Siðareglur borgarinnar brotnar

Ég er í vinnunni frá 9 til 5 og þegar ég kem heim þá er ég ekki kjörinn fulltrúi.“
 
Þetta sagði Einar Örn Benediktsson, borgarfulltrúi Besta flokksins og formaður menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkurborgar í viðtali við Morgunblaðið í byrjun júní á þessu ári. Kenndi nokkurn þótta í þessum orðum hans. Honum þótti fjölmiðlar óþarflega hnýsnir eftir að hann þáði ferð til Parísar á vegum WOW air.
 
Auðvitað gleymdi Einar Örn, viljandi eða óviljandi, þeirri einföldu staðreynd að til eru siðareglur fyrir borgarfulltrúa. Hann tók meira að segja sjálfur þátt í að samþykkja þær. Borgarstjórinn, Jón Kristinsson, sá ekkert að því að Einar léki þarna tveimur skjöldum af því að þeir eru vinir ...
 
Ef til vill hefðum við Reykvíkingar talið að málinu væri þar með lokið. Fjölmiðlar nenntu ekki að eltast við Einar eða Jón. Þó er ég viss um að hefði borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins orðið á sömu „mistök“ hefði verið pönkast í honum út yfir gröf og dauða og málið aldrei gleymt.
 
Svo gerist það núna fyrir stuttu, skv. dv.is, að Sverrir Bollason, varamaður Samfylkingarinnar í skipulags- og byggingasviði Reykjavíkurborgar, samþykkti í þessari nefnd að láta kanna þörf á gistirými í borginni fram til ársins 2030. Verkfræðistofan VSÓ-ráðgjöf var valin til þessa verks en Sverrir þessi er starfsmaður hennar.
 
Þetta heitir að sitja beggja vegna borðsins. Sverrir nánast pantaði að fá að vinna verkefnið, fékk það samþykkt í nefndinni og fékk síðan óbeint laun fyrir að vinna skýrsluna frá borginni. 
 
Nú geri ég fastlega ráð fyrir að stjórnendur VSÓ viti af pólitískum störfum Sverris Bollasonar. Með því að hleypa honum að skýrslugerð um gistirými er fyrirtækið komið á bólakaf í meinta pólitíska misbeitingum valds. Það gengur alls ekki og bendir eindregið til að þessu virðulega fyrirtæki hafi orðið á gríðarleg mistök. 
 
Um leið sýndi Sverrir Bollason af sér mikla pólitíska heimsku að halda það að hann gæti komist upp með að standa beggja vegna borðsins. Þegar hann hafði samþykkt verkefnið hefði hann átt að tilkynna yfirmönnum sínum að hann gæti ekki komið að verkefninu. Það gerði hann ekki. Né heldur höfðu yfirmenn hans skilning á stöðu fyrirtækisins gagnvart borginni og Samfylkingunni. Sá dómgreindarbrestur er yfirgengilegur.
 
Heimskuleg viðbrögð Einars Arnar Benediktssonar og skynsemisskortur Sverris Bollasonar sýna svo ekki verður um villtst að þeir eru ekki hæfir sem fulltrúar almennings í borgarstjórn og nefndum. Þeir eiga báðir að segja af sér. Svo má í góðu tómi kanna hvort að samflokksmenn þessara tveggja hafi ekki vitað af brotum þeirra á siðareglum borgarinnar en látið sér það í léttu rúmi liggja. 
 
Kjörnir fulltrúar hafa ávallt í heiðri grundvallarreglur góðrar stjórnsýslu í störfum sínum, þ.m.t. gagnsæja og upplýsta ákvarðanatöku, og framkvæma ekkert það sem er til þess fallið að vekja grunsemdir um að annað en lögmæt og málefnaleg sjónarmið ráði för við stjórn Reykjavíkurborgar. [úr 2. gr. siðareglna kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg]
 
Kjörnir fulltrúar nýta sér ekki stöðu sína í þágu einkahagsmuna sinna eða annarra sem eru þeim tengdir, hvort sem ávinningur af slíku kemur fram strax eða síðar, þ.m.t. eftir að störfum fyrir
Reykjavíkurborg lýkur. [úr 4. gr. siðareglna kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg]

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband