Leitaði að sjálfum sér

Þessi litla frétt um ferðamanninn sem týndist en var þó ekki týndur heldur var alla tíð með samferðamönnum sínum minnir mann á aðra, ekki ólíka. Arnes Pálsson var maður sem uppi var á átjándu öld. Hann hafði orðið sekur um smáglæpi, stolið fiskum, sauðum og öðru smálegu.

Þetta er hinn sami Arnes og dvaldi um skeið í helli við Hvalvatn. Þar undir litlum klettahöfða um það bil kílómetra í austur frá stíflunni við suðurenda vatnsins hvar Botnsá verður til, er lítill hellir. Erfitt er að komast að honum og vart verður sá sóttur sem þar verst né heldur á hann sér nokkurrar undankomu auðið. Þarna var bæli útilegumannsins Arnesar Pálssonar sem nefndur var þjófur í samtímaskrám. Arnes er talinn fæddur á fyrri hluta 18. aldar, en dó árið 1805. 

Árni Óla, blaðamaður, gerði sögu Arnesar fræga í Frásögnum sínum. Árni segir frá því að Arnes hafi flækst um Hvalfjörð voru bændur orðnir þreyttir á honum og sauðastuldi hans en hann mun einnig hafa falist í helli í Akrafjalli. Söfnuðu menn þá liði og fóru að leita að Arnesi. 

Var ákveðinn leitardagur og mönnum skipað í leitina, og skyldu allir leitarmenn vera í hvítum sokkum, sem náðu upp á mið læri, og með hvítar húfur á höfði, svo að ekki yrði villzt á Arnesi og þeim. Við fjallsræturnar var skipað ríðandi mönnum með langar ólarsvipur, sem sveifla átti utan um Arnes, ef hann freistaði að hlaupa niður af fjallinu og út á flóana. – Sagt er, að nær áttatíu menn hafi tekið þátt í þessari leit. 

En svo sagðist Arnesi sjálfum frá, að hann hefði orðið þess var, er leitin var hafin um morguninn, og séð, hversu leitarmenn voru auðkenndir. Voru góð ráð dýr, er hann sá leitarmenn nálgast. Tók hann það til bragðs, að hann reif sundur ljósleitan skyrtugarm, sem hann átti, og vafði um höfuð sér, fletti sokkunum niður á ökla, en skar upp í buxnaskálmarnar og vöðlaði þær síðan upp á læri og batt að. Laumaðist Arnes síðan í flokk leitarmann og gekk með þeim fjallið um daginn. En þegar leið að því, að niður yrði haldið í byggð, dróst hann aftur úr, en sneri síðan við, er leiti bar á milli hans og byggðarmanna.

Og auðvitað fundu þeir ekki kauða í þetta sinn, en hann flæktist víða um land, lá úti, stal peningum og sauðfé, var dæmdur og sat inni í tugthúsinu í Reykjavík, þar sem nú er Stjórnarráðshúsið, í 26 ár. 


mbl.is Hafði ekki hugmynd að hennar væri leitað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skemmtileg saga!

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 26.8.2012 kl. 11:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband