Bragginn í Nauthólsvík og spillingin í kringum hann

Einn af þeim skörpustu sem skrifa í Fésbókina er húsasmíðameistarinn Símon Gísli Ólafsson. Hann er KR-ingur, Reykvíkingur og fjölskyldumaður (líklega í þessari röð). Símon hefur ríkt skopskyn og beitir því á hárfína hátt, stundum í kaldhæðni en oft til gamans.

Hann er ekki búinn að gleyma Braggamálinu sem var dálítið í fjölmiðlum á árinu 2018. Þá taldi enginn sig þurfa að kryfja málið til mergjar, þaulspyrja Dag B. Eggertsson, borgarstjóra, formann skipulagsnefndar eða stjórnendur borgarinnar. Málið var og er fáránlegt, lyktaði allt af spillingu því margir höfðu ágætar tekjur af því af verkefninu.

Þann 9. október skrifaði Símon þjóðfélagsrýnir þennan pistil í Fésbókina:

Ég er eiginlega með þetta Braggaævintýri borgarinnar á heilanum.

Ég held ég hafi ekki orðið jafn hneykslaður í nokkuð mörg ár eins og á þessu ævintýralega bulli sem er í gangi þarna hjá fólki sem á að vera að vinna að hag okkar Reykvíkinga.

Á hverju er þetta fólk eiginlega?

Það er samt ekki eins og það sé úr háum söðli að detta þegar verk þessara snillinga eru skoðuð aftur í tímann.

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir er 33 ára arkitekt.
Eiginmaður hennar er sjúkraþjálfi og formaður samtaka um bíllausan lífsstíl ef einhverjum skyldi þykja það áhugavert.
Mér þykir það pínu áhugavert.

Sigurborg Ósk og félagar hennar hjá Yrki arkitektum fengu verðlaun sumarið 2017 frá Reykjavíkurborg í hugmyndasamkeppni um byggð á Heklureit á Laugavegi.
Mér þykir það pínu áhugavert.

Sumarið 2018 er Sigurborg Ósk komin í borgarstjórn í boði kjósenda Pírata og er í dag formaður yfir Skipulags- og samgönguráði Reykjavíkurborgar.
Mér þykir það pínu áhugavert

Í þessari sömu nefnd er m.a. bílavinurinn Hjálmar Sveinsson, aka Hjóla-Hjálmar og Eyþór Arnalds.
Mér þykir það pínu áhugavert.

Það þýðir, ef ég skil málið rétt, að Sigurborg Ósk sé yfirmaður Bragga-ævintýrisins í Nauthólsvík, ásamt borgarstjóra sem telst vera framkvæmdastjóri Reykjavíkurborgar.
Ég geri mér grein fyrir því að þetta Braggaævintýri var byrjað áður en Sigurborg Ósk tók við formennsku.

En hver skyldi þá hafa verið forveri Sigurborgar Óskar sem formaður Skipulags- og samgönguráðs?

Jú enginn annar en Hjálmar Sveinsson einn af uppáhalds stjórnmálamönnum mínum fyrr og síðar.
Mér þykir það pínu áhugavert.

Hvað hafa margir fjölmiðlamenn eða konur spurt þau Hjálmar Sveinsson og Sigurborgu Ósk eitthvað út í þessi Braggamál? Hvar get ég lesið eða heyrt þau viðtöl?
Mér þætti það pínu áhugavert.

Annar arkitekt, Margrét Leifsdóttir hjá Arkibúllan ehf hefur ráðið iðnaðarmenn í verkið fyrir hönd borgarinnar, ásamt því að Arkibúllan hennar hefur rukkað borgina um rúmar 28 milljónir fyrir verk sem ekki er lokið.
Það virðist sem hún hafi fengið frjálsar hendur til að gera hvað sem henni hefur dottið í hug.

Þeir greinilega treysta vinkonu sinni vel þeir sem eiga að stjórna.

Það nýjasta eru innflutt melgresi upp á 700.000 kr. utan við braggann.

Réð hún alla iðnarmenn í verkið? Er það eðlilegt?

Vakna engar spurningar?

Þykir engum fjölmiðlamönnum þetta vera áhugavert? Jafnvel þess virði að eyða nokkrum mínútum í að grafa upp sannleikann?

Margrét var merkilegt nokk í 11 ár arkitekt á skipulags- og byggingarsviði Reykjavíkurborgar fram til 2014 er hún tók að sér að huga að heilsueflingu starfsmanna borgarinnar ásamt því að starfa sem sjálfstætt starfandi heilsumarkþjálfi.
Mér þykir það pínu áhugavert.

Er virkilega ekkert fréttnæmt á seyði hérna?

Er eðlilegt að borgarfulltrúar og vinkona þeirra arkitekt á þeirra vegum séu að sólunda hálfum milljarði af skattfé Reykvíkinga í niðurgreidda félagsaðstöðu fyrir nemendur Háskólans í Reykjavík og aðstöðu fyrir hamborgarasala?

Eru útboðsreglur Reykjavíkurborgar ekki þverbrotnar í þessu braggamáli?

Kannski er öllum bara sama. Þetta er bara pólitík?

Ber virkilega enginn ábyrgð á þessu ótrúlega heimskulega verkefni?

Gæti einhver maður með fullum sönsum skrifað handrit að svona skrípaleik?

Ég á ekki orð yfir fréttamennskunni á Íslandi. Eða á ég kannski frekar að segja skort á henni?

Núna, fjórum árum síðar minnir Símon á Braggamálið sem allir virðast búnir að gleyma en var þó mikil ávirðing á þáverandi borgarstjórnarmeirihluta. Í honum var Samfylkingin, Vinstri grænir, Píratar og fyrirbrigði sem kallaði sig Bjarta framtíð og átti enga framtíð.

Símon skrifar í Fésbókina:

Fjögur ár síðan ég eyddi mörgum klukkustundum í að reyna að finna einhverjar upplýsingar um þá þennan óþekkta og leyndardómsfulla bragga.

Þær upplýsingar lágu ekkert á lausu á vef borgarinnar.

Hver skyldi vera staðan með Braggann í dag? Er búið að klára verkið og ef svo er hver var þá endanlegur kostnaður?

Er verið að borga leigu af honum, hversu háa og hver er að borga hana?

Hefur engin fjölmiðlamaður áhuga á að fá svör frá þeim sem bera ábyrgð á þessu klúðri?

Á bara að leyfa gerendum að þagga málið í hel og leyfa því að deyja drottni sínum?

Staðlaða svarið : Við lærum af þessu, sem er því miður ekki reyndin.

Við þurfum greinilega menn eins og Símon í borgarstjórn til að halda hinni hrokafullu Samfylkingu, Pírötum, Viðreisn og Framsókn á tánum.

Staðreyndir um braggamálið eru þessar:

    1. Borgarstjóri vissi ekki hvað nánustu undirmenn hans eru að gera þrátt fyrir mikil „samskipti“, og hann leitar ekki eftir upplýsingum
    2. Skipulag skrifstofu eigna og atvinnuþróunar var slæmt og henni illa stýrt.
    3. Innra eftirlit var bágborið vegna slæms skipulags og lélegrar stjórnunar.
    4. Stjórnandi eigna og atvinnuþróunar vissi ekkert hvað nánustu undirmenn hans voru að gera. 
    5. Borgarstjóra og skrifstofustjóra eigna og atvinnuþróunar ber ekki saman um ákvarðanir sem teknar voru í tengslum við verkefnið.
    6. Skrifstofustjóri eigna og atvinnuþróunar brást stjórnendaábyrgð sinni.
    7. Af öllum verkefnum á vegum skrifstofu eigna og atvinnuþróunar „gleymist“ að láta borgarstjóra vita um uppbyggingu braggans.
    8. Bygging braggans virðist hafa lifað sjálfstæðu lífi án aðkomu annarra er að honum unnu.
    9. Við byggingu braggans var markvisst brotið gegn reglum borgarinnar um mannverkjagerð um ábyrgð og verklegar framkvæmdir.
    10. Aðeins var gerð frumkostnaðaráætlun sem byggð var á lauslegri ástandsskoðun á rústum braggans.
    11. Frumkostnaðaráætlun var 158 milljónir króna. Raunkostnaðurinn varð 425 milljónir.
    12. Verkið var ekki boðið út né heldur einstakir verkþættir.
    13. Húsið var byggt án kostnaðaráætlanir eins og reglur um mannvirkjagerð krefjast.
    14. Fyrstu hugmyndir voru um lítið og einfalt kaffihús eða stúdentakjallara en varð að fullbúnum veitingastað með vínveitingaleyfi.
    15. Borgarráð samþykkti að húsaleiga braggans yrði 670.125 kr. á mánuði. Hún þyrfti að vera 1.697.000 kr til að standa undir kostnaði.
    16. Engir skriflegir samningar voru gerðir um byggingu braggans.
    17. Vinavæðing, verktakar voru handvaldir af þeim sem stóðu að framkvæmdunum.
    18. Arkitekt byggingarinnar var ráðinn sem verkefnisstjóri
    19. Verkefnisstjórinn var lítið á byggingastað og hafði því ekkert eftirlit.
    20. Farið var fram úr samþykktum fjárheimildum við byggingu braggans, enginn fylgdist með því, ekki verkefnisstjórinn sem líka var arkitektinn.
    21. Þeir sem samþykktu reikninga vegna braggans könnuðu ekki hvort útgjöldin voru innan fjárheimilda.
    22. Logið var að borgarráð um byggingu braggans.
    23. Ágreiningur er milli skrifstofustjóri eigna og atvinnuþróunar og verkefnisstjóri um ákvarðanir sem teknar voru um byggingu braggans.
    24. Skjalagerð vegna braggans var ófullnægjandi sem er brot á lögum og reglum borgarinnar.
    25. Ekki hefur verið staðfest að um misferli hafa við að ræða við byggingu braggans en innri endurskoðun telur vert að skoða nokkra „áhættuatburði“.

Af þessu má sjá að allt við endurbyggingu braggans var í handaskolum. Innri endurskoðun borgarinnar segir að lög hafi verið brotin, kostnaðareftirlit sama og ekkert, farið á svig við innkaupareglur, starfslýsingar og verkferla. Ruglið og handarbaksvinnubrögðin eru víðar um borgarkerfið.

Öll ábyrgð beindist að skrifstofustjóra eigna og atvinnuþróunar og borgarstjóra. Sá fyrrnefndi var látinn fara í mars 2019 en borgarstjóri sat sem fastast.

Enn þann dag í dag telur meirihlutinn sig hafa sloppið afskaplega vel frá braggamálinu. Og nei, nei Samfylkingin, Píratar og Vg allir hinir fullyrða að engin spillingarlykt sé af málinu. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Godar abendingar hja siduhafa og Simoni Gisla um oradssiuna og spillinguna i Braggamalinu. Ahugaleysi fjolmidla a thessu mali er oskiljanlegt. Synir ef til vill best hvurslags rusl fjolmidlar eru ordnir a Islandi. Thar virdist ad staerstum hluta starfa folk sem notar fyrst og fremst google translate, copy paste vid svokallada frettamennsku sina. Thad fara fleiri dalksentimetrar i ad skrifa um appelsinuhud a laerunum a stjornum uti i heimi, en fara i ad kafa ofan i mal sem skipta mali, eins og til ad mynda Braggamalid. Adhaldsleysi og aumingjaskapur fjolmidla virkar sem bensin a eld spillingaraflanna. Thau vita ju sem er, ad enginn fylgist med og fjolmidlar thar allra sist. Afsakadu langlokuna Sigurdur.

Godar stundir, med kvedju ad sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 11.10.2022 kl. 15:18

2 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Hefur braggamálið verið rætt á Alþingi?

Heimir Lárusson Fjeldsted, 11.10.2022 kl. 15:53

3 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Nei, Heimir. Varla að það eigi heima þar. Velti fyrir mér Kveik, Kastljósi, Stundinni og öðrum rannsóknarblaðamannamiðlum. Allt gleymt.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 11.10.2022 kl. 22:08

4 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Þetta hentar ekki rétttrúnaðinum að fjalla um þetta

enda flestir fjölmiðlar á Íslandi með þvílíka

vinstri slagsíðu og að sjálfsögðu fjalla þeir ekki 

um sitt eigið fóllk sem þeir styðja.

Ef þetta hefði verið Sjálfstæðisflokkurinn væri búið

að heimta afsagnir og mótmæli á Austurvelli daglega

þangað til einhver tæki pokan sinn.

Allt of mörg dæmi um slíkt.

Sigurður Kristján Hjaltested, 12.10.2022 kl. 10:10

5 Smámynd: Sigurður Sigurðarson

Ekki ólíklegt, nafni.

Sigurður Sigurðarson, 12.10.2022 kl. 10:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband