Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Árásarþoli, árásargerandi, nafnorðatuð og vistanir

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

1.

Guðbjörg lifði af leiktíðina með verkjalyfj­um.“ 

Fyrirsögn á mbl.is.      

Athugasemd: Fótboltakona átti í meiðslum og þurfti á lyfjum að halda til að geta spilað leiki. Samkvæmt öllu getur varla verið að hún hefði dáið án verkjalyfjanna.

Þar af leiðir að skárra væri að orða það þannig að hún hefði ekki haft það af án verkjalyfjanna. Þetta er svona mildilegra orðalag en að segja beinlínis að hún hefði dáið án þeirra. Efnislega þýðir þetta að hún hafi þraukað, haldið út leiktíðina með lyfjum.

Best af öllu hefði verið að orða þessa hugsun eins og segir raunar í fréttinni sjálfri og er í tillögunni hér fyrir neðan.

Á vísir.is er ágæt fyrirsögn með frétt um Guðbjörgu, hún er svona:

Búin að spila þjáð í meira en ár.

Lesandinn skilur þó strax að hafi konan notað verkjalyf hafi hún verið þjáð. Þar af leiðir að sú fyrirsögn er aðeins fyllri en hin.

Tillaga: Guðbjörg neyddist til að nota verkjalyf alla leiktíðina 

2.

Rúrik varð fyr­ir meiðslum.“ 

Fyrirsögn á mbl.is.      

Athugasemd: Er ekki einfaldara að segja að Rúnar hafi meitt sig frekar en að hann hafi orðið fyrir meiðslum. Hið síðara er skilgetið afkvæmi nafnorðatuðsins sem tröllríður íslenskum fjölmiðlum og á ábyggilega ættir  sínar að rekja til ensku. Ótrúlega margir greina ekki á milli íslensks og ensks orðalags heldur sulla saman eins og tungumálin séu eitt.

Höfum hugfast að íslenskan byggir á sagnorðum, enskan á nafnorðum.

Tillaga: Rúrik meiddist í leik

3.

Það var góð mæting á Kötluráðstefnu í Vík í Mýrdal 12. október.“ 

Dálkurinn Tungutak á bls 28 í Morgunblaðinu 3.11.2018.      

Athugasemd: Hér hefur stundum verið minnst á fyrirbrigði sem fræðingar í íslensku máli kalla aukafrumlag en er yfirlitt kallað leppur. Þetta er sá leiðinlegi og ljóti ávani að byrja setningar á fornafninu „það“ sem í flestum tilvikum er algjör óþarfi.

Skelfing leiðist mér leppurinn. Sjá skrif um hann hér og hér. Þar af leiðandi ætla ég ekki að fjölyrða um leppinn heldur biðja lesendur að bera saman ofangreinda tilvitnun og tillöguna hér fyrir neðan. Má vera að einhver hafi skoðun á samanburðinum.

Tillaga: Góð mæting á Kötluráðstefnu í Vík í Mýrdal 12. október

4.

Að því kom að reiðin bar hann ofurliði og hann klessti á vegg.“ 

Úr viðtali á bls. 17 í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 4.11.2018.     

Athugasemd: Ég skil ekki þessa málsgrein. Reynslulitlir blaðamenn skrifa stundum að ökumaður hafi klesst á bíl, stein eða vegg. Öllum getur orðið á og jafnvel sá ágæti blaðamaður sem skrifaði þetta en hann er meðal þeirra bestu á Morgunblaðinu.

Má vera að blaðmaðurinn hafi átt við að viðmælandinn hafi í óeiginlegri merkingu rekist á vegg, sálfræðilega séð. Sé svo hefði verið hægt að orða  þetta betur. Alltaf er gott að fá einhvern annan til að lesa yfir fyrir birtingu.

Tillaga: Engin tillaga gerð.

5.

Líkamsárás í Hafnarfirði.“ 

Fyrirsögn á visir.is.     

Athugasemd: Maður var laminn í Hafnarfirði, sparkað í annan í Reykjavík, kýlt í magann á öðrum á Selfossi og svo má upp telja barsmíðar sem fólk hefur fengið að kenna á’ðí fyrir einhverjar sakir eða jafnvel án saka. 

Sumir fjölmiðlamenn hafa komið sér upp skrýtilegu einkaorðalagi. Barinn maður hefur þannig orðið fyrir líkamsárás. Ugglaust er rétt með farið en af hverju er þá ekki sagt að maðurinn í Hafnarfirði hafi verið laminn, barinn eða sleginn?

Er líkamsárás orðið að einhvers konar veigrunarorði fyrir barsmíðar, kýlingar, spörk og annað álíka? Heldur blaðamaðurinn að lesandanum kunni að ofbjóða þessi orð.

Má vera að hið sama gerist þegar fyllibyttur og árásarlið er sett í fangelsi en blaðamenn kjósa að orða það þannig að slíkir hafi verið vistaðir í fangageymslu. Svo er stundum því bætt við að það sé gert „fyrir“ eða vegna rannsóknar málsins.

Telja blaðamenn að lesendur skilji ekki mælt mál? Skilningurinn eykst alla vega ekki við svona veigrunartalsmáta eða þegar fréttir eru skrifaðar á einhvers konar stofnanamállýsku. Mál þess sem lokaður er inni í fangelsi er alltaf rannsakað. Sumir eru beinlínis lokaðir af, settir í einangrun, til að þeir eigi ekki möguleika á að sammælast við aðra um gjörðir sínar og jafnvel spinna upp sennilegar sögur. Þetta vita allir og þarf ekki að bæta því við að innilokunin sé „fyrir“ eða vegna rannsóknar málsins. Hvaða kjána datt það í hug að lesendur fjölmiðla séu heimskir?

Betur fer á því að kalla hlutina sínum réttu nöfnum. Lögreglan grípur mann sem hefur barið annan og setur í fangelsi. Þjófurinn fer sömu leið. Hverjum datt í hug að þetta væri einhvers konar vistun sem er orðið að „veigrunarorði“. Mannskrattinn var læstur inni í fangelsi. Punktur. Má næst búast við því að misyndismenn sem gripnir eru við glæpsamlega iðju sína fái dvöl í herbergi á lögreglustöð. Gáfumenn í blaðamannastétt myndu ábyggilega kalla það herbergisdvöl eða hvíldardvöl.

Maður var handtekinn vegna líkamsárásar og var settur í herbergisdvöl á lögreglustöð.

Í ofangreindri frétt á Vísi er fórnarlambið, sá sem var barinn („varð fyrir líkamsárás“) kallaður árásarþoli. Hafa lesendur heyrt annað eins? Sem betur fer var sá sem barði hinn ekki nefndur árásargerandi.

Og gullkornin eru fleiri. Í sömu frétt er sagt frá því að maður hafi stolið jakka á veitingahúsi. Blaðamaðurinn orðað það svo barnslega fallega:  

… gestur veitingahússins sagði að erlendur ferðamaður hefði stolið jakkanum sínum ásamt öllu því sem hann geymdi í vasanum.

Má vera að þjófurinn [stuldargerandinn) hafi stolið úr buxnavasa „þjófnaðarþolans“ eða var bara einn vasi á jakkanum?

Í niðurlagi fréttarinnar segir hins vegar að þjófurinn hafi komið aftur á veitingahúsið. Og blaðamaðurinn skrifar, enn svo barnslega einlægur:

Maðurinn reyndist vera með umræddan jakka í fórum sínum en munir voru aftur á móti horfnir úr jakkanum.

Já, jakkinn var í „fórum“ mannsins, hann var ekki í honum en … munirnir úr vasanum voru ekki í jakkanum.

Og hvað skyldi nú hafa verið gert við „þjófnaðargerandann“? Jú, rétt til getið. Hann var „vistaður í fangageymslu lögreglu“. Hvað annað gat gerst en vistun.

Tillaga: Maður sleginn í Hafnarfirði.


Upptök skjálftans eru við gíga Ögmundarhrauns

181028 MóhálsadalurJarðskjálfti varð rétt við Djúpavatn í Móhálsadal á Reykjanesi rétt fyrir klukkan 11 í morgun. Staðurinn sést á myndinni en hún er fengin af vef Loftmynda. Hægt er að smella á myndina og þá stækkar hún.

Skjálftar upp á þrjú stig er nokkuð algengir á Reykjanesi þó oftast séu þeir minni.

Þar sem jarðskjálftinn varð í morgun eru stórkostlega fallegir gígar. Þarna gaus árið 1151 á um 25 km langri sprungu í dalnum og hún náði norður í Kaldársel. 

Merkilegt er að úr sprungunni runnu tvö hraun, annað til suðurs og til sjávar og hitt til norðurs og til sjávar í Straumsvík.

Ögmundarhraun heitir hraunið sem rann til suðurs og líklega yfir víkina sem hét Krísuvík. Gígarnir sást greinlega á myndinni.

Kapelluhraun rann úr gígum við Undirhlíðar, skammt norðan við Sveifluháls, og í tiltölulega mjóum farvegi til sjávar í Straumsvík. 

Við Djúpavatn hafa ekki verið margir jarðskjálftar síðustu mánuðina. Mun fleiri eru á sunnanverðum Sveifluhálsi og í Kleifarvatni.


mbl.is Snarpur jarðskjálfti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vígin í Vís, hnefaleikar í beinni útsendingu

Hvernig má það vera að viðskiptavinir Vís hafi geð í sér til að vera peð í hráskinnaleik stóru hluthafa félagins. Þeir berast á banaspjótum, reyna með öllum ráðum að komast yfir hluti í félaginu og klekkja um leið á hinum, óvinunum. Allur er leikurinn gerður til að komast í lykilaðstöðu til að hagnast sem mest á eign sinni. Hagur viðskiptavina og starfsmanna er seinni tíma vandamál séu þeir á annað borð einhvers virði í þessu stríði.

Forstjóri sem er nokkrum hluthöfum þóknanlegur er ráðinn en líftími hans líður snögglega undir lok þegar aðrir bindast samtökum um stjórnarkjör. Þá er valinn nýr stjórnarformaður, „gamli“ forstjórinn rekinn með alvarlegum afleiðingum fyrir fjölda annarra starfsmanna.

Þannig er baráttan rétt eins og þar sem banvænum vopnum er beitt líkt og gerðist í heimsstyrjöldunum báðum. Stríðandi herir etja hermönnum sínum í sókn, vinna landsvæði til þess eins að hörfa aftur. Eftir liggur svo valurinn. Þannig er vígvöllurinn í Vís, valurinn er starfsfólkið og viðskiptavinirnir.

Undir alls kyns yfirskini er barist um yfirráðin í Vís. Svokölluðum hagræðingum er beitt til að hámarka tekjurnar, Ebitan skiptir meira máli en starfsfólkið. Hagnaðurinn er aldrei nægur.

Sá tími er liðinn er góðu kapítalistarnir ráku fyrirtækin, þeim var umhugað um velferð starfsfólksins og orðsporið. Hinn nýríki hugsar allt öðruvísi, honum er árans sama um allt nema arðinn sem aldrei er nægur.

Nú er barist um Vís en viðskiptavinir og starfsfólk gleymist í baráttunni, vita lítið hvað er að gerast eða hvers vegna yfirleitt er barist. Og enginn nema innvígðir þekkja nöfnin á þessu fólki sem stundar slagsmál um hlutabréf fyrirtækisins. Þetta eru vofur sem vaða um íslenskan markað í leit að snöggteknum gróða.

En ágæti lesandi, fyrirtæki sem logar í óeirðum eigendanna er ekki þess virði að skipa við hvað þá að starfa þar. Og við hin stöndum utan við þetta allt saman og horfum forviða á atburðina rétt eins og þeir séu hnefaleikakeppni í beinni útsendingu.

Hver kýlir svo hvern og hvenær.


mbl.is Fjögur átakaár hjá VÍS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málvillan á strætisvagninum

IMG_6124Kostnaður Strætó bs. við að heilmerkja einn strætisvagn er 500.000 krónur auk virðisaukaskatts. Þá kostar 33.500 krónur auk virðisaukaskatts að slagorðamerkja hvern vagn fyrirtækisins.

Svo segir í frétt í Morgunblaði dagsins. Þetta er dýrt og því mikilvæg er að vel sé vandað til merkinga og ekki síður að málfarið sé rétt. Er annars vandað til verka?

Nokkuð langt er síðan ég tók eftir því að á einum strætisvagni stendur svart á hvítu gulu:

Besta leiðin til að smakka ísinn í öllum 31 ísbúðum bæjarins.

Enginn segir: ... í öllum þrjátíu og einni ísbúðum bæjarins.

Ekki heldur ... í þrjátíu og einum ísbúðum bæjarins. Hvort tveggja er rangt.

Reglan er þessi: Síðasti hluti töluorðsins ræður beygingu.

Sagt er að ísbúðir bæjarins séu þrjátíu og ein, 31. Þar af leiðir að eftirfarandi er rétt:

Besta leiðin til að smakka ísinn í öllum 31 ísbúð bæjarins. Það er ... í öllum þrjátíu og einni ísbúð bæjarins.

Fjölgum ísbúðunum um eina. Þá er ekkert að og skiptir engu hversu margar ísbúðirnar eru. Aðeins talan einn, 1, breytir fallinu á ísbúð ekki hinar.

Besta leiðin til að smakka ísinn í öllum 32 [33/34/35/36/37/38/39/40/42] ísbúðum bæjarins.

Vandinn hér fyrir ofan  liggur í því að þeir sem halda á penna vilja sumir hverir nota tölustafi í stað þess að skrifa tölurnar. Víða í rituðu máli fer miklu betur á hinu síðarnefnda.

Sögnin að smakka er fyrir löngu búin að fá þegnrétt í íslensku máli og ekkert lengur við því að segja. Hins vegar er víst að textagerðarmenn með góðan smekk hefðu notað í staðin sögnina að bragða.

Nú er ég enginn sérfræðingur í íslensku máli og þess vegna velti ég því fyrir mér hvers vegna hefur enginn gert athugsemdir við málvilluna á strætisvagninum? Annað hvort nennir enginn að leggja orð í belg eða þá að enginn tekur eftir þessum slagorðum. Hvort er nú verra?

Verst er að auglýsingastofan sem sá um að safna saman slagorðum á strætisvagna hefur ekki algjörlega staðið sig. Eftir stendur þessi spurning: Er kostnaður vegna auglýsingastofunnar tekinn með í reikninginn eða kostaði slagorðamerkingin á hvern vagn ekki 35.000 krónur heldur 55.000?


Bifreiðamalarbílastæðisplan ... stæði

Bílaplan sem lagt er möl kallast í frétt á mbl.is malarbílaplan. Skrýtnir menn velta því fyrir sér hvort það sé rangnefni og planið eigi að kallast bílamalarplan. Enn skrýtnari menn myndu kalla fyrirbrigðið bílamalarbílaplan, samanber bílaleigubíll.

Hreintungumenn freistar þá til að hnýta í orðið plan, sem þó er fullgild íslenska, og kalla malarborið bílastæði malarbifreiðastæði eða jafnvel bifreiðamalarstæði.

Virkir í athugasemdum sem yfirleitt eru hvorki skrifandi né hugsandi myndu ábyggilega velja orðið malarplanbílastæði eða bílastæðismalarplan.

Hér má spyrja hvort bílar mali og þá um leið hvort þeir mali plan og hvað skyldi svoleiðis nefnast? Jú, vissulega mala góðir bílar, stundum blíðlega eins og allir bílaáhugamenn vita. Í gamla daga stóðu leigubílar í röðum á bílastæðum og margir þeirra voru hafðir í gangi, þá möluðu þeir á plani. Tilgangurinn var sá að þegar kallið kom hlupu bílstjórarnir út og þurftu ekki að hafa fyrir því að starta. Þetta var auðvitað löngu fyrir þá tíð að útblástur bíla þótti hættulegur. „Ilmurinn“ úr púströrinu þótti beinlínis indæll rétt eins og margir aldraðir fullyrða. 

Hins vegar mala bílar ekki möl, til þess eru önnur tæki.

Yfirleitt er það þannig að sá staður er margir bílar standa er sjaldnast kallaður annað en bílastæði. Fágætt er að bílum sé lagt á bílaplani.

Nú er hugsun mín tekin að verða ærið þokukennd og þess vegna er skynsamlegra að láta hér staðar numið og óska eftir tillögum frá lesendum. Er þetta rétt á mbl.is eða hvað heita þeir staðir er bílar eru geymdir á möl. Kostirnir eru eftirfarandi:

  1. Malarbílaplan
  2. Bílamalarplan
  3. Bílamalarbílaplan
  4. Malarbifreiðastæði
  5. Bifreiðarmalarstæði
  6. Malarplansbílastæði
  7. Bílastæðismalarplan
  8. Malarplanbifreiðastæði
  9. Bifreiðastæðismalarplan
  10. Bifreiðamalarbílastæðisplan

Detti lesendum önnur orð í hug eru þeir hvattir til að koma þeim hér á framfæri. Þetta er sko þjóðþrifamál.

Brýnt er að sem flestir leggi orð í belg svo síðasta malarplansbifreiðastæðið fái nú eitthvurt nafn áður en öllu er lokið, hið síðasta hverfi undir malbik.


mbl.is Síðasta malarbílaplanið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Salerni sem fríka, margir meirihlutar og horn Mörkarinnar

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

1.

En hið sögulega við tap flokksins er það að hann getur ekki lengur myndað einn meirihluta í fylkinu eins og hann hefur getað í nærri sjö áratugi.“ 

Forystugrein á bls. 18 í Morgunblaðinu 16.10.2018.     

Athugasemd: Hér hefur eitthvað skolast til. Höfundurinn á varla við að hægt sé að mynda fleiri en einn meirihluta í Bæjaralandi. Hægt er að orða þetta betur og jafnframt einfalda framsetninguna, draga úr málalenginu og komast hjá nástöðu.

Síðar í sömu grein segir:

Merkel kanslari virtist ekki ætla að taka úrslitunum í Bæjaralandi blindandi, þótt umfjöllun hennar væri af alkunnri varfærni.

Mér er alveg hulin ráðgáta hvað það merkir að „taka úrslitunum blindandi“. Þekki ekki þetta orðfæri og dreg í efa að það sé þekkt. Einna helst gæti verið að höfundurinn sem er greinilega ekki ritstjóri blaðsins, hafi fyrir sér texta úr þýskum eða enskum fjölmiðlum.

Tillaga: Flokkurinn getur ekki lengur myndað hreinan meirihluta í fylkinu eins og hann hefur gert í nærri sjö áratugi.

2.

Metradjúpt vatn þegar mest var í miklum vatns­leka í Vals­heimilinu.“ 

Fyrirsögn á visir.is.     

Athugasemd: Við fyrstu sýn kann lesandinn að halda að blaðamaðurinn kunni ekki að fallbeygja nafnorðið metri (meter á ensku og fleiri málum). Fyrirsögnin er hins vegar rétt. 

Metri beygist svo: Metri, metra, metra, metra. Og í fleirtölu: Metrar, metra, metrum, metra.

Þar af leiðir að metradjúp vatn þýðir að dýptin hafi verið einn metri eða jafnvel meira. Einhvern tímann hefði maður skrifað „metersdjúpt vatn“ en það er ekki rétt. Hins vegar hefði ég haft fyrirsögnina eins og segir í tillögunni hér fyrir neðan, óþarfi að tvítaka vatn.

Svo oft hefur visir.is verið gagnrýndur hér og það með réttu að ástæða er til að hæla fréttavefnum og blaðamanninum þegar vel er gert.

Tillaga: Allt að metradjúpt vatn þegar mest var í Valsheimilinu.

3.

10 salerni gerð til þess að fríka þig út.“ 

Fyrirsögn á dv.is.    

Athugasemd: Íslenskri tungu mun smám saman hnigna vegna þess að ekkert aðhald er á ritstjórnum. Illa skrifandi „blaðamenn“ leika lausum hala og niðurstaðan eru skemmdar fréttir. Af hverju er ekki meiri agi á dv.is? Hvað í ósköpunum er nýi útgefandinn að hugsa svo ekki sé talað um ritstjórann?

Hvað þýðir til dæmis eftirfarandi í fréttinni sem um ræðir:

Margar hverjar þeirra eru eflaust beint stignar úr martröðum sumra.

Fólk með reynslu, þekkingu svo ekki sé talað um vit hefði orðað þetta á annan hátt.

Tillaga: Tíu salerni sem flestum kann að hrylla við

4.

Við Fella­hvarf í Kópa­vogi stend­ur ákaf­lega vel heppnuð og fal­leg íbúð …“ 

Frétt á mbl.is.    

Athugasemd: Flestir eru þeirrar skoðunar að hús standi á grunni sínum en íbúðir séu í húsum. Frekar ofmælt er að segja að íbúð standi við götu. Einfalt er að lagfæra þetta-, bara skipta út einu sagnorði.

Hér verður að segjast eins og er að dálkurinn sem tilvitnunin er fengin úr hefur farið batnandi, málfar er miklu betra og villur sjaldgæfar.

Tillaga: Við Fellahvarf í Kópavogi er ákaflega vel heppnuð og falleg íbúð …

5.

Margir hafa velt vöngum yfir nokkuð dularfullu skilti sem er við gatnamót Suðurlandsbrautar og Markarnnar.“ 

Frétt á dv.is.     

Athugasemd: Mörk er kvenkynsnafnorð. Gata í Reykjavík nefnist Mörkin, það er með ákveðnum greini. Ferðafélag Íslands er með skrifstofur í Mörkinni.  Af þessu leiðir að götuheitið fallbeygist svo: Mörkin, Mörkina, Mörkinni, Markarinnar/Merkurinnar, sjá hér.

Ekki eru allir blaðamenn DV góðir í íslensku máli né heldur er málfar þeirra margra gott og síðast en ekki síst eru þeir ekki góðir í að segja frá. Hið síðarnefnda er þó afar mikilvægt fyrir blaðamenn.

Áður en þessi klúðurslega fallbeyging á götuheitinu birtist á DV hafði enn verri útgáfa sést: 

… Suðurlandsbraut og Mörkarinnar.

Eðlilegt er að lesandinn brosi eða hlægi yfir vitleysunni. Skemmdar fréttir eru hins vegar ekkert grín.

Tillaga: Margir hafa velt vöngum yfir nokkuð dularfullu skilti sem er við gatnamót Suðurlandsbrautar og Merkurinnar.

 


Heilaþvottur sem leiddi til hertöku íslenska sendiráðsins

Slá­um því föstu, að her­taka sendi­ráðs er rétti­lega skil­greind sem árás á ríkið – ís­lenska lýðveldið. Í hópi okk­ar ell­efu­menn­inga var hins veg­ar hlegið að þeirri staðreynd og athöfn­in rétt­lætt í sjálfri sér. Glæp­ur­inn var til­gang­ur­inn. Augna­blikstil­finn­ing ólög­legs valds hrifsaðs með of­beldi. Ekki held ég að neinn ell­efu­menn­ing­anna hafi haft nokkra hugmynd um hvaða af­leiðing­ar árás­in hefði getað haft.

Svo segir í grein Gústafs Adolfs Skúlasonar í Morgunblaði dagsins. Hann var einn af þeim sem hertóku íslenska sendiráðið þann 20. apríl 1970 og ætluðu að halda því eins lengi og hægt var. Sænska lögreglan henti þeim út eftir tveggja tíma hertöku og varð orðstír þeirra lítill og snautlegur fyrir tiltækið. 

Tilefni þessara skrifa Gústafs er heimildarmyndin Bráðum verður bylting eftir Hjálmtý Heiðdal, kvikmyndagerðarmann. Í henni er reynt að hampa þessari aðgerð, láta hana líta út eins og eitthvað þrekvirki sem hún aldrei var. Hún þótti að vísu alvarleg á sínum tíma en svona eftir á séð er hún beinlínis hlægileg. Gústaf bendir þó á ýmislegt við sendiráðstökuna sem síst af öllu getur talist skoplegt. Þvert á móti.

Ell­efu flakk­andi ung­lings­sál­ir í stefnu­leit. Sem féllu fyr­ir vinstriróm­an­tík og æðsta­presti með marxí­sk­an heilaþvott í fyr­ir­rúmi. Ég hef oft hugsað um það, að engu máli hefði skipt hvert til­efni heilaþvott­ar­ins var, við vor­um all­ir reiðubún­ir til að fylgja leiðtog­an­um í gröf­ina. Við hefðum all­ir dáið í þeim sér­trú­ar­söfnuði þar sem for­ing­inn hefði sagt að við þyrft­um að fremja sjálfs­morð vegna þess að heimsend­ir kæmi í kvöld. Eða að vera með sprengju­belti. Bylt­ing­ar­róm­an­tík er leiðin til of­beld­is þar sem blóðið flýt­ur.

Enn eru margir þessara ellefumenninga og hóparnir í kringum þá jafn sannfærðir um kommúnismann sinn, sósíalismann, trotskíismann, maóismann eða hvað þessir ismar eru eða voru kallaðir. Hjálmtýr Heiðdal flutti við frumsýninguna tregafulla ræðu og saknaði byltingarinnar sem aldrei varð og fékk heiðursklapp frá meirihluta sýningargesta. Húsið var enda fullt af vinstri sinnum, gömlum kommum og sósíalistum sem eru ekki lengur flakkandi enda flestir komnir á níræðis- eða tíðræðisaldur. Þeir gráta að byltingin kom aldrei en eru enn harðtrúlofaðir byltingarhugsjóninni sem auðvitað er ekkert annað en vinstri öfgamennska.

Ég var á frumsýningunni og hafði gaman af því að rifja upp pólitískt andrúmsloft unglingsáranna enda var myndin um flest annað en sendiráðstökuna. Sjá pistil um heimildarmyndina hér. Og Gústaf segir:

Í þeirri dýrk­un of­beld­is og marxí­skr­ar hug­mynda­fræði, sem flæddi yfir Vest­ur­lönd á átt­unda ára­tugn­um í formi hryðju­verka og blóðugra skot­b­ar­daga, hverfa ell­efu­menn­ing­arn­ir í sög­una sem einkar ómerki­legt fyr­ir­bæri ung­menna í leit að frægð og fengu sín­ar fimmtán mín­út­ur að lok­um. Svipaða sögu má segja um '´68 kyn­slóðina. Sem bet­ur fer hef­ur ís­lenska þjóðin í ár­anna rás sýnt af sér mann­dóm og skyn­semi sem er stærri en aumk­un­ar­verð heilaþvott­a­starf­semi hryðju­verka­manna.

Því miður skilur margt ungt fólk ekki þetta. Það þekkti ekki skiptingu Evrópu í austur og vestur, veit fátt um óþverraháttinn sem viðgekkst í ríkjum sem studdust við kommúnismann og viðbjóðinn sem notaður var til að helda almenningi í skefjum og koma í veg fyrir að hann fengi upplýsingar um frelsi og lýðræði í Vestur-Evrópu.

Engu að síður eru alltof margir svo værukærir að yfirlýstir sósíalistar og kommúnistar hafa til dæmis tekið yfir stéttarfélögin VR og Eflingu. Stæðan er sú að félagar í þessum samtökum nýta ekki kosningarétt sinn. Fyrir vikið komast öfgafullir aðilar að stjórnborði öflugra og fjársterkra félaga og fyrsta verk þeirra er að reka alla þá starfsmenn sem ekki sýna þeim fylgispekt.

Í lok greinar sinnar segir Gústa Adolf Skúlason:

Bylt­ing­ar­róm­an­tík­in tók nokk­ur ár af ævi minni. Ég er þakk­lát­ur öll­um þeim sem hafa fyr­ir­gefið mér bernsku­brek­in og skil líka þá sem ekki hafa gert það. Betra er að gera mis­tök sem ung­ur maður en til ára kom­inn.

Mér finnst bara sorg­legt að sjá suma jafn­aldra mína enn á sama stað eft­ir tæpa hálfa öld. Hef­ur virki­lega eng­in þróun átt sér stað?

Ég verð að koma því að hérna í lokin að eitt fyndnasta atriði heimildarmyndarinnar var örsagan af því er ellefumenningarnir voru komnir í yfirheyrslu á sænskri lögreglustöð. Þar voru þeir spurðir um nafn og annað tilheyrandi. Enn þeirra sagðist heita Gústaf Adolf ... Móðguðust þá hinir sænsku og héldu að drengurinn væri að gera grín að sænska konungsveldinu.


Eldgos á hælunum, hús sem opnar og merkingarlaus leppur

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

Málsbætur

Mitigating eða extenuating circumstances heitir það á ensku þegar um er að ræða eitthvert atriði eða aðstæður sem dregið gætu úr sekt sakbornings. 

Í stað þess að kalla það „mildandi kringumstæður“ er tilvalið að nota málsbætur. Sumir geta fært sér e-ð til málsbóta. Aðrir eiga sér engar málsbætur. 

Málið á bls. 28 í Morgunblaðinu 9. október 2018.

 

1.

Kl. 8.30 - Húsið opnar.“ 

Auglýsing Samgöngustofu um umferðaþing      

Athugasemd: Vel fer á því að byrja daginn á umferðaþingi Samgöngustofu á þeim galdri er hús opnar eitthvað. Enn er óljóst hvað húsið mun opna en gera má ráð fyrir að það skýrist á fundinum.

Grínlaust, hús opna ekki neitt. Fólk opnar hús, jafnvel kemur fyrir að fólk opnar sig. Það er mikil ávirðing á virðulega stofnun eins og Samgöngustofu að hún geti ekki komið frá sér einni auglýsingu án þess að klúðra málfarinu.

Tillaga: Húsið verður opnað.

2.

Eldgos á hælunum á jarðskjálftum og flóðbylgju.“ 

Fyrirsögn á visir.is.       

Athugasemd: Þetta er óboðleg fyrirsögn. Blaðamaðurinn skilur ekki hvað það þýðir að vera á hælunum á einhverjum. Oft er gott að nota málshætti eða orðtök til að skýra mál sitt en hér virðist blaðamaðurinn vera fljótfær eða hann áttar sig ekki á því sem hann skrifar og það sem verra er enginn bendir honum á yfirsjónina. Góður blaðamaður má ekki skrifa samhengislaust.

Lögreglan er á hælunum á þjófnum, það merkir einfaldlega að löggan er við það að ná honum. Sá sem kemur inn á hælunum á Jóni er rétt á eftir manninum. Skammt er frá tám eins að hælum annars. Eftir að jarðskjálftar riðu yfir kom flóðbylgja og síðan örskömmu síðar eldgos.

Stundum á ekki við að persónugera atburði í náttúrunni þó vissulega sé það hægt og stundum fari vel á því. Eldgos er, það er staðbundið, hreyfist ekkert úr stað, kemur ekki þegar einhver önnur óáran er farin.

Þó er skaðlaust að segja að Katla bæri á sér. Jón Helgason, skáld, segir frá hraunflóði í kvæði sínu Áfangar: „… þegar hin rámu regindjúp ræskja sig upp um Laka“, sem er frábær lýsing en auðvitað er þessu ekki saman að jafna.

Varnaðarorðin hér eru þessi: Fái lesandinn það á tilfinninguna að fréttin sé illa skrifuð, takmörkuð að einhverju leyti eða sá sem skrifar viti ekki nóg er hún gölluð. Til að bæta úr þarf blaðamaðurinn alltaf að vera gagnrýninn á sjálfan sig. Oftast er best að endurskrifa. Sá sem aldrei gagnrýnir eigin skrif og telur sig ekki þurfa að endurskrifa á bágt.

Á mbl.is segir svo í fyrirsögn: „Eldgos í kjölfar jarðskjálftans.“ Vel gert hjá Mogganum.

Tillaga: Eldgos í kjölfar jarðskjálfta og flóðbylgju.

3.

Sérstakri makrílvertíð lokið.“ 

Hluti af undirfyrirsögn á bls. 18 í Morgunblaðinu 4. október 2018.   

Athugasemd: Pétur er alvega sérstakur maður er oft sagt. Enginn segir að Jón sé sérstakari maður og aldrei er tekið svo til orðs að Ólafur sé sérstakasti maðurinn. Ástæðan er að Pétur sker sig frá öðrum fyrir eitthvað, oftast jákvætt.

Að mínu mati merkir lýsingarorðið sérstakur undantekningu, eitthvað eða einhvern sem sker sig úr vegna einhvers. Þegar sagt er um Pétur að hann hafi verið sérstakur maður og ekkert látið fylgja eru lesendur eða hlustendur í lausu lofti. Þarna verið að gera lítið úr manninum. Þó verður að segja að þegar þannig er kann fólk að segja: Pétur er dálítið sérstakur. Þá skilst að Pétur er jafnvel ekki eins og fólk er flest. Í því tilfelli væri réttara að segja Pétur sérkennilegan

Sama er með makrílvertíðina. Hún hefur líklega verið sérkennileg, óvenjuleg, einkennileg eða ólík öllum öðrum fyrir margra hluta sakir.

Sá sem hefur yfir þokkalegum orðaforða að ráða velur orð við hæfi, reynir að vera skýr. Sá sem er fátækari eða ekki viss í sinni sök leitar ráða. Íslenskt orðanet hefur oft reynst mér drjúgt í villum mínum eða vitleysisgangi.

Tillaga: Óvenjulegri makrílvertíð lokið.

4.

Óþekktar hræringar á leikmannamarkaði.“ 

Fyrirsögn á bls. 2 í íþróttablaði Morgunblaðsins 4. október 2018.   

Athugasemd: Þessi fyrirsögn skilst ekki vegna þess að í fréttinni rekur blaðamaðurinn allar breytingar sem hafa orðið á milli körfuboltafélaga að undanförnum. Ekki er getið um neinar óþekktar hreyfingar/breytingar (hræringar), líklega vegna þess að þær þekkjast ekki, eru óþekktar.

Má vera að blaðamaðurinn sé orðvilltur, gerir sér ekki grein fyrir því hvað lýsingarorðið óþekktur merkir, hugsi jafnvel á ensku (unknown). Sá eða það sem er óþekkt þekkist ekki, er ekki tíðkað(ur).

Tungutak íþróttafréttamanna er ekki óþekkt, með erfiðismunum má ráða í það. Fyrirsögnin þýðir bókstaflega að ekkert sé vitað um kaup og sölu á leikmönnum í körfubolta. Hugsanlega á höfundurinn við að kaupin og salan eigi sér fá eða engin fordæmi.

Vont er þegar lesendur skilja ekki fyrirsagnir.

Tillaga: Ekki hægt að átta sig á hvað blaðamaðurinn á við.

5.

Það voru að koma mikilvæg skilaboð frá strákunum!“ 

Kostuð skilaboð á Facebook-síðu KSÍ   

Athugasemd: Má vera að starfsfólkið á KSÍ kunni sitthvað fyrir sér í fótbolta en sendingar á íslensku mætti það lesa yfir á gagnrýnan hátt. Annars staðar á FB-síðu sinni segir starfsfólk KSÍ:

Það er leikur á morgun!

Hrikalega er þetta ljót setning. Hægt er að gera miklu, miklu betur.

Berum saman fyrri tilvitnunina hér fyrir ofan við tillöguna fyrir neðan. Hver skyldi vera munurinn? Jú, leppurinn, fornafnið „það“ er horfinn.

Ástæðan er einfaldlega sú að „það“ hefur engan tilgang í setningunni, hjálpar ekkert og er því almennt kalla merkingarsnautt orð. Íslenskufræðingar hafa nefnt orðið aukafrumlag og flestum sem stunda skrif er eiginlega meinilla við það, nota að minnsta kosti í miklu hófi.

Eiríkur Rögnvaldsson, íslenskufræðingur, segir í grein um þetta (feitletranir eru mínar):

Notkun það er nefnilega mjög stílbundin, og margfalt meiri í talmáli og óformlegu ritmáli, s.s. einkabréfum, en í formlegri textum. Oft hefur líka verið amast við notkun þess. 

Þannig segir Jakob Jóh. Smáir (1920:19): „Fallegast er að nota þetta aukafrumlag sem minst“; og Björn Guðfinnsson (1943:8) tekur í sama streng: 

Bezt fer á að nota þetta aukafrumlag sem minnst“. 

Þessu er ég sammála og vitna um þetta efni til pistils á bloggsíðu minni.

Miklu meiri reisn er yfir tillögunni hér að neðan en tilvitnuninni. Góður skrifari, rithöfundur, blaðamaður eða einhver annar þarf að skrifa sig framhjá „það“ og þá gerist galdurinn, textinn verður yfirleitt margfalt betri og skiljanlegri.

Hvernig væri þá best að orða seinni tilvitnunina og losna við merkingarleysið. Lesandinn getur reynt sig við það en ég hefði skrifað: „Fótboltaleikur á morgun.“ Ekkert fer hér á milli mála.

Tillaga: Mikilvæg skilaboð voru að berast frá strákunum!


Byltingin sem aldrei varð

Í gamla daga var mikið fjör. Þá var vinstri vængurinn í íslenskum stjórnmálum sundraður í ótal flokka og flokksbrot og hinir öfgafyllstu voru í ótrúlega fjölbreytilegum flokksbrotabrotum. Heimur versnandi fer. Nú er vinstrið orðið niðursoðin og gerilsneidd pólitík, engin fjölbreytni en allt furðulegar útgáfur af vatnsósa kratisma. Engin skemmtun í þessu lengur.

Þetta flögraði í gegnum hausinn á mér þegar ég sat inni í Bíó Paradís og horfði á frumsýninguna á heimildarmynd sem nefnist „Bráðum verður bylting“. Framleiðandi er gamall kunningi, hann Hjálmtýr Heiðdal, og með honum Sigurður Skúlason, leikari og handritshöfundurinn er Anna Kristín Kristjánsdóttir.

TíminnÞegar Týri talar um byltingu á hann við eitt stykki sósíalíska, ábyggilega vopnaða og þá mega ljótu kapítalistarnir passa sig. Nú verður lesandinn að hafa það í huga að ég er doldið langt frá því að vera vinstri maður en engu að síður hafði ég mikið gaman af myndinni og skora á fólk að sjá hana. Pólitískir samherjar mínir munu ekki verða fyrir vonbrigðum að rifja svona upp gömlu góðu dagana þegar Birna Þórðardóttir lamdi lögguna og Ragnar skjálfti eggjaði félaga sína lögeggjan. Vinstrið mun ábyggilega gleðjast en um leið fella tár því byltingin sem lengi, lengi, lengi var væntanleg kom aldrei.

Hústaka

Myndin er um þann óvænt atburð er ellefu róttækir íslenskir námsmenn í Svíþjóð réðust inn í sendiráð Íslands, ráku starfsfólkið út og bjuggust við að halda skrifstofunum í um tvo daga, jafnvel lengur. Ekki fer þó allt sem ætlað er, þeir voru, blessaðir, komnir út tveimur tímum síðar í fylgd sænskra lögreglumanna.

Framleiðandi myndarinnar segir þetta um hana:

Í myndinni er fjallað um baráttu íslenskra námsmanna á sjöunda áratugnum fyrir bættum kjörum og betra lífi. Námsmönnum hafði fjölgað mjög og stór hluti þeirra sótti framhaldsnám við erlenda skóla. Námslán voru af skornum skammti og voru eingöngu ætluð til að duga fyrir 35% af framfærsluþörf námsmannanna. Afganginn urðu þeir að sækja til foreldra og banka. En það áttu ekki allir efnaða foreldra eða höfðu aðgang að bankalánum. Baráttan fyrir betra lánakerfi var því jafnframt barátta fyrir jöfnuði til náms. Hagsmunabarátta námsmanna hafði verið einskorðuð við eigin hagsmuni, en með vaxandi róttækni æskufólks í heiminum teygði baráttan sig æ lengra yfir á önnur svið. Menn fóru að setja spurningarmerki við sjálfa þjóðfélagsgerðina og alþjóðamál urðu hluti af heimsmynd æskunnar á þessum tímum umróts og átaka.

ÞjóðviljinnStalín, Lenín og félagar

Heimildarmyndin fjallar vissulega um hústökuna en engu að síður er hún eiginlega um allt annað og þá fyrst og fremst æskuvonirnar, byltinguna, sósíalismann, kommúnismann, stúdentaóeirðir í Svíþjóð og annars staðar í Evrópu. Þarna sjást myndir af mörgum átrúnaðargoðum á spjöldunum; Stalín, Lenín, Trotský, Che Guevara, Castro svo nokkrir séu nefndir, þegar mótmælendur gengu gegn kapítalismanum, Víetnam stríðinu í löndum Evrópu. 

Klofningur námsmanna

Vissulega var staðan óbærileg fyrir íslenska námsmenn í útlöndum á þessum tíma. Þeir áttu erfitt, gengisfellingarnar rýrðu kaupmáttinn. Það leiddi til þess að námsmenn á Norðurlöndum ræddu saman því allir vildu breytingar, lagfæra námslánin. Markmiðið var að samræma aðgerðir í þremur höfuðborgum. 

Má vera að námsmennirnir sem ræddu þessi mál hafi ekki allir verið sömu pólitískrar skoðunar og hugsanlega kom pólitík þessu ekkert við. Hins vegar tóku vinstri menn, byltingarliðið, völdin og þeir í Svíþjóð, klufu sig frá félögum sínum, neituðu samvinnu við námsmenn í Ósló og Kaupmannahöfn og ákváðu að taka sendiráðið í Stokkhólmi herskildi. Eins og alltaf, gátu vinstri menn ekki að unnið saman, hvorki innbyrðis né við aðra, hvorki þá, fyrr né síðar. 

MogginnMikill undirbúningur

Undirbúningurinn fyrir sendiráðstökuna var mikill. Ákveðið var að ellefu manns réðust inn og sjö manns væru utan dyra og áttu að bera boð á milli. Njósnari var sendur nokkrum dögum á undan inn í sendiráðið til að skoða aðstæður og á eftir var hústakan æfð í þaula þar til óhætt þótti að láta til skarar skríða.

Þann 20. apríl 1970 var látið til skarar skríða, ellefumenningarnir fóru inn og ráku starfsfólkið út. Sendar voru yfirlýsingar til sænskra fjölmiðla og auðvitað íslenskra. Þetta var rosalegur áfangi og byltingarmennirnir bjuggu sig undir langa dvöl innan dyra. Þeim var hins vegar fleygt út eftir tvo tíma. Frekar snautleg meðferð, sýnist manni svona eftir á séð, og varla tilefni til heimildarmyndar um atburðinn.

Afleiðingarnar

Gylfi Þ. Gíslason, menntamálaráðherra, í viðreisnarstjórninni, kallaði innrásina í sendiráðið bernskubrek, og bætti því við að enginn yrði kærður. Þar af leiðandi varð enginn hústökumannanna að píslarvotti og það var vinstri sinnuðum námsmönnum eflaust til mestra vonbrigða.

Vont var að láta fleygja sér út úr sendiráðinu eftir aðeins tveggja tíma máttlausa hertöku, verra var að atburðurinn var nefndur bernskubrek. Verst af öllu var að foreldrar hústökumanna hundskömmuðu strákana sína fyrir vitleysuna en þeir bera sig samt vel núna, 48 árum síðar. Líklega búnir að jafna sig.

Eitthvað bötnuðu námslánin eftir þennan atburð og eftirmála hans og gátu námsmenn almennt glaðst.

Myndin

VísirÞessi byltingarmynd var nokkuð skrýtin. Hún var teygð í 72 mínútur en þoldi það illa enda fátt mynda af atburðinum. Til að lengja hana var reynt var að skýra aðstæður á þessum árum, sagt frá stúdentamótmælum út um alla Evrópu en sá hluti var heldur langur og endurtekningar margar.

Í gluggum sendiráðsins í Stokkhólmi blöktu rauðir byltingarfánar enda var þetta fyrst og fremst upphaf byltingar, síður krafa um leiðréttingu námslána. Eða voru hústökumenn tvístígandi um tilefnið?

Niðurlagið

Hústökumennirnir eru nú flestir í kringum sjötugt en eru enn heitir kommar eða sósíalistar og sakna byltingarinnar sem aldrei varð. Í lokin er sýnt frá því er sex þeirra komu saman á kaffihúsi og ræddu málin. Þetta var algjörlega misheppnað atriði og lítið í varið, ekkert bitastætt sem kom út úr því.

Annað og raunar algjörlega út í hött var að birta viðtöl við nokkra þingmenn Pírata og fá þá til að tjá sig eitthvað um hústökuna sem þeir raunar gerðu ekki heldur mösuðu þeir um eitthvað sem ég hef nú gleymt hvað var. Enginn þeirra var fæddur 1970 og virtust þeir lítið vita og lögðu ekkert til myndarinnar. Raunar voru frumsýningargestir margir hissa á þessu atriði.

Byltingin sem aldrei varð

Þó svo að það sé nokkuð fyndið að horfa á hina ungu byltingarsinna leggja á ráðin og ekki síður ræða málin nærri fimmtíu árum síðar, má fræðast nokkuð af þessari mynd.

Hún er gerð að heitum sósíalistum sem enn trúa á byltinguna og margir eru dregnir fram til að vitna um málstaðinn, oft fólk sem kom hvergi nærri en getur engu að síður fabúlerað endalaust um málin. Þannig var þarna „sjónvarps- og menningarstjarnan“ Hlín Agnarsdóttir sem sagði ekkert í löngu máli.

Skemmtilegust var eiginlega Birna Þórðardóttir sem taldi sér það til tekna að veita yfirlögregluþjóninum í Reykjavík kinnhest með blóðugri hönd sinni. Birna er einstök þjóðsagnapersóna og kann frá mörgu að segja. Enn er hún blóðrauður kommi þó hún sé orðin helblár kapítalisti og rekur fyrirtæki í ferðaþjónustu. Slíkir heita í dag sófakommar ...

Áhorfendur klöppuðu í lok myndarinnar. Meðal þeirra sá maður aldurhnigna komma sem störfuðu í Fylkingunni, Einingarsamtökum kommúnista (EIK), Maóistum (KSML), Kommúnstasamtökunum (KS) og fleiri og fleiri örflokkum sem mörkuðu ekkert í íslenskum stjórnmálum og höfðu engin áhrif frekar er örtrúarhreyfingar, en minning þeirra er hverfur óðum út í algleymi tímans.

Heimildarmyndin verður sýnd næstu daga í Bíó Paradís og hver svo sem skoðun manna er í pólitík hafa flestir gott og gaman af því að sjá hana. Ekki síst þeir sem muna þessa tíma.

Með eru myndir af síðum nokkurra dagblaða frá því í lok apríl 1970.

 

 


Mogginn segir Stór-Kóngsfell heita Vífilsfell

Kongsfell, mblFjölmiðlar fara stundum villur vegar í landafræðinni og það gerir Mogginn í morgun. Birt er dulúðug mynd af Stóra-Kóngsfelli og það látið heita Vífilsfell sem raunar er um sjö kílómetra austan við hið fyrrnefnda í beinni loftlínu. Stóra-Kóngsfell er er örskammt frá skíðasvæðunum í Bláfjöllum.

Vífilsfell hefur mörg svipbrigði sem draga dám af árstíðum og ekki síður veðri dagsins. DSC_0613 Vífilsfell, hraun, snjórSvo eru hliðar fjallsins fjölbreytilegar og ólíkar. Helst er að það bjóði göngumanninum góðan daginn þegar himinn er heiður og sólin skín. Þá er fjallið eins og sést á myndinni til hægri, snjór hefur fallið og þarna er ekkert annað en fegurðin ein.

Esjan er yndisfögur
utanúr Reykjavík.
Hún ljómar sem litfríð stúlka
í ljósgrænni sumarflík. 

DSCN0141bÞannig orti Þórbergur Þórðarson um Esjuna og mætti þetta erindi eitt líka vera um Vífilsfell. Víst er að á myndinni hér til hliðar ljómar það í litafegurð sinni undir fögrum ágústhimni.

Þannig er nú með Vífilsfell að það er langt frá því að líkjast Stóra-Kóngsfelli og ber líka miklu betur kóngsheitið. Krónan í Vífilsfelli er móbergið sem er svo stórkostlega myndríkt og fallegt, sérstaklega sunnan við toppinn.

KongsfellHér er loks mynd af Stóra-Kóngfelli sem ég kroppaði af vefnum ja.is. og er tekin af álíka sjónarhorni og efsta myndin. Þarna sést grilla í gígana á hálsinum vestan við fjallið, það er hægra megin.

Í Mogganum segir fyrir neðan myndina:

Vetur nálgast. Vífilsfell er eitt þeirra fjalla sem umlykja höfuðborgina og er það stundum talið til Bláfjalla. Nú breiðir snjóþekja úr sér víða um land og er þetta svipmikla fjall alhvítt.

Þetta er frekar skrifað af rembingi en andagift enda hef ég strikað frekjulega í textann. Frekar magurt er að segja að fjallið sé eitt þeirra sem „umlykja höfuðborgina“, ekki síst fyrir þá sök að Vífilsfell er nærri því að jöfnu innan Sveitarfélagsins Ölfuss og Kópavogs. Því hefði höfuðborgarsvæðið verið réttara orð. En hvað kemur eiginlega höfuðborgarsvæðið þessu við? Ekkert, þetta er bara innantómt tal.

Vífilsfell er tengt Bláfjöllum órjúfanlegum böndum og vart hægt að skilja þarna á milli.

Snjóþekja breiðir ekki úr sér eins og segir í textanum. Þessi talsmáti er í ætt við uppfinningu Vegagerðarinnar sem í sífellu segir að á vegum sé „snjóþekja“. Af hverju nægir ekki að segja snjór eins og um aldir tíðkaðist? Hvorki snjór né snjóþekja breiðir úr sér nema auðvitað í snjóflóði. Þegar „snjór breiðir úr sér“ þá er óhætt að segja að það snjói og sleppa tilgangslausum viðbótum. Illt er að sjá „nú“ tvítekið í einni málgrein. Einu sinni er nóg, annað nefnist nástaða.

Mogginn getur gert miklu betur.

Að þessu slepptu er ég bara hress.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband