Náunginn sem gekk 3126 km á einu ári og hitti ekki páfann

Rómargangan 2022Maður nokkur sem fæstir þekkja gekk árla út á tröppurnar á fyrst degi ársins, sprændi, og hugsaði um leið hvað hann gæti gert sér til gamans á árinu 2022. Hann íhugaði að hætta að berja börnin sín, vera kurteis við nágranna sína, fara á myndlistarsýningar ... og þá hætti hvort tveggja, bunan og hugmyndirnar.

Þess í stað klæddi hann sig í gönguskóna og lagði land undir fót. Bókstaflega. Hann hélt til Skotlands. Þar nyrst á meginlandi er þorp sem heitir Þjórsá (Thorso) og frá kirkjutröppunum hóf hann göngu sína. Gekk suður til Dofra (Dover) og hafði þá gengið 1205 km. Þar datt honum í hug að ermssynda yfir til Norðmandí en lét það vera enda sjór úfinn og kaldur. Þegar til Bikars (Calais) kom þótti honum ráð að skipta hann um sokka og snúa nærbuxunum við. Svo keypti hann nýjar reimar í skóna og fékk sér rúnstykki með smjöri og skinku í bakaríi bæjarins og lagði í’ann. Alla þessa 1901 km til Róms. 

Árið 1013 var Flosi Þórðarson staddur í borg nokkurri á Englandi, líklega Lundúnum eða einhvers staðar í Bretlandi hinu forna. Varð hann þá sjúkur á sinni því árið áður hafði hann lagt eld að Bergþórshvoli svo inni brunnu hjónin Njáll og Bergþóra, þrír synir þeirra og fleira heimafólk. Hann sigldi þá yfir til Norðmandí og gekk þaðan til Róms, hafði mikla sæmd af göngu sinni, tók lausn af sjálfum páfanum, fór síðan léttur og kátur til Norvegs og þaðan heim að Svínafelli. Ekki áttum við átti maðurinn lítt þekkti samleið með Flosa enda var hann á ferð nokkrum árum síðar. 

Kári Sölmundarson hafði fækkað ótæpilega í brennuliði Flosa, gert nokkra höfðinu styttri sem mörgum þótti slæmt en „brotaþolum“ afleitt. Þessi fjandvinur Flosa gekk líka til Róms enda sá hann eftir öllum drápunum og páfinn seldi honum fúslega fyrirgefningu. Þá hélt Kári léttur í spori til Íslands. Þar lét hann af öllum fjandskap við Flosa sem gifti honum bróðurdóttur sína, ekkju Hvítanesgoðans. Hann hafði Kári óvart drepið í samvinnu við þá Njálssyni en það er nú sko algjört aukaatriði og vandist Hildigunnur Kára smám saman.

Maðurinn fæstir þekkja kom á gamlársdegi til Róms og reyndi að ná tali af páfanum. Sá var vant við látinn, sat á rúmstokk fyrrverandi páfa sem var doldið lasinn og gat því ekki aðstoðað ferðalanginn frá Íslandi. Þess í stað sendi hann bílstjóra sinn með krossað vatn og lítið altarisbrauð sem heimamenn kalla „obbládu“ eða eitthvað svoleiðis. Lét’ann, bílstjórinn, svo ummælt að þetta væri næstum því eins gott og páfinn sjálfur hefði selt honum veitingarnar og fyrirgefningu syndanna í eftirrétt. Manninum lítt þekkta fannst þetta ekki mikil sæmd miðað við upphefð þeirra Flosa og Kára á árum áður. Bílstjórinn benti honum þá undurrólega á að þetta væri hið eina sem í boði væri. Vildi hann ekki trakteringarnar gæti hann farið með allar sínar syndir aftur heim til Íslands. „Prendere o lasciare“, bætti hann við á máli heimamanna. 

Vatn og altarisbrauð er lítil næring fyrir vegmóðan mann og því keypti hann sér utan veggja Vatíkansins pizzu með nautahakki, beikoni, osti og ananas. 

Maðurinn lítt þekkti lagfærði nú skótau sitt, setti plástur á hælsærin því ekki vildi hann enda eins og Gellir Þorkelsson sem árið 1073 lést eftir göngu suður Róms og norður til Danmörks, líklega af fótameinum og ekki bætti úr flensuskratti sem hann fékk á bakaleiðinni.

Náunginn sem fæstir þekkja hafði nú gengið 3126 km á einu ári og þóttist góður með sig, rétt eins og sá sem árið áður hafði lagt að baki 2591 km og var ekki síður kátur.

Svona er nú sýndarveruleikinn á kalda Fróni. Eða eins og Jónas orti forðum daga:

Eg er kominn upp á það,
allra þakka verðast,
að sitja kyrr í sama stað,
og samt að vera að ferðast. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband