Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Úr Víkurkirkjugarði eru mannabein sett í poka
6.12.2018 | 10:43
En allir eiga sína sögu. Það segir svolítið um manngildi og mennsku hvernig sagan síðan er ræktuð.
Þannig er niðurlag greinar Sveins Einarssonar, leikhússtjóra, í Morgunblaði dagsins. Hann ræðir um Víkurkirkjugarð sem sumir kalla Fógetagarð. Þar á að reisa hótel og skiptir engu þó það sé byggt á vígðum reit.
Sveinn á við með þessum orðum að það sé okkar að rækta söguna, hafa til þess bæði manngildi og mennsku. Hins vegar ráða nú önnur viðhorf. Borgarstjórn Reykjavíkur horfir miklu frekar til mannvirkja sem gefa af sér skatttekjur en líta síður til arfleifðar okkar. Opið svæði þar sem var kirkjugarður er auðvitað tilvalinn fyrir hótel.
Í grein sinni segir Sveinn:
Fyrir nokkrum dögum gerðist sá atburður að allmargir Reykvíkingar komu saman í væntanlega elsta kirkjugarði landsins og voru þar lesin upp nöfn þeirra sem vitað er að þar voru grafnir, þegar þessi vígði reitur var stækkaður til austurs á fyrri hluta nítjándu aldar, á þeim slóðum sem borgaryfirvöldum þykir við hæfi að hafa hótel og öldurhús, meðal annars í óþökk Alþingis.
Sveinn hafði lesið upp nokkur nöfn fólks sem grafið var í Víkurkirkjugarði árið 1827 og því segir hann:
Þessi nöfn hafa sótt á mig á síðan, ekki síst eftir að vitnaðist að beinum þessara einstaklinga muni ekki alls fyrir löngu hafa verið safnað saman í velsignaðan poka til geymslu á stað þar sem hann yrði ekki svona mikið að flækjast fyrir arðvænlegri pylsusölu og bjórdrykkju.
Þetta er alveg ótrúlegt. Það er sárara en tárum taki hvernig Víkurkirkjugarður hefur verið vanvirtur. Og enn er til fólk sem telur það engu skipta að eitt sinn náði hann nærri því út á Austurvöll.
Lágkúran á sér engin takmörk. Um þessar mundir nær þjóðin ekki upp í nef sér af vandlætingu vegna ummæla nokkurra þingmanna. Hún lætur sér þó í réttu rúmi liggja þegar ofbeldið er arfleifðin. Þá taka aðeins örfáir til varna en á móti kemur að nú hafa hinir bestu menn staðið upp og mælt gegn þessari ósvinnu. Fólk eins og Sveinn Einarsson, Vigdís Finnbogadóttir, Friðrik Ólafsson og margir fleiri.
Vigdís sagði þetta í viðtali við Morgunblaðið fyrir skömmu:
Það er náttúrulega algjörlega ófyrirgefanlegt að byggja ofan á kirkjugarði. [...]
Við skulum halda gömlu Reykjavík, bæði með timburhúsum og steinhúsum, eins ósnortinni og mögulegt er því við erum líka að hugsa um framtíðina. Framtíðin þakkar okkur ekki fyrir að hafa byggt svona en hún þakkar okkur ef okkur tekst að stoppa þetta.
Verður næsta gos í Heklu miklu stærra en áður hefur sést?
3.12.2018 | 14:10
Nokkur órói virðist vera í Heklu í dag. Þó jarðskjálftar séu við fjallið segja þeir frekar lítið um hugsanlega framvindu.
Þrír óróamælar eru við Heklu, annar við lítil fell sem nefnist Feðgar og eru á vikrunum norðan við fjallið. Annar er í svokölluðu Mjóaskarði sem er lítil lægð eða skarð í fellum sunnan við það. Að auki er einn við bæinn Haukadal suðvestan við Heklu.
Efsta myndin sýnir óróamæling frá Feðgum og sést að um sex leytið í gær hóf óróahvinur sem hefur staðið síðan. Hann er mun meiri en áður hefur verið og gæti hugsanlega verið fyrirboði, þó það sé nú alls ekki víst. Mælirinn í Mjóaskarði sýnir nákvæmlega sömu niðurstöðu.
Til samanburðar er fyrir neðan mæling frá sama stað 3. apríl 2017. Tíðnin er önnur og sveiflurnar ólíkar.
Þessir þrír litir geta sýnt gosóróa sem verða vegna kvikuhreyfinga djúpt í jörðu eða þá ... kviku sem rennur í upp að yfirborði jarðar. Óróinn er mestur í bláu línunni. Þar skjótast upp óhljóð með mjög reglubundnum fresti sem hugsanlega má túlka sem afleiðingar ruðnings kvikunnar upp í móti. Hver litur hefur sitt tíðnisvið.
Hekla hefur verið sagt mikið ólíkindafjall. Til skamms tíma héldu jarðfræðingar að grunnt undir fjallinu væri kvikuhólf sem veldur því að kvikan komi hratt upp á yfirborð. Giskað var á að kvikuhólfið væri á þriggja til fimm km dýpi.
Þetta hefur allt breyst. Nú er talið fullvíst að kvikuhólfið sé mun dýpra, á 15 til 20 km dýpi. Þó mikið safnist í kvikuhólfið verða ekki miklir skjálftar eins og í öðrum eldstöðvum.
Undanfari gossins árið 2000 sýndi hreyfingu í skjálftamælum á Litlu-Heklu. Þetta voru litlir skjálftar, þeir stærstu um eitt stig. Síðan fjölgaði þeim að mun og gátu þá jarðvísindamenn fullyrt að gos væri í nánd sem var tímamótaviðburður. Frá því að fyrsti forboðin sáust á mælum liðu 79 mínútur þar til gosið hófst.
Af þessu má draga þá ályktun að þrýstingur kvikunnar á leið upp úr kvikuhólfinu er mjög mikill og verður því kraftur gossins eftir mikill í upphafi. Þetta er meðal annars ástæðan fyrir því að vísindamenn vara við flugumferð yfir fjallinu en hún þar nánast í beinni línu frá austri til vesturs. Af ókunnum ástæðum hafa samgönguyfirvöld samt ekki talið ástæðu til að breyta flugleiðum. Sama er með gönguferðir á Heklu. Eldgosið brestur á með nær engum fyrirvara og hvert á göngufólk að forða sér? Vissast er því að sleppa því að ganga á fjallið.
Þó Hekla gjósi af miklum krafti í upphafi goss dregur hratt úr því og geta mallað lengi þar á eftir.
Hekla er tvímælalaust í gosham. Það sést í öllum rannsóknum. Síðustu áratugina hefur verið stöðug kvikusöfnun undir fjallinu. Allar mælingar sýna að ekki aðeins fjallið rís heldur allt umhverfi þess.
Þegar niðurstöður mælinga sýna að landris eykst þangað til það er komið í svipaða hæð og síðast er eldgos varð. Þá brestur jarðskorpan, kvika þrýstist upp og gos verður.
Nú er staðan hins vegar sú að land hefur risið mun hærra en áður hefur gerst. Enn sjást þó engin merki um gosóróa og veldur það vísindamönnum nokkrum heilabrotum og líklega áhyggjum.
Myndin hér hægra megin sýnir hallamælingar við Næfurholt, beint vestur af Heklu og þær endurspegla þrýstingsbreytingar í rótum eldfjallsins. Fullyrða má að nú sé landrisið orðið tvöfalt meira en í síðustu eldgosum. Er þá hægt að draga þá ályktun að næsta gos í Heklu verði miklu stærra en áður? Verður það hamfaragos sem er líklega andstæðan við túristagos.
Í þessum pistli er byggt á gögnum frá námskeiði sem Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur, lagði fram á námskeiði í Endurmenntun vorið 2018 um eldgos á Ísland.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Vinna unnin, slegnar með blautri tusku og undirbúningur eldfjalla
3.12.2018 | 09:44
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.
Í netfréttum um helgina sagði að vindasamt hefði verið í miðborginni þangað sem fólk fjölmennti á fullveldishátíð á laugardag. Víkverji kann ekki við þetta undarlega orðskrípi því til eru fyrir góð og hljómmikil orð um þetta sama. Best hefði farið á því að tala um strekking og skítakulda.
Víkverji, bls. 15 í Morgunblaðinu 3.12.2018
Sjá upptalningu um vindasöm orð í lok þessa pistils.
1.
Stjórnarformaður Icelandair: Erum bara að vinna þessa vinnu af heilindum.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Fróðlegt, einhver er að vinna vinnu Svona tvítekning er auðvitað slæm, eflaust sagt í hugsunarleysi, rétt eins og sá sem hljóp hlaup eða stökk stökk.
Verkefni blaðamanns að færa orð viðmælenda sinna í rétt málfræðilegt horf. Til hvers að skrifa mismæli og ambögur orðrétt upp og bera þær á borð fyrir lesendur? Það hefur gjörsamlega engan tilgang.
Tillaga: Stjórnarformaður Icelandair: Erum að vinna af heilindum.
2.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu haldlagði í síðustu viku talsvert magn af verkfærum og fleiri muni er fundust við húsleit.
Innlegg Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á Facebook.
Athugasemd: Hald merkir handfesta eða tak. Að leggja hald á eitthvað er nokkuð vel gegnsætt orðasamband og merkir að kyrrsetja eða taka eitthvað frá. Mörg orðasambönd eru þó skárri.
Sagnorðið haldleggja er afspyrnu ljótt, hluti af stofnanamállýsku sem blaðamenn og lögreglan hefur tekið innilegu ástfóstri við. Þeir halda að við neytendur fjölmiðla skiljum ekki mælt mál nema það sé sem mest uppskrúfað. Af sama toga eru ofnotuð orð og orðasambönd eins og um að ræða, vista í fangageymslu, vettvangur, brotaþoli og fleiri.
Í gamla daga gerði lögreglan þjófstolna muni upptæka og allir skildu hvað hafði gerst. Stundum var sagt að löggan hefði tekið þýfi í sína vörslu og það skildist og gerir ábyggilega enn.
Nú virðast fáar kröfur gerðar til þeirra sem skrifa fyrir hönd lögreglunnar aðrar en þær að kunna að kveikja eða slökkva á tölvu.
Alltaf er ástæða til að hvetja til fjölbreytni, ekki festast í ákveðnu orðalagi þegar skrifa skal um lögregluna. Ekkert eitt er réttara en annað.
Tillaga: Í síðustu viku gerði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þýfi upptækt eftir húsleit.
3.
Ingileif og María slegnar með blautri tusku í Bíó Paradís.
Fyrirsögn á dv.is.
Athugasemd: Afsakið, en þetta er eiginlega vitlausasta fyrirsögn sem dæmi eru um. Nei, nei, þær voru ekki slegnar með blautri tusku, þær urðu ekki fyrir ofbeldi af einu eða neinu tagi Hins vegar urðu þær fyrir miklum áhrifum af heimildarmynd sem þær voru að hofa á í bíóinu, þær voru slegnar en þó ekki barðar.
Sá sem er sleginn getur líka þýtt að hann hafi orðið fyrir vonbrigðum, áfalli eða álíka. Annar sem er sleginn gæti þó hafa fengið kjaftshögg.
Þegar fólk verður eins og slegið með blautri tusku er átt við að það verði forviða, eitthvað komi á skelfilega á óvart, jafnvel fyrir áfalli vegna einhvers sem það sér. Síst af öllu er átt við einhver hafi verið sleginn með blautri tusku. Þjóðin varð slegin eftir að hafa heyrt ummæli klausturþingmannanna og þau voru sem blaut tuska í andlit kvenna.
Blaðamaðurinn hefur ekki málið á valdi sínu en hefur þó heyrt um ofangreint orðasamband en kann ekki að nota það rétt. Almennt er reglan sú í blaðamennsku að forðast klisjukennd orðasambönd. Jónas Kristjánsson sem raunar var einn af stofnendum DV skrifaði:
Forðastu klisjur, þær voru sniðugar bara einu sinni. Skrifaðu eins og fólk, ekki eins og fræðimenn.
Og hann skrifaði þetta líka:
Góður stíll einkennist af stuttum málsgreinum og -liðum. Af sagnorðum á kostnað nafnorða, lýsingarorða, atviksorða, smáorða og klisjusetninga. Af frumlagi nafnorða og germynd sagnorða. Einkum þó einkennist hann af harðri útstrikun hvers konar truflana.
Blaðamaðurinn sem skrifaði tilvitnunina sem hér er fjallað um um þarf nauðsynlega að lesa sér til á vefnum jonas.is. Hann þyrfti líka að iðka lestur góðra bókmennta í tómstundum sínum og auka þannig orðaforða sinn, vonandi er það ekki of seint.
Tillaga: Ingileif og María urðu fyrir miklum áhrifum á sýningu í Bíó Paradís.
4.
Vaxandi þrýstingur undir Bárðarbungu Hekla, Grímsvötn og Öræfajökull eru einnig að undirbúa gos.
Fyrirsögn á dv.is.
Athugasemd: Eldstöðin er að undirbúa sig fyrir gos, segja jarðfræðingar. Einhvern veginn finnst mér þetta ekki alveg rétt orðað þó ekki sé það beinlínis rangt enda er hér um yfirfærða merkingu. Orðalagið segir fyrir um ákveðinn atburð sem erfitt er að skýra á annan hátt. Þó er ekki rétt að tönglast sífellt á þessu, hér vantar fjölbreytnina.
Með undirbúning er átt við að verið sé að gera ráðstafanir. Til dæmis undirbýr nemandi sig fyrir próf með því að lesa skólabækur. Íþróttamenn undirbúa sig á fjölbreyttan hátt fyrir keppni. Ræðumaður undirbýr sig fyrir fund með því að skrifa ræðuna. Yfirleitt er orðið undirbúningur bundið við sjálfráðan eða ósjálfráðan vilja.
Sjaldnast er talað um að kýr undirbúi sig fyrir mjaltir þó eflaust séu einhver teikn í þá átt. Fuglar búa í haginn fyrir sig og byggja sér hreiður. Hið sama er að segja um mörg dýr, ketti, hunda, refi og svo framvegis. Vanfær kona er ekki að undirbúa sig fyrir fæðingu, náttúrlegur þróun veldur fæðingunni og yfirleitt án íhlutunar móður.
Ekki nokkur maður myndi taka svo til orða að fjall í Hítardal hafi verið að undirbúa gríðarlegt berghlaup þó eftir á séð hafi aðdragandinn verið nokkuð ljós. Náttúran hefur engan sjálfstæðan vilja.
Eldstöð hefur ekki neinn sjálfstæðan vilja. Ýmislegt getur þó bent til að það kunni að eldgos sé í nánd.
Ég hef farið á afar fróðleg námskeið um eldfjöll og jarðskjálfta hjá Páli Einarssyni, jarðeðlisfræðingi, í Endurmenntun Háskóla Íslands og fengið þar að vita hversu ótrúlega vel vísindamenn fylgjast með eldstöðvum. Fróðlegt er til dæmis sú staðreynd að eldstöð rís eftir því sem meira safnast fyrir í kvikuþró undir henni, en ekki nóg með það. Stórt land umhverfis fjallið rís fyrir gos og hnígur að því loknu.
Þetta eru bara vangaveltur og pælingar.
Tillaga: Vaxandi þrýstingur undir Bárðarbungu Hekla, Grímsvötn og Öræfajökull eru einnig í gosham.
5.
Ofstækisfullur faðir lággjaldalíkansins freistar þess að bjarga WOW Air.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Furðuleg orðanotkun blaðamanna á Vísi vekur oft meiri athygli en fréttirnar sjálfar. Ofnagreind fyrirsögn er óskiljanleg. Hvernig á að skilja lýsingarorðið ofstækisfullur og hvað er faðir lággjaldalíkans?
Í fréttinni er ekkert sem skýrir orðavalið eða merkingu þess. Þar er meðal annars þetta:
Honum er lýst sem klókum kaupsýslumanni, hörðum í horn að taka - og ofstækisfullum í viðhorfi sínu til verðlagningar.
Hvað er ofstækisfullt viðhorf til verðlagningar? Hér hefur blaðamaðurinn bersýnilega klúðrað frétt sem hann hefur líklega þýtt úr útlensku máli en áhöld eru um hvort hann skilji það mál eitthvað skár en íslensku.
Tillaga: Ekki hægt að gera tillögu.
Á íslensku eru aðeins 112 orð um vind
Pistill frá því 2016.
Stundum hvarflar að manni að orðaforði margra sem starfa í fjölmiðlum sé ansi rýr. Þetta datt mér í hug þegar ungi veðurfræðingurinn sagði að á landinu væri vindasamt. Þeir eldri hefðu líklega sagt að víða væri hvasst enda fjölmörg orð og orðasambönd til sem lýsa veðri, ekki síst vindasemi.
Raunar eru til á annað hundrað orð sem lýsa vindi. Nefna má þessi:
- aftakaveður
- andblær
- andi
- andvari
- áhlaup
- bál
- bál
- bálviðri
- belgingur
- blástur
- blær
- blæs
- brimleysa
- derringur
- drif
- dúnalogn
- dús
- fellibylur
- fjúk
- fok
- foráttuveður
- galdraveður
- gambur
- garri
- gerringur
- gjóla
- gjóna
- gjóstur
- gol
- gola
- gráð
- gustur
- hrakviðri
- hregg
- hríð
- hroði
- hrök
- hundaveður
- hvassviðri
- hviða
- hvirfilbylur
- hægviðri
- illviðri
- kaldi
- kali
- kári
- kul
- kuldastormur
- kuldastrekkingur
- kylja
- kyrrviðri
- kæla
- lágdeyða
- ljón
- logn
- lægi
- manndrápsveður
- mannskaðaveður
- músarbylur
- nepja
- næðingur
- næpingur
- ofsarok
- ofsaveður
- ofsi
- ofviðri
- ókjör
- óveður
- remba
- rembingur
- rok
- rokstormur
- rumba
- runta
- ræna
- skakviðri
- slagveður
- snarvindur
- snerra
- snerta
- sperra
- sperringur
- stilla
- stormur
- stólparok
- stólpi
- stórastormur
- stórveður
- stórviðri
- strekkingur
- strengur
- streyta
- streytingur
- stroka
- strykur
- súgur
- svak
- svali
- svalr
- sveljandi
- svipur
- tíkargjóla
- túða
- veðrahamur
- veðurofsi
- vindblær
- vindkul
- vindsvali
- vindur
- vonskuveður
- ördeyða
- öskurok
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Á 100 ára fullveldisafmæli fer íslenskunni hratt hnignandi
1.12.2018 | 13:50
Niðurstaðan er þá þessi: Það er vegna skáldskapar og bókmennta sem Ísland er sjálfstætt. Vissulega eru þetta ekki ný tíðindi og kallast oft goðsögn. Þetta er goðsögnin okkar um íslenska menningu, um tilurð íslenskrar menningar, enda tungumálið að sjálfsögðu hornsteinn íslenskrar menningar.
Þannig skrifar Þórarinn Eldjárn í dálkinum Tungutak í Morgunblaði dagsins. Ég er sammála honum þó miklu meira hljóti að hafa komið til. En Þórarinn segir líka þetta:
Þess vegna er það hlutverk okkar sem nú erum á dögum að halda áfram að sanna þessa goðsögn, sjá til þess að hún breytist hvorki í lygi né hálflygi. Það gerum við með því að beita þessu máli, sem okkur var trúað fyrir, alltaf og alstaðar á öllum sviðum samfélagsins, iðka skáldskap og hlúa að bókmenntum og þar með menningu og öðlast á þann hátt dýpri skilning á því hver við erum og viljum vera.
Ég er ekki svartsýnn að eðlisfari en íslenskan á því miður ekki framtíð fyrir sér, jafnvel þó allir rithöfundar, skáld og jafnvel skáldjöfrar leggi sig fram. Íslenska er að verða hitt tungumálið ... Ég skal rökstyðja það hér.
Nýjar kynslóðir lesa ekki bókmenntir á borð við það sem við gerðum sem nú erum komnir fram yfir miðjan aldur svo ekki sé talað um gengnar kynslóðir.
Enskan er við það að bylta íslenskunni. Þetta sést berlega í fjölmiðlum. Nafnorðastíllinn ryðst þar yfir hinn íslenska sagnorðastíl, fjöldi íslenskra orða hafa fengið furðulegar merkingar, orðaröðin er að breytast, stíll er orðinn hroðvirknislegur og óskipulagður.
Margt ungt fólk hefur aldrei ótilneytt lesið bækur eða fjölmiðla. Af því leiðir að orðfátæktin er áberandi í fjölmiðlum, heimasíðum á netinu, skýrslum og jafnvel bókum.
Jafnslæmt er að ferðaþjónustan hefur byrjað á því að þýða íslensk örnefni á ensku og jafnvel nefna staði í náttúru landsins enskum nöfnum.
Lítum síðan á fyrirtækjamenningu þjóðarinnar. Svo virðist vera að þjóðin fyrirverði sig fyrir íslenskuna og noti frekar ensku í heitum verslana, veitingahúsa, framleiðslu- og eignarhaldsfyrirtækja. Tilgangurinn er auðvitað sá að höfða til útlendinga, ferðamanna og fyrirtækjastórvelda í öðrum löndum. Auðvitað er það ekki hægt með íslenskunni. Eða hvað? Koma útlendingar hingað til lands til að skilja íslenska eða enska menningu?
Á aldarminningu fullveldisins og sjötíu og fjögurra ára sjálfstæði er stolt landsmanna á þjóðerni sínu frekar í orði en á borði. Við erum sunnudagsþjóð, aðeins á tyllidögum erum við Íslendingar, þess á milli erum við ísl-ensk eins og svo margir hafa sagt á undan mér.
Ég horfi á yngstu kynslóðirnar og heyri viðhorf þeirra til bóka. Það er ekkert gaman að því að lesa, það er svo erfitt. Miklu meira gaman að stara á símann sinn og njóta léttmetisins sem fæstir skilja vegna þess að það er á ensku.
Hvað í ósköpunum er að gerast hjá þjóðinni. Yfirfærsla þekkingar frá einni kynslóð til annarrar virðist hafa mistekist. Við foreldrar höfum brugðist, skólinn hefur brugðist. Hornsteinn íslenskra menningar sem Þórarinn Eldjárn segir tungumálið vera, er við það að bresta.
Íslensk tunga stefnir í að vera hitt tungumálið, rétt eins og hjá vestur-Íslendingum. Ofmælt er að segja að öllum sé sama en við ofurefli er að etja. Leiðin er mörkuð.
Ágæti lesandi, sorry about all this but congratulations on the centenary of sovereignty.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Er afsökunin einlæg og fylgir henni iðrun?
29.11.2018 | 15:07
Flestum þykir auðvelt að biðjast afsökunar á ónærgætnum og jafnvel heimskulegum eða ljótum ummælum um aðra. Orð verða sjaldan aftur tekin. Í þankanum situr þó hvort beiðnin hafi verið einlægari en ummælin.
Fólk segir eflaust margt vafasamt í þröngum hópi. Þannig er stundum á kaffistofunni eða þegar félagarnir sem hittast yfir kaffibolla eða bjórglasi. Má vera að hann hafi verið djúpvitur sá sem orðað hugsunina svona:
Segðu aldrei neitt upphátt sem þú getur ekki endurtekið fyrir mömmu þinni.
Vandinn er hins vegar sá að svo ótal margir kjafta frá sér allt vit undir áhrifum áfengis og líkjast þá svokölluðum virkum í athugasemdum sem tvinna saman óhróður um nafnkennda einstaklinga í athugasemdum við fréttir á visir.is, dv.is og fleiri miðlum. Því miður hefur þetta áhrif og skiptir engu þó hundurinn Lúkas sé lifandi.
Flest fólk er kurteist í tali og fasi og sýnir náunganum virðingu. Slíkt kristallast í eftirfarandi setningu sem höfð er eftir góðum manni:
Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu.
Þetta má útleggja þannig að ekkert gott komi frá vondu fólki. Þá skýst þessi spurning upp kolli margra: Hvaða fólk er vont?
Eflaust má halda því fram að fæstir séu alvondir eða algóðir. Flest erum við einhvers staðar á einhverju nöturlegu miðjuróli. Stundum sjáum við eftir orðum eða gerðum og sjaldnast teljum við okkur nógu góð því samanburðurinn við annað fólk er alltaf erfiður.
Þetta allt saman flögraði í gegnum hugann þegar ég frétti af sameiginlegum fundi nokkurra þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins. Getur nokkuð gott komið frá þeim sem tala svona illa um vinnufélaga sína á Alþingi eða bara annað fólk?
Þingmenn eiga ekki að tala eins og virkir í athugsemdum. Þannig á það ekki að vera, þingmenn eiga að vera vandir að virðingu sinni. Dónakjaftar eiga að halda sig annars staðar.
Fréttaflutningur dagsins hefur farið í misjafnlega illa útfærðar afsakanir vegna ummæla og ósanninda. Í sumum tilvikum virðist algjörlega skýrt að einlægni fylgir ekki afsökun.
Í almannatengslum er ein reglan sú að taka á vandamálinu strax, það stækkar og verður verra viðureignar sé því er frestað. Ljóst er að þingmennirnir hafa haft þessa ágætu reglu í huga, svo snöggir voru þeir uppá dekk til að afsaka sig, sumir án einlægni og iðrunar að því er virðist.
Ekki yrði ég hissa þó ein eða tveir sjái sig tilknúna til að segja af sér þingmennsku. Í því væri einlægnin fólgin.
Svo er það allt annað mál og minni háttar í í þessum sambandi hver hleraði og hvers vegna.
Hörmung að horfa upp á | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Frammistöður, spila þátt og staðsetningarsýkin
26.11.2018 | 17:06
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.
1.
Hækkaður styrkur svifryks á Akureyri.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Þetta er ómöguleg fyrirsögn því vel er hægt segja að svifryk hafi aukist eða mælst meira. Í upphafi fréttarinnar segir blaðamaðurinn:
Aukinn styrkur svifryks hefur undanfarið mælst á loftgæðamælistöð Akureyrarbæjar
Þetta er ekki heldur boðlegt því aftur mætti orða þetta á þann hátt, til dæmis að svifryk hafi mælst meira í þessari mælistöð.
Jafnslæmt er að blaðamaðurinn ofnotar orðið svifryk í allri fréttinni svo úr verður illþolandi nástaða. Auðvitað á hann að skrifa sig oft framhjá orðinu svo fréttin verði læsilegri.
Ef veðurspá næstu daga gengur eftir gæti áfram orðið hár styrkur svifryks í bænum. Full ástæða er til að vara við hugsanlegum áhrifum svifryksins
Í seinna skiptið hér fyrr ofan hefði mátt sleppa orðinu eða setja þess í staðinn.
Tillaga: Svifryk á Akureyri eykst.
2.
Unai Emery, stjóri Arsenal, segir að Mesut Özil verði að bæta stöðuleika sinn en hann segir að frammistöður Þjóðverjans eigi það til að dala.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Frammistaða er eintöluorð. Orðið er samsett, seinni hlutinn staða er til í eintölu og fleiritölu og þá er merkingin stelling, ástand, aðstæður eða embætti. Margar stöður eru ábyggilega til í glímu eða ballett, auglýstar eru stöður lögreglumanna eða sýslumanna.
Svo má gera athugasemd við sögnina að dala í þessu tilviki, hún á ekki við hér því orðið merkir að rýrna eða minnka. Nær er að segja að frammistaða fótboltamannsins sé oft ekki nógu góð eða misjöfn, hann sé mistækur.
Tillaga: Unai Emery, stjóri Arsenal, segir að Mesut Özil verði að bæta stöðuleika sinn en hann segir að frammistaða Þjóðverjans sé oft ekki nógu góð.
3.
Instagram spilaði stóran þátt í sprengingunni sem varð á Íslandi.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Hvað þýðir að spila þátt. Hef aldrei heyrt um þetta orðasamband. Heimild blaðamannsins er úr erlendum vefmiðli, Global News í Kanada. Þar er fjallað um þátt Instagrams í fjölgun ferðamanna til Íslands. Í vefmiðlinum stendur þetta:
Instagram has definitely played a huge role in blowing that place up.
Hér hefur blaðamaðurinn þýtt beint út ensku án nokkurrar hugsunar. Ég bað þá Google translate að þýða þessa málsgrein á íslensku og fékk þetta:
Instagram hefur ákveðið spilað mikið hlutverk í að blása þessi staður upp.
Þýðingin er jafnvitlaus og sú sem blaðamaðurinn gerði. Google Translate kann ekki íslensku. Þó forritið geti þýtt íslensk orð verður útkoman kjánaleg. Blaðamaðurinn hefur hugsanlega enskuna á valdi sínu en hann er eins og Google Translate, hann hefur ekki nægilegt vald á íslensku til að nýta sér þekkingu sína.
Tillaga: Instagram átti tvímælalaust stóran þátt í stórfelldri aukningu ferðamanna til Íslands.
4.
Frá og með laugardeginum 1. desember 2018 verður bráðaþjónusta hjartagáttar Landspítala staðsett á bráðamóttöku spítalans í Fossvogi.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Allur andskotinn er nú staðsettur, sagði karlinn. Undir það má taka því í tilvitnuninni hér að ofan er orðinu lýsingarorðinu staðsettur algjörlega ofaukið. Berið hana saman við tillöguna hér að neðan.
Síðar segir í fréttinni:
Bráðaþjónustan verður í fullri virkni í Fossvogi frá og með laugardeginum 1. desember.
Einhvern vegin finnst mér dálítið ofsagt að segja að bráðaþjónustan verði með fullri virkni enda skilst það berlega í fyrstu tilvitnuninni. Þar að auki er þetta þjónusta og varla gott að segja að hún sé til dæmis með kvart, hálfri eða fullri virkni. Hvernig er slíkt mælt?
Hins vegar verð ég að viðurkenna að lakara er að segja að full þjónusta sé hjá bráðaþjónustunni. Þá er komin nástaða sem þykir ekki góð. Má vera að lesendur hafi betri tillögu ef þeir eru sammála.
Tillaga: Frá og með laugardeginum 1. desember 2018 verður bráðaþjónusta hjartagáttar staðsett Landspítala á bráðamóttöku spítalans í Fossvogi.
5.
Maðurinn sem var handtekinn var viðstaddur húsleitina og var handtekinn á staðnum, grunaður um peningaþvætti.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Ofangreind tilvitnun er dæmi um hroðvirkni sem allof oft sést á Vísi og einnig á Stöð2. Skemmdar fréttir verða til af því að enginn les yfir. Enginn blaðamaður er svo klár að hann þurfi ekki að lesa frétt sína yfir með gagnrýnum augum.
Tillaga: Maðurinn fylgdist með húsleitinni og að henni lokinni var hann handtekinn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Persónugallerí, frammistöðuvandi og orðið ítrekað
23.11.2018 | 09:58
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.
1.
Gifti sig heima hjá sér.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Eflaust er ekki beinlínis rangt að segja að konan hafi gift sig heima hjá sér en varla hefur hún gift sig ein, einhverjum giftist hún. Þá má spyrja hvort heimilið sem um er rætt sé heimili þeirra beggja, ekki aðeins hennar.
Tillaga: Gifti sig heima.
2.
Í myndinni birtist fjölbreytt persónugalleríi og viðtöl eru tekin við ýmiss konar fólk úr bænum.
Kvikmyndagagnrýni á bls. 33 í Morgunblaðinu 20.11.2018.
Athugasemd: Ég hélt að þetta orð persónugallerí væri nýyrði smíðað af starfsmönnum Morgunblaðsins en svo er ekki. Það finnst á malid.is en þar með er ekki sagt að orðið sé gott.
Í Íslenskri nútímamálsorðabók segir að gallerí sé sýningarsalur fyrir myndlist eða handverk. Orðið er hins vegar ekki skýrt frekar. Hins vegar má segja að það sé nokkuð gegnsætt. Hugsanlega á höfundur tilvitnunarinnar við að í kvikmyndinni Litla Moskva sé fólk af ýmsu tagi.
En ferlega er það flatt að segja að í myndinni birtist fjölbreytt persónugallerí ... Af hverju ekki að í henni séu viðtöl við fólk af ýmsu tagi og uppruna eða eitthvað álíka? Að vísu er rosalega töff að nota persónugallerí.
Ekki var nú ætlunin að agnúast neitt út í þetta orð. Ég var að lesa Moggann í tölvunni og fletti áfram. Á næstu síðu er Ljósvakinn, fastur pistill sem þeir Moggamenn fjalla um dagskrá útvarps- og sjónvarpsstöðva. Þar er segir í umfjöllun um framhaldsmyndina Flateyjargátan:
Í Flatey er þessi líka fína leikmynd sem lítið hefur þurft að breyta og þar hitti Jóhanna fyrir áhugavert persónugallerí
Einmitt þarna datt mér í hug að persónugallerí væri hugarsmíði Moggamanna.
Við nánari umhugsun finnst er orðið eiginlega óþarft þar sem hægt er að lýsa fjölbreytni fólks á margvíslegan annan hátt. Og það gerir höfundur fyrri tilvitnunarinnar á ágætan hátt er hann lagar málsgreinina lítilsháttar, sjá tillöguna hér að neðan.
Að öðru leyti er umfjöllun Moggans um Litlu Moskvu og Flateyjargátunnar bara þokkalega vel skrifuð og hvetur lesendur til að sjá á þessar myndir.
Tillaga: Í myndinni birtast fjölbreytt viðtöl við ýmiss konar fólk úr bænum.
3.
Sex einstaklingar voru í lyftunni, þar á meðal ófrísk kona.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Einstaklingur er dálítið skrýtið orð. Getur merkt maður, kona, barn og jafnvel eru eintök af dýrum og fiskum sögð einstaklingar, það er eitt stykki af hverju.
Allir vita hvað við er átt þegar sagt er að einstaklingur hafi verið í lyftu. Varla hann dýr eða fiskur. Af samhenginu áttum við okkur á að einstaklingarnir voru fólk, menn, karlar og konur.
Ómar Ragnarsson sagði frá því á bloggi sínu að lyfta hafi fest á 11. hæð í New York:
Það minnir á sögu, sem komst á kreik í New York fyrir mörgum árum þegar allt varð rafmagnslaust og lyftur stöðvuðust, svo að björgunarsveitarmenn og húsverðir voru sendir til þess að bjarga huga að fólki í lyftunum.
Var þeim uppálagt að spyrja um hvort ófrísk kona væri meðal lyftufarþega þegar þeir kölluðu inn í lyftugangana til að kanna ástandið í lyftunum.
Þegar húsvörður einn kallaði inn í einn lyftuganginn: Er einhver í lyftunni!" kom tvíradda svar: Við erum hér tvö."
Er ófrísk kona þarna?" kallaði húsvörðurinn samkvæmt því sem uppálagt var.
Nei! svaraði maðurinn. Við erum ekki búin að vera hér nema í fimm mínútur!"
Þá hló ég upphátt.
Hins vegar er engin ástæða til annars en að segja að sex manns hafi verið í lyftunni sem getið er um í upphafi. Ekki flækja málin.
Á visir.is segir einfaldlega:
Hópur fólks sem festist í lyftu lifði af 84 hæða fall í turni í Chicago í Bandaríkjunum. Um var að ræða sex manns, þar á meðal kona sem er barnshafandi, sem var í lyftunni sem féll frá 95.
Þetta er miklu skárra orðalag en fjarri því gott. Takið eftir tafsinu um var að ræða og nástöðu tilvísunarfornafnsins sem.
Tillaga: Sex manns voru í lyftunni og þeirra á meðal barnshafandi kona.
4.
Frammistöðuvandi ástæða uppsagnar Áslaugar Thelmu.
Fyrirsögn á frettabladid.is.
Athugasemd: Karlmenn sem eiga við frammistöðuvanda áttu áður fyrr varla nokkurra kosta völ. Nú á tímum vandinn er leystur með Viagra.
Allt annað mál er með konur sem eiga við frammistöðuvanda að etja. Þær standa sig hugsanlega lakar á einhverjum vettvangi en búist er við. Hins vegar munu flestir karlar lofa öllu fögru áður en frammistöðuvandi verði kenndur við þá, sérstaklega að ósekju.
Tillaga: Engin tillaga gerð.
5.
Þegar lögregla kom á vettvang blæddi mikið úr manninum meðan konan viðurkenndi að hafa stungið tengdason sinn.
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Furðuskrif birtast oft á DV. Þessi frétt er illa skrifuð, óskipuleg, ruglingsleg, flausturleg og rituð á slæmu máli.
Hins vegar má hafa gaman af skrifunum eins og lýsingunni af manninum sem blæddi á meðan konan viðurkenndi. Vonandi var konan ekki langorð. Takið eftir kansellístílnum:
Brotaþoli hafi gefið skýrslu hjá lögreglu og greint frá því að þegar hún hafi komið heim um klukkan 18:00 hafi kærða verið mjög ölvuð og að drekka whiskey. Hafi brotaþoli sagst hafa gert athugasemdir um að hún væri að sinna barninu svona ölvuð.
Síðar í fréttinni segir:
Maðurinn var síðar fluttur á sjúkrahús en hann reyndist ekki vera í lífshættu, þrátt fyrir að hnífurinn hafi stungist allt að 20 sentímetra inn í brjóstkassa hans. Búið var að stinga á tvö hjólbarða bíls hans og liggur tengdamóðir hans undir grun um að hafa gert það.
Með ólíkindum er að hnífurinn hafi stungist 20 cm inn í brjóstkassa mannsins án þess að hafa farið í gegn. Ef lesandinn er með A4 blað fyrir framan sig getur hann áttað sig á dýpt stungunnar því skammhlið blaðsins er 21 cm. Í brjóstkassanum eru lungu og hjarta svo fyrirferðamikil að erfitt er að stinga þar í gegn án þess að skaða þessi mikilvægu líffæri.
Niðurstaðan er sú að fréttin er tómt bull og engu líkar en að barn hafi skrifað hana. Stundum veltir maður því fyrir sér til hvers þessi fjölmiðill er eða hvort hinn nýi eigandi hans lesi ekki blaðið eða vefsíðuna. Geri hann það hlýtur honum að ofbjóða málfarið og efnistökin rétt eins og okkur hinum.
Tillaga: Þegar lögregla kom á staðinn blæddi mikið úr manninum. Konan viðurkenndi að hafa stungið tengdason sinn.
6.
Fór á stefnumót og stakk ítrekað af frá reikningnum Nú hefur dómur verið kveðinn upp.
Fyrirsögn á dv.is.
Athugasemd: Fyrirsögnin segir beinlínis að maður nokkur hafi hlaupist á brott án þess að greiða reikninginn, aftur og aftur. Hvers vegna var hann alltaf að stinga af frá sama reikningnum.
Nei, þannig er ekki málið vaxið. Hann stakk af frá þremur ógreiddum reikningum á þremur veitingahúsum.
Þetta er auðvitað stórfrétt. Og mikið er manni létt að dómur hafi verið kveðinn upp. Þó flögrar að manni að blaðamaðurinn hefði getað sagt að maðurinn hafi verið dæmdur fyrir tiltækið.
Með þokkalega skýrri hugsun hefði verið hægt að orða fyrirsögnina á annan hátt án þess að misnota atviksorðið ítrekað. Orðið hefur náð feikna vinsældum meðal reynslulítilla blaðamanna og er nú notað eins og enska orðið repeatedly sem merkir aftur og aftur og jafnvel enn og aftur. Íslenska orðið merkir ekki það sama, gæti þýtt aftur, en ekki margsinnis nema það komi sérstaklega fram, ítreka eitthvað aftur og aftur eða margsinnis.
DV iðkar það að búa til langar fréttir, margsamsettar og með einhverri rúsínu í pylsuendanum sem á að vekja athygli lesandans og fá hann til að lesa meira. Þetta er aðferð sem gula pressan iðkar í öðrum löndum, fjölmiðlar sem eru ekkert sérstaklega vandir að virðingu sinni.
Fjölmiðillinn birtir afspyrnu ómerkilegar þýddar fréttir eins og þá sem hér um ræða. Í sannleika sagt er ótrúlegt að sá sem vill kalla sig blaðamann vilji standa í svona framleiðslu. Verst er þó hversu þýðingarnar eru oft á slæmu máli og ruglingslegar.
Tillaga: Fór á stefnumót og stakk alltaf af frá reikningum Hann fékk sinn dóm.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðji orkupakkinn og vantraustið á ESB
22.11.2018 | 10:07
Umhyggja sendiherrans fyrir neytendum á Íslandi er vissulega aðdáunarverð, en hann getur verið þess fullviss að Alþingi og önnur stjórnvöld á Íslandi eru fullfær um að tryggja hagsmuni neytenda og ef eitthvað vantar þar upp á geta íbúar landsins kosið sér nýtt Alþingi. Það er kallað lýðræði og virkar betur en sú aðferð að fela ókjörnum aðilum í útlöndum völdin.
Þetta skrifar Haraldur Ólafsson, veðurfræðingur og formaður Heimssýnar, í Morgunblað dagsins. Greinin er andsvar við grein sendiherra ESB á Íslandi. Haraldur skrifar listilega og lætur fylgja nokkur gullkorn sem eru ómetanleg, rétt eins og tilvitnunin hér fyrir ofan.
Umræðuefnið er þriðji orkupakkinn sem svo hefur verið nefndur. Sendiherrann telur lítinn vanda fyrir Íslendinga að samþykkja hann óbreyttan. Engu að síður leggjast margir gegn honum og var við stórveldinu sem setji lög og reglur og geti breytti forsendum síðar meir, jafnvel þessum títtnefnda orkupakka.
Haraldur segir:
Sendiherrann fullyrðir að orkulöggjöf Evrópusambandsins muni vart gilda um sæstreng milli Íslands og Bretlands. Það kann að vera, en það er ekki augljóst, því enginn veit hvernig sambandi Breta og Evrópusambandsins verður háttað í orkumálum í framtíðinni.
Og í framhaldinu segir Haraldur:
Reyndar segir sendiherrann að enginn í Brussel velti fyrir sér sæstreng. Sjálfsagt eru margar vistarverur í höll Evrópusambandsins og skiljanlegt að sendiherrann hafi ekki heimsótt þær allar. Hann hefur greinilega ekki verið mættur þar sem sæstrengur til Íslands var dreginn á kort og ákveðið að hann væri forgangsverkefni í innviðaáætlun sambandsins. Það kort var teiknað og stimplað í Brussel, líklega daginn sem sendiherrann var fjarverandi.
Mörgum er mikið niðri fyrir um Evrópusambandið og þennan orkupakka. Eftir Icesave og hina misheppnuðu tilraun til að þvinga Íslandi inn í sambandið er ljóst að ekki margir treysta forystu þess, jafnvel þó málstaðurinn líti út fyrir að vera góður.
Í kosningunum 2013 hafnaði þjóðin flokkunum sem vildu að landið færi inn í ESB, þeir voru beinlínis rassskelltir. Kosningabaráttan var hörð og rökin gegn ESB er kjósendum enn í fersku minni.
Ólíklegt er því að þriðji orkupakkinn verði samþykktur á Alþingi, fólk er einfaldlega á móti hinu yfirþjóðlega valdi og treystir ekki ESB því sambandið getur einhliða breytt leikreglunum. Hver yrði þá staða þjóðarinnar?
Má vera að fæstir sem tekið hafa afstöðu gegn þriðja orkupakkanum hafi ekki lesið hann né séu kunnugir efni hans. Í sjálfu sér er það ekki aðalatriðið því það sem öllu skiptir er að stór hluti þjóðarinnar treystir ekki ESB og kærir sig ekki um að sambandi skipti sér af innanríkismálum Íslands.
Þar af leiðandi hefði það alvarlegar pólitískar afleiðingar fyrir þann stjórnmálaflokk sem samþykkir þriðja orkupakkann, jafnvel þó einstaka þingmenn gangi gegn meirihluta þingflokks og samþykki þá kann það einnig hafa slæm áhrif á kjósendur.
Gangsett viðbrögð, hlaðnir og handhlaðnir veggir og skyndihugdetta
19.11.2018 | 11:01
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.
1.
Þá settum við mikið viðbragð í gang.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Þetta orðalag gengur varla upp. Viðbragð er eitthvað sem ekki er skipulagt fyrirfram, það gerist bara, er ósjálfrátt.
Hins vegar ætti að vera hægt að búa sig undir eitthvað, til dæmis að synda. Þegar syndur maður fellur í vatn bregst hann við á þann hátt að grípa sundtökin. Æfing getur framkallað ákveðið viðbragð.
Oft er talað um rétt viðbrögð, þá eru þau ósjálfráð, hafa þau verið æfð. Maður grípur ósjálfrátt andann eftir að hafa komið úr kafi, það er fyrsta viðbragðið, annað er að synda.
Í fréttinni segir:
Ágúst Leó Sigurðsson, svæðisstjóri björgunarsveita, segir að boð hafi komið frá lögreglu um að 25 manna hópur hefði verið í Reynisfjöru og að einn úr hópnum væri týndur. Þá settum við mikið viðbragð í gang, segir Ágúst.
Björgunarsveitin gekk að ákveðnu skipulagi sem hún hafði undirbúið ef álíka tilfelli kæmu upp.
Vinsælt er nú hjá blaðamönnum að tala um viðbragðsaðila. Þetta er nýtt en getur varla heldur gengið upp því notkun þess getur verið óljós. Hver er viðbragðsaðilinn þegar eldur kemur upp í bíl. Vel getur verið að eigandinn, nágrannar eða vegfarendur hafi slökkt eldinn eða aðstoðað við það. Eru þeir þá viðbragðsaðilar?
Vera má að lögreglan hafi séð um slökkvistarfið líka. Er þá ekki rangt að kalla hana viðbragðsaðila því lesendur eða hlustendur fréttarinnar gætu haldið að þarna hefði slökkvilið kæft eldinn?
Niðurstaðan er því sú að best er að nota heiti þeirra sem koma að málum. Lítill sparnaður er í því að kalla lögreglu, slökkvilið, sjúkraflutningsfólk eða björgunarsveitir einhverju öðru nafni en þau bera. Ekki rugla með þetta.
Hvað gera viðbragðsaðilar þegar maður nokkur setur viðbragð í gang er hann sér heimilisfólk yfirgefa húsið? Eflaust frétta fyrrnefndir viðbragðsaðilar að síðari viðbragðsaðilinn hafi með viðbragði sínu farið óboðinn inn í húsið til að fjarlægja verðmæti.
Einhver stofnaði ísbúð sem heitir Valdís (orðið skiptist svona, Vald-ís en ekki Vald-ís). Brögð eru að því að mörg ísbrögð séu þarna á boðstólum en óvíst hvort hægt sé að fá ís með viðbragði.
Svona er hægt að rugla með málið en til skilnings er best að breyta ekki merkingu orða. Stundum getur það tekist en í mörgum tilfellum bendir misheppnuð tilraun til vanþekkingar.
Svæðisstjórinn segir einnig þetta í fréttinni:
Við ætluðum að einblína á ströndina og leita í fjörunni.
Ekki er ég alveg sáttur við það að björgunarsveitin ætli að stara á ströndina hreyfingarlítið. Vera má að sá sem stjórni drónanum einblíni á skjáinn, hinir, stjórnandinn meðtalinn, einbeita sér að því að leita í fjörunni, það er frá Reynisfjalli og vestur að Dyrhólaey, hún er þrír km á lengd.
Tillaga: Þá unnum við samkvæmt fyrirframgerðu skipulagi.
2.
Það eru eflaust ekki margar mæðgur sem vinna við það hér á landi að hlaða veggi en í Mývatnssveit hafa þó einar slíkar unnið undanfarna mánuði við að koma upp handhlöðnum veggjum upp við hótel við Mývatn.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Hver er munurinn á hlöðnum vegg og handhlöðnum vegg? Fyrri hluti málsgreinarinnar skilst ágætlega, mægður sem hlaða veggi. Í senni hlutanum er veggurinn skyndilega orðinn handhlaðinn. Hvers vegna er þetta með vegginn tvítekið í einni málsgrein? Á mínum blaðamannsferli hefði sá sem sem svona skrifar verið kallaður á teppið.
Auðvitað er þetta tóm vitleysa hjá blaðamanninum. Hann les ekki textann sinn yfir og virðist þar að auki algjörlega gagnrýnislaus á eigin skrif.
Berum saman tilvitnaða textann við þann sem hér er gerð tillaga um. Þá má fljótt sjá að miklu betur er hægt að gera ef einhver hugsun er til staðar.
Tillaga: Eflaust vinna ekki margar konur við að hlaða veggi. Í Mývatnssveit hafa mæðgur unnið að hleðslu við Icelandair hótel.
3.
Í umfjöllun Mail Online er bent á að Albanía sé einn af miðpunktum Evrópu þegar kemur að fíkniefnasmygli.
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Svona skrif kallast einfaldlega tuð með óþarfa málalengingum. Margir ungir blaðamenn átta sig ekki á því að með tuði þannig verður frásögn óljós og leiðingleg.
... einn af miðpunktum Evrópu þegar kemur að ...
Svona má bara ekki skrifta. Þetta er þvílík steypa að ekki tekur nokkru tali.
Eftir að hafa skoðað fréttamiðilinn Mail Online er óhætt að gera neðangreinda tillögu.
Tillaga: Í Mail Online er fullyrt að Albanía sé ein af miðstöðvum fíkniefniasmygls í Evrópu.
4.
Fjölskylda talin hafa myrt átta meðlimi annarrar fjölskyldu.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Ekki er þetta gott. Meðlimur er líklegast orðið gilt íslenskt orð en oft fer betur á því að nota önnur. Allir eru hluti af fjölskyldu, auðveldast sleppa öllum málalengingum og segja beinlínis að Jón og Gunna séu í sömu fjölskyldu. Pétur vinur þeirra er í annarri fjölskyldu. Skipsverji er í áhöfn. Sá sem spilar á gítar kann að vera í hljómsveit. Best er að sleppa dönskuslettunni, være medlem af familien ....
Berum svo saman fyrirsögnina hér að ofan og tillöguna hér að neðan. Af því má sá að orðið meðlimur er algjörlega ofaukið.
Tillaga: Myrtu átta manns í annarri fjölskyldu.
5.
Hinn fimmtán ára gamli Gauti Steinþórsson gerði sér lítið fyrir í síðasta mánuði og varð yngsti Íslendingurinn til þess að klífa Island Peak, 6.200 metra háan tind í Himalajafjöllum, eftir skyndihugdettu og ársundirbúning.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Hér að ofan er slæmt dæmi um stílbrot í frásögn, mætti jafnvel heita stílleysa. Takið eftir orðasambandinu að gera sér lítið fyrir. Hvað þýðir það? Jú, eflaust að gera eitthvað án mikillar fyrirhafnar.
Síðast í fréttinni segir hins vegar:
Þetta var það erfiðasta sem ég hef gert í lífinu og tók hrikalega á, bæði líkamlega og andlega, segir Gauti.
Drengurinn gerið sér ekki lítið fyrir, með erfiði og þrautseigju tókst honum ætlunarverk sitt.
Annað stílbrot í fréttinni er niðurlagið:
eftir skyndihugdettu og ársundirbúning.
Drengurinn er sagður hafa gengið á fjallið eftir árs undirbúning, tvö orð, ekki eitt.
Þessi tvö orð eiga ekki erindi í sömu setninguna án nánari skýringar, rekast á og rugla. Ekki er nóg að henda inn sennilegum orðum og kalla frásögn.
Hvað er svo skyndihugdetta annað en hugdetta? Hið fyrrnefnda er líklega ekki til. Hvort tveggja verður til á stundinni og sumir láta verða af slíkri dettu, aðrir ekki. Hugdetta má segja að sé hugmynd sem í fyrstu var snjöll en útheimti síðar mikið erfiði.
Lítum á tillöguna hér fyrir neðan. Hún er dálítið ólík enskuskotnu tilvitnuninni (The fifteen years old ... Den femten år gamle ...) Þannig er ekki tekið til orða á íslensku.
Tillaga: Gauti Steinþórsson, fimmtán ára gamall, er yngsti Íslendingurinn til þess að klífa Island Peak, 6.200 metra háan tind í Himalajafjöllum. Hugdettan kostaði hann heilt ár í undirbúning.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Er engin gæðastjórnun á íslenskum fjölmiðlum? Má allt?
7.11.2018 | 11:27
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.
Ein- og einsdæmi
Eindæmi þýðir bæði ábyrgð og ráðríki. Sá sem gerir e-ð upp á sitt eindæmi gerir það á eigin ábyrgð og að eigin geðþótta. Hann treystir engum, heldur gerir allt upp á sitt eindæmi.
En einsdæmi, með s-i, þýðir einstæður atburður. Þessu skyldi ekki rugla saman þótt ótal dæmi séu um það í ritmáli!
Málið á bls. 28 í Morgunblaðinu 6.11.2018.
1.
Greindist bilun í fjórum síðustu ferðum.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Þegar sagnorð er fremst í setningu er oft verið að spyrja einhvers. Í fyrirsögninni hér að ofan vantar spurningamerkið svo áhöld eru um það hvort hún sé spurning eða fullyrðing. Hér er hallast að hinu síðarnefnda.
Afar auðvelt er að breyta fyrirsögninni vegna þess að upphaf fréttarinnar er rétt orðuð, þar segir:
Bilun greindist í hraða- og hæðarmæli í fjórum síðustu ferðum farþegaþotu indónesíska flugfélagsins Lion Air, sem hrapaði úti fyrir strönd Jövu í síðustu viku.
Ekki er einleikið ef sami blaðamaðurinn og samdi textann skuli klúðra fyrirsögninni. Enn skrýtnara er að sá sem samdi fyrirsögnina skuli ekki gera sér grein fyrir orðaröðinni.
Tillaga: Bilun greindist í fjórum síðustu ferðum.
2.
Sex kosningabaráttur til að fylgjast með.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Barátta er eintöluorð og ekki til í fleirtölu, sjá hér. Þetta læra flestir sem alist hafa upp við að lesa bækur. Aðrir eiga erfiðara með að skilja þetta enda er orðaforði þeirra og skilningur á íslensku máli yfirleitt frekar lítill.
Mér er til efs að lélegri texti hafi verið skrifaður á vefmiðlinum Vísi og er þó úr mörgu slæmu að velja. Blaðamaðurinn virðist hafa afar lítinn skilning á íslensku máli. Hann þýðir beint og gagnrýnislaust úr ensku, virðist engan skilning hafa á íslensku máli.
Fréttin er stórskemmd. Sem matvæli væri hún hættuleg neytendum og búið að loka verksmiðjunni.
Hér eru dæmi sem eru gagnrýniverð, annað hvort fyrir málfar, stafsetningu eða beinlínis framsetningu. Taka skal fram að margt fleira er aðfinnsluvert:
- Bandaríkjamenn kjósa í 435 þingsæti
- Flest sætin þykja örugg fyrir stóru flokkana tvo
- bláa bylgju sem mun ríða yfir Bandaríkin með tilheyrandi sigrum
- Mest spennandi barátturnar
- Repúblíkanar eru að spila varnarleik gegn blárri bylgju
- að fylgjast með mest spennandi kosningabaráttunum.
- með þessum sex kosningabaráttum.
- viðureign Beto O'Rourke gegn sitjandi öldungadeildarþingmanninum Ted Cruz.
- að gera Texas fjólublátt fylki sem sveiflast á milli stóru flokkanna tveggja.
- Baráttan þykir með þeim meira spennandi
- John McCain heitinn var öldungadeildarþingmaður ríkisins
- Demókratar náð sínum fyrsta Öldungadeildarþingmanni
- ... og birt myndir af Sinema í bleiku tútúpilsi á mótmælum
- að vera fyrsta svarta konan í framboði fyrir annan tveggja stóru flokkanna
- Ríkið hefur gjarnan hallast að Repúblíkönum
- að Georgíubúar vantreysti Trump í dag fremur en treysti
- mæti í nægilega miklu mæli á kjörstað
- þar sem þeir hafi ekki fullnægjandi persónuskilríki
- Hvergi eru jafn ólíkir frambjóðendur sem gefa kost á sér.
- þykir með vinstri sinnaðri frambjóðendum í ár og sigraði miðjusæknari Demókrata
- en Flórída er þekkt fyrir að vera óútreiknanlegt fylki
- Repúblíkaninn Andy Barr hefur þjónað sem þingmaður
- og kaus til dæmis með skattalækkunum flokksins
- Síðast vann hann kjördæmið með öruggu forskoti
- nartar í hæla Repúblikanans samkvæmt könnunum.
- Þetta er eitt lykilkjördæma sem Demókratar herja á
- Þjónusta frambjóðanda í Bandaríkjaher
- hvort Demókratar geti náð til vinnandi stétta í riðbeltunum svokölluðu.
- Carol Miller, frambjóðandi Repúblikana, þjónar á ríkisþingi Vestur-Virginíu
- Fylkið hallast að Repúblíkönum
- Richard Ojeda sem þjónar einnig á ríkisþinginu
- hefur vakið mikla athygli fyrir alþýðlega nálgun sína
- Hann þjónaði í hernum
- þegar hann studdi við launahækkanir kennara í kennaraverkfalli
- virðast kjósendur tilbúnir að kjósa bæði til vinstri og hægri eftir því hver lofar fleiri störfum
Kosið er á milli flokka um sæti á þingi, aldrei er kosið í sæti, nær réttu væri að kjósa um sæti, (sjá lið nr. 1) Almennt er þingsæti ekki stóll í eiginlegri merkingu heldur er karl eða kona fulltrúi á þingi hvort sem hann situr eða stendur (2).
Mikill munur er að kjósa og greiða atkvæði. Þetta skilur blaðamaðurinn ekki og segir að þingmaður hafi á þingi kosið með skattalækkunum (23).
Blaðamaðurinn veit ekki hvort hann eigi að tala um ríki eða fylki í Bandaríkjunum. Á íslensku er almennt talað um ríki (sjá 9, 11, 30). Engu að síður er talar hann um ríkisþing.
Furðulegt er að lesa um fólk sem þjónar á þingi og þjónar í hernum. Á ensku er sögnin to serve notuð um þetta en á íslensku er þetta ekki orðað þannig. Þannig er ekki tekið til orða ekki frekar en að blaðamaður þjóni á Vísi (sjá 27, 29, 31, 33). Að vísu þjóna prestar í kirkjum, en það er annað mál.
Þessi grein fær einfaldlega falleinkunn. Blaðamaðurinn verður að hugsa sinn gang sem og ritstjórn vefsins.
Tillaga: Sex athyglisverðar kosningar á kjördegi.
3.
Ryan var ekki valmöguleiki á kjörseðilinum í 1. kjördæmi Wisconsin-ríkis, í fyrsta sinn síðan 1998.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Yfirleitt er reglan sú að sé nafn manns ekki á kjörseðli er hann ekki í framboði. Veit blaðamaðurinn þetta?
Til verða óþarfa málalengingar hjá blaðamanninum sem skýra ekki neitt, miklu frekar að þær flæki málið. Líklegast af öllu er hann að þýða frásögn úr bandarískum fjölmiðli og kann ekki betur til verka.
Hvað þýðir til dæmis eftirfarandi:
Demókratar geta nú komið í veg fyrir lagasetningar repúblikana, svo sem lækkun skatta til þess að reisa múr á landamærum Mexíkó.
Mikilvægt er að ritstjórnin láti einhvern lesa yfir fréttir og lagfæra orðalag og stíl. Það virðist ekki vera gert á íslenskum fjölmiðlum og þar af leiðandi er neytendum sýndar skemmdar fréttir.
Tillaga: Í fyrsta sinn frá því 1998 var Ryan ekki í framboði í 1. kjördæmi í Wisconsin.