Skoðanakönnun hjálpar svaranda að mislíka mjög - eða hata

Hægt er að klúðra heilli skoðanakönnun með því að leggja svarendum orð í munn. Auðvita á að varast það. Fjölmiðlanefnd lét fyrir stuttu gera könnun sem um margt er vafasöm. Niðurstöður hennar er auðveldlega hægt að draga í efa.

Hér er ein spurningin:

Er einhver hópur sem þér mislíkar mjög?

Sárasaklaus. Ætti ég að svara henni hefði ég einfaldlega sagt nei, mér mislíkar ekki mikið við neina hópa. Auðvitað kann að vera að manni sé í nöp við það sem einstaka hópar eða fólk sem tengt er hópum lætur frá sér fara. Þannig held ég að flestum sé farið. 

Hins vegar er afar líklegt að svar margra myndi breytast ef spurt væri á þennan hátt:

Hér fylgir listi með ólíkum hópum í samfélaginu sem fólk getur haft mismunandi skoðanir á. Er einhver hópur sem þér mislíkar mjög?

HóparÞetta er það sem borið var fram fyrir svarendur. Listinn sem fylgir breytir öllu, gefur hverjum manni byr í seglin. Boðið er upp á hlaðborð af hópum sem maður getur látið sér líka illa við og það á stundinni, nær umhugsunarlaust. Sjá meðfylgjandi töflu.

Hvers vegna? Einfaldlega vegna skyldurækni. Ég er spurður og sjálfsagt er að svara. Í fermingarveislunni er það sjálfsögð kurteisi að bragða á öllum sortum, jafnvel þeim sem manni líst ekkert á.

Skyndilega er sá sem ekki mislíkaði við nokkurn mann orðinn fúll út í allt og alla. Hann rámar í fjölmiðlafréttir, „vonda fólkið“. Þegar hann sér alla listann yfir hópanna, hlaðborðið sjálft, man hann hver skylda hans er; að svara ítarlega, samkvæmt fréttum fjölmiðla. „Hakaðu við alla sem þú vilt“, og svarandinn gerir það svikalaust.

Hvað merkir sögnin að mislíka? Í almennu máli getur það merkt að gremjast vegna einhvers eða falla eitthvað illa svo vitnað sé í orðabókina. En, svo bætist hitt við; áhersluorðið mjög og „mislíkunin“ fer að nálgast gildishlaðna orðið að hata. Svarandinn gerir ef til vill ekki greinarmun á að mislíka og hata því hlaðborðið breytir öllu.

Gjörbreyting verður á merkingu orðalagsins „mislíka mjög“ þegar á eftir fara nöfn hópa sem nefndir eru í könnuninni.

Hversu skammt er í að sá sem „mislíkar mjög“ við Gyðinga, Pólverja, múslima hati þá. Merkir við til að segja eitthvað: „Jú, ég hata Ísraela sem fara illa með Palestínumenn.“ Ekki eru allir Gyðingar Ísraelar, skiptir það engu máli?

Jú, ég hata femínista, ég hata múslima, íhaldsmenn, kapítalista. vopnasafnara, loftlagsafneitara, transfólk, lögguna, alþingismenn ...

Svona könnun er furðuleg. Líkist ansi mikið svokölluðum „smellufréttum“ veffjölmiðla sem búa til vafasamar fyrirsagnir til þess eins að plata fólk til að opna fréttina.

Skoðanakönnunin býður upp á ótal viðtöl við fulltrúa þess sem framkvæmdi hana. Þá myndast vandlætingin: Guð minn góður! Hvað er að gerast? Þvílíkar öfgar. Erum við svona miklu verri en Svíar sem er samanburðarþjóð í könnuninni. Könnunin er fullkomin rétt eins og smellufrétt.

„Hvers vegna er þér illa við veganista, geturðu rökstutt svarið?“ „Ha, hvað? Nei, sko, mér finnst bara asnalegt að fólk borði ekki kjöt.“

„Af hverju mislíkar þér mjög við rómafólk, geturðu rökstutt svarið?“

„Hvers vegna er þér svona uppsigað við marga hópa?“

Eflaust verður fátt um svör þegar gengið er á fólkið sem svaraði þessari spurningu. 

Aðalatriðið er það sem nefnt var i upphafi. Mislíki þér mjög við einhverja hóp nefndu þá. Ég skora á þig.

Sá sem býr til skoðanakönnun á ekki að hjálpa svarandanum og mynda sér skoðun.

Hefði enginn listi fylgt spurningunni segir mér svo hugur um að niðurstaðan hefði ekki orðið fréttnæm. En það var ekki tilgangurinn.

Smellufréttin er aðalatriðið. Og blaðamannastéttin gleypti við þessu, gagnrýnislaust.

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Stór galli á svarmöguleika:

    • Andstæðingar bólusetninga.

    Hvaða bólusetninga? Hér er enginn greinarmunur gerður.

    Það er t.d. himinn og haf á milli heilbrigðrar tortryggni gagnvart hraðsoðnum tilraunalyfjum sem hefur svo komið í ljós að séu gagnslaus, samanborið við andstöðu við allar bólusetningar hvaða nafni sem þær nefnast þ.m.t. hefðbundnar bólusetningar við algengum barnasjúkdómum sem hafa á löngum tíma sannað gildi sitt. Óhætt er að fullyrða að um tvo mjög ólíka hópa fólks sé að ræða og jafnframt að mun færri tilheyri síðarnefnda hópnum en þeim fyrrnefnda sem á erfitt með að treysta covid-sprautunum.

    Ég leyfi mér að fullyrða að svörin hefðu orðið önnur ef þessir svarmöguleikar hefðu verið settir fram:

      • Andstæðingar bólusetninga af hvaða tagi sem er.

      • Fólk með efasemdir um notkun mRNA sprautulyfja.

      Svona getur orðalag haft áhrif á merkingu og útkomu.

      Svo vantaði ótal marga svarmöguleika. Þeim sem líkar illa við embættismenn sem í krafti stöðu sinnar halda mikilvægum upplýsingum leyndum fyrir almenningi virðist til dæmis ekki hafa gefist kostur á að tjá þá skoðun sína.

      Guðmundur Ásgeirsson, 18.2.2023 kl. 14:14

      2 Smámynd: Sigurður Sigurðarson

      Aðalatriðið er að ekki ætti að gefa upp svarmöguleika. Svarandinn á að nefna hóp sem honum „mislíkar mjög“ við. Skekkjan fellst í því að gefa svarandanum möguleika í stað þess að hann nefni sjálfur þann hóp sem hann „mislíkar mikið“ við.

      Svo má endalaust deila um svarmöguleikana. Þetta er skoðanakönnun sem byggir á því sama og „smellufréttir“ gera. Tilgangurinn er enginn.

      Sigurður Sigurðarson, 18.2.2023 kl. 14:37

      3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

      Þeir fiska sem veiða.

      Guðmundur Ásgeirsson, 18.2.2023 kl. 14:45

      4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

      um daginn var skoðanakönnun þar sem spurt var: Vilt þú láta virkja meira?

      Auðvitað var mikill meirihluti með því að virkjað væri meira, en spurningin var ónýt af því að ekki var spurt hve langt ætti að ganga í þeim efnum. Könnunin var gerð þegar sérstök opinber nefnd um orkumál lagði það til sem eina af sviðsmyndum sínum að tvöfalda orkuframleiðslu okkar. 

      Og auðvitað lögðu flestir fjölmiðlar út af könnuninni á þann hátt að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar vildi það.  

      Alveg eins hefði verið hægt að spyrja: Ertu með eða á móti rafmagni?

      Ómar Ragnarsson, 18.2.2023 kl. 16:16

      5 Smámynd: Sigurður Sigurðarson

      Sammála, Ómar, eins og svo oft áður. Þetta er svipað og Guðmundur nefnir. Það sem er í boði á hlaðborði spurningavagnsins er oft grunnt, yfirborðið er gárað. Svarið ómarktækt.

      Sigurður Sigurðarson, 18.2.2023 kl. 17:06

      Bæta við athugasemd

      Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

      Innskráning

      Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

      Hafðu samband