Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Löggukylfa eða rafbyssa

Screenshot 2023-01-25 at 20.28.11Á tveimur námsárum mínum starfaði ég sem lögregluþjónn í Reykjavík. Í upphafi var mér afhentur einkennisbúningur, lítil minnisbók, blýantur og svo handjárn og kylfa. Mikil og gerðarleg kylfa. Hvað átti að gera við hið hana? Jú, berja á ógæfufólki sem var til vandræða. Ég notaði hana aldrei en skoðaði oft og ræddi við samstarfsmenn mína sem sögðu mér sögur um notkun hennar við ákveðnar aðstæður. Fæstir sögðust nota hana og sögðu að fortölur höfðu miklu betri áhrif á fólk en barsmíðar. Því átti ég eftir að kynnast.

Kylfan var samt flott, svona skínandi og næstum falleg. Féll vel í hendi, var með áfastri leðuról sem smeygt var upp á úlnliðinn svo hún myndi ekki tapast rynni hún úr greipinni. Dálítið „töff“ leikfang. Innan á einkennisbuxurnar var saumaður vasi eða hólf fyrir kylfuna. Það var nú meiri óskapnaðurinn því afskaplega óþægilegt var að hafa hana þar svo ég sleppti því, þóttist hafa gleymt henni væri ég spurður.

Lögreglumenn eru ekkert öðru vísi en annað fólk og eflaust hafa margir notað kylfu sína í vörn gegn drukknu og árásargjörnu fólki og jafnvel meitt einhverja. Aldrei heyrði ég samt af misnotkun eða lögga hefði slasað fólk með kylfu. Man eftir því að við nýliðarnir fengum lítilsháttar kennslu í notkun bareflisins. Aldrei slá í höfuð, var sagt, aðeins í síðu fólks, handleggi eða fótleggi. Ég sá það fyrir mér að nokkuð erfitt væri í hamagangi og látum að miða og hitta á rétta líkamsparta. Maður yrði líklega laminn í kæfu áður en maður gæti beitt kylfunni.

Í eina skiptið sem ég taldi mig hafa þurft kylfu var þegar við handtókum þýska bankaræningjann. Eftir stutt hlaup náðum við manninum, handjárnuðum hann og settum aftan í lögreglubílinn. Mér, nýliðanum, var skipað að fara inn með honum og hafa á honum gætur. Hinir þrír félagar mínir settust frammí. Ég hlýddi, settist á bekkinn á móti glæponinum, til alls búinn. Ímyndaði mér að hann gæti tekið upp á alls kyns óskunda eins og að fara úr handjárnunum og yfirgefa bílinn á fljúgandi ferð niður á Hverfisgötu. Með kylfu hefði ég ábyggilega geta barið úr honum alla óþekkt en hana var ég bara ekki með frekar en fyrr daginn. Maðurinn var hins vegar ljúfur og góður alla leið inn í fangaklefa, „fangageymslu“ eins og það heitir víst núna.

Nú er mikið talað um rafbyssur. Þær þekktust ekki þessi tvö sumir mín í lögreglunni. Ekki heldur piparúði eða annar búnaður sem nota má til að ráða niðurlögum æsingamanna. Nokkuð hef ég lesið mér til um rafbyssur og er þess fullviss að ekki sé hægt að bera þær saman við kylfur sem eru stórhættulegar, geta valdið slæmum meiðslum, jafnvel varanlegum skaða. Notkun rafbyssu hefur ekki sömu afleiðingar.

Ætti ég að velja myndi ég veðja á rafbyssuna. Hún veldur aðeins stundaróþægindum, ekki marblettum, beinbroti eða kúlu á höfði.


Náunginn sem gekk 3126 km á einu ári og hitti ekki páfann

Rómargangan 2022Maður nokkur sem fæstir þekkja gekk árla út á tröppurnar á fyrst degi ársins, sprændi, og hugsaði um leið hvað hann gæti gert sér til gamans á árinu 2022. Hann íhugaði að hætta að berja börnin sín, vera kurteis við nágranna sína, fara á myndlistarsýningar ... og þá hætti hvort tveggja, bunan og hugmyndirnar.

Þess í stað klæddi hann sig í gönguskóna og lagði land undir fót. Bókstaflega. Hann hélt til Skotlands. Þar nyrst á meginlandi er þorp sem heitir Þjórsá (Thorso) og frá kirkjutröppunum hóf hann göngu sína. Gekk suður til Dofra (Dover) og hafði þá gengið 1205 km. Þar datt honum í hug að ermssynda yfir til Norðmandí en lét það vera enda sjór úfinn og kaldur. Þegar til Bikars (Calais) kom þótti honum ráð að skipta hann um sokka og snúa nærbuxunum við. Svo keypti hann nýjar reimar í skóna og fékk sér rúnstykki með smjöri og skinku í bakaríi bæjarins og lagði í’ann. Alla þessa 1901 km til Róms. 

Árið 1013 var Flosi Þórðarson staddur í borg nokkurri á Englandi, líklega Lundúnum eða einhvers staðar í Bretlandi hinu forna. Varð hann þá sjúkur á sinni því árið áður hafði hann lagt eld að Bergþórshvoli svo inni brunnu hjónin Njáll og Bergþóra, þrír synir þeirra og fleira heimafólk. Hann sigldi þá yfir til Norðmandí og gekk þaðan til Róms, hafði mikla sæmd af göngu sinni, tók lausn af sjálfum páfanum, fór síðan léttur og kátur til Norvegs og þaðan heim að Svínafelli. Ekki áttum við átti maðurinn lítt þekkti samleið með Flosa enda var hann á ferð nokkrum árum síðar. 

Kári Sölmundarson hafði fækkað ótæpilega í brennuliði Flosa, gert nokkra höfðinu styttri sem mörgum þótti slæmt en „brotaþolum“ afleitt. Þessi fjandvinur Flosa gekk líka til Róms enda sá hann eftir öllum drápunum og páfinn seldi honum fúslega fyrirgefningu. Þá hélt Kári léttur í spori til Íslands. Þar lét hann af öllum fjandskap við Flosa sem gifti honum bróðurdóttur sína, ekkju Hvítanesgoðans. Hann hafði Kári óvart drepið í samvinnu við þá Njálssyni en það er nú sko algjört aukaatriði og vandist Hildigunnur Kára smám saman.

Maðurinn fæstir þekkja kom á gamlársdegi til Róms og reyndi að ná tali af páfanum. Sá var vant við látinn, sat á rúmstokk fyrrverandi páfa sem var doldið lasinn og gat því ekki aðstoðað ferðalanginn frá Íslandi. Þess í stað sendi hann bílstjóra sinn með krossað vatn og lítið altarisbrauð sem heimamenn kalla „obbládu“ eða eitthvað svoleiðis. Lét’ann, bílstjórinn, svo ummælt að þetta væri næstum því eins gott og páfinn sjálfur hefði selt honum veitingarnar og fyrirgefningu syndanna í eftirrétt. Manninum lítt þekkta fannst þetta ekki mikil sæmd miðað við upphefð þeirra Flosa og Kára á árum áður. Bílstjórinn benti honum þá undurrólega á að þetta væri hið eina sem í boði væri. Vildi hann ekki trakteringarnar gæti hann farið með allar sínar syndir aftur heim til Íslands. „Prendere o lasciare“, bætti hann við á máli heimamanna. 

Vatn og altarisbrauð er lítil næring fyrir vegmóðan mann og því keypti hann sér utan veggja Vatíkansins pizzu með nautahakki, beikoni, osti og ananas. 

Maðurinn lítt þekkti lagfærði nú skótau sitt, setti plástur á hælsærin því ekki vildi hann enda eins og Gellir Þorkelsson sem árið 1073 lést eftir göngu suður Róms og norður til Danmörks, líklega af fótameinum og ekki bætti úr flensuskratti sem hann fékk á bakaleiðinni.

Náunginn sem fæstir þekkja hafði nú gengið 3126 km á einu ári og þóttist góður með sig, rétt eins og sá sem árið áður hafði lagt að baki 2591 km og var ekki síður kátur.

Svona er nú sýndarveruleikinn á kalda Fróni. Eða eins og Jónas orti forðum daga:

Eg er kominn upp á það,
allra þakka verðast,
að sitja kyrr í sama stað,
og samt að vera að ferðast. 


Jólakveðjur á Þorláki, svoooooo obbbossslea jóóólaaaaleeeegaaaar

Í morgun gekk ég út á svalir, eins og ég geri jafnan árla á Þorláksmessu, dró nokkrum sinnum djúpt andann og hrópaði síðan af öllum kröftum:

Sendi ættingjum og vinum hugheilar óskir um gleðileg jól og heillaríkt nýtt ár. Þakka allt á árinu sem er að líða.

Svo beið ég í dálitla stund þangað til svörin bárust:

Já, sömuleiðis, gleðileg jól, kallaði einhver.

Haltu kjafti, helv... þitt. Fólk er að reyna að sofa hérna, öskraði rámur kall.

Ha ..., kaseiru? hrópaði skræk kona.

Hundur gelti, annar tók umsvifalaust undir og köttur mjálmaði. Nagladekk skröltu á íslausu malbiki.

Ég gekk inn í stofu, nennti ekki að hlusta á hundgá, jafnvel þótt fyrr eða síðar myndi hundur sonar míns, hann Fróði (sko hundurinn heitir Fróði ekki sonurinn) hugsanlega gelta, mér eða einhverjum öðrum til ánægju.

Engu að síður velti ég því samt fyrir mér hvort ekki væri skynsamlegra að senda jólakort eða tölvupóst. Hrópin á svölunum hef ég hins vegar stundað á Þorláksmessu frá því ég var barn og með því sparað mér ótrúlegar fjárhæðir í kaupum á jólakortum og frímerkjum. Og allir gleðjast yfir gleðilegjólaogfarsæltnýttárhrópum mínum (nema þessi rámi).

Jólakveðjur útvarpsins

Nú kann ábyggilega einhver að misskilja mig og halda að ég sé að gagnrýna rúmlega hálfra aldar gamlan sið að senda jólakveðjur á gufunni Ríkisútvarpsins. Skil ekki hvernig hægt er að finna það út.

Úr því að verið er að brydda upp á þessu, man ég aldrei eftir að hafa heyrt jólakveðju til mín á gufunni eða einhvers sem ég þekki og aldrei hef ég kannast við nöfn þeirra sem senda kveðjur. Sendendur eru alltaf einhverjir sem enginn þekkir, til dæmis „Stína, Barði, börnin“ og fleiri sem ég man ekki hvað heita enda enn fleiri kveðjur þetta árið en í fyrra. Það bendir eindregið til þess að fleiri og fleiri láta Rúvið plata sig. 

52-525070_free-png-download-vintage-radio-png-images-backgroundSko, ég held því síst af öllu fram að kveðjurnar séu ómarkviss vitleysa fyrir kaupendur (og hlustendur).

Á kaffistofunni er því haldið fram að kveðjurnar séu að mestu leyti skáldaðar af starfsmönnum  Ríkisútvarpsins. Óneitanlega er það grunsamlegt hversu kveðjurnar eru allar keimlíkar.

Í þeim koma fyrir fyrir orðin óskir, jól, gleðilegt, þakkaár, nýttlíða og svo kryddað með innihaldsríkum samtekningum og forsetningum af ýmsu tagi. Nokkuð til í þessu.

Nú má vel vera að enginn sendi mér jólakveðju í útvarpinu, sem í sjálfu sér er dálítið sorglegt. Hitt er þó jafn líklegt að útilokað sé að hlusta með einbeittri athygli á yfir fjögur þúsund jólakveðjur lesnar í belg og biðu í tvo daga samfleytt og ná að grípa þá réttu. Hreint útilokað. Vonlaust. Óraunhæft. 

Ríkisútvarpið græðir

Aðferðafræðin er doldið kjánaleg, svona markaðslega séð. Og enn vitlausari eru þeir sem punga út fullt af peningum til að senda kveðjur sem aldrei rata til móttakenda.

Margir nenna ekki lengur að hlusta á jólakveðjurnar sem er synd, illa farið með góða sorg sem óhjákvæmilega til verður þegar ekki næst að grípa kveðju sem maður vonar að hafi verið send en fór aldrei í loftið. Þó eru margir með gufuna opna og hlusta á kveðjurnar sem í síbylju hverfa út í algleymið meðan verið er að baka, pakka inn jólagjöfum, berja krakkanna eða eitthvað annað þarflegt. Það er nú svo agalega jólalegt. Ha? Ekki satt?

Hitt er ku vera dagsatt að Ríkisútvarpið græðir tæplega tuttugu milljónir króna á tiltækinu og kostar engu til nema þulunum sem þylja sig hása. Meira að segja útvarpsstjórinn tekur þátt í upplestrinum og er það í eina skiptið að hann vinnur handtak þarna innandyra. Allir hinir eru þegar á launaskrá svo kostnaðurinn er enginn. Bara tekjur. Stórbissniss.

En bíddu nú aldeilis við, kærir lesandi. Í anda samkeppni og þjóðþrifa mun ég frá og með deginum í dag og fram yfir áramót bjóða landsmönnum að hrópa hjartnæmar jóla-, annaníjóla-, þriðjaíjóla-, fjórðaíjóla ... (og svo framvegis) og nýjárskveðjur af svölunum heima.

Rafræna tómið 

Svo vel hefur tekist til á undanförnum árum að þetta er að verða siður, svo óskaplega jólalegur jólasiður. Spyrjið bara alla þá sem sendu og fengu kveðjur. Heimtur á kveðjum eru margfalt betri hjá mér en Ríkisútvarpinu. 

Verðið er miklu betra en hjá Ríkisútvarpinu, heilum 17,523% lægra. Og það sem meira er: Komist kveðja sannanlega ekki til skila fær kaupandinn 33,9% endurgreiðslu. Keppinauturinn getur sko ekki toppað þetta og mun ekki einu sinni reyna það.

Fyrst nú er verið að misskilja viljandi tilganginn með þessum skrifum mínum vil ég nefna þá staðreynd í fullkominni vináttu, kurteisi og virðingu fyrir hefðum fólks að það er ábyggilega ódýrara og markvissara að hrópa kveðjur af svölunum en að borga Ríkisútvarpinu fyrir að lesa þær út í rafræna tómið sem er að auki umhverfislega stórhættulegt og um síðir getur valdið ólæknandi veirusjúkdómum eins og dæmi síðustu ára sanna.

Eða heldur þú, lesandi góður, að Kóvid veiran hafi bara orðið til úr engu? Í Kína? Ó nei. Ekki aldeilis. „Á skal á endanum stafa“, eins og kellingin sagði við vaðið. Eða hvers vegna mun yfirborð sjávar hækka um fimm sentímetra á næstu þrem árum og veiran stökkbreytast? Ég bara sper.

Gasalega jólalegt

Já, það má vel vera að Ríkisútvarpið reyni að klekkja á mér, samkeppnisaðilanum (aðili er svooo fallegt orð), með því að láta útvarpsstjóra lesa jólakveðjur í tíu mínútur. Kemur nú krókur á móti þessu bragði og mun ég breyta um rödd í tíu mínútur og þykjast vera forsetinn (landsins, Trump eða kóngurinn í Lúxúmbúrg eða einhver annar).

Þá hrekkur þetta eflaust upp úr lesandanum:

En það er svo gasalega jólalegt að hlusta á jólakveðjulesturinn á gufunni.

Já, því skal ég nú trúa. Það er líka obbbbb-ooooðs-leeeeeg-aaaa-a jólalegt að tala til þjóðarinnar úti á svölunum mínum á Þorláksmessu-, aðfangadags- og jóladagsmorgni. Þar að auki hef ég tvennar svalir, í austur og suður. Toppaðu það, þú þarna útvarpsstjóri.

(Vilji svo til að einhver glöggur lesandi telji sig hafa lesið ofangreindan pistil á Þorláksmessu á síðasta ári skal það fyrirfram dregið í efa vegna þess að fólk man ekkert stundinni lengur.)


Laugardalslaugin óhreina

Pottur í LaugardalslaugMynd af potti í Laugadalslaug, óhreinustu laug landsins, vakti athygli mína á mbl.is. Ég þekki hana vel, hef komið þangað nærri því frá barnæsku. Aldrei nokkurn tímann hefur hún verið í jafn slæmu ástandi og nú.

Árlega segjast borgaryfirvöld ætla að láta lagfæra hana en ekkert gerist enda bara „laugardalslygi“. Laugin heldur áfram að grotna niður og óhreinindin eru áberandi.

Ég hef merkt við örfá atriði á meðfylgjandi mynd og þau eiga við alla pottanna. 

  1. Handriðin í kringum alla potta eru kolryðguð, sums staðar komið gat í gegn.
  2. Ryðblettir eru víða og ryðtaumar leka frá þeim.
  3. Málningin hefur víða máðst af og sjaldan er bætt úr því.
  4. Tröppurnar eru skítugar, sérstaklega til hliðar. Svo mikill var skíturinn að fyrir þremur árum höfðu plöntur skotið rótum þarna, sjá mynd.
  5. Takið eftir bökkunum; köld steinsteypa, óslétt og andstyggileg

Screenshot 2022-12-14 at 17.46.14Á myndinni eru ekki handföngin sem fest eru við handritið allan hringinn í einum eða tveimur pottum. Tilgangurinn er óljós. Þau eru drulluskítug, hafa aldrei verið þrifin og ugglaust má finna á þeim lífsýni frá þúsundum manna. Geðslegt eða hitt þó heldur.

„Það hefur verið sagt mér“ af ólygnum „aðila“ að þegar sundlaugin var opnuð árið 1968 hafi nokkur tonn af ódýru salti verið keypt úr skipi sem strandaði á Suðurnesjum. Enn er nóg til af því og mikið notað á bakka laugarinnar í frosti. Það er gróft en gallinn er bara sá að fæstir sundlaugagestir geta gengið á því, flestir verða blóðrisa á iljunum. Saltið er þó fullgott í lýðinn þó það hafi upprunalega átt að fara á Holtavörðuheiði í frosthörkum.

Sjálf sundlaugin er ónýtt vegna leka sem hér er nú aukaatriði, verra er með sóðaskapinn í niðurföllunum sem eru í bökkunum, hringinn í kringum hana. Pétur nokkur sundlaugagestur sagðist í óspurðum fréttum hafa hrækt í niðurfallið fyrir fimm árum og enn sæist hrákurinn, væri bara grænni en forðum, birki hafi skotið rótum í honum og muni bruma í vor.

Gróðurinn í Laugardalslaug er gróskumikill og hefur áhrif. Gestir státa sig allir af margvíslegum fótsveppum sem eru inngrónir í neglur og skinn. Hvergi á landinu eru álíka gróðurfar að finna enda þrifin víðast miklu meiri. Gestirnir eru þannig stórkostleg tekjulind fyrir lækna og apótek og laugin á stóran þátt í þróttmiklu efnahagslífi landsins.

Líklega er það rétt fullyrðing að það sem ekki drepur mann herðir mann. Í Laugardalslauginni má eflaust finna mesta landsins mesta úrval af sýklum og lífssýnum fyrir utan veggi Íslenskrar erfðagreiningar. Vera má að þar megi finna merki um alla sjúkdóma sem grasserað hafa síðustu fimmtíu árin. Það er nú allnokkuð fyrir læknavísindin og án efa ætti að friða laugina og nýta í rannsóknarskyni fyrir allt mannkyn. Mæli með heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna en á henni eru nefnilega meira en þúsund menningar- og náttúruminjastaðir um allan heim þeirra á meðal Þingvellir.

IMG_2116Ég hef nú lagt af heimsóknir í Laugardalslaug, því miður. Sakna hennar dálítið en sérstaklega þaulsetnum pottafélögum, afbragðs fólki, fróðu og skemmtilegu. Jafnvel þeirra sem iðulega leggja mig í einelti fyrir það eitt að vera Sjálfstæðismaður. Það er bara gaman nema þegar einn ætlaði að berja mig í sturtunni fyrir að kunna afskaplega vel við Davíð Oddson. Ég slapp en hef gengið til síðan til sálfræðings, þess hins sama og mistókst að sætta Pírata. Honum hefur ekki heldur tekist vel með mig. 

Ekki veit ég hvenær ég fer aftur í Laugardalslaugina. Að vísu eru jólin að koma og líklega verður maður neyddur til að baða sig. Sé ekki hvernig ég kemst hjá sápuþvotti. Kannski að maður druslist í laugina einhvern froskaldan veðurdag.

Nei, ég fer ekki í aðrar laugar. Nema kannski Vesturbæjarlaugina, eða Árbæjarlaug, eða Seljavallalaug. Sú síðastnefnda er hreinni en Laugardalslaugin.


Jafnaðarflokkurinn jafnar um þingflokksformanninn og öllum er sama

Athygli vekur að nýkjörinn formaður Samfylkingar jafnaðarflokks Íslands lét formann þingsflokksins taka pokann sinn eins og sagt er um þjálfara íþróttaliða sem er sparkað.

Fjölmiðlar gera ekkert veður út af því þó þingmaðurinn, lögfræðingurinn og aðalfjölmiðlaviðmælandi landsins Helga Vala Helgadóttir sé svipt embætti sínu.

Í frétt Vísis segir að formaðurinn vilji ekki tjá sig um brottreksturinn, er líklega enn að semja sennilega skýringu. Sú sparkaða ber sorg sína í hljóði og vill ekki heldur tjá sig.

Hvað hefðu nú fjölmiðlar gert ef nýkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins hefði sparkað formanni þingflokksins? Allt hefði orðið vitlaust og blaðamenn og sérfræðingar á samfélagsvefjum myndu vaða samsæriskenningarnar upp í hné. Ritstjóri Fréttablaðsins myndi skálda upp hrikalega sanna skýringu á hneykslinu. Ríkisútvarpið myndi tala við uppáhaldsstjórnmálafræðinginn sinn sem héldi því fram að flokkurinn væri beinlínis að klofna og spennan meðal flokksbundinna væri hreinlega „áþreifanleg“. Ritstjóri Kjarnans myndi rita hlutlausa frásögn um hið sanna óeðli flokksmanna.

Þegar málið er skoðað aðeins nánar vaknar sá grunur að líklega er ekkert umtal verra en slæmt umtal. Þögnin getur oft verið svo ansi hávær.

 


Þá voru kallarnir svipþungir og gáfulegir í svörtum frakka og með hatt

Spennan er því sem næst áþreifanleg, sagði fréttamaður Ríkisútvarpsins um formannskosningu í Sjálfstæðisflokknum og átti við andrúmsloftið á landsfundinum. Líklega var það sami fréttamaður sem sagði í hádegisfréttunum á laugardeginum að formannskjörið væri aðalatriði fundarins. Hvort tveggja er bölvuð della, sett fram í anda slúðurfréttablaða.

Ég er á landsfundinum en hef ekki fundið fyrir spennunni. Hins vegar er afskaplega skemmtileg stemning meðal fólks. Mikið hlegið, fólk talar hátt, gamlir vinir og kunningjar faðmast og rifja upp gamlar minningar.

Við spjölluðum saman nokkrir sem vorum ungir sjálfstæðismenn fyrir allmörgum árum og rifjuðum upp hvernig það hafi verið fyrir krakka eins og okkur að ganga í fyrsta sinn inn á landsfund, það allra heilagasta í flokksstarfinu. Hitta alla frammámenn flokksins og fjölda annarra áhrifamanna sem maður sá aðeins á svart-hvítum myndum í dagblöðum og sjónvarpi. Þeir birtust virðulegir í svörtum frakka með hatt á höfði, svipþungir og gáfulegir. Töluðu langt mál og ítarlegt og höfðu á öllu svör og líklega líka á lífsgátunni sjálfri.

Fjörtíu árum síðar erum við „ungu“ sjálfstæðismennirnir komnir á sama aldur, en frakkalausir, hattlausir og sumir jafnvel bindislausir (að hugsa sér það) og konur líklega orðnar fleiri en kallarnir, allar litríkar og áhrifamiklar til orðs og æðis. Lausnir á lífsgátunni höfðum við ekki fundið en kærum okkur kollótta því lífið og samfélagið allt er miklu, miklu skemmtilegra og fallegra nú en þegar miðaldra forverar okkar stjórnuðu flokknum. Að minnsta kosti finnst okkur það (höldum að unga fólkið sé sammála okkur).

Svo var það þetta um „áþreifanlega spennu“. Nei, sagði einhver. Þetta er næstum því eins og að koma á ættarmót, hitta fjölmargt fólk sem maður þekkir og kann vel við og kynnast nýju.

Fyrst og fremst er landsfundurinn samkoma fólks með áþekkar lífsskoðanir og stefnu í stjórnmálum. Þessu næst er fundurinn stefnumarkandi og allir sem vilja geta haft áhrif. Ég sótti í gær fund um umhverfis- og samgöngumál. Hann sótti um tvö hundruð manns og hann var fjölmennari en aðalfundur ýmissa íslenskra stjórnmálaflokka.

Hvernig var unnið? Opin mælendaskrá, fjölmargir tóku til máls. Texta ályktunarinnar var breytt, skriflega tillögur voru lagðar fram, þær ræddar og þeim breytt væri þess þörf. Ekki var alltaf greidd atkvæði heldur rökrætt og samkomulag fundið. Að endingu var fólk sátt við ályktunina. Í dag var hún kynnt fyrir landsfundinum í sal.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins er lýðræðisveisla. Þetta er ekki innantómur frasi heldur staðreynd. Raddir allra fá að heyrast, enginn er settur útundan en meirihlutinn ræður. Fundur tveggja þúsunda manna.

Jú, formannskosningin er framundan. Vinkoma mín sem er borgarfulltrúi var afar sár við mig því ég ætla að kjósa núverandi formann (ekki tala um sitjandi formann). Við lá að mér þætti svo leitt að valda henni vonbrigðum að ég skipti um skoðun, en ég harkaði af mér. Hún er eiginlega sú eina sem reynt hefur að hafa áhrif á mig.

Ég er hins vegar viss um að Bjarni Benediktsson verði kosinn formaður á morgun. Veðja á að hann fái um 60% atkvæða.


Ég kýs Bjarna Benediktsson á landsfundinum

Ég var skráður á landsfund Sjálfstæðisflokksins nokkru áður en Guðlaugur Þór Þórðarson tilkynnti um framboð sitt til embættis formanns flokksins. Ég er málkunnugur Guðlaugi og kann vel að meta hann, tel hann góðan stjórnmálamann. Það breytir því ekki að ég mun kjósa Bjarna Benediktsson sem formann. Ég kaus hann ekki í fyrsta skipti er hann bauð sig fram og sé eiginlega eftir því. Bjarni hefur reynst duglegur formaður og eflst af reynslu og þekkingu og er nú tvímælalaust fremstur meðal jafningja. Þetta er mitt álit og þó þekki ég manninn ekki persónulega. Ég fylgist þó vel með íslenskum stjórnmálum.

Svo má spyrja hvort það sé honum að kenna að fylgi flokksins sé nú aðeins um fjórðungur kjósenda. Svarið er ekki einfalt en auðvitað vill sófafólkið blóraböggul, fórna einhverjum í þeirri von að allt gangi vel á eftir. Þannig verklag er ekki til góðs, þvert á móti. Skynsamlegast er að taka höndum saman og vinna að því verðuga markmiði að afla Sjálfstæðisflokknum fylgis.

Að lokum er ekki úr vegi að taka það fram að þó fjölmiðlamenn segi titring meðal Sjálfstæðismanna vegna formannskjörsins hef ég ekki orðið hans var. Fólkið í kringum mig er sallarólegt, engar hringingar eða læti eins og hér áður fyrr.

 

 

 


Bragginn í Nauthólsvík og spillingin í kringum hann

Einn af þeim skörpustu sem skrifa í Fésbókina er húsasmíðameistarinn Símon Gísli Ólafsson. Hann er KR-ingur, Reykvíkingur og fjölskyldumaður (líklega í þessari röð). Símon hefur ríkt skopskyn og beitir því á hárfína hátt, stundum í kaldhæðni en oft til gamans.

Hann er ekki búinn að gleyma Braggamálinu sem var dálítið í fjölmiðlum á árinu 2018. Þá taldi enginn sig þurfa að kryfja málið til mergjar, þaulspyrja Dag B. Eggertsson, borgarstjóra, formann skipulagsnefndar eða stjórnendur borgarinnar. Málið var og er fáránlegt, lyktaði allt af spillingu því margir höfðu ágætar tekjur af því af verkefninu.

Þann 9. október skrifaði Símon þjóðfélagsrýnir þennan pistil í Fésbókina:

Ég er eiginlega með þetta Braggaævintýri borgarinnar á heilanum.

Ég held ég hafi ekki orðið jafn hneykslaður í nokkuð mörg ár eins og á þessu ævintýralega bulli sem er í gangi þarna hjá fólki sem á að vera að vinna að hag okkar Reykvíkinga.

Á hverju er þetta fólk eiginlega?

Það er samt ekki eins og það sé úr háum söðli að detta þegar verk þessara snillinga eru skoðuð aftur í tímann.

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir er 33 ára arkitekt.
Eiginmaður hennar er sjúkraþjálfi og formaður samtaka um bíllausan lífsstíl ef einhverjum skyldi þykja það áhugavert.
Mér þykir það pínu áhugavert.

Sigurborg Ósk og félagar hennar hjá Yrki arkitektum fengu verðlaun sumarið 2017 frá Reykjavíkurborg í hugmyndasamkeppni um byggð á Heklureit á Laugavegi.
Mér þykir það pínu áhugavert.

Sumarið 2018 er Sigurborg Ósk komin í borgarstjórn í boði kjósenda Pírata og er í dag formaður yfir Skipulags- og samgönguráði Reykjavíkurborgar.
Mér þykir það pínu áhugavert

Í þessari sömu nefnd er m.a. bílavinurinn Hjálmar Sveinsson, aka Hjóla-Hjálmar og Eyþór Arnalds.
Mér þykir það pínu áhugavert.

Það þýðir, ef ég skil málið rétt, að Sigurborg Ósk sé yfirmaður Bragga-ævintýrisins í Nauthólsvík, ásamt borgarstjóra sem telst vera framkvæmdastjóri Reykjavíkurborgar.
Ég geri mér grein fyrir því að þetta Braggaævintýri var byrjað áður en Sigurborg Ósk tók við formennsku.

En hver skyldi þá hafa verið forveri Sigurborgar Óskar sem formaður Skipulags- og samgönguráðs?

Jú enginn annar en Hjálmar Sveinsson einn af uppáhalds stjórnmálamönnum mínum fyrr og síðar.
Mér þykir það pínu áhugavert.

Hvað hafa margir fjölmiðlamenn eða konur spurt þau Hjálmar Sveinsson og Sigurborgu Ósk eitthvað út í þessi Braggamál? Hvar get ég lesið eða heyrt þau viðtöl?
Mér þætti það pínu áhugavert.

Annar arkitekt, Margrét Leifsdóttir hjá Arkibúllan ehf hefur ráðið iðnaðarmenn í verkið fyrir hönd borgarinnar, ásamt því að Arkibúllan hennar hefur rukkað borgina um rúmar 28 milljónir fyrir verk sem ekki er lokið.
Það virðist sem hún hafi fengið frjálsar hendur til að gera hvað sem henni hefur dottið í hug.

Þeir greinilega treysta vinkonu sinni vel þeir sem eiga að stjórna.

Það nýjasta eru innflutt melgresi upp á 700.000 kr. utan við braggann.

Réð hún alla iðnarmenn í verkið? Er það eðlilegt?

Vakna engar spurningar?

Þykir engum fjölmiðlamönnum þetta vera áhugavert? Jafnvel þess virði að eyða nokkrum mínútum í að grafa upp sannleikann?

Margrét var merkilegt nokk í 11 ár arkitekt á skipulags- og byggingarsviði Reykjavíkurborgar fram til 2014 er hún tók að sér að huga að heilsueflingu starfsmanna borgarinnar ásamt því að starfa sem sjálfstætt starfandi heilsumarkþjálfi.
Mér þykir það pínu áhugavert.

Er virkilega ekkert fréttnæmt á seyði hérna?

Er eðlilegt að borgarfulltrúar og vinkona þeirra arkitekt á þeirra vegum séu að sólunda hálfum milljarði af skattfé Reykvíkinga í niðurgreidda félagsaðstöðu fyrir nemendur Háskólans í Reykjavík og aðstöðu fyrir hamborgarasala?

Eru útboðsreglur Reykjavíkurborgar ekki þverbrotnar í þessu braggamáli?

Kannski er öllum bara sama. Þetta er bara pólitík?

Ber virkilega enginn ábyrgð á þessu ótrúlega heimskulega verkefni?

Gæti einhver maður með fullum sönsum skrifað handrit að svona skrípaleik?

Ég á ekki orð yfir fréttamennskunni á Íslandi. Eða á ég kannski frekar að segja skort á henni?

Núna, fjórum árum síðar minnir Símon á Braggamálið sem allir virðast búnir að gleyma en var þó mikil ávirðing á þáverandi borgarstjórnarmeirihluta. Í honum var Samfylkingin, Vinstri grænir, Píratar og fyrirbrigði sem kallaði sig Bjarta framtíð og átti enga framtíð.

Símon skrifar í Fésbókina:

Fjögur ár síðan ég eyddi mörgum klukkustundum í að reyna að finna einhverjar upplýsingar um þá þennan óþekkta og leyndardómsfulla bragga.

Þær upplýsingar lágu ekkert á lausu á vef borgarinnar.

Hver skyldi vera staðan með Braggann í dag? Er búið að klára verkið og ef svo er hver var þá endanlegur kostnaður?

Er verið að borga leigu af honum, hversu háa og hver er að borga hana?

Hefur engin fjölmiðlamaður áhuga á að fá svör frá þeim sem bera ábyrgð á þessu klúðri?

Á bara að leyfa gerendum að þagga málið í hel og leyfa því að deyja drottni sínum?

Staðlaða svarið : Við lærum af þessu, sem er því miður ekki reyndin.

Við þurfum greinilega menn eins og Símon í borgarstjórn til að halda hinni hrokafullu Samfylkingu, Pírötum, Viðreisn og Framsókn á tánum.

Staðreyndir um braggamálið eru þessar:

    1. Borgarstjóri vissi ekki hvað nánustu undirmenn hans eru að gera þrátt fyrir mikil „samskipti“, og hann leitar ekki eftir upplýsingum
    2. Skipulag skrifstofu eigna og atvinnuþróunar var slæmt og henni illa stýrt.
    3. Innra eftirlit var bágborið vegna slæms skipulags og lélegrar stjórnunar.
    4. Stjórnandi eigna og atvinnuþróunar vissi ekkert hvað nánustu undirmenn hans voru að gera. 
    5. Borgarstjóra og skrifstofustjóra eigna og atvinnuþróunar ber ekki saman um ákvarðanir sem teknar voru í tengslum við verkefnið.
    6. Skrifstofustjóri eigna og atvinnuþróunar brást stjórnendaábyrgð sinni.
    7. Af öllum verkefnum á vegum skrifstofu eigna og atvinnuþróunar „gleymist“ að láta borgarstjóra vita um uppbyggingu braggans.
    8. Bygging braggans virðist hafa lifað sjálfstæðu lífi án aðkomu annarra er að honum unnu.
    9. Við byggingu braggans var markvisst brotið gegn reglum borgarinnar um mannverkjagerð um ábyrgð og verklegar framkvæmdir.
    10. Aðeins var gerð frumkostnaðaráætlun sem byggð var á lauslegri ástandsskoðun á rústum braggans.
    11. Frumkostnaðaráætlun var 158 milljónir króna. Raunkostnaðurinn varð 425 milljónir.
    12. Verkið var ekki boðið út né heldur einstakir verkþættir.
    13. Húsið var byggt án kostnaðaráætlanir eins og reglur um mannvirkjagerð krefjast.
    14. Fyrstu hugmyndir voru um lítið og einfalt kaffihús eða stúdentakjallara en varð að fullbúnum veitingastað með vínveitingaleyfi.
    15. Borgarráð samþykkti að húsaleiga braggans yrði 670.125 kr. á mánuði. Hún þyrfti að vera 1.697.000 kr til að standa undir kostnaði.
    16. Engir skriflegir samningar voru gerðir um byggingu braggans.
    17. Vinavæðing, verktakar voru handvaldir af þeim sem stóðu að framkvæmdunum.
    18. Arkitekt byggingarinnar var ráðinn sem verkefnisstjóri
    19. Verkefnisstjórinn var lítið á byggingastað og hafði því ekkert eftirlit.
    20. Farið var fram úr samþykktum fjárheimildum við byggingu braggans, enginn fylgdist með því, ekki verkefnisstjórinn sem líka var arkitektinn.
    21. Þeir sem samþykktu reikninga vegna braggans könnuðu ekki hvort útgjöldin voru innan fjárheimilda.
    22. Logið var að borgarráð um byggingu braggans.
    23. Ágreiningur er milli skrifstofustjóri eigna og atvinnuþróunar og verkefnisstjóri um ákvarðanir sem teknar voru um byggingu braggans.
    24. Skjalagerð vegna braggans var ófullnægjandi sem er brot á lögum og reglum borgarinnar.
    25. Ekki hefur verið staðfest að um misferli hafa við að ræða við byggingu braggans en innri endurskoðun telur vert að skoða nokkra „áhættuatburði“.

Af þessu má sjá að allt við endurbyggingu braggans var í handaskolum. Innri endurskoðun borgarinnar segir að lög hafi verið brotin, kostnaðareftirlit sama og ekkert, farið á svig við innkaupareglur, starfslýsingar og verkferla. Ruglið og handarbaksvinnubrögðin eru víðar um borgarkerfið.

Öll ábyrgð beindist að skrifstofustjóra eigna og atvinnuþróunar og borgarstjóra. Sá fyrrnefndi var látinn fara í mars 2019 en borgarstjóri sat sem fastast.

Enn þann dag í dag telur meirihlutinn sig hafa sloppið afskaplega vel frá braggamálinu. Og nei, nei Samfylkingin, Píratar og Vg allir hinir fullyrða að engin spillingarlykt sé af málinu. 

 


Ragnar Arnalds

Og aftur lágu leiðir okkar Ragnars saman löngu síðar. Nú í Heimssýn, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum. Tilraun „vinstrimanna“ til að sameinast í eina pólitíska hreyfingu 1999 strandaði m.a. á utanríkismálum. Áhugi sumra á aðild að ESB klauf þessa fylkingu.

Þetta segir Jón Bjarnason, fyrrum alþingismaður og ráðherra, í minningargrein í Morgunblaði dagsins um Ragnar Arnalds en útför hans er í dag. Jón skrifar fallega um gamla félaga sinn og nefnir margt athyglisvert.

Ég þekkti Ragnar Arnalds lítillega, nær eingöngu úr heita pottinum í sundlauginni í Laugardal. Stundum var fámennt í pottinum og þá gafst einstakt tækifæri til að ræða við Ragnar um stjórnmál og jafnvel sagnfræði. Í báðum greinum var þekking hans mikil. Mér kom á óvart hversu auðvelt var að tala við hann um stjórnmál dagsins og ekki síður liðna tíma. Margt sagði hann mér sem kom á óvart, atburði sem ekki voru á allra vitorði en töldust samt engin leyndarmál. Hann var glöggur, talaði vel um alla en gat sagt broslegar sögur af ýmsum stjórnmálamönnum.

Oft voru fleiri í pottinum og þá var stundum tekist hressilega á. Kjöftugt fólk átti það til að segja það sem í brjósti þeirra bjó og ekki var það allt „elsku mamma“ um VG og aðra vinstri menn. Ragnar rökræddi, hann var ekkert að trana sér fram eins og við hinir en þegar hann tók til máls hlustuðu allir, líka þessir kjöftugu.

Ragnar las bloggið mitt enda skrifaði ég mikið um makalausa tilraun vinstri stjórnarinnar 2009 til að koma landinu inn í Evrópusambandið. Við vorum í sitthvorum stjórnmálaflokknum, það vissi Ragnar, en í Evrópusambandsmálum vorum við samherjar, báðir á móti. 

Jón Bjarnason segir í minningargrein sinni:

Ragnar var trúr hugsjónum sínum og gekk til liðs við þann flokk sem vildi standa vörð um fullveldi landsins. Hann var algjörlega andvígur umsókn eða aðild að Evrópusambandinu. Vildi þar ekkert „bjölluat“. Ragnar taldi að barátta gegn inngöngu í ESB væri svo mikið grundvallarmál að það væri hafið yfir hina hefðbundnu flokkadrætti. Þannig hlaut hann að vera í fylkingarbrjósti þverpólitískra samtaka; Heimssýnar, hreyfingar sjálfstæðissinna í Evrópumálum. Ragnar varð fyrsti formaður þeirra samtaka.

Vonbrigði Ragnars voru því mikil þegar nokkrir forystumenn í flokknum sem hann hafði gengið til liðs við stóðu að fyrirvaralausri umsókn að ESB með beiðni um inngöngu. Rökfastur og baráttuglaður tók hann slaginn. Undir forystu Ragnars Arnalds varð Heimssýn að stórri og áhrifaríkri fjöldahreyfingu með félagsdeildir út um allt land. Og barátta Heimssýnar skilaði árangri. Okkur sem voru mjög andvíg ESB-umsókninni tókst að kæfa hana, enda fól hún í sér óafturkræft framsal á fullveldi þjóðarinnar og sjálfstæði.

Í þessu felst kjarni málsins og því voru Jón og Ragnar á móti ESB-aðildinni og svo við hinir, minni spámennirnir. Bjölluatið, er mergurinn málsins. Samfylkingin og Vinstri græn héldu að hægt væri að semja um aðild að ESB, fá það fram sem þeir vildu og sleppa öðru. Rétt eins og þegar boðið er úr konfektkassa. Því var nú öðru nær og við lá að embættismenn ESB hlægju að vitleysunni hjá íslenskum stjórnmálamönnum sem töluðu um „samning“.

Aldrei var það af reiði er Ragnar talaði um samherja sína í Vinstri grænum sem samþykkt höfðu hina makalausu aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Hann var framar öllu málefnalegur og kurteis en skoðanalaus var hann aldrei. Hann var einfaldlega ekki sammála, punktur.

Hann spurði mig oft hvort ég vissi um viðhorf Sjálfstæðismanna um einstök pólitísk mál. Auðvitað hef ég aldrei verið á dyramottunni að innsta kjarna flokksins en þekkti þó marga og vissi ýmislegt. Svo spjölluðum við Ragnar, hann hlustaði, hugsaði, og sagði síðan hug sinn, hvort sem hann var sammála okkur eða ekki. Oft velti ég því fyrir mér hversu eftirsóknarvert það væri að öðlast hógværð sem pottavinur minn.

„Þið kommarnir ...“, sagði ég stundum við Ragnar, þegar við ræddum um Viðreisnarárin eða aðildina að Nató. Hann brosti, fannst gaman að hispursleysinu en lét ekki raska ró sinni og rökræddi og ég reyndi að svara. Þetta voru skemmtilegar stundir. 

Ragnar hætti að koma í sundlaugina fyrir nokkrum árum. Ég frétti að heilsan væri ekki góð en vonaði auðvitað hið besta. Ég velti því fyrir mér hvaða skoðun herstöðvaandstæðingurinn Ragnar hefði á innrás Rússa í Úkraínu og viðbúnað íslenskra stjórnvalda vegna hennar. Ég leyfi mér að trúa því að hann væri mjög hlynntur stefnu ríkisstjórnarinnar og hvernig forsætisráðherra og utanríkisráðherra hafa tekið á málunum. En þetta er bara ágiskun.

Þannig minnist ég í stuttu máli Ragnars Arnalds. Mér þótti afskaplega gaman að hafa kynnst honum, þó ekki væri nema lítillega. Þegar ég las minningargreinarnar um hann í Morgunblaðinu skildi ég hvers vegna maðurinn var jafn vinsæll og farsæll sem raun ber vitni. Yfir minningu Ragnars er heiðríkja. Svo segir einn vina hans sem þekkti hann hvað lengst.


Auðvitað veit Nató að Rússar skemmdu Nord Stream leiðslurnar

Screenshot 2022-09-29 at 13.12.42Dettur nokkrum manni í hug að Atlantshafsbandalagið viti ekki hver stóð að skemmdarverkum á gasleiðslunum sem liggja eftir endilöngu Eystrasalti, Nord Stream eitt og tvö? Viti Nató ekki hver olli verður að segjast eins og er að það stendur sig ekki.

Milli Íslands og Grænlands annars vegar og Íslands og Bretlands hins vegar er svokallaða GIUK hlið. Fram til ársins 2006 rak Nato hlustunarkerfi sem námu hljóð frá kafbátum sem fóru í gegnum hliðið og þeir voru eingöngu  frá Sovétríkjunum og síðar Rússlandi. Svo háþróuð var þessi tækni að hægt var að greina eftir vélarhljóði hver kafbáturinn var.

GIUK gapRætt hefur verið um að taka aftur upp þessar hleranir.

Hafsvæðið milli ofangreindra landa er gríðarlega stórt, margfalt stærra en svæðið frá Borgundarhólmi til Póllands, Þýskalands eða Litáen.

Er það raunverulega svo að engar hleranir séu milli Nató-landanna við Eystrasalt? Kanntu annan? segir einhver og glottir.

Vandamálið lítur út fyrir að vera á þann veg að Nató þori ekki upplýsa um skemmdarverkin og kenna Rússum um. Líklega er það talið vera ógnun við einræðisríkið í austri. Munum að Nató veit margt, mun betur en fjölmiðlarnir sem mata okkur með teskeiðum.

Áhyggjur íslenskra stjórnvald af öryggi sæstrengja við landið hafa ekki orðið til úr engu. Innrás Rússa í Úkraínu og hryðjuverk þeirra á Nord Stream gasleiðslunum hafa vakið upp óhug hér og hjá stjórnvöldum í Evrópu og í Kanada og Bandaríkjunum. Um leið hafa þau opinberað hversu varnarlausar lýðræðisþjóðirnar eru fyrir skemmdarverkum. Um leið og sæstrengir og gasleiðslur í fullri notkun eru skemmdar munu samfélög beggja vegna Atlantshafsins lenda í óskaplegum vandræðum. Viðskipti milli landa munu dragast saman og á mörgum sviðum leggjast af með tilheyrandi tekjutapi og atvinnuleysi. Rússar þjást vegna viðskiptabanns og munu án efa reyna að spilla fyrir samstöðu Evrópuríkja með skemmdarverkjum, tölvuárásum og undirróðri.  

Screenshot 2022-09-29 at 13.12.16Verra er með gasið, „skemmist“ leiðslur eða borpallar á hafi úti.

Um leið og Evrópubúar fara að finna fyrir orkuskorti, heimilin kólna og atvinnuleysi eykst mun viðhorfið gagnvart Rússum og stríði þeirra við Úkraínu breytast. Hvað erum við að skipta okkur af málefnum þarna fyrir austan, mun fólk hrópa? Og milljónir manna fara í kröfugöngur og krefjast af stjórnvöldum að öllu verði breytt í fyrra horf.

Rússar munu róa undir öllum mómælum rétt eins og Sovétríkin gerðu á sínum tíma. Og allt þetta mun gera ríkjum í Evrópu erfitt fyrir, þúsundir mótmæla og eining Evrópusambandsins og Nató mun hugsanlega bresta.

Líklega stendur Evrópa á krossgötum um þessar mundir. Ætlar hún að berjast gegn útþenslustefnu Rússa eða lyppast hún niður?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband