Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Jafnaðarflokkurinn jafnar um þingflokksformanninn og öllum er sama

Athygli vekur að nýkjörinn formaður Samfylkingar jafnaðarflokks Íslands lét formann þingsflokksins taka pokann sinn eins og sagt er um þjálfara íþróttaliða sem er sparkað.

Fjölmiðlar gera ekkert veður út af því þó þingmaðurinn, lögfræðingurinn og aðalfjölmiðlaviðmælandi landsins Helga Vala Helgadóttir sé svipt embætti sínu.

Í frétt Vísis segir að formaðurinn vilji ekki tjá sig um brottreksturinn, er líklega enn að semja sennilega skýringu. Sú sparkaða ber sorg sína í hljóði og vill ekki heldur tjá sig.

Hvað hefðu nú fjölmiðlar gert ef nýkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins hefði sparkað formanni þingflokksins? Allt hefði orðið vitlaust og blaðamenn og sérfræðingar á samfélagsvefjum myndu vaða samsæriskenningarnar upp í hné. Ritstjóri Fréttablaðsins myndi skálda upp hrikalega sanna skýringu á hneykslinu. Ríkisútvarpið myndi tala við uppáhaldsstjórnmálafræðinginn sinn sem héldi því fram að flokkurinn væri beinlínis að klofna og spennan meðal flokksbundinna væri hreinlega „áþreifanleg“. Ritstjóri Kjarnans myndi rita hlutlausa frásögn um hið sanna óeðli flokksmanna.

Þegar málið er skoðað aðeins nánar vaknar sá grunur að líklega er ekkert umtal verra en slæmt umtal. Þögnin getur oft verið svo ansi hávær.

 


Þá voru kallarnir svipþungir og gáfulegir í svörtum frakka og með hatt

Spennan er því sem næst áþreifanleg, sagði fréttamaður Ríkisútvarpsins um formannskosningu í Sjálfstæðisflokknum og átti við andrúmsloftið á landsfundinum. Líklega var það sami fréttamaður sem sagði í hádegisfréttunum á laugardeginum að formannskjörið væri aðalatriði fundarins. Hvort tveggja er bölvuð della, sett fram í anda slúðurfréttablaða.

Ég er á landsfundinum en hef ekki fundið fyrir spennunni. Hins vegar er afskaplega skemmtileg stemning meðal fólks. Mikið hlegið, fólk talar hátt, gamlir vinir og kunningjar faðmast og rifja upp gamlar minningar.

Við spjölluðum saman nokkrir sem vorum ungir sjálfstæðismenn fyrir allmörgum árum og rifjuðum upp hvernig það hafi verið fyrir krakka eins og okkur að ganga í fyrsta sinn inn á landsfund, það allra heilagasta í flokksstarfinu. Hitta alla frammámenn flokksins og fjölda annarra áhrifamanna sem maður sá aðeins á svart-hvítum myndum í dagblöðum og sjónvarpi. Þeir birtust virðulegir í svörtum frakka með hatt á höfði, svipþungir og gáfulegir. Töluðu langt mál og ítarlegt og höfðu á öllu svör og líklega líka á lífsgátunni sjálfri.

Fjörtíu árum síðar erum við „ungu“ sjálfstæðismennirnir komnir á sama aldur, en frakkalausir, hattlausir og sumir jafnvel bindislausir (að hugsa sér það) og konur líklega orðnar fleiri en kallarnir, allar litríkar og áhrifamiklar til orðs og æðis. Lausnir á lífsgátunni höfðum við ekki fundið en kærum okkur kollótta því lífið og samfélagið allt er miklu, miklu skemmtilegra og fallegra nú en þegar miðaldra forverar okkar stjórnuðu flokknum. Að minnsta kosti finnst okkur það (höldum að unga fólkið sé sammála okkur).

Svo var það þetta um „áþreifanlega spennu“. Nei, sagði einhver. Þetta er næstum því eins og að koma á ættarmót, hitta fjölmargt fólk sem maður þekkir og kann vel við og kynnast nýju.

Fyrst og fremst er landsfundurinn samkoma fólks með áþekkar lífsskoðanir og stefnu í stjórnmálum. Þessu næst er fundurinn stefnumarkandi og allir sem vilja geta haft áhrif. Ég sótti í gær fund um umhverfis- og samgöngumál. Hann sótti um tvö hundruð manns og hann var fjölmennari en aðalfundur ýmissa íslenskra stjórnmálaflokka.

Hvernig var unnið? Opin mælendaskrá, fjölmargir tóku til máls. Texta ályktunarinnar var breytt, skriflega tillögur voru lagðar fram, þær ræddar og þeim breytt væri þess þörf. Ekki var alltaf greidd atkvæði heldur rökrætt og samkomulag fundið. Að endingu var fólk sátt við ályktunina. Í dag var hún kynnt fyrir landsfundinum í sal.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins er lýðræðisveisla. Þetta er ekki innantómur frasi heldur staðreynd. Raddir allra fá að heyrast, enginn er settur útundan en meirihlutinn ræður. Fundur tveggja þúsunda manna.

Jú, formannskosningin er framundan. Vinkoma mín sem er borgarfulltrúi var afar sár við mig því ég ætla að kjósa núverandi formann (ekki tala um sitjandi formann). Við lá að mér þætti svo leitt að valda henni vonbrigðum að ég skipti um skoðun, en ég harkaði af mér. Hún er eiginlega sú eina sem reynt hefur að hafa áhrif á mig.

Ég er hins vegar viss um að Bjarni Benediktsson verði kosinn formaður á morgun. Veðja á að hann fái um 60% atkvæða.


Ég kýs Bjarna Benediktsson á landsfundinum

Ég var skráður á landsfund Sjálfstæðisflokksins nokkru áður en Guðlaugur Þór Þórðarson tilkynnti um framboð sitt til embættis formanns flokksins. Ég er málkunnugur Guðlaugi og kann vel að meta hann, tel hann góðan stjórnmálamann. Það breytir því ekki að ég mun kjósa Bjarna Benediktsson sem formann. Ég kaus hann ekki í fyrsta skipti er hann bauð sig fram og sé eiginlega eftir því. Bjarni hefur reynst duglegur formaður og eflst af reynslu og þekkingu og er nú tvímælalaust fremstur meðal jafningja. Þetta er mitt álit og þó þekki ég manninn ekki persónulega. Ég fylgist þó vel með íslenskum stjórnmálum.

Svo má spyrja hvort það sé honum að kenna að fylgi flokksins sé nú aðeins um fjórðungur kjósenda. Svarið er ekki einfalt en auðvitað vill sófafólkið blóraböggul, fórna einhverjum í þeirri von að allt gangi vel á eftir. Þannig verklag er ekki til góðs, þvert á móti. Skynsamlegast er að taka höndum saman og vinna að því verðuga markmiði að afla Sjálfstæðisflokknum fylgis.

Að lokum er ekki úr vegi að taka það fram að þó fjölmiðlamenn segi titring meðal Sjálfstæðismanna vegna formannskjörsins hef ég ekki orðið hans var. Fólkið í kringum mig er sallarólegt, engar hringingar eða læti eins og hér áður fyrr.

 

 

 


Bragginn í Nauthólsvík og spillingin í kringum hann

Einn af þeim skörpustu sem skrifa í Fésbókina er húsasmíðameistarinn Símon Gísli Ólafsson. Hann er KR-ingur, Reykvíkingur og fjölskyldumaður (líklega í þessari röð). Símon hefur ríkt skopskyn og beitir því á hárfína hátt, stundum í kaldhæðni en oft til gamans.

Hann er ekki búinn að gleyma Braggamálinu sem var dálítið í fjölmiðlum á árinu 2018. Þá taldi enginn sig þurfa að kryfja málið til mergjar, þaulspyrja Dag B. Eggertsson, borgarstjóra, formann skipulagsnefndar eða stjórnendur borgarinnar. Málið var og er fáránlegt, lyktaði allt af spillingu því margir höfðu ágætar tekjur af því af verkefninu.

Þann 9. október skrifaði Símon þjóðfélagsrýnir þennan pistil í Fésbókina:

Ég er eiginlega með þetta Braggaævintýri borgarinnar á heilanum.

Ég held ég hafi ekki orðið jafn hneykslaður í nokkuð mörg ár eins og á þessu ævintýralega bulli sem er í gangi þarna hjá fólki sem á að vera að vinna að hag okkar Reykvíkinga.

Á hverju er þetta fólk eiginlega?

Það er samt ekki eins og það sé úr háum söðli að detta þegar verk þessara snillinga eru skoðuð aftur í tímann.

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir er 33 ára arkitekt.
Eiginmaður hennar er sjúkraþjálfi og formaður samtaka um bíllausan lífsstíl ef einhverjum skyldi þykja það áhugavert.
Mér þykir það pínu áhugavert.

Sigurborg Ósk og félagar hennar hjá Yrki arkitektum fengu verðlaun sumarið 2017 frá Reykjavíkurborg í hugmyndasamkeppni um byggð á Heklureit á Laugavegi.
Mér þykir það pínu áhugavert.

Sumarið 2018 er Sigurborg Ósk komin í borgarstjórn í boði kjósenda Pírata og er í dag formaður yfir Skipulags- og samgönguráði Reykjavíkurborgar.
Mér þykir það pínu áhugavert

Í þessari sömu nefnd er m.a. bílavinurinn Hjálmar Sveinsson, aka Hjóla-Hjálmar og Eyþór Arnalds.
Mér þykir það pínu áhugavert.

Það þýðir, ef ég skil málið rétt, að Sigurborg Ósk sé yfirmaður Bragga-ævintýrisins í Nauthólsvík, ásamt borgarstjóra sem telst vera framkvæmdastjóri Reykjavíkurborgar.
Ég geri mér grein fyrir því að þetta Braggaævintýri var byrjað áður en Sigurborg Ósk tók við formennsku.

En hver skyldi þá hafa verið forveri Sigurborgar Óskar sem formaður Skipulags- og samgönguráðs?

Jú enginn annar en Hjálmar Sveinsson einn af uppáhalds stjórnmálamönnum mínum fyrr og síðar.
Mér þykir það pínu áhugavert.

Hvað hafa margir fjölmiðlamenn eða konur spurt þau Hjálmar Sveinsson og Sigurborgu Ósk eitthvað út í þessi Braggamál? Hvar get ég lesið eða heyrt þau viðtöl?
Mér þætti það pínu áhugavert.

Annar arkitekt, Margrét Leifsdóttir hjá Arkibúllan ehf hefur ráðið iðnaðarmenn í verkið fyrir hönd borgarinnar, ásamt því að Arkibúllan hennar hefur rukkað borgina um rúmar 28 milljónir fyrir verk sem ekki er lokið.
Það virðist sem hún hafi fengið frjálsar hendur til að gera hvað sem henni hefur dottið í hug.

Þeir greinilega treysta vinkonu sinni vel þeir sem eiga að stjórna.

Það nýjasta eru innflutt melgresi upp á 700.000 kr. utan við braggann.

Réð hún alla iðnarmenn í verkið? Er það eðlilegt?

Vakna engar spurningar?

Þykir engum fjölmiðlamönnum þetta vera áhugavert? Jafnvel þess virði að eyða nokkrum mínútum í að grafa upp sannleikann?

Margrét var merkilegt nokk í 11 ár arkitekt á skipulags- og byggingarsviði Reykjavíkurborgar fram til 2014 er hún tók að sér að huga að heilsueflingu starfsmanna borgarinnar ásamt því að starfa sem sjálfstætt starfandi heilsumarkþjálfi.
Mér þykir það pínu áhugavert.

Er virkilega ekkert fréttnæmt á seyði hérna?

Er eðlilegt að borgarfulltrúar og vinkona þeirra arkitekt á þeirra vegum séu að sólunda hálfum milljarði af skattfé Reykvíkinga í niðurgreidda félagsaðstöðu fyrir nemendur Háskólans í Reykjavík og aðstöðu fyrir hamborgarasala?

Eru útboðsreglur Reykjavíkurborgar ekki þverbrotnar í þessu braggamáli?

Kannski er öllum bara sama. Þetta er bara pólitík?

Ber virkilega enginn ábyrgð á þessu ótrúlega heimskulega verkefni?

Gæti einhver maður með fullum sönsum skrifað handrit að svona skrípaleik?

Ég á ekki orð yfir fréttamennskunni á Íslandi. Eða á ég kannski frekar að segja skort á henni?

Núna, fjórum árum síðar minnir Símon á Braggamálið sem allir virðast búnir að gleyma en var þó mikil ávirðing á þáverandi borgarstjórnarmeirihluta. Í honum var Samfylkingin, Vinstri grænir, Píratar og fyrirbrigði sem kallaði sig Bjarta framtíð og átti enga framtíð.

Símon skrifar í Fésbókina:

Fjögur ár síðan ég eyddi mörgum klukkustundum í að reyna að finna einhverjar upplýsingar um þá þennan óþekkta og leyndardómsfulla bragga.

Þær upplýsingar lágu ekkert á lausu á vef borgarinnar.

Hver skyldi vera staðan með Braggann í dag? Er búið að klára verkið og ef svo er hver var þá endanlegur kostnaður?

Er verið að borga leigu af honum, hversu háa og hver er að borga hana?

Hefur engin fjölmiðlamaður áhuga á að fá svör frá þeim sem bera ábyrgð á þessu klúðri?

Á bara að leyfa gerendum að þagga málið í hel og leyfa því að deyja drottni sínum?

Staðlaða svarið : Við lærum af þessu, sem er því miður ekki reyndin.

Við þurfum greinilega menn eins og Símon í borgarstjórn til að halda hinni hrokafullu Samfylkingu, Pírötum, Viðreisn og Framsókn á tánum.

Staðreyndir um braggamálið eru þessar:

    1. Borgarstjóri vissi ekki hvað nánustu undirmenn hans eru að gera þrátt fyrir mikil „samskipti“, og hann leitar ekki eftir upplýsingum
    2. Skipulag skrifstofu eigna og atvinnuþróunar var slæmt og henni illa stýrt.
    3. Innra eftirlit var bágborið vegna slæms skipulags og lélegrar stjórnunar.
    4. Stjórnandi eigna og atvinnuþróunar vissi ekkert hvað nánustu undirmenn hans voru að gera. 
    5. Borgarstjóra og skrifstofustjóra eigna og atvinnuþróunar ber ekki saman um ákvarðanir sem teknar voru í tengslum við verkefnið.
    6. Skrifstofustjóri eigna og atvinnuþróunar brást stjórnendaábyrgð sinni.
    7. Af öllum verkefnum á vegum skrifstofu eigna og atvinnuþróunar „gleymist“ að láta borgarstjóra vita um uppbyggingu braggans.
    8. Bygging braggans virðist hafa lifað sjálfstæðu lífi án aðkomu annarra er að honum unnu.
    9. Við byggingu braggans var markvisst brotið gegn reglum borgarinnar um mannverkjagerð um ábyrgð og verklegar framkvæmdir.
    10. Aðeins var gerð frumkostnaðaráætlun sem byggð var á lauslegri ástandsskoðun á rústum braggans.
    11. Frumkostnaðaráætlun var 158 milljónir króna. Raunkostnaðurinn varð 425 milljónir.
    12. Verkið var ekki boðið út né heldur einstakir verkþættir.
    13. Húsið var byggt án kostnaðaráætlanir eins og reglur um mannvirkjagerð krefjast.
    14. Fyrstu hugmyndir voru um lítið og einfalt kaffihús eða stúdentakjallara en varð að fullbúnum veitingastað með vínveitingaleyfi.
    15. Borgarráð samþykkti að húsaleiga braggans yrði 670.125 kr. á mánuði. Hún þyrfti að vera 1.697.000 kr til að standa undir kostnaði.
    16. Engir skriflegir samningar voru gerðir um byggingu braggans.
    17. Vinavæðing, verktakar voru handvaldir af þeim sem stóðu að framkvæmdunum.
    18. Arkitekt byggingarinnar var ráðinn sem verkefnisstjóri
    19. Verkefnisstjórinn var lítið á byggingastað og hafði því ekkert eftirlit.
    20. Farið var fram úr samþykktum fjárheimildum við byggingu braggans, enginn fylgdist með því, ekki verkefnisstjórinn sem líka var arkitektinn.
    21. Þeir sem samþykktu reikninga vegna braggans könnuðu ekki hvort útgjöldin voru innan fjárheimilda.
    22. Logið var að borgarráð um byggingu braggans.
    23. Ágreiningur er milli skrifstofustjóri eigna og atvinnuþróunar og verkefnisstjóri um ákvarðanir sem teknar voru um byggingu braggans.
    24. Skjalagerð vegna braggans var ófullnægjandi sem er brot á lögum og reglum borgarinnar.
    25. Ekki hefur verið staðfest að um misferli hafa við að ræða við byggingu braggans en innri endurskoðun telur vert að skoða nokkra „áhættuatburði“.

Af þessu má sjá að allt við endurbyggingu braggans var í handaskolum. Innri endurskoðun borgarinnar segir að lög hafi verið brotin, kostnaðareftirlit sama og ekkert, farið á svig við innkaupareglur, starfslýsingar og verkferla. Ruglið og handarbaksvinnubrögðin eru víðar um borgarkerfið.

Öll ábyrgð beindist að skrifstofustjóra eigna og atvinnuþróunar og borgarstjóra. Sá fyrrnefndi var látinn fara í mars 2019 en borgarstjóri sat sem fastast.

Enn þann dag í dag telur meirihlutinn sig hafa sloppið afskaplega vel frá braggamálinu. Og nei, nei Samfylkingin, Píratar og Vg allir hinir fullyrða að engin spillingarlykt sé af málinu. 

 


Ragnar Arnalds

Og aftur lágu leiðir okkar Ragnars saman löngu síðar. Nú í Heimssýn, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum. Tilraun „vinstrimanna“ til að sameinast í eina pólitíska hreyfingu 1999 strandaði m.a. á utanríkismálum. Áhugi sumra á aðild að ESB klauf þessa fylkingu.

Þetta segir Jón Bjarnason, fyrrum alþingismaður og ráðherra, í minningargrein í Morgunblaði dagsins um Ragnar Arnalds en útför hans er í dag. Jón skrifar fallega um gamla félaga sinn og nefnir margt athyglisvert.

Ég þekkti Ragnar Arnalds lítillega, nær eingöngu úr heita pottinum í sundlauginni í Laugardal. Stundum var fámennt í pottinum og þá gafst einstakt tækifæri til að ræða við Ragnar um stjórnmál og jafnvel sagnfræði. Í báðum greinum var þekking hans mikil. Mér kom á óvart hversu auðvelt var að tala við hann um stjórnmál dagsins og ekki síður liðna tíma. Margt sagði hann mér sem kom á óvart, atburði sem ekki voru á allra vitorði en töldust samt engin leyndarmál. Hann var glöggur, talaði vel um alla en gat sagt broslegar sögur af ýmsum stjórnmálamönnum.

Oft voru fleiri í pottinum og þá var stundum tekist hressilega á. Kjöftugt fólk átti það til að segja það sem í brjósti þeirra bjó og ekki var það allt „elsku mamma“ um VG og aðra vinstri menn. Ragnar rökræddi, hann var ekkert að trana sér fram eins og við hinir en þegar hann tók til máls hlustuðu allir, líka þessir kjöftugu.

Ragnar las bloggið mitt enda skrifaði ég mikið um makalausa tilraun vinstri stjórnarinnar 2009 til að koma landinu inn í Evrópusambandið. Við vorum í sitthvorum stjórnmálaflokknum, það vissi Ragnar, en í Evrópusambandsmálum vorum við samherjar, báðir á móti. 

Jón Bjarnason segir í minningargrein sinni:

Ragnar var trúr hugsjónum sínum og gekk til liðs við þann flokk sem vildi standa vörð um fullveldi landsins. Hann var algjörlega andvígur umsókn eða aðild að Evrópusambandinu. Vildi þar ekkert „bjölluat“. Ragnar taldi að barátta gegn inngöngu í ESB væri svo mikið grundvallarmál að það væri hafið yfir hina hefðbundnu flokkadrætti. Þannig hlaut hann að vera í fylkingarbrjósti þverpólitískra samtaka; Heimssýnar, hreyfingar sjálfstæðissinna í Evrópumálum. Ragnar varð fyrsti formaður þeirra samtaka.

Vonbrigði Ragnars voru því mikil þegar nokkrir forystumenn í flokknum sem hann hafði gengið til liðs við stóðu að fyrirvaralausri umsókn að ESB með beiðni um inngöngu. Rökfastur og baráttuglaður tók hann slaginn. Undir forystu Ragnars Arnalds varð Heimssýn að stórri og áhrifaríkri fjöldahreyfingu með félagsdeildir út um allt land. Og barátta Heimssýnar skilaði árangri. Okkur sem voru mjög andvíg ESB-umsókninni tókst að kæfa hana, enda fól hún í sér óafturkræft framsal á fullveldi þjóðarinnar og sjálfstæði.

Í þessu felst kjarni málsins og því voru Jón og Ragnar á móti ESB-aðildinni og svo við hinir, minni spámennirnir. Bjölluatið, er mergurinn málsins. Samfylkingin og Vinstri græn héldu að hægt væri að semja um aðild að ESB, fá það fram sem þeir vildu og sleppa öðru. Rétt eins og þegar boðið er úr konfektkassa. Því var nú öðru nær og við lá að embættismenn ESB hlægju að vitleysunni hjá íslenskum stjórnmálamönnum sem töluðu um „samning“.

Aldrei var það af reiði er Ragnar talaði um samherja sína í Vinstri grænum sem samþykkt höfðu hina makalausu aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Hann var framar öllu málefnalegur og kurteis en skoðanalaus var hann aldrei. Hann var einfaldlega ekki sammála, punktur.

Hann spurði mig oft hvort ég vissi um viðhorf Sjálfstæðismanna um einstök pólitísk mál. Auðvitað hef ég aldrei verið á dyramottunni að innsta kjarna flokksins en þekkti þó marga og vissi ýmislegt. Svo spjölluðum við Ragnar, hann hlustaði, hugsaði, og sagði síðan hug sinn, hvort sem hann var sammála okkur eða ekki. Oft velti ég því fyrir mér hversu eftirsóknarvert það væri að öðlast hógværð sem pottavinur minn.

„Þið kommarnir ...“, sagði ég stundum við Ragnar, þegar við ræddum um Viðreisnarárin eða aðildina að Nató. Hann brosti, fannst gaman að hispursleysinu en lét ekki raska ró sinni og rökræddi og ég reyndi að svara. Þetta voru skemmtilegar stundir. 

Ragnar hætti að koma í sundlaugina fyrir nokkrum árum. Ég frétti að heilsan væri ekki góð en vonaði auðvitað hið besta. Ég velti því fyrir mér hvaða skoðun herstöðvaandstæðingurinn Ragnar hefði á innrás Rússa í Úkraínu og viðbúnað íslenskra stjórnvalda vegna hennar. Ég leyfi mér að trúa því að hann væri mjög hlynntur stefnu ríkisstjórnarinnar og hvernig forsætisráðherra og utanríkisráðherra hafa tekið á málunum. En þetta er bara ágiskun.

Þannig minnist ég í stuttu máli Ragnars Arnalds. Mér þótti afskaplega gaman að hafa kynnst honum, þó ekki væri nema lítillega. Þegar ég las minningargreinarnar um hann í Morgunblaðinu skildi ég hvers vegna maðurinn var jafn vinsæll og farsæll sem raun ber vitni. Yfir minningu Ragnars er heiðríkja. Svo segir einn vina hans sem þekkti hann hvað lengst.


Auðvitað veit Nató að Rússar skemmdu Nord Stream leiðslurnar

Screenshot 2022-09-29 at 13.12.42Dettur nokkrum manni í hug að Atlantshafsbandalagið viti ekki hver stóð að skemmdarverkum á gasleiðslunum sem liggja eftir endilöngu Eystrasalti, Nord Stream eitt og tvö? Viti Nató ekki hver olli verður að segjast eins og er að það stendur sig ekki.

Milli Íslands og Grænlands annars vegar og Íslands og Bretlands hins vegar er svokallaða GIUK hlið. Fram til ársins 2006 rak Nato hlustunarkerfi sem námu hljóð frá kafbátum sem fóru í gegnum hliðið og þeir voru eingöngu  frá Sovétríkjunum og síðar Rússlandi. Svo háþróuð var þessi tækni að hægt var að greina eftir vélarhljóði hver kafbáturinn var.

GIUK gapRætt hefur verið um að taka aftur upp þessar hleranir.

Hafsvæðið milli ofangreindra landa er gríðarlega stórt, margfalt stærra en svæðið frá Borgundarhólmi til Póllands, Þýskalands eða Litáen.

Er það raunverulega svo að engar hleranir séu milli Nató-landanna við Eystrasalt? Kanntu annan? segir einhver og glottir.

Vandamálið lítur út fyrir að vera á þann veg að Nató þori ekki upplýsa um skemmdarverkin og kenna Rússum um. Líklega er það talið vera ógnun við einræðisríkið í austri. Munum að Nató veit margt, mun betur en fjölmiðlarnir sem mata okkur með teskeiðum.

Áhyggjur íslenskra stjórnvald af öryggi sæstrengja við landið hafa ekki orðið til úr engu. Innrás Rússa í Úkraínu og hryðjuverk þeirra á Nord Stream gasleiðslunum hafa vakið upp óhug hér og hjá stjórnvöldum í Evrópu og í Kanada og Bandaríkjunum. Um leið hafa þau opinberað hversu varnarlausar lýðræðisþjóðirnar eru fyrir skemmdarverkum. Um leið og sæstrengir og gasleiðslur í fullri notkun eru skemmdar munu samfélög beggja vegna Atlantshafsins lenda í óskaplegum vandræðum. Viðskipti milli landa munu dragast saman og á mörgum sviðum leggjast af með tilheyrandi tekjutapi og atvinnuleysi. Rússar þjást vegna viðskiptabanns og munu án efa reyna að spilla fyrir samstöðu Evrópuríkja með skemmdarverkjum, tölvuárásum og undirróðri.  

Screenshot 2022-09-29 at 13.12.16Verra er með gasið, „skemmist“ leiðslur eða borpallar á hafi úti.

Um leið og Evrópubúar fara að finna fyrir orkuskorti, heimilin kólna og atvinnuleysi eykst mun viðhorfið gagnvart Rússum og stríði þeirra við Úkraínu breytast. Hvað erum við að skipta okkur af málefnum þarna fyrir austan, mun fólk hrópa? Og milljónir manna fara í kröfugöngur og krefjast af stjórnvöldum að öllu verði breytt í fyrra horf.

Rússar munu róa undir öllum mómælum rétt eins og Sovétríkin gerðu á sínum tíma. Og allt þetta mun gera ríkjum í Evrópu erfitt fyrir, þúsundir mótmæla og eining Evrópusambandsins og Nató mun hugsanlega bresta.

Líklega stendur Evrópa á krossgötum um þessar mundir. Ætlar hún að berjast gegn útþenslustefnu Rússa eða lyppast hún niður?


Samfylkingin, Viðreisn og Píratar skrökva um aðildarviðræður að ESB

Alþingi ályktar að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla fyrir árslok 2023 um hvort halda skuli áfram aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið.

Þetta er úr furðulegri þingsályktunartillögu vinstri flokkanna á Alþingi. Ófyrirgefanlegt er að Samfylkingin, Viðreisn og Píratar skrökvi í henni. Hvort það sé gert vísvitandi eða óafvitandi vegna þekkingarleysis skal ósagt látið. Ósannindi eru það engu að síður.

Mikilvægt er að átta sig á því að aðild að ESB er ekki eins og tyrkneskt markaðstorg þar sem hægt er að prútta eftir þörfum og loks komist að niðurstöðu sem er meðaltal af því sem lagt var upp með. Svo virðist sem Samfylkingin, Viðreisn og Píratar haldi það.

Staðreyndin er einföld. Engar „aðildarviðræður“ hafa farið fram við ESB. Með þingsályktunartillögu vinstri stjórnarinnar árið 2009 var sótt um aðild Íslands að ESB. Evrópusambandið samþykkti hana. Í kjölfarið hófust aðlögunarviðræður, ekki aðildarviðræður, þær eru ekki lengur til í reglum Evrópusambandsins.

Afar mikilvægt er að stjórnmálamenn sem og aðrir átti sig á muninum á orðalaginu aðildarviðræður og aðlögunarviðræður.

Á ensku nefnast aðlögunarviðræður „Accession negotiations“. Þær eru fyrir ríki sem ætla sér að ganga inn í ESB. Þetta eru ekki aðildarviðræður og ESB varar beinlínis við þeirri túlkun. 

ESB segir einfaldlega að aðildarviðræður séu ekki lengur í boði. Ríki sem sækir um aðild hlýtur að vilja aðild, þau eru ekki að prófa, kanna aðstæður, stunda þreifingar.

Aðlögunarviðræður eru í því fólgnar að lög og reglur umsóknarríkisins eru lagaðar að stjórnskipun Evrópusambandsins, Lissabonsáttmálanum. Undanþágur eru ekki veittar.

Í reglum ESB segir:

First, it is important to underline that the term “negotiation” can be misleading. Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidates adoption, implimentation and application of EU rules – some 90,000 pages of them. And these rules (also known as “acquis”, French for “that which has been agreed”) are not negotiable.  

Þetta hlýtur að vera skýrt, engar samningaviðræður, aðeins aðlögunarviðræður. Umsóknarríki verður að taka um ESB reglur, 90.000 blaðsíður, samþykkja þær eða hætta við.

Ofangreinda þingsályktun leggja eftirtaldir þingmenn fram:

  • Logi Einarsson
  • Þorgerður K. Gunnarsdóttir
  • Halldóra Mogensen
  • Helga Vala Helgadóttir
  • Þórunn Sveinbjarnardóttir
  • Oddný G. Harðardóttir
  • Kristrún Frostadóttir
  • Jóhann Páll Jóhannsson
  • Björn Leví Gunnarsson
  • Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir
  • Gísli Rafn Ólafsson
  • Þórhildur Sunna Ævarsdóttir
  • Valgerður Árnadóttir
  • Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir
  • Sigmar Guðmundsson
  • Hanna Katrín Friðriksson
  • Guðbrandur Einarsson

Ólíklegt er að þingmennirnir hafi lesið regluna sem er hér fyrir ofan.

Eftirfarandi skjal er lýsing á aðlögunarviðræðum, „skref fyrir skref“ eins og það er orðað: https://neighbourhood-enlargement.ec.europa.eu/system/files/2022-09/eu_accession_process_clusters.pdf.

Svo er ekki verra að þessir þingmenn hlusti á ræðu Samfylkingarmannsins Össurar Skarphéðinssonar þáverandi utanríkisráðherra sem fór með rangt mál á blaðamannafundi. Á fundinum var Stefan Füle, þáverandi stækkunarstjóri ESB, og leiðrétti hann Össur svo eftirminnilega að líklega hefur sviðið undan. Sjá hér: https://www.youtube.com/watch?v=0O4fkcYwpu8.

Nú kunna ýmsir með yfirborðsþekkingu að halda því fram að Svíþjóð hafi fengið samning og jafnvel fleiri ríki. Þeir sem þetta segja hafa rétt fyrir sér. Á árunum þegar rætt var um aðild Noregs, Austurríkis, Finnlands og Svíþjóðar var farið í viðræður við þessi lönd, þá hét það „negotiations“. Það er ekki lengur gert, ESB hefur breytt reglunum.

Kostirnir og gallarnir við aðild að ESB liggja fyrir, samningurinn er klár. Hann gengur undir nafninu Lissabon-sáttmálinn. Hann vilja Píratar, Viðreisn og Samfylkingin að  Íslandi samþykki. 

Að öllum líkindum mun Alþingi fella tillöguna og er það vel.

 

 

 


Vitleysisgangurinn í löggunni

Börnum innan tólf ára hefur verið bannað að fara á gossvæðið. Svo segir löggan á Suðurnesjum. Þar ráða ríkjum Geir og Grani sem flestum eru kunnir. Spengilegu kallarnir í löggunni þykjast vita betur en allur almenningu hvernig að ferðast, hverjir megi ferðast.

Hvers vegna 12 ára börn? Er eitthvað sem liggur þarna að baki?
„Hvers vegna ekki? Þetta er náttúrlega matskennd ákvörðun,“ segir Úlfar. Ekki fengust nánari upplýsingar um ástæður aldurstakmarksins.
„Menn geta velt þessu fyrir sér en ákvörðunin liggur fyrir og henni verður framfylgt,“ segir Úlfar. Hann segist vonast til þess að aðgerðirnar verði til þess að tryggja öryggi á svæðinu. Almannavarnir beri ábyrgð á að það sé gert.

Þetta kemur fram í frétt í Morgunblaðinu. Lögreglustjórinn þykist hafa Almannavarnir Ríkislögreglustjóra á bak við sig. Samkvæmt honum er ákvörðunin um að banna börnum aðgang „matskennd“ og engin rök fylgja.

„Mönnum er skylt að fara eftir fyrirmælum lögreglu og ef það er ekki gert, þá er hægt að beita sektum samkvæmt lögreglulögum,“ segir Úlfar, spurður hvort unnt sé að sekta fólk sem fer að gosinu eða þá sem halda að gosinu með börn undir 12 ára aldri.

Þetta er vitlausara en tali tekur. Sé ákvörðunin „matskennd“ er aldrei hægt að sekta þá sem brjóta gegn matinu. Sé sumum hleypt í gegn en ekki öðrum er það gert samkvæmt ákvörðun lögreglumanns sem finnst að barnið eigi ekkert erindi á gosstöðvarnar. Hefur löggan þekkingu á útbúnaði, getu barna og getuleysi. Getur verð að matskennd ákvörðun lögreglumanns gangi framar lögum um frjálsa för fólks um landið?

Þetta er eftir öðru. Ég dreg stórlega í efa að lögreglan á Suðurnesjum og  Ríkislögreglustjóra séu starfi sínu vaxin. Mistökin og vandræðagangurinn hjá embættunum á síðasta ári og þessu eru nóg til að hver heilvita maður ætti að varast að taka þau trúanleg. 

2021

Screenshot 2022-08-10 at 12.16.08Eldgosið við Fagra-dalsfjall sem hófst 19. mars 2021 var forvitnilegt og dró að sér þúsundir manna og skipti veðrið fæsta neinu máli. Mér kom samt á óvart hve embætti Ríkislögreglustjóra og almannavarnadeild þess var illa að sér. Sama á við Lögregluna á Suðurnesjum og jafnvel Björgunarsveitina Þorbjörn í Grindavík sem var þarna almenningi til aðstoðar og stóð sig oft vel.

Í upphafi hafði svo mikið fát gripið lögguna, bæði þá hjá Ríkislögreglustjóra og á Suðurnesjum. Vegagerðin var látin loka Suðurstrandarvegi og því borið við að hann væri skemmdur. Engin skemmd fannst. Vegurinn átti bara að vera skemmdur og því var hann lokaður heila helgi. Svo var gefinn út tilkynning um að fólk gæti gengið að gosstöðvunum frá Grindavík og Bláa Lóninu. Þarna kom berlega í ljós hvers konar vitleysisgangur ríkti. Frá báðum stöðum voru að minnsta kosti tíu km að gosstöðvunum, aðra leiðina. Sem sagt fólki var ráðlagt að ganga rúma tuttugu km til að sjá gosið. Hundruð ef ekki þúsundir gerðu það og voru uppgefin á eftir. Gangan gekk nærri heilsu fjölda fólks og hafði það ekki annað til saka unni en vilja sjá eldgos.

Nátthagi

IMGL4818Ég get lesið á landakort. Þó ég hefði aldrei komið á þessar slóðir áður sá ég strax að auðveldast var að ganga um dalinn Nátthaga. Besta að segja það strax að þegar svona stendur á er ég lítið fyrir að láta yfirvöld sem þekkja greinilega ekki aðstæður smala mér, segja mér hvert ég á að fara eða gera. Staðreyndin var einfaldlega sú að ég vissi miklu betur en embættismenn Ríkislögreglustjóra og Suðurnesjalöggan. Þekking þeirra á landslagi og fjallamennsku var sáralítil og ekki til mikils gagns. Þar að auki var eins og þessir aðilar kynnu ekki að lesa úr landakortum.

Athuganir á gervitunglagögnum bentu til þess að kvikugangurinn, sem myndaðist vikurnar fyrir gosið, og opnaðist í Geldingadölum, sé ekki að fara að mynda nýjar gosstöðvar annarstaðar yfir ganginum.

IMGL5335 AurSvo sagði í yfirliti á vef Veðurstofu Íslands 26. mars 2021. Í upphafi eldgossins var ekki talið ráðlegt að búa til gönguleið að gosstöðvunum um Nátthagadal. Jarðfræðingar töldu að ýmislegt benti til að berggangurinn væri undir dalnum og þar gæti hugsanlega gosið. Þrem dögum síðar var ekki lengur talin hætta á þessu. Þó var gerð gönguleið sem lá þráðbeint eftir bergganginum og nefnd „leið A“. Ekki mikil hugsun þar að baki.

Nátthagadalur er geysistór, langur og djúpur, líklega nærri 250.000 fermetrar og er þá aðeins mesta sléttlendið talið. Hæglega hefði verið hægt að koma þar fyrir nærri tíu þúsund bílastæðum án mikillar fyrirhafnar og hefði þó verið æði rúmt um alla. Með því hefði hefði verið hægt að koma í veg fyrir umferðaröngþveiti á Suðurstrandarvegi. Mestu skipti að fólk hefði ekki þurft að ganga nema að hámarki fjóra km að gosstöðvunum og til baka í dalinn, afar létta leið.

Embættismennirnir

Embættismennirnir tóku engum sönsum, hugsuðu ekki sjálfstætt, jafnvel þegar sérfræðingar Veðurstofunnar töldu óhætt að ganga um Nátthagadal.

Margt fer öðru vísi en ætlað er. Hér er atburðarásin: 

  1. Hraun rann niður í Nátthagadal 22. maí 2021 og fyllti hann smám saman. 
  2. Þann, 4. júní 2021 rann hraun yfir gönguleiðina sunnan Gónhóls og lokaði henni. 
  3. Þann 13. júní rann hraun yfir gönguleið Ríkislögreglustjóra (kölluð A) gerð hafði verið með jarðýtu.

RíkislögreglustjóriÞegar litið er til baka var engin gönguleið varanleg. Þó má fullyrða að skynsamlegra hefði verið að beina fólki um Nátthagadal í stað þess að gera fólki beinlínis erfiðara fyrir að skoða eldgosið. Það sem olli þessu var einfaldlega þekkingarleysi, reynsluleysi og getuleysi þeirra sem um véluðu.

Eftir að hafa kynnt mér málin fannst mér útilokað að fara gönguleið löggunnar að gosstöðvunum. Sé enga ánægju í að rölta í óslitinni fimm kílómetra halarófu, troða drullu og renna til í flughálli brekku. Nátthagadalsleiðin mun skemmri og fljótfarnari.

Veðrið

Stundum þótti löggunni óskaplega vont veður á gosstöðvunum. Líklega er miðað við að kyrrsetumenn treysti sér ekki út í rok eða slagveður. Þá er sagt ófært fyrir alla, jafnvel fyrir fjallakalla sem eru margreyndir í útivist og ferðalögum. Öllu var skellt í lás, jafnt fyrir útlendinga á sandölum sem og þeim sem voru í gönguskóm með stífum sóla, í hlýjum og góðum útivistarfötum og hlífðarfötum utan yfir.

Ríkisútvarpið var lengst af með beint streymi frá gosstöðvunum í Geldingadal og einnig var hægt að nálgast myndir á vef Veðurstofunnar og Ríkislögreglustjóra. Stundum var ekki annað að sjá en að á Fagradalsfjalli væri þokkalegt  útivistarveður.

Þá má spyrja, hvað er gott veður til útvistar? Sumir segja að veðrið skipti engu máli, bara klæðnaður fólks, útbúnaður og slatti af skynsemi. Því er ég mikið sammála. Spakir fjallamenn halda því reyndar fram að veður velti á hugarfari. 

Svo er það hitt. Þegar lokað var vegna veðurs á gosstöðvunum fór ég, og örugglega margir aðrir, eitthvert annað, á fjöll, um heiðar. Hvergi var lokað nema við Fagradalsfjall og nágrenni. Enginn bannaði fólki að ganga á Núpshlíðarháls, Sveifluháls eða Geitafell, sem eru þó í næsta nágrenni og veðurlagið nákvæmlega hið sama. 

Líklega þótti löggunni lakara að fólk færi sér að voða  við gosstöðvarnar en skárra að það gerðist annars staðar. Þetta er nú meiri vitleysan hjá löggunni.

Einhver fann upp orðið „gluggaveður“. Það notar „of-fólkið“ óspart. Úti er of-kalt, of-hvasst, of-rigning, of-snjór og van-sól sem merkir of lítil sól. Helst þarf að vera blankalogn úti, tuttugu gráðu hiti og sól til að of-fólkið treysti sér í útivist.

Æ, æ, nú rignir

Fjölmiðlar og Ríkislögreglustjóri hafa oft tekið að sér að segja fólki til um útivist á Fagradalsfjalli en hafa því miður ekki alltaf rétt fyrir sér enda sjaldnast reynt útivistarfólk sem slíkt gerir. Sífelldur áróður gegn gönguferðum úti í náttúrunni er lítt hvetjandi. Byggir upp bölvaðan aumingjaskap sem endar með því að fólk leggur upp laupanna heima í stofu horfandi á sjónvarp og étandi sykurvörur. Þá væri nú meiri mannsbragur á því að berjast á móti vindi: 

Ég vildi óska, það yrði nú regn 
eða þá bylur á Kaldadal,            
og ærlegur kaldsvali okkur í gegn 
ofan úr háreistum jöklasal.

Þurfum á stað, þar sem stormur hvín 
og steypiregn gerir hörund vott. 
Þeir geta þá skolfið og skammast sín, 
sem skjálfa vilja. Þeim er það gott.

Undir Kaldadal heitir þetta hraustlega ljóð eftir Hannes Hafstein, tvö erindi af fimm. 

Ég þreytist sjaldan að vitna í Fjallamenn, bók Guðmundar Einarssonar listamanns frá Miðdal en þar stendur:

„Íslendingar eru skyldugir til að leggja stund á göngur og skíðaíþrótt, þá vaxa þeim ekki fjarlægðir í augum. Sund, leikfimi og fleiri íþróttir eru ágætur undirbúningur fyrir fjallgöngumann jafnframt því, að hann beri virðingu fyrir líkama sínum. Ég veit, að fyrstu tilraunum fylgir nokkur hætta, ef ekki er reynt fólk með í för. En það aftrar mér ekki frá að hvetja fólk til að ganga á fjöll.

Fleiri og voðalegri slys hljótast af hreyfingarleysi en fjallgöngum. Ég hef séð kunningja minn hrapa til dauða í Alpafjöllunum, en það fékk mér ekki eins mikillar sorgar og að sjá fjölda fólks, sem ég þekki, grotna niður af fitu, leti og óreglu.“ (Fjallamenn, blaðsíða 161)

Geir og Grani í löggunni

Screenshot 2022-08-10 at 12.54.11Rétt fyrir hádegi þann 5. apríl 2021 opnaðist sprunga norðan við Geldingadal og á örfáum dögum mynduðust fimm gígar. 

Þegar þetta gerðist var ég nýkominn upp á Langahrygg. Hafði dvalist í heiðskíru og fallegu veðri við að taka myndir af rofabörðum enda lá mér ekkert á. Hefði ég gengið hraðar upp á hrygginn, sem ætlunin var, hefði ég séð nýju eldsprunguna opnast. Það hefði verið saga til næsta bæjar. Já, hefði og hefði.

Þegar ég kom upp leit ég auðvitað til eldstöðvanna, en nokkru norðar var reykur og jafnvel eldur. Nokkrar sekúndur liðu áður en ég áttaði mig á því að þarna var ný sprunga að opnast. Úr henni rann hraun sem féll ofan í Meradal. Ég tók myndir í gríð og erg. Skundaði eftir Langahrygg í áttina að Stóra-Hrúti, þangað upp ætlaði ég. Þá  fékk ég smáskilaboð í símann minn; 

Rímið gossvæðið. Umferð bönnuð. Ný sprunga að myndast.

Ég las skilboðin og hló (dálítið illkvittnislega ég viðurkenni það). Leirskáldin hjá Ríkislögreglustjóra höfðu berað þekkingarleysi sitt á enn einu sviðinu. 

Vantaði Geir og Grana rímorð? Mörg orð ríma við gossvæðið, til dæmis fljótræðið, smáræðið, ónæðið, bráðræðið, einræðið og mörg fleiri. Öll þessi eiga vel við.

Þegar löggan frétti af nýrri sprungu virðist mikið fát hafa gripið um sig á lögreglustöðinni á Suðurnesjum og Ríkislögreglustjóra. Ef til vill eins og sást í gömlu bíómyndunum um „The keystone cops“. Sé fyrir mér ringulreiðina þegar fréttin barst. Allir æða fram og til baka, rekast á vinnufélaga, borð og stóla og hrópa og kalla í algjöru ráðaleysi.

„Lokum lokum, fólk gæti dottið ofan í nýju sprunguna,“ gæti einhver hafa æpt, skrækum rómi. Nýliðanum er skipað fyrir og hann hleypur til og sendir út smáskilaboð. Af hverju nýliðinn? Jú, hann er með próf á jarðýtu, hámenntaður.

Jæja, afsakið þetta. Ég gat ekki stillt mig, því löggan tók til þess ráðs að skipa fólki að rýma (ekki „ríma“) gossvæðið. Sleppum stafsetningarvillunni og samt mátti misskilja orðalagið. Var átt við að þeir sem fái skilboðin eigi að aðstoða við að rýma gossvæðið eða eiga þeir fari á brott? Líklega var átt við það síðarnefnda. Löggan gat ekki einu sinni skrifað skammlaust smáskilaboð fyrir síma.

Þyrlan

Þó gossprunga opnist er lítil hætta á ferðum. Engar hamfarir eru á leiðinni. Ekki verður sprenging. Nær útilokað var að aðrar eldsprungur myndu opnast við hlið hennar. Það gerist aldrei. Frekar er líklegar að svona sprungur lengist í aðra hvora áttina. Á Reykjanesi hafa allar gossprungur stefnuna suðvestur-norðaustur og þarf ekki annað en að líta á landkort til að sannfærast. Löggan vissi þetta ekki, skildi ekki eða hafði ekki hlutað á jarðfræðinga. 

Uppi á Langahrygg velti ég því fyrir mér hvers vegna ég ætti að fara heim? 

Jú, valdstjórnin krafðist þess. 

En var ég á gossvæðinu? 

Nei, ég var langt fyrir utan hættusvæði sem skilgreint hafði verið. Þess vegna gekk ég upp á Stór-Hrút.

Stuttu eftir að ég sá nýju sprunguna og náði af henni mynd tók að renna hraun suðvestan við staðinn þar sem fyrst opnaðist.

IMGL4917 AurMikið var gaman - þangað til þyrla Landhelgisgæslunnar nálgaðist. Svo hringsólaði hún ógnandi yfir mér þar sem ég stóð þarna á fjallstindinum. Auðvitað skelfdist ég. Bjóst við hryðjuverkasveit Ríkislögreglustjóraembættisins sem myndi renna sér á köðlum niður úr þyrlunni, alvopnaðir hríðskotabyssum, hnífum, kylfum og táragasi, og handtaka mig fyrir að hafa óhlýðnast valdstjórninni. Svo gerðist það næstótrúlegasta. Þyrlan flaug í burtu. Ég settist skjálfandi og sveittur niður við litlu hrúguna sem einu sinni hafði verið varða og reyndi að ná mér. Það tókst, en helluna í eyrunum hef ég ekki losnað við síðan. Enn suðar.

 

Já og nú er aftur farið að gjósa og löggan á Suðurnesjum og embætti Ríkislögreglustjóra leita allra ráða til að passa okkur, almúgann. Við vitum ekki neitt, kunnum ekki neitt og erum vís til að detta ofan í kvikutjörnina eða jafnvel ofan í gíginn. Og þá er nú nauðsynlegt að þeir Geir og Grani og félagar þeirra standi sig.

 

Myndirnar

Efsta myndin er af forsíðu Fréttablaðsins og er af fólki sem er að brölta upp „kaðalleiðina“ svoköllu. Gönguleið upp bratta hlíð sem tróðst fljótt niður og í slyddu og rigningu varð hún fljótt eitt forað. Þetta var í boði löggunnar og Björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík og hafa báðir aðilar verið stoltir af framkvæmdinni.

Næsta mynd er tekin af Langahrygg og þarna sést í fjarska „kaðalbrekkan“ fræga.

Þriðja myndin er af uppgöngunni úr Nátthagadal, miklu léttari og auðveldari leið en löggan þröngvaði fólki til að fara.

Fjórða myndin þarfnast ekki skýringa.

Fimmta myndin ekki heldur.

Sú sjötta er af þyrlu Landhelgisgæslunnar sem nálgast Stóra-Hrút. Grænafjall í baksýn.

 

 

 


Ferðirnar í dalinn sem er ekki til og hefur aldrei verið til nema ...

Hér verður sagt frá „Rauðhólsdal“ sem er ekki til og hefur aldrei verið til nema í mínu höfði. Samt hef ég fjórum sinnum komið í hann. Og þetta er ekki gáta.

Mikið væri nú gaman ef ég hefði spáð fyrir um gosið sem kennt er við Geldinga. Ég gerði það ekki og sé eftir því. Ekki svo að ég sjái fram í tímann, þvert á móti. Mér gengur best, ólíkt mörgum öðrum, að segja frá því sem þegar hefur gerst. Væri ég draumspakur, skyggn, kynni að spá í spil eða kaffibolla hefði ég án efa séð gosið fyrir. Þessa hæfileika hef ég ekki en dreg ekki í efa að einhverjar konur hafi hana. Ekki karlar. Útilokað. En blessaðar konurnar gleymdu að spá fyrir um gosið. Jarðvísindamenn komust næst því og jarðbundnara fólk þekkist bókstaflega ekki. En þetta var nú nátengdur útidúr um efni pistilsins. 

Þannig stóðu málin á því ágæta ári 2021 að drjúgur tími fór í að fylgjast með gosinu við Fagradalsfjall. Ég tók myndir, skrifaði um það pistla á blogginu, á fésbókina en þó aðallega fyrir skúffuna, og skemmti mér vel með vinum og kunningjum sem nenntu að fara með mér á gosstöðvarnar. Oft fór ég einn og lét það ekki hefta mig því ég er ansi góður ferðafélagi.

Einu sinni gekk ég hringinn í kringum gosstöðvarnar. Líklega er vegalengdin um tuttugu km og fannst mér vel af sér vikið að rölta þetta. Svo uppgötvaði ég að nær annar hver maður hafði gengið hringinn. Þá dró aðeins úr montinu. Ferðin var samt ágæt, útsýnið stórbrotið og ég kom á staði sem ég hafði bara séð úr fjarska. Þetta var 29. júlí 2021.

IMGL0209_IMGL0210 Lum

Það undur gerðist í ferðinni er ég gekk frá nyrsta gígnum á gömlu sprungunni í áttina að keilulaga merarfjallinu að fyrir mér varð þetta líka snotra dalverpi. Síðar, er ég sagði frá því, var sagt að vel á því að örverpi færi í dalverpi en það er nú önnur saga. Innst inni í dalnum sá ég litla sæta dúddulega rauðhólinn. Ekki var hann marglitur, frekar tvílitur, svartur og rauður en litbrigðin léku ótrúlegan tvíleik svo nánasta umhverfi roðnaði, varð geislandi fagurt.

Fremst í dalnum var gilræfill og inn í hann hafði ógnandi hraunið úr Meradal skriðið af skepnuskap sínum endað ætlaði það sér að fylla dalbotninn en komst ekki upp í hann. Mér fannst tröllagígurinn sem gubbaði kviku, er þetta gerðist, ekki líklegur til að framleið nóg til svo dalnum væri ógnað. Ég hafði rangt fyrir mér.

IMGL0224 Lum

Ég skokkaði framhjá hrauninu og inn í dalinn. Tók nokkrar myndir og dáðist af sýningunni. Svona sést hvergi, ekki við Fagra-dalsfjall, svo mikið vissi ég. Á nokkrum stöðum í dalnum voru gróðurtorfur, merki um það sem áður var. Uppblásturinn hefur verið gríðarlegur eins og víða annars staðar við fjallið og raunar á öllu vestanverðu Reykjanesi. Engu að síður finnast þarna örnefni kennd við húsdýr. Við liggur að það hafi verið dýraníð að reka búfé á þessar slóðir, enda sáralítill annar gróður en mosi og stöku grastoppar. 

Áfram hélt ég hringleið minni, gekk þvert yfir dalinn. Þar er fyrir móbergshryggur sem álengdar er eins og kaun á fjallsöxlinni. Ég gekk upp á hann og inn í næsta dal en ákvað að koma aftur, sjá rauða hólinn í „Rauðhólsdal“.

IMGL0699_IMGL0702 Aur

Tæpum hálfum mánuði síðar, 8. ágúst, kom ég þangað aftur. Mér tókst að plata æsku-vin minn með mér. Við leigðum okkur rafhjól og brunuðum jeppaveginn sem liggur austan við Langahrygg og Stóra-Hrút. Nú gekk ég niður í dalinn úr norðri. Við skildum hjólin eftir fyrir ofan því ekkert vit var í að hjóla niður um stórgrýti og gljúpar sandbrekkur.

Dalurinn hafði breytt um svip því hraunið hafði óboðið læðst lengra inn í hann, kaffært endanlega litla gilræfilinn og var nú nærri hálfnað á leið sinni inni að rauðhól. Nei, þangað kemst það aldrei varð mér að orði. Ég hafði rétt fyrir mér en hugsunin var aðeins byggð á óskhyggju.

Sérkennilegt var að sjá hvernig hraunið hafði liðast hægt og rólega inn dalinn. Hér og þar í því glitti í rauða glóð og af og til gúlpaðist glóandi kvika út úr hrauninu, læddist ofurhægt og hljóðlaust niður á gróðurlausa jörðina og kólnaði þar. Svo varð önnur tunga til  og þannig ungaði hraunið út kvikunni án sjáanlegs erfiðis.

IMGL0690 Snap b Aur

Í fjarska sá ég hvernig mjó rönd reis upp á endann langt úti í hrauninu sem rann ofurhægt framhjá dalmynninu. Ég mundaði myndavélina, notaði aðdráttinn og smellti af. Fannst ég sjá lifandi veru á göngu,  Hraun-Grýlan ógurleg í ævintýrinu sem ég á eftir að skrifa.

Við snæddum nesti í skjóli af gráum klettum í rauðri hlíð fyrir ofan hraunið og veltum fyrir okkur hvort langt yrði í næsta gos á þessum slóðum. Fátt vissum við. Mánuði síðar var gefið út dánarvottorð, geldingsgosinu var lokið.

Svo leið og beið og vetur gekk í garð. Tíðin var ágæt. Ég ákvað að fara enn eina ferðina í dalinn góða og brunaði þangað  á rafhjóli 2. nóvember 2021. Ferðafélagar fengust ekki.

IMGL0880 AI

Þetta var einmannalegur rafhjólatúr. Ekki sála var sjáanleg, allt mannlaust, líflaust, jafnvel tröllslegur gígurinn sem gnæfði yfir umhverfið hafði lagt niður störf. Hraunframleiðslan var hætt eins og jarðvísindamenn orða það. Ég var eiginlega eins og Palli, einn í heiminum. Dálítið ónotalegt upp á fjöllum en ég hristi af mér drungann og lifði þetta af.

Enn hafði dalurinn breytt um svip. Hraunið hafði skriðið talsvert lengra í áttina að rauðhólnum en gefist upp áður en að brattanum kom, skorti allt byggingarefni. Rauðhóll átti greinilega að fá að lifa áfram, tilvera hans var tryggð. Mikið gladdist yfir því. Sá ekki neina ógn lengur. Fátt vissi ég. Auðvitað lá óvinurinn lævísi í leyni hulinn mannlegum augum og leitaði færist að gera út af við dalinn. Tilvist hans var ekki fullrituð í sköpunarsögu jarðar. Um það vissi ég auðvitað ekkert.

IMGL0899 Lum

Nú var mér starsýnt á sprungur í nærliggjandi Mera-fjöllum. Hlíðarnar virtust hafa brostið, ætluðu að skríða niður. Þetta var furðulegt. Ég ímyndaði mér að hraunfargið drægi þær niður en Palli jarðvísindamaður (þó ekki sá sem var einn í heiminum), upplýsti að jarðskjálftar undanfarinna missera hefðu valdið sprungunum en ekki nefndi hann skriðuföll.

Nú liðu níu mánuðir. Eitthvað hafði gerst, meðgöngunni var lokið og jörðin rifnaði og ... (Þetta er frekar bjálfaleg líking, viðurkenni það). Jæja, nú liðu níu mánuðir og allt í einu gerast þau ósköp í litla, snotra dalverpinu mínu að andskotinn verður laus, óvinurinn í leyni reif upp jörðina eins og umslag. Sprunga varð til frá suðvestri, þar sem litli gilræfillinn átti um aldir tilveru undir björtum himni, og í norðaustur, hátt upp í hlíð Merahnúks.

IMGL5547 Neo

Sprungan snýtti úr sér glóandi kviku sem kaffærði umsvifalaust sléttuna fyrir neðan og rúmlega það. Kveikti gróðurelda á stöku stað kaffærði litlu gráu skriðuna í rauðu brekkunni og réðst svo til atlögu við saklausan rauðhólinn sem ekkert hafi til saka unnið frekar en aðrar innréttingar í dalnum. Vörn hans var engin og saga hans því öll. Allt var ónýtt, steypt andstyggilegu svörtu hrauni. Mannlegur máttur hefði ekki getað eyðilagt dalverpið á jafn hrottalegan hátt og getur það þó flest allt. Hér var öllu fórnað þann 3. ágúst 2022 og í ótiltekinn tíma þar á eftir (lesandinn verður að muna að höfundurinn er ekki forspár).

Daginn eftir lagði ég land undir fót eða öllu heldur dekk. Hjólaði með góðum vini á rafhjóli sömu leið og tvisvar áður og í fjórða skiptið kom ég í „Rauðhólsdal“ sem er ekki til og hefur aldrei verið til nema í mínu höfði. Nafnið er ekki lengur réttnefni frekar en Geldingalaus Geldingadalur eða meralaus Meradalur..

IMGL5383_IMGL5387

Við stóðum innan um eitt hundrað manns á kolli rauðhóls og hraunið brimaði rétt fyrir neðan. Sprungurnar sem ég hafði fundið á hólnum fyrir níu mánuðum voru ekki lengur sjáanlegar, allar úttraðkaðar. Uppi um allar hlíðar var fjöldi fólks rétt eins og „þjóðflutningarnir miklu“ hefðu byrjað enn á ný. Aragrúi fólks.

Jarðeldurinn logaði glatt enda vel kynnt undir. Gígarnir voru iðnir í framleiðslu sinni og til varð stór kvikutjörn. Úr henni rann hraun í áttina að hólnum góða, reyndi að komast upp en lak svo inn í litla gilið og kaffærði stórgrýtið gráa. Hraun rann einnig út úr dalnum og yfir það gamla sem tröllagígurinn hafði sent inn í dalverpið og Meradal. Síðast fréttist að það væri komið austur að mörkum dalsins og myndi án efa fara yfir þau eftir nokkra daga.

Ég hafði séð nægju mína. Dalurinn var ekki minn. Ekki lengur. Allt breytist. Jafnvel mannfólkið. Hér á að fylgja andvarp lífsreynds öldungs (man ekki hvað hann heitir).

(Til að njóta myndanna er nausynlegt að smella á þær og opnast þá dýrðin.)

IMGL0209_IMGL0210 Lum sprungaOg hér er aftur efsta myndin en inn á hana hef ég nú dregið línu sem á að tákna kvikusprunguna. 


Myndir af gosstaðnum í Rauðhólsdal

Í þann mund sem ég var að ganga frá pistli um hugsanlega gosstað sem ég taldi að yrði norðaustan við Meradal kom tilkynning um að gos væri hafið. Mér til undrunar og vonbrigða reyndist það vera í afdal inn af Meradal, afskaplega snotur og og skemmtilegur staður. Hann er örskammt frá þeim stað sem ég hélt að myndi verða vettvangur gossins. Ég kallaði hann með sjálfum mér „Rauðhólsdal“ en líklega mun hann fara á kaf innan skamms og örlög dalsins verða svipuð og Geldingadala og Meradals, hverfur undir svart hraunið.

IMGL0238_IMGL0241 Aur

Hér er samsett mynd af gosstaðnum. Stór og marglitur hóll innst í dalnum. Gossprungan liggur frá miðjum dalnum og upp í hlíðina hægra megin.

IMGL0699_IMGL0702 AurHér er horft til suðvesturs. Stór-Hrútur gnæfir yfir og svart hraunið úr gígnum hefur runnið inn í dalinn. Stór gígurinn sést ekki, er í hvarfi við fellið hægra megin. Gossprungan liggur því sem næst frá miðjum dalnum og upp vinstra megin við gilið og grjóturðina.

IMGL0975 Aur

Loks er hér mynd sem ég tók 2. nóvember 2021 og var þá hraunið komið mjög innarlega í dalinn. Eins og sjá má á vefmyndavélum liggur sprungan undir eldra hrauninu og upp í hlíðina hægra megin eins og áður sagði.

Inn í þennan lita og snotra dal kom ég þrisvar sinnum á árinu 2021. Staðurinn getur alls ekki talist „túristavænn“. Hann er langt frá Suðurstrandavegi, löng ganga frá honum. Tvisvar fór ég á þangað á rafhjóli og var það drjúg og þreytandi ferð. Jeppavegur liggur nálægt gosstaðnum en meintir eigendur Fagradalsfjalls og nágrennis hafa lokað honum fyrir bílum. Líklega er það bara ágætt.

Hér kort af gosstaðnum og nágrenni. Það skýrir sig ágætlega og sýnir að gosið kom nákvæmlega upp þar sem jarðvísindamenn ætluðu að kvikugangurinn væri.

En hvers vegna skyldi gosið hafa komið upp á Gosstaðurinn 2022þessum stað en ekki norðar? Held að það sé vegna þess að kvika leitar upp á lægri stað í landinu. Held það sé ágæt kenning.

Viðbót

Nú eru komnar skýrari myndir af gosstöðvunum. Gosið er tvímælalaust kraftmeira en var í stútnum í Geldingadalnum vestari þann 19. mars í fyrra.

Merkilegast finnst mér hversu margir gígar hafa myndast fljótt á sprungunni. Hún er ekki lengur samfelld heldur slitrótt. Gossprungur í hlíðum eru greinilegar í Móhálsadal.

Alveg er það stórmerkilegt hvernig lögregla og björgunarsveitir tala niður til almennings. Búið er að loka 12 km jeppatroðingi að gosstöðvunum og fólk fær ekki lengur að ganga að þeim. Sagt er að það sé vegna þess að gas streymi upp við gosstöðvarnar og það sé hættulegt. Þetta er líklega rétt svo langt sem það nær. Samkvæmt streymi Ríkisútvarpsins úr þyrlu Landhelgisgæslunnar er hávaðarok þarna. Á Bliku er sagt að það séu 10 m/s og því pottþétt að öll mengun feykist út í veður og vind.

Auðvitað stendur fólk ekki ekki í reykjarkófi. Halda björgunarsveitir og löggan að almenningur sé dómgreindarlausir asnar? Ég bara spyr. Sjá frétt mbl.is

Staðhættir eru þannig að hægt er að standa langt fyrir ofan gossprunguna, horfa niður til hennar úr öruggri fjárlægð rétt eins og í hringleikahúsi. Hvaða hætta leynist að öðru leyti.

Veðurstofan
Mér finnst þessi mynd úr þyrlu Landhelgisgæstunnar sem birtist á vef Veðurstofunnar alveg frábær og sýnir aðstæður mjög vel. Og hvert fer mökkurinn? Jú, til suðurs, undan norðanáttinni.

RÚV streymi 2022-08-03 at 15.50.14Einnig er síðasta myndin góð. Greip hana af streymi Ríkisúpvarpsins.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband