft eftir smekk þess sem skrifar og ekkert við því að gera nema þegar hún fer í bága við málkennd lesandans. 

Mér finnst ofangreind fyrirsögn ekki góð og vil hafa atviksorðið ekki á eftir sögninni. Þetta kann þó að fara eftir smekk hvers og eins

Tillaga: Melania Trump fylgir ekki eiginmanninum á leiðtogafundina.

 

3.

„Það er aðeins einn stuðningsmaður sem segist halda á móti Íslandi og það er Hollendingurinn.“ 

Úr frétt á visir.is.      

Athugasemd: Skringileg málsgrein. Hún ber blaðamanninum sem skrifaði ekki vel söguna. Sá er ekki stuðningsmaður íslenska landsliðsins sem heldur ekki með því, svo einfalt er það.

Ég held með Íslandi, segir einhver, en er hægt að „halda á móti íslenska liðinu“. Er þá ekki morgunljóst að hann heldur ekki með íslenska liðinu.

Til er orðasambandið að halda á móti. Þá er merkingin sú að styðja við, til dæmis að eitthvað falli ekki. Dæmi, ég held á móti svo bíllinn renni ekki niður brekkuna meðan þú setur hann í handbremsu.

Niðurstaðan er að þetta er barnamál, málfar sem spunnið er upp af þeim sem hefur ekki þekkingu á íslensku máli, er með takmaraðan orðaforða. Verst er þó að enginn les yfir hjá Vísi, enginn leiðbeinir blaðamanninum. Og hvernig á hann þá að geta bætt sig?

Annars er hér ágætt tækifæri til að upplýsa um leyndarmál. Þeir sem byrja  setningar eða málsgreinar á aukafrumlagi, til dæmis „það er …“ eru yfirleitt ekki góðir í skrifum. Nánar um þetta aukafrumlag sem oft er nefndur leiðindaleppur, sjá hér.

Tillaga: Aðeins einn segist ekki halda með Íslandi og það er Hollendingurinn.

4.

„Félagar hennar sendu frá sér neyðaróp eftir að konan slasaðist.“ 

Úr frétt á bls. 15 í Morgunblaðinu 6. júní 2018     

Athugasemd: Má vera að enginn munur sé á neyðarkalli eða neyðarópi. Hins vegar er löng hefð fyrir því að þegar haft er samband í gegnum talstöð er það nefnt kall, nafnorð dregið af sögninni að kalla. Þannig var það fyrir tíma gsm síma, stærri skip voru með loftskeytamenn, jafnvel flugvélar. Síðar komu talstöðvar í bíla og þá var sagt: Gufunes, Gufunes, R1456 kallar.

Í einhverjum hálfkæringi segir blaðamaður Morgunblaðsins að félagar konu sem slasaðist á norðanverðu hálendinu hafi sent frá sér neyðaróp. „Ó, gvöð“, gætu þeir hafa hrópað upp yfir sig er konan meiddi sig. Björgnarsveitir í Eyjafirði kunna að hafa haft opinn glugga, heyrt ópið og runnið á hljóðið og komið blesssaðri konunni undir læknishendur.

Hvað veit ég svo sem. Ég er bara lesandi og furða mig oft á Mogganum. Þar með er ekki sagt að ég geti ekki haft gaman af tilraunum blaðamanna til að þróa málið. Held samt að um ófyrirsjáanlega framtíð muni neyðarkall verða ráðandi og neyðaróp verði áfram haft um afmarkaðri hluti. Líklega fer best á því svo lesendur skilji við hvað er á sem raunar ætti að vera markmið ritstjórnarinnar. Því miður stendur hún ekki alltaf undir ábyrgð sinni.

Tillaga: Félagar konunnar sendu frá sér neyðarkall eftir að hún slasaðist.


Með endemum ómálefnaleg stjórnarandstaða

Mikið skrambi er ég feginn að Vinstri grænir eru í ríkisstjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum. Ástæðan er einfaldlega sú að nú er einum úrtöluflokknum færra í stjórnarandstöðunni. Flest af því sem Vinstri græni gagnrýndu undanfarnar ríkisstjórnir er þeim gleymt og grafið af því að ábyrgð fylgir valdastöðu en ábyrgðaleysi stjórnarandstöðu. Svona yfirleitt ...

Ég horfði á eldhúsdagsumræðurnar og fékk það á tilfinninguna að þingmenn væru orðnir óþreyjufullir að komast í sumarfrí. Sérstaklega var stjórnarandstaðan máttlaus og ... já, ég verð bara að segja það ... leiðinleg.

Oddný Harðardóttur, fyrrverandi ráðherra og formaður Samfylkingarinnar, er vel læs og það kom sér vel því hún hefði aldrei getað lært ræðuna sína, hvað þá að hún hafi trúað á það sem hún þó sagði, svo mikið hikstaði hún og hikaði við flutning hennar.

Píratinn með útlensku röddina, man aldrei hvað hann heitir, flutti afbragðsgóða ræðu um eitthvað sem enginn man lengur. Hann var hins vegar afar sannfærandi þó eldmóðurinn hafi nú ekki beinlínis lekið af honum.

Á tímabili varð mér starsýnt á forseta Alþingis sem um tíma sat fyrir aftan ræðumenn. Gat ekki betur séð en að Steingrímur J. Sigfússon dottaði. Má vera að verkjalyfin hafi bara farið svona illa í hann. Munum að maðurinn er stórslasaður og í fatla.

Fyrrum félagsmálaráðherra, Þorsteinn Víglundsson, hefur náð einstökum tökum á ræðumennsku þingmanna sem voru aldraðir er ég var á unglingsárum. Slík ræðumennska nefnist í daglegu talið „framsóknartal“ og hefur aldrei þótt skemmtilegt. Hæfileikar Þorsteins eru slíkir að jafnvel formaður Framsóknarflokks kemst ekki með tærnar nálægt því þar sem hann hefur raddböndin. Líklega sem betur fer! 

Af þeim stjórnarandstæðingum sem ég hlustaði á fannst mér þingmenn Flokks fólksins bera af. Formaðurinn flutti afar tilfinningaþrungna ræðu og var ég, Sjálfstæðismaðurinn, fyllilega sammála henni. Ólafur Ísleifsson, þingmaður og hagfræðingur, flutti einnig verulega góða ræðu. Ég er jafnan sammála Ólafi enda er hann gamall félagi í Sjálfstæðisflokknum. Lokaorð hans voru að þjóðin gæfi sjálfri sér fullveldisgjöf sem er vernd og eflingu íslenskra tungu með því að efla kennslu og rannsóknir. Mikið er ég sammála Ólafi.

Afsakið, ég veit ekki hvaðan Hanna Katrín Friðriksdóttir kemur. Hún er eins og flestir í þessum flokki einstaklega óáhugaverð og ómálefnaleg í málflutningi sínum. Sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að hún og félagar hennar voru fyrir átta mánuðum í ríkisstjórn. Þá gagnrýndi hún ekkert. Sat bara með hendur í skauti og lét sér líða vel.

Ótrúlegt hvernig þingmenn stjórnarandstöðunnar eru heilagir í málflutningi sínum og skiptir þá engu þó þeir hafi verið í ríkisstjórn áður og þá svikið og svindlað af vild. 


Hann undrar sig, aðrir vænast og konur ganga göngur

Eftirspurn

Fróðlegt:

Spurn þýðir tvennt: frétt, orðrómur og spurning. (En aldrei eftirspurn. Því á að segja eftirspurn eftir húsnæði t.d., ekki „spurn eftir“ húsnæði.) 

Talað er um að hafa eða fá spurn (eða spurnir) af e-u ellegar að manni hafi borist spurn(ir) af e-u. Það eru þá fréttir eða orðrómur. 

Úr dálkinum Málið á bls. 44 í Morgunblaðinu, laugardaginn 26. maí 2018.

 

1.

„Ætlaði að gera út um Foster með lygum.“ Fyrirsögn á visir.is.       

Athugasemd: Má vera að hér hafi slegið saman tveimur orðatiltækjum:

    • Að gera út af við einhvern, til dæmis skjóta hann.
    • Að gera út um eitthvað, til dæmis málin.

Fréttin fjallar um konu sem ber ljúgvitni gegn körfuboltamanni í því skyni að „eyðileggja feril leikmannsins“.

Hvort ofangreindra á nú við í þessu tilviki? Hugsanlega er blaðamaðurinn að þýða eftirfarandi en tekst það frekar óhönduglega þó hann eigi hrós skilið fyrir að reyna sig ekki við „f-orðið“ í enskunni: 

… she wanted to “f*** up his career …"

Af þessu má ráða að ljúgvitnið hafi ætlað að gera út um Foster með lygum sínum en ekki drepa hann

Tillaga: LeBron fékk klapp fyrir einstaklega gott minni.

2.

„Frammistöður hans verða að batna og í sannleika sagt þá geta þær ekki orðið verri en þetta,“ sagði Scholes við BT Sport eftir úrslitaleikinn.“ Fyrirsögn á visir.is.       

Athugasemd: Frammistaða er nafnorð í kvenkyni og er aðeins til í eintölu. Orðið lýsir því hvernig einhver stendur sig. Getur líka þýtt þjónusta, að ganga um beina. 

Blaðamaðurinn áttar sig ekki á þessu þegar hann þýðir frétt úr enskum fréttamiðli. Þar er fjallað um frammistöðu fótboltamanns og hefur sá ekki staðið sig vel í mörgum tilvikum. Enska orðið er líklega „performances“ sem blaðamaðurinn þýðir blint og þýðir ekki frammistöður. 

Síðar í fréttinni segir:

Paul Pogba vinnur ekki leiki upp á sitt einsdæmi og ekki Sanchez heldur.

Einsdæmi merki eitthvað sjaldgæft enda er orðið þannig samsett, „eitt dæmi“ um einhvern atburð. Það merki ekki að gera eitthvað einn og óstuddur. Þá er notað orðið eindæmi, gera eitthvað upp á sitt eindæmi, einmitt að gera eitthvað einn og óstuddur. 

Blaðamaðurinn ruglar þessum orðum saman sem er í raun afar algengt. Hann ætti þó að gera betur sem og stjórnendur fjölmiðilsins sem hann vinnur hjá. Þeir eiga að sjá sóma sinn í því að blaðamenn skrifi rétt. Metnaðurinn er því miður lítill, og fyrir vikið þurfa neytendur að sætta sig við skemmdar fréttir.

Tillaga: Frammistaða hans verður að batna og í sannleika sagt þá getur hún ekki orðið verri en þetta,“ sagði Scholes við BT Sport eftir úrslitaleikinn.

3.

„Gisti­húsið Foss­hóll, sem stend­ur á gil­barmi Skjálfandafljóts um 500 metr­um frá Goðafossi, hef­ur verið sett á sölu.“ Fyrirsögn á mbl.is.       

Athugasemd: Líklega stendur gistihúsið sem hér er nefnt á bakka Skjálfandafljóts, ekki á gilbarmi. Má vera að einhverjir séu því ekki sammála. Þó bratt sé ofan í fljótið, þrír til fimm metrar, er vart hægt að tala um gil á þessum slóðum, slík er breiddin.

Þegar nánar er að gáð segir í auglýsingu Höfða fasteignasölu: 

Gistiheimilið Fosshóll stendur við þjóðveg 1 við bakka Goðafoss í Skjálfandafljóti. 

Líklega hefur blaðamaðurinn breytt orðalaginu en ekki til hins betra.

Þetta leiðir athyglina að fasteignaauglýsingum sem oft á tíðum þyrftu að vera betur orðaðar. Fasteignasali sagði mér að betri sölur notuðu að fá fagmenn til að taka ljósmyndir og víst er að þær hafa batnað á undanförnum árum. Aftur á móti þyrfti einhver að lesa yfir texta sem fasteignasölurnar birta. 

Í auglýsingu Höfða um Fosshól segir meðal annars:

Staðsetning : Er við þjóðveg 1 á krossgötu við Sprengisandsveg.

Hvað skyldi nú krossgata vera? Þetta orð ætti að skiljast, jafnvel á íslensku. Cross roads, Kryds veje, Wegkreuz, korsvägar, encrucijada, svo maður slái nú um sig (með aðstoð Google Translate). 

Krossgötur nefnist sá staður er tvær eða fleiri götur skerast. Eintöluorðið krossgata er ekki til nema hugsanlega Krossgata og þá hugsanlega í Jerúsalem en þar þekkist „Via dolorosa“, vegur sorgar eða þjáningar.

Og eitt í lokin. Nú hafa fjölmiðlamenn hætt að segja og skrifa að hús eða eitthvað annað sé til sölu. Allt er nú sett á sölu. Þetta er miður, en ekki rangt. Lifi samt fjölbreytni í stíl og frásögn.

Tillaga: Gisti­húsið Foss­hóll, sem stend­ur við bakka Skjálfandafljóts um 500 metr­um frá Goðafossi, hef­ur verið sett á sölu.

4.

„Gylfi segist undra sig á þessu enda sé heimild til viðræðna og samninga við stjórnvöld alfarið í höndum miðstjórnar samtakanna en ekki forseta þeirra.“ Úr frétt á bls. 4 í laugardagsblaði Morgunblaðsins 26. maí 2018.      

Athugasemd: Maðurinn „undrar sig“ á einhverju. Þetta er ekki íslenskt orðalag, frekar úr norðurlandamálum. Á dönsku myndi fréttin eflaust byrja á þennan hátt: Gylfi undrer seg over det …

Á íslensku „undrar“ Gylfi sig ekki en hann gæti verið hissa og jafnvel hann undrist eitthvað …

Sögnin að undra er ópersónuleg (afturbeygða fornafnið sig fylgir aldrei). Nafnorðið undur er samstofna við wonder á ensku, wunder á þýsku og afleiddar sagnir af þeim.

Tillaga: Gylfi segist undrast þetta enda sé heimild til viðræðna og samninga við stjórnvöld alfarið í höndum miðstjórnar samtakanna en ekki forseta þeirra.

5.180528 vænast

„Sjálf­boðaliðar væn­ast svim­andi reikn­ings.“ Fyrirsögn á mbl.is.      

Athugasemd: Hér er verið að búa til orð sem er tóm vitleysa, en þó einhvern veginn barnslega einlægt. Einhver á Mogganum hefur rekið augun í rassböguna og breytt henni því þegar smellt er á fyrirsögnin breytist hún í þetta: 

End­ur­vinnsl­an krefst einka­rétt­ar til sorp­hirðu.

Líkleg vilja margir hafa þetta einkarétt á sorphirðu. Má vera að hvort tveggja sé rétt.

Líklega hefur blaðamaður Moggans, lengi búsettur í Noregi, gæti hafað skrifað fyrirsögnina. Einhver annar breytt henni en ekki klárað leiðréttinguna að fullu því upphaflegu fyrirsögnina er að finna á nokkrum öðrum stöðum.

Hvað er annars svimandi reikningur. Lýsingarorðið svimandi gengur ekki eitt og sér í þessu tilfelli, ekki frekar en hrópandi reikningur. Í fyrra tilfellinu mætti bæta við lýsingarorðinu hár og í því seinna óréttlátur. Þá fæst botn í hvort tveggja.

Sorglegt hvernig komið er fyrir Morgunblaðinu sem er þó að mörgu leyti skást íslenskra dagblaða. Málfræðin bögglast fyrir alltof mörgum blaðamönnum og fyrir vikið er skemmdum fréttum þröngvað upp á okkur lesendur, neytendur. Ef fréttir væru matur þyrfti að fjölga læknum á bráðavakt til að halda okkur á lífi.

Tillaga: Sjálfboðaliður búast við svimandi háum reikningi.

6.

„Gekk 125 km eyðimerk­ur­göngu í minn­ingu ar­ab­ískra kvenna.“ Fyrirsögn á mbl.is.      

Athugasemd: Hverjum dettur í hug að skrifa svona, að ganga göngu? Er til of mikils mælst að blaðmenn lesi yfir það sem þeir skrifa með gagnrýnum huga eða fái aðra til þess?

Mig grunar að þeir sem fá titilinn blaðamenn öðlist ekki sjálfkrafa himneskan skilning á réttu og röngu, jafnvel þó þeir haldi það sjálfir. Ofangreind fyrirsögn sannar það. Eiginlega þakkar maður fyrir að konan hafi ekki labbað eyðimerkurgönguna, eða labbað labbið.

Tillaga: Gekk 125 km um eyðimörk í minningu arabískra kvenna.


Tíu framboð sem alls ekki borgar sig að kjósa

Sautján framboðslistar hafa verið lagðir fram í Reykjavík vegna borgarstjórnarkosninganna. Helmingurinn á ekki nokkurn möguleika á að koma manni að. Þar af leiðandi er tómt rugl að kjósa þessa flokka. Þar að auki hafa fæstir á listunum látið borgarmál til sín taka.

Ég hvet fólk til að kjósa en ekki þessa flokka, með fylgja hlutfallstölur úr skoðanakönnun Fréttablaðsins sem birt var í gær:

  1. Ekki Íslensku þjóðfylkinguna, 0%
  2. Ekki Karlalistann, 0%
  3. Ekki Pírata, 10,3%
  4. Ekki Höfuðborgarlistann, 0,3%
  5. Ekki Sósíalistaflokkinn, 2,3%
  6. Ekki Borgin okkar Reykjavík, 0%
  7. Ekki Frelsisflokkinn, 0,3%
  8. Ekki Kvennahreyfingin, 1,9%
  9. Ekki Viðreisn, 6,2%
  10. Ekki Alþýðufylkinguna, 0%

Við vitum hvar við höfum þá sem bjóða sig fram á eftirfarandi listum:

  1. Sjálfstæðisflokkurinn, 26,3%
  2. Vinstri græn, 7,5%
  3. Samfylkingin, 32,1%
  4. Miðflokkurinn, 5,3%
  5. Flokkur fólksins, 3,1%
  6. Framsóknarflokkurinn, 3,6%

Enginn úr fyrri hópnum mun ná manni inn nema hugsanlega Viðreisn sem er með konu í fyrsta sæti sem aldrei hefur komið nálægt stjórnmálum og gataði eftirminnilega í viðtali í fréttum Stöðar2 í mars. Píratar fá slatta af atkvæðum en út á hvað veit enginn. Þetta eru bara krakkar sem aldrei hafa látið sig borgina nokkru skipta.

Seinni hópurinn hefur sýnt sig eftirminnilega og hefur sterkt bakland og þekkir til borgarmála og hafa unnið að borgarmálum meira eða minn.

Reynum að fá skýra og glögga niðurstöðu í borgarstjórnarkosningunum. Það gerist aðeins með því að kjósa stóru flokkana, ekki flokka sem hafa ekkert fram að færa.

 

 


Enginn efstu manna vinstri flokkanna býr í úthverfum

KortMér brá þegar ég sá meðfylgjandi kort. Það sýnir einfaldlega hvar efstu menn á listum Samfylkingar, Vinstri grænna og Pírata eiga heima. 

Þetta eru allt meira eða minna, og afsakið orðbragðið, miðbæjarrottur. 

Grafarvogsbúar, Breiðhyltingar, Árbæingar og fólk í Úlfarsárdal, ætlið þið að kjósa yfir ykkur fólk sem hefur enga hagsmuni á að sinna þessum hlutum borgarinnar?

Þrátt fyrir að nú séu fjórir flokkar í meirihlutasamstarfi í borgarstjórn virðist sami rassinn undir þeim öllum. Borgarstjórinn stjórnar þvert á flokka, hann er andlit meirihlutans.

Ekki er ekki furða þó þetta fólk geti hjólað allan ársins hring í vinnuna sína. Við sem búum í úthverfunum eigum þess ekki kost nema í undantekningartilvikum. Þeim er líka í nöp við okkur, við fyllum göturnar á morgnanna og seinni part dags og ábyggilega allt þar á milli.

sömu andlitinFormaður skipulagsnefndar vill ekki heyra á það minnst að byggðar séu mislæg gatnamót, enda er ólíklegt að hann hafi séð slík. Hann heldur því fram að það sé flökkusaga að þau geti dregið úr slysum. Hann nefnir það ekki að þau geti auðveldað umferð.

Vinstri meirihlutinn slátraði Sundaleið, akvegi yfir í Grafarvog. Fyrir að hætta við þá framkvæmd var samið við ríkisvaldið að peningarnir færu í Strætó. Ekkert breyttist við það, enn nota aðeins 4% íbúa þann samgöngumáta. Langflestir aka. Og til þess að koma okkur út úr bílunum er allt gert til að tefja fyrir akandi umferð. Ekkert má gera til að greiða fyrir akstri bíla. Svona nefnist einfaldlega svindl.

Kortið gerði Vilhjálmur Andri Vilhjálmsson, lögfræðingur.

Neðri myndin er af efstu mönnum Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna, raðað eftir stafrófi.


Fátt segir í fjölmiðlum um Píratann sem gerðist sósíalisti

kicked-in-buttUndarleg er þögnin sem ríkir um Birgittu Jónsdóttur, stofnanda og fyrrum þingmann Pírata og fleiri flokka. Hún er komin yfir í Sósíalistaflokkinn. Ekki Samfylkinguna eða Vinstri græna, nei, í gamaldags flokk sem kennir sig við úrelta hugmyndafræði.

Ríkisútvarpið þegir. Fréttablaðið þegir. Visir.is þegir. Stundin þegir. Dv.is þegir ... nei, afsakið, lítil klausa birtist á vefsíðunni í dag, sjá hér.

Eru þetta ekki samt stórmerkilegar fréttir. Forystumaður Pírata, fyrrum formaður flokksins og andlit hans í mörg ár er hættur. Auðvitað vita þeir sem fylgst hafa með að Birgittu var ýtt út úr forystu flokksins. Hún var talin og herská, andstyggileg og leiðinleg. Hún skyggði á aðra sem vildu baða sig í kastljósi fjölmiðla þegar stunduð eru asnaspörk.

angry_ass_2547955Henni var sparkað fyrir síðustu Alþingiskosningar og hún tók því ekki þegjandi þó lítið væri um það fjallað í fjölmiðlum. Það hentaði ekki pólitískri stefnumörkum fjölmargra fjölmiðlamanna að segja frá sprungum í Pírataflokknum.

Annað var uppi þegar fréttist að stjórnmálaflokkur sem síðar fékk nafnið Viðreisn var í undirbúningi og að honum stæðu flokksbundnir Sjálfstæðismenn, nokkuð þekkt nöfn, ætlaði allt um koll að keyra í fjölmiðlum. Samfylkingarliðið og Vinstri grænir sem starfa sem blaða- eða fréttamenn þóttust nú aldeilis komast í feitt.

Ekki minkaði Þórðargleðin þegar ljóst varð að fyrrverandi formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins gengu í Viðreisn. Þá gladdist fréttastofa Ríkisútvarpsins og fleiri fjölmiðlar hafa síðan átt margar gleðistundir.

Auðvitað er ekki saman að jafna Pírötum og Sjálfstæðisflokknum. Það er hins vegar stórmerkilegt að forystumaður Pírata, konan sem sagði flokkinn vera ópólitískan, hún fer í Sósíalistaflokkinn.

Þar með „faller brikkene på plass, eins og Norðmaðurinn sagði, og Íslendingurinn bætti við að þarna væri pússlið sem vantaði. Nú sést greinilega að Píratar eru ekkert annað en lið sem aðhyllist gamaldags hugmyndafræði sem vinsæl var í upphafi og fram undir miðja síðustu öld.


Þórður, of lítið og of seint

Ótrúlegt hefur verið að fylgjast með handarbaksvinnubrögðum sem einkennt hafa launamál einstakra starfsmanna í Hörpu. Enn ótrúlegra er að hinn mikli sómamaður, Þórður Sverrisson, skuli ekki hafa haft betri stjórn á málum, er hann þó stjórnarformaður. Hann hefði átt að vita betur en hleypa máli í þær ógöngur sem þær eru komnar í.

Við, almenningur, vitum fátt annað er að laun framkvæmdastjórans hafi verið hækkuð og svo lækkuð aftur. Stjórn Hörpu hefur haldið því fram að um hafi verið að ræða falsfrétt, launin hafi aldrei verið hækkuð.

Svo voru á þriðja tug starfsmanna látnir taka á sig launalækkun. Þórður, þú lætur ekki almenna starfsmenn taka á sig launalækkun. Þú umbunar þeim og færð meira út úr starfi fólksins.

Verst hefur þó verið að fylgjast með framkomu framkvæmdastjórans sem hefur líklega skort auðmýkt og vinalegra framkomu. Það kann ekki góðri lukku að stýra í þessu glæsilega húsi sem  á allt sitt undir meðlagi frá ríki og borg.

Og nú berast þær fréttir að stjórn Hörpu ætli að lækka laun stjórnarmanna. Svona látalæti eru gagnslaus. Þórður, þetta er of seint og skiptir ekki nokkru máli. Skaðinn er mikill og verður ekki afmáður með lækkun stjórnarlauna.

Hver sá eiginlega um almannatengslin fyrir Hörpu?


mbl.is Fallið verði frá hækkun stjórnarlauna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband