Snæfellsjökull rýrnar og rýrnar

930612-14

Myndin sem Haraldur Sigurðsson, eldjallafræðingur, tók af hæstu þúfunni á Snæfellsjökli er stórkostleg. Ég hef aldrei séð hana svona „nakta“, hef þó margoft gengið á Jökullinn.

Hér er mynd sem raunar er af pistilhöfundi og er tekin um miðjan júní 1993. Þarna má sjá „glugga“ á Þúfunni. Vísbending þess sem koma skyldi.

Í byrjun tíunda áratugs síðustu aldar var ég oft fararstjóri hjá Útivist í ferðum undir Jökul og við gengum oft upp. Í fyrstu ferðunum gat maður sett á sig gönguskíðin við þjóðveginn og gengið upp. Stundum fékk maður Tryggva Konráðsson, sem þá rak ferðir upp á Jökul undir nafninu Snjófell, til að koma með svigskíðin upp í ferðum sínum á snjótroðaranum. Þá fékk maður dúndurrennsli upp á nærri því tíu kílómetra.

Smám saman styttist þó rennslið. Tryggvi setti upp skíðalyftu undir Þríhyrningi. Lyfturnar komu úr Hveradölum við Hellisheiði. Skíðasvæðið entist ekki lengi því sífellt dró úr ákömu á jökulinn og alltaf hitnaði meira í veðri.

Núna er jökullinn krosssprunginn og erfitt að fara upp á hann nema um miðjan vetur.

Þessi saga af Snæfellsjökli minnir mig á eitt skiptið er ég kom á Grímsfjall í júlí 1991 eftir göngu frá Kverkfjöllum og var ferðinni heitið í Skaftafell. Held að annað hvort hafi verið lítil ákoma á jökulinn eða sumarið einstaklega heitt. Þá var enginn snjór í kringum skála Jöklarannsóknarfélgsins og fundum við ýmsar „minjar“ um leiðangra á fjallið undanfarna áratugi. Jafnvel flöskur undan gosdrykknum Miranda sem ekki hafði verið framleitt í tuttug eða þrjátíu ár og gamlar Pepsíflöskur. Ógetið skal um mannlegan úrgang sem eigendur héldu ábyggilega að væri vel geymdur í jöklinum næstu mannsaldra.  

Ætlaði hér að birta nokkrar myndir af Snæfellsjökli sem ég hef tekið undafarna áratugi en kom bara einni inn, af hverju, veit ég ekki. 


mbl.is Þúfan í jöklinum er íslaus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðareglur borgarinnar brotnar

Ég er í vinnunni frá 9 til 5 og þegar ég kem heim þá er ég ekki kjörinn fulltrúi.“
 
Þetta sagði Einar Örn Benediktsson, borgarfulltrúi Besta flokksins og formaður menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkurborgar í viðtali við Morgunblaðið í byrjun júní á þessu ári. Kenndi nokkurn þótta í þessum orðum hans. Honum þótti fjölmiðlar óþarflega hnýsnir eftir að hann þáði ferð til Parísar á vegum WOW air.
 
Auðvitað gleymdi Einar Örn, viljandi eða óviljandi, þeirri einföldu staðreynd að til eru siðareglur fyrir borgarfulltrúa. Hann tók meira að segja sjálfur þátt í að samþykkja þær. Borgarstjórinn, Jón Kristinsson, sá ekkert að því að Einar léki þarna tveimur skjöldum af því að þeir eru vinir ...
 
Ef til vill hefðum við Reykvíkingar talið að málinu væri þar með lokið. Fjölmiðlar nenntu ekki að eltast við Einar eða Jón. Þó er ég viss um að hefði borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins orðið á sömu „mistök“ hefði verið pönkast í honum út yfir gröf og dauða og málið aldrei gleymt.
 
Svo gerist það núna fyrir stuttu, skv. dv.is, að Sverrir Bollason, varamaður Samfylkingarinnar í skipulags- og byggingasviði Reykjavíkurborgar, samþykkti í þessari nefnd að láta kanna þörf á gistirými í borginni fram til ársins 2030. Verkfræðistofan VSÓ-ráðgjöf var valin til þessa verks en Sverrir þessi er starfsmaður hennar.
 
Þetta heitir að sitja beggja vegna borðsins. Sverrir nánast pantaði að fá að vinna verkefnið, fékk það samþykkt í nefndinni og fékk síðan óbeint laun fyrir að vinna skýrsluna frá borginni. 
 
Nú geri ég fastlega ráð fyrir að stjórnendur VSÓ viti af pólitískum störfum Sverris Bollasonar. Með því að hleypa honum að skýrslugerð um gistirými er fyrirtækið komið á bólakaf í meinta pólitíska misbeitingum valds. Það gengur alls ekki og bendir eindregið til að þessu virðulega fyrirtæki hafi orðið á gríðarleg mistök. 
 
Um leið sýndi Sverrir Bollason af sér mikla pólitíska heimsku að halda það að hann gæti komist upp með að standa beggja vegna borðsins. Þegar hann hafði samþykkt verkefnið hefði hann átt að tilkynna yfirmönnum sínum að hann gæti ekki komið að verkefninu. Það gerði hann ekki. Né heldur höfðu yfirmenn hans skilning á stöðu fyrirtækisins gagnvart borginni og Samfylkingunni. Sá dómgreindarbrestur er yfirgengilegur.
 
Heimskuleg viðbrögð Einars Arnar Benediktssonar og skynsemisskortur Sverris Bollasonar sýna svo ekki verður um villtst að þeir eru ekki hæfir sem fulltrúar almennings í borgarstjórn og nefndum. Þeir eiga báðir að segja af sér. Svo má í góðu tómi kanna hvort að samflokksmenn þessara tveggja hafi ekki vitað af brotum þeirra á siðareglum borgarinnar en látið sér það í léttu rúmi liggja. 
 
Kjörnir fulltrúar hafa ávallt í heiðri grundvallarreglur góðrar stjórnsýslu í störfum sínum, þ.m.t. gagnsæja og upplýsta ákvarðanatöku, og framkvæma ekkert það sem er til þess fallið að vekja grunsemdir um að annað en lögmæt og málefnaleg sjónarmið ráði för við stjórn Reykjavíkurborgar. [úr 2. gr. siðareglna kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg]
 
Kjörnir fulltrúar nýta sér ekki stöðu sína í þágu einkahagsmuna sinna eða annarra sem eru þeim tengdir, hvort sem ávinningur af slíku kemur fram strax eða síðar, þ.m.t. eftir að störfum fyrir
Reykjavíkurborg lýkur. [úr 4. gr. siðareglna kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg]

Harpan styrkt um 3 millur á dag

Ástæða er til að vekja athygli á stuttorðum pistli Vefþjóðviljans um þann undarlegan rekstur sem er í húsi því sem nefnist Harpan.

Í morgun var því slegið upp á forsíðu Fréttablaðsins að helmingur tekna útrásarhallarinnar fari í gjöld til Reykjavíkurborgar. 

Harpan fær um 3 milljónir á dag í styrk frá skattgreiðendum. Það virðist hafa farið framhjá stjórnarformanninum og einnig Fréttablaðinu.

Pétur J. Eiríksson stjórnarformaður eignarhaldsfélags Hörpunnar segir:

Við ráðum ekki við þetta. Við erum með tvær milljónir króna í tekjur á dag og borgum eina milljón í fasteignagjöld á dag. Enginn rekstur á Íslandi ræður við þetta.

Er það virkilega?

Hvað með þessar þrjár milljónir sem Harpan fær daglega í styrk frá skattgreiðendum?

Hvernig getur dagblað látið nota sig svona?

Hvernig er hægt vera fjölmiðilll og vita ekki að auk annarra rekstrartekna fær útrásarhöllin þúsund milljónir á ári frá ríki og borg? 

Á meðan vantar fjármagn til að kaupa tæki í sjúkrastofnanir svo aðeins eitt dæmi sé tekið.

Ég spái því að niðurstaða viðræðna Jón Kristinssonar og Katrína Jakobsdóttur, menningarmálaráðherra, verði sú að leiga Symfóníuhljómsveitarinnar verði hækkuð sem nemur fasteignagjöldunum og allir una eftir það glaðir við sitt. Nema kannski starfsfólk Landspítalans-háskólasjúkrahúss ...

 


Enn er sumar, langt í haustið

Í fyrirsögn fréttarinnar felst dálítil alhæfing. Norðurland er stórt og eiginlega ekki sama hvar borið er niður hvað veðurlag varðar, svo ólíkir eru staðirnir. Og jafnvel þó snjói í fjöll, þýðir það ekki að haustið sé komið.

Raunar leiðist mér afskaplega haustáróðurinn í fjölmiðlum þegar komið er fram í ágúst. Vissulega er haustið á næsta leyti, það vita allir og engin þörf á áminningum. Hitt gera færri og færri sér grein fyrir að veðurlag á landinu er óvíst, allan ársins hring. Á miðju sumri getur snjóað eins og dæmin sanna. Þá er vissulega „haustlegt“ um að litast.

Svo rammt hvað nú að haustáróðrinum í fjölmiðlum fyrir nokkrum árum að almennum lesendum blöskraði og töluðu um að nú haustaði snemma það vorið. Eða ef til vill var þetta orðalag um eitthvað allt annað.

Ég ólst nú upp við að september tilheyrði sumrinu og þannig er það enn í huga mínum. Fyrir þá sem unna gönguferðum og ferðalögum er margt hægt að gera, raunar fram eftir öllu hausti. Kíkið bara á ferðaáætlanir ferðafélaganna. 


mbl.is Haustlegt um að litast norðanlands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einhver að kúka ...

Nei, nei, nei. Gunnar og Fannar „minn“ mega ekki hætta. Það er ósanngjarnt. Fimm leikir eftir í Pepsí deildinni og þessir prúðu drengir hættir. Hvernig á maður að átta sig á stöðunni þegar þeir eru farnir. Og hvað verður um sixpensarann ...?

Véfrétt, einhver að kúka ... þetta verður aldrei toppað. 


mbl.is Gunnar kveður völlinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna er VG margklofinn flokkur?

Vinstrihreyfingin – grænt framboð hélt tvo flokksráðsfundi um helgina. Annar þeirra var haldin á Hólum í Hjaltadal.  Þann fund sat ég. [...]
Ég veit ekki hvar hinn fundurinn var haldinn en af honum eru sagðar þær fréttir að þar hafi komið fram stigvaxandi óánægja með flokksmanna sem gæti jafnvel leitt til stjórnarslita. Engar slíkar ályktanir hafa enn birst frá þessum fundi mér vitanlega.
 
Björn Valur Gíslason, formaður þingflokks Vinstri grænna  ritar ofangreint á bloggið sitt og skilur ekkert í að fylgið við flokk hans skuli minnka og fyrrum flokkmenn og núverandi gagnrýni hann og aðra í forystumenn flokksins. Á Hólum samþykkti flokksráðið allt með sovéskri fyrirmynd. allir klöppuðu fyrir forystunni. Flokkurinn ítrekaði meira segja andstöðu sína við stefnu ríkistjórnarinnar í ESB málinu.
 
Í síðustu þingkosningum fékk VG 14 þingmenn. Af þeim mættu þessir ekki á flokksráðsfundinn á Hólum. 
  • Jón Bjarnason, þingmaður VG.
  • Atli Gíslason ... úbbs hann er farinn úr flokknum
  • Lilja Mósesdóttir ... úbbs, hún er farin úr flokknum
  • Ásmundur Daðason ... úbbs, hann er farinn úr flokknum
  • Þráinn Bertelsson, nei hvað gerðist, hann er kominn í flokkinn en var ekki í skapi til að mæta á flokksráðsfundinn
Þingstyrkur Vinstri grænna er nú 11 þingmenn, væri 10 ef Þráinn hefði einhverja samstarfshæfileika í stjórnmálum, þá væri hann enn í Borgarahreyfingunni.
 
Hvernig skyldi nú standa á klofningi í Vinstri grænum? 
 
Þrír þingmenn eru farnir úr VG og að minnsta kosti einn er kominn á hliðarlínuna. Þetta ber auðvitað því glöggt vitni hvernig samstarfið er innan flokksins að þeir sem hafa hrökklast í burtu séu nærri -því jafnmargir og þingmennirnir sem flokkurinn fékk í kosningunum 2003, þeir voru fimm.
 
Nei, engar ályktanir hafa komið frá hinum fundinum sem Björn Valur segir frá. Hann gleymir þó að minnast á Vinstrivaktina gegn ESB, sem Ragnar Arnalds, fyrrum þingmaður og ráðherra Alþýðubandalagsins heldur út af miklum dugnaði og gagnrýnir aðlögunarviðræðurnar harðlega. 
 
Björn Valur nefnir ekki einu sinni Hjörleif Guttormsson á nafn, var hann þó þingmaður og ráðherra fyrir Alþýðubandalagið, en hann hefur gagnrýnt harðlega svik flokksforystu Vinstri grænna vegna aðlögunarviðræðnanna við ESB.
 
Allt þetta myndi mér í léttu rúmi liggja ef ekki væri vegna þess að VG og Samfylkingin hafa fyrir hönd íslensku þjóðarinnar beinlínis logið því að Brusselvaldinu að Íslendingar vilji ganga í ESB.
 

mbl.is Bjarni og Jón mættu ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimskuleg ummæli Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur

Ein furðulegasta grein sem ég las um helgina fann ég í Fréttablaðinu. Þar ritar Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, háskólalektor.

Forsaga málsins skiptir eiginlega litlu, en þó má geta þess að Sigurbjörg þessi telur sig vera að svara gagnrýni Ólafs Stephensen, ritstjóra Fréttablaðsins, sem vísar í fyrri orð Sigurbjargar um fyrrum forstjóra Fjármálaeftirlitsins.

Í lok greinar sinnar verður Sigurbjörgu þetta að orði:

Að því tilefni tel ég rétt að gera grein fyrir því að störf háskólakennarans sem hér skrifar eru fjármögnuð af almannafé, úr ríkissjóði. Í máli hans felst gagnrýni á stjórnvöld úr hvers sjóðum hann þiggur sín laun. Störf ritstjórans sem tekur til varnar fyrir fulltrúa stjórnvalda eru fjármögnuð af aðilum á markaði. Það út af fyrir sig er umhugsunarvert.

Þetta eru dálítið ruglingsleg samsetning og að auki illa skrifuð. Hins vegar kemst maður ekki hjá því að reyna að grísa á merkinguna og hvað það er sem sé „umhugsunarvert“.

Ég skil ofangreint á þann hátt að Sigurbjörg telji að nafn launagreiðanda skipti öllu máli um trúverðugleika málflytjanda. Þiggi hann laun frá ríkinu ætti allt að vera í lagi. Hins vegar þurfi að skoða vandlega hver sé launagreiðandinn áður en hægt er að skera úr um hversu vel er hægt að trúa þeim sem orðið hefur.

Þessi orð konunnar eru heimskuleg. Tómt bull. Munum að hlusta á röksemdafærslu fólks. Látum rökin tala, ekki útlit, starf eða fyrri störf.

Pólitísk umræða í dag hefur verið gengisfelld af fólki eins og Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur, sem hlustar ekki heldur tekur afstöðu vegna útlits, starfs eða annara hluta sem engu skipir. Þetta er þvílík fjarstæða að ekki tekur nokkru tali.  


Hættum að ganga á Þverfellshorn

DSCN4517

Esjan er eitt fallegasta fjall landsins og stórkostlegt til útivistar. Hins vegar má fólk ekki gleyma því að gönguleiðin upp á Þverfellshorn er ekki sú eina. Hún er að vístu gríðarlega vinsæl og stendur undir því. Engu að síður eru margar fleiri og jafnvel skemmtilegri leiðir á Esju.

Ferðafélagið hefur eiginlega eignað sér gönguleiðina á Þverfellshorn. Þar hefur félagið raðað upp frekar lítt merkilegum skiltum sem segja í sjálfu sér enga sögu né eru leiðbeinandi.

Skrýtnaðasta skilti sem ég hef séð er það sem hér birtist mynd af og er við klettabeltið. Þar stendur meðal annars „Umferð á eigin áhættu“.

Hvað er verið að segja þarna? Að umferðin fyrir neðan skiltið hafi verið á ábyrgð Ferðafélagsins? Nei, þetta er bara vanhugsað skilti sem hefur engan annan tilgang en að auglýsa Ferðafélagið. Esjan er ekki vettvangur fyrir slíkt.

Svo er það annað mál hver sé ábyrgð ferðafélags eins og FÍ. Er það forsvaranlegt að beina öllum kröftum að því að koma sem flestum göngumönnum á sama staðinn eða ætti félagið að reyna að vekja athygli á fleiri gönguleiðum og létta þar með álaginu á Þverfellshorn. Veitti nú ekki af. Munum að sama gerir Ferðafélagið með Laugaveginn, gönguleiðina vinsælu milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Svo virðist sem félagið kynni aðrar gönguleiðir með hangandi hendi.

Víkjum aftur að Esjunni og látum Ferðafélagið í friði. Þeim mun áreiðanlega ekki líka svona gagnrýni, jafnvel þó hún sé fram sett af vini sem vilji til vamms segja.

Ég er eiginlega hættur að fara á Þverfellshorn. Finnst of margir á þeirri leið og raunar er ég dauðhræddur við þá sjón sem þar blasir við, vanbúið göngufólk og hlauparar og ekki síður ofbýður mér átroðningurinn sem hefur sett mark sitt á fjallið þarna svo það er ekki lengur eins og það var. Það er miður.

Kerhólakambur 

DSCN5641

Gönguleiðin upp Kerhólakamb er einstaklega skemmtileg og hentar vel fyrir þá sem áhuga hafa á að koma sér í form. Hún er að mestu leyti ein löng brekka þar til að Kambnum er komið.  

Vegur liggur frá þjóðveginum upp að malarnámi austan við gilmynnið. Þar má leggja bílnum. Gljúfurá er ekki mikil og hægt að stikla hana svo hægt sé að komast að hömrunum vestan við. Auðvelt er að klifra upp þá og þar fyrir ofan er leiðin greið. Hlíðin er að vísu mjög brött en föst í sér, gróðursnauð neðst en um miðbikið er nokkur gróður.

Níphóll er í rúmlega 500 m hæð og tilvalinn áningarstaður en þaðan er þriðjungurinn eftir upp á brún. Laugagnípa heita klettarnir fyrir vestan Níphól. Tilvalið er að skoða hamrana og gljúfrin fyrir neðan sem er mögnuð sjón.

Fyrir ofan Níphól heitar Urðir og þar er brattinn ekki eins mikill. Í Ársriti Útivistar fyrir árið 1984 er að finna mjög góða grein um Esjuna eftir Einar Hauk Kristjánsson. Hann segir meðal annars að í Urðum séu þessi ker sem kamburinn er kenndur við, en þau eru lægðir á milli hóla á þessu svæði.

Efst er lítið hamrabelti sem þó er engin fyrirstaða göngufólki. Varða er þar fyrir ofan og þá er takmarkinu náð.

Lág-Esja

Gangan hefst við mynni Blikadals. Brattast er fyrst en síðan tekur við aflíðandi halli upp á Kerhólakamb. Leiðin er hins vegar nokkuð löng. Hægt er að fara af Kerhólakambi og niður að mynni Gljúfurdals og ganga þaðan undir Esjuhlíðum að mynni Blikadals þar sem bílnum var lagt. Ekki er löng leið út á Þverfellshorn.  

Einnig er hægt að ganga hringinn. Fara upp Lág-Esju, síðan fyrir botn Blikadals og loks að Dýjadalshnúk og Tindastaðafjalli og þar niður í dalinn. Þá er aðeins eftir að fara yfir Blikadalsá en hægt er að stikla hana víða eða einfafldlega að vaða hana.

Lág-Esja er frábær til göngu en eðlilega má telja léttara að ganga hana frá Þverfellshorni eða Kerhólakambi og vestur um fjallið og niður Lág Esju. 

Kistufell

DSCN1640

Þar er mín uppáhaldsleið á Esju. Ég legg bílnum skammt frá Leirvogsá við mynni Grafardals og geng síðan upp á austurhorn Kistufells. Þetta er afar skemmtileg gönguleið, alls ekki eins brött og hún virðist. Þegar upp er komið er útsýnið frábært, einstaklega fagurt til Móskarðshnúka.

Meðfylgjandi mynd er tekin á leiðinni upp og horft í austur að Móskarðshnúkum og til Skálafells. Fremst er þó Þverárkotsháls og þar um liggur leiðin á Hátind, önnur uppáhaldsleiðin mín á Esju.

Hátindur og Móskarðshnúkar

Ef til vill tilheyra Móskarðshnúkar ekki Esju en þeir eru þó tengdir henni órjúfanlegum böndum. Stórkostlegasta gönguleiðin á suðvesturhorni landsins, já, og þó víðar væri leitað, liggur á milli Esju og Móskarðshnúka. Þá er gengið t.d. upp á Móskarðshnúka og síðan sem leið liggur eftir fjallshryggnum og út á Esju.

DSCN6816

Hryggurinn er skrambi hár og þar er nær þverhnípt til beggja handa. Eftir að af honum er komið er gengið fyrir Þverárdal og síðan á Hátind. Af honum eru þrjár leiðir að velja niður. Persónulega finnst mér þægilegast að fara niður á Þverárkotsháls, en hinar tvær, sem liggja niður í Grafardal eru spennandi.

Að lokum

Hér var ekki ætlunin að fara að skrifa einhverjar leiðarlýsingar á Esju en ég féll þó í þá gryfju, eiginlega mest vegna gremju minnar yfir örlögum Þverfellshorns og þeirri skammsýni margra sem halda að það sé eina Esjan. Hún hefur fjölmörg sjónarhorn og á hana eru frábærar gönguleiðir sem lítið hefur verið sinnt af ferðafélögunum Útivist og Ferðafélagi Íslands. Þess í stað er öll áherslan lögð á Þverfellshorn. Um það hef ég bara eitt að segja: Takist ferðafélagi að gera gönguleið vinsæla á hún að leggja höfuðáherslu á að gera hana sjálfbær, snúa sér eftir það að öðrum verkefnum. Og hvert skyldi vera meginmarkmið ferðafélags: Jú, gera sjálft sig óþarft. Það gerist þó seint, alltaf koma fram nýjar kynslóðir, en eftir stendur að þær sem fyrir eru kunna betur til verka í göngum um landið.

Og til aðdáenda Esju hef ég þetta að segja: Látum Þverfellshorn eiga sig. Skoðum aðrar leiðir. Þær eru fjölmargar og hér hef ég til dæmis ekki nefnt þær sem eru úr Kjós.

 


mbl.is Tveggja tíma ganga á toppinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leitaði að sjálfum sér

Þessi litla frétt um ferðamanninn sem týndist en var þó ekki týndur heldur var alla tíð með samferðamönnum sínum minnir mann á aðra, ekki ólíka. Arnes Pálsson var maður sem uppi var á átjándu öld. Hann hafði orðið sekur um smáglæpi, stolið fiskum, sauðum og öðru smálegu.

Þetta er hinn sami Arnes og dvaldi um skeið í helli við Hvalvatn. Þar undir litlum klettahöfða um það bil kílómetra í austur frá stíflunni við suðurenda vatnsins hvar Botnsá verður til, er lítill hellir. Erfitt er að komast að honum og vart verður sá sóttur sem þar verst né heldur á hann sér nokkurrar undankomu auðið. Þarna var bæli útilegumannsins Arnesar Pálssonar sem nefndur var þjófur í samtímaskrám. Arnes er talinn fæddur á fyrri hluta 18. aldar, en dó árið 1805. 

Árni Óla, blaðamaður, gerði sögu Arnesar fræga í Frásögnum sínum. Árni segir frá því að Arnes hafi flækst um Hvalfjörð voru bændur orðnir þreyttir á honum og sauðastuldi hans en hann mun einnig hafa falist í helli í Akrafjalli. Söfnuðu menn þá liði og fóru að leita að Arnesi. 

Var ákveðinn leitardagur og mönnum skipað í leitina, og skyldu allir leitarmenn vera í hvítum sokkum, sem náðu upp á mið læri, og með hvítar húfur á höfði, svo að ekki yrði villzt á Arnesi og þeim. Við fjallsræturnar var skipað ríðandi mönnum með langar ólarsvipur, sem sveifla átti utan um Arnes, ef hann freistaði að hlaupa niður af fjallinu og út á flóana. – Sagt er, að nær áttatíu menn hafi tekið þátt í þessari leit. 

En svo sagðist Arnesi sjálfum frá, að hann hefði orðið þess var, er leitin var hafin um morguninn, og séð, hversu leitarmenn voru auðkenndir. Voru góð ráð dýr, er hann sá leitarmenn nálgast. Tók hann það til bragðs, að hann reif sundur ljósleitan skyrtugarm, sem hann átti, og vafði um höfuð sér, fletti sokkunum niður á ökla, en skar upp í buxnaskálmarnar og vöðlaði þær síðan upp á læri og batt að. Laumaðist Arnes síðan í flokk leitarmann og gekk með þeim fjallið um daginn. En þegar leið að því, að niður yrði haldið í byggð, dróst hann aftur úr, en sneri síðan við, er leiti bar á milli hans og byggðarmanna.

Og auðvitað fundu þeir ekki kauða í þetta sinn, en hann flæktist víða um land, lá úti, stal peningum og sauðfé, var dæmdur og sat inni í tugthúsinu í Reykjavík, þar sem nú er Stjórnarráðshúsið, í 26 ár. 


mbl.is Hafði ekki hugmynd að hennar væri leitað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Katrin reynir að tala sig út úr vandanum

Svik forystu Vinstri grænna eru ekki einungis bundin við stefnu sína og eigin flokksmenn heldur hafa áhrif út um allt þjóðfélagið og á stöðu Íslands meðal Evrópuríkja. Þessi leikur að samþykkja kröfu Samfylkingarinnar um aðildarviðræður að ESB var einungis gerður til að tryggja aðild að ríkisstjórn. Dýpra rista nú ekki hugsjónir og stefnumið sumra stjórnmálamanna. 

Svo reynir fólk eins og Katrín Jakobsdóttir, varaformaður VG, að tala sig út úr vandanum eða öllu heldur framhjá honum. Flokksráðsfundurinn lætur eins og enginn sé ágreiningurinn og vandamálin séu öll horfin út í veður og vind. Þá er talað um samstöðu vinstri- og félagshyggjuflokka. Gripið er til ómerkilegra frasa og neitað að horfast í augu við raunveruleikann.

Hann er sá að fylgið hrynur af Vinstri grænum, ekki aðeins vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar heldur líka vegna ESB málsins. Þó svo að andstæðingar aðildar að ESB hafi haft sig hæga á þessum flokksráðsfundi segja mína heimildir að haustið muni verða forystunni erfitt. Hvernig má annað vera þegar hún hefur svikið stefnuskrá og flokksmenn.

Þá taka við úrsagnir úr flokknum, hörð gagnrýni þeirra sem eftir sitja á forystuna. Spái því að þetta endi með því að hún hrökklist frá fyrir jól og ríkisstjórnin fellur.


mbl.is Áfram samstarf vinstrimanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VG er umbúðir utan um ráðherrastóla

Það hlýtur að vera nöturlegt fyrir stuðningsmenn Vinstri grænna að átta sig á því að forysta flokksins hefur eyðilagt hann. Forusta VG studdi aðild Íslands að ESB og taldi öðrum trú um að þjóðaratkvæði í lok viðræðna myndi væri einhvers konar öryggisventill. Þeir slepptu því hins vegar að greina frá því að þetta væru ekki aðildarviðræður heldur ferli sem hefur hingað til átt að aðlaga íslenskt stjórnkerfi, lög og reglur að því sem gildir í þessu risavaxna bákni sem ESB er.

Samfylkingin og ESB lugu að þjóðinni. Þeir hentu Jóni Bjarnasyni út úr ríkisstjórn af því að hann var svo vitlaus að segja sannleikann. Hann rekst ekki í flokki sem er á móti sjálfstæðri hugsun.

Og svo hló þetta lið allt saman að Sjálfstæðisflokknum sem vildi þjóðaratkvæðagreiðslu áður en farið væri í viðræður við ESB og þjóðatkvæðagreiðslu eftir viðræður. Í ljós hefur komið að Sjálfstæðisflokkurinn hafði rétt fyrir sér, nákvæmlega það sem Samfylkingin óttaðist. Þjóðin vill ekki í ESB. Hefði Alþingi borið gæfa til að fara að stefnu Sjálfstæðisflokksins væru aðstæður allt aðrar í stjórnmálum. Ég græta hins vegar ekki sjálfseyðingarleiðangur ríkisstjórnarflokkanna nema fyrir þá sök að þjóðin tapar.

Menn eins og Hjörleifur Guttormsson, fyrrum þingmaður og ráðherra, skilja ekkert í forystu Vinstri grænna. Hann segir í grein í Morgunblaðinu í morgun:

Hvers konar skilaboð eru það til ungra Íslendinga að stjórnmálaflokkur eins og VG sé á kafi í aðildarviðræðum við ESB þvert gegn boðaðri stefnu? Tilraun VG-forystunnar til að skýra fráhvarf frá eigin stefnumiðum fólst í því að þjóðin ætti að lokum að ráða niðurstöðu og VG þannig að gerast einskonar viljalaus ferja í aðildarferli. Stjórnskipulega var sú hugsun rökleysa frá upphafi og inn á við fól hún í sér skilaboð þess efnis að flokkurinn væri aðeins umbúðir utan um ráðherrastóla. Þessi aðferðafræði hefur orðið VG dýrkeypt og vonlaust er að tjalda henni til í aðdraganda kosninga.

Vinstri grænir ríða nú að Hólum og halda flokksráðsfund. Þeir héldu einn slíkan í fyrra líka. Fyrir þessa fundi voru flokksmenn með hávaða og læti, rétt eins og núna, en þegar á fundinn sjálfan er komið þegja þeir og gefa forystu flokksins lausan tauminn. 

Ég þori að veðja atvinnuleysisbótunum mínum að ekkert mun gerast á flokksráðsfundi Vinstri grænna á Hólum. Jú, kannski stendur einn og einn upp og reynir að rífa sig en í lokin munu fundarmenn standa saman í flokki sínum sem er ekkert annað en „viljalaus ferja í aðildarferli.“ eins og Hjörleifur segir réttilega. 


Hver ákvað að Húsavík væri ferðamannastaður?

Í sjálfu sér er áhugavert að lesa um viðhorf Elínar Sigurðardótturk, framkvæmdastjóra Íslenskra fjallaleiðsögumanna, um ferðaþjónustu á Íslandi. Vandinn er þó miklu meiri en hún lætur uppi og þá fyrst og fremst ólíkir hagsmunir innan ferðaþjónustunnar.

Flugfélög hafa þá hagsmuni að fylla öll sæti til og frá landinu. Sama er með hótel og gististaði, þau þurfa að fullnýta fjárfestinguna allan ársins hring. Þetta fer ekki endilega saman við umhverfismál og náttúruvernd. Samkvæmt árlegum skoðanakönnunum meðal erlendra ferðamanna er stærsti hluti þeirra hér vegna náttúrufars og vilja skoða landið.

Lítum svo á „ferðamannastaðina“. Flestir þeirra eru yfirfullir á háannatímum. Aðrir, sem ekki teljast til „frðamannastaða“ eru tómir. Markaðsetning landsins gengur allt of mikið út á hina þekktu staði og þar af leiðandi er engin eftirspurn eftir hinum. Þetta er auðvitað sök ferðaþjónustufyrirtækja. Þekking á landinu innan þeirra virðist vera afskaplega lítil og því hjakkar hver í sporum annarra.

Landmannalaugar og Þórsmörk, gönguleiðin þar á milli, Hveravellir, Þingvellir, Ásbyrgi, Mývatn, Dettifoss, Skaftafell. 

Fyrir tuttugu árum hlógu þeir sem þá voru bessarwisserar í ferðaþjónustunni að Húsvíkingum sem voru að rembast við að kynna hvalaskoðun. Þeir hættu fljótlega að hlægja enda gekk allt upp hjá Húsvíkingum. Ég þori að fullyrða að hvalaskoðunin á Húsavík hefur valdið því að ferðaþjónustan í Þingeyjarsýslum hefur blómstrað undanfarin ár. Þar gera menn sér grein fyrir gildi hennar og líklega er sú ástæðan fyrir því að þangað sækja ferðamennirnir.

Vestfirðir eru að komast inn á kortið en mikið vantar upp á að það sama gerist á Norðurlandi vestra og eru þó möguleikarnir gríðarlegir.

Enginn ákvað fyrir Húsvíkinga hversu stór bærinn átti að vera í ferðaþjónustu. Þeir hafa þróað hann eftir sínum hætti og þannig á það að vera. Elín Sigurðardóttir, farmkvæmdastjóri Íslenskra fjallaleiðsögumana, telur að einhver þurfi að „ákveða hvaða staðir eiga að vera stórir ferðamannastaðir og byggja þá upp sem slíka en leyfa öðrum svæðum að vera ósnortin“. Þessu eru ég ósammála. Ég myndi varla treysta mér til að hafa með höndum slíkt alræðisvald og fara fullkomlega með það, hvað þá að ég treysti öðrum. Húsvíska aðferðin er best. 

Ferðamannastaðirnir eru miklu fleiri en menn gera sér grein fyrir og því algjörlega óþarfi að hrúga saman ferðamönnum á örfáa staði. Til þess þarf þó uppbyggingu og það gera heimamenn bestir allra. Hverjum skyldi til dæmis hafa dottið í hug að Siglufjörður myndi ná sér á strik sem slíkur? Héðinsfjarðagöng og dugnaður heimamanna hafa gert staðinn að einum hinum merkilegasta á landinu. Hefði framkvæmdastjóri Íslenskra fjallaleiðsögumanna getað látið sér detta það í hug fyrir tíu árum? 

Vandi ferðaþjónustunnar er að besserwisserarnir í ferðaþjónustu eru þröngsýnir. Þeir sjá aðeins stóru staðina en ekki þá litlu. Þess vegna er þeim einum ekki treystandi fyrir stefnumótun í greininni.

Fyrir stuttu benti Ómar Ragnarsson á yndisfagra staði í náttúru Íslands sem fáir þekkja, en þeir eru:

  • Gjástykki
  • Hveragil í Kverkfjöllum
  • Sönghofsdalur
  • Dynk
  • Gljúfurleitafoss
  • Hvanngiljafoss
  • Grímsvötn
  • Norðurgil við Mýrdalsjökul
  • Jökulgil við Torfajökul
  • Strandarhellarnir vestan við Þorlákshöfn
  • Hraukarnir í Kringilsárrana
  • Sauðárhraukar við Sauðárflugvöll
  • Grágæsadalur
  • Eldvörp

 Ég benti á nokkra aðra sem mér þykir vænt um og mér þykir mikið vænt um:

  • Hattver í Jökulgili skammt frá Landmannalaugum og raunar Jökulgil allt 
  • Gjáin fyrir ofan Stöng í Þjórsárdal
  • Rauðibotn, Hólmsá og Hólmsárlón
  • Hólmsárfossar neðan við Mælifellssand
  • Á og foss sem fellur í hvelfingu efst í Fróðárdal, vestan Draugamúla. Einstaklega fallegt er ofan fossins. Þekki ekki nöfn á þessum stöðum
  • Rauðisandur
  • Spákonufell við Skagaströnd
  • Dyrfjöll
  • Borgarfjörður eystri
  • Vatnsdalur við Heinabergsjökull í Vatnajökli
  • Kálfafellsdalur
  • Vestrahorn, gönguleiðin undir frá Papaósi að Horni, einnig gönguleiðin upp Kastárdal og í niður skriðurnar við Kambshorn.
  • Gönguleiðin um Endalausadal
  • Ketillaugarfjall
  • Esjufjöll
  • Grímsvötn
  • Núpsstaðaskógar
  • Upptök Bláfjallakvíslar norðan Öldufells
  • Þjófadalir
  • Heiðmörk 
Ofangreindir staðir teljast almennt ekki til ferðamannastaða og þangað leggja alltof fáir leið sína. Ætlar einhver að halda því fram að þessir staðir sé lakari staðir fyrir ferðamenn en þeir sem nú eru mest sóttir?

 


mbl.is „Ísland verður aldrei ódýrt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjármálaráðherra lætur ríkissjóð tapa

Margir ráku upp stór augu þegar fjármálaráðherrann steig fram og kom með nýja skilgreiningu á 7% virðisaukaskatti, nefnir það „undanþáguskattþrep“. Einn þeirra sem skilur lítið í þessu Halldór Blöndal, fyrrum þingmaður og ráðherra, og laí honum hver sem vill. Hann segir í snjallri grein í Morgunblaðinu í morgun (feitletranir eru mínar):

Þegar fjármálaráðherra varpar því fram að 7% virðisaukaskattur í alþjóðlegri samkeppnisgrein jafngildi ríkisstyrk opinberar hún um leið að hún skilur ekki eðli alþjóðlegra viðskipta og þann grundvallarmun sem er á virðisaukaskatti og söluskatti. Það er bágt í hennar stöðu. Og þegar farið er með talnarunu í fréttum ríkisútvarpsins til að sýna fram á að ekki hafi verið greiddur virðisaukaskattur af gistingu í sjö ár er það auðvitað þvættingur og í besta falli misskilningur.

Halldór er ekkert að skafa af því enda fór fjármálaráðherrann með tóma vitleysu ena hefur hún líklega ekki litið á dæmið í heild sinni. Ég tók eftir því að skyndilega var farið að snúa málinu við, rétt eins og fjármálaráðuneytið teldi á ráðherra sinn væri hallað og því þyrfti að skjóta föstum skotum að ferðaþjónustunni. Því var nefnilega haldið fram að engin virðisaukaskattur hafi verið greiddur af gistingu og það væri nú aldeilis hræðilegt. Hvorki fréttastofa Ríkisútvarpsins, sem mest fjallaði um málið, eða fjármálaráðherra voru með staðreyndir á hreinu.

Halldór segir hins vegar:

Þessi 17,5% hækkun á gistirými lendir með fullum þunga á erlendum ferðamönnum og þrengir af þeim sökum að öllum greinum ferðaþjónustunnar, sem er í alþjóðlegri samkeppni. Þegar ferðamaðurinn ákveður hvaða land hann heimsækir horfir hann til fasta kostnaðarins fyrst af öllu. Þar vegur gistikostnaðurinn þungt. Afleiðingarnar verða óhjákvæmilega þær, að erlendum ferðamönnum fækkar og þar með minnka gjaldeyristekjur okkar af þessari atvinnugrein og atvinnulausum fjölgar með tilheyrandi uppsögnum. Á hinn bóginn liggur fyrir, að hvergi eru skattsvik og undanskot meiri en í hinum ýmsu greinum ferðaþjónustunnar. Með því að hækka virðisaukaskattinn er verið að gera þvílíkri atvinnustarfsemi léttara fyrir.

Halldór bætir því við að hækkun virðisaukaskattsins á gistingu sé öðrum þræði landsbyggðaskattur því auðvitað eiga ekki allir sem búa úti á landi kost á því að gista hjá vinum eða ættingum þegar þeir þurfa að sinna erindum í Reykjavík. Og eins þykir mörgum nú þegar nóg um hvað gisting er dýr og því munu landsmenn leggjast minna í ferðalög, rétt eins og þegar álögur á bensín eru hækkaðar.
 
Allt er þetta hin mesta hringavitleysa sem endar aðeins á einn máta. Ríkissjóður tapar. 

Íhaldið og KR-ingurinn

Hann er íhald, feykiblátt íhald en um leið svo ákaflega víðsýnn og kátur maður að það er ekki annað hægt en að dást að lífssgleði hans í tilverunni. Hann er KR-ingur, lék með KR í gamla daga þegar ég gekki í gegnum Hlíðarnar til æfinga á Valsvellinum og vissi ekkert verra en þessa vesturbæinga sem „eru svo montnir þegar þeir skora“, svo gripið sé röksemda bróður míns gegn KR. Báðir áttum við þó eftir að snúast.

Kjartan Gunnar Kjartansson, blaðamaður á Morgunblaðinu, er einn ritfærasti maður sem ég þekki. Þegar við kynntumst vissi ég ekkert um dimma fortíð hans; að hann væri bundinn KR fyrir lífstíð, sat í fangelsi vegna þess að hann málaði mótmælaslagorð vegna byggingar Seðlabankahússins, var einn af verndurum Bernhöftstorfunnar og fleira má upp telja.

Leiðir okkar lágu saman í Vöku í Háskólanum og síðar í KR. Já, við vorum með drengi á sama aldri og ég, Valsarinn, gat auðvitað ekkert annað gert en að fara með hann á fótboltaæfingar í KR. Þar byrjaði breytingin, ég varð KR ingur og fetaði ég þar í fótspor bróður míns sem alla æfi sá eftir þessum ofangreindu orðum sínum.

Ástæðan fyrir þessu hjali mínu er sú að Kjartan ritar svo einstaklega skemmtilegan pistil í Moggann í morgun um KR, bikarinn, lífið, sagnfræðina, einangrunarhyggju, alþjóðahyggju og ... Samfylkinguna sem „hafa aldrei viljað útrýma þjóðerniskennd, heldur koma á nýrri: Þjóðerniskennd Evrópu.

Annars hefði aldrei neitt orðið úr Kjartani nema vegna þess að hann hitti hana Mörtu sína svo ákaflega snemma.


Velferðarstjórn brýtur niður

Fyrri leiðari Morgunblaðsins er afskaplega forvitnilegur og er þó ekki dregið úr gildi þess seinni. Í leiðaranum er fjallað um skuldir ríkisssjóðs vegna lífeyrisskuldbindinga. Þar segir:

Búið var í haginn fyrir framtíðina og lífeyrisdæmi ríkisins gert upp með viðráðanlegum hætti. Þetta var gert á 10 ára tímabili frá árinu 1999. 

Svo kemur þessi áhugaverði kafli:

„Velferðarstjórnin“ skar þessar greiðslur niður í núll á fjárlögum án þess að framtíðarvandi ríkissjóðs sem óx um samsvarandi fjárhæð væri færður til bókar. Þetta var blekkingarleikur. Fjárlagadæmið var fegrað með fölsunum. „Hruninu“ var kennt um. 

Og leiðarahöfundur heldur áfram og talar örugglega af mikilli þekkingu og ræðir nú um uppbyggingu heilbrigðiskerfisins.

Fjármunir höfðu verið settir til hliðar og áttu að verða grundvöllur uppbyggingar sjúkrahúskerfisins. Þeir hurfu. Breyttar aðstæður gátu réttlætt það. En ekki hitt að koma framtíð háskólasjúkrahúss í öngstræti

Með því að bera fyrir sig hrunið hefur „velferðarstjórnin“ tekið fjármuni sem af ráðdeild var ætlað í önnur verkefni og notað til daglegs rekstrar auk þess að hækka skatta landsmanna. Á sama tíma var verið að henda ómældu fé, á grundvelli pólitísks geðþótta, í SpKef og Sjóvá svo tvö dæmi af mörgum séu nefnd, segir leiðarahöfundur réttilega.


Skattahækkanir hafa slæm áhrif

Tekur Bogi dæmi af einu dótturfélaga samstæðunnar; Flugfélagi Íslands. Skatta- og gjaldskrárhækkanir á félagið hafi numið 114% frá árinu 2009 og farþegafjöldi dregist saman um 2% á sama tíma þrátt fyrir aukningu á flugi til Grænlands.
 
Ofangreint er úr ágætri frétt í Morgunblaðinu í morgun þar sem fjallað er um neikvæðar afleiðingar hækkunar á virðisaukaskatti á gistingu. Rætt er við forráðamenn Icelandair og meðal þeirra Boga Nils Bogason sem er fjármálastjóri hjá Icelandair Group og er tilvitnunin út viðtalinu við hann.
 
Greinilegt að þungt er í mönnum vegna sífelldra skattahækkana og vara menn eindregið við því að þær komi stjórnvöldum í koll ins og svo oft áður. Benda má á hækkun á bensíngjaldi sem hefur ekki aukið tekjur ríkisins heldur dregið hreinlega úr ferðalögum fólks auk þess að vera hreinn landsbyggðaskattur.
 
Auðvitað vita allir hvernig hagstæðast er að standa að tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Aðferðin er síst af öllu að rústa möguleikum til tekjuöflunar. Bogi segir í viðtalinu:
 
... að auka umfangið með því að draga úr hækkunum á sköttum og opinberum gjöldum, stækka skattstofna, minnka um leið atvinnuleysi og styrkja gjaldeyrisforðann. 
 
Taka má eindregið undir þessa skoðun, sem í raun er hægt að fullyrða að sé staðreynd.

Frábær bikarútslitaleikur

Markmenn

Bikarúrslitaleikurinn í gær var frábær skemmtun. Langt er síðan ég hef skemmt mér eins vel á Laugardalsvellinum. Liðin voru frábær, fótboltinn var góður, leikgleðin mikil og áhorfendur í banastuði.

Mér fannst Stjörnumenn betri að mörgu leyti. Þeir eru snöggir, spila vel sín á milli, eru áræðnir og leika með hjartanu. KR-ingar eru allt öðru vísi leikmenn. Þeir spila yfirvegað, þreyta andstæðinginn, ráðast með skyndisóknum upp völlinn og eru stórhættulegir eftir því sem þeir nálgast markið. 

Fyrsta markið var stórglæsilegt, boltanum stungið inn fyrir vörnina og Garðar Jóhannssonþurfti aðeins eina snertingu og boltinn lá í netinu. KR-ingar jöfnuðu á ævintýralegan hátt. KR-ingur gefur inn í teiginn en Stjörnumaður slæmir fæti fyrir boltann, markvörðurinn hikar eitt andartak og Gary Martin nær að skalla í mark. Klaufalegt hjá Stjörnumönnum.

Hetjan, Garðar Jóhannesson, misnotaði víti í lok hálfleiksins, skatu í slá. Auðvitað er hægt að segja að Stjörnumenn hefðu átt að vera með tvö mörk gegn engu í hálfleik en þannig er ekki fótboltinn. Hann er ekki unninn í skildagatíð og útilokað er að halda því fram að ein mistök geri út um leik. Menn gera ótal mistök í hverjum leik, sum eru smávægileg en draga dilk á eftir sér, önnur eru stór eins og misnotuð vítaspyrna. Leikurinn gengur út á að fækka litlu mistökunum. Þannig vinna menn leiki. Óhöpp eins og að skjóta í slánna gera ekki út um leiki.

Mér fannst lítið bera á Baldri Sigurðssyni í leiknum og hafði orð á því við félaga mína að hann væri nú bara týndur og ætti að skipta honum út af. Þá gerist það nokkru síðan að Baldur skorar mark, eiginlega upp úr þurru að manni fannst. Þannig gerast hlutirnir. Sá sem ekkert virðist standa sig er allt í einu lykilmaður og skorar markið sem öllu skiptir. Honum er auðvitað snarlega fyrirgefið. Þetta segir ekkert annað en að sigurinn fæst með vinnusemi. Baldur er alltaf að þó hann sé ekki alla tíð með boltann á tánum. 

Hitt verður að viðurkennast að stuðningsmenn Stjörnunnar voru miklu frískari og hávaðasamari í leiknum. Hvöttu sína menn vel áfram og víst var að leikmenn tóku virkilega vel eftir því. Svo slakir vorum við KR-ingar að Magnús Már Lúðvíksson, kanntmaðurinn knái í KR, þurfti oftar en einu sinni að hvetja stuðningsmenn liðsins til að láta í sér heyra. Ég veit það fyrir víst að leikmenn styrkjast margfalt við góðan stuðning áhorfenda.

Get ekki látið hjá líða að birta meðfylgjandi mynd af þremur ánægðum KR-ingum. Vinstra megin er Hannes Þór Halldórsson, markmaður KR og landsliðisins, í miðjunni Kári Stein Benediktsson, markmaður í yngri flokkum KR og hægra megin er frændi Kára, Grétar Sigfinnur Sigurðarson. 


Lyftir ómannaðri flugvél

ómönnuð flugvél

Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, heldur hér á ómannaðri flugvél í eigu Bandaríkjahers. 

Svo segir í myndatexta með frétt mbl.is um að ómönnuðu flugvél á vegum bandaríska hersins hafi gert loftárás í Pakistan.

Myndatextinn er ábyggilega réttur. Einhvern veginn trúi ég því að flugvélin sem Hillary heldur á sé ómönnuð. Á þó í dálitlum erfiðleikum með að rökstyðja þessa tilfinningu mína.


mbl.is Tveir létust í loftárás
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undanþágu krafist vegna nauðgunarákæru

Mál Julian Assange er dálítið undarlegt og um leið dálítið flókið. Það hefur vakið athygli mína hversu mildum höndum fjölmiðlar hér á landi og annars staðar hafa farið um manninn. Hann er næstum því meðhöndlaður sem hetja af því að hann greindi frá fjölmörgum málum og nöfnum á Bandaríkjamönnum sem áttu að fara leynt en bandarísk yfirvöld telja að hafi verið hrikalega skaðlegur verknaður.

Ég velti fyrir mér hvernig umfjöllunin væri ef Assange væri ekki stofnandi Wikileaks. Í dæminu væri þá enn eftir stefna vegna rannsóknar á tveimur nauðgunum í Svíþjóð. Fyrir minni sakir hafa menn verið handteknir og fluttir á milli landa. Það breytir greinilega öllu að vera frægur og á móti bandarískum hagsmunum.

Nú þykir nauðgun svívirðilegur glæpur og hér á landi hefur ýmislegt verið sagt og skrifað til að sporna við honum. Jafnvel hefur verið krafist þyngri dóma fyrir nauðgun því hún er talin miklu meiri en alvarleg líkamsárás eins og margir freistuðust til að halda hér áður fyrr.

Enginn hefur þó skipulagt mótmæli fyrir framan breska sendiráðið og krafist réttlætis fyrir hönd sænsku kvennana. Engin umræða er um nauðgunarkærurnar nema þá helst að gera lítið úr þeim og draga úr málavöxtum sem byggð eru á sænsku lögunum.

Fyrir þá staðreynd að Julian Assange er talinn nokkurs konar krossferðariddari gegn Bandaríkjunum er farið um hann mildari höndum en aðra þá sem gerast sekir um nauðgun. Er þá staðan sú að ákæra um nauðgun sé ekki eins alvarleg ef viðkomandi karlmaður telst „hetja“ í starfi sínu? Getum við samþykkt undanþágur frá nauðgunarákæru?

Um daginn mætti á annað hundrað manns fyrr framan rússneska sendiráðið og mótmælti dómum yfir þremur stúlkum sem höfðu unnið það eitt til saka að hafa „truflað friðinn“ Gjörspillt rússkneskt dómskerfi dæmdi þær tveggja til þriggja ára dóm fyrir svo léttvægt brot að hér á landi myndi það varla duga til annars en lítilsháttar sektar.

Enginn efnir hins vegar til mótmæla til stuðnings tveimur konum í Svíþjóð sem ýtt er út fyrir allt réttlæti vegna þess að meintur nauðgari er stofnandi Wikileaks og hefur sem slíkur, frægur og auðugur, komist upp með að setja skilyrði fyrir að mæta til dóms. 


mbl.is Svíar heiti því að framselja ekki Assange
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sá sem hleypir öllum inn endar utandyra

Íslenskri menningu getur stafað mikil hætta af of hraðfara efnahagsþróun. Menning lítilla þjóða hefur beðið hnekki af þessum sökum.
 
Þegar Jóhann J. Ólafsson tekur til máls er gott að leggja við hlustir. Hann er skynsamur og hógvær í málflutningi sínum og leggur jafnan gott eitt til í þjóðmálaumræðunni. Hann ritar grein í Morgunblaðinu í morgun og ræðir um tækifæri þjóðarinnar og bendir á þá hættu sem við getum staðið frammi fyrir eins og ofangreind tilvitnun bendir á.
 
Jóhann rekur örlög lítilla menningarsvæða sem hafa orðið öðrum stærri að bráð. Hann nefnir Haxaii-eyjar sem Bandaríkjamenn lögðu undir sig, Suðvestur-Afríku sem Hollendingar sölsuðu undir sig, Singapúr sem áðu var hluti af Malasíu.
 
Í lok greinar sinnar segir Jóhann allsendis hávaðalaust en orð hans bora sig inn í vitund lesandans og fá hann til að hugsa sig alvarlega um:
 
Á Grímsstöðum á Fjöllum búa nú um 9 manns af íslensku bergi brotnir.
Ferð okkar Íslendinga inn í framtíðna er vandasöm og flókin. Göngum götuna fram til góðs. Við megum hvorki einangrast né opna allt upp á gátt.
 
Sá sem útilokar aðra
læsir sjálfan sig inni.
Sá sem hleypir öllum inn
endar utandyra. 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband