Árásarþoli, árásargerandi, nafnorðatuð og vistanir

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

1.

Guðbjörg lifði af leiktíðina með verkjalyfj­um.“ 

Fyrirsögn á mbl.is.      

Athugasemd: Fótboltakona átti í meiðslum og þurfti á lyfjum að halda til að geta spilað leiki. Samkvæmt öllu getur varla verið að hún hefði dáið án verkjalyfjanna.

Þar af leiðir að skárra væri að orða það þannig að hún hefði ekki haft það af án verkjalyfjanna. Þetta er svona mildilegra orðalag en að segja beinlínis að hún hefði dáið án þeirra. Efnislega þýðir þetta að hún hafi þraukað, haldið út leiktíðina með lyfjum.

Best af öllu hefði verið að orða þessa hugsun eins og segir raunar í fréttinni sjálfri og er í tillögunni hér fyrir neðan.

Á vísir.is er ágæt fyrirsögn með frétt um Guðbjörgu, hún er svona:

Búin að spila þjáð í meira en ár.

Lesandinn skilur þó strax að hafi konan notað verkjalyf hafi hún verið þjáð. Þar af leiðir að sú fyrirsögn er aðeins fyllri en hin.

Tillaga: Guðbjörg neyddist til að nota verkjalyf alla leiktíðina 

2.

Rúrik varð fyr­ir meiðslum.“ 

Fyrirsögn á mbl.is.      

Athugasemd: Er ekki einfaldara að segja að Rúnar hafi meitt sig frekar en að hann hafi orðið fyrir meiðslum. Hið síðara er skilgetið afkvæmi nafnorðatuðsins sem tröllríður íslenskum fjölmiðlum og á ábyggilega ættir  sínar að rekja til ensku. Ótrúlega margir greina ekki á milli íslensks og ensks orðalags heldur sulla saman eins og tungumálin séu eitt.

Höfum hugfast að íslenskan byggir á sagnorðum, enskan á nafnorðum.

Tillaga: Rúrik meiddist í leik

3.

Það var góð mæting á Kötluráðstefnu í Vík í Mýrdal 12. október.“ 

Dálkurinn Tungutak á bls 28 í Morgunblaðinu 3.11.2018.      

Athugasemd: Hér hefur stundum verið minnst á fyrirbrigði sem fræðingar í íslensku máli kalla aukafrumlag en er yfirlitt kallað leppur. Þetta er sá leiðinlegi og ljóti ávani að byrja setningar á fornafninu „það“ sem í flestum tilvikum er algjör óþarfi.

Skelfing leiðist mér leppurinn. Sjá skrif um hann hér og hér. Þar af leiðandi ætla ég ekki að fjölyrða um leppinn heldur biðja lesendur að bera saman ofangreinda tilvitnun og tillöguna hér fyrir neðan. Má vera að einhver hafi skoðun á samanburðinum.

Tillaga: Góð mæting á Kötluráðstefnu í Vík í Mýrdal 12. október

4.

Að því kom að reiðin bar hann ofurliði og hann klessti á vegg.“ 

Úr viðtali á bls. 17 í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 4.11.2018.     

Athugasemd: Ég skil ekki þessa málsgrein. Reynslulitlir blaðamenn skrifa stundum að ökumaður hafi klesst á bíl, stein eða vegg. Öllum getur orðið á og jafnvel sá ágæti blaðamaður sem skrifaði þetta en hann er meðal þeirra bestu á Morgunblaðinu.

Má vera að blaðmaðurinn hafi átt við að viðmælandinn hafi í óeiginlegri merkingu rekist á vegg, sálfræðilega séð. Sé svo hefði verið hægt að orða  þetta betur. Alltaf er gott að fá einhvern annan til að lesa yfir fyrir birtingu.

Tillaga: Engin tillaga gerð.

5.

Líkamsárás í Hafnarfirði.“ 

Fyrirsögn á visir.is.     

Athugasemd: Maður var laminn í Hafnarfirði, sparkað í annan í Reykjavík, kýlt í magann á öðrum á Selfossi og svo má upp telja barsmíðar sem fólk hefur fengið að kenna á’ðí fyrir einhverjar sakir eða jafnvel án saka. 

Sumir fjölmiðlamenn hafa komið sér upp skrýtilegu einkaorðalagi. Barinn maður hefur þannig orðið fyrir líkamsárás. Ugglaust er rétt með farið en af hverju er þá ekki sagt að maðurinn í Hafnarfirði hafi verið laminn, barinn eða sleginn?

Er líkamsárás orðið að einhvers konar veigrunarorði fyrir barsmíðar, kýlingar, spörk og annað álíka? Heldur blaðamaðurinn að lesandanum kunni að ofbjóða þessi orð.

Má vera að hið sama gerist þegar fyllibyttur og árásarlið er sett í fangelsi en blaðamenn kjósa að orða það þannig að slíkir hafi verið vistaðir í fangageymslu. Svo er stundum því bætt við að það sé gert „fyrir“ eða vegna rannsóknar málsins.

Telja blaðamenn að lesendur skilji ekki mælt mál? Skilningurinn eykst alla vega ekki við svona veigrunartalsmáta eða þegar fréttir eru skrifaðar á einhvers konar stofnanamállýsku. Mál þess sem lokaður er inni í fangelsi er alltaf rannsakað. Sumir eru beinlínis lokaðir af, settir í einangrun, til að þeir eigi ekki möguleika á að sammælast við aðra um gjörðir sínar og jafnvel spinna upp sennilegar sögur. Þetta vita allir og þarf ekki að bæta því við að innilokunin sé „fyrir“ eða vegna rannsóknar málsins. Hvaða kjána datt það í hug að lesendur fjölmiðla séu heimskir?

Betur fer á því að kalla hlutina sínum réttu nöfnum. Lögreglan grípur mann sem hefur barið annan og setur í fangelsi. Þjófurinn fer sömu leið. Hverjum datt í hug að þetta væri einhvers konar vistun sem er orðið að „veigrunarorði“. Mannskrattinn var læstur inni í fangelsi. Punktur. Má næst búast við því að misyndismenn sem gripnir eru við glæpsamlega iðju sína fái dvöl í herbergi á lögreglustöð. Gáfumenn í blaðamannastétt myndu ábyggilega kalla það herbergisdvöl eða hvíldardvöl.

Maður var handtekinn vegna líkamsárásar og var settur í herbergisdvöl á lögreglustöð.

Í ofangreindri frétt á Vísi er fórnarlambið, sá sem var barinn („varð fyrir líkamsárás“) kallaður árásarþoli. Hafa lesendur heyrt annað eins? Sem betur fer var sá sem barði hinn ekki nefndur árásargerandi.

Og gullkornin eru fleiri. Í sömu frétt er sagt frá því að maður hafi stolið jakka á veitingahúsi. Blaðamaðurinn orðað það svo barnslega fallega:  

… gestur veitingahússins sagði að erlendur ferðamaður hefði stolið jakkanum sínum ásamt öllu því sem hann geymdi í vasanum.

Má vera að þjófurinn [stuldargerandinn) hafi stolið úr buxnavasa „þjófnaðarþolans“ eða var bara einn vasi á jakkanum?

Í niðurlagi fréttarinnar segir hins vegar að þjófurinn hafi komið aftur á veitingahúsið. Og blaðamaðurinn skrifar, enn svo barnslega einlægur:

Maðurinn reyndist vera með umræddan jakka í fórum sínum en munir voru aftur á móti horfnir úr jakkanum.

Já, jakkinn var í „fórum“ mannsins, hann var ekki í honum en … munirnir úr vasanum voru ekki í jakkanum.

Og hvað skyldi nú hafa verið gert við „þjófnaðargerandann“? Jú, rétt til getið. Hann var „vistaður í fangageymslu lögreglu“. Hvað annað gat gerst en vistun.

Tillaga: Maður sleginn í Hafnarfirði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Satt segirðu. Þetta er furðulegt orðalag. Þetta minnir mig líka á það, þegar ég heyrði þáttarstjórnanda Lestarinnar í útvarpinu tala um eina af bókum Dickens, að mig minnir, og sagði, að sér hefði alltaf fundist hún svo leyndardómsfull og mystísk. Ég hváði og spurði, hvort hann hefði ekki verið að segja sama orðið þarna. Það er eins og fólk viti stundum ekkert, hvað það er að segja.

Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 5.11.2018 kl. 11:02

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Berstu þakkir fyrir innlitið, Guðbjörg. Því miður er þetta hluti af alvarlegri breytingu á íslensku máli.

Ég hef oft heyrt álíka tal í útvarpi, sjónvarpi og jafnvel í fjölmiðlum, án þess þó að ég hafi haft vit á að skrifa þetta hjá mér. Einu sinni var slett á einhverju útlendu máli og svo kom íslenska þýðingin á eftir. Lögfræðingurinn segir til dæmis „quid pro quo“ og segir svo til skýringar, ég á við endurgjald eða svara í sömu mynt.

Sorry, segir einhver, en sér sig svo um hönd og bætir við afsakið.

Algjör horror segir einhver um ákveðið atvik en bætir svo við hryllingur.

Þetta hefur nú snúist við. Oftar en ekki  útskýrir fólk hvað við er átt á ensku. Þetta er algjör hryllingur, ég meina horror, er jafnvel sagt. Og annað tilbrigði við þetta er, eins og þú nefnir, að segja eitthvað leyndardómsfullt og mystik og skilur varla enskuna né íslenskuna.

Eða eins og Sveinn Einarsson orðar það í niðurlagi ágætrar greinar í Mogganum í morgun og er þar að tala um dreng sem datt í skíðalyftur og varð honum þá að orði: „Holy moly shit.“ Engu bætti hann við enda var þetta nóg.

Sveinn Einarsson segir í greininni í Mogganum: 

Nú hrekk­ur maður í kút hitti maður ung­ling sem hef­ur meira en 50 orða forða úr að moða að meðtöld­um henti­orðum eins og shitt, fokk­ing og ómægod.

Og veistu hvers vegna þetta er, Guðbjörg? Ástæðan er fyrst og fremst sú að börn eru almennt hætt að lesa bækur. Þar með verður orðaforðinn ansi rýr, jafnvel þó enskan sé meðtalin.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 5.11.2018 kl. 11:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband