Laugardalslaugin óhreina

Pottur í LaugardalslaugMynd af potti í Laugadalslaug, óhreinustu laug landsins, vakti athygli mína á mbl.is. Ég þekki hana vel, hef komið þangað nærri því frá barnæsku. Aldrei nokkurn tímann hefur hún verið í jafn slæmu ástandi og nú.

Árlega segjast borgaryfirvöld ætla að láta lagfæra hana en ekkert gerist enda bara „laugardalslygi“. Laugin heldur áfram að grotna niður og óhreinindin eru áberandi.

Ég hef merkt við örfá atriði á meðfylgjandi mynd og þau eiga við alla pottanna. 

  1. Handriðin í kringum alla potta eru kolryðguð, sums staðar komið gat í gegn.
  2. Ryðblettir eru víða og ryðtaumar leka frá þeim.
  3. Málningin hefur víða máðst af og sjaldan er bætt úr því.
  4. Tröppurnar eru skítugar, sérstaklega til hliðar. Svo mikill var skíturinn að fyrir þremur árum höfðu plöntur skotið rótum þarna, sjá mynd.
  5. Takið eftir bökkunum; köld steinsteypa, óslétt og andstyggileg

Screenshot 2022-12-14 at 17.46.14Á myndinni eru ekki handföngin sem fest eru við handritið allan hringinn í einum eða tveimur pottum. Tilgangurinn er óljós. Þau eru drulluskítug, hafa aldrei verið þrifin og ugglaust má finna á þeim lífsýni frá þúsundum manna. Geðslegt eða hitt þó heldur.

„Það hefur verið sagt mér“ af ólygnum „aðila“ að þegar sundlaugin var opnuð árið 1968 hafi nokkur tonn af ódýru salti verið keypt úr skipi sem strandaði á Suðurnesjum. Enn er nóg til af því og mikið notað á bakka laugarinnar í frosti. Það er gróft en gallinn er bara sá að fæstir sundlaugagestir geta gengið á því, flestir verða blóðrisa á iljunum. Saltið er þó fullgott í lýðinn þó það hafi upprunalega átt að fara á Holtavörðuheiði í frosthörkum.

Sjálf sundlaugin er ónýtt vegna leka sem hér er nú aukaatriði, verra er með sóðaskapinn í niðurföllunum sem eru í bökkunum, hringinn í kringum hana. Pétur nokkur sundlaugagestur sagðist í óspurðum fréttum hafa hrækt í niðurfallið fyrir fimm árum og enn sæist hrákurinn, væri bara grænni en forðum, birki hafi skotið rótum í honum og muni bruma í vor.

Gróðurinn í Laugardalslaug er gróskumikill og hefur áhrif. Gestir státa sig allir af margvíslegum fótsveppum sem eru inngrónir í neglur og skinn. Hvergi á landinu eru álíka gróðurfar að finna enda þrifin víðast miklu meiri. Gestirnir eru þannig stórkostleg tekjulind fyrir lækna og apótek og laugin á stóran þátt í þróttmiklu efnahagslífi landsins.

Líklega er það rétt fullyrðing að það sem ekki drepur mann herðir mann. Í Laugardalslauginni má eflaust finna mesta landsins mesta úrval af sýklum og lífssýnum fyrir utan veggi Íslenskrar erfðagreiningar. Vera má að þar megi finna merki um alla sjúkdóma sem grasserað hafa síðustu fimmtíu árin. Það er nú allnokkuð fyrir læknavísindin og án efa ætti að friða laugina og nýta í rannsóknarskyni fyrir allt mannkyn. Mæli með heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna en á henni eru nefnilega meira en þúsund menningar- og náttúruminjastaðir um allan heim þeirra á meðal Þingvellir.

IMG_2116Ég hef nú lagt af heimsóknir í Laugardalslaug, því miður. Sakna hennar dálítið en sérstaklega þaulsetnum pottafélögum, afbragðs fólki, fróðu og skemmtilegu. Jafnvel þeirra sem iðulega leggja mig í einelti fyrir það eitt að vera Sjálfstæðismaður. Það er bara gaman nema þegar einn ætlaði að berja mig í sturtunni fyrir að kunna afskaplega vel við Davíð Oddson. Ég slapp en hef gengið til síðan til sálfræðings, þess hins sama og mistókst að sætta Pírata. Honum hefur ekki heldur tekist vel með mig. 

Ekki veit ég hvenær ég fer aftur í Laugardalslaugina. Að vísu eru jólin að koma og líklega verður maður neyddur til að baða sig. Sé ekki hvernig ég kemst hjá sápuþvotti. Kannski að maður druslist í laugina einhvern froskaldan veðurdag.

Nei, ég fer ekki í aðrar laugar. Nema kannski Vesturbæjarlaugina, eða Árbæjarlaug, eða Seljavallalaug. Sú síðastnefnda er hreinni en Laugardalslaugin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Það grotnar allt niður þar sem Kommúnismi og/eða Marxismi yfirtekur vitund fólks. Listin yfir hrörnun hérlendis og annarsstaðar á Vesturlöndum er yfirþyrmandi.

Guðjón E. Hreinberg, 15.12.2022 kl. 13:05

2 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Seljavallalaug hreinni en Laugardalslaug :)

Heimir Lárusson Fjeldsted, 15.12.2022 kl. 19:05

3 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Það er þó til eitthvað sem er verra en sundlaugar

Reykjavíkur. Það er Ráðhúsið við tjörnina.

Allir sem þangað fara inn, smitast af einhverri

ólæknandi veiru, sem hefur þau áhrif á viðkomandi

að verða sama um allt og alla og fylgja í blindni

höfuðveirunni án þess að vita til hvers.

Sundlaugarnar meiga þó eiga það, að maður getur

skolað af sér skítnum eftir ferð í laug eða pott.

Öðru gegnir með ráðhúsið. Sá skítur situr á

þér ævilangt.

Sigurður Kristján Hjaltested, 16.12.2022 kl. 00:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband