Jón Kristinsson skemmtir sér
18.8.2012 | 12:18
Af og til heyrist í borgarstjóranum í Reykjavík. Um daginn tók hann þátt í gleðigöngu hinsegin daga. Í dag vaknaði hann snemma og gaf rithöfundasambandi Íslands fallegt hús. Óskaplega finnst er það ánægjulegt að borgarstjórinn skuli gefa sér tíma í önnum sínum til að taka þátt í skemmtilegum verkum. En hefur hann eiginlega eitthvað annað með höndum en svona tyllidagaverkefni. Ýmislegt bendir til þess að hann sé ekkert annað en einhvers konar tákn borgarstjórnar ekki framkvæmdastjóri.
Betra væri þó að hann tæki þátt í öðrum skyldum sem æðsti framkvæmdastjóri borgarinnar. Hann virðist ekki hafa neina skoðun og tekur ekki afstöðu til neina alvarlegra mála.
- Ekki aukatekið orð um skipulagsbreytingar í miðborginni.
- Enga skoðun á hallarekstri Hörpunnar.
- Ekki aukatekið orð er þúsundir sjómanna flykktust inn á Asuturvöll og mótmæltu fiskveiðistjórnarfrumvörpum ríkisstjórnarinnar sem þó koma dálaglega við hagsmuni Reykjavíkur.
- Enga skoðun á fyrirhugaðri hækkun virðisaukaskatts á gistingu og er þó Reykjavík vinsælasti og þekktast ferðamannastaður landsins.
- Hann hafði þó skoðun á broti borgarfulltrúa Besta flokksins á siðareglum borgarinnar en sá sagðist bara vera borgarfulltrúi frá níu til fimm og þar fyrir utan mætti hann væntanlega haga sér eins og hann vildi. Þetta þótti Jóni Kristinssyni bara fyndið.
- Ekki orð um fjárhagsáætlun Reykjavíkur, stefnumörkun eða annað.
- Sóðaskapur og vanhirtir grænir reitir koma borgarstjóranum ekki við.
- Hann tjáir sig ekki um lögbundna grunnþjónustu sem verið er að skera niður innan borgarinnar
- Hefur miklar skoðanir á gæluverkefnum
![]() |
Rithöfundar fá hús |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Getur Katla valdið gosi á Fimmvörðuhálsi?
17.8.2012 | 17:52
Fyrir rúmum tveimur árum gaus á Fimmvörðuhálsi og nokkru síðar í Eyjafjallajökli. Í bók minni um gönguleiðina yfir Fimmvörðuháls sem kom út fyrir stuttu skrifar Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur um þessi tvö gos og segir að skjálftaupptök í mars 2010 gáfu til kynna kvikuhreyfingar hafi færst austur undir Fimmvörðuháls þar sem raunar gaus þann 20 mars 2010.
Sem leikmaður freistast ég til að draga þá ályktun af orðum Páls að tilviljun ein hafi valdið að gos kom upp á Fimmvörðuhálsi. Kvikuinnskotið breiddist einfaldlega þannig út að það átti greiðustu leið upp á Hálsinum.
Aðeins tæpir tíu kílómetrar eru frá toppgíg Eyfjallajökuls að gosstöðvunum á Fimmvörðuhálsi. Fjölmargir gígar eru á Fimmvörðuhálsi og líklega ekki í fyrsta sinn sem gos þar hefði með réttu átt að koma upp í Eyjafjallajökli.
Lítum nú á fjarlægðina frá Kötluöskjunni og að gosstöðvunum á Fimmvörðuhálsi. Hún er rétt rúmlega 10 kílómetrar, þ.e. að öskjubrúninni. Líklega eru um átján kílómetrar frá gosstöðvunum að upptökum stóra skjálftans í dag. Enn skemmra er frá gosstöðvunum að upptökum jarðskjálftasvæðisins sem kennt er við Goðabungu og er í rótum Tungnakvíslajökuls eða um átta kílómetrar.
Þetta eru nú ekki vísindalegar pælingar enda kann landslag að vera allt öðru vísi undir Mýrdalsjökli en Eyjafjallajökli.
Staðreyndin er einfaldlega sú að kvikuhreyfingar undir Eyjafjallajökli leiddu til goss á Fimmvörðuhálsi. Það er því forvitnileg pæling hvort hið sama geti gerst við þegar kvikan lyftir sér undir Mýrdalsjökli.
Meðfylgjandi kort tók ég af vef Veðurstofunnar. Setti inn á það tvær línur sem eiga upphaf sitt á gosstöðvunum á Fimmvörðuhálsi. Önnur er að toppgíg Eyjafjallajökuls, hin austur að jarðskjálftasvæðinu við Tungnakvíslajökul.
![]() |
Jörð skalf við Austmannsbungu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Gunnar er vallakóngur ...
16.8.2012 | 13:00
Fyrst stal hann Íslandsmeistarabikarnum frá KR og gaf Víkingum, síðan hnuplaði hann veitingum frá KR og dreifði til annarra íþróttafélaga loks þverbrýtur hann hlutleysi fjölmiðilsins og peppar Stjörnumenn til sigurs á KR.
Þetta bara gengur ekki og það er öllum ljóst enda voru Stjörnumenn svo forviða að þeir nöguðu neglur sína eins og engin fæða væri í boði. Ofan í allt hélt hann þrumuræðu yfir leikmönnum Stjörnunnar sem skildu auðsýnilega fátt í gagnmerku erindinu.
Gunnar er Vallakóngur (lesist; vadla kóngur) en leyfir sér engu að síður að hrauna yfir Fannar myndatökumann sinn sem virðist frekar hlédrægur. Slíkt einelti má ekki eiga sér stað.
Hins vegar er ekki nýtt að formenn Sjálfstæðisflokksins hafi afneitað KR. Geir Hallgrímsson var Víkingur, Þorsteinn Pálsson er Frammari og Bjarni Benediktsson er í Stjörnunni. Davíð Oddsson er þó KR ingur enda vesturbæingur.
Undarlegast er þó að hinn geðugi bæjarstjóri í Garðabæ skuli styðja Stjörnuna, er hann þó gegnheill Sjálfstæðismaður. Það sannar aðeins eitt, lífið er ekki svart og hvítt, þó það ætti að vera svo.
![]() |
Gunnar á Völlum hvetur Stjörnuna (myndband) |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Forgengilegir skaflar í Gunnlaugsskarði og Kerhólakambi
16.8.2012 | 01:26

Stundum er gaman að vera áhugaljósmyndari, sérstaklega ef maður hefur hirt vel um myndirnar sínar og geymt þær skipulega. Skannaðar slides myndir eru oft lítið merkilegar í samanburði við stafrænar.

Sá að einn af gæðabloggurum landsins, Emil Hannes Valgeirsson, birti nýlga gamla mynd úr gönguferð á Esjuna, tekin í lok ágúst 1995. Hann gekk upp Gunnlaugsskarð, sem er nún frekar erfitt fyrir göngumenn, þó ekki ófært. Og í skarðinu var enn skafl þó liðið væri langt á sumar. Það þykir Emil skiljanlega merkilegt.

Hann hefur mikinn áhuga á Esjunni, sérstaklega hvernig hún veðrast frá einu ári til annars. Hann hefur meira að segja tekið raðmyndir af henni, ein mynd á dag, frá sama sjónarhorni í heilt ár.
Umfjöllun Emils kveikti áhuga hjá mér, enda er ég líka óskaplega hrifinn af Esjunni. Þess vegna leitaði ég að myndum af fjallinu frá því á níunda áratugnum, mundi að þá hafði ég hafði verið afskaplega áhugasamur um gönguferðir á hana á þessum tíma.
Hér er svo afraksturinn. Efsta myndin er tekin í júlí 1983 í fjörunni við Seltjarnarnes. Esjan var þá hvítflekkótt og þannig þekkir nú engin hana að sumarlagi. Gunnlaugsskarð var hvítt og skaflinn við Kerhólakamb á sínum rótgróna stað. Ég á aðra mynd sem tekin var í lok júní á þessu ári og þar fer ekkert á milli mála að Esjan er fastheldin á snjóskafla.

Næsta mynd var tekin úr Hallgrímskirkjuturni í byrjun september á sama ári. Hún hefur hrist af sér mestan snjóinn en engu að síður eru skaflar í Gunnlaugsskarði eins og vera ber og greina má skafl í Kerhólakambi.
Þriðja myndin er tekin við Laugarnes í lok júní 1985. Myndin er sláandi lík fyrstu myndinni, þeirri sem tekin var tveimur árum fyrr, þó er aðeins minni snjór í fjallinu.

Líklega get ég fundið fleiri myndir sem ég hef tekið af Esju, en er ég var að velta því fyrir mér mundi ég eftir myndunum sem faðir minn, Sigurður Skúlason, hafði tekið. Hann hafði víða farið og tekið myndir og sumar myndirnar eru bara ansi góðar og áhugaverðar heimildir um byggingasögu borgarinnar.
Fjórðu myndina tók faðir minn úr hálfbyggðum turni Hallgrímskirkju. Fyrir neðan er verið að byggja Iðnskólann og dráttarbáturinn Magni er á leið út á Sundin.
Fimmtu myndina tók faðir minn af gamla Útvegsbankanum. Horft yfir svæðið þar sem nú stendur tónlistarhúsið Harpan, tómur grunnur fyrir hótel, Seðlabankinn og fleira. Sannarlega fróðleg mynd enda mikið athafnalíf á þessum slóðum.
Ekki veit ég nákvæmlega hvenær myndirnar tvær voru teknar. Gæti trúað því að það hafi verið um mitt sumar 1966.
Hið merkilegasta við þær er að þeim sjást aungvir skaflar í Esjunni. Skannaði ég þó myndirnar mjög nákvæmlega. Myndirnar eru stækkanlega ef áhugi er fyrir því að skoða þær nánar.
Sem sagt aungvir skaflar 1966, fullt af sköflum 1983 og 1985 og hingnandi skaflabúskapur 2012.
Ekki ætla ég að draga endanlega ályktun af þessum myndum enda varla mögulegt. Hitt er þó ljóst að hitastig að sumarlagi hefur verið ákaflega mismunandi allt frá því að við fórum að góna á Gunnlaugskarð og Kerhólakamb sem endanlega sönnun um hitastig á suðvesturhorni landsins. Líklega liggur lausnin falin í veðurfarslegum gögnum frá því 1966 eða þar um bil.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.8.2012 kl. 00:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Kolvitlaus röksemdafærsla Jóns Bjarnasonar
15.8.2012 | 17:18
Vinstri grænir vildu starfa með Samfylkingunni og það hefur valdið hrikalegu fylgistapi þessara tveggja flokka, ekki síst vegna aðildarumsóknarinnar að ESB.
Jón Bjarnason, þingmaður og burtrekinn ráðherrra landbúnaðar- og sjávarútvegs, segir á heimasíðu sinni:
VG hefur fært miklar fórnir í þessu ríkisstjórnarsamstarfi með Samfylkingunni, misst öfluga þingmenn, stuðningsfólk, félaga og baráttufólk úr forystusveit til þess eins að þóknast Samfylkingunni í ESB-umsókninni, þessu eina baráttumáli hennar.
Þetta er kolvitlaust hjá Jóni og í raun óskiljanlegur samsetningur. Það er engin fórn af hálfu VG að ákveða að styðja aðiladarumsókn í ESB. Flokkurinn ákvað þetta, hélt einfaldlega að hann kæmist upp með að svíkja stefnu sína og flokksmenn myndu ekki gera neinar athugasemdir við það. Í raun má kalla umsóknina pólitískt klúður VG.
Jón Bjarnason reynir nú að friðmælast við formann VG er hann líkir honum við trúmanninn Sturla Sighvatsson sem gekk til Rómar til að öðlast fyrirgefningu synda sinna. Slakari samlíking fyrirfinnst varla.
Steingrímur J. Sigfússon hélt af hroka sínum að hann kæmist upp með að stýra VG inn í Evrópusambandið þvert á allar flokkssamþykktir. Enn hefur hann ekki beðist forláts á þessari stórsynd sinni hvað þá að hann muni nokkurn tímann taki út refsingu á borð við þá sem Sturla lét sig hafa forðum.
Auðvitað verður hann áfram formaður VG þrátt fyrir svikin, og þeir Jón mun fyrr eða síðar fallast í faðma vegna þess að það eina sem skilur að þessa tvo menn er bannsett aðildarumsóknin. VG mun bráðlega falla frá stuðningi sínum við hana vegna þess að flokkurinn er að tapa atkvæðum. Steingrímur mun þá reyna að kjafta sig út úr vandanum eins og hans er von og vísa og flokksmenn hans munu gleypa við því sem hann segir, eins og þeirra er von og vísa.
Þó þjóðin geti verið ánægð með andstöðu Jóns Bjarnasonar gegn ægivaldi ESB er hann engu að síður hluti af ríkisstjórnarmeirihluta sem gert hefur meira ógagn í kjölfar hrunsins heldur en hrunið sjálft.
![]() |
Miklar fórnir í samstarfinu við Samfylkinguna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lúpínan hörfar í Heiðmörk
14.8.2012 | 11:26
Alltaf finnst mér jafnundarlegt hversu auðvelt er að búa til vandamál. Upp á síðkastið hefur til dæmis verið mikið agnúast út í lúpínuna, hún sé eiginlega vágestur í íslenskri náttúru. Umræðan minnir mann stundum á heiftina sem var stundum vegna grenitrjáa sem gróðursett voru fyrir meira en eitthundrað árum innan þjóðgarðisins á Þingvöllum. En það er nú annað mál.
Ekki eru þó allir á einu máli um lúpínuna og eiginlega verst að við leikmenn vitum varla í hvorn fótinn við eigum að stíga.
Það sem hefur valdið vonbrigðum með þessa plöntu er að menn héldu fyrst í stað að þessi planta myndi bara bæta jarðveginn og svo myndu bara aðrar plöntur taka við og hún myndi fara sem hefur ekki verið raunin. Hún hefur bara styrkst og eflst og dreifst mun víðar en menn kannski áttuðu sig á fyrst.
Þetta segir Ólafur Arnar Jónsson, sviðstjóri náttúruauðlindasviðs Umhverfisstofnunar á vef Ríkisútvarpsins í dag.
Í Heiðmörk ofan Reykjavíkur var lúpína gróðursett fyrst árið 1959. Ágúst Bjarnason ræddi stuttlega um lúpínuna á heimasíðu sinni í byrjun ársins. Hann segir:
Lúpínan er einstaklega öflug landgræðslujurt, en er umdeild. Sumir líkja henni við illgresi og aðrir við þjóðarblómið. Hún er vissulega ágeng og fyrirferðarmikil, en hvernig hagar hún sér?
- Hörfar hún af þeim svæðum sem hún hefur lagt undir sig og víkur fyrir öðrum gróðri?
- Hefur hún tilhneigingu til að fara inn á gróin svæði?
Svo vísar Ágúst í grein eftir Daða Björnsson, landfræðing, sem ritaði á vef Skóræktarfélags Íslands. Þessi grein finnst mér stórmerkileg og í henni segir Daði:
Vegna heitrar umræðu um kosti og galla lúpínunnar að undanförnu hafa ýmsir skorað á mig að endurtaka rannsóknina [frá 1990] og meta breytingar á útbreiðslu lúpínunnar á gamla rannsóknarsvæðinu á þeim tuttugu árum sem liðin eru. Til að koma til móts við þessar áskoranir kortlagði ég hluta af gamla rannsóknarsvæðinu á ný sumarið 2010. Þessa nýju kortlagningu bar ég síðan saman við fyrri niðurstöður og kannaði hvaða breytingar hafa orðið.
Og niðurstöður Daða eru nokkuð athyglisverðar miðað við þann ofsa sem umræðan um lúpínuna virðist stundum haldinn.
Lúpínan hefur því hörfað af helmingi þess lands sem hún hafði áður myndað þéttar breiður á og þróunin, sem sást í eldri rannsókninni, hefur greinilega haldið áfram.
Og síðar segir hann:
Ef gengið er um svæðið í dag er erfitt fyrir óvant auga að greina hvað var melur eða gróðurtorfa áður fyrr. Sjálfsagt hugsa margir sem þarna fara um hve ágeng lúpínan er í vel grónu landi en átta sig síður á því að þar er hún að láta undan. Landið sem lúpínan skilur eftir sig er gras og blómlendi með um það bil 10 cm þykku moldarlagi ofan á gamla melnum. Ég ætla að láta aðra um að lýsa einkennum landsins nákvæmlega, hugsanlega gæti það verið áhugavert verkefni fyrir áhugasaman náttúrufræðing.
Í þessum orðum kveður við allt annan tón en hjá sviðstjóranum hérna fyrir ofan. Í Heiðmörk virðist lúpínan gera það sem í upphafi var spáð, hún myndi um síðir víkja fyrir öðrum gróðri.
Í þessu máli er þó varla neinn einn sannleikur og ekki ætla ég af vanþekkingu minni að taka afstöðu til lúpínunnar. Hins vegar finnst mér hún alveg einstaklega falleg og fara víðast ákaflega vel í landinu.
Einföld ástæða fyrir hugarfarsbreytingu VG
13.8.2012 | 20:39
Þegar litið er á meinta hugarfarsbreytingu þingmanna VG vegna aðildar Íslands að ESB þarf að skoða hvað valdi. Skýringanna er t.d. ekki að leita í eftirfarandi:
- Þingmönnum VG hefur snúist hugur vegna þess að ferlið hefur sýnt þeim eitthvað annað en þeir héldu um ESB.
- Þingmönnum VG viðurkenna að þeim hafi orðið á mistök við samþykkt aðildarumsóknar á árinu 2009.
- Þingmönnum VG hefur skilist að fullveldisafsal Íslands verði alltof mikið við inngöngu í ESB.
- Þingmönnum VG telja að sjálfstæði Íslands sé hætta búið við inngöngu í ESB.
- Þingmenn VG telja útséð um að íslenskum landbúnaði sé hætta búinn vegna inngöngu í ESB.
- Þingmenn VG hafa áttað sig á að engar ívilnanir verða gefna vegna íslensk sjávarútvegs við inngöngu í ESB og landhelgin opnuð öðrmu fiskveiðiríkjum sambandsins.
- Þingmenn VG telja að efnahagskreppan í ESB muni hafa í för með sér mikla erfiðleika fyrir Ísland gangi landið í sambandið.
- Þingmenn VG hafa hlustað á grasrótina í flokki sínum sem er alfarið á móti aðild að ESB
Nei nei, nei. Skýringanna er einfaldlega að leita í hrakförum VG í skoðanakönnunum. Þær benda til þess að flokkurinn verði langt undir 10% í kjörfylgi við næstu þingkosningar.
Þingmenn VG eru einfaldlega orðnir hræddir um þingsætin sín. Steingrímur lofaði þeim í upphafi að samþykt aðildarviðræðna við ESB hefði engin áhrif, hann einfaldlega sæi það ekki fyrir.
En Steingrímur og aðrir forkólfar misreiknuðu almenningsálitið og það er að verða VG dýrt rétt eins og ríkisstjórnin er landsmönnum.
![]() |
Ekki brot á stjórnarsáttmálanum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Prófkjör ráði framboðslistum
13.8.2012 | 11:26
Samband ungra sjálfstæðismanna hefur alla tíð verið rótækt og krefjandi í stefnu sinni. Þeim eldri hefur oft þótt nóg um en fræg eru ummæli Geirs Hallgrímssonar, þáverandi formanns flokksins, sem sagði einhverju sinni að SUS væri samviska Sjálfstæðisflokksins.
Auðvitað er það rétt stefna sem ungir Sjálfstæðismenn hafa markað að prófkjör eigi að ráða framboðslistum flokksins í öllum kjördæmum. Allt annað er tómur aumingjaskapur sem kemur i bakið á flokknum fyrr eða síðar.
Prófkjör þurfa reglur og séu þær sanngjarnar og lýðræðislegar hvetja þær fólk til að gefa kost á sér. Og Sjálfstæðisflokkinn vantar fólk, nýtt fólk sem tekið getur málefnalega á pólitík vinstri stjórnarinnar. Framar öllu þarf flokkurinn að segja kjósendum sínum hvað hann ætli að gera í mikilvægustu málum þjóðarinnar; skattamálum, skuldamálum heimilanna, gjaldeyrismálum, ríkisfjármálum og atvinnumálum.
![]() |
SUS vill prófkjör |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mörður reynir að rugla umræðuna
13.8.2012 | 10:41
Alveg er hann furðulegur njóli, hann Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar.Og hann fær að komast um með orðhengilshátt vegna umræðunnar um aðlögunarviðræðurnar við ESB og snýr málinu algjörlega á haus.
Málið snýst einfaldlega ekki um að Ögmundur innanríkisráðherra og Jón fyrrverandi telji að því lengra sem við komust í þeim, þeim mun betra er það fyrir kosningarnar, eins og Mörður leyfir sér að orða það. Það er alls ekki það sem efst er í huga VG liða. Þeir eru einfaldlega flestir á móti aðild Íslands að ESB og vilja með öllum ráðum komast út úr þeirri klemmu sem þeir komu sér í með stjórnarsáttmálanum.
Kæru lesendur, hugsið ykkur. Stjórnmálaflokkur samþykkir aðildarviðræður að ESB þvert gegn öllum flokkssamþykktum og aðildarviðræðurnar reynast vera aðlögunarviðræður. Látum vera hversu illa þessir VG aðilar voru að sér í upphafi og að þeir töldu jafnvel sjálfstæði Íslands og fullveldi fórnandi fyrir aðildina. Augu þeirra hafa hins vegar opnast og nú vill VG út.
Og hver skyldi ástæðan vera? Jú, komandi kosningar. Þjóðin er að langmestum hluta á móti ESB og fylgið hrynur af flokknum. Ástæðan er einfaldlega að flokkurinn verður með lágmarksfylgi um næstu kosningar vegna þessara hrakferðar sem umsóknarferlið hefur í raun verið.
Mörður gerir lítið úr þessu og heldur að hann geti varpað umræðunni á dreif. En auðvitað veit hann sem er að fylgishraun VG vegna ESB er hrikalega alvarlegt og Samfylkingin fer ekki varhluta af andstöðunni. Þess vegna er ekki ólíklegt að þessir tveir flokkar nái samkomulagi um að setja málið á ís.
Hitt er þó alveg ljóst að ESB fylgist grannt með jarðhræringum í stjórnmálum hér á landi. Umsóknin er því mikil ávirðing fyrir Ísland vegna þess að allir vita núna að engin innistæða var fyrir henni í upphafi.
![]() |
Mörður tekur undir með Jóni Bjarna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Arfavitlaus frétt um GPS tæki hjá Ríkisútvarpinu
11.8.2012 | 18:39
Hægt er að greina hraðamyndavélar í staðsetningartækjum sem seld eru í bíla. Sérfræðingur hjá Umferðarstofu vonar að sú tækni verði ekki misnotuð og fólk noti eigin dómgreind við aksturinn.
Fréttastofa Ríkisútvarpsins kemur manni oft á óvart. Ofangreint er úr fréttum laugardagsins 11. ágúst og er ferlega vitlaus. Raunar svo heimsk að varla er hlægjandi að vitleysunni.
Útilokað er hægt að greina hraðamyndavélar í staðsetningatækjum. Það er einfaldlega rangt að GPS tæki greini hvar verið er að mæla hraða bíla. Slík tækni er ekki til eftir því sem best er vitað. Hins vegar má setja alls kyns staðsetningar inn í þessi tæki og til þess eru þau.
Tækin greina ekki vegi heldur eru landakort inni í tækjunum. Merkja má vegamót, beygjur og annað sem umferð viðkemur. Um leið er hægt að láta tækið gefa viðvörun er komið er að þeim stöðum sem fyrirfram hafa verið merkt.
Göngumenn nota GPS staðsetningartæki mikið og svo góð eru þau bestu að hægt er að ganga með þeim rétta leið í niðadimmri þoku eða um nótt og komast auðveldlega á áfangastað. Þar af leiðandi eru þau mikið öryggisatriði. Komi eitthvað fyrir getur ökumaður á sama hátt látið vita nákvæmlega hvar hann er staddur. Staðsetninguna greinir GPS tækið. Það er í raun eini galdurinn.
Engin takmörk eru fyrir því hvað merkja má í staðsetningatækin og þar með má telja staði þar sem komið hefur verið upp föstum hraðamyndavélum. Ef þessar staðsetningar fylgja ekki tækinu getur eigandi þess komið þeim sjálfur fyrir.
Og svo sveia menn og fussa yfir þessari tækni í útlistun fréttastofu Ríkisútvarpsins. Hvað skyldu þessi sömu segja ef næsta frétt sömu fréttastofu myndi hljóða á þessa leið:
Hægt er að greina vínbúðir, vínveitingahús og bari um allt land með staðsetningatækjum sem seld eru í bíla. Sérfræðingar SÁA vonar að tæknin verði ekki misnotuð og fólk noti eigin dómgreind á ferðum sínum.
Auðvitað er þetta jafnvitlaus frétt og sú í upphafi. GPS staðsetningatæki greina ekki neitt, þau eru heimsk og segja bara það sem ætlast er til að þau segi.
Þá kemur stóra spurningin, var fréttamaðurinn sem samdi þessa frétt að segja það sem hann átti að segja eða gleymdi hann skynseminni heima þennan vinnudaginn?
Frekar bláeygðir vinstri menn ...
11.8.2012 | 12:20
Man fólk eftir kröfu Sjálfstæðisflokksins um að efnt væri til þjóðaratkvæðagreiðslu um umsókn ríkisstjórnarmeirihlutans um aðild að Evrópusambandinu? Þetta var sumarið 2009 er vinstri meirihlutinn á Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu um aðildina.
Og vinstri menn hlógu sig máttlausa fyrir þessari heimsku Sjálfstæðismanna að krefjast þjóðaratkvæðis um svona mál. Og ástæðan var sú að ríkisstjórnin ætlaði fyrst að kíkja í pakkann, gá hvað komi út úr viðræðunum. Og, sko, svo, verður þjóðaratkvæðagreiðsla um pakkann. Tóm della að hafa tvær þjóðaratkvæðagreiðslur um sama málið. Ha, ha, ha, ha ...
Hvernig er nú staðan eftir þriggja ára aðlögunarviðræður að sambandinu? Jú, Samfylkingin laug því að okkur að um tvíhliða viðræður yrði að ræða og hægt væri að kíkja í einhvern pakka að þeim loknum. Þeim láðist að geta þess að þetta var umsókn um aðild og viðræðurnar hafa miðast og eiga að stefna að því að aðlaga íslenskt stjórnkerfi, reglur og lög að því sem gildir hjá ESB.
Vissu vinstri grænir þetta? Hafi þeir ekki vitað þetta eru þeir bláeygðari en vinstri mönnum sæmir. Og Vinstri grænir sögðu það hina mestu heimsku að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildina. Í þokkabót hafa þeir rekið ráðherra, breytt stjórnkerfinu, samþykkt aðlögun og hent út óþægum samningamönnum sem voru eitthvað að bera á borð hagsmuni Íslands.
Styrmir Gunnarsson segir á Evrópuvaktinni í dag:
Það voru grundvallarmistök hjá núverandi ríkisstjórn að fallast ekki á kröfur um þjóðaratkvæðagreiðslu hér á Íslandi sumarið 2009 um aðildarumsóknina. Hefði sú atkvæðagreiðsla farið fram og verið samþykkt, sem ekki var óhugsandi á þeim tíma væri ríkisstjórnin í allt annarri stöðu nú.
Í þess stað er málið dautt og einungis eftir að ákveða hverng aðildarumsókninni verður lokið með formlegum hætti.
Allir vita pólitíska stöðu aðlögunarviðræðnanna. Þær eru dauðar vegna þess að ESB veit að þjóðin er á móti aðildinni, ríkisstjórnin heldur áfram viðræðunum vegna þess að hún kann ekki að játa sig sigraða. Veit sem er að geri hún það eru dagar hennar taldir.
Hefði verið efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB væri ríkisstjórnin í skárri málum, hvernig sem niðurstaðan hefði orðið.
Nú er hin pólitíska staða sú að íslenska ríkisstjórnin er talin veikburða og varhugavert að treysta henni, ráðherrar hennar hafa ítrekað verið staðnir að ósannindum eða í það minnsta farið með fleipur um afstöðu þjóðarinnar til aðildarinnar. Kommissararnir hjá ESB kunna að lesa og þeir eru með sendiherra hér á landi og þurfa ekki að styðja sig við upplýsingar frá ríkisstjórninni.
Niðurstaðan er því sú að ósk ríkisstjórnarinnar um aðild Íslands að ESB hefur stórlega skaðað orðstír landsins og hún verður henni að falli.
Óhreinlæti gesta í almenningslaugum
10.8.2012 | 16:18
Um fátt er meira rætt en að keppnismenn í sundi mígi í laugarnar á meðan á æfingum eða keppni stendur. Vissulega ógeðfeld hugsun. Læknar segja ýmsar örveirur í þvagi afar óæskilegar fyrir aðra gesti.
Þetta er þó smáræði miðað við það sem fylgir óþrifnaði margra innlendra og erlendra ferðamanna sem sækja sundlaugar. Sumt af þessu fólki þvær sér ekki áður en það fer ofan'í. Ástæðan er meðal annars sú að misjafn siður er í hverju landi og fólki finnst það reglulega andstyggilegt að þurfa að afklæðast og þvo sér fyrir opnum tjöldum ef svo má segja. Innlendum þykir það hins vegar ógeðslegt að fylgjast með fólki vaða ofan í laugar með skítakleprana hangandi utan á sér, t.d. eftir margra daga ferðalag á hálendi landsins.
Það sem þó skiptir mestu er að ekki er farið eftir reglum, t.d. í sundlaugunum í Reykjavík. Starfsfólk er fyrir löngu hætt að fylgjast með því hvort fólk þvo sér. Þetta er mikill skaði og verður æ verri eftir því sem fleiri sækja laugarnar.
Að mínu mati þarf að laga þrennt. Annars vegar viðhorf sundlaugarvarða, krefjast af þeim að þeir hafi eftirlit með því að gestir fari í bað áður en þeir fara í laug.
Í öðru lagi þarf að afhenda útlendingu sem greiða fyrir sudlaugarferð lítinn miða . Á honum að vera leiðbeiningar um um þrifnað, hvernig og hvar eigi að því sér sérstaklega vel og auk þess skýringar um nauðsyn hreinlætis fyrir almenningslaugar.
Í þriðja lagi þurfa að vera fyrir hendi sturtur sem hægt er að loka með hengi fyrir þá sundlaugagesti sem eru ekki vanir nekt í almenningslaugum.
Þjófnaður á skattpeningum borgarinnar
10.8.2012 | 09:59
Harpan fer 405 milljónir króna fram úr tekjum yfirstandandi árs. Þetta er alvöru frétt og fjölmiðlar leita víða fanga til að skýra stöðuna fyrir lesendum sínum. Það vekur þó mesta athygli, jafnvel meiri en tapreksturinn sjálfur, að borgarstjórinn í Reykjavík hefur engar skoðanir á málinu.
Enginn fjölmiðill leitar til hans og svo lítinn áhuga hefur Jón Kristinsson, borgarstjóri, á málinu að hann ritar ekki einu sinni blaðagrein um það.
Ef til vill er hann enn í fríi í Noregi, má vera að hann sé að máta búninga fyrir hinseign daga, hann kann að vera að semja opnunarræðu fyrir menningarnótt, hugsanlega er hann að skipuleggja framboð til þings ...
Vissulega er starf borgarstjórans í Reykjavík mikilvægt. Það er þó hvorki réttlátt né sanngjarnt að hlífa núverandi borgarstjóra við rökræðum um starf hans eða verkefnum hans. Annað hvort sinnir hann starfinu eða segir af sér.
Fjölmiðlar hafa ekki leyfi til að hlífa manninum og leita annarra í borgarkerfinu. Sé það gert þarf að koma fram í fréttinni að ekki hafi náðst í borgarstjóra eða hann ekki gefið kost á viðtali. Enginn fjölmiðill hefur sinn skyldu sinni að þessu leyti.
Jón Kristinsson hefur hingað til komist upp með að gera ekki annað í starfi sínu en að hirða launin og fara svo í frí. Það er hvorki réttlátt né sanngjarnt. Raunar má með rökum kalla þetta þjófnað á skattpeningum.
Önugur Eiður skammast
9.8.2012 | 12:22
Eiginlega er hægt að fyrirgefa allt í netheimum nema önuglyndi. Hins vegar má hafa gaman af slíkum enda er það ekki skilyrði að kátt og hresst fólk hafi eitt rétt fyrir sér. Og eitthvað má nú á milli vera.
Oft les ég málfarspistla Eiðs Guðnasonar, fyrrum þingmanns, ráðherra og sendiherra, með mikilli athygli. Oft leiðist mér þegar hann leiðist út í að kasta skít í þá sem hann er í nöp við. Í dag hnýtir hann í þul Ríkisútvarpsins:
Molaskrifari fylgdist með úrslitum 100 metra spretthlaups karla á OL á BBC. Sá svo þennan sama atburð endursýndan í Ríkissjónvarpinu (06.08.2012). Það var eiginlega hálf óhugnanlegt að heyra gargið í íslenska þulnum.
Hann kýs að kalla lýsinguna garg. Þulurinn hefur þó fengið einróma lof fyrir lýsingar sýnar og þekkingu á svo til öllum íþróttagreinum er hann kemur nálægt.
713.000 lítrar láku út, segir í fyrirsögn á mbl.is (07.08.2012) Fréttin var um áfengissölu fyrir verslunarmannahelgina. Hvaða kjánaskapur er hér á ferðinni? Eða á þetta að vera fyndið?
Persónulega hefði ég skipt út sögninni að leka og sett í staðinn þá að streyma. Í raun er þetta hin prýðilegasta fyrirsögn. Eiður hefur þó engan skilning á gerð fyrirsagna, hann starfaði lengst af við útvarp og sjónvarp. Og þó svo að þetta sé léleg fyrirsögn, sem vel má vera, takið eftir orðalaginu hjá Eiði. Hvaða kjánaskapur er hér á ferðinni? Eða á þetta að vera fyndið? Þetta er bráðfyndið, hann er eins og fúll kall sem skammast út í litlu strákana sem missa fótboltann sinn yfir í garðinn hjá þeim leiðinlega.
Veröldin er lífleg og skemmtileg en Eiður skilur ekkert í því heldur skammast og reitir hár sitt.
Svona dettur af og til inn í pistlana hjá Eiði, gerir þá auðvitað skemmtilegri aflestrar.
Niður með fjöllin
7.8.2012 | 18:04
Fjármálaráðherra ku einnig vera að vinna að sameiginu allra launþegasamtaka í einn. Markmiðið er að stuðla meiri jöfnuði. Æskilegt væri að sameina banka landsins og fækka inneignarreikningum í einn sameiginlega. Um leið væri æskilegt að landmenn allir notuðu sama greiðslukortið. Allt þetta myndin stuðla að meiri jöfnuði enda ætlunin að ná honum með því að draga úr tekjum þeirra sem hafa einhverjar og bæta þeirra sem engar hafa.
Niður með fjöllin, upp með dalina. Það mun óneitanlega skapa jöfnuð.
![]() |
Oddný undirbýr einn lífeyrissjóð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hættið að gera við Hvanná, hún lagar sig sjálf
7.8.2012 | 16:43

Fátt leiðist mér meir en þegar ég geri mig sekann um villur í landafræði, nema ef vera skyldi þegar blaðamenn lenda í sama pytti. Hægt er að komast í Þórsmörk án þess að fara yfir Hvanná. Höfum það á hreinu.
Gangandi fólk kemst í Mörkina um Almenninga eða yfir Fimmvörðuháls og farið á göngubrú yfir Krossá.
Jeppamenn geta ekið yfir Markarfljót, þó ekki sé beinlínis greiðfært yfir hana á þessum tíma árs. Möguleikinn að að minnsta kosti fyrir hendi. Einnig er hægt að aka fyrir Merkurrana og í Húsadal, það er gert talsvert áður en komið er að Hvanná.
Ætli fólk í Langadal í Þórsmörk eða í Bása á Goðalandi þarf hins vegar að aka eða vaða Hvanná.
Svo er það annað að í fréttinni er hermt eftir Vegagerðinni að unnið sé að viðgerðum. Hvenær í ósköpunum hefur verið gert við ótamda á, skaðræði sem eiginlega má flokkast með jökulám?
Ekkert vað er á Hvanná vegna þess að áin tekur breytingum frá einum tíma til annars. Það er tilviljun ein að hægt sé að aka sömu leiðina yfir ána í einhvern tíma. Byggist það á því að lítið vatn er í ánni. Að öðrum kosti er hún alltaf erfið viðureignar.
Ég hef hvorki þá trú né traust á Vegagerðinni að hún geti nokkurn tímann gert við Hvanná. Þetta segi ég með fullri virðingu fyrir þessari stofnun. Raunar á ekki að vera að grauta í ánni, hún lagast alltaf af sjálfsdáðum, án mannsvits. Stundum tekur það smátíma.
Meðfylgjandi mynd tók ég fyrir tveimur árum er aska var í lofti. Horft er inn Hvannárgil og nær því upp á Fimmvörðuháls.
![]() |
Leiðin yfir Hvanná enn varhugaverð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Stórkostlegir Ólympíuleikar
7.8.2012 | 09:56
Í stað þess að flækjast um fjöll og hafa það skemmtilegt með góðu fólki um verslunarmannahelgina var ég heima. Lá flatur með einhverja hitasótt, nær dauða en lífi í marga sólarhringa. Ójá, þetta voru mikil veikindi og skiptir engu þó þeir sem til þekkja hlægi að mér og haldi því fram að ég hafi einungis þjáðst af léttvægri flensu ...
Hvað sem því líður þá horfði ég dálítið á viðburði á Ólympíuleikunum í sjónvarpinu þegar ég mátti vera að því í dauðateygjum mínum. Og mikið svakalega er gaman að þessum viðburði. Skipulagning Bretanna er frábær, myndatakan framúrskarandi góð og myndefnið, maður lifandi. Allt þetta glæsilega unga íþróttafólk sem kemur í þeim tilgangi að vera með, skara framúr og setja met.
Og ríkissjónvarpið á skilið hól fyrir góða þuli. Held að handboltaleikjum hafi aldrei nokkru sinni verið lýst jafn vel og af eins mikilli yfirvegun. Sama er með aðrar greinar. Lýsingarnar eru lifandi og skemmtilegar og ekki spillir fyrir skrækur aðstoðarþulurinn í frjálsu íþróttunum sem með áhuga sínum og innlifinu grípur mann með. Hann hefur einstaklega góða innsýn í allar greinar og getur bætt við fjölda upplýsinga, t.d. um kalk og klísturnotkun stangastökkvara, svif á hlunki sem nefndur er kringla og svo framvegis.
Ég hef líka horft á útsendingar nágrannaþjóðanna frá leikunum og held að þar beri af umfjöllun Norðmanna.
Sigurvegarar taka misjafnlega við verðlaunum sínum. Í gær hágrét gullhafinn í grindahlaupi er hann fékk verðlaunin afhent þannig að maður komst jafnvel við ... Aðrir standa hnarreistir og horfa á fána sína rísa að húni.
Vonandi eigum við eftir að fá sigurvegara í handboltanum. Ég spái gulli ...
Ólympíuleikarnir eru stórkostleg skemmtun sem ég hefði áreiðanlega misst af hefði ég ekki verið svo heppinn að veikjast ... eða þannig.
Hvanná hefur alltaf verið til vandræða
7.8.2012 | 09:34

Þórsmörk er norðan Krossár, Goðaland og fleiri svæði eru sunnan. Básar eru á Goðalandi, Langidalur og Húsadalur tilheyra Þórsmörk.
Hvanná kemur úr samnefndu gili. Hún er viðsjárverð. Vex hratt í rigningum og þegar hlýtt er í veðri kemur snjóbráðin hratt fram í henni.
Ekki er rangt að segja að Hvanná sé á leiðinni í Þórsmörk. Þarflegra væri að geta þess að hún er líka farartálmi á leiðinni í Bása en þangað fer stærsti hluti ferðamanna sem leggur leið sínaá eigin bíl á þessar slóðir. Hins vegar er það beinlínis rangnefni að kalla þennan veg Þórsmerkurleið.
Svo er það ekkert nýtt að Hvanná breyti um farveg. Hún gerir það oftsinnis á hverju ári og ekki þarf annað en að skoða aurkeiluna úr Hvannárgili til að sjá að það þannig hefur hún hagað sér í langan tíma. Og svo spyr maður sig hvort það sé ekki bara eðlilegt að Hvanná fái að vera ótamin um ókomna tíð?
![]() |
Leiðin inn í Þórsmörk varhugaverð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ríkisstjórnina skortir skilning
6.8.2012 | 17:59
Fáir menn hafa betri eða gleggri yfirsýn yfir stjórnmálin en Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins. Ég er ekki alltaf sammála honum en nýt þess engu að síður að lesa greinar hans í Fréttablaðinu. Hann er skýr, stuttorðu og hnitmiðaður.
Þorsteinn ritar síðasta laugardag um embættistöku forseta Íslands. Hann hefur nokkrar mætur á forsetanum en engu að síður sér hann í gegnum hann og segir frá því á þann hátt að enginn ætti að geta misskilið:
Ræða forseta Íslands við embættistökuna nú í vikunni var ekki gallalaus. Sjálfsupphafningin var til að mynda á sínum stað þótt hún hafi að þessu sinni fremur verið ívaf en uppistaða. Kjarninn í ræðunni var hins vegar hófsöm hirting vegna ráðleysis og sundurlyndis við meðferð stjórnarskrármálsins á Alþingi.
Í greininni reynir Þorsteinn að líta frá göllunum í ræðu forsetans og einblínir á það sem í raun skiptir öllu máli og segir:
En það er ástæða til að horfa fram hjá þessum ágöllum vegna þess í ræðunni var boðskapur sem á brýnt erindi. Forsetinn benti með sterkum og afgerandi hætti á þann háska sem í því er fólgin þegar landsmálaforystan vill ekki breiða sátt um undirstöður stjórnskipunarinnar. Verkurinn er sá að forsetinn hefur svo oft hrópað hátt án þess að efni stæðu til að ekki er víst að þeir leggi við hlustir nú sem helst ættu að gera það.
Og Þorsteinn gagnrýnir harðlega fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar með drög að nýrri stjórnarskrá og varar við afleiðingunum:
Kjarninn í boðskap forsetans er þó fyrst og fremst sá að stjórnarskrá sem sett er í fullkomnu stríði er ekki traustari en hús sem reist er á sandi. Það eru gömul sannindi og ný. Um enga löggjöf gildir það fremur en stjórnarskrána að hana skuli byggja á bjargi.
Einhverra hluta vegna er umburðalyndi ríkisstjórnarmeirihlutans þannig saman sett að honum er það kappsmál að breyta stjórnarskránni án þess að taka nokkurt tillit til annarra en þeirra sem styðja stjórnlagaráðið að málum. Og þeir stjórnlagaráðsliðar eru til sem ráðast með svikabirgslum að þeim sem ekki eru ráðinu fyllilega sammála. Allt þetta er í hrópandi ósamræmi við breytingar á stjórnarskránni frá stofnin lýðveldisins og á örugglega eftir að að verða mikið vandamál. Annars vegar er verið að setja fordæmi sem gengur þvert á siðvenjur lýðræðisins, að með góðu eða illu skulu breytingar knúnar fram. Hins vegar er hugsanlega verið að leggja drög að breytingum sem án efa verður breytt aftur nái önnur viðhorf síðar fram. Þar með erum við komin með stjórnarskrána í slíkar ógöngur að hún verður stöðugt bitbein.
Í lok greinar sinnar varpar Þorsteinn fram áhugaverðum vangaveltum:
Nýkjörinn biskup vék einnig með skýrum rökum að stjórnarskrármálinu af predikunarstóli dómkirkjunnar fyrir embættistökuna. Biskupinn benti réttilega á að þjóðkirkjan nýtur sérstakrar stjórnarskrárverndar vegna þess að hún hefur verið hluti af innviðum samfélagsins. Hvernig styrkir það samfélagið að rífa þá innviði niður? Bætir það andann í þjóðfélaginu?
[...]
Bæði forsetinn og biskupinn hafa kastað bolta í fangið á forystumönnum stjórnmálaflokkanna. Nú er að sjá hvernig þeir spila úr þeirri stöðu.
Þetta eru áhugavert og í raun spennandi að fá niðurstöður. Hins vegar held ég að þær komi seint frá ríkisstjórnarmeirihlutanum. Hvort tveggja er að hann skilur ekki það sem Þorsteinn eða biskup segir og þó hann gerði það skortir hann greind til að vinna úr málinu. Ríkisstjórnin hefur látið fleiri og jafnvel alvarlegri mál sitja á hakanum en þetta, hvort tveggja af heimsku og getuleysi.
Veldu þér dag ...
5.8.2012 | 17:53

Veldu þér dag en vandaðu valið. Hann verður að vera bjartur, helst síðdegissól eins og svo oft er í ágúst. Líttu yfir flóann. Það er góðs viti ef ekki eru ský yfir Snæfellsnesi. Þá eru meiri líkindi á að sólin setjist í heiði. Horfðu síðan í hina áttina. Líttu til Bláfjalla. Þar ber oftast mest á Vífilsfelli, fjallinu sem kennt er við þrælinn. Séu Bláfjöllin skýlaus og björt gríptu skóna og komdu þér af stað.
Gakktu á Vífilsfell. Ekki norðaustanmegin. Aktu þess í stað upp fyrir Sandskeið. Findu vegarslóða sem liggja í áttina að giljunum austan megin við fjallið. Þar er fyrirheitna landið. Þar get ég lofað þér undrum og stórmerkjum þegar kvöldsólin er sem björtust og varpar geislum sínum óhindrað yfir flóann, höfuðborgina, Heiðmörk og á Bláfjöll. Þau verða rauð.


Leggðu bílnum, gakktu yfir heiðina og að gilinu. Veldu gilið hægra megin og fetaðu þína öruggu leið upp. Ekki flýta þér. Láttu ekki hugann ana með líkamann í gönur. Þetta tekur vissulega á, þú svitnar og þreytist en það er öllum holt.
Gakktu svo í áttina að efri hluta Vífilsfells og þá heyrirðu sögurnar sem meðfylgjandi myndir segja. Mundu samt að birtan skiptir máli, hún gæði landið lífi.

Sjáðu til dæmis þessar myndir. Tvær efstu eru bjartar og fagrar en hinar hafa ekki sama töfra og ljóma þó vissulega sé landslagið eitt og hið sama, magnað og stórkostlegt.
Þannig gerast nú hlutirnir á landinu okkar. Og munum að oft þarf ekki að fara nema örskammt til að skoða það sem haldið getur manni hugföngnum tímunum saman.
Þannig er það með Vífilsfellið að suðvestanverðu.