Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Samfylkingin, Viðreisn og Píratar skrökva um aðildarviðræður að ESB

Alþingi ályktar að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla fyrir árslok 2023 um hvort halda skuli áfram aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið.

Þetta er úr furðulegri þingsályktunartillögu vinstri flokkanna á Alþingi. Ófyrirgefanlegt er að Samfylkingin, Viðreisn og Píratar skrökvi í henni. Hvort það sé gert vísvitandi eða óafvitandi vegna þekkingarleysis skal ósagt látið. Ósannindi eru það engu að síður.

Mikilvægt er að átta sig á því að aðild að ESB er ekki eins og tyrkneskt markaðstorg þar sem hægt er að prútta eftir þörfum og loks komist að niðurstöðu sem er meðaltal af því sem lagt var upp með. Svo virðist sem Samfylkingin, Viðreisn og Píratar haldi það.

Staðreyndin er einföld. Engar „aðildarviðræður“ hafa farið fram við ESB. Með þingsályktunartillögu vinstri stjórnarinnar árið 2009 var sótt um aðild Íslands að ESB. Evrópusambandið samþykkti hana. Í kjölfarið hófust aðlögunarviðræður, ekki aðildarviðræður, þær eru ekki lengur til í reglum Evrópusambandsins.

Afar mikilvægt er að stjórnmálamenn sem og aðrir átti sig á muninum á orðalaginu aðildarviðræður og aðlögunarviðræður.

Á ensku nefnast aðlögunarviðræður „Accession negotiations“. Þær eru fyrir ríki sem ætla sér að ganga inn í ESB. Þetta eru ekki aðildarviðræður og ESB varar beinlínis við þeirri túlkun. 

ESB segir einfaldlega að aðildarviðræður séu ekki lengur í boði. Ríki sem sækir um aðild hlýtur að vilja aðild, þau eru ekki að prófa, kanna aðstæður, stunda þreifingar.

Aðlögunarviðræður eru í því fólgnar að lög og reglur umsóknarríkisins eru lagaðar að stjórnskipun Evrópusambandsins, Lissabonsáttmálanum. Undanþágur eru ekki veittar.

Í reglum ESB segir:

First, it is important to underline that the term “negotiation” can be misleading. Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidates adoption, implimentation and application of EU rules – some 90,000 pages of them. And these rules (also known as “acquis”, French for “that which has been agreed”) are not negotiable.  

Þetta hlýtur að vera skýrt, engar samningaviðræður, aðeins aðlögunarviðræður. Umsóknarríki verður að taka um ESB reglur, 90.000 blaðsíður, samþykkja þær eða hætta við.

Ofangreinda þingsályktun leggja eftirtaldir þingmenn fram:

  • Logi Einarsson
  • Þorgerður K. Gunnarsdóttir
  • Halldóra Mogensen
  • Helga Vala Helgadóttir
  • Þórunn Sveinbjarnardóttir
  • Oddný G. Harðardóttir
  • Kristrún Frostadóttir
  • Jóhann Páll Jóhannsson
  • Björn Leví Gunnarsson
  • Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir
  • Gísli Rafn Ólafsson
  • Þórhildur Sunna Ævarsdóttir
  • Valgerður Árnadóttir
  • Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir
  • Sigmar Guðmundsson
  • Hanna Katrín Friðriksson
  • Guðbrandur Einarsson

Ólíklegt er að þingmennirnir hafi lesið regluna sem er hér fyrir ofan.

Eftirfarandi skjal er lýsing á aðlögunarviðræðum, „skref fyrir skref“ eins og það er orðað: https://neighbourhood-enlargement.ec.europa.eu/system/files/2022-09/eu_accession_process_clusters.pdf.

Svo er ekki verra að þessir þingmenn hlusti á ræðu Samfylkingarmannsins Össurar Skarphéðinssonar þáverandi utanríkisráðherra sem fór með rangt mál á blaðamannafundi. Á fundinum var Stefan Füle, þáverandi stækkunarstjóri ESB, og leiðrétti hann Össur svo eftirminnilega að líklega hefur sviðið undan. Sjá hér: https://www.youtube.com/watch?v=0O4fkcYwpu8.

Nú kunna ýmsir með yfirborðsþekkingu að halda því fram að Svíþjóð hafi fengið samning og jafnvel fleiri ríki. Þeir sem þetta segja hafa rétt fyrir sér. Á árunum þegar rætt var um aðild Noregs, Austurríkis, Finnlands og Svíþjóðar var farið í viðræður við þessi lönd, þá hét það „negotiations“. Það er ekki lengur gert, ESB hefur breytt reglunum.

Kostirnir og gallarnir við aðild að ESB liggja fyrir, samningurinn er klár. Hann gengur undir nafninu Lissabon-sáttmálinn. Hann vilja Píratar, Viðreisn og Samfylkingin að  Íslandi samþykki. 

Að öllum líkindum mun Alþingi fella tillöguna og er það vel.

 

 

 


Vitleysisgangurinn í löggunni

Börnum innan tólf ára hefur verið bannað að fara á gossvæðið. Svo segir löggan á Suðurnesjum. Þar ráða ríkjum Geir og Grani sem flestum eru kunnir. Spengilegu kallarnir í löggunni þykjast vita betur en allur almenningu hvernig að ferðast, hverjir megi ferðast.

Hvers vegna 12 ára börn? Er eitthvað sem liggur þarna að baki?
„Hvers vegna ekki? Þetta er náttúrlega matskennd ákvörðun,“ segir Úlfar. Ekki fengust nánari upplýsingar um ástæður aldurstakmarksins.
„Menn geta velt þessu fyrir sér en ákvörðunin liggur fyrir og henni verður framfylgt,“ segir Úlfar. Hann segist vonast til þess að aðgerðirnar verði til þess að tryggja öryggi á svæðinu. Almannavarnir beri ábyrgð á að það sé gert.

Þetta kemur fram í frétt í Morgunblaðinu. Lögreglustjórinn þykist hafa Almannavarnir Ríkislögreglustjóra á bak við sig. Samkvæmt honum er ákvörðunin um að banna börnum aðgang „matskennd“ og engin rök fylgja.

„Mönnum er skylt að fara eftir fyrirmælum lögreglu og ef það er ekki gert, þá er hægt að beita sektum samkvæmt lögreglulögum,“ segir Úlfar, spurður hvort unnt sé að sekta fólk sem fer að gosinu eða þá sem halda að gosinu með börn undir 12 ára aldri.

Þetta er vitlausara en tali tekur. Sé ákvörðunin „matskennd“ er aldrei hægt að sekta þá sem brjóta gegn matinu. Sé sumum hleypt í gegn en ekki öðrum er það gert samkvæmt ákvörðun lögreglumanns sem finnst að barnið eigi ekkert erindi á gosstöðvarnar. Hefur löggan þekkingu á útbúnaði, getu barna og getuleysi. Getur verð að matskennd ákvörðun lögreglumanns gangi framar lögum um frjálsa för fólks um landið?

Þetta er eftir öðru. Ég dreg stórlega í efa að lögreglan á Suðurnesjum og  Ríkislögreglustjóra séu starfi sínu vaxin. Mistökin og vandræðagangurinn hjá embættunum á síðasta ári og þessu eru nóg til að hver heilvita maður ætti að varast að taka þau trúanleg. 

2021

Screenshot 2022-08-10 at 12.16.08Eldgosið við Fagra-dalsfjall sem hófst 19. mars 2021 var forvitnilegt og dró að sér þúsundir manna og skipti veðrið fæsta neinu máli. Mér kom samt á óvart hve embætti Ríkislögreglustjóra og almannavarnadeild þess var illa að sér. Sama á við Lögregluna á Suðurnesjum og jafnvel Björgunarsveitina Þorbjörn í Grindavík sem var þarna almenningi til aðstoðar og stóð sig oft vel.

Í upphafi hafði svo mikið fát gripið lögguna, bæði þá hjá Ríkislögreglustjóra og á Suðurnesjum. Vegagerðin var látin loka Suðurstrandarvegi og því borið við að hann væri skemmdur. Engin skemmd fannst. Vegurinn átti bara að vera skemmdur og því var hann lokaður heila helgi. Svo var gefinn út tilkynning um að fólk gæti gengið að gosstöðvunum frá Grindavík og Bláa Lóninu. Þarna kom berlega í ljós hvers konar vitleysisgangur ríkti. Frá báðum stöðum voru að minnsta kosti tíu km að gosstöðvunum, aðra leiðina. Sem sagt fólki var ráðlagt að ganga rúma tuttugu km til að sjá gosið. Hundruð ef ekki þúsundir gerðu það og voru uppgefin á eftir. Gangan gekk nærri heilsu fjölda fólks og hafði það ekki annað til saka unni en vilja sjá eldgos.

Nátthagi

IMGL4818Ég get lesið á landakort. Þó ég hefði aldrei komið á þessar slóðir áður sá ég strax að auðveldast var að ganga um dalinn Nátthaga. Besta að segja það strax að þegar svona stendur á er ég lítið fyrir að láta yfirvöld sem þekkja greinilega ekki aðstæður smala mér, segja mér hvert ég á að fara eða gera. Staðreyndin var einfaldlega sú að ég vissi miklu betur en embættismenn Ríkislögreglustjóra og Suðurnesjalöggan. Þekking þeirra á landslagi og fjallamennsku var sáralítil og ekki til mikils gagns. Þar að auki var eins og þessir aðilar kynnu ekki að lesa úr landakortum.

Athuganir á gervitunglagögnum bentu til þess að kvikugangurinn, sem myndaðist vikurnar fyrir gosið, og opnaðist í Geldingadölum, sé ekki að fara að mynda nýjar gosstöðvar annarstaðar yfir ganginum.

IMGL5335 AurSvo sagði í yfirliti á vef Veðurstofu Íslands 26. mars 2021. Í upphafi eldgossins var ekki talið ráðlegt að búa til gönguleið að gosstöðvunum um Nátthagadal. Jarðfræðingar töldu að ýmislegt benti til að berggangurinn væri undir dalnum og þar gæti hugsanlega gosið. Þrem dögum síðar var ekki lengur talin hætta á þessu. Þó var gerð gönguleið sem lá þráðbeint eftir bergganginum og nefnd „leið A“. Ekki mikil hugsun þar að baki.

Nátthagadalur er geysistór, langur og djúpur, líklega nærri 250.000 fermetrar og er þá aðeins mesta sléttlendið talið. Hæglega hefði verið hægt að koma þar fyrir nærri tíu þúsund bílastæðum án mikillar fyrirhafnar og hefði þó verið æði rúmt um alla. Með því hefði hefði verið hægt að koma í veg fyrir umferðaröngþveiti á Suðurstrandarvegi. Mestu skipti að fólk hefði ekki þurft að ganga nema að hámarki fjóra km að gosstöðvunum og til baka í dalinn, afar létta leið.

Embættismennirnir

Embættismennirnir tóku engum sönsum, hugsuðu ekki sjálfstætt, jafnvel þegar sérfræðingar Veðurstofunnar töldu óhætt að ganga um Nátthagadal.

Margt fer öðru vísi en ætlað er. Hér er atburðarásin: 

  1. Hraun rann niður í Nátthagadal 22. maí 2021 og fyllti hann smám saman. 
  2. Þann, 4. júní 2021 rann hraun yfir gönguleiðina sunnan Gónhóls og lokaði henni. 
  3. Þann 13. júní rann hraun yfir gönguleið Ríkislögreglustjóra (kölluð A) gerð hafði verið með jarðýtu.

RíkislögreglustjóriÞegar litið er til baka var engin gönguleið varanleg. Þó má fullyrða að skynsamlegra hefði verið að beina fólki um Nátthagadal í stað þess að gera fólki beinlínis erfiðara fyrir að skoða eldgosið. Það sem olli þessu var einfaldlega þekkingarleysi, reynsluleysi og getuleysi þeirra sem um véluðu.

Eftir að hafa kynnt mér málin fannst mér útilokað að fara gönguleið löggunnar að gosstöðvunum. Sé enga ánægju í að rölta í óslitinni fimm kílómetra halarófu, troða drullu og renna til í flughálli brekku. Nátthagadalsleiðin mun skemmri og fljótfarnari.

Veðrið

Stundum þótti löggunni óskaplega vont veður á gosstöðvunum. Líklega er miðað við að kyrrsetumenn treysti sér ekki út í rok eða slagveður. Þá er sagt ófært fyrir alla, jafnvel fyrir fjallakalla sem eru margreyndir í útivist og ferðalögum. Öllu var skellt í lás, jafnt fyrir útlendinga á sandölum sem og þeim sem voru í gönguskóm með stífum sóla, í hlýjum og góðum útivistarfötum og hlífðarfötum utan yfir.

Ríkisútvarpið var lengst af með beint streymi frá gosstöðvunum í Geldingadal og einnig var hægt að nálgast myndir á vef Veðurstofunnar og Ríkislögreglustjóra. Stundum var ekki annað að sjá en að á Fagradalsfjalli væri þokkalegt  útivistarveður.

Þá má spyrja, hvað er gott veður til útvistar? Sumir segja að veðrið skipti engu máli, bara klæðnaður fólks, útbúnaður og slatti af skynsemi. Því er ég mikið sammála. Spakir fjallamenn halda því reyndar fram að veður velti á hugarfari. 

Svo er það hitt. Þegar lokað var vegna veðurs á gosstöðvunum fór ég, og örugglega margir aðrir, eitthvert annað, á fjöll, um heiðar. Hvergi var lokað nema við Fagradalsfjall og nágrenni. Enginn bannaði fólki að ganga á Núpshlíðarháls, Sveifluháls eða Geitafell, sem eru þó í næsta nágrenni og veðurlagið nákvæmlega hið sama. 

Líklega þótti löggunni lakara að fólk færi sér að voða  við gosstöðvarnar en skárra að það gerðist annars staðar. Þetta er nú meiri vitleysan hjá löggunni.

Einhver fann upp orðið „gluggaveður“. Það notar „of-fólkið“ óspart. Úti er of-kalt, of-hvasst, of-rigning, of-snjór og van-sól sem merkir of lítil sól. Helst þarf að vera blankalogn úti, tuttugu gráðu hiti og sól til að of-fólkið treysti sér í útivist.

Æ, æ, nú rignir

Fjölmiðlar og Ríkislögreglustjóri hafa oft tekið að sér að segja fólki til um útivist á Fagradalsfjalli en hafa því miður ekki alltaf rétt fyrir sér enda sjaldnast reynt útivistarfólk sem slíkt gerir. Sífelldur áróður gegn gönguferðum úti í náttúrunni er lítt hvetjandi. Byggir upp bölvaðan aumingjaskap sem endar með því að fólk leggur upp laupanna heima í stofu horfandi á sjónvarp og étandi sykurvörur. Þá væri nú meiri mannsbragur á því að berjast á móti vindi: 

Ég vildi óska, það yrði nú regn 
eða þá bylur á Kaldadal,            
og ærlegur kaldsvali okkur í gegn 
ofan úr háreistum jöklasal.

Þurfum á stað, þar sem stormur hvín 
og steypiregn gerir hörund vott. 
Þeir geta þá skolfið og skammast sín, 
sem skjálfa vilja. Þeim er það gott.

Undir Kaldadal heitir þetta hraustlega ljóð eftir Hannes Hafstein, tvö erindi af fimm. 

Ég þreytist sjaldan að vitna í Fjallamenn, bók Guðmundar Einarssonar listamanns frá Miðdal en þar stendur:

„Íslendingar eru skyldugir til að leggja stund á göngur og skíðaíþrótt, þá vaxa þeim ekki fjarlægðir í augum. Sund, leikfimi og fleiri íþróttir eru ágætur undirbúningur fyrir fjallgöngumann jafnframt því, að hann beri virðingu fyrir líkama sínum. Ég veit, að fyrstu tilraunum fylgir nokkur hætta, ef ekki er reynt fólk með í för. En það aftrar mér ekki frá að hvetja fólk til að ganga á fjöll.

Fleiri og voðalegri slys hljótast af hreyfingarleysi en fjallgöngum. Ég hef séð kunningja minn hrapa til dauða í Alpafjöllunum, en það fékk mér ekki eins mikillar sorgar og að sjá fjölda fólks, sem ég þekki, grotna niður af fitu, leti og óreglu.“ (Fjallamenn, blaðsíða 161)

Geir og Grani í löggunni

Screenshot 2022-08-10 at 12.54.11Rétt fyrir hádegi þann 5. apríl 2021 opnaðist sprunga norðan við Geldingadal og á örfáum dögum mynduðust fimm gígar. 

Þegar þetta gerðist var ég nýkominn upp á Langahrygg. Hafði dvalist í heiðskíru og fallegu veðri við að taka myndir af rofabörðum enda lá mér ekkert á. Hefði ég gengið hraðar upp á hrygginn, sem ætlunin var, hefði ég séð nýju eldsprunguna opnast. Það hefði verið saga til næsta bæjar. Já, hefði og hefði.

Þegar ég kom upp leit ég auðvitað til eldstöðvanna, en nokkru norðar var reykur og jafnvel eldur. Nokkrar sekúndur liðu áður en ég áttaði mig á því að þarna var ný sprunga að opnast. Úr henni rann hraun sem féll ofan í Meradal. Ég tók myndir í gríð og erg. Skundaði eftir Langahrygg í áttina að Stóra-Hrúti, þangað upp ætlaði ég. Þá  fékk ég smáskilaboð í símann minn; 

Rímið gossvæðið. Umferð bönnuð. Ný sprunga að myndast.

Ég las skilboðin og hló (dálítið illkvittnislega ég viðurkenni það). Leirskáldin hjá Ríkislögreglustjóra höfðu berað þekkingarleysi sitt á enn einu sviðinu. 

Vantaði Geir og Grana rímorð? Mörg orð ríma við gossvæðið, til dæmis fljótræðið, smáræðið, ónæðið, bráðræðið, einræðið og mörg fleiri. Öll þessi eiga vel við.

Þegar löggan frétti af nýrri sprungu virðist mikið fát hafa gripið um sig á lögreglustöðinni á Suðurnesjum og Ríkislögreglustjóra. Ef til vill eins og sást í gömlu bíómyndunum um „The keystone cops“. Sé fyrir mér ringulreiðina þegar fréttin barst. Allir æða fram og til baka, rekast á vinnufélaga, borð og stóla og hrópa og kalla í algjöru ráðaleysi.

„Lokum lokum, fólk gæti dottið ofan í nýju sprunguna,“ gæti einhver hafa æpt, skrækum rómi. Nýliðanum er skipað fyrir og hann hleypur til og sendir út smáskilaboð. Af hverju nýliðinn? Jú, hann er með próf á jarðýtu, hámenntaður.

Jæja, afsakið þetta. Ég gat ekki stillt mig, því löggan tók til þess ráðs að skipa fólki að rýma (ekki „ríma“) gossvæðið. Sleppum stafsetningarvillunni og samt mátti misskilja orðalagið. Var átt við að þeir sem fái skilboðin eigi að aðstoða við að rýma gossvæðið eða eiga þeir fari á brott? Líklega var átt við það síðarnefnda. Löggan gat ekki einu sinni skrifað skammlaust smáskilaboð fyrir síma.

Þyrlan

Þó gossprunga opnist er lítil hætta á ferðum. Engar hamfarir eru á leiðinni. Ekki verður sprenging. Nær útilokað var að aðrar eldsprungur myndu opnast við hlið hennar. Það gerist aldrei. Frekar er líklegar að svona sprungur lengist í aðra hvora áttina. Á Reykjanesi hafa allar gossprungur stefnuna suðvestur-norðaustur og þarf ekki annað en að líta á landkort til að sannfærast. Löggan vissi þetta ekki, skildi ekki eða hafði ekki hlutað á jarðfræðinga. 

Uppi á Langahrygg velti ég því fyrir mér hvers vegna ég ætti að fara heim? 

Jú, valdstjórnin krafðist þess. 

En var ég á gossvæðinu? 

Nei, ég var langt fyrir utan hættusvæði sem skilgreint hafði verið. Þess vegna gekk ég upp á Stór-Hrút.

Stuttu eftir að ég sá nýju sprunguna og náði af henni mynd tók að renna hraun suðvestan við staðinn þar sem fyrst opnaðist.

IMGL4917 AurMikið var gaman - þangað til þyrla Landhelgisgæslunnar nálgaðist. Svo hringsólaði hún ógnandi yfir mér þar sem ég stóð þarna á fjallstindinum. Auðvitað skelfdist ég. Bjóst við hryðjuverkasveit Ríkislögreglustjóraembættisins sem myndi renna sér á köðlum niður úr þyrlunni, alvopnaðir hríðskotabyssum, hnífum, kylfum og táragasi, og handtaka mig fyrir að hafa óhlýðnast valdstjórninni. Svo gerðist það næstótrúlegasta. Þyrlan flaug í burtu. Ég settist skjálfandi og sveittur niður við litlu hrúguna sem einu sinni hafði verið varða og reyndi að ná mér. Það tókst, en helluna í eyrunum hef ég ekki losnað við síðan. Enn suðar.

 

Já og nú er aftur farið að gjósa og löggan á Suðurnesjum og embætti Ríkislögreglustjóra leita allra ráða til að passa okkur, almúgann. Við vitum ekki neitt, kunnum ekki neitt og erum vís til að detta ofan í kvikutjörnina eða jafnvel ofan í gíginn. Og þá er nú nauðsynlegt að þeir Geir og Grani og félagar þeirra standi sig.

 

Myndirnar

Efsta myndin er af forsíðu Fréttablaðsins og er af fólki sem er að brölta upp „kaðalleiðina“ svoköllu. Gönguleið upp bratta hlíð sem tróðst fljótt niður og í slyddu og rigningu varð hún fljótt eitt forað. Þetta var í boði löggunnar og Björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík og hafa báðir aðilar verið stoltir af framkvæmdinni.

Næsta mynd er tekin af Langahrygg og þarna sést í fjarska „kaðalbrekkan“ fræga.

Þriðja myndin er af uppgöngunni úr Nátthagadal, miklu léttari og auðveldari leið en löggan þröngvaði fólki til að fara.

Fjórða myndin þarfnast ekki skýringa.

Fimmta myndin ekki heldur.

Sú sjötta er af þyrlu Landhelgisgæslunnar sem nálgast Stóra-Hrút. Grænafjall í baksýn.

 

 

 


Ferðirnar í dalinn sem er ekki til og hefur aldrei verið til nema ...

Hér verður sagt frá „Rauðhólsdal“ sem er ekki til og hefur aldrei verið til nema í mínu höfði. Samt hef ég fjórum sinnum komið í hann. Og þetta er ekki gáta.

Mikið væri nú gaman ef ég hefði spáð fyrir um gosið sem kennt er við Geldinga. Ég gerði það ekki og sé eftir því. Ekki svo að ég sjái fram í tímann, þvert á móti. Mér gengur best, ólíkt mörgum öðrum, að segja frá því sem þegar hefur gerst. Væri ég draumspakur, skyggn, kynni að spá í spil eða kaffibolla hefði ég án efa séð gosið fyrir. Þessa hæfileika hef ég ekki en dreg ekki í efa að einhverjar konur hafi hana. Ekki karlar. Útilokað. En blessaðar konurnar gleymdu að spá fyrir um gosið. Jarðvísindamenn komust næst því og jarðbundnara fólk þekkist bókstaflega ekki. En þetta var nú nátengdur útidúr um efni pistilsins. 

Þannig stóðu málin á því ágæta ári 2021 að drjúgur tími fór í að fylgjast með gosinu við Fagradalsfjall. Ég tók myndir, skrifaði um það pistla á blogginu, á fésbókina en þó aðallega fyrir skúffuna, og skemmti mér vel með vinum og kunningjum sem nenntu að fara með mér á gosstöðvarnar. Oft fór ég einn og lét það ekki hefta mig því ég er ansi góður ferðafélagi.

Einu sinni gekk ég hringinn í kringum gosstöðvarnar. Líklega er vegalengdin um tuttugu km og fannst mér vel af sér vikið að rölta þetta. Svo uppgötvaði ég að nær annar hver maður hafði gengið hringinn. Þá dró aðeins úr montinu. Ferðin var samt ágæt, útsýnið stórbrotið og ég kom á staði sem ég hafði bara séð úr fjarska. Þetta var 29. júlí 2021.

IMGL0209_IMGL0210 Lum

Það undur gerðist í ferðinni er ég gekk frá nyrsta gígnum á gömlu sprungunni í áttina að keilulaga merarfjallinu að fyrir mér varð þetta líka snotra dalverpi. Síðar, er ég sagði frá því, var sagt að vel á því að örverpi færi í dalverpi en það er nú önnur saga. Innst inni í dalnum sá ég litla sæta dúddulega rauðhólinn. Ekki var hann marglitur, frekar tvílitur, svartur og rauður en litbrigðin léku ótrúlegan tvíleik svo nánasta umhverfi roðnaði, varð geislandi fagurt.

Fremst í dalnum var gilræfill og inn í hann hafði ógnandi hraunið úr Meradal skriðið af skepnuskap sínum endað ætlaði það sér að fylla dalbotninn en komst ekki upp í hann. Mér fannst tröllagígurinn sem gubbaði kviku, er þetta gerðist, ekki líklegur til að framleið nóg til svo dalnum væri ógnað. Ég hafði rangt fyrir mér.

IMGL0224 Lum

Ég skokkaði framhjá hrauninu og inn í dalinn. Tók nokkrar myndir og dáðist af sýningunni. Svona sést hvergi, ekki við Fagra-dalsfjall, svo mikið vissi ég. Á nokkrum stöðum í dalnum voru gróðurtorfur, merki um það sem áður var. Uppblásturinn hefur verið gríðarlegur eins og víða annars staðar við fjallið og raunar á öllu vestanverðu Reykjanesi. Engu að síður finnast þarna örnefni kennd við húsdýr. Við liggur að það hafi verið dýraníð að reka búfé á þessar slóðir, enda sáralítill annar gróður en mosi og stöku grastoppar. 

Áfram hélt ég hringleið minni, gekk þvert yfir dalinn. Þar er fyrir móbergshryggur sem álengdar er eins og kaun á fjallsöxlinni. Ég gekk upp á hann og inn í næsta dal en ákvað að koma aftur, sjá rauða hólinn í „Rauðhólsdal“.

IMGL0699_IMGL0702 Aur

Tæpum hálfum mánuði síðar, 8. ágúst, kom ég þangað aftur. Mér tókst að plata æsku-vin minn með mér. Við leigðum okkur rafhjól og brunuðum jeppaveginn sem liggur austan við Langahrygg og Stóra-Hrút. Nú gekk ég niður í dalinn úr norðri. Við skildum hjólin eftir fyrir ofan því ekkert vit var í að hjóla niður um stórgrýti og gljúpar sandbrekkur.

Dalurinn hafði breytt um svip því hraunið hafði óboðið læðst lengra inn í hann, kaffært endanlega litla gilræfilinn og var nú nærri hálfnað á leið sinni inni að rauðhól. Nei, þangað kemst það aldrei varð mér að orði. Ég hafði rétt fyrir mér en hugsunin var aðeins byggð á óskhyggju.

Sérkennilegt var að sjá hvernig hraunið hafði liðast hægt og rólega inn dalinn. Hér og þar í því glitti í rauða glóð og af og til gúlpaðist glóandi kvika út úr hrauninu, læddist ofurhægt og hljóðlaust niður á gróðurlausa jörðina og kólnaði þar. Svo varð önnur tunga til  og þannig ungaði hraunið út kvikunni án sjáanlegs erfiðis.

IMGL0690 Snap b Aur

Í fjarska sá ég hvernig mjó rönd reis upp á endann langt úti í hrauninu sem rann ofurhægt framhjá dalmynninu. Ég mundaði myndavélina, notaði aðdráttinn og smellti af. Fannst ég sjá lifandi veru á göngu,  Hraun-Grýlan ógurleg í ævintýrinu sem ég á eftir að skrifa.

Við snæddum nesti í skjóli af gráum klettum í rauðri hlíð fyrir ofan hraunið og veltum fyrir okkur hvort langt yrði í næsta gos á þessum slóðum. Fátt vissum við. Mánuði síðar var gefið út dánarvottorð, geldingsgosinu var lokið.

Svo leið og beið og vetur gekk í garð. Tíðin var ágæt. Ég ákvað að fara enn eina ferðina í dalinn góða og brunaði þangað  á rafhjóli 2. nóvember 2021. Ferðafélagar fengust ekki.

IMGL0880 AI

Þetta var einmannalegur rafhjólatúr. Ekki sála var sjáanleg, allt mannlaust, líflaust, jafnvel tröllslegur gígurinn sem gnæfði yfir umhverfið hafði lagt niður störf. Hraunframleiðslan var hætt eins og jarðvísindamenn orða það. Ég var eiginlega eins og Palli, einn í heiminum. Dálítið ónotalegt upp á fjöllum en ég hristi af mér drungann og lifði þetta af.

Enn hafði dalurinn breytt um svip. Hraunið hafði skriðið talsvert lengra í áttina að rauðhólnum en gefist upp áður en að brattanum kom, skorti allt byggingarefni. Rauðhóll átti greinilega að fá að lifa áfram, tilvera hans var tryggð. Mikið gladdist yfir því. Sá ekki neina ógn lengur. Fátt vissi ég. Auðvitað lá óvinurinn lævísi í leyni hulinn mannlegum augum og leitaði færist að gera út af við dalinn. Tilvist hans var ekki fullrituð í sköpunarsögu jarðar. Um það vissi ég auðvitað ekkert.

IMGL0899 Lum

Nú var mér starsýnt á sprungur í nærliggjandi Mera-fjöllum. Hlíðarnar virtust hafa brostið, ætluðu að skríða niður. Þetta var furðulegt. Ég ímyndaði mér að hraunfargið drægi þær niður en Palli jarðvísindamaður (þó ekki sá sem var einn í heiminum), upplýsti að jarðskjálftar undanfarinna missera hefðu valdið sprungunum en ekki nefndi hann skriðuföll.

Nú liðu níu mánuðir. Eitthvað hafði gerst, meðgöngunni var lokið og jörðin rifnaði og ... (Þetta er frekar bjálfaleg líking, viðurkenni það). Jæja, nú liðu níu mánuðir og allt í einu gerast þau ósköp í litla, snotra dalverpinu mínu að andskotinn verður laus, óvinurinn í leyni reif upp jörðina eins og umslag. Sprunga varð til frá suðvestri, þar sem litli gilræfillinn átti um aldir tilveru undir björtum himni, og í norðaustur, hátt upp í hlíð Merahnúks.

IMGL5547 Neo

Sprungan snýtti úr sér glóandi kviku sem kaffærði umsvifalaust sléttuna fyrir neðan og rúmlega það. Kveikti gróðurelda á stöku stað kaffærði litlu gráu skriðuna í rauðu brekkunni og réðst svo til atlögu við saklausan rauðhólinn sem ekkert hafi til saka unnið frekar en aðrar innréttingar í dalnum. Vörn hans var engin og saga hans því öll. Allt var ónýtt, steypt andstyggilegu svörtu hrauni. Mannlegur máttur hefði ekki getað eyðilagt dalverpið á jafn hrottalegan hátt og getur það þó flest allt. Hér var öllu fórnað þann 3. ágúst 2022 og í ótiltekinn tíma þar á eftir (lesandinn verður að muna að höfundurinn er ekki forspár).

Daginn eftir lagði ég land undir fót eða öllu heldur dekk. Hjólaði með góðum vini á rafhjóli sömu leið og tvisvar áður og í fjórða skiptið kom ég í „Rauðhólsdal“ sem er ekki til og hefur aldrei verið til nema í mínu höfði. Nafnið er ekki lengur réttnefni frekar en Geldingalaus Geldingadalur eða meralaus Meradalur..

IMGL5383_IMGL5387

Við stóðum innan um eitt hundrað manns á kolli rauðhóls og hraunið brimaði rétt fyrir neðan. Sprungurnar sem ég hafði fundið á hólnum fyrir níu mánuðum voru ekki lengur sjáanlegar, allar úttraðkaðar. Uppi um allar hlíðar var fjöldi fólks rétt eins og „þjóðflutningarnir miklu“ hefðu byrjað enn á ný. Aragrúi fólks.

Jarðeldurinn logaði glatt enda vel kynnt undir. Gígarnir voru iðnir í framleiðslu sinni og til varð stór kvikutjörn. Úr henni rann hraun í áttina að hólnum góða, reyndi að komast upp en lak svo inn í litla gilið og kaffærði stórgrýtið gráa. Hraun rann einnig út úr dalnum og yfir það gamla sem tröllagígurinn hafði sent inn í dalverpið og Meradal. Síðast fréttist að það væri komið austur að mörkum dalsins og myndi án efa fara yfir þau eftir nokkra daga.

Ég hafði séð nægju mína. Dalurinn var ekki minn. Ekki lengur. Allt breytist. Jafnvel mannfólkið. Hér á að fylgja andvarp lífsreynds öldungs (man ekki hvað hann heitir).

(Til að njóta myndanna er nausynlegt að smella á þær og opnast þá dýrðin.)

IMGL0209_IMGL0210 Lum sprungaOg hér er aftur efsta myndin en inn á hana hef ég nú dregið línu sem á að tákna kvikusprunguna. 


Myndir af gosstaðnum í Rauðhólsdal

Í þann mund sem ég var að ganga frá pistli um hugsanlega gosstað sem ég taldi að yrði norðaustan við Meradal kom tilkynning um að gos væri hafið. Mér til undrunar og vonbrigða reyndist það vera í afdal inn af Meradal, afskaplega snotur og og skemmtilegur staður. Hann er örskammt frá þeim stað sem ég hélt að myndi verða vettvangur gossins. Ég kallaði hann með sjálfum mér „Rauðhólsdal“ en líklega mun hann fara á kaf innan skamms og örlög dalsins verða svipuð og Geldingadala og Meradals, hverfur undir svart hraunið.

IMGL0238_IMGL0241 Aur

Hér er samsett mynd af gosstaðnum. Stór og marglitur hóll innst í dalnum. Gossprungan liggur frá miðjum dalnum og upp í hlíðina hægra megin.

IMGL0699_IMGL0702 AurHér er horft til suðvesturs. Stór-Hrútur gnæfir yfir og svart hraunið úr gígnum hefur runnið inn í dalinn. Stór gígurinn sést ekki, er í hvarfi við fellið hægra megin. Gossprungan liggur því sem næst frá miðjum dalnum og upp vinstra megin við gilið og grjóturðina.

IMGL0975 Aur

Loks er hér mynd sem ég tók 2. nóvember 2021 og var þá hraunið komið mjög innarlega í dalinn. Eins og sjá má á vefmyndavélum liggur sprungan undir eldra hrauninu og upp í hlíðina hægra megin eins og áður sagði.

Inn í þennan lita og snotra dal kom ég þrisvar sinnum á árinu 2021. Staðurinn getur alls ekki talist „túristavænn“. Hann er langt frá Suðurstrandavegi, löng ganga frá honum. Tvisvar fór ég á þangað á rafhjóli og var það drjúg og þreytandi ferð. Jeppavegur liggur nálægt gosstaðnum en meintir eigendur Fagradalsfjalls og nágrennis hafa lokað honum fyrir bílum. Líklega er það bara ágætt.

Hér kort af gosstaðnum og nágrenni. Það skýrir sig ágætlega og sýnir að gosið kom nákvæmlega upp þar sem jarðvísindamenn ætluðu að kvikugangurinn væri.

En hvers vegna skyldi gosið hafa komið upp á Gosstaðurinn 2022þessum stað en ekki norðar? Held að það sé vegna þess að kvika leitar upp á lægri stað í landinu. Held það sé ágæt kenning.

Viðbót

Nú eru komnar skýrari myndir af gosstöðvunum. Gosið er tvímælalaust kraftmeira en var í stútnum í Geldingadalnum vestari þann 19. mars í fyrra.

Merkilegast finnst mér hversu margir gígar hafa myndast fljótt á sprungunni. Hún er ekki lengur samfelld heldur slitrótt. Gossprungur í hlíðum eru greinilegar í Móhálsadal.

Alveg er það stórmerkilegt hvernig lögregla og björgunarsveitir tala niður til almennings. Búið er að loka 12 km jeppatroðingi að gosstöðvunum og fólk fær ekki lengur að ganga að þeim. Sagt er að það sé vegna þess að gas streymi upp við gosstöðvarnar og það sé hættulegt. Þetta er líklega rétt svo langt sem það nær. Samkvæmt streymi Ríkisútvarpsins úr þyrlu Landhelgisgæslunnar er hávaðarok þarna. Á Bliku er sagt að það séu 10 m/s og því pottþétt að öll mengun feykist út í veður og vind.

Auðvitað stendur fólk ekki ekki í reykjarkófi. Halda björgunarsveitir og löggan að almenningur sé dómgreindarlausir asnar? Ég bara spyr. Sjá frétt mbl.is

Staðhættir eru þannig að hægt er að standa langt fyrir ofan gossprunguna, horfa niður til hennar úr öruggri fjárlægð rétt eins og í hringleikahúsi. Hvaða hætta leynist að öðru leyti.

Veðurstofan
Mér finnst þessi mynd úr þyrlu Landhelgisgæstunnar sem birtist á vef Veðurstofunnar alveg frábær og sýnir aðstæður mjög vel. Og hvert fer mökkurinn? Jú, til suðurs, undan norðanáttinni.

RÚV streymi 2022-08-03 at 15.50.14Einnig er síðasta myndin góð. Greip hana af streymi Ríkisúpvarpsins.

 

 


Spámaðurinn Stormur úr Hafnarfirði mælir

Þvílíkt vit, þvílík andagift. Þetta datt mér í hug þegar ég las frétt í Mogganum mínum í morgun. Fyrirsögnin er:

Ekki öll von úti fyrir sumarið í ár.

Og ég hugsaði með sjálfum mér kvur árinn hefði nú komið fyrir blessað sumarið. Svo las ég fréttina og komst að því sem algjörlega hafði farið framhjá mér að veðrið í sumar hefði verið slæmt en líklega væri það skána.

Fréttin er viðtal við samfylkingarmann í Hafnarfirði sem hefur viðurnefnið Stormur og ku vera skyggn eða eitthvað svoleiðis. Hann mælir eins og einsetumaðurinn á fjallstoppi sem hefur öðlast skilning á lífsgátunni og allri tilverunni. Hann segir:

Hann bætir við að veðrið á landinu muni halda áfram að vera breytilegt eftir dögum, eins og það á til að vera á Íslandi.

Þetta er djúp speki og nú skil ég hvers vegna Mogginn tók viðtal við manninn. Í örstuttu máli lýsir hann veðurlagi á Íslandi sem enginn hefur áður áttað sig á.

Svo rýnir samfylkingarmaðurinn í kristalskúlu sína, spilin eða innyfli sláturdýra og rís upp og mælir að hætti þeirra sem vita meira en við, aum alþýða manna:

Það munu skiptast á skin og skúrir eins og það hefur alltaf verið frá upphafi landnáms og jafnvel fyrir það.

Í hljóðri bæn þakkar maður skaparanum og ritstjórn Moggans fyrir fréttina. Hvernig hefðum við dauðlegir menn getað lifað af sumarið án hennar.

Vitur maður sem ég þekki afar vel spáði því um síðustu áramót að fram til vors myndi verða kalt. Svo myndi hlýna og gróður dafna fram á haust er aftur tæki að kólna. Hann veit greinilega ekki neitt miðað við spámanninn Storm.

Annars er ég doldið hissa á því að samfylkingarmaðurinn skyldi ekki hafa verið spurður að um frelsarann, hvenær hans sé von frá himnum, þar sem allt veður verður til. Sko, mannkynið hefur beðið eftir honum í nærri tvö þúsund ár (það er frelsaranum ekki Stormi).

Svo er það allt annað mál að ég vissi ekki til þess að veðrið í sumar hefði verið slæmt.  Svona er maður nú vitlaus. Auðvitað hefði ég ekki átt á ganga á fjöll og ferðast um landið í júní og júlí. Ég vissi bara ekkert af þessum Stormi. Fór ekki einu sinni eftir veðurspá ríkisins. Og nú er ég efins um að hægt sé að halda áfram fjallaferðum.

 

 


Ásthildur Lóa þingmaður í klækjastjórnmálum

Forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er skýr: Að gera þá ríku ríkari og þá fátæku fátækari!

Þetta segir þingmaður Flokks fólksins, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, í pistli á blaðsíðu 12 í Morgunblaðinu 22.6.22. Líklega er allt rétt sem hún segir en enginn rökstuðningur fylgir, bara ómerkilegt mas.

Þannig er þetta oft með fjölmarga þingmenn þegar þeir segja frá í eigin orðum hvernig staðan er. Þá freistast þeir til að draga upp afar dökka mynd, fyrst og fremst til að upphefja sjálfa sig en auðvitað kann að vera að þeir vilji koma málum áleiðis.

Ásthildur þingmaður staðfestir í raun og veru ofangreind kænskubrögð með túlka orð fjármálaráðherra á þennan hátt:

Í stað þess að mæta þeim raunveruleika sem við blasir stráir fjármálaráðherra um sig úreltum tölum um að leiguverð hafi ekki hækkað meira en launavísitalan, en gleymir algjörlega nokkrum lykilatriðum eins og t.d. því að greiðslur almannatrygginga eru enn og aftur látnar dragast aftur úr. Hækka ekki í samræmi við gildandi lög. Kjaragliðnunin heldur áfram að aukast þrátt fyrir falsfréttir ríkisstjórnarinnar.

Ekki ætla ég að ræða þetta efnislega, fjármálaráðherra getur druslast til að gera það. Hins vegar er ástæða til að benda á hvernig þingmaðurinn skrifar greinina og hversu svona óbein túlkun getur verið skökk. Líklega er tilgangurinn að hafa áhrif á skoðanir lesenda, ekki upplýsa þá.

Takið eftir orðalaginu „úreltum tölum“. Enginn rökstuðningur fylgir, þetta á líklega að vera alkunn staðreynd sem ekki þarf að orða frekar. Sama er með fullyrðinguna í upphafi. Hvers konar hagfræði byggir á því að gera einhverja ríkari og aðra fátækari. Svona er bara bull sem gengur aldrei upp. Því fleiri sem eru bjargálna því fleiri koma undir sig fótunum og verða jafnvel ríkir, sé það markmið í sjálfu sér.

Þingmaðurinn fullyrðir fjármálaráðherra  gleymir algjörlega nokkrum lykilatriðum“ sem hafa áhrif á leiguverð. Með því að segja að ráðherrann „gleymi“ á Ásthildur Lóa, þingmaður, við að hann hafi viljandi farið með rangt mál. Mér finnst þetta nokkuð alvegarleg ásökun. Hins vegar má spyrja, hversu margir leigjendur eru með greiðslur frá almannatryggingum? Líklega er það ekki síður lykilatriði rétt eins og margt annað sem þingmaðurinn nefnir ekki.

Það er afar alvarleg ásökun að ríkisstjórn Íslands dreifi „falsfréttum“, fölskum upplýsingum.

Og hverjar eru þessar „falsfréttir“? Þingmaðurinn lætur ekkert uppskátt um þær. Hann slær fram alvarlegum ásökunum eins og ekkert sé. Þannig er eiginlega búið að gengisfella orðið sem skiptir svo óskaplega miklu máli í heiminum í dag.

Er ekki ástæða til að ræða „falsfréttirnar“ frekar? Kalla saman þing, stofna til þingnefndar sem rannsaki málið, ákæra ráðherra og stefna síðan landsdómi saman. Þetta allt hafa þingmenn gert áður en eingöngu í pólitískum tilgangi og til þess eins að kom náðarhöggi á andstæðinga.

Eins og svo margir aðrir nýir þingmenn hefur Ásthildur Lóa Þórsdóttir lært tungutak stjórnarandstöðunnar, klækjabrögð hennar og tæknina sem byggir á hálfsannleika. Mikilvægu og gildishlöðnu orðin hafa misst gildi sitt vegna ofnotkunar. Ekkert er lengur að marka þau enda bara nýtt til að afvegaleiða lesendur. Er þá ekki komin „falsfrétt“ um „falsfrétt“? Hvar endar svona vitleysa?

Það er svona sem svo margir þingmenn tala. Byggja mál sitt að nokkrum kunnuglegum atriðum og draga síðan rangar ályktanir út frá þeim í þeim eina tilgangi að sverta andstæðinga sína. Almenn rökræða er næstum horfin, málefnaleg umfjöllun tíðkast ekki.

Ásthildur Lóa Þórsdóttir öðlaðist ekki alheimsvisku um leið og hún náði kjöri á Alþingi Íslendinga. Kjörbréfi hennar fylgir ekkert slíkt. Hún situr einfaldlega uppi með það sem henni var áskapað í erfðum og hún hefur síðan lært af umhverfinu. Þingmenn eru ekki alvitrir en þeir geta verið brögðóttir og beitt klækjum. Á þingi virðist sú regla mikið notuð að höggva þegar færi gefst, svona eins og gert er á fésbókinni.

Mikið óskaplega er fólkið í klækjastjórnmálunum hvimleitt, í raun óþarft. Það kemur engu áleiðis. Flokkur fólksins byggst á afar góðum stefnumálum en þingmenn eins og Ásthildur Lóa klúðra þeim með hálfsannleika.


Magnús Guðlaugsson

Við vinirnir stóðum á bílastæðinu fyrir utan hús í iðnaðarhverfinu í Árbæ þann 2. maí og spjölluðum saman eftir fund. Napur norðanvindur blés og við mjökuðum okkur í skjól við bílinn hans. Samt var kalt.

Hvað sagði Magnús í hinsta sinn er við sáumst? Um hvað töluðum við? Ég hef reynt að rifja þetta upp en minnið svíkur mig aftur og aftur. Ég minnist bara stóra sviphreina mannsins með góðlegu augun. 

Við töluðum dálítið um heilsuna. Hann kvartaði undan ökklanum, sagði hann ferlega slæman. Það er nú allt í lagi, sagði ég, og nefndi til huggunar að sennilegra væri skárra að hafa hausinn í lagi en ökklann, svona ef upp kæmi sú staða að velja þyrfti á milli. Magnús hló. Svo spjölluðum við eitthvað fleira sem líklega var svo algjörlega hversdagslegt að maður steingleymdi því. Við spauguðum. Slæmt að vera í frábæru líkamlegu formi og fá svo heilablóðfall eða verða fyrir bíl. Um það vorum við sammála.

Hvar kynntumst við? spurði Magnús, allt í einu. Hann mundi það ekki alveg. Ekki ég heldur. Heimdalli, Vöku í Háskólanum, MR? Það skipti engu máli. Leiðir okkar höfðu legið þarna saman og svo ótal oft síðar. Vináttan bast snemma. Alltaf var þótti mér gaman að Magnús. Hann var aldrei á hlaupum heldur gaf sér tíma. Var rólegur og yfirvegaður og veitti óspart góð ráð. Engu að síður hreinskilinn.

Af fésbókinni að dæma naut hann lífsins, unni mat og víni. Fór víða um lönd, snæddi á frægum veitingahúsum og sagði svo vel frá að maður dauðöfundaði hann. Engu að síður var hann hófsamur, gortaði aldrei.

Tveimur árum munaði á okkur. Hann var ungi maðurinn en hokinn af reynslu og þekkingu eins og sagt er. Gott var að leita til hans. Vinsamlegt bros lék jafnan um varir hans sem endurspeglaði innri mann, geðugan og greiðvikinn. Hann var drengur góður.

Vonlaust var að deila við Magnús. Ég reyndi það stundum. Hann hafði alltaf rétt fyrir sér og það vissi ég um síðir. Nei, sagði hann. Víst, sagði ég. Og svo hélt þetta áfram í nokkrar sekúndur þangað til við hlógum.

Við kvöddumst: Sjáumst aftur. Ég gekk niður fyrir húsið þar sem ég hafði lagt bílnum. Magnús ók niður götuna og framhjá mér. Hvarf mér út í eilífðina.

Magnús er einn af þeim lífsins samferðamönnum sem maður mun sakna. Ég sendi ástvinum hans samúðarkveðjur.

Jarðarförin var í dag, 24. maí 2022.


Sko, hinir flokkarnir féllu meira en meirihlutinn ...

Það er ekki verið að kjósa þá, þeir falla meira en meirihlutinn og þegar við tökum þetta inn þá hugsa ég; hvað er það sem að borgarbúar voru að kjósa? Þeir voru að kjósa nýtt afl sannarlega en þeir voru að kjósa eftir stórum línum. Og þótt að lítill leikur hér á RÚV hafi þótt glens og gaman þegar við fórum öll oddvitarnir í já og nei spurningarnar en það var samt mjög táknrænt, þar sást það og það flugu hér um screenshot af því hvernig við sögðum já við húsnæðismálunum og borgarlínunni og samgöngusáttmálanum og það verður ekkert skýrara en það, þegar þú þarft að svara já eða nei að þá sést það, og þá eru þessar línur ansi augljósar.

Þetta segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, borgarfulltrúi Viðreisnar, á ruv.is. Líklega er þetta mjög skýr afstaða en við, óbreyttur almúginn, skiljum ekki talið. Það er sosum allt í lagi en samúð alþýðunnar fær aumingja blaðamaður Ríkisútvarpsins sem skikkaður var til að hlusta á borgarfulltrúann og hnoða þessu saman í „frétt“.

Góður maður sagði einhvern tímann að hann hafi verið hæstur af þeim sem féllu í prófi. Sama segir Þórdís Lóa viðreisnarmaður, hinir féllu meira en við. Gallinn er bara sá að það er ekki rétt.

Hún Þórdís Lóa hefur lært það í meirihlutanum í borgarstjórn að tala eins og borgarstjórinn. Fara í langan hring umhverfis kjarna málsins, tala og tala og tala. Þreyta áheyrendur.

Og svo er nú komið að þessi borgarafulltrúi Viðreisnar hefur málað sig út í horn með hinum vinstri flokkunum, Samfylkingunni og Pírötum, og telur sig ekki geta unnið með neinum öðrum. Klókur stjórnmálamaður hann Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, að hafa platað Þórdísi Lóu.

Já, línurnar eru ansi augljósar þegar leitað er að hinum borgarfulltrúa Viðreisnar. Sko, hann féll, hann Pavel Bartoszek. Vera má að hann hafi ekki fallið langt en fallinn er hann engu að síður og á ekki lengur sæti í flokki vinstri manna í borginni.

Kjósendur kusu þar eftir „stórum línum“, sem er „mjög táknrænt“. Ekki aðeins Pavel féll, heldur líka meirihlutinn. Fátt er skýrara. Nema ef vera skyldi sú augljósa staðreynd að borgarfulltrúum Viðreisnar fækkaði um helming í kosningunum.

 

 


Breytti Fréttablaðið niðurstöðum skoðanakönnunarinnar?

Screenshot 2022-05-16 at 21.21.08Skoðanakönnun Fréttablaðsins frá því 10. maí 2022 um fylgi flokka í Reykjavík stenst ekki. Annað hvort var hún ófaglega gerð eða spellvirki voru unnin á henni fyrir birtingu.

Breytingar á fylgi Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Pírata eru of langt frá úrslitum kosninganna til að könnunin geti staðist.

Skoðanakönnun sýnir ekki úrslit kosninga en hún gefur engu að síður vísbendingar.

Niðurstöður skoðanakönnunar Fréttablaðsins eru svo furðulegar að almennir lesendur fyllast óhjákvæmilega grunsendum um að einhver maðkur sé í mysunni. Því er spurt:

A. Getur verið að Fréttablaðið hafi vanreiknað fylgi Sjálfstæðisflokksins svo munar 8,3% á skoðanakönnuninni og kosningunum?

B. Ofreiknaði Fréttablaðið fylgi Samfylkingarinnar um 6,4%?

C. Vanreiknaði Fréttablaðið fylgi Framsóknarflokksins um 6,3%?

D. Ofreiknaði Fréttablaðið fylgi Pírata um 6,3%?

Tilgangslaust er að bera því við, að frá því að skoðanakönnunin var gerð og þar til kosið var, hafi fylgi ofangreindra flokka kollvarpast, kjósendur hafi „bara“ breytt um skoðun. Ekkert gerðist í stjórnmálunum á þessum dögum sem styður þetta. 

Athygli vekur að fylgi annarra flokka í könnuninni er ekkert langt frá úrslitum kosninganna.

Daginn fyrir kosningar birti Gallup skoðanakönnun á fylgi flokkanna í Reykjavík. Hún hefur allt annað yfirbragð og er í þokkalegu samræmi við úrslit kosninganna.

Kolbrún Bergþórsdóttur, menningarritstjóri Fréttablaðsins og reyndur blaðamaður sagði í leiðara blaðsins um könnunina nokkrum dögum eftir birtinu bennar:

... könnun sem flest bendir til að hafi verið lítið marktæk.

  • Af hverju var könnunin lítið marktæk?
  • Var könnunin ekki marktæk af því að hún var svo fjarri öllu lagi fyrir kosningar?
  • Eða var könnunin svo illa gerð að allir á Fréttablaðinu vissu það?
  • Eða töldu innanbúðarmenn í Fréttablaðinu að fiktað hafi verið í niðurstöðum könnunarinnar?

Fólk með sérþekkingu á skoðanakönnunum og stærðfræði eru ekki sammála. Sumir telja að fiktað hafi verið í könnuninni aðrir segja að Fréttablaðið kunni hreinlega ekki til verka.

Svo eru þeir til sem tala um svindl. Sagt er að skoðanakannanir hafi mótandi áhrif á kjósendur en ekki eru allir á einu máli um það.

Furðuleg niðurstaða í skoðanakönnun sem á sér enga samsvörun við úrslit kosninga vekur eins og áður sagði upp grundsemdir. Ekki dvína grunsemdirnar sé rýnt í súluritið hér fyrir ofan. Þvert á móti. Sjö aðrir flokkar mælast með svipað fylgi og hjá Gallup og nokkuð nálægt úrslitum kosninganna. Fylgi fjögurra annarra er út í hött. Skrýtið. 

Þeir eru til sem halda því fram fullum fetum að fiktað hafi verið í niðurstöðum könnunarinnar. Annars vegar til að hygla Samfylkingunni og Pírötum og hins vegar gera lítið úr Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum í þeirri von að hægt sé að hafa áhrif á kjósendur.

Eftir kosningarnar eru hrópandi grunsemdir um skoðanakönnunina. Fréttablaðið verður að svara fyrir hana á sannfærandi hátt. Ella missi blaðið allan trúverðugleika.


Faglegur eða ófaglegur bæjarstjóri

Þá segir Sandra Sigurðardóttir, oddviti OH, það vera forgangsmál að nýr bæjarstjóri verði ráðinn til starfa á faglegum grunni ...

Svo segir stjórnmálamaður í Hveragerði sem fagnar sigri í kosningunum í viðtali við Morgunblað dagsins á blaðsíðu tíu.

Hvað er eiginlega átt við með orðalaginu „faglegur“ bæjarstjóri. Má vera að með því sé átti við að bæjarstjórinn sé ekki stjórnmálamaður, kemur ekki af listum þeirra sem ætla að mynda meirihluta.

Ef til vill er þetta sé mælt af einlægni og sé stefnt gegn því að ráða pólitískan stjórnanda sem hljóti að vera voðalega slæmt. Svona tal gengur hins vegar ekki upp því stjórnmálamaður getur verið ágætur stjórnandi rétt eins og sá faglegi geti verið alveg ómögulegur - og öfugt. Eftir sveitastjórnarkosningarnar 14. maí 2022 er ljóst að fult af „ófaglegum“ og „faglegum“ bæjar- og sveitastjórum verði ráðnir til starfa. Hér eru örfá dæmi:

Í Ísafjarðarbæ verður kona „ófaglegur“ bæjarstjóri, það er stjórnmálamaður sem var í framboði. 

Á Akranesi verður bæjarstjórinn „faglegur“, hann var ekki í framboði og hefur verið bæjarstjóri í rúmt eitt kjörtímabil.

Á Akureyri mun bæjarstjórinn líklega gegna embættinu áfram. Hann er „faglegur“ þó flokksbundinn sé, en hann var ekki í framboði.

Í Vestmannaeyjum verður líklega sami bæjarstjóri áfram. Hann er „ófaglegur“, var í framboði.

Endalaust má velta þessu fyrir sér en líklega komast margir í klípu vegna orðalagsins „faglegur“ bæjarstjóri af þeirri einföldu ástæðu að sami flokkur eða aðrir í stjórnmálum sjá ekkert athugavert við „ófaglegan“ bæjarstjóra. Varla er merking orðalagsins „faglegur“ bæjarstjóri valkvætt.

Jú, „faglegur“ er ábyggilega fínt orð þegar nýr meirihluti getur ekki komið sér saman hver í honum eigi að fá embættið.

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband