Vígin í Vís, hnefaleikar í beinni útsendingu

Hvernig má það vera að viðskiptavinir Vís hafi geð í sér til að vera peð í hráskinnaleik stóru hluthafa félagins. Þeir berast á banaspjótum, reyna með öllum ráðum að komast yfir hluti í félaginu og klekkja um leið á hinum, óvinunum. Allur er leikurinn gerður til að komast í lykilaðstöðu til að hagnast sem mest á eign sinni. Hagur viðskiptavina og starfsmanna er seinni tíma vandamál séu þeir á annað borð einhvers virði í þessu stríði.

Forstjóri sem er nokkrum hluthöfum þóknanlegur er ráðinn en líftími hans líður snögglega undir lok þegar aðrir bindast samtökum um stjórnarkjör. Þá er valinn nýr stjórnarformaður, „gamli“ forstjórinn rekinn með alvarlegum afleiðingum fyrir fjölda annarra starfsmanna.

Þannig er baráttan rétt eins og þar sem banvænum vopnum er beitt líkt og gerðist í heimsstyrjöldunum báðum. Stríðandi herir etja hermönnum sínum í sókn, vinna landsvæði til þess eins að hörfa aftur. Eftir liggur svo valurinn. Þannig er vígvöllurinn í Vís, valurinn er starfsfólkið og viðskiptavinirnir.

Undir alls kyns yfirskini er barist um yfirráðin í Vís. Svokölluðum hagræðingum er beitt til að hámarka tekjurnar, Ebitan skiptir meira máli en starfsfólkið. Hagnaðurinn er aldrei nægur.

Sá tími er liðinn er góðu kapítalistarnir ráku fyrirtækin, þeim var umhugað um velferð starfsfólksins og orðsporið. Hinn nýríki hugsar allt öðruvísi, honum er árans sama um allt nema arðinn sem aldrei er nægur.

Nú er barist um Vís en viðskiptavinir og starfsfólk gleymist í baráttunni, vita lítið hvað er að gerast eða hvers vegna yfirleitt er barist. Og enginn nema innvígðir þekkja nöfnin á þessu fólki sem stundar slagsmál um hlutabréf fyrirtækisins. Þetta eru vofur sem vaða um íslenskan markað í leit að snöggteknum gróða.

En ágæti lesandi, fyrirtæki sem logar í óeirðum eigendanna er ekki þess virði að skipa við hvað þá að starfa þar. Og við hin stöndum utan við þetta allt saman og horfum forviða á atburðina rétt eins og þeir séu hnefaleikakeppni í beinni útsendingu.

Hver kýlir svo hvern og hvenær.


mbl.is Fjögur átakaár hjá VÍS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband