Löggukylfa eða rafbyssa

Screenshot 2023-01-25 at 20.28.11Á tveimur námsárum mínum starfaði ég sem lögregluþjónn í Reykjavík. Í upphafi var mér afhentur einkennisbúningur, lítil minnisbók, blýantur og svo handjárn og kylfa. Mikil og gerðarleg kylfa. Hvað átti að gera við hið hana? Jú, berja á ógæfufólki sem var til vandræða. Ég notaði hana aldrei en skoðaði oft og ræddi við samstarfsmenn mína sem sögðu mér sögur um notkun hennar við ákveðnar aðstæður. Fæstir sögðust nota hana og sögðu að fortölur höfðu miklu betri áhrif á fólk en barsmíðar. Því átti ég eftir að kynnast.

Kylfan var samt flott, svona skínandi og næstum falleg. Féll vel í hendi, var með áfastri leðuról sem smeygt var upp á úlnliðinn svo hún myndi ekki tapast rynni hún úr greipinni. Dálítið „töff“ leikfang. Innan á einkennisbuxurnar var saumaður vasi eða hólf fyrir kylfuna. Það var nú meiri óskapnaðurinn því afskaplega óþægilegt var að hafa hana þar svo ég sleppti því, þóttist hafa gleymt henni væri ég spurður.

Lögreglumenn eru ekkert öðru vísi en annað fólk og eflaust hafa margir notað kylfu sína í vörn gegn drukknu og árásargjörnu fólki og jafnvel meitt einhverja. Aldrei heyrði ég samt af misnotkun eða lögga hefði slasað fólk með kylfu. Man eftir því að við nýliðarnir fengum lítilsháttar kennslu í notkun bareflisins. Aldrei slá í höfuð, var sagt, aðeins í síðu fólks, handleggi eða fótleggi. Ég sá það fyrir mér að nokkuð erfitt væri í hamagangi og látum að miða og hitta á rétta líkamsparta. Maður yrði líklega laminn í kæfu áður en maður gæti beitt kylfunni.

Í eina skiptið sem ég taldi mig hafa þurft kylfu var þegar við handtókum þýska bankaræningjann. Eftir stutt hlaup náðum við manninum, handjárnuðum hann og settum aftan í lögreglubílinn. Mér, nýliðanum, var skipað að fara inn með honum og hafa á honum gætur. Hinir þrír félagar mínir settust frammí. Ég hlýddi, settist á bekkinn á móti glæponinum, til alls búinn. Ímyndaði mér að hann gæti tekið upp á alls kyns óskunda eins og að fara úr handjárnunum og yfirgefa bílinn á fljúgandi ferð niður á Hverfisgötu. Með kylfu hefði ég ábyggilega geta barið úr honum alla óþekkt en hana var ég bara ekki með frekar en fyrr daginn. Maðurinn var hins vegar ljúfur og góður alla leið inn í fangaklefa, „fangageymslu“ eins og það heitir víst núna.

Nú er mikið talað um rafbyssur. Þær þekktust ekki þessi tvö sumir mín í lögreglunni. Ekki heldur piparúði eða annar búnaður sem nota má til að ráða niðurlögum æsingamanna. Nokkuð hef ég lesið mér til um rafbyssur og er þess fullviss að ekki sé hægt að bera þær saman við kylfur sem eru stórhættulegar, geta valdið slæmum meiðslum, jafnvel varanlegum skaða. Notkun rafbyssu hefur ekki sömu afleiðingar.

Ætti ég að velja myndi ég veðja á rafbyssuna. Hún veldur aðeins stundaróþægindum, ekki marblettum, beinbroti eða kúlu á höfði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband