Málvillan á strætisvagninum

IMG_6124Kostnaður Strætó bs. við að heilmerkja einn strætisvagn er 500.000 krónur auk virðisaukaskatts. Þá kostar 33.500 krónur auk virðisaukaskatts að slagorðamerkja hvern vagn fyrirtækisins.

Svo segir í frétt í Morgunblaði dagsins. Þetta er dýrt og því mikilvæg er að vel sé vandað til merkinga og ekki síður að málfarið sé rétt. Er annars vandað til verka?

Nokkuð langt er síðan ég tók eftir því að á einum strætisvagni stendur svart á hvítu gulu:

Besta leiðin til að smakka ísinn í öllum 31 ísbúðum bæjarins.

Enginn segir: ... í öllum þrjátíu og einni ísbúðum bæjarins.

Ekki heldur ... í þrjátíu og einum ísbúðum bæjarins. Hvort tveggja er rangt.

Reglan er þessi: Síðasti hluti töluorðsins ræður beygingu.

Sagt er að ísbúðir bæjarins séu þrjátíu og ein, 31. Þar af leiðir að eftirfarandi er rétt:

Besta leiðin til að smakka ísinn í öllum 31 ísbúð bæjarins. Það er ... í öllum þrjátíu og einni ísbúð bæjarins.

Fjölgum ísbúðunum um eina. Þá er ekkert að og skiptir engu hversu margar ísbúðirnar eru. Aðeins talan einn, 1, breytir fallinu á ísbúð ekki hinar.

Besta leiðin til að smakka ísinn í öllum 32 [33/34/35/36/37/38/39/40/42] ísbúðum bæjarins.

Vandinn hér fyrir ofan  liggur í því að þeir sem halda á penna vilja sumir hverir nota tölustafi í stað þess að skrifa tölurnar. Víða í rituðu máli fer miklu betur á hinu síðarnefnda.

Sögnin að smakka er fyrir löngu búin að fá þegnrétt í íslensku máli og ekkert lengur við því að segja. Hins vegar er víst að textagerðarmenn með góðan smekk hefðu notað í staðin sögnina að bragða.

Nú er ég enginn sérfræðingur í íslensku máli og þess vegna velti ég því fyrir mér hvers vegna hefur enginn gert athugsemdir við málvilluna á strætisvagninum? Annað hvort nennir enginn að leggja orð í belg eða þá að enginn tekur eftir þessum slagorðum. Hvort er nú verra?

Verst er að auglýsingastofan sem sá um að safna saman slagorðum á strætisvagna hefur ekki algjörlega staðið sig. Eftir stendur þessi spurning: Er kostnaður vegna auglýsingastofunnar tekinn með í reikninginn eða kostaði slagorðamerkingin á hvern vagn ekki 35.000 krónur heldur 55.000?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Er í lagi að fullyrða að um bestu leiðina sé að ræða milli staða?

Heimir Lárusson Fjeldsted, 26.10.2018 kl. 16:53

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Væri ekki betra að sleppa þessu skrumi og nota þá fjármuni sem þannig sparast til að lækka fargjöld eða bæta þjónustu?

Guðmundur Ásgeirsson, 26.10.2018 kl. 17:00

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Nokkrar vangaveltur til viðbótar:

Hér hefði kannski verið betra að sleppa tölunni um fjölda ísbúða úr því þær þurftu endilega að vera 31. Ekki víst að textagerðarmaðurinn hafi verið kominn með töluna á hreint þegar textinn var skrifaður. Villan hefði þó átt að koma í ljós í lokayfirlestri.

Í auglýsingum á helst að forðast efsta stig eins og "Besta leiðin" nema hægt sé að sýna fram á að það standist. "Góð leið" er því vænlegri.

Og svo eins og einhver sagði "Það er dýrt að auglýsa en það er dýrara að auglýsa ekki". Annar spekingur fullyrti að helmingnum af þeirri upphæð sem hann eyddi í auglýsingar gæti hann allt eins hent út um gluggann. En bætti svo við að hann vissi ekki hvorum helmingnum.

Emil Hannes Valgeirsson, 26.10.2018 kl. 22:52

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Notkun efsta stigs í auglýsingum er beinlínis ólögleg ef ekki hægt að færa sönnur á þá fullyrðingu sem haldið er á lofti.

Guðmundur Ásgeirsson, 26.10.2018 kl. 22:55

5 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Þú ert vanur maður, Emil, og þekkir vel til. Prófarkalestur auglýsinga skiptir verulega miklu máli. Málvilla í auglýsingu er oftast ferlega mikið vandamál.

Sammála því að varhugavert er að fullyrða of mikið þó freistandi sé. Mörgum finnst best að fara með strætó en hann gagnast mér illa. Veit ekki hvort notkun efsta stig lýsingarorða sé röng. Hef þó stundum heyrt því haldið fram.

Í gamla daga sagði Kókakólakompaníið í útlandinu: Þegar illa árar í viðskiptum auglýsum við kók, þegar vel gengur auglýsum við kók.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 26.10.2018 kl. 23:06

6 identicon

Segir maður "sumir hverir" en ekki "sumir hverjir"?

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 27.10.2018 kl. 14:34

7 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Já, Bjarni Guðlaugur, sérstaklega er prentvilluveiran er með í skrifum og skemmileggur útgáfuna.  

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 27.10.2018 kl. 15:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband